Bloggfærslur mánaðarins, júní 2019

Vanmáttug fjöl- og alþjóðasamtök.

Samræður, samstarf, viðskipti og vinátta.  Allt er þetta meðal þess sem við alla jafna teljum gott, bæði í samskiptum einstaklinga og þjóða.

Bæði fjöl- og aljþjóðasamstarf er jákvætt en hefur vissulega sínar takmarkanir. Í fljótu bragði man ég ekki eftir neinum stórum vandamálum sem stofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar, eða Evrópuráðið hefur náð að leiða til lykta. Orð eru til alls fyrst er oft sagt og það á vissulega við í tilfelli margra fjöl- og alþjóðasamtaka.

En það breytir því ekki að þegar á reynir er slíkt samstarf ákaflega "tannlaust".

Það reynist vel þegar brotið er á reiðhjólamanni norður í landi, en ef ríki innlimar hluta af öðru ríki með hervaldi og efnir til "borgarastyrjaldar" í nágrannaríkjum sínum, þá gera al- og fjölþjóðleg samtök lítið nema að "ræða málin", þó eitthvað sé reynt að gera til málamynda eins og gert var í tilfelli Rússlands nú.

Og 33. milljónir euroa eru auðvitað mikill peningur.

Þannig eru reyndar viðbrögð Evrópuríkja að mestu leyti. Ríkin í A-Evrópu hafa reynslu af Rússlandi og vilja harðari viðbrögð, en megnið af ríkjum álfunnar lætur framferði Rússa sig svo gott sem engu skipta, nema í orðum.

Það þarf auðvitað að kaupa gas af Rússum og þangað er gott að seljs Bensa, Bemma og alls kyns annan lúxusvarning.  Enda hafa Rússar ekki bannað innflutning á því sem mestu skiptir, heldur aðeins á matvælum, sem hitta harðast fyrir nágranna þeirra og lönd sem þeir hersátu um langt skeið, auk fyrrum landa "Varsjárbandalagsins". 

Gucci, LHV, og lúxusmerki seljast sem fyrr í Rússlandi og það þurfti að "snúa upp á hendurnar" á Frökkum til að þeir hættu við að selja Rússlandi þyrlumóðurskip.

Slíkt hentar Rússlandi afar vel.

Eitthvað píp í NATO og Evrópulöndum, sem síðan má nota til að efla innlenda matvælaframleiðslu og segja íbúunum að "vondu fasistarnir" á Vesturlöndum séu að umringja Rússland og reyna að knésetja það. 

Þetta er flest eftir KGB bókinni.

Evrópuráðið leggur síðan svo gott sem blessun sína yfir innlimun Krímskaga, að Rússar standi fyrir borgarastyrjöld í Ukraínu og að þeir hafi með þannig skotið niður farþegaflugvél yfir Ukraínu.

Fulltrúar tveggja af Íslensku vinstriflokkunum, VG og Pírata láta það sé vel líka og hika ekki við að rétta upp hönd.

Heldur einhver að þetta muni bæta almennt ástand mannréttinda í Rússlandi?  Nú eða ástandið og mannréttindi í A-Ukraínu?

En það má heldur ekki vanmeta þann möguleika að senda "leiðinlega" þingmenn á þing Evrópuráðsins.

Það eitt gerir líklega meira til þess að réttlæta þátttöku Íslands en nokkuð annað.

Það getur haldið þeim uppteknum, skítt með alla loftslagsvánna af flugferðum þeirra :-)

 

 


mbl.is Greiddu atkvæði með fullri aðild Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Holur hljómur í málflutningi milljarðamæringa

Það koma reglulega fullyrðingar um að einkaritarar borgi mun hærri skattprósentu en vinnuveitendur þeirra.

Og án efa er það rétt í ýmsum tilfellum.

En það er fyrst og fremst skattalöggjöfin sem veldur því.

Hún er vissulega mismunandi eftir löndum, en á það sameiginlegt víðast hvar að hún lengist og bólgnar út með hverju árinu.

Hvað kemur það málinu við hvort að milljarðamæringur ákveði að styrkja sínfóníuhljómsveit, reka háskóla í fjarlægu landi, eða setja á stofn alls kyns "foundations", svo dæmi sé tekið?

Er ekki einfaldast að skatturinn komi hreint og beint og taki til alls? 

Engar undanþágur?

Það er ekki tilviljun að að kyns skattasérfræðingar, skattalögfræðingar, skattaráðgjafar, skattstýrendur og hvað þetta allt heitir, lifa býsna góðu lífi.

Og það eru ekki þeir sem eru á "meðallaunum" sem notfæra sér þjónustu þeirra.

Þannig væri t.d. einfaldast fyrir marga af þessum milljarðamæringum að einfaldlega sleppa því að notfæra sé allar hugsanlegar skattaglufur til þess að borga lægri skatt.

Önnur og jafnvel skemmtilegri leið væri svo auðvitað að borga starfsfólki sínu mun hærri laun, mikið af því myndi fara til ríkisins í formi skatta, en starfsfólkið kynni ábyggilega að meta rausnina.

En málflutningur milljarðamæringanna, með allar sínar "foundations", er í raun ákaflega holur, en vissulega eftirtektarverður.

 

 


mbl.is „Hækkið skatt á okkur!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Svikamylla" fasteignamats og skatta?

Ég var að hlusta á Íslenskt útvarp, nánar tiltekið á brot úr Reykjavík síðdegis.  Þar var verið að fjalla um kaup Reykjavíkurborgar á þessu húsi og rætt við fasteignasala sem taldi að Borgin hefði borgað all verulegt yfirverð.  Verðið á húsinu var víst 230 milljónir, u.þ.b. 600 þúsund á fermetra, en fasteignasalinn sagði að algengt verð í nágrenninu væri ca. 480 þúsund.

Ég ætla ekki að dæma um hvort að um yfirverð sé að ræða.

En það er skemmtilegt að velta því fyrir sér hvort, að ef svo sé, verði Reykjavíkurborg fljót að ná því upp í fasteignasköttum, þegar fasteignamat í hverfinu hækkar vegna þessarar "góðu" sölu.

Það má því allt eins reikna með að það verði nágrannarnir sem "borgi" yfirverð Borgarinnar og líklega gott betur, litið til lengri tíma.

En þannig hefur lítið framboð á lóðum, ýtt upp fasteignaverði, fyrst auðvitað á nýbyggingum og síðan á öllum öðrum fasteignum í borginni.

Það þýðir hærra fasteignamat, sem aftur þýðir hærri skattar og Borgin tekur æ meira af íbúunum, leiguverð hækkar og svo framvegis.

Hátt verð á lúxusíbúðum hækkar einnig fasteignamat á ódýrari íbúðum í hverfinu og svo koll af kolli.

 

 


mbl.is Hringbraut 79 verður íbúðakjarni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nafngiftir stjórnlyndisins

Þó að stjórnlyndi í nafngiftum sé ábyggilega ekki það hættulegasta sem stjórnlyndi getur leitt af sér, er líklega fátt jafn persónuleg áminning um stjórnlyndi yfirvalda.

Að stjórnvöld neiti einstaklingi að bera eitthvað nafn heggur líklega eins nærri persónunni og hægt er.

Áður en lengra er haldið er líklega rétt að taka það fram að ég er mikill aðdáandi hins Íslenska nafnakerfis og þykir jafnframt vænt um Íslensku sem tungumál og reyni að tala og skrifa hana sem réttasta, þó að á stundum verði einhver misbrestur þar á.

Þess vegna eru börnin mín Tómasarbörn, þó að engin skylda hafi hvílt á okkur hjónum þess efnis.

Það var einfalt, það var einfaldlega hakað í í kassa sem þýddi að af "upprunaástæðum" myndu börnin verða Tómasson og Tómasdóttir. Flóknara var að ekki hjá hérlendri "þjóðskrá".

Reyndar hefði ég líklega lent í vandræðum með seinna nafn drengsins á Íslandi, og svo nafnið "Pere" sem ég lét fylgja báðum börnunum á undan föðurnafninu.

En mér dettur ekki til hugar að krefjast þess að allir séu mér sammála og fylgi því sem ég geri.  Þess vegna fengu börnin "Pere" til þess að þau seinna meir geti ákveðið sjálf hvernig þau vilja hátta málum.  Ég mun að sjálfsögðu hvetja þau til að vera áfram Tómasarbörn, en valið verður þeirra.

Og það sama gildir að mínu mati um Íslendinga sem heild, þeir verða að vilja viðhalda Íslenskunni og Íslenskri nafnahefð, til lengdar munu engin lög duga til þess.

Það er enda svo að nú erfast Íslensk ættarnöfn bæði í karl- og kvenlegg, þannig að það segir sig sjálft að þau munu hægt og rólega taka yfir, nema að þeir sem hafi föðurnafnahefðinni í hávegum, verði mun frjósamari en hinir, sem ólíklegt er.

Með auknum fjölda innflytjenda fjölgar ættarnöfnum og því er eðlilegt að gefa slíkt frjálst, eins og hefði alltaf átt að vera.

Það sama gildir um nöfn að mínu mati.

Vissulega mun án ef eitthvað verða um að börnum verði gefin skringileg nöfn.  Það mun líklega fátt koma í veg fyrir það.  Það er heldur ekki eins og að Íslensk nafnahefð sé laus við slíkt.

Ég held að að unglingsárunum hefði ég lítt kært um mig um að bera ramm Íslensk nöfn eins og Ljótur Mörður.  En líklega myndi mannanafnanefnd varla geta sett sig upp á móti slíkum fyrirætlunum.

Í grunninn hlýtur eiginlega að gilda að ef einstaklingi eða pari er treystandi til þess að ala upp barn, hlýtur að vera að hægt að treysta þeim eða honum til að velja því nafn.

Stjórnlyndið á að víkja.

 


mbl.is Átti símtöl heilu næturnar um mannanöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skringilega orðuð könnun Maskínu og utanríkisráðuneytisins - Undarleg framsetning sem ýtir undir ranga túlkun

Ég rakst á frétt á Vísi þar sem fjallað var um viðhorfskönnun sem Maskína hefur gert fyrir utanríkisráðuneytið um viðhorf Íslendinga til fjöl- og alþjóðasamstarfs.

Könnun sem þessi er að mörgu leyti þörf og fróðleg, þó að aldrei eigi að taka slíkum könnunum sem heilögum sannleik, gefa þær vísbendingar sem geta nýst vel í umræðum og ákvarðanatökum.

En það er áríðandi að vel, nákvæmlega og heiðarlega sé unnið að slíkri könnun og hlutleysis sé gætt í hvívetna.

Persónulega finnst mér, alla vegna við fyrstu sýn (og jafnvel aðra) vanta þar upp á, alla vegna hvað varðar framsetningu niðurstaðna.

Látum vera hvernig fyrirsögn Vísis er, "Íslendingar eru almennt jákvæðir í garð Evrópusambandsins", þó að þeir séu ekki jákvæðir í garð aðildar að því, alla vegna ekki ef tekið mark er á skoðanakönnunum þar að lútandi.

En svo segir í fréttinni:  "Hins vegar segjast aðeins 31,6 prósent hlynnt inngöngu Íslands í ESB, 25,4 prósent segjast í meðallagi hlynnt inngöngu og 43,0 prósent segjast andvíg."

Þetta þótti mér nokkur tíðindi.

Þarna er í fyrsta sinn í langan tíma komið svo að ef trúa á niðurstöðunni, er meirihluti Íslendinga hlynntur inngöngu í "Sambandið".

Þannig að ég fann könnunina og þar á síðu 115 er fjallað um afstöðu Íslendinga til inngöngu í "Sambandið".Sambandið Maskína

Þarna eru semsagt flokkað í 5 möguleika. Tveir af þeim eru orðaðir svo að svarandi sé fylgjandi inngöngu Íslands í "Sambandið".  Tveir flokkar á móti, og svo þessi skringilegi "Í meðallagi".

Mjög hlynntur

Fremur hlynntur

Í meðallagi

Fremur andvígur

Mjög andvígur

Hvað varð um orðalag svo sem "hlutlaus", eða tek ekki afstöðu. Hvað þýðir að vera "Í meðallagi andvígur eða fylgjandi umsókn?

Ef ég met vilja minn til þess að Ísland sæki um aðild að "Sambandinu" sem 3 af 5, slík afstaða getur verið frá 40 til 60% vilji, er ég að segja að ég vilji að sótt sé um aðild?

Væri t.d. það að vera 40% samþykkur því að sótt sé um aðild að "Sambandinu" ígildi þess að vilja að sótt sé um aðild?

Persónulega myndi ég segja nei við slíkri spurningu, það ætti að teljast sem andstæðingur umsóknar.

En eins og fram kemur hér að ofan er Vísir ekki í neinum vafa um hvernig beri að túlka niðurstöðurnar, að sálfsögðu "Sambandsaðild" í vil, eins og tíðkast í þeim miðli.

En svona framsetning er í besta falli villandi, vonandi ekki vísvitandi og að mínu mati ekki sæmandi könnunarfyrirtæki með sjálfsvirðingu, hvað þá utanríkisráðuneytinu.

En hér verður hver að dæma fyrir sig, en ég hvet alla til að kynna sér könnunina, en því miður er þessi mjög svo umdeilanlega framsetning gegnumgangandi í henni.

Því slík framsetning ýtir undir villandi túlkun eins gerist t.d. í frétt Vísis.

 


Það er ekki krónan sem flýgur

Ein af  stóru fréttum vikunnar á "mörkuðum", er afkomuviðvörun Þýska flugfélagsins Lufthansa á mánudag. Þar er spáð mun minni hagnaði en áður. Félagið skilaði reyndar tapi á fyrsta ársfjórðungi, en hafði samt staðið við áætlun um hagnað, þar til nú að það tilkynnti að líklega yrði hann verulega minni.

Félagið sagði m.a.:  "Yields in the European short-haul market, in particular in the group’s home markets, Germany and Austria, are affected by sustained overcapacities caused by carriers willing to accept significant losses to expand their market share."

Önnur flugfélög sem skráð eru á markað, lækkuðu mörg hver einnig verulega. Einn greinandinn orðaði það svo:  "Over-capacity in the European short haul market, intense competition and the resulting pressure on fares can be blamed for the decline in profitability, whilst rising fuel costs are an added headache.

The sector always does a good job at competing away margins in the good times. No signs that anyone is prepared to reduce capacity therefore we would anticipate the wave of consolidation in European short haul is not over."

Hörð samkeppni, hækkandi eldsneytisverð og offramboð á flugsætum er talið valda erfiðleikum Lufthansa. Þeir erfiðleikar ná reyndar til býsna margra annara flugfélaga, líklega mætti segja stærri parts þeirra.

En þegar Íslensk flugfélög lenda í erfiðleikum eða leggja upp laupana, þá spretta óðara fram alls kyns "sérfræðingar" sem fullyrða að erfiðileikar þeirra stafi af Íslensku krónunni.  Væri hún ekki til staðar væru erfiðleikarnir hverfandi og flugélögin fljúgandi.

Allt verði betra með euro.

Þetta er ótrúlega skrýtnar og í raun hæpnar fullyrðingar að mínu mati.

Tvö flugfélög sem tengjast Íslandi hafa hætt starfsemi á undanförnum misserum.  Annað með megnið af starfsemi sína á Íslandi, en hitt með starfsemi að stærstum hluta í Danmörku og Lettlandi, ef ég man rétt.

Það er ekki út af engu sem það er grínast með að besta leiðin til að verða milljónamæringur, sé að vera milljarðamæringur og kaupa flugfélag.

Og nota bene, þau auðæfi eru ekki mæld í krónum.

En það er þó nokkur fjöldi flugfélaga sem hafa misst dampinn, og koma upp í hugan flugfélög svo sem Air Berlin og Germania, bæði staðsett í "hjarta" Eurosvæðisins, Þýskalandi.

Þau fengu augljóslega ekki "memoið" um að euroið væri lausn allra vandamála og fóru í þrot.

Air Germania meira að segja svo "ósvífið" að telja veikingu Eurosins eina af ástæðunum fyrir því að það varð gjaldþrota.

En það er ekki bara í tilfelli flugfélaga sem að euroið á að vera "töfralausn", því sem næst alltaf þegar Íslenskum fyrirtækjum gengur illa, vilja "sérfræðingar" kenna krónunni um.

Ýmsir halda því meira að segja fram að "bankarnir" sem fóru yfir um með eftirminnilegum hætti, væru enn starfandi bara ef Íslendingar hefðu haft euro.

Þeir virðast ekkert hafa heyrt um alla þá banka á Eurosvæðinu sem fóru á höfuðið, eða var bjargað með miklum tilkostnaði víða um lönd.

Það sama gildir um nærri öll fyrirtæki sem lenda í erfiðleikum á Íslandi, það eru alltaf "sérfræðingar" tilbúnir til að fullyrða að það sé krónunni að kenna.

Það er ekki gjaldmiðillinn sem gerir gæfumuninn, heldur hvernig staðið er að rekstrinum.

Vissulega fylgja bæði kostir og gallar sjálfstæðum gjaldmiðli, mismunandi eftir því hver sjónarhóllinn er.

En sameiginlegur gjaldmiðill sem er byggður á pólítískum grunni frekar en efnahagslegum getur verið afar hættulegur.

En það er mín tilfinning að þeir sem harðast berjast fyrir upptöku euros á Íslandi, hafi einmitt frekar pólítísk markmið en efnahagsleg.

 

 


Þegar Alþingi missti virðingu mína

Það hefur mikið verið rætt um virðingu Alþingis undanfarin ár, ef til ætti frekar að segja að rætt hafi verið um skort á virðingu Alþingis.

Ég hygg að umræddur skortur sé staðreynd, og skoðanakannir virðast staðfesta að svo sé.

En það er alls ekki svo að í umræðunni sé samstaða um hvers vegna virðingu þingsins fari svo þverrandi, enda er líklega um margar samþættar ástæður að ræða.

Ég ætla heldur ekki að draga það í efa að margir hafa margar mismunandi ástæður fyrir því að Alþingi hafi misst virðingu þeirra.

Líklega ekki eins margar og þeir eru sem hafa misst virðingu fyrir Alþingi, en samt margar ólíkar ástæður.

En hjá mér var það fyrst og fremst einn atburður sem varð þess valdandi að virðing mín fyrir Alþingi þvarr eiginlega gjörsamlega, og þó hún hafi náð sér á strik síðan, hefur hún eiginlega ekki borið sitt barr.

Það gerðist í miðju "IceSave" karpinu.

Meirihluti alþingismanna virtist þá reiðubúinn til þess að samþykkja "IceSave I" án þess að fá að sjá samninginn.

Það er varla hægt að gefa Alþingi mikið stærra högg.

Ekki löngu síðar samþykkti síðan meirihluti alþingismanna, í einstaklega fláræðri atkvæðagreiðslu, að halda pólítísk réttarhöld yfir Geir H. Haarde.

Ég held að Alþingi hafi aldrei sokkið lægra en í þessum tveimur tilfellum, en öðru þeirra tókst þó að afstýra.

Enn sitja þó nokkrir af þeim sem svo um véluðu á þingi og hafa sumir þeirra vegtyllur góðar og jafnvel auknar.

Þetta vegur mun þyngra í mínum huga en nokkuð málþóf, illmælgi á öldurhúsum, klæðaburður eða skóleysi.

Sjálfsagt hafa aðrir svo allt aðrar ástæður og sumir bera líklega, en samkvæmt skoðanakönnunum, fjölgar þeim hægt. 

Og málið er þess efnis að það segir lítið að skipa nefnd um málið.  Það segir þó ef til vill eitthvað um alþingismenn að einmitt það skuli hafa verið gert.

Gleðilega þjóðhátíð.

 

 

 


Eina von Íhaldsflokksins?

Boris Johnson vann fyrstu umferð í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins með yfirburðum, en það er þó ekki gefið að hann endi uppi sem leiðtogi flokksins.

Get BorisNú, rétt eins og síðast, fer all maskína þeirra forystumanna Íhaldsflokksins, sem eru "Sambandssinnar" af krafti í það að koma í veg fyrir að Boris verði formaður.

En það gæti reynst of erfitt í þetta sinn.

Æ fleiri þingmenn eru líklega þeirra skoðunar að Boris Johnson sé eini leiðtoginn sem auki möguleika þeirra á því að ná endurkjöri.  Og ég tel líklegt að hann sigri ef kosningin færist til almennra félagsmanna.

En hver vegna Boris?

Jú, vegna þess að hann er líklega sá af þeim sem í framboði eru, sem hinn "almenni íhaldsmaður" mun fylkja sér á bakvið.

Sá sem getur keppt við Nigel Farage og Brexit flokk hans um atkvæði.

Hann er sá sem er líklegastur til að koma "Brexit" í framkvæmd, hvað sem tautar og raular.

Ekkert mun þó breyta því að næstu misseri munu verða Íhaldsflokknum erfið. Theresa May hefur komið honum í þá stöðu að um nokkrar leiðir er að ræða, en enga góða.

En Boris er að mínu mati eina von Íhaldsflokksins nú, til að reyna að endurheimta fyrri stöðu.

Að öðrum kosti er líklegt að Íhaldsflokkurinn og Brexit flokkurinn skipti með sér atkvæðum á þann hátt að jafnvel Jeromy Corbin eigi möguleika á því að tryggja Verkamannaflokknum sigur, eða í það minnsta samsteypustjórn með Frjálslyndum demókrötum.

 

 

 


mbl.is Johnson hlutskarpastur í fyrstu umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugrekki, herstyrkur og hugkvæmni

6. júní er merkisdagur í sögunni, innrásin í Normandy var ótrúlegt afrek, byggt á herstyrk, hugkvæmni en ekki síst hugrekki, bæði þeirra sem skipulögðu og þeirra sem stóðu í fremstu víglínu.

Eftir að Bandamenn náðu fótfestu í Normandy, var það spurning um hvenær, en ekki hvort Þjóðverjar biðu ósigur.

Margir voru fullir bjartsýni og töldu stríðinu ljúka fyrir jól, en aðrir sáu fyrir sér lengri baráttu.

Sagan hefði líklega þróast á annan veg, hefði sigur ekki unnist í Normandy.

En það var barist af hörku og öllu beitt sem finna mátti í vopnabúrum.

Og baráttan kostaði fjölda mannslífa, Bandaríkjamanna, Kanadamanna, Breta, Þjóðverja og síðast en ekki síst Frakka.

Talið er að fleiri óbreyttir borgarar (Frakkar) en hermenn Bandamanna hafi látið lífið á fyrstu dögum innrásarinnar.

Hernaður er hvorki "heiðarlegur" eða nákvæmur.

En stundum er "gjaldið" sem þarf að greiða hátt, en engu að síður réttlætanlegt.

 

 

 


mbl.is Dagurinn sem réði örlögum Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna loga ekki fjölmiðlar af ótta við að "popúlískur" "öfga" vinstri flokkur komist til valda í Danmörku?

Það er útlit fyrir stjórnarskipti í Danmörku.  Í sjálfu sér ekki merkilegt, slíkt gerist reglulega í lýðræðisríkjum.

Ég get ekki sagt að ég hrífist af Dönskum jafnaðarmönnum, en það er engin nýlunda að þeir séu við völd.

En ef svo fer að jafnaðarmenn taki við völdum í Danmörku, er það að margra mati ekki síst vegna þess að þeir hafa breytt um stefnu hvað varðar innflytjendur í Danmörku.

Margir segjast varla sjá mun á stefnu þeirra og Danska þjóðarflokkins eða Svíþjóðardemókratana.

Það hefur reyndar oft verið sagt að munur á hefðbundnum "jafnaðarmannaflokkum" og svo  þeim sem oft hafa verið kallaðaðir "öfga hægriflokkar", hafi fyrst og fremst verið afstaðan til innflytjenda.

En þessi breyting á afstöðu til innflytjenda af hálfu Danskra jafnaðarmanna hefur vissulega vakið athygli.

En mun hún þýða stefnubreytingu af hálfu Íslenskra jafnaðarmanna?

Munu þeir neita fjölþjóðlegu samstarfi við Danska jafnaðarmenn?

Munu forystumenn Íslenskra jafnaðarmanna standa upp og yfirgefa fundi þar sem Danskir jafnaðarmenn tala?

Eða er allt í lagi með Danska jafnaðarmenn, vegna þess að þrátt fyrir afstöðu þeirra til innflytjenda, eru þeir auðvitað enn stuðningsmenn Evrópusambandsins.

Eru þeir þá hvorki "öfga" eða "popúlískir"?

 

 


mbl.is Vinstriflokkarnir með meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband