Færsluflokkur: Kvikmyndir

Eurovision: The Story Of Fire Saga

Ég hvorki er né hef verið mikill aðdáandi Eurovision söngvakeppninnar. Þaðan hafa þó komið einstaka ágætis lög í gegnum tíðina.

En flestir Íslendingar hafa líklega heyrt um Eurovision myndina sem er í vinnslu og var að hluta til tekin upp á Íslandi, aðallega í kringum Húsavík. Myndin heitir "Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga.

Skartar engum öðrum en Will Farell í aðalhlutverki.

Nú er fyrsta tónlistarmyndbandið úr myndinni komið út, lagið "Volcano Man". (Myndbandið hér að neðan). Ég ætla að mestu að sleppa því að segja hvað mér finnst um lagið, en við fyrstu hlustun leitaði hugurinn frekar til Evrópskrar en Íslenskrar tónlistar og svo örlítið í austurátt.

En myndin verður frumsýnd á Netflix þann 26. júní næstkomandi.  Það er annar föstudagur á eftir fyrirhugaðri opnun landamæra Íslands.

Ég held að það verði að finna einhverja skemmtilega leið til að nota frumsýninguna til kynningar á Íslenskri ferðaþjónustu.

Húsvíkingar ættu alla vegna ekki að láta tækifærið fram hjá sér fara.

Svo er bara að krossleggja fingurna og vona að myndin sé góð og njóti vinsælda.

 

 

 Hér að neðan má svo sjá viðtal sem var tekið við Will Farrell vegna myndarinnar í febrúar síðastliðnum.

 

 

 

 

 


Merkileg saga Winnipeg Falcons

Saga The Winnipeg Falcons er margslungin og ótrúlega heillandi.  Það eru á henni ótal fletir og ég hugsa að hægt væri að gera margar kvikmyndir eða langa sjónvarpsseríu um sögu þeirra.

Margir Kanadabúar (flestir af Íslenskum ættum) hafa lagt á sig mikla vinnu til að tryggja að saga "Fálkanna" gleymist ekki.

Hér má finna vefsíðu tileinkaða þeim, og má finna stutt æviágrip leikmanna tekin úr Minningabók Íslenskra hermanna.

Flestir leikmanna (að ég held að einum undanskildum) voru af Íslenskum ættum, en fæddir í Kanada.  Þjálfari liðsins var þó fæddur á Íslandi og sneri þangað aftur síðar, en hafði dvalið í Svíþjóð í millitíðinni.

Hann hét Guðmundur Sigurjónsson, og má lesa um glæsilega en jafnframt sorglega sögu hana á vefnum samkynhneigð.is Sannarlega stórmerkileg saga.

Hér fyrir neðan má sjá stutt myndskeið um gerð "Sögumínútu" um "Fálkana" sem Kanadíska ríkissjónvarpið gerði. Sjálf sögumínútan er svo í endann.

 

Hér er svo þáttur úr sjónvarpsseríu með heitinu "Legends Of Hockey".  Í fyrsta þætti er m.a. fjallað um Frank Fredrickson, og hefst sú umfjöllun á u.þ.b. 41:18 mínútu.  Virkilega fróðleg frásögn.

 

 

 

Óska að lokum Snorra og Pegasus velfernaðar við að koma þessari merkilegu sögu á hvíta tjaldið, en þangað á hún sannarlega erindi.

P.S. Ég veit um tvær bækur sem hafa verið skrifaðar um "Fálkana", "When Falcons Fly" og "Long Shot: How the Winnipeg Falcons wone the first Olympic hockey gold."

 


mbl.is Kvikmynd um Fálkana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Síðasta veiðiferðin", eða "nýjasta áfengisauglýsingin"?

Ég fékk þessa ábendingu frá kunningja mínum, enda mér ekki boðið á frumsýningu nýjustu Íslensku kvikmyndarinnar.

Síðasta veiðiferðinEn nýjasta Íslenska kvikmyndin ku heita "Síðasta veiðiferðin". "Auglýsingaplakat" hennar má sjá hér í færslunni.

Ég vil hvetja alla til að sjá hana, því mér er sagt að hún sé góð og meinfyndin.  Það er alltaf eitthvað sem ég kann að meta.

Það eru aldrei of margar gamanmyndir að mínu mati.

En það sem vakti athygli mína við "plakatið" (hvað er nú aftur Íslenska orðið yfir slíkt), er hin skammlausa áfengisauglýsing sem þar er á ferðinni.

Fjöldi vörumerkja bæði bjór og áfengistegunda vel sjáanlegur, í bland við ýmsa af bestu Íslensku leikurum.

Ekkert út á það að setja, nema auðvitað að áfengisauglýsingar í eru bannaðar í Íslenskum fjölmiðlum og á Íslandi. (Ef til vill ætti ég að taka það fram að ég skrifa þessa færslu í landi þar sem áfengisauglýsingar eru löglegar).

Hvers vegna?

Á hverjum degi sjá Íslendingar áfengisauglýsingar í erlendum fjölmiðlum, og oft á tíðum í Íslenskum, jafnvel Ríkissjónvarpinu sjálfu í beinum útsendingum.

Það er í lagi?

Ríkissjónvarpið sjálft getur birt auglýsingar fyrir áfengisframleiðendur og veðmálafyrirtæki, svo lengi sem þeir hafa keypt auglýsingaþjónustuna í þeim löndum sem það er löglegt.

Ríkissjónvarpið sýnir áfengisvörumerki í sinni útsendingu, en aðeins ef framleiðendur hafa borgað erlendum aðilum til að setja vöru þeirra eða vörumerki í kvikmynd eða sjónvarpsþátt.

Mun "Sjónvarpið" sýna "Síðustu veiðiferðina", þrátt fyrir að líklega sé áfengi auglýst þar? (Ég hef ekki séð myndina, þannig að ég vil ekki fullyrða).

Er ekki tími til kominn að stíga inn í nútímann, jafna aðstöðu og rétt innlendra framleiðenda gagnvart erlendum, jafna rétt og tekjumöguleika innlendra fjölmiðla gagnvart erlendum og hætta "2.25%", eða "léttöl" feluleiknum"?

Leyfum áfengisauglýsingar í Íslenskum fjölmiðlum, það er sanngirnisatriði.

 

 

 

 


"Ræða" kvöldsins á Bafta verðlaununum

Aldrei nenni ég að horfa á verðlaunahátíðir eða annað því um líkt.  Það kveikir einfaldlega ekki áhugann.  En ég hef alltaf gaman af því að sjá skemmtileg brot frá slíkum atburðum, hér er frábær ræða frá Rebel Wilson á Bafta hátíðinni.


mbl.is Hildur vann BAFTA-verðlaunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar stórt er spurt: Geta "vondir" einstaklingar skapað "góða" list?

Enn og aftur er Polanski í miðju deilu sem þó nær yfir mun stærra svið.

Geta "vondir" einstaklingar skapað "góða" list?

Nú er auðvitað umdeilanlegt hvað er góð list og allt það, og stundum má efast um sekt viðkomandi einstaklinga, en það er þó varla í tilfelli Polanski´s.

En hvers vegna hefur hið hámenningarlega og lýðræðislega Frakkland neitað að framselja hann?  Er það vegna þess að einhver önnur lögmál gilda um listamenn en aðra "dauðlega" einstaklinga? Er það ef til vill vegna þess að í Frakklandi þess tíma þótti "framferði" Polanskis nokkuð sjálfsagt mál?

Ekki veit ég svarið við því.

Er Bíó Paradís sem sýnir nýjust mynd Polanski´s að leggja blessun sýna yfir að "nauðgari" gangi laus?  Er bíóið að kynda undir einhverri "nauðgunarmenningu"?

Ekki veit ég svarið við því.

Er Reykjavíkurborg, sem styrkir Bíó Paradís, að leggja blessun sína yfir það að kvikmyndir "nauðgara" séu sýndar (og þá niðurgreiddar af Reykjavíkurborg) í Reykjavík?

Ekki veit ég svarið við því.

Eru leigusalar Bío Paradísar samábyrgir fyrir því að verið sé að sýna myndir "nauðgara" í húsakynnum í þeirra eigu? (Varð eiginlega að koma þessu að vegna fréttanna undanfarna daga).

Ekki veit ég svarið við því.

Er mögulegt að skilja á milli höfunda og verka þeirra eða ekki?

Um það hefur oft verið deilt undanfarin ár.

Það nægir að nefna nöfn eins og Woody Allen, Michael Jackson, Kevin Spacey, Bill Cosby og já Roman Polanski.

Þó er munurinn sá að af þessum einstaklingum hafa aðeins Bill Cosby og Roman Polanski verið sakfelldir, alla vegna eins langt og minni mitt nær.

En ég viðurkenni fúslega að hafa notið "listaverka" sem þessir einstaklingar hafa komið nálægt, jafnvel eftir að viðkomandi hafa verið sakfelldir.

En listamenn hafa einnig legið undir ámæli fyrir pólítískar skoðanir sínar eða "daður" í "óæskilegar" áttir.

Norðmenn hafa til dæmis átt í "erfiðu" sambandi við Hamsun, eftir "samgang" hans við nazista. 

Íslendingar þekkja einnig umræðuna um Gunnar Gunnarsson og Guðmund Kamban. 

Halldór Laxness "lofsaung" kommúnista og hylmdi yfir voðaverkum þeirra. Ættu Íslendingar að taka það með í reikninginn þegar þeir meta skáldverk hans?

Persónulega held ég að hver og einn verði að ákveða allt þetta fyrir sig.

Ég setti inn hér að ofan "ég veit ekki svarið við því", vegna þess að ég tel ekkert eitt svar rétt.

Hér gildir ákvörðun hvers og eins.

Ég hef aldrei átt erfitt með að skilja á milli pólítískra skoðana eða gjörða og "afurða" listamanna.

Ég hef notið mynda Woody Allen, þrátt fyrir ásakanir á hendur honum, ég hef horft á myndir Polanskis þó að ég viti af sekt hans.

Ég les bækur Hallgríms Helgasonar, þrátt fyrir að gefa minna en ekkert fyrir pólítískar skoðanir hans, það truflar mig ekkert við að lesa bækur Einars Kárasonar að hann hafi verið í framboði fyrir Samfylkinguna, og Einar Már Guðmundsson er minn uppáhalds rithöfundur þó að pólítískar skoðanir hans falli ekki að mínum.

Ef svo bæri undir gæti ég alveg hugsað mér að lesa skáldsögu eftir  morðingja.

Og ég veit að Halldór Laxness er í uppáhaldi hjá mörgum þó að þeir telji hann eiga skilið skömm í hattinn fyrir að hafa hylmt yfir voðaverkum kommúnista.

Kastar "pedófílískur" boðskapur leiðtoga vinstrisinnaðra hreyfinga í kringum 1970 og seinna græningja, skugga á þær hreyfingar, eða gerir það að verkum að leiða ætti hjá sér allan boðskap þeirra?

Auðvitað ekki, alla vegna ekki af þeim ástæðum.

En fer best á, eins og í mörgum tilfellum best á að hver ákveði fyrir sig. Sumir ákveða að sniðganga mynd Polanskis, aðrir ganga lengra og sniðganga Bíó Paradís fyrir að veita henni brautargengi.

Aðrir njóta hennar og annara listaverka, burtséð frá öðrum (mis)gjörðum listamannanna.

Ef til vill er best að enda þetta á "c´est la vie".

 


mbl.is Reiði vegna 12 tilnefninga J'accuse
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fallinn er frá snillingur

Þeir verða ekki yngri, frekar en við hin, en það er sjónarviptir að Terry Jones, og Monty Python meðlimanna allra, sumir á lífi, aðrir eins og Terry gengnir á vit feðranna.

En þeir eiga svo marga "sketsa", og svo margar góðar "línur" að það er engu líkt.

Horfið á síðustu klippuna í fréttinni sem þessi færsla er hengd við.

Slík snilld er ekki á hvers manns færi og því miður ekki algeng.

Enda hefur setningin:  "He is not the Messiah, he is a very naughty boy", oft verið kosinn fyndnasta setning kvikmyndasögunnar.  En vissulega er smekkurinn misjafn eins og mennirnir eru margir.

En kvikmyndin "Life Of Brian", sem Terry Jones leikstýrði, er að mínu mati ein af bestu kvikmyndum sögunnar. Líklega sú mynd sem ég hef oftast horft á.

Það var ekki tilviljun að myndin var meðal annars auglýst, sem "So funny, it was banned in Norway".

Það verður hlegið af verkum Terry Jones, svo lengi sem lönd eru í byggð.

 

 

 

 

 


mbl.is Terry Jones látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo fyndin að hún var bönnuð í Noregi

Af því að í dag er föstudagurinn langi (eða sá góði á Enskunni), og jafnframt verða seinna á þessu ári liðin 40 ár frá því að kvikmyndin "Life of Brian" var frumsýnd er ekki úr vegi að sýna hér eitt besta atriðið úr myndinni.  Það jafnframt er eitt af allra bestu lögum Eric Idle, ég er auðvitað að tala um "Always Look At The Bright Side of Life".

 

En það er líka þarft að velta því fyrir sér hvaða móttökur hún hlaut fyrir 40 árum og hvort mikið hafi breyst,eða hvort að hún yrði yfirleitt framleidd í dag, nú eða sýnd.

Stórfyrirtæki eins og EMI treysti sér ekki til að fjármagna verkið, og ef ekki hefði verið fyrir tilstilli Georgs Harrison, bítilsins geðþekka, er óvíst að myndin hefði verið framleidd, þvi ekkert af "stóru" kvikmyndaverunum treysti sér til að koma að gerð hennar.

Það var mótmælt fyrir utan kvikmyndahús í Bandaríkjunum og hún var bönnuð í hlutum af Bretlandi og alfarið í Noregi.  Það tengist einmitt fyrirsögninni, en þannig var "Life Of Brian" auglýst í Svíþjóð:  Svo fyndin að hún var bönnuð í Noregi.

Persónulega er þetta ein af mínum uppáhaldsmyndum og líklega sú sem ég hef oftast horft á.  Því hún er ennþá fersk.

Ég held að hún sé mjög "hollt áhorf" og á erindi til allra.

Oft þegar ég les eða sé einhvern "sármóðgaðan" einstakling hugsa ég til Python.

 

 

 

 

 


Kynlegar kvikmyndir

I fjölmiðlum hefur undanfarna daga mátt lesa ákall ýmissa frammámanna um kynjakvóta hvað varðar úthlutun hjá Kvikmyndasjóði Íslands (ég vona að þetta sé rétt nafn).

Vissulega hljómar þetta nokkuð göfugmannlega, og er látið líta út eins og spor í átt til jafnréttis, og komandi frá "stútungsköllum", er varla vogandi að andmæla þessu.

En krafa um kynjakvóta vekur þó vissulega upp ýmsar spurningar.

Það er vissulega möguleiki að ég hafi eitthvað miskilið tilganginn með Kvikmyndasjóði (ég á stundum nokkuð erfitt með að skilja tilgang ýmissa opinberra styrktarsjóða), en ég hef staðið í þeirri meiningu að honum væri ætlað að styðja við vænlegar (til vinsælda) Íslenskar kvikmyndir, og jafnvel myndir sem styrktu á beinan eða óbeinan hátt, Íslenska menningu.

Vissulega eru slík markmið óviss og teigjanleg, og lengi má deila um hvaða leið sé best að þeim.

En eru þeir sem kalla á eftir kynjakvóta að segja að slík markmið hafi verið hundsuð, vegna þess að hallað hefur á konur í úthlutunum?

Hafa "síðri myndir" orðið fyrir valinu, til þess að koma körlum að?

Hefur "Sjóðurinn" ekki staðið sig sem skyldi þegar styrkþegar hafa verið valdir, og eitthvert annað sjónarmið en "kvikmyndalegt" verið haft að leiðarljósi?

Eða er hlutverk Kvikmyndasjóðs eitthað allt annað en að styrkja "vænlegar kvikmyndir"?

P.S. Mega Íslendingar vænta þess að "kynjakvóti" verði settur á forlög í bókaútgáfu og gallerí sem sýna myndlist?

P.S.S. Hefur einhver skoðað hlutfall kynjanna sem umsækjenda um styrki frá Kvikmyndasjóði, og hvert ef til vill sé fylgni á milli umsókna og styrkveitinga, frá "kynlegu" sjónarmiði?

 

 

 


Hvað skyldi þurfa marga í að fylgjast með sjónvarpsdagskrám?

Þetta er ágætis dæmi um á hvaða leið "eftirlitssamfélagið" er. Ég velti því fyrir mér hvað margir skyldu vinna við að að horfa á allt sjónvarpsefni sem sýnt er á Íslandi?

Því varla byggir virðuleg nefnd eins og fjölmiðlanefnd úrskurði sína og aðfinnslur eftir sögusögnum? Það hljóta einhverjar að fylgjast með.

Því t.d. kvikmyndaheimurinn er með þeim ósköpum gerðum að oft eru til margar mismundandi "útgáfur" af sömu kvikmyndinni.

Þær eru klipptar "sundur og saman", einmitt til að þóknast mismundandi markaðssvæðum. Svo koma til sögunnar "leikstjóra klippingar" og annað því um líkt.

Jafnvel hafa sumar kvikmyndir verið boðnar í svokölluðum "uncut" útgáfum.

Það hlýtur því að vera ærinn starfi að fylgjast með því sem er í boði á sífjölgandi sjónvarpsrásum.

Hvort að fjölmiðlanefnd hafi svo í huga að gera eitthvað í þeim sívaxandi fjölda kvikmynda á erlendum rásum, sem ná má á Íslandi, hlýtur að vera áleitin spurning.

En það er augljóst að það þarf að gera eitthvað við síbrotaaðila eins og RUV.

Ég legg til að sem fyrsta refsing, þá verði stofnunin svipt útsendarleyfi á fimmtudögum. Láti hún sér ekki segjast, væri hægt að taka af henni starfsleyfi í júlí á hverju ári, uns hún hefur sýnt brotalausa starfsemi í 3. ár.

Ef það dugar ekki, væri reynandi að skylda hana til að senda aðeins út í svart/hvítu.

 

 


mbl.is Stefnir í annað brot hjá RÚV?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Those Who Dare - Heimildamynd um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna og þátt Jóns Baldvins

Mér barst til eyrna í dag að nú sé tilbúin heimildamynd, nefnd "Those Who Dare"  (Þeir sem þora,???,  ég veit ekki hvort það er Íslenska heitið).  Myndin fjallar um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltríkjanna og þátttöku Jóns Baldvins Hannibalssonar í þeirri baráttu.

Myndin mun framleidd af Íslendingi, Ólafi Rögnvaldssyni en meðframleiðendur koma frá Eistlandi, Lettlandi og Litháen.

Myndin hefur fengið lofsamlegar umsagnir í mín eyru, en hún mun að mestu leyti vera sögð frá sjónarhóli Jóns Baldvins.

Þar sem málið vakti áhuga minn, fór ég strax að leita að frekari upplýsingum, en fann takmarkað.  Þó fann ég stiklur á Vimeo og einhver brot hér og þar, en hef þó ekki haft mikinn tíma til leitarinnar, en heimasíða framleiðenda veitti takmarkaðar upplýsingar. 

Því er ég að velta fyrir mér hvort að einhver þekkir til þessarar myndar og hvar og hvernig hún hefur verið sýnd.

Og ekki væri verra ef einhver vissi hvort og hvernig er hægt að nálgast hana.

Væri þakklátur fyrir frekari upplýsingar, hér í athugasemdum, eða tölvupósti:  tommigunnars@hotmail.com

Those Who Dare from olafur rognvaldsson on Vimeo.

Those Who Dare - 2 from olafur rognvaldsson on Vimeo.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband