Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Jólakveðjur frá snjóalandinu

Það vantar ekki að hér í Toronto er jólalegt um að litast, jafnvel svo að sumum þykir nóg um.  Upphandleggsvöðvar mínar enda í sverari kantinum þessa dagana eftir linnulítinn mokstur á heimreið og tröppum.

En þetta þýðir vissulega einhver vandræði eins og þau að fjölskyldumeðlimirnir sem var von á hingað í gærkveldi sitja föst í Boston, en vonast er að þau hafi það hingað til Toronto á milli 5 og 6 í dag.

Jólasveinarnir hafa þó komist hingað óáreittir undanfarna 13. daga og engar truflanir hafa orðið á skógjöfum þeirra, yngri fjölskyldumeðlimum til léttis og ánægju.  Þau vakna enda fyrr og fyrr á morgnana til að athuga um fenginn og koma svo og sýna foreldrum sínum.

En fjölskyldan að Bjórá sendir vinum, vandamönnum og lesendum bloggsins sínar bestu jólakveðjur, við vonum að allir nær og fjær hafi það gott um jólin og áramótin.

Nú þarf er best að drífa sig út að moka.

Jolakort 2008

P.S. Myndin er tekin nú 20. desember í 15°C frosti í bakgarðinum að Bjórá.


Jafngildi 250 milljarða bandarískra dollara

Ég ætla ekki eða tjá mig um, eða dæma ástandið á Íslandi og hvort það er eldfimt eður ei, til þess eru líklega flestir í betri aðstöðu en ég.

En það var eitt sem vakti sérstaka athygli mína í frétt Bloomberg.

Það er neðst í fréttinni, þar sem fjallað er um Tónlistarhúsið.  Þar segir að kostnaður við húsið sé ætlaður 252 milljónir dollara.  Jafnframt kemur fram að miðað við þjóðarframleiðslu (og líklega margfrægan íbúafjölda) jafngildi það að ráðist sé í 250 milljarða dollara fjárfestingu í Bandaríkjunum.

Þetta er gríðarleg upphæð.

Er til áþreifanlegri staðfesting á því hve skrýtið ástandið var orðið á Íslandi og því að þáverandi stjórnvöld (ríkis og borgar) voru flutt inn í þær skýjaborgir sem byggðar höfðu verið af viðskiptalífinu.

En fiðlurnar munu líklega hljóma vel í húsinu.


mbl.is Óttast að uppúr sjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland í dag, er það slúður og orðrómur?

Ég var að hlusta á Ísland í dag á netinu.  Þar ræddi Sölvi við Geir H. Haarde forsætisráðherra.

Þó nokkur hluti viðtalsins fór undir það að Sölvi slengdi fram "altöluðum" orðrómi eins og að forsvarsmenn lífeyrissjóða hefðu þegið mútur til að fjárfesta í fyrirtækjum.  Annað "altalað" sem bar á góma var að Ísland þyrfti ekki að borga krónu vegna IceSave, heldur væri búið að ganga frá því "bak við tjöldin" að Ísland borgaði ekki.  "Flash Gordon" hefði bara ekki getað bakkað opinberlega.

Er þetta Ísland í dag?  Er slúður að taka yfir fréttatengda þætti, eða heitir þetta "óstaðfestar fréttir"?

Ég held að það sé augljóst að hið opinbera þarf að taka upplýsingamál sín til gagngerrar endurskoðunar, ná forystu í umræðunni, þannig að upplýsingar séu umræðuefnið, en ekki slúður.


Best að lögreglan rannsaki lygina

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta.  Það sem hér er kallað mistök heitir í daglegu tali lygi.

Málið er ekki flóknara en það.

Auðvitað fer best á því að lögreglan rannsaki hvernig þessi lygi komst í umferð.  Þeir sem beita fyrir sig lygi í fjármálaheiminum eiga skilið refsingu.

Það er heldur ekkert flókið.


mbl.is NBI og Landsvaki viðurkenna mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kastljósinu beint að endurskoðendum

Það var fróðlegt og upplýsandi viðtalið við Aðalstein Hákonarson, starfsmann ríkisskattstjóra.

Í senn fróðlegt og hrollvekjandi má sjálfsagt líka kalla það.

Allir þeir sem hafa áhuga eða taka þátt í Íslensku þjóðfélagi geta ekki varið tímanum öllu betur en að horfa á viðtalið. 

Það er enginn hávaði á ferðinni, en viðtalið er gríðarlega áhrifaríkt.

Kastljósið má finna hér.


Á eftir gjaldeyrishöftum kemur.....

Það er nokkuð merkilegt að það er ekki fyrr búið að færa Íslendinga áratugi aftur í tímann með gjaldeyrishöftum, en framsóknarmenn byrja að tala um að nú sé þörf fyrir samvinnufélög.

Líklega eru þeir þess minnugir að blanda af þessu tvennu gafst þeim (en ekki að sama skapi öðrum) vel á liðinni öld. 

Skyldi vera Samband þar á milli?

En ég er ekki viss um að almenningur finni þörf fyrir fleiri Samvinnutryggingar, eða fleiri Gift eignarhaldsfélög.

 

 


Ef þú lest bara eitt blog í dag

Ef þú lest bara eitt blog í dag (fyrir utan þetta) þá ætti það að vera þetta blog.

Hringrásin

Það er með fyrirtækjanöfnin eins og tískuna, þetta fer allt í hring.

Það er ekki hægt annað en að velta því fyrir sér hvort að gömlu skiltin séu ennþá til, gömlu bréfsefnin, gömlu gluggaumslögin, en líklega verður valið annað lógó og önnur leturtýpa, þannig að það nýtist örugglega ekkert af því sem til er.

Annars hef ég áður lýst þeirri skoðun minni að það þurfi að setja reglugerð um notkun fyrirtækja á Íslandi í heitum sínum og gera hana stranga.  Það er full þörf á því að vernda "vörumerkið Ísland".

 


mbl.is Nýi Glitnir verður Íslandsbanki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að stjórna stjórnmálamönnum

Því miður er mikið til í þessu hjá Bjarna, eiginlega leiðinlega mikið til í þessu.

Það kann að vera rétt hjá honum að ástandið sé verst í Samfylkingunni og Framsóknarflokki, en það er enginn flokkur undanskilin.  Mér finnst ég reyndar hafa horft upp á mjög hratt sig á ógæfuhliðina hvað þetta varðar hjá Sjálfstæðiflokknum.  En ég endurtek að það er enginn flokkur undanskilin.

Vissulega er það svo að það er erfitt fyrir stjórnmálamenn að starfa án fjölmiðla.  Það getur líka verið næstum óbærilegt fyrir stjórnmálamenn að starfa ef fjölmiðlar leggja þá í "einelti" og gera flest mál þeirra tortryggileg eða afflytja þau.

En veltum þessu aðeins fyrir okkur.

Rekstur fjölmiðla á Íslandi hefur verið afleitur um alllangt skeið.  Taprekstur hefur verið á þeim flestum og milljarðatap á þeim sumum.

Samt hafa "auðmenn Íslands" lagt kapp á það að eignast sem flesta fjölmiðla, fáir fjölmiðlar hafa verið svo "vesælir" að það hafi ekki einhver "auðmaðurinn" sýnt áhuga á því að eignast þá.

Hvað skyldi þeim ganga til?  Þetta er varla eftirsóknarverður bissness?

Er það þjónustulundin sem þeir finna svo sterkt fyrir?  Þörfin fyrir það að þjóna almenningi með góðum og hlutlausum fréttaflutningi?  Þessi sterka þörf sem þeir finna fyrir að sinna almannaþjónustu?

Eða er það eitthvað annað?

Það er best að hver svari fyrir sig.


mbl.is Stjórna í gegnum fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óeirðir og uppþot

Það er áreiðanlega mikið til í því hjá DSK að hætta sé að óeirðum og uppþotum víða um heiminn.  Þegar kreppan mun ná hámarki á næsta ári og tugir og hundruðir þúsunda verða atvinnulausir getur myndast eldfimt ástand.

Sú staðreynd að ungt fólk er mun líklegra til þess að verða atvinnulaust kemur til með að gera ástandið enn alvarlegra.

Ástandið í Grikklandi ætti að virka sem aðvörunarljós, en þar, sem víða annars staðar, hefur kreppan bitnað lang harðast á ungu fólki. Það er enda unga fólkið sem er út á götunum þar nú og ástandið gríðarlega eldfimt.

Hvernig ástandið verður á Íslandi á eftir að koma í ljós, en það er ljóst að atvinnuástandið kemur til með að ráða hvort hætta á róstum nær þangað. En eins og annars staðar er líklegast að atvinnuleysið bitni harðast á ungu fólki.

Sem betur fer er útlit fyrir að atvinnuleysi verði ekki meira á Íslandi en í mörgum öðrum löndum Evrópu, sem þó má færa rök fyrir að ekki hafi orðið fyrir áfalli af sömu stærðargráðu og Íslendingar.

Það má þakka traustu og sveigjanlegu vinnuafli og blessaðri krónunni okkar.


mbl.is Strauss-Kahn varar við þjóðfélagsróstum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband