Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Að gjamma eða að gelta?

Það hefur gjarna verið talað um að "tísta" á Twitter, líklega ekki síst vegna bláa fuglsins.  Á enskunni hefur það verið "tweet".

Nú þegar búið er að skipta út fuglinum fyrir hund (Shiba Inu, ef ég hef skilið rétt), segir það sig eiginlega ekki sjálft að byrjað verður að tala um að einhver hafi gjammað, nú eða gelt á Twitter?

Á Enskunni yrði það líklega "barked" eða "growled".

En svo eru auðvitað skiptar skoðanir um hvort að Twitter sé á leiðinni í hundana.  En Musk er kokhraustur (sjá viðtal við hanní færslunni hér á undan).

 


mbl.is Twitter skiptir bláa fuglinum út fyrir jarm-hund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðtal BBC við Musk - í heild sinni

Það er óhætt að segja að viðtal Elon Musk við BBC hafi vakið all nokkra athygli.  Persónulega finnst mér Musk komast vel frá viðtalinu, heldur ró sinni og yfirvegun.

Það sama verður vart sagt um spyrilinn.

Það er fróðlegt að horfa á viðtalið í heild sinni og eins og oftast er best að horfa á viðtalið allt og mynda sér eigin skoðun.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Musk opnar sig um kaupin á Twitter
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ritstýring og hliðvarsla

Þegar kunnugt varð að Fréttablaðið og Hringbraut væru að hætta útgáfu og móðurfélag þeirra stefndi í gjaldþrot, upphófst all nokkur umræða um Íslenskan fjölmiðlamarkað.

Að sjálfsögðu var umræða um samkeppnisstöðu og fjármál fyrirferðarmikil, sem vonlegt er, enda tekjur undirstaða fjölmiðla eins og annara fyrirtækja.

En það var líka rætt um "hliðvörslu" og nauðsynlega ritstýringu fjölmiðla og hversu "óheflað" hið "villta vestur" á samfélagsmiðlum og á víðáttum netsins, gæti verið.

Það er vissulega þó nokkuð til í því, því oft finnst mér ég finna það besta og versta á netinu, en samfélagsmiðla nota ég ekki.

En vinsældir netsins koma líklega ekki síst vegna þess að hluta almennings líkar lítt við "hliðvörsluna" og ritstýringuna (það getur verið stutt á milli ritstýringar og -skoðunar), finnst hún "röng" og jafnvel misnotuð. 

Enda þunn lína þar eins og víða í lífinu.

 

 

 

Vidreisn og hringbraut

 

 


mbl.is Torg lýst gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki mun ég sakna Fréttablaðsins, en ....

Það yrði ákveðin missögn af minni hálfu ef ég segðði að ég myndi sakna Fréttablaðins eða Hringbrautar.  En þrátt fyrir það verður auðvitað sjónarsviptir af þessum fjölmiðlum, því á þessu sviði eins og flestum öðrum er fjölbreytnin æskileg.

Það er enda svo að ekki kæra sig allir um sömu fjölmiðlana og öllum er hollt að lesa fjölmiðla sem þeir eru ef til vill ekki sammála "stefnu" hjá, í það minnsta kosti annað slagið.

En fjölmiðlar koma og fara, þróast og sumir hverfa.  Það er engin skortur á fjölmiðlum á Íslandi og líklega ekki mörg, ef nokkur, ca. 370 þúsunda samfélög sem státa af fleiri.

Mér er það líka til efs að hærra hlutfall nokkurrar þjóðar starfi við fjölmiðla (jafnvel þó að mér skiljist að þeim hafi fækkað), en þar gildir eins og víðar að smæðin ýkir hlutföllin. Það gildir auðvitað um fleiri svið.

Persónulega fannst mér Fréttablaðið í raun ekki bera sitt barr eftir að slitið var á milli þess og Visir.is.

Vefur blaðsins náði sér ekki á strik (var ekki góður að mínu mati), og líklega hefur tilkostnaður, ef eitthvað aukist, en "snertingum" fækkað, og prentmiðlar eiga eðlilega undir högg að sækja, mikill dreifingarkostnaður og óljós ávinningur.

Að vera yfirtekið af Hringbraut varð blaðinu ekki til framdráttar, það var engin Viðreisn í því.

Það er hins vegar af hinu góða að umræða fari fram um fjölmiðlamarkaðinn á Íslandi og hvers vegna ríkið ætti að vera stærsti aðilinn á þeim markaði.

Tæknin hefur gerbreytt fjölmiðlastarfsemi, það hefur líklega aldrei verið auðveldara að koma fjölmiðli á fót, en það það þýðir ekki að auðveldara sé að ná fótfestu.

 

 


mbl.is „Þetta er bara ömurlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erlendir auglýsingasalar

Það virðast býsna margir hafa áhyggjur af því að erlendir "tæknirisar" s.s. Google og Meta séu að verða æ fyrirferðarmeiri í sölu á auglýsingum til Íslenskra aðila.

Auðvitað finnst innlendum aðilum slæmt að missa stóran spón úr aski sínum, en talað um að erlendir aðilar séu með allt að helming auglýsingamarkaðarins.

Það vekur upp margar spurningar sem ég hef hvergi séð svör við.  Auðvitað þyrfti að reyna að greina betur hverjir og til hvers er verið að kaupa auglýsingar og ekki síður hvert birtingarnar fara.

Hvað mikið af sölu Google fer t.d. til birtingar á Íslenskum síðum?  Líklega eru það þó nokkrar Íslenskar síður sem selja pláss í gegnum Google.

Hvað er stór hluti af auglýsingakaupunum þess eðlis að kaupandi hefur engan áhuga á því að auglýsa í Íslenskum miðlum?

Ferðaþjónusta verður æ stærri partur af Íslensku efnahagslífi, flugfélög, hótel, bílaleigur, gistiheimili, "Air B´n B", bændagisting, veitingastaðir og áhugaverðir viðkomustaðir hafa engan hag eða áhuga á því að auglýsa í Íslenskum miðlum.

Er ekki líklegt að Íslandsstofa sé býsna stór kaupandi að auglýsingaplássi í gegnum erlend netfyrirtæki?

Þess utan eru svo áfengisauglýsingar sem er bannað að birta í Íslenskum miðlum.

Loks má svo velta fyrir sér "snertikostnaði".

Það kæmi mér ekki á óvart að ef þetta yrði skoðað niður í kjölinn, væri niðurstaðan ekki sú réttlæting fyrir ríkisstyrktum Íslenskum fjölmiðlum sem margir vilja vera láta.

 

 

 

 


mbl.is Áhyggjur af yfirvofandi gjaldþroti Torgs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rökræður: Er hægt að treysta "meginstraumsfjölmiðlum"?

Mér þykir alltaf gaman að hlusta á góðar, kurteislegar en "harðar" rökræður. Þær rökræður sem má finna hér að neðan og fjalla um hvort hægt sé að treysta "meginstraumsjölmiðlum", eru á meðal þeirra betri sem ég hef séð um all nokkra hríð. Douglas Murray fer hreinlega á kostum.

Ég fann þetta myndband á Youtube, en rökræðurnar, sem eru haldar af Munk Institute og fóru fram í Toronto síðastliðinn nóvember, má einnig finna hér og hér.

Reyndar er heimasíða "Munk Debates" vel þess virði að skoða, þar er margt athyglisvert að finna.

En þeir sem rökræða hér eru: Matt Taibbi, Douglas MurrayMalcolm Gladwell og Michelle Goldberg.

Virkilega vel þess virði að horfa/hlusta á.

 

 

 

 


Blaðamenn máta sig í fórnarlambshlutverkið

Ég, líklega eins og svo margir aðrir, get ekki sagt að ég þekki til þessa máls, þó að ég hafi heyrt mikið af alls kyns sögum tengdu því.

Miðað við það sem ég hef heyrt (óstaðfest) virðist flest benda til þess að afbrot hafi verið framið til þess að ná i gögnin sem fjölmiðlar hafa  birt.

Það er í alla staði eðlilegt að viðkomandi blaðamenn séu kallaðir til yfirheyrslu og hafi réttarstöðu sakbornings.

Lögreglan þarf einfaldlega að reyna að varpa ljósi á "aðfangakeðjuna" sem varð til þess að gögnin komust í hendur blaðamanna.

Ég er engin sérfræðingur í lögum, en í mínum huga er eitt að birta gögn sem blaðamanni berast í hendur, annað að stela síma og/eða brjótast inn í hann.

Það skiptir máli hvort að tilviljun réði því að símanum var stolið eða hvort um skipulagðan verknað var að ræða og þá hverjir komu að skipulagningunni.

Það er eðlilegt að lögregla rannsaki málið og yfirheyri þá sem hafa komið nálægt gögnunum, ef rökstuddur grunur er að þeirra hafi verið aflað með ólöglegum hætti.

Það verður engin sjálfkrafa saklaus við það eitt að skrifa fréttir.

Persónlega finnst mér viðhorf Arnars Þórs Ingólfssonar gagnvart kvaðningu lögreglu vera það rétta.

Hann segist engar áhyggjur hafa af komani yfirheyrslu, hann sé ekki of góður til að tala við lögregluna og hann hafi ekki framið neitt afbrot.

En alltof margir vilja teikna upp sviðmynd þar sem blaðamennirnir séu fórnarlömb ofsókna lögreglu.


mbl.is Telur lögreglu vilja upplýsingar um heimildarmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkefni fyrir Neytendastofu?

Auglýsingar eiga það til að ergja einstakling og jafnvel keppinauta þeirra sem auglýsa.  En að sjálfsögðu er til ríkisstofnun sem sér um að slá á hendur þeirra sem brjóta lög um auglýsingar.

Ef mig misminnir ekki er slíkt eftirlit í höndum Neytendastofu.

Hún deilir út sektum og krefst breytinga á orðalagi o.s.frv.

Mér sýnist því engin ástæða til þess að vera að hnýta í VG, heldur ætti Amnesty að skjóta máli sínu til "systurstofnunar" Neytendastofu í Noregi.

Hún verður varla í vandræðum með að skrifa út sektir eða krefja Kínverja um leiðréttingar.

Eða gilda lögin ekki fyrir alla?


mbl.is Amnesty fyrtist við auglýsingu VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stór mótmæli i Kanada - Bein útsending

Þúsundir einstaklinga hvaðan æva að úr Kanada safnast nú saman nálægt þinghúsinu í höfuðborginni Ottawa.

Trukkalestir frá vestur og austurstöndinni sem og suðurhluta Ontario hafa keyrt til Ottawa til að mótmæla réttindaskerðinum bílstjóra sem skyldaðir eru í bólusetningu vilji þeir keyra yfir landamærin til Bandaríkjanna.

Sjónvarpsstöðin Global News hefur verið með margra klukkustunda beina útsendingu

 

 

Ýmsir einkaaðilar eru einnig með beinar útsendingar, og má sjá þá koma inn á YouTube með útsendingar, t.d. þennan

 

 

 

 

 

 

 

 


Undarlegur fréttaflutningur

Það er vissulega frétt að Neil Young vilji ekki deila streymisveitu með Joe Rogan og eðlilegt að um slíkt sé fjallað.

Persónulega hef ég aldrei hlustað á Rogan eða hlaðvarp hans og ætla ekki að dæma eða fullyrða neitt um sannleiksgildi þess sem þar hefur verið sagt.

En það er ein setning í þessari frétt mbl.is sem vert að gera athugsemd við.

"Þá hef­ur hann einnig lof­samað orma­lyfið Iver­mect­in, sem helst er gefið hest­um."

Joe Rogan Neil YoungÉg veit ekkert um hvort að Rogan hafi lofað Ivermectin, en að kalla lyfið "hrossalyf" eða segja að það sé helst gefið hestum, er alvarleg rangfærsla sem dregur alla fréttina í svaðið og gerir hana svo gott sem að "falsfrétt".

Það er alvarleg vanvirðing við vísindamennina sem þróuðu Ivermectin og Avermectin og hlutu fyrir það Nóbelsverðlaunin árið 2015.

Það er alvarleg vanvirðing fyrir þá  einstaklinga sem hafa tekið Ivermectin í "milljarðavís" við hinum ýmsu kvillum, ekki sís "River Blindness" og er lyfið talið hafa bjargað ótrúlegum fjölda frá því að missa sjónina eða jafnvel lífið.

En fyrst og fremst er það vanvirðing við lesendur, sem margir vita betur og á að koma fram við af virðingu.

En það er einmitt fréttaflutningur margra "meginstraumsmiðla" í þessa veru sem hefur orðið til að lesendur missa á þeim tiltrú og fara að leita upplýsinga annars staðar.

Það er hins vegar svo að vissulega eru fjölda mörg lyf sem gagnast bæði mannfólki sem öðrum dýrum.  Sem dæmi má nefna algengt lyf eins og Amoxicillin.  Það gerir það ekki að hænsna eða svínalyfi, þó að það gagnist þeim vel.

En ég vil taka það fram að ég hef enga sérstaka skoðun á gagnsemi Ivermectin gegn Covid-19.  Hef ekki af því neina reynslu en hef séð ágætar greinar sem benda í sitthvora áttina um gagnsemi þess.

En það er athyglisvert að Ivermectin (eða skyld lyf) eru tekin í 10 til 15 ár, gegn "River Blindness", mér er ekki kunnugt um í hvaða magni, en það bendir ekki til þess að lyfið valdi miklum skaða við inntöku (en hugsanlega getur það verið spurning um magn).

P.S. Sumir fjölmiðlar segja að bréfið hafi verið fjarlægt af vef Young eftir skamma hríð, en ég læt það liggja á milli hluta enda ekki það sem hér er fjallað um.

En vísunina í Ivermectin sem "hrossalyf" hef ég ekki séð í fréttum annara fjölmiðla en mbl.is um þetta mál.


mbl.is Neil Young vill af Spotify vegna Rogans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband