Hvert stefnir Bretland, hvert stefnir "Sambandið"?

Það hefur verið í senn fróðlegt og undarlegt að fylgjast með "Brexit", ég get ekki komist hjá þeirri hugsun að illa hafi verið haldið á málinu, af báðum málsaðilum.

Nú hafa liðið næstum 2. ár síðan Bretar ákváðu formlega að ganga úr "Sambandinu" og enn hefur ekki tekist að ná niðurstöðu sem báðum aðilum þykir góð (ekki frekar en glæsilega niðurstöðu Svavars Gestssonar og samninganefndar undir hans forystu, um "IceSave" málið).

Þess má til gamans geta að það tókst að kljúfa Tekkkóslóvakíu í tvö ríki í mestu vinsemd á um það bil 6 mánuðum. Þó var Tekkóslóvakía sambandsríki og þar var fljótlega ákveðið að sama myntin myndi ekki gilda í löndunum báðum (sama myntin var notuð í einhvern tíma eftir "skilnaðinn".)

En þannig gekk það ekki fyrir sig þegar Bretland ákvað að ganga úr "Sambandinu".

Einfaldast er að álykta að sökin liggi að einhverju marki hjá báðum aðilum. 

Bretar höfðu ekki undirbúið sig fyrir þessa útkomu úr þjóðaratkvæðagreisðlunni, það er ekki síst vegna þess að þá, rétt eins og nú, var landinu stjórnað af þeim sem voru fylgjandi áframhaldandi "Sambandsaðild".  Sama gilti um "Humpreya" stjórnkerfisins.

Þegar þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram er líklegt að útganga hefði verið kolfelld í þingdeildunum, hún opnaði því "gjá á milli þings og þjóðar".

Enn fremur þarf að líta til þess að þeir sem studdu "Brexit" gerðu það af mörgum mismunandi ástæðum, og um heildarstefnu var ekki að ræða, hvað þá að hún væri skýr, þegar fylgjendur "Sambandsaðildar" innan Íhaldsflokksins tóku að sér að framfylgja niðurstöðu þjóðaratkvæðisins.

Það má líka velta því fyrir sér hvers vegna fylgjendur áframahaldandi aðildar Bretlands innan Íhaldsflokksins, stigu ekki til hliðar og létu "útgöngusinnum" eftir stjórnina. Svona í takt við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

En líklega eru stærstu mistök May að hafa efnt til kosninga. Þar ofmat hún stöðu sína og gaf andstæðingum sínum, þar á meðal "Sambandinu", mun betri vígstöðu.  Í aðdragenda þeirra ásakaði hún enda "Sambandið" um óeðlileg afskipti af þeim.

Þess utan fór mikilvægur tími í kosningar sem hefði líklega betur verið notaður við samningaborðið.

En það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að mótaðilarnir, þ.e. "Sambandið", hafi reynt eftir fremsta megni að stuðla að niðurlægingu May og Bretlands. Þeir hafi fyrst og fremst talið það til sinna hagsmuna að stuðla að upplausn og sundrungu í Breskum stjórnmálum, og reyndar tekist ágætlega upp.

Að þeir hafi talið að hagsmunir "Sambandsins" lægju frekar í að setja "fordæmi" gagnvart öðrum þjóðum (sem ef til vill myndu hugleiða útgöngu í framtíðinni) en að tryggja sameiginlega viðskiptahagsmuni "Sambandsins" og Bretlands.

Það er rétt að hafa í huga að enginn af þeim sem hafa leitt samningagerðina af hálfu "Sambandsins", mun þurfa að horfast í augu við kjósendur um árangurinn.

Auðvitað er hægt að halda því fram að það séu hagsmunir "Sambandsins" að "refsa" Bretum harkalega til að halda "Sambandinu" saman.

Margir virtust taka þann pól í hæðina, rétt eins og þeir sem vildu endilega hætta að nota Ensku sem eitt af opinberum málum "Sambandsins", þó að þeir vissu að það myndi koma harkalega niður á samskiptum innan þess.  Það er hins vegar afar ólíklegt að af því verði, því myndi fylgja svo gríðarlegt óhagræði.

En það er alveg rétt hjá Carney að útgöngunni geta fylgt gríðarleg tækifæri fyrir Bretland, fyrst og fremst ef það kýs að standa utan tollsvæðis "Sambandsins".

Ef Bretland yrði áfram í tollabandalagi við "Sambandið", er útgangan til lítils.

En það er ýmislegt sem bendir til þess að Bretar gangi út án samnings, það er ekki æskileg útkoma, en ekki sú versta.

Það mun þýða að það mun taka Breta lengri tíma en ella að vinna bug á þeim vandamálum sem upp munu koma og fylgja útgöngu.

En til lengri tíma litið trúi ég að útganga verði þeim til góðs.

Það má einnig velta því fyrir sér hvort að útganga Breta hafi ekki alltaf verið nær óhjákvæmileg, og betra að hún eigi sér stað fyrr en síðar.  Flækjustigið mun aðeins koma til með að aukast.

Þegar "Sambandið" vill og stefnir leynt og ljóst á að æ fleiri ákvarðanir verði meirihlutaákvarðanir, og er að seilast inn á svið eins og skattaákvarðanir og utanríkismál, held ég að það hefði ekki verið spurningin hvort, heldur hvenær Bretar kysu útgöngu.

En það verður "ókyrrð" í Breskum stjórnmálum næstu misserin. Íhaldsflokkurinn hefur laskast verulega í "Brexit" baráttunni.  Það vill honum þó til happs að Verkamannaflokkurinn stendur þeim mun verr.

Líklegt er að Skotar fari einnig að blása enn á ný í glæður sjálfstæðiskrafna sinna, þannig að ég held að Bretar þurfi ekki að láta sig dreyma um neina lognmollu.

En en góð orð Carneys vekja vissa bjartsýni um að Bretar búi sig undir útgöngu af auknum krafti, og þar eru seðlabankar eitt af vopnunum sem beita þarf að skynsemi.

P.S Hér er svo tengill á opið bréf frá Jim Ratcliffe til Juncker, sem segir margt af því sem segja þarf, um aukna möguleika Breta utan "Sambandsins".  Þeir felast m.a. í að gera fríverslunarsamninga á eigin spýtur, en einnig að taka til í regluverkinu.

 

 

 


mbl.is Mikil tækifæri fólgin í Brexit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innflutt hús betri kostur en "innlend"?

Mér kemur það ekki á óvart að ýmsir aðilar gagnrýni að Íslensk verkalýðsfélög standi fyrir því að flytja inn einingahús frá Lettlandi.

Þó að ég hafi ekki hugmynd um hvað þeir sem vinna við framleiðslu á einingunum fá í laun, þá veit ég að lágmarkslaun í Lettlandi eru u.þ.b. 340 euro á mánuði.

Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að mögulegt er að fá einingar framleiddar þar fyrir töluvert lægra verð en á Íslandi.

En ég tek hinn ímyndaða hatt minn ofan fyrir verkalýðsfélögunum að fara þessa leið.  Auðvitað á að gefa Íslenskum verktökum möguleika á að bjóða í verkið, en að sjálfsögðu á að velja þann ódýrasta af sambærilegum kostum.

Þannig gerast viðskiptin best og ég er reyndar hissa á Íslenskum verktökum að hafa ekki gert slíkt í miklu meira mæli á undanförnum árum.

Það ætti að geta aukið byggingarhraða, dregur úr þennslu á innlendum markaði, dregur úr húsnæðisþörf fyrir verkamenn, eykur sveigjanleika, o.sv.frv.

Ég held að flestum sé ljóst að þörf er á auknu framboði á húsnæði á Íslandi, en aukin þennsla síður eftirsóknarverð.

Þetta er því líklega góð lausn.

 


mbl.is Erlendu húsin betri kostur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grandmaster Flash er ekki rappari

Það skiptir í sjálfu sér ekki meginmáli, nema að því marki að ávallt ber að reyna að hafa það sem sannara reynist, en Grandmaster Flash er ekki rappari.

Hann er plötusnúður, eða DJ.

Stundum á enskunni einnig nefndir "turntablist".

Og sem slíkur lagði hann grunninn, ásamt nokkrum öðrum, að þvi sem kallað er Hip-Hop, en ég man ekki eftir að hafa heyrt Íslenska þýðingu á nafni þeirrar tónlistarstefnu, oft er hún  kölluð rapp, en rapp er vissulega fyrirferðarmikill þáttur hennar.

Upprunalega byggðist hún fyrst og fremst á plötusnúð (DJ) og rappara (MC). En seinna fóru hljóðfæri og "sömpl" að spila stærri rullu. Hér eru tvö tóndæmi. Hið fyrra er The Adventures of Grandmaster Flash on the Wheels of Steel. Þar blandar Grandmaster saman ólíkum hljómplötum frá hljómsveitum eins og Blondie, Queen, Chic, Incredible Bongo Band og fleirum. Sagt er að þetta hafi allt verið gert "live" í studíói. Nokkuð sem hafði ekki heyrst á plötu áður árið 1981.

Seinna dæmið er svo líklega þekktasta lag Grandmaster Flash and The Furious Five, en þar er rappið í fyrir rúmi, en í raun leggur Grandmaster Flash lítið til lagsins. En lagið þótti marka ákveðin tímamót hvað rapp varðar, þar sem fjallað er um þjóðfélagsmál, en ekki fyrst og fremst um rapparann sjálfan eða "party" hegðun.


mbl.is Rappari og fiðluleikari fá Polar-verðlaunin í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband