Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að erfitt sé að komast til Kanada - Skrifræðið hefur sinn gang

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að fáir eða engir Íslendingar hafi fengið vinnu vegna samkomulags Íslands og Manitoba.  Þannig ganga hlutirnir ekki fyrir sig í Kanada og atvinnuleyfi alls ekki hratt.

Í sambandsríki eins og Kanada hafa fylkin heldur ekki sjálfsvald um það hvernig hlutum eins og innflytjendamálum er háttað, þó að þau hafi vissulega eitthvað um það að segja. (Ef til vill má draga einhvern lærdóm af þessu fyrir Íslendinga sem virðast helst af öllu tilheyra einhverskonar sambandsríki og færa stjórnsýslu eins langt frá Íslandi og kostur er).

"Eðlilegur" tími sem afgreiðsla atvinnuleyfis tekur í Kanada er 9 til 12 mánuðir.  Strangt ferli, sem m.a. felur í sér lækniskoðanir, röntgenmyndatökur, skil á ljósmyndum með negatívum og ítarlegri umsókn.

Styttri leið er til að mér skilst, ef eingöngu er um mjög takmarkaðan tíma að ræða og hægt að færa rök fyrir því að erfitt sé að finna innlenda aðila til verksins, eða um sérhæfð störf er að ræða.

Ætlast er til þess að umsóknir séu afgreiddar á jafnréttisgrundvelli og alls ekki á að taka einhverja kynþætti eða þjóðir fram yfir aðra, sem hefur líklega gert þetta samstarf að einhverju leyti erfiðara. (Einhverjum stjórnmála eða embættismönnum gæti t.d. hafa litist illa á að taka hóp af hvítum norður Evrópubúum í einhverja "hraðferð", það gæti litið illa út "pólítískt".)

En Kanadískt stjórnkerfi hefur ekki orð á sér fyrir að vera lipurt og þó að núverandi ríkisstjórn hafi gert átak í þeim efnum (á sumum sviðum hefur þeim orðið verulega ágengt og biðtími hefur styst svo um munar á ýmsum stöðum), þá er mikið verk óunnið þar og óvíst um endanlegan árangur.

En það er engin ástæða til þess að efast um að bæði Íslensk stjórnvöld og þau í Manitoba hafa gert þetta samkomulag af fyllstu heilindum.  En þriðji aðilinn (sem er jú ekki aðili að samkomulaginu), Alríkisstjórnin í Ottawa vill auðvitað (og eðlilega) að farið sé eftir lögum og regluverkinu.

 


mbl.is Flókið ferli veldur því að Íslendingar halda ekki til Manitoba
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að falla af himnum í gullinni fallhlíf

Ég vona að æ fleiri verði þeirrar skoðunar að löngu tímabært og æskilegt sé að aðskilja ríki og kirkju á Íslandi.  Leggja niður ríkiskirkjuna og trúarbrögð starfi óháð og ótengd hinu opinbera.

Spilling og gullin fallhlíf (ef til vill orðatiltæki sem á vel við, þegar einstaklingar "falla af himnum"), er það sem helst er í umræðunni hvað varðar þjóðkirkjuna.  Tímabært að skattgreiðendur séu losaðir undan þeirri áþján og þeirri skömm að standa straum af þessu batteríi.

Það versta er auðvitað að líklega er það það svo að stjórnmálamenn og embættismenn sjá ekkert athugavert við þetta allt saman.

Líklega finna þeir til samkenndar.


Breytingar á fjármálalöggjöf og afsal fullveldis

Fann þessa frétt í Irish Times, í gegnum blogg Páls Vilhjálmssonar.

Fréttin er í ýmsa staði athygliverð.  Í það fyrsta kemur þar fram eins og hefur reyndað sést áður að umræðan um nauðsyn þess að endurskoða gallað regluverk "Sambandsins" hvað varðar fjármálastofnanir eru komið á nokkurn skrið.

Það er enda ekki að undra þegar litið er til þess hvernig það regluverk reyndist í þeirri fjármálakreppu sem gengið hefur yfir heiminn á undanförnum mánuðum.

Hitt er ekki síður athyglivert, að rætt er um að aðildarríkis "Sambandsins" verði að gefa eftir hluta af fullveldi sínu (sovereignty) til þess að hægt verði að setja nýjar og betri reglur, sem gefi "Sambandinu" vald til þess að stýra málum svo gagn og sómi sé að.

Hvernig skyldi það nú ríma við málflutning þeirra sem segja að ekkert fullveldisframsal sé fólgið í því að ganga í "Sambandið"?

Eins og ég hef áður sagt hér á þessum vettvangi, hljóta allir að sjá að aðild að "Sambandinu" (sem og reyndar EEA/EES) fylgir gríðarmikið og víðtækt framsal á fullveldi.

Hitt er svo auðvitað umdeilanlegt og full ástæða til þess að rökræða um, hvort að menn séu þeirrar skoðunar að fullveldisframsalinu fylgi þau gæði, eða menn vilji hafs slík skipti.

Þar segi ég nei, en vissulega eru margir þeirrar skoðunar að fullveldið sé ekki mikils virði, það er önnur saga.


Fram og aftur um blindgötuna

Það ber auðvitað að fagna því ef að taka á ákörðunina um orkuskatt til endurskoðunar.  En það á vissulega eftir að sjá hver niðurstaðan verður, í þessari tilkynningu er ekkert minnst á það.

En það sem vekur upp spurningar fyrst fremst eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar.

Þegar þessiu skattur fyrst dúkkar upp er verið að tala (eftir því sem mér hefur skilist) um krónu á kílówattstund.  Iðnaðar og orkumálaráðherra kemur af fjöllum, segist aldrei hafa heyrt af þessu og hún muni aldrei samþykkja slíkar álögur.

Þá er farið a tala um 25 aura á KWstundina.

Nú er óljóst gefið í skyn að hætt verði við allt saman.

Í hvaða ljós setur þetta ríkisstjórnina og Íslenska stjórnsýslu?

Hvernig var staðið að undirbúningi þess að koma á þessum skatti?  Var unnin álitsgerð um hugsanleg áhrif skattlagningarinnar á atvinnulíf og erlenda fjárfestingu? 

Á meðan þessi hringsnúningur hefur átt sér stað hafa erlendir aðilar sem hafa áhuga á fjárfestingum á Íslandi haldið að sér höndum og gera það líklega enn um sinn, enda niðurstaða ekki fengin.

Það sem verra er, fjárfestingaraðilar hljóta að velta því fyrir sér hvernig ákvarðanir í skattamálum og annarri stjórnsýslu eru teknar á Íslandi.  Hvort að það sé ekki best að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá landi þar sem undarlegar geðþótta ákvarðanir (sem ráðherrar málaflokksins hafa ekki einu sinni heyrt af) virðast ráða för.

 


mbl.is Áform um orkuskatt endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgi forseti er ekki þjóðkjörinn.

Ég vil auðvitað óska Helga til hamingju með forsetaembættið.  Það er gott fyrir Íslendinga að eiga þokklegan forseta og Helgi er vel að starfinu kominn.

En mér finnst ekki rétt hjá mbl.is að segja að fulltrúar á Norðurlandaráðii séu þjóðkjörnir:

"Í Norðurlandaráði sitja 87 þjóðkjörnir fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð auk fulltrúa Færeyja, Grænlands og Álandseyja."

Það er enginn kjörinn af þjóðunum til að sitja í Norðurlandaráði, þeir sem sitja í Norðurlandaráði hafa hins vegar verið kjörnir af þjóðunum til að sitja á þingi, hverrar um sig, sem síðan kýs þá eða skipar til setu í Norðurlandaráði.

En á þessu tvennu er að mínu mati mikill munur.  Enginn er lýðræðislega kjörinn til setu í Norðurlandarráði, heldur má segja að skipað sé þingræðislega í ráðið.

En það breytir því ekki að ég vona og hef fulla trú á Helga í forsetastólnum.


mbl.is Helgi Hjörvar verður forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunir, hagsmunir, hagsmunir

Hér í Kanada er oft haft að orði að í fasteignsviðskiptum skipti þrennt meginmáli, "location, location, location".

Ef til vill má heimfæra þessa "möntru" að einhverju leyti upp á samskipti ríkja.  Þar er það sem skiptir máli, "hagsmunir, hagsmunir, hagsmunir".

Norðurlandasamstarfið víkur (hér mætti líklega bæta við eðlilega) fyrir hagsmunum ríkjanna.  Þau meta það svo að meiri hagsmunir séu af því að vera í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn heldur en bein aðstoð þeirra við Íslendinga.

Þetta er auðvitað alveg rétt hjá þeim.

En hverjir eru hagsmunirnir?

Líklega eru mestu hagsmunir Norðurlandaþjóðanna - þá sérstaklega Svía - fólgnir í því því að þeir vilja gjarna aðstoð IMF í viðskiptum sínum (og norrænna banka - þá sérstaklegra Sænskra) við lönd og ríkisstjórnir í A-Evrópu.  Þar liggja miklu stærri hagsmunir heldur en aðstoð við Ísland, eða norrænt samstarf.

Hagsmunir Norðurlandanna liggja því í því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setji skuldurum ströng skilyrði og gæti hagsmuna lánveitenda. 

Auðvitað skaðar heldur ekki að veita stuðning áhrifamiklum þjóðum innan "Sambandsins" eins og Bretum og Hollendingum.

Norrænt samstarf skiptir litlu máli, en ráðherrar hafa vissulega gaman af því að verðlauna bækur og kvikmyndir.


mbl.is Ísland stóð eitt í hvirfilbylnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vertu blessaður Ronald McDonald

Það er dulítið skondið að sjá hve sterkar tilfinningar það vekur hjá mörgum Íslendingum að núverandi sérleyfishafar McDonalds á Íslandi ætla ekki að framlengja samning sinn við Bandaríska fyrirtækið.

Sumir virðast líta á það sem einhverskonar sigur að ekki verði hægt að fá McDo hamborgara á Íslandi, á meðan aðrir virðast vera þeirrar skoðunar að Ísland setji niður við þessa breytingu.

Samt er breytingin sáralítil.  McDonalds er ekki að fara á hausinn, það á ekki að loka neinum stað, það á ekki að gera neinar veigamiklar breytingar á matseðlinum.

Nei, það á eingöngu að breyta um nafn.  McDonalds breytist í Metro.

Ákvörðunin er líklega viðskiptlegs eðlis.  Ávinningurinn af samstarfinu við McDonalds, réttlætir ekki það gjald sem McDonalds vill fá fyrir sérleyfið.

Að öllum líkindum er það ekkert flóknara en það. 

Sjálfur er ég ekki McDonalds maður, en hef nákvæmlega engar áhyggjur af því sem aðrir borða.  Því meira úrval, því betra.   Rétt eins og ég læt mér það í léttu rúmi liggja að Kanadamenn drekki upp til hópa eitthvert versta kaffi sem til er, þ.e.a.s. Tim Hortons.  Helst helli ég upp á Þýskt kaffi hér heima við, en skaplegt (fyrir minn smekk) kaffi má fá á ýmsum stöðum.  Því meira úrval, því betra.

Ísland er hvorki verra né betra, hvort sem þar fæst McDonalds eður ei.  En svo vísað sé til færslunnar hér á undan, þá spilar vissulega gengið líklega inn í þessa ákvörðun eins og svo margar aðrar. Við þessa ákvörðun eflist innlend framleiðsla, innflutningur dregst saman.


Hvar vilja menn hafa gengið?

Það er ekki ofsögum sagt að mikið er rætt um gengi á Íslandi.  Eitthvað er rætt um glæpagengi, en mest þó um krónugengið.

Enda skiptir gengi gjaldmiðla líklega óvíða jafn miklu máli og á Íslandi, enda Íslendingar þjóð sem á mikið undir milliríkjaviðskiptum og þau gangi hratt og vel fyrir sig.

Flestir virðast þeirrar skoðunar að gengi Íslensku krónunnar sé alltof lágt um þessar mundir.  Þar skeiki tugum prósenta að margra mati.

Persónulega á ég erfitt með að trúa því.  Sitthvað segir mér að gengið sé á nokkuð réttu róli þessa dagana, eigi jafnvel eftir að lækka nokkuð frekar.   Ástandið eigi eftir að "versna" áður en það fer að skána.

Vissulega veldur það mörgum og margvíslegum erfiðleikum þegar gengið sígur, eða hrapar eins og það hefur gert undanfarið ár á Íslandi.

En hvar finnst mönnum að gengið "eigi að vera"?

Viljum Íslendingar vera með gengið það sterkt að aftur verði halli á viðskiptum við útlönd?  Nú hefur í fyrsta sinn í langan tíma verið afgangur af þeim viðskiptum marga mánuði í röð, í eina þrettán eða fjórtán.  Það er einmitt það sem Íslendingar þurfa til að rétta af hallann sem hafði verið í mörg ár.

En þessi afgangur hefur ekki náðst nema vegna þess hve gengið hefur fallið, og líklega þó enn frekar vegna þess að ströng gjaldeyrishöft hafa verið við lýði.  Hefði þeirra ekki notið við væri vöruskiptajöfnuðurinn líklega ekki eins hagstæður og gengið enn þá lægra.

Vissulega væri gott að hafa gengið sterkara, erlendar skuldir lægri o.s.frv.  En það dugar skammt að skulda minna, ef salan á Íslenskum vörum verður erfiðari, innflutningur eyks o.s.frv.

Kaupmáttur Íslendinga í erlendum vörum myndi aukast - en aðeins þeirra sem enn hefðu atvinnu - og mjög líklegt væri að þeim myndi fækka.

Persónulega get ég ekki séð rök fyrir því að gengið eigi að styrkjast, allra síst nú þegar skuldabyrði hins opinbera er að aukast sem aldrei fyrr, með erlendum lánum og IceSave skuldbindingum.  Það tekur strax þó nokkurn skerf af gjaldeyristekjum þjóðarinnar og er líklegt til að fella krónuna frekar.

Óvissa um erlenda fjárfestingar eykur svo enn líkur á frekara gengisfalli.


Að lofa betrun

Það hefur lítið verið ritað hér undanfarið.  Allra handa annir og önnur óáran hefur komið í veg fyrir að síðuskrifari stæði sig sem skyldi.

En vonandi næst takturinn aftur.  Það er alla vegna þess vert að reyna, en lofa þó öngvu upp í þröngar ermarnar.

 


Væri ekki ráð að þingið réði?

Mér þykir stundum skrýtið hvernig mál þróast á Íslandi.

Það er alltaf talað eins og ráðherra ráði öllu í sínum málaflokki og gangi fram eins og honum þóknist.

Það getur þó varla verið, þannig að ákvarðanir sem teknar eru, rétt eins og þessi sem hér er rædd, að sækjast ekki eftir frekari undanþágum hvort varðar útblástur, hlýtur að vera ríkisstjórnarinnar.  Þessi niðurstaða hlýtur að vera á ábyrgð Samfylkingar og Vinstri grænna og þess þingmeirihluta sem stendur að baki stjórnarinnar.  Eða er það ekki örugglega?

En vissulega væri hægt og ef til vill klókt að taka af öll tvímæli.  Láta einfaldlega koma til kasta þingsins.  Alþingi myndi einfaldlega móta stefnu og markmið í þessu máli (og öðrum svipuðum) og ráðherra og embættismenn færu síðan á ráðstefnuna og væri ætlað að vinna eftir stefnumörkun Alþingis í þessu efni.

Ef til vill væri hægt að byrja á því að leggja fram þingsálytkunartillögu um hugsanleg markmið Íslendinga?


mbl.is Hagsmunir Íslands í fyrirrúmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband