Illa undirbyggð umsókn um "Sambandsaðild"

Ég held að margir hafi gert sér grein fyrir því að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu árið 2009, var illa undirbúin og í raun gerð með flausturs- og flumbrugangi.

"Töfralausnin" reyndist tálsýn og gerði lítið annað en að kljúfa þjóðina á erfiðum tímum.

En hefði verið staldrað við, málið rætt við og á meðal almennings hefði niðurstaðan líklega orðið annað hvort af tvennu:  Hætt hefði verið aðildarumsóknina, eða að umsóknin hefði verið betur undirbyggði og notið stuðnings meirihluta kjósends (þeirra sem hefðu tekið þátt í þjóðaratkvæðinu).

En ríkisstjórn þess tíma hlustaði ekki á þess háttar rök. Jafnvel þeir sem voru á móti aðild felldu að efnt yrði til þjóðaratkvæðis.  Það væri fróðlegt að heyra rök færð fyrir slíku, en ég á ekki von á að heyra slíkt.

En svo snerist afstaðan til þjóðaratkvæðis hjá mörgum sem felldu slíkt árið 2009, þegar sótt var um aðild, þegar draga átti aðildarumsóknina til baka.

Þá töldu þeir nauðsyn á þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þeir virtust telja það mikið stærra mál að draga umsóknina til baka, heldur en að leggja hana inn.

Þá var umsóknin í raun steytt á skeri, enda treysti ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu til að halda aðlögunarviðræðunum áfram í ársbyrjun 2013.

Ekki hafði tekist að opna kafla um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál og Steingrímur raunar farið sneypuför til Brussel og verið neitað um rýniskýrslu "Sambandsins" um sjávarútvegsmál.

En það er óskandi að lærdómur verði dregin af málinu.

Ég er enn þeirrar skoðunar að Ísland eigi ekkert erindi í Evrópusambandið, en ef svo fer að einhverntíma í framtíðinni verði ákveðið að sækja aftur um "Sambandsaðild", þá verði í það minnsta kosti betur staðið að undirbúningi en var árið 2009.

Lágmark er að um málið ríki góð sátt innan ríkisstjórnar, en það er líka æskilegt að  málið njóti óvengjanlega stuðning meirihluta kjósenda.


mbl.is Hefðu átt að halda þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er í lagi að vera nazisti?

Ég er að sjá hér og þar á netinu að all nokkur kurr ríki vegna spjallþáttar þar sem talað er við eftir því sem ég kemst næst, Íslenskan nazista.

Það er ekki að undra að slíkt vekji athygli og kemur mér ekki á óvart að margir telji að slíkt efni eigi alls ekki erindi í sjónvarp, eða nokkurn annan fjölmiðil.

Aðrir segja að við þurfum að vera reiðubúin að ræða allt.

Persónulega fell ég í síðari flokkinn.  Ég held að að sé þjóðfélaginu hollt að ræða alla hluti, ef áhugi er fyrir hendi, og nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að það eru til einstaklingar með alls kyns skoðanir, jafnvel nazistar.

Já, líka á "littla" Íslandi.

Að því sögðu, þá hlýtur viðkomandi einstaklingur að þurfa að standa fyrir orðum sínum, ef til dæmis þau brjóta í bága við lög.  Það er engin ástæða til þess að gefa afslátt af slíku.

En það er líka hollt að velta því fyrir sér hvað er "leyfilegt"?  Hvað er umborið og hvað ekki?

Ég held til dæmis að fáir séu fyljgandi nazisma og séu gjarnir á að fyrirlíta einstaklinga með slíkar skoðanir.  Það er ekkert óeðlilegt við það.

En hvar eru mörkin?

Er til dæmis ásættanlegt að vera aðdáandi Mussolinis? Að telja Franco eitt af mikilmennum sögunnar? 

Hvað um Salazar, sem lengi ríkti í Portugal? 

Hvað um Ho Chi Minh, Pol Pot og Rauðu khmerana?  Er í lagi að dýrka Lenín og Stalín?

Ég man ekki betur en fyrir fáum árum hafi Íslenskur stjórnmálamaður sagst nota nafnið Lenín sem "heiðursnafnbót" eða eitthvað í þá veruna um starfsfélaga sinn.

Víða þykir það ekki góð "latína" í dag ef einhver segist vera stuðningsmaður Trump.  Hjá sumum sem ekki þola DJ Trump, voru Chavez og Maduro lofsungnir á síðasta áratug.

Er hakakrossinn, það "gamla og góða" indoevrópska tákn verra og hættulegra heldur en hamar og sigð?

Ætti að banna þau bæði? 

Hvaða fleiri tákn ætti að banna?

Eða höfum við trú á því að boð og bönn virki í þessum efnum?

Perónulega hef ég ekki trú á boðum og bönnum í þessum efnum. Mér sýnist heldur ekki að þau lönd sem hafa bannað einhverjar stjórnmálaskoðanir hafi náð árangri, í þeim efnum, til lengri tíma.

Þó að víða sé bannað að halda því fram að Helförin hafi aldrei átt sér stað, er sú bábilja svo lífseig að undrum sætir.

Enda væri það firra að ætla að líta yfir "sviðið" og segja, hér eru engir gyðingahatarar, engir nazistar, engir sem fyrirlíta múslima, engir hommafóbískir, engir kommúnistar, við erum búin að banna það.

Það hefur reyndar verið býsna algengt að heyra t.d. að í löndum sem hafa viðurlög gegn samkynhneigð, fullyrðingar í þá átt að þar séu einfaldlega engir samkynhneigðir.

Líklega þá vegna þess að þeir eru annaðhvort í fangelsi eða þora ekki að stíga fram. 

Ekki voru heldur margir sem aðhylltust "vestrænt frelsi" eða kapítalisma í Sovétinu, eða var það?

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að þola að heyra þessar skoðanir, hversu ógeðfelldar okkur kann að þykja þær.

Berjumst á móti þeim, rökkum þær niður, hæðumst að þeim o.s.frv. En gerum það kurteislega og notum rök og sögulegar staðreyndir.

Krafan um að heyra ekkert eða sjá, sem fer út fyrir einhvern illa skilgreindan "ramma" er ekki bara skringileg, heldur getur beinlínis orðið hættuleg.

Í þessu tilfelli er engin ástæða (að mínu mati) til að fagna fjölbreytileikanum, en við eigum að umbera hann og ræða. 

En við getum verið á móti þeim skoðunum sem koma fram, það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt.

 

 

 

 


"The Rock" og glerhúsið

Eitt af þeim málum sem upp komi í "Brexit" samningi á milli Breta og "Sambandsins" var Gíbraltar, eða "The Rock" eins og landsvæðið er stundum kallað.

Jafnvel var talað um að þetta væri eitt af þeim atriðum sem hefðu valdið vandræðum, vegna krafna Spánverja um neitunarvald er Gíbraltar áhrærði.

Og í raun sér alls ekki fyrir endan á þessari deilu.

En eitthvað tókst að lempa Spánverja og samningar tókust, þó að ólíklegt að sé að hann komi til framkvæmda óbreyttur, en það er önnur saga.

En þó að ekki sé hægt að lá Spánverjum að reyna að fá yfirráð yfir Gíbraltar, er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að kröfur þeirra séu nokkuð líkar steinum kastað úr glerhúsi, því ef einhver þjóð ætti að hafa skilning á stöðu Gíbraltar ættu það að vera Spánverjar.

Bæði er það svo að íbúar Gíbraltar hafa í tvígang (1967 og 2002) ítrekað í þjóðaratkvæðagreiðslu að þeir vilji tilheyra Bretlandi. Spánverjar virðast að vísu ekki hafa mikla "þolinmæði" fyrir "þjóðaratkvæðagreiðslum", en það er í sjálfu sér sérstakt rannsóknarefni.

En það sem ætti hins ekki síst að auka skilning Spánverja á málinu, er staða þeirra sjálfra gagnvart afmörkuðum landsvæðum í Afríku.

Þar eru landsvæði eins og Melilla, Ceuta, og það sem Spánverjar kalla "Plazas de soberan".

Um þessi svæði hafa Spánverjar átt í deilum við Marókkó, en telja að þessi svæði séu "óaðskiljanleg frá Spáni", enda ná yfirráð þeirra yfir svæðunum jafnvel lengur en yfirráð þeirra yfir ákveðnum landssvæðum á meginlandinu ef ég hef skilið rétt.

Sjálfsagt telja þeir það einnig slæmt fordæmi, ef samþykkt yrði að skilja einhver landsvæði frá Spáni, sem er heitt deiluefni á meginlandinu, hvað varðar Katalóníu.

Það er einmitt stutt í réttarhöld yfir þeim sem höfðu sig hvað mest í frammi í þeirri sjálfstæðisbaráttu.

Það mál er reyndar enn eitt málið sem stór partur af "stjórnmálastéttinni" í "Sambandinu" og reyndar megnið af veröldinni kýs að láta eins og sé ekki til.

En ég vona svo sannarlega að vilji íbúa Gíbraltar verði virtur og þeir fái að tilheyra Bretlandi.

 

 

 

 

 


3ji orkupakkinn

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki getað myndað mér skoðun á 3ja orkupakkanum. Ekki einu sinni krakkafréttir hafa getað hjálpað mér í þeim efnum.

Ég hef ekki fundið orku eða tíma til þess að að kafa ofan í "pakkann", en hef vissulega séð margt athyglisvert skrifað um "pakkann, m.a. hér á blogginu.

En ég hef séð athyglisverð skrif bæði með og á móti, skrifuð af einstaklingum sem ég alla jafna tel ekki fara með vitleysu og ég tek mark á.

Mér hefur jafnvel þótt hinir hefðbundnu fylkingar "Sambandssinna" og "Sambandskeptíkera" hafa að einhverju marki riðlast í þessari umfjöllun.

En það hefur eitt og annað vakið athygli mína.

Margir fulltrúar þeirra flokka sem fullyrtu fyrir fáum misserum, að það maætti eiginlega semja við "Sambandið" um næstum hvað sem er, undanþágur frá þessu og hinu, telja nú að EEA/EES samningurinn sé hreinlega undir. 

Nú virðist engin eiga von á því að hægt sé að fá undanþágu, í sömu andrá er sagt að þessi "pakki" skipti nákvæmlega engu máli.

"Sambandið" virðist leggja gríðarlega áherslu á að einhver "pakki" sem skiptir engu máli, taki gildi á Íslandi.

Svo er sagt að "pakkinn" skipti engu máli nema að lagður verði sæstrengur. Ættu Íslendingar þá að samþykkja "pakkann" með það að leiðarljósi að aldrei verði lagður strengur?

En er ekki líklegt að strengur dúkki aftur upp, þó að það kunni að verða einhverjir áratugir þangað til hann yrði að veruleika? 

Og hvað þá?

Eða er strengur úr sögunni vegna framfara í orkuöflun? Myndi einhver þora að spá fyrir um slíkt? 

Þetta er einmitt gallinn við samninga eins og EEA/EES, að það er enginn leið til þess að vita hvar hann endar.

Engin sá líklega fyrir umræðu um 3ja orkupakkann, þegar samningurinn var undirritaður á 10. áratugnum og talað var um að Íslendingar hefðu fengið allt fyrir ekkert.

Ég man ekki betur heldur en að þá hafi það verið talið nokkuð öruggt að innflutningur á "hráu kjöti" væri ekki í spilunum.

En ég væri þakklátur ef ég fengi ábendingar um hvar er að finna bestu umfjöllunina um 3ja orkupakkann.

Gjarna í stuttu en hnitmiðuðu máli, þá að það þurfi ekki að vera "krakkafréttir".


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband