Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2019

Það sem hefði átt að gerast fyrir þremur árum

Að ýmsu leyti má segja að það sem er að gerast í Bretlandi þessa dagana, sé það sem hefði átt að gerast fyrir þremur árum.

Þegar Breskir kjósendur kusu í þjóðaratkvæðagreiðslu að yfirgefa "Sambandið", hefðu "Sambandssinnar" átt að stíga til hliðar (rétt eins og Cameron gerði) og láta "Brexitsinnum" eftir stjórnvölinn.

Það hefði verið eðlilegt miðað við niðurstöður þjóðaratkvæðgreiðslunnar. Þeir "Sambandssinnar" sem höfðu verið við völd (og tókst að halda þeim) höfðu ekki reiknað með því að tapa kosningunum, og höfðu því enga áætlun um hvernig skyldi halda áfram, en vildu samt halda völdunum og stjórna því hvernig "Brexit" yrði framkvæmt.

Það tókst engan veginn eins og við öll vitum nú.

Þrjú ár nýttust í raun til einskis, Bretar enduðu með samning sem var "win/win" fyrir "Sambandið". "Brexit" var ekki ætlað til þess að vera áfram í tollabandalagi við "Sambandið" um ófyrirsjáanlegan tíma

Og Íslendingar ættu að þekkja að engin samningur getur verið betri en slæmur samningur, ekki taka samningnum gerða af þeim, "sem nenna ekki að hafa þetta hangandi yfir sér".  Og ekki taka mark á stjórnmálamönnum, sem lofa "glæsilega niðurstöðu".

En miklum tíma var sóað, en skammur er eftir.

Líklega hefur spennan fyrir Halloween sjaldan verið meiri en í ár, og ekki eingöngu hjá börnum.

En nú þegar tæpir 100 dagar eru til stefn, er ljóst að verkefnið er erfitt og líkur á samningslausu "Brexit" aukast.

En hin nýja Breska ríkisstjórn fer hratt og vel af stað, en hvort að henni takist að klára verkefnið með sóma, á enn eftir að koma í ljós.

Þetta eru vissulega áhugaverðir tímar.

 


mbl.is Reikna með samningslausu Brexit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er engin ástæða til að slá af kröfum vegna þess að "það er á netinu", en það er vissulega ástæða til að skoða hvort kröfurnar eru of miklar

Það er mikið rætt um "Uber" og leigubíla og hvort að of mikið sé reynt til að sporna gengn "tækninýjungum" eins og "Uber". Það mátti t.d. lesa frétt um það á Vísi í dag.

Það er full ástæða til þess að skoða hvort að kröfur til þess að mega keyra og reka leigubíl séu og miklar og strangar, en það kemur að mínu mati "Uber", eða sambærilegum þjónustum ekkert við.

Það að eitthvað "sé krúttlegt og og netinu", styðji "deilihagkerfið" eður ei, kemur málinu ekki við.

Það eiga sömu reglur að gilda fyrir alla.

Ef ekki þykir ástæða til þess að leigubílstjórar séu með meirapróf á að fella þó kröfu niður, ef ekki þykir ástæða til þess að þeir sem flytji fólk gegn gjaldi hafi meiri tryggingar en aðrir, á sú krafa ekki að vera til staðar.

Ef það er í lagi að reka þjónustu sambærilega við "Uber", á þá ekki að leyfa hverjum og einum að slengja "Taxi" segli á bílinn sinn og keyra þegar honum hentar? Það þurfi eingöngu að skrá sig hjá þar til gerðum yfirvöldum, t.d. á netinu?

Hver er munurinn?

Það er sjálfsagt að slaka á reglum, en að hlýtur eigi að síður að eiga að gilda fyrir alla.

Svo má velta fyrir sér "eignarrétti" leigubílstjóra á "kvóta".  Margir þeirra hafa keypt leyfi, útgefin af ríkinu á háu verði.

Eiga þeir rétt á skaðabótum, ef "kvótinn" er afnuminn?

Það er ekki óeðlilegt að því sé velt upp.

 


Óumflýjanleg niðurstaða

Ég held að það hafi verið augljóst og óumflýjanlegt að Boris Johnson yrði næsti leiðtogi Breska Íhaldsflokksins og þar með næsti forsætisráðherra Breta.

Það á auðvitað eftir að koma í ljós hvernig honum kemur til með að ganga í embættti, en engin annar af þeim sem voru í framboði áttu (að mínu mati) möguleika á því að sameina flokksmenn að baki sér, sem og stóran hluta Breta, og svo auðvitað að standa við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Og Boris Johnson á góða möguleika á þessu öllu, en það er langt frá því gefið að honum takist það.

Það eru margir reiðubúnir til að leggja honum hjálparhönd, en ekki síður fjölmennur hópur sem óskar fás heitar en að honum mistakist og gefist upp.

Þar fer fyrir sjálft "Sambandið", mýmargir "Sambandssinnar" og svo stuðningmenn Verkamannaflokksins (þó að dágóður hluti þeirra sé fylgjandi Brexit), stuðningsmenn Skoska þjóðarflokksins og svo má lengi telja.

En það verður fróðlegt að fylgjast með hvað gerist í Breskum stjórnmálum á næstu mánuðum.  Það er ekki ólíklegt að Johnson verði að boða til kosninga fyrr en áætlað er.

Það er áhætta, en kann að verða nauðsynlegt.

Gæti verið klókt á meðan Verkamannaflokkurinn er ennþá í lamasessi og nýr leiðtogi Frjálslyndra demókrata er enn nær algerlega óþekkt.

Það kæmi þá líka í ljós hvort að Nigel Farage og Brexit flokkurinn yrði til þess að koma Corbyn í stól forsætisráðherra, eða hvort að eitthvað samkomulag yrði gert á milli Íhalds- og Brexit flokkins, en orðrómur þess efnis hefur reglulega flogið fyrir undanfarna mánuði.

En það væri vissulega einig hættuspil fyrir Íhaldsflokkinn.

En það verður hart barist gegn Johnson, við höfum fengið forsmekkinn af því í baráttunni um leiðtogaembættið.

En það er nokkuð ljóst að það er engin lognmolla framundan.

 


mbl.is Boris Johnson næsti forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópusambandið í boði BMW, Microsoft og Coca Cola

Eitt af því sem Evrópusambandið gerir svo vel, eru "ferðasirkusar", mánaðarlega (í fjóra daga ef ég man rétt) þarf að flytja Evrópusambandsþingið frá Brussel til Strassborgar (milljarðarkostnaður ári), og svo flyst "forsætið" í ráðherraráðinu á milli ríkja á  á sex mánaða fresti.  Það er í sjálfu sér ágætis regla, en hvers vegna það þýðir að svo margir fundir verða að fara fram í heimalandi "forsætisins", er vissulega spurning.

En það þýðir að allir mikilvægir einstaklingar innan sambandsins þurfa að ferðast heil ósköp (sem þeim leiðist ekki, en hver skyldi kostnaðurinn, dagpeningarnir og kolefnisporið vera af því) og af því hlýst að sjálfsögðu gríðarlegur kostnaður, ekki síst fyrir það land sem hefur "forsætið" í það og það skiptið.

Slíkur kostnaður er þungur í skauti fyrir smærri og fátækari löndin innan "Sambandsins", þannig er t.d. talað um að 27.000 erlendir gestir hafi komið til Eistlands á meðan á þeirra "forsæti" stóð, en heildarkostnaður Eistlandsj t.d. við að hafa "forsætið" var líklega rétt tæpir  10. milljarðar íslenskra króna, og hafa þau því leitað til stórfyrirtækja til að létta undir.

 

Lýðræðið fer vissulega undarlega stíga á stundum innan "Sambandsins", en líklega hafa ekki margir gert sér grein fyrir því að það sé að hluta kostað af alþjóðlegum stórfyirtækum.

Líklega gilda strangari reglur um stuðning viðkomandi fyrirtækja við sjónvarpsútsendingar og íþróttaviðburði, en "lýðræðið" innan "Sambandsins".

En gæti einhver séð slíkt fyrir sér á Íslandi?  Að Alcoa "styrkti" ríkistjórnarfund á Reyðarfirði?  Samherji "kostaði" ríkisstjórnarfund á Akureyri?

Ég vona ekki.


mbl.is Forsætið styrkt af stórfyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hetjuleg framganga eða óþarfa brambolt?

Persónulega er ég nokkuð sáttur af framgöngu Íslendinga í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

Það er alltaf þarft að vekja athygli á alvarlegum mannréttindabrotum.

En, og það er alltaf eitthvað en, til að meta það hvort að framgangan er hetjuleg eður ei, verðum við að bíða og sjá hvort að mannréttindabaráttan haldi sínu striki og taki til allra

Það er einfallt að leggja til atlögu við "smáríki", en mannréttindabrot eru auðvitað langt í frá bundin við þau.

Á Ísland eftir að leggja til sambærilegar aðgerðir í Kína, Rússlandi, Íran, bara svo örfá dæmi séu nefnd?

Skyldi Ísland leggja til að SÞ sendi sendinefnd til Spánar (eitt af þeim ríkjum sem styður ályktunina gegn Filipseyjum) til að rannsaka meðferð þarlendra yfirvalda á þeim sem hafa barist fyrir sjálfstæði Katalóníu?

Því mannréttindabarátta á "munnlegum" vettvangi eins og Sameinuðu þjóðunum er því aðeins trúverðug að hún geri sömu kröfu til allra.

Ég sé það reyndar ekki fyrir mér að þessi niðurstaða komi til með að breyta neinu á Filipseyjum, því Sameinuðu þjóðirnar eru, rétt eins og flestar al- og fjölþjóðlegar stofnanir, "tannlaus tígur".

Enda hafa þjóðir heims áratuga reynslu af því að taka aðeins mark á því sem Sameinuðu þjóðirnar hafa að segja, svona eins og hentar hverjum og einum.

Það er ekki nema að eitt eða fleiri "stórveldana" beiti sér að eitthvað gerist.

Persónulega tel ég meiri líkur á því en breytingum, að einhver "Íslenskur fíkniefnasali" verði gripinn á Filipseyjum innan skamms, því þannig er það sem svona stjórnkerfi "virka" oft á tíðum. Það væri nú ekki slæmt að halda "réttarhöld" yfir "slíkum glæpamanni".

Ég hvet því alla Íslendinga til að halda sig frá Filipseyjum.

Stundum flýgur mér í hug að utanríkisþjónusta (ekki bara Íslands) ætti að tileinka sér "alkabænina", þetta um að að gera greinarmun á því verður ekki breytt þess sem er mögulegt og að greina þar á milli.

Evrópuráðið tók þann pól í hæðina gegn Rússlandi, þar á meðal fulltrúar Íslendinga.

Misvísandi skilaboð?

En vissulega er baráttan göfug, jafnvel þegar hún er við "vindmyllur".

 


mbl.is „Við munum ekkert hvika“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupmönnum finnst þægilegt að kenna krónunni um, en það er líka verðbólga í öðrum löndum

Nú má sjá þar og hér að kaupmenn kenna krónunni um verðhækkanir, sem þeir telja sig verða að  hleypa út í verðlagið.  Auðvitað þurfa þeir sem ekki geta hagrætt að hækka verð, það segir sig sjálft og gerist alls staðar. 

Hvort að verslunin eigi inni hagræðingu á Íslandi, ætla ég ekki að fullyrða en vissulega væri gaman að sjá sölutölur á fermetra hjá stórum verslunarkeðjum á höfuðborgarsvæðinu bornar saman við sambærilegar tölur frá öðrum borgum.

Reyndar er það svo að í nútíma hagkerfum er reiknað með að verðlag hækki stöðugt, en þó hóflega.  Oft er talað um að verðbólga (inflation) upp á 2 til 3% sé hófleg.

Ef verð stendur í stað, eða hjaðnar þykir það hin mesta vá og verðhjöðnum (deflation) er óvinur "hagkerfisins" og framfara.

Það er þó  svo að alltaf eru einhverjar vörur sem lækka í verði, og aðrar sem hækka mun meira en nemur mældri verðbólgu.

Og upptaka annars gjaldmiðils breytir engu um það að hófleg verðbólga verður ennþá eftirsóknarverð.

Reyndar hefur verðbólga á Eurosvæðinu oft þótt of lág á undanförnum árum, enda hefur hagkerfið átt við margvísleg og þrálát vandamál.

En það má heldur ekki horfa eingöngu á meðaltal verðbólgu á Eurosvæðinu.  Það segir eingöngu hálfa söguna, eða í raun varla það.  Ef til vill er réttara að segja að það segi næstum ekki neitt.

Þannig hefur verðbólga í löndum Eurosvæðisins undanfarna mánuði, verið frá ca. 0.5% (sem þykir óþægilega lágt), upp í að vera um og yfir 3% (sem er yfir viðmiðum svæðisins).

Meðaltals verðbólga hefur verið u.þ.b. 1.5%, en eins og áður segir segir það takmarkaða sögu.

Verðbólga á Íslandi hefur hins vegar verið í kringum 3.3. eða 3.4% ef ég man rétt, en rétt er að taka með í reikninginn að á Íslandi er húsnæðisverð ennþá inn í verðbólgumælingum, en slíkt tíðkast ekki í "Sambandinu".

Ef sá liður er tekin frá, er ekki ólíklegt að verðbólga mælist talsvert, og þá svipuð eða ef til vill nokkuð lægri en í þeim löndum Eurosvæðisins sem hún er hæst.

Hví skyldi nokkur maður trúa að verðbólga lækki sjálfkrafa á Íslandi, ef tekið væri upp Euro?

Hún er nú u.þ.b. sú sama og í þeim Eurolöndum sem hún er hæst, er eitthvað sem bendir til þess að Ísland yrði í lægri helmingnum?

Eins og oft áður fimbulfamba "Sambandssinnar" og reyna að selja að Ísland verði eins og Þýskaland, nú eða meðaltal Eurosvæðisins hvað varðar verðbólgu.

Fyrir því færa þeir engin rök.

 

 


Viðskipti með upprunavottorð raforku á að stöðva þegar í stað

Eitt af því allra heimkulegasta sem Evrópusambandið hefur tekið sér fyrir hendur, og er þó af ýmsu að taka, er að koma á fót markaði um upprunvottorð á raforku.

Að hægt sé að kaupa upprunavottorð fyrir raforku sem er t.d. framleidd með brúnkolum í Þýskalandi, og selja hana sem græna og endurnýjanlega raforku er eiginlega óskiljanlegt.

Það er fölsun og hreinlega til þess ætlað að hægt sé að blekkja almenning (neytendur).

Uppruni breytist ekki við viðskiptin.

Þætti okkur eðlilegt að selja upprunavottorð fyrir fisk af Íslandsmiðum?  Eða að selja upprunvottorð osts frá Frakklandi? 

Allir vita að (að í það minnsta kosti enn sem komið er) er engin tenging á milli Íslands og meginlands Evrópu hvað varðar raforku.

Þó hefur verið hægt að kaupa "græna orku" með "uppruna" á Íslandi í Þýskalandi og Austurríki svo dæmi séu tekin.

Í raun ótrúlega heimskulegt og ekkert annað en blekking.  Á sama tíma stæra Íslendingar sig af hreinni orku og "græna orkan" "tvöfaldast" að umfangi á EEA/EES svæðinu, eða þannig. Því vissulega telja allir Íslendingar sig vera að nota hreina orku, eins og má sjá til dæmis ráða af umræðu um rafbílavæðingu landsins.

Þetta sýnir að að "samtenging" raforkumarkaðarins getur verið "skringileg".

En það er ekki góður rökstuðningur fyir því að halda áfram að selja upprunavottorð fyrir raforku.

Frekar ætti að skylda raforkuseljendur til að upplýsa hvernig orku þeirri sem þeir selja er aflað, svona eins og það er hægt (ekki eins einfalt og að segja það, en þó hægt upp að vissu marki).

Samtenging getur líka haft áhrif sem ekki eru skýr við fyrstu sýn.

Þannig hefur sú ákvörðun Þýskalands að loka öllum kjarnorkuverum sínum, þegar helmingað raforkuframleiðslu þeirra með þeim hætti. 

Það hefur ekki eingöngu í för með sér að raforkuframleiðsla Þjóðverja með kolum eykst, að stórum hluta brúnkolum sem eru mest mengandi af öllum kolum, heldur einnig hitt að eftirspurn Þjóðverja eftir raforku frá nágrönnunum eykst, og hækkar að sjálfsögðu verð.

Ég er ekki viss um að neytendur í nágrannalöndunum sendi "mama Merkel" fallegar hugsanir þegar þeir greiða rafmagnsreikningin, ef þeir gera sér grein fyrir því hve mikil áhrif,  undarleg ákvörðun hennar, hefur á buddu þeirra.

Hvorki þeir eða stjórnvöld í landi þeirra voru þó spurð hvort að þau væru samþykk ákvörðun Þýskalands, en verðhækkunin er "flutt" til þeirra.

Það er að mörgu að hyggja þegar tengingum á rafmagnsmarkaðnum er velt fyrir sér.


Pólítískt skipaður, lögfræðimenntaður fyrrverandi pólítíkus sem seðlabankastjóri, er það ekki óhæfa?

Eins og gerist og gengur er sitthvað hvort að skipun Christine Lagarde, sem bankastjóra Seðlabanka Eurosvæðisins er fagnað eða bölvað.

Það er enda ekki von að allir sameinist um slíka skipan.

En það þætti líklega ekki góð "latína" á Íslandi, enda segja kunnugir mér að hún myndi ekki standast þau hæfiskilyrði sem sett eru til að gegna sambærilegu embætti á Íslandi.

Hvað þá að fyrrverandi fjármálaráðherra (Frakklands) sem hefði dóm á bakinu vegna embættisfærslu sinnar (henni var ekki gerð refsing), þætti "góður pappír" í slíkt embætti.

Nú hljóta allir Íslendingar, ekki síst Samfylkingarfólk og Vinstri græn, að fagna því að Íslendingar séu svo lánsamir að vera ekki með euroið, því að ekki væri það gott að Seðlabanki gjaldmiðilsins væri undir stjórn fyrrverandi stjórnmálamanns með lögfræðimenntun.

Og fyrst að nefnd er í sömu frétt að Ursula von der Leyen verði líklegast forseti framkvæmdstjórnar "Sambandsins", þá verðum við að vona að ástandið á "Sambandinu" verði ekki sambærilegt við ástand Þýska hersins, en þar hefur "wonder" Leyen verið æðsti yfirmaður undanfarin ca 5. ár, ef ég man rétt. Þar er ástandið nú svo að herinn hefur m.a. samskipti í gegnum venjulega farsíma, vegna þess að örugg fjarskiptatæki eru ekki til staðar.

En svo er að sjá hvort að Evrópusambandsþingið reyni að gera eitthvað til að sýna vald sitt.  Verður ekki að telja slíkt frekar ólíklegt, en þó ekki ómögulegt.

 

 

 


mbl.is Lagarde yfir Evrópska seðlabankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skepna sem veldur ævilöngu ofnæmi fyrir kjöti

Þetta hljómar eins og vísindaskáldsaga, þar sem "vegan" vísindamenn ákveða að taka til sinna ráða og kenna mannkyninu lexíu.

Þeir búa til lítið skordýr, sem bítur einstaklinga og sýgur úr þeim blóð, og veldur um leið æfilöngu ofnæmi fyrir kjöti og  mjólkurafurðum.

En skordýrið er til og er ekki "vísindaafurð", né skáldsaga.

Það hefur lengi verið þekkt í Bandaríkjunum og Mexíkó, en er nú komið til Kanada.

Það virðist þó ekki hafa neikvæð áhrif á át á fuglakjöti og fiski, þannig að snefill af matarhamingju er skilin eftir.

En ef þetta er ekki góð ástæða til þess að halda sig á "malbikinu", er hún ekki til.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband