Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2017

Á hverju á forsetinn að missa þolinmæðina?

Mér hefur fundist það merkilegt hvernig margir, ekki síst stjórnmálamenn, tala á þann veg að forseti Íslands skipi stjórnmálamönnum fyrir í stjórnarmyndunarviðræðum og þeir framkvæmi hans óskir.

Talað er eins og að "Umboðið" með "stórum staf" sé upphaf og endir alls í stjórnarmyndunarviðræðum.

En er það svo? Skiptir einhverju máli hver er með "Umboðið", eða hvort að engin hefur "Umboðið", eins og staðan er nú?

Það skiptir engu máli. Stjórnmálamenn og flokkar geta samið um stjórnarmyndanir sín á milli "Umboðslausir" með öllu.

Það eina sem skiptir máli er þingstyrkurinn sem stendur að baki samkomulagi um stjórnarmyndun.

Enda hefur núverandi forseti tekið þá ákvörðun að láta engan vera "Umboðsmanninn" nú um stundir, líklega ekki síst til að afhjúpa ekki valdleysi sitt í þessu sambandi.

Hann mun svo hugsanlega láta "Umboðið" til þess sem flokkarnir hafa ákveðið að verði forsætisráðherra.

Svona eins og til að láta líta út fyrir að hann hafi eitthvað um málið að segja.

Eina vopnið sem forsetinn hefur á hendi er hótun um utanþingsstjórn, og jafnvel þá hafa stjórnmálaflokkarnir völdin, enda kemur ríkisstjórn fáu í gegn án stuðnings Alþingis.

Það er engin ástæða til þess, hvorki fyrir forseta eða stjórnmálamenn, eða reyna að teikna upp eitthvað leikrit þar sem forseti spilar lykilhlutverk við stjórnarmyndum.

Persónulega held ég að afar fáir kjósendur hafi gaman af slíku, og í raun gerir það forsetann aðeins ögn hlægilegan, og svo þá stjórnmálamenn sem gera sig að persónu í slíku leikriti.

 


mbl.is „Hvenær missir forsetinn þolinmæðina?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afturhaldssamir kerfisflokkar sem allir vilja starfa með?

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með orðræðunni í Íslenskum stjórnmálum undanfarna daga.

Viðræður Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokks hafa sannarlega hrist upp í "flórunni", eða ætti að segja "flórnum"?

Það sem mér finnst hvað merkilegast er að þeir flokkar sem heitast þrá að starfa með Vinstri grænum og Framsóknarflokknum virðast telja það vænlegast til árangurs að lýsa því yfir að flokkarni tveir séu staðnaðir kerfisflokkar, sem ólíklegt sé að mörgum góðum hlutum í verk í ríkisstjórn.

Orðið Framsóknarflokkur er notað eins og háðs- eða skammaryrði, sbr. "Framsóknarflokkarnir þrír".

Sjálfsagt telja þeir að þetta sé það besta sem þeir hafa fram að færa til að líta út sem ákjósanlegir samstarfsflokkar.

Svo er það Sjálfstæðisflokkurinn sem margir úr Samfylkingunni hafa keppst við að lýsa sem "harðsvíruðum frjálshyggjuflokki" undanfarin ár, er nú orðinn að afturhaldssömum "Framsóknarflokki"

Það má svo velta því fyrir sér að þetta eru þeir flokkar sem keppast við að lýsa því yfir að þeir vilji ný vinnubrögð í stjórnmálum og á góðum stundum tala þeir jafnvel um að orðræðan þurfi að batna.

Það er þetta með gamalt vín á nýjum belgjum.

Það er hins vegar möguleiki á að samstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna byggi nýjar brýr í Íslenskri pólítík og geti stuðlað að langvarandi breytingum.

En það kemur allt í ljós, ef við fáum að sjá stjórnarsáttmála og samstarfið þróast.


mbl.is Þrá að spritta sig með VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meint frjálslyndi, íhaldssemi og stjórnlyndi

Það hefur all nokkuð verið rætt um frjálslyndi í Íslenskum stjórnmálum undanfarnar vikur. Sumir hafa kallað slíkt "merkimiðapólítík", sem er í sjálfu sér hvorki verra orð eða pólítík en önnur.

En mestu máli er þá að vitað sé hvað "merkimiðinn" stendur fyrir, hvað þýðir frjálslyndi og hver er andstæða þess?

Það virðist meira á reiki, enda langt frá því einfalt að koma með góða, einfalda og endanlega útskýringu á slíkum hugtökum. Líklega má segja að það sé næsta ómögulegt. Það er langt frá því að vera eina pólítíska hugtakið sem slíkt gildir um, og því verður umræðan næsta ruglingsleg á köflum, þar sem margir nota sömu hugtökin, en tala samt um mismunandi hluti.

Það er líka að mínu mati ekki rétt að tala um íhaldssemi sem andstæðu frjálslyndis. Oft byggist íhaldssemi á því að halda í frjálslyndið, á móti því sem oft er nefnt stjórnlyndi sem er hin raunverulega andstæða frjálslyndis (að mínu mati). Andstaða íhaldssemi er frekar byltingar, eða umbyltingarstjórnmál. Og það er auðvitað langt í frá að allar byltingar eða umbyltingar séu til góðs, eða í frjálslyndisátt.  En á þessu má sjá að álitamálin í "hugtakastríðinu" og "merkimiðastjórnmálunum" geta verið mörg.

Hér á eftir ætla ég að nefna nokkur dæmi um frjálslyndi og stjórnlyndi og taka fyrir mál sem hafa verið til umfjöllunar í Íslenskum stjórnmálum og fjölmiðlum. Það ætti ekki að þurfa að taka fram að einungis er um mínar persónulegu vangaveltur að ræða (en þó þykir mér ástæða til) og sjálfsagt eru aðrir með annan skilning á einhverju af þessum dæmum. Við því er í sjálfu sér ekkert að gera.

Aflétting ríkiseinokunar á áfengissölu er barátta háð með frjálslyndi að leiðarljósi. Einokunarrekstur og einkasala ríkisins er stjórnlyndi. Í mínum huga er enging leið til þess að líta á málið með öðrum hætti.

Síðan geta einstaklingar og félagasamtök fært margvísleg rök fyrir stjórnlyndinu. Lýðheilsurök, að ríkið veiti betri þjónustu á landsbyggðinni, sé betur fært um að draga úr eftirspurn o.s.frv.  En það er annar handleggur sem kemur spurningunni um frjálslyndi ekkert við.

Það sama gilti um baráttuna fyrir bjórnum og frjálsu útvarpi á sínum tíma. Það var barátta frjálslyndis gegn stjórnlyndi.

Löggjöf um jafnlaunavottun er dæmi um stjórnlyndi, ekki frjálslyndi. Síðan geta stjórnmálamenn og flokkar fært margvísleg rök fyrir stjórnlyndi sínu, en það breytir ekki eðli jafnlaunavottunar, sem er ákvörðun sem gerir þjóðfélagið stjórnlyndara.

Frjáls innflutningur á landbúnaðarafurðum er dæmi um frjálslyndi. Aukið úrval, aukin samkeppni, minni ríkisafskipti o.s.frv. eykur val neytenda.  Eins og áður er hægt að færa mörg rök fyrir stjórnlyndinu, lýðheilsu og vistfræðirök svo dæmi séu tekin, en það breytir því ekki að innflutningsbönn eru stjórnlynd aðgerð.

En að vilja eingöngu leyfa innflutning frá einu landsvæði eða bandalagi, getur í raun ekki talist verulegt frjálslyndi, þó að ef til vill megi segja að það mjaki málinu í frjálsræðisátt miðað við núverandi ástand á Íslandi. Einnig má halda því að slíkt færi stjórnlyndisákvörðunina aðeins til.

Aðild að Evrópusambandinu getur að mínu mati ekki talist skref í frjálslyndisátt. Vissulega er ýmislegt í lögum og reglugerðum "Sambandsins" sem stendur fyrir frjálslyndi, t.d. frjáls för einstaklinga, vara og fjármagns. En nota bene, það gildir einungis innan sambandsins og frjáls vöruinnflutningur myndi t.d. dragast saman á Íslandi, eins og fram hefur komið í fréttum (frjáls í merkingunni án afskipta hins opinbera í formi tolla og/eða vörugjalda).

Að bæta við yfirstjórn á Íslandi og í raun stóru viðbótar stjórnsýslustigi er ekki til þess fallið að auka við frjálslyndi.

Jafnrétti til handa samkynhneigðum, transfólki og öðrum minnihluta og jaðarhópum er gott skref í frjálslyndisátt.  Að banna einstaklingum (jafnt barnaskólakennurum sem öðrum) að tjá andstöðu sína eða skoðanir um slík málefni, er hins vegar jafn gott dæmi um stjórnlyndi, alveg sama hvaða rök eru fram færð fyrir stjórnlyndinu.

Tjáningarfrelsi, jafnt í ræðu sem riti er einn af hornsteinum frjálslyndisins. En við skulum ekki gleyma því að allir þurfa að bera ábyrgð á skrifum sínum, jafnvel fyrir dómstólum. 

En ég á erfitt með að sjá að bannað verði að vitna í bíblíuna, ja, nema hún eða tilvitnanir í hana verði bannaðar. Það þarf varla að taka það fram að slíkt gæti ekki talist frjálslyndi, alveg burt séð frá því hvaða skoðanir við kunnum að hafa á kristni, nú eða öðrum trúarbrögðum.

Aukin skattheimta er stjórnlyndi. Hið opinbera tekur stærri hluta af sjálfsaflafé einstaklinga og fyrirtækja. Að sjálfsögðu færa margir sannfærandi rök fyrir því að taka eigi meira fé af einstaklingum og fyrirtækjum, en það er ekki frjálslyndi.

Öll skattheimta er stjórnlyndi, en flestir eru sammála um að slíkt sé nauðsynlegt (upp að vissu marki) enda ekki margir sem sjá fyrir sér þjóðfélag þar sem stjórnlyndi hafi verið útrýmt. En það eru mörkin og viðfangsefnin sem deilt er um.

Að breyta um gjaldmiðil er ekki skref í frjálslyndisátt, né heldur stjórnlyndis, það er einfaldlega óbreytt ástand að því leiti að enn ríkir einokun á lögeyri. Skref í frjálslyndisátt væri ef frjálst væri að nota hvaða gjalmdiðil sem er sem lögeyri.  Hvort að mikill áhugi er á slíku er allt annað mál.

Enn og aftur má færa rök með og móti því að skipta um gjaldmiðil, en það hefur að mínu mati ekkert með frjálslyndi að gera.

Að leyfa að gæludýr komi inn á kaffihús og veitingastaði er dæmi um frjálslyndi. Ákörðunin er færð til eigenda viðkomandi staða. Að meina eigendunum að ákveða hvort að reykt sé eða "veipað" á sömu stöðum er dæmi um stjórnlyndi.

Það er ekkert óeðlilegt að skiptar skoðanir séu um bæði málin og lýðheilsa, ofnæmi koma ábyggilega þar við sögu. En að mínu mati á engin rétt á því að veitingamenn reki staði sem eru þeim að skapi, heldur á ákvörðunin að vera veitingamannana sem líklega taka hana út frá eigin viðskiptahagsmunum, enda leggja þeir sitt fé undir.

Það að vilja skipta algerlega um stjórnarskrá er að mínu mati ekki dæmi um frjálslyndi. Það væri frekar dæmi um umbyltingarstjórnmál. Þeir sem vilja hægfara eða engar breytingar teldust þá íhaldsmenn.

Hvorug afstaðan er frjálslyndi eða stjórnlyndi, nema að við teljum að ný stjórnarskrá lögfesti verulega aukið frjálslyndi eða stjórnlyndi í lög.

Þetta eru aðeins örfá dæmi sem ég tek sem hafa verið í umræðunni undanfarnar vikur og ég týni til eftir minni.

En mér sýnist að þeir sem hæst tala um eigið frjálslyndi sé oft á tíðum æði stjórnlyndir.

 


Samfylking og Viðreisn lúta í lægra haldi fyrir "pólítískum ómöguleika"

Persónulega myndi ég segja að það standi upp úr í yfirstandandi stjórnarmyndunarþreifingum að bæði Samfylkingin og Viðreisn hafi lýst því yfir að flokkarnir telji ekki nauðsynlegt að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunarviðræður Íslands að "Sambandin" fari fram.

Ef til vill má orða það svo að þessir flokkar rekist utan í "pólítískan ómöguleika" og lotið í lægra haldi fyrir honum.

Það má líka orða það svo að skynsemi og raunsæi hafi orðið ofan á, en slík orð notaði formaður Samfylkingarinnar um þennan viðsnúning flokksins.

Enginn talar um að snúið hafi verið baki við stefnuskrám þessara og flokka og fullyrðinga sem forystufólk þeirra fór með í kosningabaráttunni.

Það er engu líkara en að bæði almenningi og fjölmiðlafólki þyki það sjálfsagt að þessir flokkar leggi niður jafnvel þau stefnumál sem annar þeirra var stofnaður um, bara ef það gæti nú orðið til þess að þeir kæmust í ríkisstjórn, fengju völd.

En líklega rákust þessir flokkar á "pólítískan ómöguleika". Meirihluti Íslendinga hefur ekki áhuga á því að ganga í "Sambandið", næsta víst gildir það sama um meirihluta alþingismanna.

Og það sem meira er, líklega er enginn vilji hjá Evrópusambandinu að taka upp viðræður við Íslendinga undir þessum kringumstæðum, enda sigldu viðræðurnar í strand á árinu 2011.

Í raun hefur ekkert breyst síðan, kaflinn um sjávarútvegsmál er ekkert greiðfærari nú en þá, enda hefur skilyrðum Alþingis í þá veru ekki verið breytt.

Stjórnarskráin er enn sú sama.

En auðvitað ræddu Viðreisn og Samfylking ekkert um slík mál fyrir kosningar, þau vildu bara þjóðaratkvæðagreiðslu, það hljómar vel, hver er eiginlega á móti slíku.

En "pólítískur ómöguleiki" hefur náð þessum flokkum á hlaupunum, þá gefst oft best að losa sig við "byrðar" eins og stefnumál, sem hægir á í "stóladansinum".

 

 


mbl.is ESB-kosning ekki skilyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sífelld leit Íslenskra vinstrimanna að svikurum og sökudólgum

Ég held að innst inni hafi fæstir orðið hissa á því að vinstriflokkarnir fjórir næðu ekki saman í ríkisstjórnarmyndun.

En það kom ekki í veg fyrir að æstasti hluti Íslenskra vinstrimanna færi að leita að sökudólgum og svikara og beindust böndin og reiðin aðallega að Framsóknarflokknum.

En flestir flokkarnir sem tóku þátt í þessum samræðum virðast hafa verið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að skjóta styrkari stoðum undir hugsanlega stjórn.

Samfylking (og hugsanlega fleiri) virðist hafa verið þeirrar skoðunar að rétt væri að taka Viðreisn í samflotið (Þorbjörg Katrín sat þæg og góð á hliðarlínunni og lét góð orð falla til þeirra flokka sem stóðu í viðræðunum).

Framsóknarflokkurinn (og hugsanlega fleiri) var þeirrar skoðunar að Viðreisn væri ekki góð viðbót í hópinn.

Framsóknarflokkurinn leggur til að Miðflokknum verði boðið að koma að viðræðunum.

Samfylkingin (og hugsanlega fleiri) höfnuðu þeirri tillögu.

Þá er orðið ljóst að erfitt virðist að ná samkomulagi um hvaða flokki eigi að bæta í samstarfið og Framsóknarflokkurinn ákveður að þá sé ekki tilgangur með því að halda áfram með viðræðurnar.

Er það ekki hreinlega betra en að "teigja lopann" ef ekki næst samkomulag um hvaða flokkar eiga að stjórna saman?

Svo má sömuleiðis velta því fyrir sér hvort að ekki sé rökréttara að bjóða einum helsta sigurvegara kosninganna ríkisstjórnarþátttöku, frekar en fyrrverandi ríkisstjórnarflokki sem beið afhroð í kosningunum og hefur innan sinna vébanda fráfarandi fjármálaráðherra sem lagði fram fjárlagafrumvarp sem allir vinstriflokkarnir voru óhressir með?

Hver lagði þá stærri "stein í götu" viðræðnanna, sá flokkur sem hafnaði Viðreisn eða sá flokkur sem hafnaði Miðflokknum?

Um það er að sjálfsögðu skiptar skoðanir og um slíkt má lengi deila, en ef niðurstaða almennings í nýafstöðnum kosningum er tekin til hliðsjónar, liggur það í augum uppi.

En það kemur ekki í veg fyrir að æstir vinstrimenn tali um á sem ekki gera eins og þeim best þóknast sem svikara.

Það er því miður heldur ekkert nýtt í Íslenskri pólítík.

 

 

 


mbl.is Katrín hitti Sigmund Davíð í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kattarþvottur Pírata

Persónulega finnst mér þessi skýring Björns Leví ekki merkileg, frekar svona kattarþvottur. Ég veit ekki um neinn þingmann, fyrr eða síðar sem hefur talið sig þurfa að styðja öll mál ríkisstjórnar skilyrðislaust, þó að hann hafi talist til stjórnarmeirihluta.

Enda eru alþingismenn ekki bundnir neinu nema sannfæringu sinni.  Þannig hefur það alltaf verið.

En auðvitað hafa margir alþingismenn "spilað með liðinu", eins og það var kallað í eina tíð.

Enda er auðvelt að rökstyðja það, að það kunni að vera betra að styðja eitt og eitt mál sem er ef til vill þungt á samviskunni, frekar en að fella ríkisstjórn.

Líf ríkisstjórnar er þá talið vega þyngra á hagsmunavogarskál almennings en eitt einstakt mál, sem ef til vill er þingmanni ekki að skapi.

Þannig hafa málin líklega alltaf gerst á Alþingi og í raun ekkert út á það að setja.  Stundum þarf að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.  Slíkt er partur af stjórnmálum.

En allar tilraunir Björns Leví til að færa þetta í "orðskrúð" eru í raun til lítils, ef eitthvert mál er samþykkt með 32 atkvæðum hugsanlegrar ríkisstjórnar V,S.Bog P, gegn 31 atkvæði stjórnarandstöðu, er sá meirihluti sem stendur að baki samþykktinni með minnihluta atkvæða að baki sér.  En samt fyllilega löglega og lýðræðislega að málinu staðið, alla vegna að mínu mati.

Rétt eins og var í tíð fráfarandi ríkisstjórnar sem Birni fannst siðlaust.

En Björn sannar það enn að útsýnið er öðruvísi verandi í stjórnarandstöðu, eða styðja ríkisstjórn.

En það er heldur ekkert nýtt.

P.S. Þessi útskýring Björns hefur ábyggilega þótt merkileg austur í Hrunamannahreppi í dag og allir andað léttar yfir því að Píratar séu eftir allt saman enn prinsipmenn, þó í orðskrúði sé.

 

 


mbl.is Styddi ekki öll mál skilyrðislaust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert að marka Pírata? Engin prinsip?

Þetta er að mörgu leyti merkileg frétt. Því miður þykir mér hún að ýmsu leyti lýsandi fyrir Pírata, sem svo oft kjósa að tala eins og þeir tali ofan af einhverri "siðferðislegri hæð".

Slíkt reynist mörgum auðvelt þegar aldrei hefur reynt á eitt né neitt.

Það hafa margir stjórnmálamenn komist að því að það er auðveldara að tala digurbarkalega í stjórnarandstöðu, en þegar í ríkisstjórn er komið eða hillir undir það.

Ef til vill kynnast Píratar þeim sannleik nú.

Hvort að þeir muni svo þegar á hólminn er komið gefa eftir hvað varðar upptöku nýrrar stjórnarskrár óbreyttrar á eftir að koma í ljós.

Ég held að sú eftirgjöf yrði bæði Pírötum og þjóðinni til heilla. Ef til vill ekki Pírötum hvað varðar stuðning, en yrði þeim ef til vill þörf lexía á hinni pólítísku þroskabraut.

Slíkt yrði svo Íslendingum til heilla, svokölluð "win - win" uppákoma.

En ef til vill reyna Píratar að sníða slíkum "forneskju aðförum" ný klæði.  Það gæti verið skemmtilegt að fylgjast með því.

 

 

 

 


mbl.is Verður þetta minnihlutastjórn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterkt útspil frá Lilju og Framsóknarflokknum

Ég verð að viðurkenna að þessi tilkynning Lilju kom mér skemmtilega á óvart.  Persónulega held ég að þetta sé hárrétt afstaða hjá Lilju og Framsóknarflokknum.

Það er einfaldlega ekki rökrétt að eyða þeim tíma, kröftum og fjármunum sem slík umsókn kostar á nýhöfnu kjörtímabili.

Það ber sömuleiðis vott um pólítískan heigulshátt ef stefnt er að slíkri atkvæðagreiðslu í lok kjörtímabils.

Ef komandi ríkisstjórn (hvernig sem hún verður skipuð) vill virkilega stefna á "Sambandsaðild" og hafa þjóðaratkvæðagreiðslu, á að hafa hana sem fyrst, þannig að komandi ríkisstjórn hefji þá vinnu og hafi fast að 3. árum til að vinna að aðlögunarumsókninni.

En hvort að það sé á meðal aðkallandi verkefna og best sé að skella Íslendingum út í enn eina kosningabaráttuna, er sjálfsagt skiptar skoðanir um, en ég fagna hve Lilja kveður sterkt að í þessum efnum.

En þessi yfirlýsing er fyrir margra hluta sakir athyglisverð.

En sýnir að Framsókn er vel miðvituð um sterka stöðu sína sem "kingmaker" og að hún er reiðubúin til að nota hana vel.

Það er líka athyglisvert að það er Lilja sem stígur fram með þessa yfirlýsingu, en ekki Sigurður Ingi, sem talar meira í véfréttastíl.  Það myndi ég telja vísbendingu um sterka stöðu Lilju innan flokksins og svo aftur "hreinan og beinan" pólítískan stíl hennar.

Sem að ég hygg að til lengri tíma litið eigi eftir að reynast henni vel.

 


mbl.is Hafnar þjóðaratkvæði um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband