Bloggfærslur mánaðarins, júní 2015

Grikklandstragedían er afurð Evrópusambandsins

Þó vissulega sé gamla málstækið, hver er sinnar gæfu smiður, enn fullgilt, og þannig megi segja að Grikkir beri höfuðábyrgð á eigin vandamálum, er ekki hægt að líta fram hjá ábyrgð Evrópusambandsins, enda Grikkland búið að vera meðlimur "Sambandsins" í 34 ár og varð aðili að Eurosvæðinu janúar 2001.

Eins og önnur sem fetað hafa þessa leið, hefur Grikkland afhent "Sambandinu", Eurosvæðinu og stofnunum þeirra hluta af fullveldi sínu.

En Grikkland aðlagaði sig ekki þeirri staðreynd, t.d. hvað varðar ríkisfjármál.

Euroið tryggði góðan aðgang að lánsfé, og gjaldmiðillinn hélst nokkuð stöðugur og sterkur (styrkist jafnvel) þó að efnahagstjórnunin hjá Grikkum væri í molum, enda Gríska hagkerfið vart sjáanlegur hluti af hagkerfi Eurosvæðisins.

Blaðran blés upp, og sprakk síðan með afleiðingum sem flestum eru kunnar.

2010 var Grikkland í raun komið í greiðsluþrot, en þar sem afleiðing af slíku hefði geta riðið Eurosvæðinu að fullu, var búinn til neyðarpakki.

Grikkjum var lánað mikið fé, en megnið af því rann til þess að borga Evrópskum bönkum, sem lánað höfðu Grikklandi mun fleiri euro, en það var borgunarríki fyrir.

Þannig var all nokkur hluti lána einkastofnana fluttar til opinberra, í raun Evrópskra skattgreiðenda.

Það átti að tryggja að vandræðin breiddust ekki út um Eurosvæðið.

En engin lánaniðurfelling átti sér stað.

Samhliða þessu fór Grikkland í "prógram" hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, Seðlabanka Eurosvæðisins og "Sambandinu". Prógram sem að urðu um miklar deilur innan Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, og vildu margir þar (bæði starfsmenn og stjórnarmenn) meina að áætlunin byggðis á óraunsærri bjartsýni og ætti litlar líkur á því að standast. En "Sambandsríkin" höfðu sitt fram, enda í raun ráðandi blokk inn "Sjóðsins".

"Prógramið" var enda ekki betra en svo, að 2012 þurfti "nýtt prógram", með all nokkurri skuldaniðurfellingu, eða "klippingu" hjá einkaaðilum, og næstum allur afgangurinn af skuldum Grikkja var færður yfir á herðar skattgreiðenda Eurosvæðisins.

En "prógramið" skilaði engum árangri, heldur skar efnhaga Grikkja niður við trog, atvinnuleysi fór upp úr öllu valdi, þjóðarframleiðsla dróst saman um fjórðung og skatttekjur hrundu eðlilega í kjölfarið (skattheimtukerfið hafði þó aldrei verið gott).

Niðurstaðan er því sem áður að Grikkir eiga enga möguleika á því að standa undir skuldum sínum. Þær hafa enda rokið upp sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og standa nú í u.þ.b. 180%. Þó má líklega telja þær vantaldar ef eitthvað er, enda "óbeinar" skuldir í gegnum ELA fyrirgreiðslu Seðlabanka Eurosvæðisins vaxandi dag frá degi.

Margir hafa viljað ásaka Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að hafa haldið rangt á málum Grikklands. Þó að vissulega sé freistandi að taka undir það, enda erfitt að segja að meðferðin hafi verið til fyrirmyndar, er mikið nær að horfa til Evrópusambandsins. Það er enda meginskuldareigandi Grikklands (í gegnum stofnanir sínar og aðildarlönd), og þess utan hefur það verið ráðandi blokk í Alþjóða gjaldeyrissjóðnum um áratugaskeið, með "heiðursmannasamkomulagi við Bandaríkin.

Þannig hefur forstjóri "Sjóðsins" ávallt komið frá Evrópu og líklega þarf að leita aftur til 7unda áratugar síðustu aldar til að finna forstjóra sem ekki kemur frá "Sambandslandi" (eða forvera þess) og þá var það frá Svíþjóð, sem hefur eins og flestir vita, gengið í "Sambandið" fyrir all löngu.

Það voru enda fulltrúar ríkja utan Evrópu og "Sambandsins" sem mótmæltu harðlega á stjórnarfundum "Sjóðsins" þegar áætlanir fyrir Grikkland voru þar til umræðu árið 2010, en fulltrúar "Sambandsins" keyrðu þær í gegn.

Það hefur enda alltaf verið litið á Alþjóða gjaldeyrissjóðinn sem undir stjórn hinnar lítt útskýrðu "Evrópu", þó að ef til vill hafi sú skilgreining orðið nokkuð ljósari hin síðari ár, og segja má að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi verið undir stjórn Evrópusambandsins.

Það má ef til líka segja að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi aldrei átt að koma Grikklandi til hjálpar, enda enda að ég tel, engin fordæmi fyrir því að "Sjóðurinn" komi einu ríki á myntsvæði til hjálpar.

En þar kemur til sögunnar hvílíkur "bastarður" Eurosvæðið er.

Sameiginlegt myntsvæði, en þó engin sameiginlegt efnahagsstefna, og hver ríki með sjálfstæða aðild að alþjóðastofnunum, s.s. Alþjóða gjaldeyrissjóðnum (spurning hvað lengi önnur ríki sætt sig við slíkt fyrirkomulag).

Þannig hefði "Sjóðurinn" ef til vill átt að neita Grikklandi um aðstoð, en gat trauðla gert það við eitt af aðildarríkjum sínum. Það hefði hins vegar mátt segja að Euroríkin hefðu átt að hafa kjark til að leysa vandamálið sjálf. En kjarkur hefur aldrei verið ríkjandi einkenni þar, frekar ákvarðanafælni og tilhneyging til þess að "sparka dósinni áfram".

Það hentaði enda "Sambandinu" afar vel að skýla sér á bakvið Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.

En öll Grikklandstragedían og það neyðarástand sem ríkir í Grikklandi er skilgetið afkvæmi "Sambandsins" og stefnu þess og í framhaldi af því Eurosvæðinu.

Það er hjákátlegt að ætla að leggja ábyrgðina á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem hefur þó vissulega tapað verulegu af orðspori sínu (sem var þó býsna flekkótt) með því að fallast á aðferðir "Sambandsins" hvað varðar Grikkland.

Það er enda ekki að undra að þjóðir annara heimsálfa vilji búa til nýjar stofnanir sem að hluta til er stefnt gegn Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.

Það eru meðal annars "auka áhrif" af Grikklandskrísunni.

P.S. Þó að mér þyki tillögur DSK (Strauss-Kahn) alls ekki út í hött, þá virka þær hálf hlægilegar komandi frá þeim sem var forstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins árið 2010, þegar vandræði Grikklands komu fyrst til kasta "Sjóðsins". Þá bugtaði hann og beygði sig fyrir kröfum "Sambandins" um hvernig skyldi höndla Grikklandskrísuna, þvert á það sem margir af starfsmönnum sjóðsins og stjórnarmenn sögðu.

Þá var hann enda að bjarga euroinu, gjaldmiðli m.a. Frakklands, ríkisins sem hann vonaðist eftir að verða forseti innan tíðar.

Það er lítið mark takandi á slíkum einstaklingum, hvorki í hótelherbergjum, eða nokkrum árum síðar.  Jafnvel þó að þeir kunni að hafa góð hagfræðipróf.

 

 

 

 


Eurot in Hell-as

Enn og aftur leika logarnir um euroið og Grikkland og raunar má sjá reyk og litla loga víða á mörkuðum.

Og Gríska tragedían heldur áfram, með óvæntum innkomum og átökum.

Nú er svo komið að gjaldmiðilshöft (sem er mikið strangari aðgerðir en gjaldeyrishöft) eru komin á í Grikklandi, bankar þar verða lokaðir út vikuna og boðað hefur verið til þjóðaratkvæðagreiðslu um "málamiðlun", sem hreint er ekki ljóst hvort að er "á borðinu" enn og standi Grísku þjóðinni til boða.

Ekki er ljóst að þegar ég skrifa þetta, hvernig orðalagið á að vera á kjörseðlinum.

Raunveruleikinn á það til að verða ótrúlegri en nokkur skáldskapur.

Þó að ómögulegt sé að spá um niðurstöðuna úr fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu, eða að vita hvort hún stenst Gríska stjórnarskrá, þykir mér líklegra en ekki að Grískur almenningur muni sætta sig við ok troikunnar og eurosins.

Atkvæði inn í óvissuna þykir mér ólíklegra, ekki síst þegar atkvæðagreiðslan fer fram undir skugga gjaldmiðilshafta og lokaðra banka.

En þó er ekki útilokað að Grikkir telji sig eiga engu að tapa - nema euroinu, og raunar mjög líklegt að stór hópur þeirra hugsi nákvæmlega svo, en tæplega meirihlutinn.

Hvað gerist þá?

Það veit enginn, ekki er ólíklegt að stjórn Tsipras muni þá hrökklast frá völdum og ný stjórn, ef til vill undir stjórn utanþingsmanns, eins og síðast þegar talað var um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu í Grikklandi. Sú ríkisstjórn ætti síðan enga kosti aðra en að ganga að öllum kröfum Troikunnar, enda slíkt þá vilji almennings, til að halda euroinu.

En þó að flestir geri sér grein fyrir því að upptaka Grikkja á euroi hafi verið mistök, og æ fleiri séu þeirrar skoðunar að euroið sjálft (með þeirri uppbyggingu sem það hefur) hafi verið risastór mistök, breytir það því ekki að gríðarleg vandkvæði eru að yfirgefa slíkt myntsamstarf eða brjóta það upp.

Við góð skilyrði, og í góðu samstarfi gæti slíkt gengið nokkuð vel. En fyrir stórskuldugt ríki, með atvinnuleysi í hæstu hæðum, þar sem Seðlabanki "þess" er næstum að fullu í eigu lánadrottna þess og bróðurpartur lána eru pólítísks eðlis, er næsta víst að slíkt verður "katastrófískt" - til skemmri tíma litið.

Enn og aftur - í slíka aðstöðu er auðveldara að koma sér í en úr.

P.S. Eurot er ein af beygingarmyndum euros á Finnsku og Eistnesku.

 


mbl.is Grískir bankar lokaðir alla vikuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær er komið nóg?

Það má til sanns vegar færar að Grikkjum hefur blætt nóg. Ástandið þar er hörmulegt. Hundruðir þúsunda eiga ekki rétt á grunn heilbrigðisþjónustu og berjast dag frá degi til að eiga í sig á á.

Það er líklega einsdæmi að stór hluti íbúa ríkis sem er talað um sem "vestrænt" og "þróað" þurfi að reiða sig á heilbrigðisþjónustu samtaka s.s. Lækna án landamæra.

En svo er þó komið í Grikklandi eftir 5 ár af efnahagsáætlanir og -aðstoð Evrópusambandsins, Seðlabanka Eurosvæðisins og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Opinberar skuldir og atvinnuleysi eru í hæstu hæðum og segja má að Grikkland sé í síst betri stöðu en þegar "Þríeykið" kom því til aðstoðar. Margir vilja meina að best hefði verið  fyrir Grikki að greiðslufall hefði átt sér stað þá strax.

Það er stór vafi á því hvort að það hefði ekki verið betra fyrir Grikki, en það er enginn vafi á því að slíkt hefði komið sér hræðilega fyrir Eurosvæðið, og mun verr en greiðslufall myndi gera nú.

Að vissu marki má því segja að Grikklandi hafi verið neitað um besta kostinn, til að hjálpa Eurosvæðinu (það má að hluta til sömuleiðis segja um Írland).

En það breytir því ekki að Grikkland skuldar Evrópusambandinu, Seðlabanka Eurosvæðisins og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum risavaxnar fjárhæðir sem forystumenn þess samþykktu að taka að láni.

Og þó að "Troikunni" beri vissulega að virða lýðræðislegar niðurstöður kosninga í Grikklandi (eins og þarlend stjórnvöld hafa oft minnt á), geta Grikkir ekki kosið um að skuldunautar þeirra eigi að gefa þeim eftir háar fjárhæðir, eða að gefa þeim meira fé.

Það er og verður ákvörðun skuldareigendanna.

En atburðarásin og ranghalar hennar eru með þeim ósköpum að að það er vonum seinna að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi ákveðið að kalla samningamenn sína heim.

Það er auðvelt að halda því fram að sjóðurinn hafi sett verulega niður með því að taka þátt í þessu samkrulli með "Sambandinu" og Seðlabanka Eurosvæðins, enda voru verulega skiptar skoðanir, bæði á meðal stjórnarmanna og starsmanna sjóðsins um hvort að áætlunin sem samþykkt var, ætti möguleika á því að standast.

Nú sjá flestir að svo var ekki, og er það sjóðnum all nokkurt álitshnekkir að Evrópusambandslöndin hafi náð að keyra sitt fram. Það vekur enn upp spurningar um óeðlileg áhrif Evrópuríkja í stjórn sjóðsins og getur því ekki talist óeðlilegt að önnur ríki vilji koma á fót öðrum valkostum. Það er því allt eins líklegt að "Gríska ævintýrið" eigi eftir að reynast Alþjóða gjaldeyrissjóðnum dýrt, til lengri tíma litið.

En hvernig endar þetta allt saman? Og verður það vel eða illa?

Það veit líklega enginn, þó að framhaldið verði án nokkurs vafa Grikkjum erfitt og þeirra bíði frekari hörmungar og niðurlæging.

Hversu miklir erfiðleikar Eurosvæðisins yrðu, ef Grikkland fer úr myntsamstarfinu er erfitt að sjá fyrir, enda ekki gert ráð fyrir slíkum möguleikum. En ljóst er að orðspor og álit þess myndi bíða enn frekari hnekki en orðið er.

En ég held að flestir geti verið sammála um að það er löngu tímabært að leiða málið til lykta, hvort sem að niðurstaðan verður áframhaldandi vera Grikklands á Eurosvæðinu, eða að þeir taki upp eigin gjaldmiðil.

Áframhaldandi hökt, frá neyðarfundi til neyðarfundar, með eilífum "plástrum" og "límbandsreddingum", gerir engum gott, ekki Eurosvæðinu, ekki Evrópusambandinu og allra síst Grikklandi.

En vandræðagangurinn sýnir hve ákvarðanatökur innan "Sambandsins" eru erfiðar, flóknar og seinvirkar.

Fresta þarf ákvörðunum um hitt og þetta, vegna þess að kosningar eru framundan í einhverju aðildarlandanna (og ákvarðanir því líklegar til að hafa áhrif á þær) og svo eru jafnvel nýir menn komnir að borðinu.

Að meðaltali eru líklega 7 kosningar í "Sambandsríkjunum" á hverju ári.

Enn og aftur er rétt að minna á að í slíkar aðstæður er auðveldara að koma sér í en úr.

 

P.S. Mér þykir það nokkuð merkilegt að lesa það á mbl.is að PAME séu "viðskiptasamtök". Ég hef ekki getað skilið það öðrvísi en að PAME séu róttæk (herská) kommúnísk verkalýðssamtök í Grikklandi.

 

 


mbl.is „Grikkjum hefur blætt nóg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gulrótarkaka, hýðingar og kylfuhögg

Það hefur verið ánægjulegt að lesa um áætlanir ríkisstjórnarinnar um afnám gjaldeyrishafta. Áætlunin hefur fengið afar góðar viðtökur og virðist vel og skynsamlega unnin.

Það er þó rétt að hafa það í huga að þó að áætlunin líti traustlega út, er sigur ekki unnin, fyrr en höftum hefur verið aflétt og stöðugleiki ríkir. Enn er ýmislegt sem getur farið úrskeiðis og mikilvægt að vel sé haldið á spilunum og samstaða ríki.

Og vissulega er það rétt að núverandi ríkisstjórn vinnur ekki í tómarúmi, og verk hennar, aflétting gjaldeyrishafta sem önnur, byggir á og tekur mið af gjörðum fyrri ríkisstjórna, bæði ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og Samfylkingar og Vinstri grænna og jafnvel þeim sem ríktu fyrir tíma þeirra.

Það breytir því ekki að að núverandi ríkisstjórn hefur unnið málið ákaflega vel og það er hálf hjákátlegt að heyra þá sem hafa talað á þann veg að engin leið sé til að aflétta gjaldeyrishöftum án "Sambandsaðildar" og euroupptöku, segja nú að áætlunin sé eins og þeir sjálfir hafi lagt til.

Það er líka sérstakt að heyra ýmsa tala á þann veg að Framsóknarflokkurinn hafi "tapað eða lúffað", þegar ljóst er að í raun eru kröfuhöfum gefnir tveir kostir. Annað hvort sé "framlag" þeirra +500 milljarðar, eða heldur hærri upphæð verði "tekin" af þeim.

Það var einmitt fyrir málflutning á þeim nótum sem Framsóknarmenn urðu fyrir hvað hörðustum árásum fyrir síðustu kosningar, og ýmsir hafa imprað á því síðan hvort að "milljarðarnir væru ekki að koma".

Núna eru þeir líklegast á leiðinni. Þó að vissulega séu þeir enn í "skóginum", er þó alla vegna búið að "hrekja þá af stað".

Það skiptir auðvitað ekki meginmáli hvort að sá sem setur slík skilyrði heldur á "kylfu" eða "svipu". Mestu máli skiptir að ljóst sé að hann meini það sem hann segir og sé staðfastur og einarður í málflutningi sínum.

Og auðvitað skiptir það líka máli að öllum má vera ljóst að krónan er og verður gjaldmiðill Íslendinga, í það minnsta all nokkuð fram á næsta áratug.

Kröfuhafar geta ekki gert sér neinar vonir um að "Draghi frændi" komi með euro til Íslands og Íslendingar skuldsetji sig hjá Seðlabanka Eurosvæðisins, til þess að kröfuhafar komist með eignir sínar frá landinu.

Eins og staðan er nú, er lang líklegast að kröfuhafar velji að gæða sér á gulrótarköku og ekki þurfi að beita "kylfuhöggum", eða "hýðingum".

Það er þó of snemmt að leggja þau tól frá sér og enn er þörf að staðfestu og einurð.

Það má vissulega deila um hversu hart hefði átt að ganga fram og hve hátt kylfunni lyfta, en mér sýnist þó að niðurstaðan sé vel ásættanlega og ríkisstjórninni til sóma.

Enn er of snemmt að slá upp fagnaði, en Íslendingar ættu að geta leyft sér að kætast því málin stefna í rétta átt.

 


mbl.is Töluðu um „svipur og gulrætur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað verður um Grikkland?

Þegar þetta er ritað eru margir að velta því fyrir sér hvað gerist í málefnum Grikklands á morgun.

Munu Grikkir borga Alþjóða gjaldeyrisjóðnum, eða ekki?

Ná þeir samkomulagi við þríeykið, hleypur Evrópusambandið undir bagga, fá þeir meiri fjárhagsaðstoð?

Þeir eru ekki margir sem hafa svör við þessum spurningum, en þeim mun fleiri sem velta þessum spurningum fyrir sér og kasta fram getgátum. Því vissulega skiptir niðurstaðan miklu málí og mun hafa áhrif víða.

En það er næsta víst, að sama hver niðurstaðan verður verður hún ekki góð fyrir Grikki, sé litið til skemmri tíma.

Það er sama hvort þeir verða með eða án euros, við þeim blasa efnahagslegir erfiðleikar sem eru þungir og illviðráðanlegir.

Til lengri tíma litið kann að vera betra fyrir þá að taka upp eigin gjaldmiðil, en það þýðir líklega dýpri kreppu, þó að hún kunni að verða styttri.

En þó að engin viti hver niðurstaðan verður enn, margir telja að Grikkir geti greitt IMF á morgun, en muni eiga í vandræðum síðar í mánuðinum, þá er það ljóst að vandræðin eru veruleg.

Og ekki eingöngu Grikklands megin. Öll þessi krísa sýnir einnig í hve miklum vandræðum "Sambandið" sjálft er, og hve öll ákvarðanataka innan þess er erfið og ómarkviss.

Grikkland hefur hökt frá einum gjalddaga til annars og eymdin og vesöldin þar hefur aukist jafnt og þétt.

Það er flest sem bendir til þess að tvístígandinn og vandamál við akvörðunartöku hafi bæði skaðað Grikkland sem og Evrópusambandið og Eurosvæðið stórlega.

Óvissan hefur skilað hvorugum aðilanum ávinningi.

En eins og ég hef oft sagt hér áður, er staða Grikklands, staða sem er auðveldara að koma sér í, en úr.

Og eins og staðan er nú, á Grikkland enga góða kosti.

 


mbl.is Lögðu fram „raunhæfar“ tillögur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýndarveruleiki Samfylkingarinnar?

Þegar ég las þessa frétt fékk ég það á tilfinninguna að fulltrúar Samfylkingarinnar hljóti að lifa í einhverjum sýndarveruleika.

Það er að segja að veruleikinn liggi þeim ekki alveg ljós. Þessi tillöguflutningur finnst mér bera þess nokkur merki.

Auðvitað er skipulagsvald merkilegt vald.

En það ber að hafa í huga að Ísland er ekki stórt land, hvorki að íbúafjölda né flatarmáli, þó að vissulega sé flatarmálið á íbúa all nokkurt.

En íbúarnir eru þó ekki fleiri en svo og landið ekki stærra en að eðlilegt geti talist að líta á hvoru tveggja sem eina heild.

Þannig er það nú algengt að íbúar eins landsvæðis telji sig hafa sitthvað að segja um ráðstöfun landgæða í öðrum landsfjórðungum, og getur varla talist óeðlilegt.

Ekki man ég eftir að það þætti óeðlilegt að Reykvíkingar ættu rödd (eða raddir) um nýtingu Eyjabakka eða Kárahnjúka, og voru ekki Reykvíkingar á meðal þeirra sem mótmæltu vegalagninug í Garðabæ?

Getur það því talist óeðlilegt að fleiri en Reykvíkingar vilji hafa skoðun, og krefjist þess að á þá sé hlustað, þegar talað er um einn af meginflugvöllum landsins, flugvöllinn sem tengir landbyggðina við höfuðborgina?

Eða er það aðeins skipulagsmál höfuðborgarbúa?

Eru virkjanir, vegalagnir, flugvellir o.s.frv. aðeins skipulagsmál viðkomandi sveitarfélags, eða snerta slík málefni íbúa landsins alls?

Auðvitað sjá allir (nema einhverjir Samfylkingarmenn) hvað fáránlegt það væri að kljúfa Reykjavík frá Íslandi, og hve litla möguleika Reykjavíkurborg ætti á því að standa ein, en samt finnast pólítískir fulltrúar stjórnmálaflokks, sem þykir þörf á því að kanna slíkan vilja.

Ég spyr, í hvaða sýndarveruleika lifa slíkir pólítíkusar?

 

P.S. Ég bloggaði um tengt efni fyrir all nokkru, þann pistil má finna hér.

 

 

 

 

 


mbl.is Viltu að Reykjavík verði borgríki?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar "barometið" er neglt fast

Hér og þar um netið hefur mátt sjá undarlegar fabúleringar um að Íslenska krónan sé mesta meinsemd samfélagsins og hún muni nokkurn vegin ein og óstudd ræna af Íslenskum launþegum öllum þeim kjarabótum sem þeir kunni hugsanlega að ná.

Yfirleitt fylgir það svo með að euroið sé "lækningin" sem Íslenskt efnahagslíf þurfi og myndi tryggja kaupmáttinn og stöðugleikann.

Það þarf þó ekki að leita lengi til að finna dæmi á Eurosvæðinu um það gagnstæða.

Vissulega hefur euroið verið stöðugri gjaldmiðill en Íslenska krónan, þó að það hafi skoppað umtalsvert upp og niður undanfarin ár. Það er enda erfitt að halda stöðugugum kúrs, í því gjaldmiðlastríði sem segja má að geysi, og í því efnahagsástandi sem ríkt hefur á Eurosvæðinu.

Þeir hafa enda verið margir neyðarfundirnir.

En þó að gengi gjaldmiðilsins hafi staðið þolanlega stöðugt, er ekki þar með sagt að laun þeirra sem fá útborgað í euro hafi gert það, né verðmæti húseigna hafi haldist í þeim gjaldmiðli.

Staðreyndin er nefnilega sú, að þegar gjaldmiðilinn sýnir þess engin merki að efnahagurinn er ekki á réttri leið, eða að framleiðslukostnaður eykst hraðar en í samkeppnislöndunum, verður eitthvað annað undan að láta og því meir sem lengri tími líður áður en gripið er til ráðstafana.

Og það var einmitt það sem gerðist í mörgum löndum á Eurosvæðinu. Gjaldmiðillinn gaf ekki eftir, jafnvel styrktist, varúðarmerkin voru hundsuð, og vandamálunum var ýtt á undan sér, atvinnuleysi jókst og húsnæðisverð lækkaði eða hrundi og auðvitað varð að lækka laun.

En bankainnistæður héldu verðgildi sínu (og styrktust á tímabili) þangað til euroið fór að síga niður á við.

Verst urðu auðvitað þeir úti sem misstu atvinnunna, en atvinnuleysi hefur verið í kringum 25% svo árum skiptir í sumum löndum Eurosvæðisins og á bilinu 10 til 12% á svæðinu í heild.

Það er ekki allt unnið með því að gjaldmiðillinn taki meira mið af því sem er að gerast í öðrum löndum, þvert á móti skapar það umtalsverðar hættur.

Og það er ekki bara í suður Evrópu sem viðvörunarbjöllurnar klingja, t.d. horfast Finnar í augu við tapaða samkepnnishæfi og vaxandi erfiðleika. Þar er talað um niðurskurð og að frysta þurfi laun um árabil. Eða eins og segir í grein Financial Times frá í mars:


At the heart of Finland’s woes is a competitiveness problem. Wage costs have spiralled higher than any other European country in recent years and it has one of the most rapidly ageing populations after Japan. Public finances are in much better shape compared with many southern European countries. But like their cousins to the south, many are beginning to bristle at the constraints of euro membership.
 
Finnar geta ekki leyft sér frekar en aðrar þjóðir að hækka laun, nema um framleiðniaukingu sé að ræða, annars sígur samkeppnishæfi þeirra.
 
Finnar horfast enda í augu við aukið atvinnuleysi og kreppu. Euroið endurspeglaði ekki þeirra efnahagslega raunveruleika.
 
Þar hækkaði kostnaður og samkeppnishæfi minnkaði, án þess að þess sæist nokkur merki á gjaldmiðlinum.
 
Hvernig Lettland brást við "hruninu" er ef til vill eitthvað sem vert er að hafa í huga. Gjaldmiðill þeirra var bundinn við euroið, og þá tengingu vildu þeir ekki gefa eftir.
 
Þar var 30% af opinberum starfsmönnum sagt upp, og laun þeirra sem eftir sátu lækkuð um 26%. Laun lækkuðu einnig almennt á almenna markaðnum og atvinnuleysi var í hárri 2ja stafa tölu.
 
En fastengingin við euroið hélt, og nokkrum árum síðar tóku Lettar upp euro.
 
En hvernig væri ástandið á Íslandi ef atvinnuleysi hefði verið í 2ja stafa tölu svo árum skipti?
 
Væri atvinnuleysi undir 5% og værum við að lesa fréttir þar sem gert væri ráð fyrir 100 milljarða viðskiptaafgangi, ef gengið væri enn á 2007-8 slóðum?
 
Ég er hálf hræddur um ekki.
 
Vissulega er þörf á meiri aga í Íslenskim þjóðarbúskap, en gjaldmiðilsskipti eru ekki töfralausn, slíkt eyðir einu vandamáli, en skapar önnur.

mbl.is Gera ráð fyrir 100 milljarða afgangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband