Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Umbreytingaskeið í Evrópu - Panelumræður

Nýlega voru haldnar panelumræður með yfirskriftinni "Europe in transition", sem ég leyfði mér að þýða sem umbreytingaskeið í Evrópu.

Það var Þýski Marshall sjóðurinn (German Marshall Fund) sem stóð fyrir umræðunum, en þátttakendur voru Toomas Ilves, forseti Eistlands, Federica Mogherini, Utanríkisráðherra Ítalíu og Robert Zoellick, starfsmaður á alþjóðasviði Goldman Sachs (fyrrum bankastjóri Alþjóðabankans).

Umræðustjórnandi er Peter Spiegel, yfirmaður á skrifstofu Financial Times í Brussel.

Persónulega fannst mér Ilves standa sig afar vel og Zoellick kom með góð innlegg, en Mogherini talaði að mestu leyti í frösum.

Aðrir panelar voru haldnir með yfirkriftum, s.s. "Is Europe Losing its East?", "NATO in Transition", og svo "A Conversation with Herman Van Rompuy".

Ég er að horfa á þessi myndbönd eins og ég hef tíma til, en það sem ég pósta hér fannst mér góð. 

 

 

 

 


Fyrir 65 árum síðan

Fyrir 65 árum síðan voru tugir þúsunda íbúa Eystrasaltslandanna fluttir á brott í gripavögnum.  Í Eistlandi einu saman voru ríflega 10.000 einstaklingar fluttir nauðugir á brott 25. mars 1949.  

Sá yngsti var eins dags gömul stúlka, sá elsti 95 ára gömul kona.

Þetta var hluti af Sovéskri herferð sem var kölluð "Priboi", eða "Brim" upp á Íslensku. 

Á næstu dögum fór fjöldinn yfir 20.000  sem voru fluttir á brott.  Þó náðu yfir 8000, af þeim sem voru á "listanum" að flýja. 7500 fjölskyldur voru fluttar á brott í mars mánuði fyrir 65 árum síðan.  U.þ.b. helmingur af fjöldanum var konur, ríflega 6000 börn undir 16 ára aldri og 4300 karlmenn.

Samanlagður fjöldinn var ríflega 2.5% af Eistnesku þjóðinni. Rétt tæplega 100.000 einstaklingar voru fluttir á brott í Eystrasaltslöndunum þremur.

Þau voru dæmd, án réttarhalda, til Síberíuvistar. Hersetin af Sovétríkjunum áttu þau sér enga vörn. 

Síberíuflutningar stóðu yfir frá 1941 til 1956. 

Í dag kveikja Eistlendingar á kertum á Frelsistorginu (Vabaduse Väljak) í Tallinn (og víðar um landið) til að minnast þeirra sem voru fluttir á brott. 

Nú sem endranær í skugga Rússneska "bjarnarins", en hætt er við að sá skuggi sé stærri en undanfarin ár í kertaljósinu.


Hvenær sigldu "Sambandsviðræðurnar" í strand? Fríverslun við Kína og Japan?

Upp á síðkastið hef ég rekist á nokkrar vangaveltur um hvenær aðlögunarviðræður Íslands að Evrópusambandinu sigldu raunverulega í strand.

Ýmsir hafa staldrað nokkuð við þann atburð þegar "Sambandið" neitaði Steingrími J. Sigfússyni um rýniskýrslu um sjávarútveg.  Þá hafi það orðið ljóst að svo mikið bæri á milli í sjávarútvegsmálum, að ekki yrði hægt að opna sjávarútvegskaflann, nema með verulegum tilslökunum af hálfu Íslendinga.

Það var í janúar 2012.

Það er nokkuð merkileg tilviljun að stuttu síður kemst verulegur skriður á viðræður Íslendinga og Kínverja um fríverslunarsamning.  En þær viðræður höfðu legið í láginni frá árinu 2008.  Sjá tímalínu hér.

Það er engu líkara en Össur og félagar hafi viljað sýna "Sambandinu" að það væru fleiri fiskar í sjónum.

Það hefur alltof lítið verið fjallað um stöðu aðlögunarviðræðna Íslendinga við "Sambandið" og hvað fór úrskeiðis?

Hvers vegna var nauðsynlegt að "salta" viðræðurnar í upphafi árs 2013? Hvers vegna stóðust engar tímaáætlanir sem talað hafði verið um?  Hvers vegna var ekki búið að opna viðræður í erfiðustu málaflokkunum?

Var það vegna þess að "Sambandið" neitaði að halda lengra?

Össur, Steingrímur og viðræðunefndarmeðlimir skulda upplýsingar um það sem gerðist.  Það er merkilegt að engin fjölmiðill (í það minnsta svo ég hafi séð) skuli hafa fjallað rækileg um gang viðræðnana og hvers vegna svo illa gekk sem raun bar vitni.

En nú leggja Össur og félagar til að farið verði í fríverslunarviðræður við Japan.  Því ber að fagna og taka undir.

En það sýnir að mínu mati, að Össur og félagar gera sér grein fyrir því að ekkert markvert mun gerast í "Sambandsumsókninni" á næstu árum.

Össur og félagar hófu vegferðina í óðagoti og náðu lítt að koma henni áleiðis.

Það væri því tímabært að draga hana til baka. 

 

 

 


mbl.is Vilja fríverslun við Japan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hætta samstarfi, en selja þeim samt hergögn. Landamæri Krím voru ekki einu landamæri sem breytt var á tímum Sovétsins

Það má vissulega kalla það spor í rétta átt að Frakkar hætti hernaðarsamstarfi sínu við Rússa "að mestu".

Þetta að mestu tekur til dæmis ekki til þess að Frakkar eru að selja Rússum 2. þyrlumóðurskip.  Þeir afsaka sig reyndar með því að Rússar muni ekki fá skipin vopnum búin.  Þeir þurfi sjálfir að setja vopn í þau.  Líklega líta Frakkar svo á, að vopnlaus herskip, séu rétt si sona eins og fraktarar.

En eðlilega líta margir af bandamönnum Frakka á sölu á Mistralskipunum sem ógn við sig, eins og lesa má hér.

En það er rétt að það komi fram að Frakkar hafa lofað að senda 4. orrustuþotur til Eystrasaltslandana, á vegum NATO. 

En fyrir fróðleiksþyrsta má benda á að flutningur á Krímhéraði frá Rússlandi til Ukraínu voru ekki einu landamærabreytingarnar sem gerðar voru "innan" Sovétsins.  Rússland tók t.d. til sín skerf af Eistlandi (sem þá var hernumið af Sovétríkjunum).  Þegar Eistlendingar endurheimtu sjálfstæði sitt árið 1991, fylgdi þetta landsvæði ekki með.

Líklega hefur Eistlendingum ekki þótt vænlegt að sækja þetta landsvæði beint í hendur Rússa á þeim tíma.  En nýverið undirrituðu Rússar og Eistlendingar samkomulag um landamæri sín, og tilheyrir landsvæðið nú formlega Rússlandi.  

Eðlilega er samkomulag þetta umdeilt í Eistlandi og finnst mörgum of langt gengið að afsala landinu öllum kröfum til þessa landsvæðið og "yfirgefa" það fólk sem er af eistnesku bergi brotið og býr þar. Um samkomulagið má lesa t.d. hér í grein sem nefnist, "Eistland gæti verið næst, en var það ekki fyrst?"

Þannig hafa Rússar takmarkaðan áhuga á því að "eldri" landamæri gildi, og ekki minnist ég þess að hafa heyrt Putin eða aðra Rússneska ráðamenn lýsa yfir áhuga sínum á að skila Finnlandi þeim landsvæðum sem Rússland tók af þeim, í upphafi og að lokinni seinni heimstyrjöld.

En Eistlendingum er vel ljóst að þeir lifa í skugga Rússneska bjarnarins.  Þeim er það líka ljóst að í landamærahéruðunum, býr fjöldinn allur af Rússum og sumstaðar eru þeir í meirihluta.  Í höfuðborginni Tallinn, eru Rússar líklega u.þ.b. 1/3.  Stór hluti þeirra sækir fréttir og annan fróðleik til Rússneskra sjónvarpsstöðva og blaða. 

Þess vegna hafa Eistlendingar áhyggjur af því að þeir séu að tapa "upplýsingastríðinu"

En það er flestum orðið ljóst að friðurinn er brothættur í A-Evrópu. Fréttir þar sem haft er eftir Rússneskum erindrekum, að Rússar hafi áhyggjur af stöðu Rússnesku mælandi í Eistlandi,vekja áhyggjur og ugg hjá heimamönnum.  Þeim er ljóst eins og mörgum öðrum að Rússar hafa alltaf haft "áhuga" á Eystrasaltslöndunum. 

Þó að seinna hafi komið fréttir um að orð hins Rússneska erindreka kunni að hafa verið oftúlkuð, eykur fréttin eigi að síður spennuna sem þegar orðin er. 

Spennan er enn sem komið er ekki síst í frétta og "menningargeiranum", eins og sést á þessari frétt, en Litháensk yfirvöld hafa bannað tímabundið útsendingar sjónvarpsstöðvar í eigu Gazprom .

Það er útlit fyrir vaxandi spennu, ekki síst í samskiptum mismunandi þjóðernishópa. 

 


mbl.is Hafa slitið samstarfi við Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkar kraftlaust og vanmáttugt

Ekki veit ég hvernig Evrópusambandið og Bandaríkin hyggjast setja "ferðabann" á ákveðna einstaklinga í Rússlandi og Ukraínu.  Líklega verður þeim neitað um vegabréfsáritanir til "Sambandslanda" og Bandaríkjanna, en það er auðvitað ekki það sama og ferðabann.

Svo er það spurningin um að frysta eigur þeirra.  Ekki veit ég hvað þeir eiga mikið af "föstum eignum" á Vesturlöndum, en umræðan um frystingu er búin að standa nógu lengi til að flestir þeirra hljóta að hafa komið fé sínu í skjól.

En ekkert er rætt um t.d. vopnasölu til Rússlands, þar verður "business as usual", alla vegna enn um sinn. Enda verður að forðast stóru málin, því Evrópusambandslöndin verða að fá orkugjafa frá Rússlandi og vilja auðvitað selja góss þangað.

Á næstu dögum munu Rússar svo tilkynna um einhverjar mótaðgerðir, og allir munu líta málið alvarlegum augum.

Þangað til næsta krísa kemur. 

En þangað til, er það "peace in our times".

 

 


mbl.is ESB og Bandaríkin grípa til aðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að selja það sem aðrir eiga. Kvótakóngar og rányrkja

Það er skiljanlegt að misjafnar skoðanir séu uppi hvað varðar aðgangseyri að vinsælum ferðamannastöðum.

En er ekki eðlilegt að þeir sem eiga vinsæla ferðamannastaði vilji fá eitthvað fyrir afnot annara af eigum þeirra?  Er óeðlilegr að rukkað sé inn á stað s.s. Geysissvæðið, en t.d. aðgang að turni Hallgrímskirkju?

Er eðlilegt að hægt sé að skipuleggja ferðir til eigna annara og taka fyrir það gjald, án þess að eigandinn fái hluta af gjaldinu?

En landeigendur þurfa sömuleiðis að fara varlega, sýna hófsemi og æskilegt er að fyrirhugaðar gjaldtökur séu tilkynntar með nokkuð löngum fyrirvara, þannig að aðrir ferðaþjónustuaðilar geti aðlagað sig breyttum aðstæðum.

Að sama skapi hljóta kröfur um bættan aðbúnað og upplifun að verða háværari þegar og ef farið er að krefjast aðgangseyris að einstaka ferðamannastöðum.

Fyrirkomulagið á án efa eftir að þróast og gefur allra handa möguleika á samstarfi ferðaþjónustuaðila.  Hótel geta látið aðgengi að stöðum í nágrenninu (í samstarfi við viðkomandi eigendur) fylgja með gistingu, og þannig má lengi telja.

Hvernig stjórnvöld eiga að geta stöðvað það að landeigendur krefjist aðgangseyris, skil ég ekki (þar sem enginn vafi leikur á eignarhaldi).

Hugmynd um komugjald finnst mér sérstaklega afleit, enda þá einfaldlega verið að láta þá sem ekki fara á viðkomandi staði, niðurgreiða kostnaðinn fyrir aðra, og þá einnig ferðaþjónustufyrirtækin sem skipuleggja ferðir á viðkomandi staði. 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is „Kvótakóngar íslenskrar ferðaþjónustu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússneskur Krímskagi - hvað svo?

Því miður er útlit fyrir að Rússar muni taka yfir Krímskaga, það er erfitt að koma auga á nokkuð sem getur komið í veg fyrir það.

Niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni var nokkuð fyrirséð og hvort sem hún stenst lög eður ei, er hún átyllan sem Rússar þurfa til að innlima Krímskaga og "vernda" íbúa þess.  Gegn hverju er verið að "vernda" þá er ef til vill óljósara.

En eðilega er verið að velta fyrir sér hverjir verða næstu leikir í stöðunni.  Bæði Rússa og ekki síður Bandaríkjanna, NATO og Evrópusambandsins.

Það er flestum ljóst að það er ekki mikill áhugi á því innan Evrópusambandsins að grípa til umtalverðra refsiaðgerða gegn Rússum.  Evrópusambandsríkin eru einfaldlega of háð því að kaupa hrávörur, sérstaklega orkugjafa, frá Rússum og selja þangað framleiðsluvörur sínar.

Bandaríkin eru líklega ekki í aðstöðu til að beita þvíngunum sem hefðu virkileg áhrif á Rússland.

Líklega verður reynt að finna einhverjar verulega takmarkaðar refsiaðgerðir, sem geta þá leyft flestum að "halda andlitinu".

En það verður ekki hvað síst "Sambandsríkin" í A-Evrópu sem munu finna fyrir auknum þrýstingi og spennu.  Þau eiga mörg hver umtalsverð viðskipti við Rússa og hafa auk þess sum þeirra stóran Rússneskan minnihlutahóp innan landamæra sinna.  Svo stóran að á ýmsum svæðum eru Rússar í meirihluta.

Það er ekki síst á slíkum svæðum, þar sem horft er til atkvæðagreiðslunnar á Krímskaga með ýmist aðdáun, eða hryllingi.

Það er enda næsta víst að aukin spenna mun verða í samkiptum á milli mismunandi þjóðahópa í t.d. Eystrasaltsríkjunum.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Hugleiða refsiaðgerðir gagnvart Rússum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru ekki allir að tala um kosningaloforð?

Kosningaloforð hafa verið mikið í umræðunni á Íslandi undanfarnar vikur.  Rakst á þessa umfjöllun á vef Viðskiptablaðsins, þar var einnig að finna meðfylgjandi myndband.

 


Góðar fréttir fyrir Íslendinga

Á annan áratug hef ég verið dyggur viðskiptavinur í Costco.  Þar hef ég keypt mikið af matvöru, verkfæri, tölvur, myndavélar, gleraugu, lyf, bækur, reiðhjól, hjólbarða, ferðatöskur, rakaeyði, frystikistu, nýbökuð brauð, rúðuþurkur, og þó nokkuð af fötum og er þá langt í frá allt upp talið. 

Það eru góðar fréttir fyrir Íslendinga að Costco sýni áhuga á því að opna verslun á Íslandi og óskandi að af því verði.

Það er spurning hvernig gangi að fá Íslendinga til þess að að greiða "félagsgjald" fyrir að fá að versla í ákveðinni verslun, en mín reynsla er sú að það borgar sig margfalt.

Ekki aðeins fékk ég aðgang að góðum vörum á góðu verði, heldur fékk ég endurgreitt (% af innkaupum) sem dugðu fyrir "félagsgjaldinu" og vel það.

Þar sem ég hef komið í Costco verslanir hafa þær verið aðlagaðar hverju svæði fyrir sig, þó að ákveðinn vörukjarni sé til staðar.  Ég hef því fulla trú á því að Costco myndi ganga vel á Íslandi.

Ef að verður breytist umhverfið í verslun á Íslandi í einu vettfangi og er það vel.  Það mun koma neytendum til góða. 

Líklega er Ísland á mörkunum með að teljast nógu stórt markaðssvæði fyrir Costcoverslun, en vonandi taka þeir slaginn. 

 

 

 


mbl.is Costco vill opna verslun á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilagur makríll

Holy mackerel er stundum sagt á Enskri tungu og sjálfsagt styttist í það að makríllinn verði álitinn heilagur fiskur á Íslandi.  Ef til vill verður hann gerður að tákni "sannleiksstundarinnar".

En ef þessi frétt reynist rétt er hún í alla staða merkileg, þó að miðað við fréttir undanfarinna vikna komi hún all nokkuð á óvart.

Fréttir höfðu verið í þá veru að samkomulag strandaði á Noregi, en aðrir deiluaðilar hefðu verið reiðubúnir til samkomulags.

En ef marka má þess frétt, ákveður "Sambandið", Noregur og Færeyjar (rétt að hugsa um hvaða þátt Danir gætu átt í því) að skilja Íslendinga eftir út í kuldanum.  Það gera þeir reyndar einnig við Rússa og Grænlendinga.

Ef til vill segir þetta nokkuð til um hug "Sambandsins" til Íslendinga.

En það er þessi merkilegi fiskur, makríll, sem Samfylkingin og Vinstri grænir fullyrtu að hefði engin tengsl við aðlögunarviðræður Íslendinga að "Sambandinu", það er að segja fyrir kosningar, en fiskurinn sá breyttist í eina aðal afsökun þeirra fyrir því hvað aðlögunarviðræðurnar hefðu gengið illa.

Þó ekki fyrr en eftir kosningar.

Þannig upplýsir makríllinn Íslendinga ekki aðeins um hentistefnumálflutning Sam(bands)fylkingarinnar, heldur upplýsir hann Íslendinga sömuleiðis um hvað miklu máli það skiptir að hafa full og óskoruðu yfirráð yfir landhelginni og fulla stöðu strandríkis.

Það er það sem "Sambandssinnar" eru önnum kafnir við að reyna að sannfæra Íslendinga um að skipti engu máli.

Íslendingar eiga nú, ef þessi frétt reynist rétt, að gefa út "vænan" makrílkvóta.

Tímabært er að draga aðildarumsókn að "Sambandinu" til baka.

Það verður svo hlutverk kjósenda að veita Samfylkingunni "mak(ríls)leg málagjöld" í næstu kosningum.  En það gerðu þeir reyndar ágætlega í þeim síðustu. 

 

 

 

 

 


mbl.is Færeyjar, Noregur og ESB semja um makríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband