Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Sigurvegari með og án forgjafar

Það hefur víða um netið mátt sjá misjafnar skoðanir á þvi hverjir eru sigurvegarar kosninganna. Sumir vilja fyrst og fremst miða við að sá sem hlýtur flest atkvæði sé sigurvegari.

Það er fullgilt sjónarmið.

Þannig er það í mörgum keppnisíþróttum.  Ef KR sigrar til dæmis Val 2 - 1 í ár, en sigraði Val 5 - 1 í fyrra, þýðir það ekki að Valur sé sigurvegari í ár.

Í þessum skilningi er auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn sigurvegari kosninganna.  Hann hlaut flest atkvæði, um það verður ekki deilt.

En svo er það golfið.  Þar er keppendum úthlutað forgjöf eftir settum reglum og oft keppt með og án forgjafar.

Ekki ætla ég að fara að úthluta pólítískri forgjöf, en sé reiknað út frá stöðu flokka fyrir kosningar og í sögulegu samhengi, fæst auðvitað önnur niðurstaða.

Það er líka fullgilt sjónarmið.

Það er því ekki hægt að segja að það sé neitt óeðlilegt við að Sigmundur hljóti umboð til stórnarmyndunar, en það er þó langt í frá sjálfgefið.

Svo er auðvitað umboðið til stjórnarmyndunar ofmetið.  Allir stjórnmálaforingjar (og fleiri) hafa auðvitað fullt frelsi til að tala sín á milli, án sérstaks umboðs.

Það er síðan þingstyrkur sem  í raun ræður. 


mbl.is Sigmundur boðaður til Bessastaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll á undarlegum slóðum - Alþingi hefur lýðræðislegt umboð frá kjósendum - líka til breytinga

Það er auðvitað gott að ríkisstjórn hafi meirihluta kjósenda á bakvið sig og það gefur henni sterkara og skemmtilegra yfirbragð.

En Alþingi Íslendinga hefur fullt lýðræðislegt umboð frá þjóðinni - líka til breytinga á þjóðfélaginu. Jafnvel þó að þeir einstaklingar sem sitja á Alþingi hafi ekki 100% kjósenda á bak við sig (líklega hefur það aldrei gerst), þá hefur meirihluti Alþingis eigi að síður lýðræðislegt umboð til breytinga á þjóðfélaginu.

En Árni Páll talar á undarlegum nótum.   

Ef mynduð yrði ríkisstjórn Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna, hefði hún samanlagt 48.2% atkvæða á bakvið sig.  En 35 þingmenn.

Lítur formaður Samfylkingarinnar svo á að slík ríkisstjórn hefði ekkert lýðræðislegt umboð til þess að gera breytingar á þjóðfélaginu? 

Ef mynduð yrði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar, væri hún með 50.5% atkvæða, en sömuleiðis 35 þingmenn.  Það væri þá eftir skilgreiningu Árna Páls, ríkisstjórn sem hefði umboð til breytinga.

Hún væri þá eina mögulega þriggja flokka ríkisstjórnin sem hefði umboð til breytinga á þjóðfélaginu - eftir skilgreiningu Árna Páls, eða hvað?

Ef við göngum út frá þvi sem staðreynd að ríkisstjórnir vilji breyta þjóðfélaginu, og skilgreining Árn Páls er notuð líka, þá koma eingöngu til greina ríkisstjórnir skipaðar Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki annars vegar og ríkisstjórn skipuð Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Vinstri grænum hins vegar.  Þriðja leiðin væri svo 4ja flokka stjórn.  (sleppi hér möguleikunum á D og B plús þriðji flokkur). 

En auðvitað er það ekki svo.

Meirihluti Alþingis hefur fullt umboð til að gera breytingar á þjóðfélaginu. 

Ummæli Árna Páls voru ekki rökrétt.  

P.S.  Skyldi þetta þýða að Árni Páll myndi ekki vilja sitja í ríkisstjórn Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna?  Það er varla áhugavert að sitja í ríkisstjórn sem ekki hefur lýðræðislegt umboð til að breyta þjóðfélaginu.


mbl.is Kannast ekki við viðtal við BBC
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið lýðræðislega umboð til að breyta þjóðfélaginu

Það er auðvitað ekki rétt að ganga út frá því sem orðnum hlut að Sjálfstæðiflokkur og Framsóknarflokkur myndi saman næstu ríkisstjórn.  

En ef við tökum umræðu, út frá þeim punkti hefur slík ríkisstjórn fullt umboð til að breyta þjóðfélaginu.

Fyrsta "tæra vinstri stjórnin" sem Árni Páll Árnason, núverandi formaður Samfylkingar var um tíma ráherra í, var studd af Samfylkingu og Vinstri grænum.

Saman hlutu þessir tveir flokkar 51.6% greiddra atkvæða í síðustu kosningum.

Ekki man ég eftir því að Árni Páll, eða nokkur annar stuðningsmaður stjórnarinnar talaði um að hún hefði ekki lýðræðislegt umboð til að breyta þjóðfélaginu.

Þvert á móti varð vart við það sjónarmið að hún hefði umboð til að umbylta þjóðfélaginu.

Jafnvel eftir að þingmenn fóru að yfirgefa ríkisstjórnarflokkana og meirihluti hennar á Alþingi varð æ tæpari taldi ríkisstjórnin sig hafa fullt umboð til að "keyra" í gegn umdeild mál.

Jafnvel eftir að Íslenskir kjósendur höfðu tvisvar neitað ríkisstjórninni um að koma IceSave máliinu í gegn, eins og ríkisstjórnin vildi afgreiða það, taldi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sig hafa fullt umboð til að halda áfram að gera breytingar á þjóðfélaginu.

Vegna þess hve veikburða og rúin trausti ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var á seinnipart kjörtímabilsins, breyttist Alþingi í undarlegan skrípaleik.  Ekki síst vegna þess að ríkisstjórnin neitaði að leita til kjósenda, en taldi sig hafa fullt umboð til áframhaldandi breytinga á þjóðfélaginu.

Ef mynduð verður ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur hún 51.1% atkvæða á bak við sig.  Hálfu prósentustigi minna en "tæra vinstri stjórnin" hafði.  

Það hálfa prósentustig, ræður varla hvort ríkisstjórn hefur umboð til að breyta þjóðfélaginu eður ei.

En ég vona, og líklega flestir Íslenskir kjósendur, að komandi ríkisstjórn, hvernig sem hún verður skipuð, takist að skapa meiri sátt og festu, bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu.

Því kjósendur kalla á breytingar í þjóðfélaginu.

Það sýna kosningaúrslitin.

Það sýnir Evrópumetið í tapi sem vinstri stjórnin setti.

Það sýnir útreiðin sem Samfylkingin fær.  Íslandsmet í tapi stjórnmálaflokks er hennar.

 


mbl.is Ekkert umboð til að breyta þjóðfélaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álítsgjafarnir og spuninn

Ég hef alltaf gaman af því að heyra hvað "álitsgjafarnir" hafa að segja um stjórnmálaástandið og ekki síður nú, um niðurstöður kosninga.

Ekki það að ég trúi, eða leggi mikinn trúnað á það sem þeir segja, en það er alltaf gaman að heyra skoðanir út fyrir ramma frambjóðenda og ekki síður er oft gaman að reyna að leggja eyrun við og skynja "spunann".

Tvær megin fjölmiðlasamteypurnar á Íslandi eru Ríkisútvarpið  (margir vilja ekki að það sé kallað RUV) og svo 365 miðlar.  Helstu stjórnmála og "álitsgjafaþættirnir" hjá þeim eru annars vegar Silfur Egils og svo Sprengisandur.  Annar í útvarpi og hinn í sjónvarpi (þó að í raun geri myndmálið engan mun).

Eftir stóratburð eins og kosningar, finnst mér því oft sérstaklega gaman að leggja eyrun við þætti í þeim dúr.

Yfirleitt reyna þættirnar að bjóða upp á "álitsgjafa" sem dekka nokkuð hið pólítíska litfróf, þannig að hlustendur fái að heyra mismunandi sjónarmið.

Ég fór því á netið, eins og oft áður, og hlustaði á megnið af fyrrgreindum þáttum.

Auðvitað voru báðir þættirnir fullir af leiðtogum stjórnmálaflokkana, við því er að búast.  En síðan voru "álitsgjafar" í stúdíonum sem líklega áttu að dekka hið "pólítíska litróf".

En það sem vakti sérstaka athygli mína, voru þeir sem áttu að dekka litrófið þegar kom að Sjálfstæðisflokknum.  Þar var Ríkissjónvarpið með Ólaf Stephensen, ritstjóra frá hinni fjölmiðlasteypunni, og yfirlýstan "Sambandssinna" innan Sjálfstæðisflokksins.

Á Sprengisandi var hins vegar fengin til að gefa álit á stöðunni, Benedikt Jóhannesson, sem er sömuleiðis yfirlýstan "Sambandssinna" innan Sjálfstæðisflokksins, og ef ég man rétt formaður "Sjálfstæðra Evrópu(sambands)manna.

Þannig má ef til vill finna skýringu á því hver vegna svo margir halda að "Sambandssinnar" séu svo sterkir innan Sjálfstæðisflokksins.  Það er að segja að þeir eru hlutfallslega "yfirkynntir" í fjölmiðlum. Skoðanakannir benda hins vegar til þess að rétt ríflega 7% af Sjálfstæðismönnum vilji ganga í "Sambandið".

Svo er aftur líka ástæða til þess að velta því fyrir sér, hvort að það finnist engin "álitsgjafi" sem telst tala "röddu" Framsóknarflokksins?

Eða er ef til vill engin ástæða til þess að hafa neinn "álitsgjafa" sem sér úrslitin örlítið frá sjónarhóli sigurvegarans?

 


Þjóðin kaus það sem hún á skilið. Hún á ekki skilið Ólínu Þorvarðardóttur og Samfylkinguna

Ég er alveg sammála Ólínu Þorvarðardóttur.  Þjóðin kaus það sem hún á skilið.

Þjóðin á ekki skilið Ólínu Þorvarðardóttur og Samfylkinguna.  

Í raun er það ekki flóknara en það.

En það er sorglegt að sá svo marga á vinstri kantinum, kenna þjóðinni um dapurt gengi síns og sinna flokka.

Þeim væri hollara að líta í spegilinn.


mbl.is Ráðaleysi, baktjaldamakk og hljóðskraf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarmaðurinn sem klauf Samfylkinguna

Þegar leitað hefur verið skýringa á því afhroði sem Samfylkingin bíður í þessum kosningum, staldra margir við mörg framboð á vinsri vængnum.  Sérstaklega vilja margir horfa til þeirra atkvæða sem Björt framtíð hlýtur og segja að stefnumálin séu keimlík, án þess að BF hafi þurft að svara fyrir erfiðu málin.

En það hlýtur að vekja nokkra eftirtekt, að Framsóknarþingmaðurinn fyrrverandi, Guðmundur Steingrímsson, hafi náð að "kljúfa" Samfylkinguna.

Reyndar er málið ekki svo einfalt.  Guðmundur Steingrímsson var vissulega varaþingmaður Samfylkingarinnar, áður en hann gekk til liðs við Framsóknarflokkinn, og sagði sig síðan úr honum.

En svo hafa margir fullyrt (og það hef ég gert sjálfur) að svo gott sem engin munur sé á stefnu BF og Samfylkingar.  Það  hafa gert stjórnmálamenn s.s. Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson.  Jóhanna fullyrti það í Kryddsíldinni (og þar neitaði Guðmundur því ekki) og Össur sagði að BF hefði enga pólítíska skoðun sem hún hefði ekki fengið að láni frá Samfylkingunni.

En það hlýtur líka að velta upp spurningunni, hvað var Guðmundur að gera í Framsóknarflokknum?

P.S.  Ég held reyndar að það hafi verið gæfa Framsóknarflokksins að Guðmundur Steingrímsson og aðrir "Sambandssinnar" yfirgáfu Framsóknarflokkinn, sem gerði flokkinn mikið samheldari og skóp að hluta til kosningasigur hans.

 

 


mbl.is Ganga sátt frá borði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósendur hafa talað. Evrópumet í fylgistapi ríkisstjórnar

Þá eru úrsltin ljós.  Sjálfsagt eru þau ekki alveg eins og nokkur óskaði sér, það er alla vegna ekki svo í mínu tilfelli.  En það er einmitt galdurinn.  

Kjósendur hafa kveðið upp úrskurð sinn og ákveðið hverjir fara með umboð þeirra til næstu fjögurra ára.  Og það er í rauninni ekki hægt annað en að vera nokkuð ánægður með það - alla vegna svona á endanum.

Kjósendur hafa alltaf rétt fyrir sér.

Persónulega finnst mér alltaf leiðinlegt að heyra talað um "heimsku" kjósenda og svo framvegis.  Því miður er býsna mikið um það í dag, að virðist, frá vinstri vængnum.

Það er enginn vafi á því að Framsóknarflokkurinn er sigurvegari kosninganna.  Hann vinnur glæsilegan sigur.  Að auka fylgi sitt um fast að 10% er góður árangur.

Björt framtíð er líka að vinna góðan sigur.  Líklega er þetta þriðji besti árangur nýs framboðs og það eitt að ná inn á þing er góður árangur.

Píratar vinna líka sætan sigur, og líklega sætari vegna þess hve seint á kosninganóttinni hann var staðfestur.

Sjálfstæðisflokkurinn vinnur líka sigur, og eykur fylgi sitt.  Í sögulegu samhengi er sá sigur hins vegar ekki sjáanlegur.  En hann náði að snúa "skipinu" við.  Það er líka stórt atriði að hann er þó þrátt fyrir allt, stærsti flokkur landsins.

Samfylkingin býður afhroð.  Stærsta tap Íslensks stjórnmálaflokks getur ekki talist neitt annað. Tvíeykið Jóhanna Sigurðardótir og Árni Páll Árnason skila flokknum hreinni niðurlægingu. 

Vinstri græn tapa um helming af sínu fylgi, en í sögulega samhenginu standa þau þokkalega og eru líklega frekar kát í dag.  Mitt persónulega mat er að engin formaður hafi vaxið eins í kosningabaráttunni og Katrín Jakobsdóttir og getur flokkurinn þakkað henni hina ásættanlegu útkomu.

Það er tvennt sem stendur upp úr í þessum kosningum, er sigur Framsóknarflokksins og "rassskelling" ríkisstjórnarinnar, sem setur, ef marka má fréttir, Evrópumet í fylgistapi ríkisstjórnar. 

Annað sem vekur vissulega athygli er að 6 flokkar ná inn á þing.

En nú er það ríkisstjórnarmyndunin.

Ég hafði fyrir kosningar mesta trú á að annahvort yrði B, S og V, eða D og B. Eftir að hafa horft á leiðtogaviðræður áðan, hef ég meiri trú á D og B.  Aðallega vegna þess að Árni Páll virtist einhvern veginn ekki hafa neinn áhuga á því að "byggja brýr" til annara flokka.

Hann kom einhvern veginn fyrir eins og formaður sem gerir sér grein fyrir því að hans tími (og tækifæri) er liðinn. 

 


mbl.is Geta myndað stjórn með 51% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður kjörsókn léleg?

Það er vissulega áhyggjuefni ef kjörsókn verður léleg.  Hver svo sem úrsltin verða, eru þau sterkari og umboð nýrrar ríkisstjórnar sterkar, ef kosningaþáttaka er góð.

Það breytir ekkert úrsiituum.  Þau standa eftir sem áður.  En það er æskilega að sem flestir mæti á kjörstað.

Það er vert að velta því fyrir sér hvort að slök kjörsókn komi til með a hafa áhrif á úrslitin.  Ég er ekki verulega trúaður á slíkt.  

En vissulega gæti það breytt því hvað skoðanakannanir eru áreiðanlegar.  Sérstaklega þær kannanir sem ekki hafa eldri borgara með í menginu.  Þeir eru jú gjarnan líklegari til að mæta á kjörstað en margir aðrir aldurshópar.

En ég vona að kjörsóknin "hressist" er á liður.

Nú ættu allir að hringja í vini og kunningja og hvetja þá stil að kjósa.

Það eru ekki réttindi sem eru sjálfgefin og rétt að hvetja alla til að nýtja þau. 


mbl.is 58% kusu í Grímsey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Euroþreyttir Þjóðverjar

Það er ekki hægt annað en að sjá vaxandi merki um pirring Þjóðverja gagnvart euroinu og Eurosvæðinu.  Þeir virðist oft á tíðum vera hætt að lítast á blikuna, enda sívaxandi kröfur og líkur á því að þeir sitji uppi með stóran hluta af reikningnum.

Það er einnig áberandi að samskipti Þýskalands og Frakklands eru ekki eins vinsamleg og áður.  Það virðist haldast nokkuð í hendur við æ fleiri teikn um að Frakkland ráði ekki við efnahagsörðugleika sína og hafi ekki pólískkan kjark til þess að horfast í augu við þá.

Á sama tíma virðast samskpti Breta og Þjóðverja vera á mun jákvæðari nótum en oft áður.  Það helst í hendur við vaxandi viðskipti ríkjanna, en nýlega fór Bretland frá úr Frakklandi í viðskiptum við Þýskaland og varð stærsti viðskiptafélagi Þjóðverja.   

Það er nokkuð sem eftir var tekið, enda sterk vísbending um að sameiginlegur gjaldmiðill tryggi ekki vöct viðskipta, heldur séu aðrir þættir sem séu mikilvægari.  Ekki síst að sjálfsögðu samkeppnishæfi.'

Í bakgrunninum eru svo Þýsku kosningarnar í haust.  Það er næsta víst að fyrir þær dugar ekki fyrir Merkel að kjósendum gruni hana um óþarfa linkinnd gagnvart öðrum "Sambandsþjóðum", eða þá gruni að hún ætli þeim að borga hluta reikningsins fyrir efnahagsvandræði annara euroþjóða.

Það er því líklega erfið jafnvægislist framundan hjá Merkel.  Nýstofnaður flokkur, Nýr valkostur fyrir Þýskaland, gerir henni ekki auðveldara fyrir.

En þetta þýðir líka að fyrir önnur ríki á Eurosvæðinu, geta eru óvissir tímar framundan.   Það er alla vegna ekki hægt að mæla með því við neitt þeirra að koma og biðja um aðstoð, stuttu fyrir Þýsku kosningarnar. 

 

 


mbl.is Vilja ekki eitt innistæðutryggingakerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn að ná forystunni á endasprettinum

Ef að þetta verður niðurstaða kosninganna verður það mikill léttir fyrir Sjálfstæðismenn, þó að varla sé hægt að tala um það sem mikinn sigur.

En Framóknarflokkurinn mun vinna sigur, þó að hann verði ekki jafn stór og margir ætluðu og fyrir hann er það langt í frá að vera ósigur að vera annar stærsti flokkur landsins.  Það er rétt að hafa í huga að það er ekki langt síðan að margir voru reiðubúinir til að því sem næst afskrifa Framsóknarflokkinn.

Samfylkingin nær ekki að bæta sína stöðu, og Vinstri græn eru tapa miklu frá síðustu kosningum, en eru samt á gamalkunnum slóðum.

Björt framtíð sígur frá síðustu Gallup könnum og það gera Píratar einnig.   Það bendir allt til að þau komi mönnum á þing, en þeir þurfa að passa upp á að þeirra fólk skili sér á kjörstað.  Það er spurning hvort að þeir hafi maskínu í það, eða hafi hvatt fólk nægilega til að mæta á kjörstað.

Sem "Sambandsandstæðingur" hlýt ég að vekja athygli á því að tveir hörðustu "Sambandsflokkarnir" hafa samanlagt 20.7% fylg í þesari Gallup könnuni.  Mér þætti það vissulega gleðilefni, ef þeir tveir flokkar nytu ekki meira fylgis.

En kosningarnar eru á margan hátt spennandi og sjálfur hef ég það á tilfinningunni að það verði eitthvað sem kemur á óvart á morgun.  Ég hef bara ekki hugmyndu um hvað það gæti orðið.  Það gæti líka einfaldlega verið tóm vitleysa í mér.

En í lokin er best að hvetja alla til að kjósa.  Það er mest áriðandi.

Sjálfur er ég löngu búinn að kjósa og kaus að sjálfsögðu rétt.  Eins og alltaf áður.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur með mest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband