Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Borgarbúar borga launin, en annirnar eru hjá Samfylkingunni

Ég hef verið í morgun að skoða Íslenskar fréttir og fara í gegnum tölvupósta sem mér hafa borist um athygliverð mál eða fréttir.

Það er vissulega margt sem er athyglivert en því miður ekki margt sem er af jákvæðari toganum.

En mér fannst þessi frétt sem mér barst slóð á skratti athygliverð.

Hér talar varaformaður Samfylkingarinnar og segir að vegna anna hjá flokknum hafi hann ekki mátt vera að því að mæta í vinnuna.  Reykvíkingar kusu hann í borgarstjórn, þeir borga honum launin, en hann má einfaldlega ekki vera að því að sinna vinnunni, vegna þess að flokkurinn situr fyrir.

Eða eins og segir í fréttinni: 

Eftir að ég tók við varaformannsefmætti þá fylgdu því bæði í kosningabaráttunni og í stjórnarmynduninni verkefni og ég þurfti ekki einungis að víkja einstökum málum í borgarstjórnni til hliðar heldur líka fjölskyldulífi og öðru," segir Dagur.

Vissulega ber Degi lof fyrir hreinskilnina, en er ekki rétt að Samfylkingin borgi fyrir störf sem eru innt af hendi fyrir flokkinn, en Reykjavískir útsvarsgreiðendur þurfi ekki að standa straum af þeim kostnaði?

 

 


Gamlir leiðtogar, gamlar aðferðir

Það hefa engir núverandi þingmenn setið lengur á Alþingi en leiðtogar núverandi ríkistjórnar, þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.

Þangað til þeirra frami jókst nú í ársbyrjun, hafði frægðarsól þeirra líklega risið hvað hæst á níunda áratugnum.  Það þarf því varla að koma neinum á óvart að aðgerðir þær sem ríkisstjórn undir þeirra leiðsögn séu gamalkunnugar.  Hækkun álagna á bíla, bensín, áfengi og tóbak ætti ekki að koma neinum á óvart.

Þetta er gamalkunnug aðgerð Íslenskra stjórnmálamanna, varla getur neinn verið á móti því að hækka verð á áfengi og tóbaki.  Enginn ætti jú að reykja og áfengi er sömuleiðis varningur sem fáir kjósa að mæla bót.

Hvað er heldur á móti því að hækka verð á bílum og bensíni?  Eru almenningssamgöngur ekki fullgóður kostur og reyndar baráttumál vinstri manna að sem flestir þurfi að nota þær.

Skítt með það þó að þessar sömu aðgerðir auki verðbólgu og hækki höfuðstól lána.  Það ætti ennfrekar að hvetja almenning til að hætta að reykja og nota almenningssamgöngur þegar hann hefur minna á milli handanna.

Reyndar er vafamál hversu mikið þessar aðgerðir munu koma til með að skila í ríkiskassann.  Neysla áfengis mun líklega dragast saman og heimabrugg sem og neysla annara vímefna aukast, verðsamanburður verður þeim nú enn frekar í hag.

Það er erfiðara að skera niður bensínnotkun, en þó ekki að efa að margir munu reyna það eftir bestu getu.

En eftir mun standa hækkunin á lánskjaravísitölunni, hún mun fylgja almenningi um ókomin ár.

Gamlir leiðtogar eru ólíklegir til að koma með nýjar og ferskar lausnir.  Gamlir félagsmálaráðherrar kjósa frekar skattahækkanir en niðurskurð.  Gamlir (og nýir) sósíalistar eru líklegri til að auka ríkisafskipti (og beina og óbeina skatta) en að draga úr þeim.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig Jóhönnu og Steingrími gengur í niðurskurðinum.

 


mbl.is Mjög óvinsælar aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorverkin að Bjórá

Það hefur verið í mörg horn að líta hér að Bjórá undanfarnar vikur.  Vorverkin mörg og hornin sem í þarf að líta ekki síður.

Það er búið að grafa, planta, slá, raka, stinga upp, klippa og saga.  Sem betur fer hefur einnig gefist tími til skemmtilegri athafna s.s. að grilla og að fylgjast með þrastarungunum sem hér hafa hlaupið um garðinn.  Ég hef sést í ýmsum miður virðulegum stellingum við að taka myndir af þeim.

Robin's Nest (Young robin A)

En einhverra hluta vegna hefur bloggið setið á hakanum og reyndar hef ég fylgst minna með fréttum frá Íslandi nú undanfarnar vikur en oftast áður.  Þær hafa heldur ekki verið til þess fallnar að lyfta geðinu, alla vegna ekki þær sem ég hef þó séð.

Á morgun verður síðan haldið í útilegu, alla vegna ef veðrið lýtur út fyrir að verða skaplegt.

En það þarf líka að skerpa sjálfsagann til að standa sómasamlega að þessu bloggi.

P.S. Það er hægt að klikka á myndina til að sjá hana stærri og flytjast þannig yfir á Flickr síðuna mína, þar sem hægt er að sjá fleiri myndir af þrastarungum.


Skondin auglýsing - Sexý flugfélag?

Fékk slóð á þessa auglýsingu í tölvupósti.  Hér er nýsjálenskt flugfélag að vekja athygli á því að þeir séu ekki að fela neitt fyrir viðskiptavinum sínum.

Þessi auglýsing virðist ná takmarki sínu, þ.e.a.s. hún vekur mikla athygli á félaginu, en líklega eru ekki allir jafn kátir með aðferðina.

Hvet þá sem horfa á auglýsinguna að skoða vel "klæðnað" starfsfólksins sem kemur fram í auglýsingunni.

 

 

 

P.S.  Eftir því sem mér er sagt, er um að ræða raunverulegt starfsfólk félagsins sem leikur í auglýsingunni.


Nokkrar myndir frá Íslandsferðinni

Set hér inn nokkrar myndir úr Íslandsferð Bjórárfólksins.  Einhverjar fleiri myndir má síðan finna á www.flickr.com/tommigunnars

Hægt að er sjá myndirnar stærri og flytja sig yfir á flickr síðuna með því að klikka á myndirnar.

 

 

Silhouettes at the Blue Lagoon Young Girl With Hat Lighthouse Mt. Baula II Icelanders Eat ... Between Heaven and Earth

Að vonast eftir kraftaverki

Niðurstöður þessarar skoðannakönnunar er svipuð því sem oft hefur áður komið út þegar Íslendingar eru spurðir um "Sambandsaðild".

Þeir vilja sækja um aðild að "Sambandinu", en segja nei við því að ganga í það.

Ef til vill má segja að að þeir þykist vita nokkuð upp á hvað er boðið og muni segja nei við þvi, en vonist eftir einhverskonar kraftaverki í samningaviðræðum við "Sambandið", sem myndi þá skila samningi sem væri Íslendingum hagstæður.

Líklega eru þeir að vonast eftir því að samningamennirnir lýsi því yfir að Ísland fái "allt fyrir ekkert", rétt eins og Jón Baldvin Hannibalsson gerði hér um árið þegar hann kynnti EES samninginn fyrir Íslendingum.  Ég veit ekki hvort einhver trúir enn þeirri fullyrðingu.

Það er líka rétt að hafa í huga að enginn veit hvernig "Samband" morgundagsins kemur til með að líta út, eða hvaða meirihlutaákvarðanir þar verða teknar.  Undir slíkum kringumstæðum mun rödd Íslands mega sín lítils, í stóru ríkjasambandi.


mbl.is 61,2% vilja aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að lokinni Íslandsferð

Fjölskyldan að Bjórá fór eins og ýmsum er kunnugt til Ísland nú í apríl og skilaði sér heim aftur stuttu fyrir mánaðarmótin.

Húsfreyjan hélt reyndar lengra, því hún fór alla leið til Eistlands, en eyddi síðustu vikunni með fjölskyldunni á Íslandi.

Þessi ferð var eins og aðrar Íslandsferðir ákaflega ánægjuleg, það er enda alltaf gleðiefni að heimsækja uppeldisstöðvarnar (svona eins og laxinn) og skemmta sér með vinum og ættingjum.  Í þessarri ferð gat síðuskrifari notað tækifærið og kosið, þó að ekki hafi úrslitin í þeim kosningum orðið honum að skapi.

En stærsti munurinn á þessarri ferð og þeim Íslandsferðum sem áður hafa verið farnar var verðlagið á Íslandi.  Kreppan hefur gert það að verkum að munurinn á verðlagi á Íslandi og hér í Toronto er ekki mikill og getur jafnvel lagst með Íslandi á stundum.

Að fara með fjölskylduna á kaffihús kostar svipaða upphæð, skartgripir og annað slíkt sem unnið er á Íslandi er á mjög samkeppnishæfu verði (líklega ódýrara ef reynt er að taka tillit til gæða) og svo mætti lengi telja.  Ísland býður þó enn þá upp á afgerandi dýrara bensín, en munurinn er þó minni en oft áður.

Það er líka rétt að hafa í huga að þó að mér hafi fundist það ógnarhá upphæð að borga 6400 fyrir okkur hjónin ofan í Bláa lónið, þá rukka gufubaðsstofur hér í borg gjarna u.þ.b. 30 dollara fyrir innganginn.  Í þeim samanburði er aðgangseyrir Bláa lónsins ekki aðeins sanngjarn, heldur hreint og beint gjafverð.

Það er því ljóst að semkeppnisstaða Íslands sem ferðamannalands hefur sjaldan ef nokkurn tíma verið betri.

Enda hefur mikill fjöldi Kanadabúa hug á Íslandsferð í sumar, jafnvel einstaklingar sem hafa látið sig dreyma um það árum saman.  Nú segjast þeir hafa efni á þvi að fara til Íslands. 

Nokkrir hafa meira að segja haft samband við mig á undanförnum mánuðum og spurt hvar þeir gæti keypt krónur.  Þeir vilja "festa gengið", kaupa á meðan gengið er lágt, því í það minnsta sumir þeirra hafa fulla trú á því að gengi krónunnar eigi eftir að styrkjast.


Endurræst

Undanfarnar vikur hefur mikil leti hrjáð þann sem ritar þessa síðu.  Íslandsferð setti strik í reikninginn og eftir að heim var komið var alltaf eitthvað annað sem glapti og dró mig frá bloggskrifum.

Nú er rétt að reyna að koma reglu á hlutina og viðhalda síðunni með sómasamlegum hætti.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband