Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Fram og aftur um blindgötuna

Ef marka má fréttir á Vísi og Stöð 2, þá eru langt síðan samningaviðræður við Breta og Hollendinga hófust að nýja.  Frétinn segir reyndar að viðræðurnar hafi hafist því sem næst þegar eftir að Alþingi samþykkti samninginn, við fyrirvörunum sem svo mikið hafi verið í umræðunni.

Þetta hljómar því sem næst eins og endurtekning á rölti ríkisstjórnarinnar um blindgötuna þegar hún stóð í IceSave samningaviðræðum síðast.

Ekki viðurkennt að staðið sé í samingaviðræðum, leyndin eitt aðalatriðið og síðan á að keyra málið í gegn.  Fyrst í ríkisstjórn og síðan á Alþingi. 

Ráðherrar fá að lesa minnisblað undir eftirliti og reikna má með því að reynt verði að halda upplýsingum frá þingmönnum með kerfisbundnum hætti.  Rétt eins og síðast.

Næsta víst er að þingflokkur Samfylkingarinnar réttir upp hönd, rétt eins og þægir skólakrakkar, en það er vissulega spurning hvort að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur og hugsnalega hvað stór hluti þingflokks VG stendur í lappirnar og krefst almennilegrar umræðu í þinginu.

Þessi frétt setur varpar nokkru ljósi á afsögn Ögmundar Jónassonar fyrr í dag, en ríkisstjórnin, hún gengur líklega fram og aftur um blindgötuna.

En þetta eru áhugaverðir tímar.

 


Ögmundur, vígamóður en ekki særður

Það er ekki hægt annað en að lyfta hatti sínum til heiðurs Ögmundi Jónassyni í dag.  Skoðanir okkar liggja ekki á svipuðum slóðum (svona yfirleitt) en hann hefur ætíð verið óhræddur við að tjá skoðanir sínar og stendur nú fast við þær með eftirminnilegum hætti.

Líklega hefur ýmislegt verið búið að ganga á í Stjórnarráðinu og búið að hóta og þrýsta á víxl.  Ekki þykir mér ólíklegt að Jóhanna hafi verið búin að hóta því að stjórnin væri fallin, ef Ögmundur bakkaði ekki frá afstöðu sinni og Ögmundur hafi því ákveðið að segja af sér.  Það er líklegt að hann hafi valið þá leið frekar en að vera kennt um að hafa sprengt stjórnina, eða að gefa eftir sannfæringu sína.  Þessi "þriðja leið" hafi því verið sú eina sem hann sá sér opna.

Vissulega hverfur hann úr ríkisstjórn nokkuð vígamóður, en með þessu móti ósærður. Beygir sig ekki í duftið fyrir samstarfsflokknum (eins og mörg flokkssystkini hans virðast gera) og ávinnur sér virðingu víða um þjóðfélagið.

En ríkisstjórnin er komin að fótum fram og með hrygluna í hálsinum.  Það hefur nokkuð verið talað um "draugabanka" víða um heiminn undanfarið.  Íslendingar sitja vissulega uppi með þá, en nú verðist vera að bætast við "draugaríkisstjórn".

Líklegast þykir mér að Árni Þór Sigurðsson hljóti ráðherraembætti nú þegar uppstokkun verður, hvort sem það verður Heilbrigðisráðuneytið eða hvort farið verður einhverjar í hrókeringar.  Það er næsta víst að Samfylkingunni væri það ekki á móti skapi að farið yrði í breytingar við þetta tækifæri og Jón Bjarnason færður til, eða hreinlega settur út úr ríkisstjórninni.

Það er líka spurning hvort að reynt verður að skjóta styrkari stoðum undir stjórnina, horft þá til Framsóknarflokks, en ég held að sú verði þó varla raunin, enda yrðu það líklega afdrifarík mistök fyrir flokkinn að koma í ríkisstjórn undir þessum kringumstæðum.

En Íslendingar lifa svo sannarlega á áhugaverðum tímum.

 


mbl.is Var ekki að fórna sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylking á flótta

Það er hálf aumkunarvert að lesa orð Jóhönnu Sigurðardótttur, loks þegar hún fer að tjá sig í fjölmiðlum.

Formaður og forsætisráðherra flokksins sem samþykkti og vildi keyra IceSave samningin í gegn um þingið (helst án þess að alþingismenn fengju að sjá hann) segist nú ekki samþykkja neinn samning sem leiði harðræði yfir Íslensku þjóðina.

Telur hún samt ennþá að hægt væri að samþykkja samningin óbreyttan?  Um hvað hafa stuðningsmenn upphaflega samnings Svavars Gestssonar að rífast um við Breta og Hollendinga?

En því ber hins vegar að fagna að Samfylkingin er lögð á flótta í þessu máli, og vonandi næst í því ásættanleg lending.

Líklega vill Jóhanna nú láta líta svo út sem hún hafi alltaf verið á móti samningnum án fyrirvara og það hafi eingöngu verið Steingrímur "lonesome cowboy" Sigfússon sem hafi barist fyrir samþykkt hans.

En Samfylkingin er komin á flótta á fleiri sviðum.  Nú u.þ.b. ári eftir fjármálahrunið og 4. mánuðum eftir kosningar er allt í einu orðið í lagi og eftirsóknarvert að fella niður skuldir hjá almenningi, og það líklega á jafnt á alla línuna.

Man einhver eftir umræðunni fyrir kosningar?

Ef til hefur Samfylkingin einfaldlega séð að hún hafð rangt fyrir sér og ákveðið að leggja á flótta.  Ef til vill er flokkurinn orðinn hræddur um líf núverandi ríkisstjórnar og hefur ákveðið að marka sér stöðu sem vænlegri væri til atkvæðaveiða.

En það er óskandi að einhvejir reki flóttann og Samfylking dragi til baka fleiri af umdeildum baráttumálum sínum. 

Ég, og meirihluti Íslendinga ef marka má skoðanakannanir, myndi til dæmis fagna því ef umsóknin um "Sambandsaðild" yrði dregin til baka.

 


mbl.is Þarf niðurstöðu fyrir helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver borgaði hvað - í Toronto

Nú hefur menntamálaráðherrann Íslenski, ratað í vandræði á síðum fjölmiðla.

Nú ætla ég mér ekki að setja út á að menntamálaráðherra hafi komið hingað til Toronto, það þykir mér ekki óeðlilegt.  Hér var verið að sýna tvær Íslenskar myndir á kvikmyndahátíðinni (sem þykir jú með þeim virtari), Sólskinsdrenginn og A Good Heart.  Báðar hlutu þær nokkuð góðar mótttökur, eftir því sem ég heyri. 

Ennfremur var hún að kynna nýja samstarfsáætlun Norðurlandaþjóðanna hvað varðar menningarmál.  Það er hægt að hafa ýmsar skoðanir á þeirri áætlun, en hún er staðreynd og því ekki óeðlilegt að hún sé kynnt.

Sjálfur sá ég Katrínu ekki nema tilsýndar á The Bovine Sex Club (sem er ekki þess konar staður sem nafnið gefur til kynna), þar sem hún stóð stutt frá inngangnum og heilsaði gestum.  Þar var móttaka vegna þeirra Íslensku mynda sem voru sýndar.  Ég hef hins vegar heyrt í þó nokkru af fólki sem hitti hana og virtist kunna vel að meta.

Hitt er auðvitað sorglegt ef hún hefur fallið í þann pytt að ætla að leyna kostnaðinum sem af ferðinni hlaust.  Það getur varla gengið á hinum gegnsæu og "allt upp á borðið" tímum sem ríkja á Nýja Íslandi.

Ef að tólf hundruð þúsund hafa verið greidd af Íslenska ríkinu, þá á ráðherra auðvitað að viðurkenna það refjalaust og réttlæta ákvörðun sína, sem ég held að hafi ekki verið mjög erfitt.

Nú er hins vegar "glæpurinn" ekki ferðin, heldur ósannsögli og er það heldur verra. 

Auðvitað þarf ráðherra að koma fram og útskýra hvernig á þessu stendur.

P.S.  Í sundurliðun yfir kostnað við ferðina, hlýtur upphæðin 435.000 í dagpeninga fyrir 2. manneskjur í 5. daga að stinga í stúf.  Það þýðir 43.500 á dag á persónu, sem hlýtur að teljast æri ríflegt, sé tekið tillit til þess að gisting er annar kostnaðarliður.  En þar er auðvitað ekki við Katrínu að sakast.


Gengið um - í svart hvítu

Ég fór á rölt, bæði fimmtudag og laugardag í síðustu viku.  Hafði það eins og í "gamla daga", þvældist nokkuð stefnulaust um með myndavélina. 

Tók helling af myndum.

Var búinn að ákveða að þessi "túr" væri í svart hvítu.  Svona "aftur til upphafsins", þar sem ég byrjaði, þegar ég fékk áhuga á ljósmyndun.

Á fimmtudag gekk ég um Bloor West Village og High Park, en á laugardeginum þvældist ég um Danforth og nágrenni.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá röltinu.

Eins og áður er hægt að sjá myndirnar stærri með því að klikka á þær.  Þær (ásamt fleirum) er einnig að finna á Flickr síðunni minni, www.flickr.com/tommigunnars .  Ekki ólíklegt að ég eigi eftir að bæta við fleirum þar á næstunni

 

Enjoying the Park High Park Roasting Street Life - Danforth Open 24 Hours A Valiant Plymouth

Frábær einkunn Íslensku heilbrigðisþjónustunnar

Þessi niðurstaða er gríðarlega stór og falleg rós í hnappagat Íslenskrar heilbrigðisþjónustu.  Ég verð að viðurkenna að þessi niðurstaða kom mér afar skemmtilega á óvart.  Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að Íslensk heilbrigðisþjónusta stæði svona vel í samanburði, þó að ég hefði gert mér grein fyrir því að hún væri góð.

Ef til vill kom mér þetta á þægilega á óvart, því það er svo oft talað um heilbrigðisþjónustuna eins og hún sé afskipt, févana og við það að hrynja.

Það er til dæmis athyglivert að Íslensksa heilbrigðiskerfið er metið betra heldur en það Norska, Sænska og Finnska.  Af Norðurlandaþjóðunum, sem Íslendingum er svo tamt að bera sig við, eru það aðeins Danir sem eru metnir hafa betra heilbrigðisþjónustu.

Það kemur líka fram í könnuninni, að þegar gæði þjónustunnar eru reiknuð í hlutfalli á móti kostnaði (Bang for the Buck), þá er fær Ísland sömuleiðis afar glæsilega einkunn og er í 6. sæti.  Ofar en öll Norðurlöndin.  Ég verð að viðurkenna að þetta kom mér einnig afar þægilega á óvart og vissulega er það hin einkunin, þar sem Ísland er í 3ja sæti sem vegur þyngra.

En skiptir þessi skýrsla einhverju máli?  Ég myndi segja að vissulega geri hún það.  Hún segir okkur að uppbygging Íslenska heilbrigðiskerfisins hefur verið með ágætum (þó að vissulega hljóti eðli málsins samkvæmt að vera eitt og annað sem betur má fara).  Skýrslan segir sömuleiðis að það sé rangt að í þessum hluta velferðarkerfisins hafi Ísland dregist aftur úr Norðurlandaþjóðunum, þvert á móti.

Skýrslan hlýtur líka að vekja upp efasemdir um að rétt sé og nauðsynlegt að fara í uppbbyggingu á nýju "hátæknispítala" eins og staðan er nú.  Heilbrigðiskerfið virðist standa nokkuð vel, og líklegt verður að telja að frekar væri þörf á fjármagni í rekstrarhliðina, en aukningu húsnæðis, nú þegar fjármagn er af afar skornum skammti. 

Spurning hvort að ríkisstjórnin ætti ekki að endurskoða fyrirætlanir sínar með uppbyggingu nýs spítala.

Þeir sem vilja kynna sér skýrsluna eða hlaða henni niður, geta fundið hana hér.


mbl.is Íslenska heilbrigðisþjónustan sú þriðja besta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan eykur möguleikana

Það er alveg rétt að krónan órólegt flot hennar (sem er þó stýrt að verulegu leyti þessa dagana) gefur Íslendingingum aukna möguleika á því að vinna sig út úr kreppunni.  En hún tryggir það ekki, það þarf fleira að koma til.

En krónan styrkir stöðu útflutningsgreina og styrkir samkeppnisgrundvöll innlendrar framleiðslu gegn erlendri.  Fall krónunnar hefur dregið úr innflutningi komið vöruskiptajöfnuðinum yfir í plús og varðveitt atvinnu.

En það er líklegt að fylgst verði með bæði efnahag Íslands og Írlands (or reyndar allra landa) á næstu misserum. Deutsche Bank telur möguleika Íslendinga betri og ég held að það sé mikið til í því.

En það veltur auðvitað enn þá meira á því hvernig stjórnvöld spila úr tækifærunum.  Það lofar ekkert allt of góðu.

En þessa stuttu umfjöllun FT (sem er raunar hálfgert blogg), má finna hér.


mbl.is Ísland betur statt en Írland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning helgarinnar

Var Ari Skúlason mættur á flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar, eða var hann heima að læra?

Hvað skyldi þurfa að skipta oft ...

... um seðlabankastjóra, eða semja mörg ný lög um bankann, þangað til Íslenska vinstristórnin verður komin með bankastjóra sem er ásættanlegur?

Fer ekki að styttast í að Jóhanna, Steingrímur og Össur komi fram og segi að endurreisn Íslensks efnahags standi og falli með því að skipta um seðlabankastjóra, eða að "taka yfir" Seðlabankann?

Hvað má Seðlabankinn oft valda vonbrigðum?

Sbr. þessa frétt á RUV.


Hættulegar skattahækkanir

Ég held að það sé rétt að skattahækkanir geti verið hættulegar eins og nú er ástatt á Íslandi.

Hættan fellst ekki síst í því að hækkanirnar munu ekki skila auknum tekjum, heldur virka letjandi um allt þjóðfélagið og jafnvel verða til þess að skattstofnar dragist saman, enn meir en orðið er.

Í stað þess ætti ríkisstjórnin að ganga mun harðar fram í niðurskurði, enda hef ég trú á að það megi finna fleiri pósta en að hætta að kaupa dagblöðin.

P.S.  Tek mér það bessaleyfi að birta hér frábæra skopmynd Halldórs Baldurssonar frá í júní síðastliðnum, sem eins og oft segir meira en mörg orð.  Vona að mér fyrirgefist þessi myndstuldur.

19 06 09

 

 

 


mbl.is Háskaleikur að hækka skatta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband