Færsluflokkur: Fjármál

Euroið er bæði of sterkt og veikt

Það má heyra um það talað víða um Evrópu að euroið sé of sterkt.  Það má til sanns vegar færa.  En það má líka halda því fram að það sé of veikt.

Forsætisráðherra Frakklands er ekki fyrsti stjórnmálamaðurinn á Eurosvæðinu sem lýsir því yfir að gjalmiðillinn sé of sterkur.

Og það er hann fyrir mörg ríki svæðisins, s.s. Grikkland, Portúgal, Spán, Ítalíu og jafnvel Frakkland.

En það má líka halda því fram að euroið sé of veikt, þ.e.a.s. þegar litið er til lands eins og Þýskalands.

Það er einmitt þar sem hnífurinn stendur í kúnni, eða euroið í sparigrísnum.

Það er ólíklegt að ríki utan Eurosvæðisins hefðu nokkuð á móti því að gjaldmiðill ríka á borð við Grikklands, Ítalíu, Spánar og Portúgals veiktist all nokkuð, eða gripið yrði til aðgerða til að veikja hann vísvitandi.

En það er ólíklegt að önnur ríki sættu sig við það að gjaldmiðill Þýskalands yrði með markvissum hætti gerður veikari.  Þau myndu ekki sætta sig við frekari styrkingu á samkeppnisstöðu Þjóðverja.

Slíkar aðgerðir væru líklegar til að leiða til "gjaldmiðlastríðs".  Þýskaland og viðskiptaafgangur þess er nú þegar af mörgum talið ógn við jafnvægi í alheimsviðskiptum.

 

 

 


mbl.is Segir evruna of sterka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forréttindi þeirra sem ferðast

Ég hef séð að nú er býsna mikið rætt um það á Íslandi að nauðsynlegt sé að þeir sem ferðist fái að koma með meiri og dýrari vörur inn í landið án þess að greiða af þeim tilskilin gjöld.

Þetta er ekki ný umræða, reyndar held ég að hún skjóti upp kollinum, af mismklum krafti þó, fyrir flest jól.

En út af hverju ættu þeir sem ferðast að njóta frekari fríðinda en þeir sem sitja heima?

Út af hverju snýst umræðan ekki frekar um hvernig standi á því að hægt sé að kaupa ferð til útlanda og spara andvirði hennar með því að kaupa fáa en dýra hluti í ferðinni?

Út af hverju ættu þeir sem heima sitja frekar að greiða háa tolla, vörugjöld og virðisaukaskatt til hins opinbera, en þeir sem ferðast?

Er þá ekki rétt að krefjast þess að þeir sem panta vörur á internetinu fái sömuleiðis tollfrían "kvóta"?

Eiga ef til vill allir Íslendingar að fá "kvóta" sem heimilar þeim að flytja inn vörur fyrir ákveðna upphæð á mánuði án gjaldtöku, hvernig sem staðið er að innflutningnum?

Hvað er svona merkilegt við að ferðast?

Ég held að Íslendingar ættu frekar að berjast fyrir lægri álögum, þannig mætti líklega flytja þó nokkuð mikla verslun "heim" sem myndi bæta hag allra.

Það að auka forréttindi þeirra sem ferðast getur varla verið forgangsatriði í dag.

P.S.  Allra síst á auðvitað að vera að hnýta í tollverði, sem gera ekkert nema að sinna því starfi sem þeir eru ráðnir í og framfylgja þeim lögum sem í gildi eru.

 

 

 

 

 


Þróun húsnæðisverðs í Evrópu

Ég hef skrifað um að gjaldmiðill tryggi ekki kaupmátt eða velmegun.  Hann tryggir ekki heldur verðmæti húseigna.

Lágir vextir eru vissulega af hinu góða en þeir tryggja ekki að húsnæðiseigendur lendi ekki í hremmingum.  Reyndar má segja að verulega lágir vextir bendi til þess að hagkerfi eigi í verulegum vandræðum og við slíkar aðstæður er algengt að húsnæðisverð lækki, og skuldsettir húseigendur lendi í vandræðum og sitji jafnvel uppi með neikvæðan eignarhlut.

Slíkt hefur átt sér stað víða um Evrópu á undanförnum árum.  Þegar við bætist launalækkanir og mikið atvinnuleysi er ekki að undra þó að húseigendur séu margir hverjir í vandræðum.  Afborganir af lánum eru síhækkandi hlutfall af ráðstöfunartekjum, þó að vextirnir séu ef til vill ekki háir.

Eins og flestum ætti að vera ljóst, verður eitthvað undan að láta þegar áföll verða í efnahagslífi landa, eða mistök eiga sér stað.

Sé gjaldmiðillinn festur, verður höggið þeim mun meira hvað varðar launalækkanir, atvinnuleysi og lækkandi fasteignaverð.

Þeir sem eiga laust fé halda hins vegar sínu og geta auðveldlega flutt eignir sínar annað.  Þeir sem eru í störfum sem sleppa við launalækkanir og uppsagnir standa einnig vel.

Hér meðfylgjandi er stöplarit yfir þróun húsnæðisverðs í ýmsum Evrópulöndum (þar á meðal Íslandi) árin 2010 og 2011.

Sé smellt á myndina, og svo aftur á þá mynd, næst hún stór og góð.

Husnaedisverd 2010 2011


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband