Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2020

Er Covid-19 verra en flensa? Líklega fer að eftir því við hvaða flensu og hvaða land er miðað

Margir hafa sagt að Covid-19 sé ekkert verri en venjuleg flensa.  Ég er ekki alveg sammála því.

En er Covid-19 verri en mjög slæm flensa?  Ef þannig væri spurt ætti ég erfiðara með því að gefa ákveðið svar.

Tökum sem dæmi flensuna sem geysaði 1968.  Hún var gjarna kölluð "Hong Kong flensan" og sumir kölluðu hana jafnvel "Maó flensuna".  Það var auðvitað áður en en sú hugsun læddist að nokkrum manni að það samræmdist ekki "nútíma hugsunarhætti" að kenna veikindi við uppruna þeirra, hvað þá "sósíalíska leiðtoga sem veittu sólskini yfir jarðarkringluna".

Hún þótti "nýjung" þá, en er eftir því sem ég kemst næst nákskyld því sem við köllum influensu A, í dag.

En hvað veiktust margir af "Hong Kong" flensunni og og hvað margir létust?

Um það er alls ekki einhugur. Lægstu tölur segja ríflega milljón einstaklinga hafa látist, en hæstu tölur eru í kringum 4. milljónir.  Það voru líklega ekki birtar daglegar tölur þá, eins og tíðkast nú.

Engin virðist hafa nokkra hugmynd um hvað margir veiktust.

Líklega hefðu áhrif "Hong Kong flensunnar" orðið mun meiri og alvarlegri, hefði bóluefni ekki komið til sögunnar 4. mánuðum eftir að hennar varð fyrst vart.

Það sama má reyndar segja um "venjulegu flensuna" sem herjaði á heimsbyggðina árið 1957.

Rétt er að hafa í huga að árið 1968 voru íbúar heimsins álitnir u.þ.b. 3.5 milljarðar, eða vel undir helmingi af þeim 7.5 milljörðum sem taldir eru búa þar í dag.

Árið 1957 voru íbúar heimsins taldir tæplega 2.9 milljarðar.

Það má því vera nokkuð ljóst að flensurnar 1957 og 1968 hjuggu líklega stærri skörð í íbúafjölda heimsins heldur en Covid-19 hefur náð að gera, en vissulega er heimsbyggðin ekki búin að bíta úr nálinni með Covid-19 enn.

Ef miðað er við hærri tölurnar um dauða 1957 og 1968, þyrftu dauðsföll að ná fast að 10. milljónir, til að vera hlutfallslega sambærileg.

Enn sem komið er er því Covid-19 verra en hefðbundin flensa, en ekki eins slæmt eða svipað og "slæm flensuár".

En þá eins og nú urðu lönd mjög misjafnlega fyrir barðinu á "óværunni".  Talið er að t.d. 100.000 einstaklingar hafi látist í Bandaríkjunum 1968/69/70 (tveir vetur) af völdum flensunar.  Þá voru íbúar þar í kringum 200 milljónir.  Það er því nokkuð ljóst að Bandaríkin eru að fara heldur verr út úr "kófinu" en flensunni 1968.

En sé litið til Þýskalands er talið að í kringum 60.000 einstaklingar hafi látist í Austur og Vestur Þýskalandi. 

Það er mikið hærri tala en nú af völdum Kórónuveirunnar. Þó hefur íbúum sameinaðs Þýskalands fjölgað verulega.

Til dæmis er talað um að dauðsföll hafi verið svo mörg í Berlín að líkum hafi verið staflað í neðanjarðarlestargöngum.  Ekki hafi hafst undan við að grafa þá sem dóu og sorphreinsunarmenn hafi verið "shanghæjaðir" í störf grafara.

Í Frakklandi var talið að allt að helmingur vinnandi fólks hafi lagst í rúmið.

Það var einnig mjög mismunandi eftir löndum hvort að fyrri bylgjan (68/69) olli fleiri dauðsföllum en seinni bylgjan (69/70).

En yfirleitt var gripið til lítilla eða engra sóttvarnaraðgerða, þó að vissulega færu margir varlega.

Það er til dæmis vert að hafa í huga að á milli fyrri og seinni bylgjunnar í Bandaríkjunum, eða sumarið 1969, nánar tiltekið í ágúst, var blásið til Woodstock.  Það var síðan í október sem seinni bylgjan fór á fulla ferð.

Eins og velþekkt er úr sögunni vantaði heldur ekki mótmælasamkomur á þessum árum, hvorki í Bandaríkjunum eða Evrópu.

Bæði forseti og varaforseti Bandaríkjanna smituðust af flensunni og yfirleitt er talið að geimfari, sem varð veikur á braut um jörðu hafi smitast af þeim. Hann var þó aðeins 1. af 3.

Þeir sem kannast við hugtakið "68 kynslóðin" gera sér líklega grein fyrir því að fjölmenn mótmæli áttu sér stað bæði austan hafs og vestan á þessum árum.

Það er reyndar eftirtektarvert hve erfitt er að finna yfirgripsmiklar heimildir um þessa faraldra sem þó kostuðu svo mörg mannslíf.

En líklega var tíðarandinn annar. 

Samfélagsmiðlar þekktust ekki, fjölmiðlun var allt önnur og samfélagið sömuleiðis.

Hvernig skyldi verða fjallað um "kófið" að 50. árum liðnum?  Verður fókusinn á hættuna?  Eða viðbrögðunum?

Eða verður þetta að mestu leyti gleymt?

 


Undarleg landa- og hagfræði Þorgerðar Katrínar?

Í fyrsta lagi er rétt að benda Þorgerði Katrínu á að Evrópa er ekki það sama og Evrópusambandið.

Rétt ríflega helmingur ríkja (þjóða) Evrópu er í "Sambandinu".

Verðbólgutölur eru verulega mismunandi á milli þessara ríkja.

Síðan eru "Sambandslöndin" og svo má einnig tala um "Eurosvæðið".  Þar eru einnig mjög mismunandi tölur á milli ríkja.

Vissulega er verðhjöðnun á "Eurosvæðinu".  Hún mældist í október mínus 0.3%.  Í Evrópusambandinu er hins vegar 0.3% verðbólga.  Þessu tvennu, þó skylt sé, er best að rugla ekki saman.

Verðhjöðnun þykir ekki eftirsóknarverð.

En það þarf einnig að líta til þess að meðaltal þessara ríkja segir ekki nema hálfa söguna.

Mjög mismunandi verð/bólga/hjöðnun er í þessum ríkjum.

Þannig er verðhjöðnun í Grikklandi 2%. En verðbólga mælist 1.6% í Slóvakíu.  Bæði þessi lönd nota euro sem gjaldmiðil.

Verðbólgan í Ungverjalandi (3.0%) er svo allt önnur en í Austuríki (1.1%) sem og verðhjöðnunin í Eistlandi (1.7%), eða hjöðnun á Írlandi (1.5%).

"Hagstofa Sambandsins" gefur verðbólgu á Íslandi upp sem 1.7%. Nákvænlega sama verðbólga er gefin upp í Noregi.

Verðbólga á Íslandi er líklega gefin upp lægri en tölur sem heyrst hafa frá Íslandi, vegna mismunandi reikniaðferða. En best er auðvitað að bera saman með sömu aðferðinni.

En þegar kemur að atvinnuleysi kýs Þorgerður Katrín að nefna Þýskaland til samanburðar við Ísland.  Það er reyndar frekar gömul "lumma" hjá "Sambandssinnum" að nefna Þýskaland til samanburðar, rétt eins og allt á Íslandi verði eins og í Þýskalandi, ef og aðeins Ísland gengi í "Sambandið":

Auðvitað er það fjarri lagi, enda þarf ekki að skoða tölur frá "Sambandinu" lengi til að gera sér grein fyrir því að aðildarlöndin þar eru ekki eins og Þýskaland, þó að stundum hafi verið haft að orði að ef þau öll "hegðuðu" sér eins og Þýskaland, væri "Sambandið" mun betur statt.

Reyndar er mér sagt að atvinnuleyistölur séu á þessum tímapunkti "svo lítið á reiki", ef þannig má að orði komast vegna mismunandi aðgerða stjórnvalda á hverjum stað.

Þannig vilja sumir halda því fram að atvinnuleysi í Þýskaland sé allt að því tvöfallt það sem talað er um, vegna þess að Þýska ríkið greiði 60% af launum þeim sem eru með skertar vinnustundir eða jafnvel engar.

En það er erfið barátta fyrirsjáanleg á næsta ári, ekki bara á Íslandi heldur víðast um heim.

En það er í mínum huga alveg ljóst að Ísland er langt í frá eina Evrópulandið sem býr við verðbólgu.

Flestir myndu líklega segja sem betur fer, því verðhjöðnun þykir ekki æskileg.

Það er eiginlega svolítill "upplýsingaóreiðubragur" yfir fullyrðingu Þorgerðar Katrínar.

 

 


mbl.is Eina þjóðin í Evrópu sem upplifir verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lamin til óbóta af lögreglu fyrir að vera ekki með grímu?

Það er nöturlegt að lýsa lýsingar af barsmíðum Franskra lögreglumanna á Michel Zecler, í Parísarborg.

Ef marka má fréttir Franskra fjölmiðla vakti maðurinn athygli lögreglu vegna þess að hann var ekki með grímu.  En grímuskylda er á almannafæri í París.

Eða eins og segir m.a. í frétt France24:

According to the police officers' written declarations, Zecler drew their attention because he was not wearing a mask on the street, French media reported. Face masks are mandatory in Paris outdoors amid the Covid-19 pandemic.

Þetta atvik kemur á sama tíma og ríkisstjórn Macron er að leggja fram lagafrumvarp sem meinar fjölmiðlum (eða öðrum) að birta myndir af lögregluþjónum þar sem þeir eru þekkjanlegir.

Það er því vægt til orða tekið að segja að þetta lögregluofbeldi komi á "versta tíma" ef svo má til orða taka.

Það að lögreglumenn skuli nota grímuskyldu sem afsökun fyrir ofbeldi sínu vekur upp ýmsar hugsanir.

Einn kunningi minn hefur oft haft að orði: "Þegar litlir menn kasta löngum skugga, mega menn vita að sólin er að setjast."

Hér að neðan er myndband úr öryggismyndavél af ofbeldinu.  Upplýsandi en óþægilegt áhorfs.

 

 

 

 


mbl.is Macron í uppnámi vegna barsmíða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Umhugsunarmatur"

Nú er mikið rætt um bóluefni og eðlilega eru miklar vonir bundnar við þau.  Enn er þó ekki sopið kálið eins og stundum er sagt.

En ég hef mikla trú á því að bóluefni verði samþykkt innan tíðar.  Ein af þeim stofnunum sem við setjum traust okkar á í þeim efnum  er hin Bandaríska FDA (Food and Drug Administration) sem við myndum líklega þýða sem "Matvæla og lyfjastofnunin".

En er það ekki svolítið merkilegt að þegar kemur að því að sprauta bóluefni í vöðva virðast langflestir treysta vísindamönnum FDA til að vinna rannsóknir sínar einarðlega og af heiðarleika (sem ég tel þá gera).

Síðan þegar kemur að vísindarannsóknum þeirra á t.d. kjötræktun eða því hvort að óhætt sé að snæða "klórbaðaðan" kjúkling, er ótrúlega stór hópur sem telur vísindamenn sömu stofnunar á algerum villigötum og best sé að hundsa þær með öllu.

P.S. Rétt að taka það fram út frá "lesskilningssjónarhorni", að ég er ekki að segja að vísindamenn FDA muni ekki standa rétt að úttekt á bóluefni, heldur hitt að ég er að hvetja fólk til að velta því fyrir sér hvernig á þessu standi.

 

 


Boð og bönn draga oft fram verstu hliðar samfélagsins og svarta markaðinn

Það er eiginlega segin saga að sterkt yfirvald, boð og bönn draga fram verstu hliðar margra einstaklinga.

Boð og bönn leiða mjög gjarna fram tilhneygingu hjá mörgum til að hafa "eftirlit" með samborgurum sínum  og nágrönnum og tilkynna þá til yfirvalda.

Einstaklingnum sem tilkynnti um ólöglegan fjölda í barnaafmæli hlýtur t.d. að hafa liðið vel með að hafa uppfyllt borgaralega skyldu sína.

Það sama gildir líklega í þessu tilfelli, ég hef enga trú á því að lögreglan hafi tekið upp á þessu án ábendingar.

Eins og einn eldri kunningi minn sem er upprunninn í A-Evrópu sagði, þetta er næstum eins og að vera kominn heim í "Sovétið".

"Það eru biðraðir í búðir, klósettpappír af skornum skammti, helst vilja menn ferðatakmarkanir og svo eru nágrannar að klaga hvorn annan."

Þetta sagði hann í "léttum dúr" og hló við. En hann sagði mér líka frá því, og það hef ég reyndar orðið svolítið var við sjálfur, að "svarti markaðurinn" blési út.

Hann vildi meina að það spyrðist fljótt út að það væri hægt að láta klippa sig "þarna", í þessum bílskúr væri hægt að fá olíuskipti, þessi væri með litla líkamsræktarstöð í kjallaranum og naglapússerí og því um líkt færi fram í heimahúsum.  En hafið í huga að hér er ég ekki að tala um Ísland.

Því lengur sem "kófið" varir, því lengur sem boð og bönn verða í gildi, þeim mun sterkari mun "svarti" hvatinn verða.

Ég held að það eigi eftir að verða umtalsverð "ókyrð" í þjóðfélögum viða um heim. Líklega verður ástandið ekki verulega slæmt fyrr en eftir áramót.  En tjónið víðast hvar er að verða gríðarlegt. Ef "jólavertíðin" sem svo margir hafa treyst á hverfur þá eiga margir enga endurkomuleið. 

Það er heldur engin leið til að stjórnvöld, hvort sem er á Íslandi eða annars staðar, geti bætt það tjón.

 

 


mbl.is Furðar sig á gluggagægjum lögreglunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annað sjónarhorn í kórónubaráttunni - Sóttvarnaraðgerðir Reykjavíkurborgar og Dags

Það getur verið merkilegt að sjá fréttir frá "öðru sjónarhorni" en venjulega. Hér er t.d. myndband frá góðgerðarstofnum Michael Bloomberg, sem fjallar um hvernig Reykjavíkurborg og borgarstjórinn hafa leitt baráttuna gegn Kórónuveirunni.

Borgin og borgarstjórinn hafa verið leiðandi í rakningu smita, raðgreiningu á stökkbreytingium á veirunni.

Borgin og borgarstjórinn voru í startholunum þegar fyrstu smitin komu til borgarinnar.

Það er vonandi að enginn missi af sóttvarnarfundum Dags B. Eggertssonar, þar sem hann kynnir sóttvarnaraðgerðir sínar.

 

 

 

 

P.S.  Þegar ég sé "fréttir" sem þessar verð ég stundum allt að því þunglyndur, en um fram allt hugsi.

Getur verið að margar af þeim fréttum sem ég sé frá "fjarlægum stöðum", séu jafn rangar og þessi?

En hér má lesa frétt Vísis um þetta mál og mér var bent á.

 


Hverjir mega baka piparkökur - nú eða sörur?

Eftir umræður hér á blogginu mínu um lögverndun starfsgreina var mér bent á að Íslendingar ræddu mikið sín á milli og eitthvað í fréttum um "svartar sörur".

En vaxandi eftirspurn mun vera eftir slíku lostæti meðal Íslendinga.  Mér var sagt að þeir umsvifamestu bökuðu og seldu þúsundir sara fyrir jólin.

En þetta er auðvitað ólöglegt. 

Slíkur bakstur ætti að fara fram hjá fagmanni, í viðurkenndu rými, þar sem heilbrigðiseftirlit hefur gefið sinn stimpil, og svo þarf að sjálfsögðu að gjalda ríkinu það ríkisins er.

Þó að ég sjái ekkert því til fyrirstöðu að "ófaglærður bakari" geti sett á stofn lítið fyrirtæki og bakað sörur, get ég ekki séð hvernig hægt er að verja um slíkt gildi ekki sömu lög og sömu kröfur séu gerðar og til annara fyrirtækja í sama geira.

Eðli máls samkvæmt eiga allir að vera jafnir fyrir lögum og reglugerðum.

En hvað varðar lögverndun starfsgreina er hægt að bera samtn t.d. mismunandi matvælaframleiðslu.

Íslendingar hafa gengið í gegnum það sem kalla má "ísbyltingu". Alls staðar eru ísbúðir. 

Þó eru til þess að gera fá ár síðan að segja má að svo gott sem allur ís hafi verið framleiddur í tveimur fyrirtækjum.

En það er ekki boðið upp á nám í ísgerð (að ég best veit), og ísgerðarmaður er ekki lögverndað starfheiti. 

Væru allur þessi fjölbreytileiki í ísgerð á Íslandi ef svo væri.

Um slíkt er ekki hægt að fullyrða, en ég tel það ólíklegt.

En skortur á skóla fyrir ísgerð hefur ekki komið í veg fyrir metnað eða að ísgerðarmenn afli sér þekkingar.

 

 


Að fljúga í "kófinu".

Persónulega er ég ekki sótthræddur. Hvað Kórónuveiru varðar, er ég líklaega ekki í sérstökum áhættuhópum, nema ef til vill vegna ummáls sem er heldur meira en telst til fyrirmyndar.

En ég virði lög og reglur og forðast óþarfa áhættu.  Það hef ég gert um margra ára skeið, enda hefur minn betri helmingur (sem er heilbrigðismenntuð) kennt mér allt um handþvott, hættulega lyftuhnappa o.s.frv. um langa hríð.  Purell er vörumerki sem ég kynntist fyrir einhverjum tuga ára.

Það er líka svo að ef verslanir vilja að ég sé með grímu, þá er ég með grímu. 

Ef lönd vilja að ég fari í sóttkví (sem ég hef gert) þá fer ég í sóttkví. 

Grundvallardæmið er að skilja, að þú átt ekki rétt á því að verslun þjónusti þig, heldur verður þú að fara eftir þeim reglum sem vsrslunin setur og henni eru settar.

Að þú sérst andvígur þeim, fríar þig ekki að fara eftir þeim, ekki frekar en hraðatakmörkunum.

En það breytir því ekki að ég þurfti að fljúga og gerði það án nokkura hræðslu nema yfir þeim skilyrðum ég yrði að fylgja.  Það var helst að ég fyndi fyrir örlitlu "stressi", þegar ég var hitaskannaður rétt fyrir brottför.  Það hefði verið ótrúlega svekkjandi að vera stöðvaður á síðustu stundu, sérstaklega eftir að hafa tekið annað flug fyrr um morgunin.

En tveir leggir með Lufthansa (sem ég kalla yfirleitt Luftwaffe" voru alls ekki svo slæmir.

Þjónusta um borð var til fyrirmyndar. Handfarangurs fyrirkomulag var líkt og alltaf hefur tíðkast, settur í þar til gerð hólf ofan sætis.

Matur var framreiddur og drykkir eins og var kallað eftir.

Kaffi, te, áfengi, jafn sterkt sem léttara, vatn,  allt var til reiðu eins og óskað var eftir, enda full áhöfn að þjónusta ótrúlega fá farþega.

En auðvitað þurfti ég að sitja með grímu allan þann tíma sem ég neytti ekki matar eða drykkjar.

Það held ég að hafi stuðlað að því að margir farþegar treindu sér matinn og pöntuðu fleiri drykki en ella, en ég hef svo sem engar sannanir að færa fyrir því, nema það að ég gerði nákvæmlega það. En það var heldur ekki svo að við "sirka bát" 60 farþegar sem deildu Airbus 340 þotu á lengri leggnum hafi setið mjög þétt saman, nema þeir sem ferðuðust saman.

Jafnvel á styttri leggnum, og í minni þotu sátu engir þétt saman.

Mesta raunin var að sitja með grúmu í 9 tíma flugi og jafnfram að þurfa að vera með grímu í þá 6 tíma sem þurfti að bíða eftir tengiflugi.

Þó var það svo að á hvorugum stað þurfti að nota grímu á meðan matar eða drykkjar var neytt, þannig að eðlilega komst ég að þeirri niðurstöðu að þægilegast væri að neyta eins mikið af mat og drykk og mögulegt var.

Það var alls ekki slæmt, þó drykkirnar yrðu ef til vill örlítið fleiri en ella. Það er auðveldara að bæta á sig drykkjum, en mat.

En það er vert að minnast á það, að þó ég hafi vissulega ekki "móníterað" aðra farþega þá var ég eini farþeginn sem ég varð var við að skipti um grímu reglulega.

Aðrir virtust sitja með sömu grímuna allan tímann. Margir reyndar með "margnota" grímur sem ég tel hafa afskaplega lítinn tilgang.  Sem aftur vekur upp spurningar um gagnsemi/hættu af grímunotkun. En það er önnur saga.

Það erfiðast við ferðalagið var tvimælalaust sú 14. daga sóttkví sem ég þurfti að "sitja af mér", en ekkert annað var í boði en að hlýta slíku.

Það hafa margir fullyrt að ferðavilji sé ekki til staðar.  Það tel ég rangfærslu.  Vissulega hefur ferðavilji minnkað, það liggur í augum uppi.

En langt frá því horfið.  Á þeim tíma sem ég eyddi í flughöfninni í Frankfurt, fóru 2 Boeing 747 vélar til "sumarleyfistaða" í Mexíkó.  Ég held að flesta daga fari 3. eða fleiri flugvélar frá Frankfurt til Tenerife.

Á Tenerife lenda enda tugir flugvéla á hverjum degi.

Litlar líkur eru taldar á því að smitast í flugi.

En auðvitað eru mismunandi kenningar um hvar smitin gerast og einn lygari getur sett hundruðir þúsunda í "lockdown", hræðsla er eitt af því sem "drífur" mannskepnuna áfram og sumir telja að víð þurfum fátt að hræðast meira en hræðsluna sjálfa.


mbl.is Meiri áhætta að fara út í búð en í flug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn bannaðir á barnum - til að hindra útbreiðslu heimskunnar

Svona af því að það er föstudagur og það verður að treysta á að kórónuveirunni hafi ekki tekist að útrýma kímnigáfunni, svona almennt séð, birti ég hér "lauflétta" frétt frá Eistlandi.

Þar hefur "Mad Murphy", vel þekktur "Írskur pöbb", sem stendur við Ráðhústorgið í Tallinn sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:

"We here at the bar have decided to behave as intelligently as the government, and to prevent the spread of stupidity, all members of parliament shall now no longer be served in our fine establishment."

"This ban shall remain in force until February 2021 when we shall review the situation. We hope that this message is spread far and wide, and that other bars and restaurants will also implement this ban,"

Hér má sjá frétt Eistneska ríkisútvarpsins um málið.


Hvaða "lögverndun" má afnema?

Nýleg skýrsla frá OECD hefur komið af stað umræðu um niðurfellingu lögverndunar á ýmsum starfsheitum.

Talað var um bakara og ljósmyndara, og svo er hér í viðhengdri frétt minnst á hag- og viðskiptafræðinga.

Ég hef séð minnst á að sömuleiðis mætti fella niður lögverndun lögfræðinga og sjálfsagt eru um málið skiptar skoðanir, sem og um lögverndun einstakra starfsheita.  Einn kunningi minn sagði einu sinni að ótrúlega hátt hlutfall af lögfræðingum væru lítið annað en mjög vel menntaðir rukkarar.

Fyrir ekki svo löngu síðan var tekist á um hvort að lögvernda ætti starfsheiti leiðsögumanna.

Mér hefur skilist af fréttum að engin þjóð lögverndi fleiri starfsheiti en Íslendingar.

Ég held að flestir séu þeirrar skoðunar að skólaganga sé almennt til góðs og skapi þekkingu og færni.

En skólaganga er ekki eina leiðin til þess.

Margir af bestu ljósmyndurum jafn á Íslandi sem heiminum öllum hafa aldrei setið á skólabekk í faginu.

En skapaði það hættu fyrir almenning ef einhver þeirra opnaði stofu og tæki portrett myndir gegn gjaldi?

Ég efast heldur ekkert um að bakaranám sé gagnlegt og gott. En er það hættulegt ef einhver sjálflærður bakari (sjálflærður bakari er auðvitað ekki til eftir Íslenskum lögum) opnar lítið bakarí og selur kökur og kleinur?

Nú eða pantar frosin hálfbökuð brauð frá útlandinu og stingur þeim í ofn?

Gildir ekki svipað um t.d. málara?  Er einhverjum hætta búin af því að ráða ófaglærðan málara?

Gildir ekki orðsporið frekar en menntunin í þessum fögum? Eftir sem áður gætu fagmenntaðir fundið sér einhverja merkingu, til að láta vita af menntun sinni.  Neytandinn myndi síðan velja.

Ég get heldur ekki séð hættuna af því að sjálflærðir hagfræðingar láti ljós sitt skína, þó að líklegt sé að nám í faginu eigi að geta gefið forskot.

Það sama gildir um viðskiptafræðinga.  Auðvitað gefur nám ákveðið forskot, en einstaklingur sem hefur t.d. rekið eigið lítið fyrirtæki til fjölda ára hefur líklega byggt upp mikla þekkingu.

En ég held að það sé þarft að velta þessum málum upp og ég held að án efa megi fækka lögvernduðum starfsheitum að einhverju marki og sjálfsagt að taka skýrslu OECD með opnum huga.

Hér má finna skýrslu OECD

og hér Íslenska þýðingu, sem ég rakst á, á völdum köflum hennar.

 

 

 


mbl.is Vill hætta lögverndun hag- og viðskiptafræðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband