Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Fagnaðarefni

Það er vissulega ástæða til að fagna því ef að stimpilgjöld og vörugjöld verða afnumin.  Það væri þó æskilegt að tekið væri fram hvort um væri að ræða öll vörugjöld, eða hvort eingöngu er verið að ræða um hluta þeirra.  Þó að aðeins væri um að ræða hluta, væri það vissulega framför, en ef um væri að ræða öll vörugjöld væri það bylting.

Hvað varðar stimpilgjöldin, er niðurfelling þeirra löngu tímabær.  Ég fann muninn þegar við Bjórárhjónin slógum lán til að kaupa slotið, engin stimpilgjöld, engin lántökugjöld, öll upphæðin sem við fengum að láni fór í að greiða húsnæðið.  Bankinn gaf okkur meira að segja ca. 30.000, til að dekka lögfræðikostnað.  Hér þyrftu bankarnir að sýna lit og lækka eða fella niður lántökugjöld.

Niðurfellingar á þessum gjöldum myndu gjörbreyta möguleikum almennings sem fyrirtækja á því að skuldbreyta og færa lán á milli banka, eftir því hvernig kjör gæfust.

Hvað varðar uppgreiðslugjöldin, þá finnst mér líka vanta að skýra út til hvaða ráða hið opinbera hyggst grípa til.  Er meiningin að banna uppgreiðslugjöld með lögum?

Ef svo er, þá finnst mér það frekar misráðið og slíkar aðgerðir eru í raun líklegar til að hækka vexti, enda eykur það áhættuna fyrir bankann verulega, ef hægt er að greiða lánið upp fyrirvaralaust hvenær sem er.  Slíkt gæti því virkað öfugt fyrir neytendur, enda þykir mér sjálfsagt að slíkt sé frjálst í samningum um lán, enda er ekki óalgengt að boðið sé upp á mismunandi vexti, eftir hvernig uppgreiðslukjör eru.  Í þessum efnum sem öðrum er of mikil forsjárhyggja varasöm.

 


mbl.is Vörugjöld, stimpilgjöld og uppgreiðslugjöld afnumin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til fyrirmyndar

Ég rakst á stutta en sérlega ánægjulega frétt á vef RUV í dag, en fréttina má lesa hér.  Þar segir af þeirri ákvörðun Ragnheiðar Ríkharðsdóttur fyrrum bæjarstjóra í Mosfellsbæ og núverandi alþingismanns að segja sig úr bæjarstjórn Mosfellsbæjar.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það fari illa saman að sitja í sveitarstjórnum og á Alþingi og því fagna ég þessari ákvörðun Ragnheiðar og tel hana reyndar alveg hreint til fyrirmyndar.

Fréttina í heild má svo lesa hér að neðan.

 

"Ragnheiður hættir í bæjarstjórn

Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingmaður hættir í bæjarstjórn Mosfellsbæjar á morgun. Hún var áður bæjarstjóri þar til hún var kjörin á þing í vor. Ragnheiður segir það ekki fara saman að sitja á báðum stöðum; skyldur í þingi og bæjarstjórn skarist of mikið.

Alls sitja 3 þingmenn Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórnum: Kristján Þór Júlíusson er forseti bæjarstjórnar Akureyrar, Björk Guðjónsdóttir forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og Ármann Kr. Ólafsson er í bæjarstjórn Kópavogs. Gunnar Svavarsson, Samfylkingu er í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og þingmaður Framsóknar, Birkir Jónsson, situr í bæjarstjórn Fjallabyggðar."

 


Saving Indonesia?

Ég er alveg hissa ef hæstvirtur iðnaðarráðherra segir Indónesum ekki frá því hvílíkt feigðarflan það er að ætla að fara að byggja álver sem eigi að nýta "græna" orku landsins.

Hann hlýtur að segja þeim frá því að slíkar ætlanir séu líklegar til að skipta þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar sem séu ekki líklegar til að ná sáttum.  Ennfremur hlýtur hann að vara við því að uppspretti hópar innlendra sem erlendra mótmælenda sem geri allt sem þeir geti til að tefja framkvæmdir.

Hann hlýtur að vara Indónesíska ráðamenn við því að þetta geti orðið til þess að þeir gætu orðið í vandræðum með að uppfylla skilyrði Kyoto og mæla eindregið á móti því að Indónesar sækist eftir nokkrum undanþágum á þeim forsendum að um sé að ræða "græna" orku.

Hann hlýtur að hvetja Indónesa til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, eða alla vegna atkvæðagreiðslu í þeim sveitarfélögum sem koma til með að standa næst fyrirhuguðum álverum.  Hann hlýtur líka að segja þeim að ef Indónesar stefni að því að yfirgefa "þriðja heiminn", þá byggi þeir ekki álver, enda séu slík ver ekki byggð hjá þróuðum ríkjum.

Eða hvað?


mbl.is Indónesar lýsa áhuga á samstarfi varðandi álframleiðslu og fiskveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrslitin standa. Kimi er kóngurinn

Þá er það ljóst að úrslitin standa, alla vegna ef marka má frétt frá ITV, sem lesa má hér.  Ég held reyndar að það hefði varla getað gengið upp að færa Hamilton titilinn með þessu móti.  Það hefði aldei orðið úr þessu nema sekt, eða í mesta lagi að liðin hefðu verið svipt stigum í keppni bílsmiða.  Hvernig brot McLaren hafa verið meðhöndluð hefur sett fordæmi hvað það varðar.  Hamilton slapp enda sjálfur frá dekkjaklúðrinu í Brasilíu þó að McLaren fengi örlitla sekt.  Fordæmi eru líka til í svipuðum tilfellum að aðeins liðið var svipt stigum.  Þar áttu í hlut ekki ómerkari menn en Schumacher og Coulthard.

En annars var keppnin í dag með eindæmum.  Ég sat á sófabrúninni og trúði varla hvað var að gerast.  Þó að ég hefði verið beðinn um að skrifa handrit að þessum kappakstri hefði hann varla getað farið betur fyrir okkur Ferrari aðdáendur.  Sjálfur var ég löngu búinn að gefa upp alla von um að titillinn endaði hjá Ferrari, en þetta sýnir að það þarf að keyra af bjartsýni til síðasta metra. 

Reyndar virtist mér þegar Raikkonen hafði unnið þetta, að spennan hefði haft mun minni áhrif á hann en mig, og að sama skapi held að á ytra borðinu hafi ég virkað glaðari en hann.  "Ísmaðurinn" læddi þó fram smá hamingjubrosi, en það væru ýkjur að segja að hann hafi brosað hringinn.

En þetta er búið að vera ótrúlegt ár, hreint ótrúlegt að ná titlinum svona í síðasta móti. Það hefur verið glatt á hjalla á Ítalíu og í Finnlandi í kvöld.

Að sama skapi held ég að Ron Dennis og McLaren menn vilji gleyma þessu sem fyrst.  Árið sem virtist lofa svo góðu hefur reynst hið hræðilegasta.  Njósnaskandall, öll vandræðin í kringum ökumennina og nú siðast að missa titilinn úr höndunum á sér á "síðustu metrunum".

En það þarf að stokka Formúluna upp, breyta fyrirkomulaginu og gera það "gegnsærra".  En ég held að fáir geti mælt á móti því að Raikkonen er vel að titlinum kominn, enda hefði hann hlotið titilinn hefðu Alonso, Hamilton og hann orðið jafnir að stigum.  Hann er fremstur á meðal jafningja.

En því verður ekki á móti mælt að árangur Hamilton er einstakur og glæsilegur, aldrei hefur nýliði átt betra fyrsta ár, alla vegna ekki svo ég muni eftir.  Ecclestone sagði reyndar að hann vildi að Hamilton næði titlinum (hann telur að Hamilton geri svipaða hluti fyrir formúla og Tiger Woods gerði fyrir golfið, hann taldi Raikkonen sístan í því tilltii, þar sem hann segði varla neitt og væri "frosin" í framkomu), og það má telja líklegt að sá tími muni koma að Hamilton hampi titlinum.

En það er ekki í ár, þetta er ár Kimi Raikkonen.  Hann er kóngurinn þetta árið og ákaflega vel að titlinum kominn.

 

 


mbl.is Rannsókn á bensínsýnum gæti breytt úrslitum brasilíska kappakstursins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin eftirsótta mengun?

Frétt sem ég rakst á á visi, vakti athygli mína.  Þar er fjallað um tækni til þess að vinna metanól úr annars mengandi útblæstri ál og orkuvera.

Í fréttinni segir m.a.: 

"Carbon Recycling International, félag í eigu bandarískra og íslenskra aðila, hefur skrifað undir viljayfirlýsingu við íslenskt raforkufyrirtæki um byggingu þriggja til fimm megavatta tilraunaverksmiðju hér á landi.

Með með tækni fyrirtækisins verður til dæmis hægt að vinna metanól úr útblæstri álvera í Helguvík og Bakka, sem unnið er frekar yfir í bensín á óbreytta bíla og önnur ökutæki.

Búnaður Carbon Recycling International tekur við útblæstri álvera áður en hann fer úr kerjum í hreinsi­búnað þeirra. Gangi allt eftir er reiknað með að tæknin geti minnkað losun koltvísýrings­útblásturs álvera um rúm níutíu prósent. Búist er við að sömu tækni verði hægt að nýta fyrir raforkuver erlendis sem vinna raforku úr kolum og hafa fram til þessa mengað mikið."

"Stefnt er að því að fyrsta verksmiðjan taki til starfa að ári og geti framleitt allt að tíu þúsund lítra af metanóli á dag, sem verður unnið yfir í fimm þúsund lítra af bensíni. Búið er að ljúka gerð tilraunaverksmiðju sem gefur af sér nokkrar lítra á dag af metanóli."

Ef allt gengur upp er vissulega um stórtíðindi að ræða. Ekki nóg með að þá verði hægt að draga verulega úr mengun frá stóriðjuverum, heldur verða búin til verðmæti úr menguninni.  Verðmæti sem aftur geta dregið úr mengun frá bílum og öðrum farartækjum.

Sjálfsagt er málið ekki jafn einfalt og einhver vandamál óleyst, en það verður virkilega áhugavert að heyra meira af þessu.

Þetta sannar líka að það gefst betur að leita lausna við vandamálum sem eru til staðar, frekar en að banna eða hætta við allt sem veldur vandamálum.

 


Að finna Finn og Alfreð

Ég horfði á Kastljósið frá því í gær núna rétt áðan.  Þar voru Árni Snævarr og Andrés Magnússon að ræða "borgarstjórnarmálefnin". Þáttinn má sjá hér.

Umræðan var skemmtileg, en hápunkturinn var vissulega "Finnskenningin" sem Árni setti fram.  Ennfremur var áhugavert að heyra vangaveltur um hverju framvindan í Ráðhúsinu gæti breytt í ríkisstjórnarsamstarfinu.  Þar heyrðist mér þeir vera að vitna til Baldurs Þórhallssonar, en viðtalið við hann hef ég ekki heyrt.

En það er augljóst að það eru fleiri að velta fyrir sér hverju þetta geti hugsanlega breytt hvað varðar landsmálin og hvort að hægt sé að nota þetta til að vekja upp úlfúð á milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.  Í því sambandi þarf ekki að leita lengra heldur en blogs Birkis Jóns Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins.

Það þarf ekki að kafa djúpt í bloggið til að finna aðdáunina á Alfreð, klókindum hans og von um að þau virki víðar en í Ráðhúsinu.

 


REIf meirihlutann

Þá er það orðið ljóst að REI varð meirihlutanum að fjörtjóni.  Að mörgu leyti er lítil eftirsjá af gamla meirihlutanum, alla vegna hefur framganga hans ekki verið heillandi á undanförnum misserum, sérstaklega þó hvað varðar ýmis klaufaleg smáatriði. 

En eins og máltækið segir, enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.  Því ég verð að segja að nýji meirihlutinn virkar ekki traustvekjandi á mig, þvert á móti.

En það verður fróðlegt að fylgjast með á næstu vikum hvert hinn nýji meirihluti stefnir, því enn sem komið er virðist hann ekki hafa komið sér saman um neitt - nema að vera í meirihluta.

Það verður ekki hvað síst áhugavert að sjá hvert verður stefnt með REI.  Ætla Svandís og Margrét að kyngja því að samruninn við GGE verði að veruleika?  Verður stefnt á fulla ferð með fé OR í áhættufjárfestingar erlendis?

Þetta verður líka athygliverð prófraun fyrir Dag, það reynir á hann sem stjórnmálamann að halda saman fjögra flokka meirihluta, og það með aðeins einn fulltrúa umfram.

En það verður ábyggilega engin lognmolla þessi tvö og hálfa árið sem er fram að næstu kosningum.

 

 

 


REIgin mistök

Það hefur verið grátlegt að lesa um þessa atburðarás.  Fátt  hefur verið framkvæmt rétt, alla vegna frá mínu sjónarhorni.

Í mínum huga byrja mistökin þegar ákveðinn er samruni opinbers fyrirtækis og einka.  Ja, jafnvel aðeins fyrr, þegar aðeins valdir fjárfestar fá að leggja fé í fyrirtæki sem er dótturfyrirtæki OR.

 Stjórnmálamenn eiga ekki og ættu ekki að geta farið með slík fyrirtæki sem sín eigin.

Hugmyndin að fyrirtækinu er ekki slæm, að nota þann þekkingarauð sem safnast hefur hjá OR.  En síðan fer þetta niður á við.  Það er vissulega góð hugmynd að fá áhættufjármagn til þess að áhættan liggi ekki öll hjá OR, en þá á að auglýsa eftir því, fjárfestar eiga að sitja við sama borð.  Stjórnmálamenn eða stjórnendur fyrirtækisins eiga ekki að handvelja fjárfesta inn í fyrirtækið. 

Það gilda aðrar leikreglur um opinber fyrirtæki en þau sem starfa í einkageiranum.

Síðan gengur það heldur ekki upp að í mínum huga að sameina opinbert fyrirtæki og einkafyrirtæki, án þess að önnur fyrirtæki eða fjárfestar hafi þar nokkra möguleika.  Sú staðreynd að ekkert "óháð" verðmat hafi farið fram er svo annar hlutur sem virkar ekki traustvekjandi.

Líklega má bera þetta saman við að fyrst hefði völdum fjárfestum verið seldir hlutar í Símanum og fyrirtækið síðan látið renna saman við Vodafone.  Ég reikna með að það hefði ekki þótt góð "latína".

Þegar opinber fyrirtæki eru "færð" yfir í einkageirann (að hluta eða að fulllu) er nauðsynlegt að jafnræðis sé gætt, þannig að áhugasamir fjárfestar hafi jafna möguleika til að taka þátt í "geiminu".

Þetta undarlega samkrull af einka og opinberum rekstri, þar sem ákvarðanir virðast vera teknar í skyndi af þröngum hóp á einflaldlega ekki að eiga sér stað.

Oft hefur verið "hveralykt" af Orkuveitunni, en sjaldan eins og núna.

Það atriði sem hefur valdið mestu fjaðrafoki, þ.e.a.s. "kaupréttarsamningarnir", þá vil ég bæta því við að þar er opinberu fyrirtæki vissulega vandi á höndum.  Fyrirtæki verður að geta haldið lykilstarfsmönnum og boðið þeim umbun sem þarf.  En þar er einmitt opinbera eignarhaldið enn og aftur til vandræða og nauðsynlegt að hafa skýrt og heiðarlegt ferli við færslu fyrirtækis úr opinberrri (meirihluta) eigu yfir í einkageirann.

P.S.  Verð svo að bæta því við að allur samanburður við bankanna er auðvitað út í hött, og sömuleiðis sú röksemdafærsla að bankarnir hefðu orðið jafn mikils virði ef þeir hefðu verið áfram í opinberri eigu.  Slíkt færa ekki fram nema lýðskrumarar.

Vissulega má segja að Orkuveitan geti orðið af miklum hagnaði ef stór eða allur hluti REI er seldur, en lykilorðið er "geti".  Orkuveitan getur líka orðið af miklum hagnaði með því að kaupa ekki stóran hluta í Kaupþingi, Landsbankanum eða Microsoft.  En það er spurningin hvort að eigendur Orkuveitunnar (skattgreiðendur í Reykjavík, Akranesi og Borgarnesi) vilji að farið sé með fé OR í áhættufjárfestingar meira en nauðsynlegt er. 

Að mínu mati er það ákaflega skynsamlegt að halda aðeins eftir litlum (eða engum) hluta í fyrirtækinu og leggja ekki fram neitt nema þekkingu, láta öðrum eftir að leggja fram fjármagnið.  En ég endurek að þar ættu allir fjárfestar að sitja við sama borð.


Þakkargjörð

Þakkargjörðardagurinn (stórskrýtið orð) er hér í Kanada í dag.  Í raun má segja að þetta sé svona töðugjöld svo reynt sé að færa þetta í Íslenskan veruleika.  Þetta er dagurinn sem færðar eru þakkir fyrir árið sem er að líða, uppskeruna og þess háttar.

Uppskeran að Bjórá hefur reyndar verið ákaflega góð þetta árið og sér engan veginn fyrir endann á henni.  Hér eru paprikur, tómatar, gulrætur, næpur, baunir og hindber ennþá í fullum vexti, enda hefur haustið verið ákaflega gott.  Hitinn datt reyndar niður í 12 til 14 gráður í einn eða tvo daga, en hefur haldist yfir 20 stigum flesta daga, og reyndar örlítið yfir 30 í dag.  Haustið hefur því verið ákaflega þægilegt.

En auðvitað höfum við að Bjórá eitt og annað til að vera þakklát yfir á árinu sem hefur liðið frá síðasta Þakkarjörðardegi, ekki síst alla þá góðu gesti sem hingað hafa komist, svo ekki sé minnst á hve heilsa Bjórárbúa hefur verið góð og stabíl.

Hefðin hér þýðir auðvitað að eldaður er kalkúnn, sætar kartöflur, trönuberjasósa og "allur pakkinn".  Fjölskyldustærðin hér að Bjórá býður auðvitað ekki upp á það að eldaður sé heill kalkúnn, og engin er "fjölskyldan" til að bjóða heim,  þannig að ég varð að sætta mig við að setja bringur á grillið, en það var svo sem enginn svikinn af þeim.

En Foringjanum þótti svo sem ekki mikið til Þakkargjörðar koma, nú er Halloween á næsta leiti, sem er auðvitað miklu mikilvægari "hátíð".

 

 

 


Shanghai night

Það er ekki eins og best verður á kosið að þurfa að vera að horfa á kappakstur um miðjar nætur, en það verður að gera fleira en gott þykir.

Kappaksturinn i nótt var enda nokkuð líflegur og skemmtilegur, baráttan hörð og þó nokkur framúrakstur og ekki spillti fyrir að Ferrari fór með sigur af hólmi.  Raikkonen keyrði enda vel.

En það fór aldrei svo að Hamilton tryggði sér heimsmeistaratitilinn í Kína og verður að bíða úrslitanna þangað til í Brasilíu að tveimur vikum liðnum.  Það voru afdrifarík mistök að halda honum úti svona lengi.

En það breytir því ekki að Hamilton stendur lang sterkast að vígi, enda ennþá með forystu í keppninni, en þetta hlýtur þó að taka nokkuð á taugarnar og hafa þær þau efalaust verið þandar fyrir.  Það hjálpar ekki í baráttunni að missa af tækifæri líkt og bauðst nú í Kína.

Alonso á ennþá nokkuð góðan möguleika, en það hlýtur þó að þurfa nokkuð mikið að ganga á þannig að Hamilton fái 5 eða fleiri stig færri en Alonso.  Ég hef þó ekki spáð í hvert titillinn fer ef þeir verða jafnir að stigum.

Möguleikar Raikkonen er varla nema fræðilegir.  Það væri helst ef Hamilton færi að leggja það í vana sinn að falla úr keppni að möguleikar Raikkonen færu að aukast.

En það er vissulega gaman þegar úrsltin ráðast í síðustu keppni.  Allar líkur eru á því að titillinn sé sögulegur, þ.e.a.s. að Hamiltion verði yngsti titilhafi frá upphafi og jafnframt fyrsti nýliðinn til að klófesta titillinn, ef ekki verður líklegast að telja að Alonso hampi titlinum 3ja árið í röð, sem er auðvitað sögulegt í sjálfu sér.

En nú er að bíða í hálfan mánuð eftir úrslitunum.


mbl.is Räikkönen fyrstur og titilbaráttan galopin upp á nýtt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband