Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Skrípó frá Alþingi

 Undanfarin misseri hefur nokkuð verið rætt um virðingu Alþingis, aðallega um það hvað hún fari þverrandi.  Skoðanakannanir hafa allar verið í þá átt.

Auðvitað er deilt um hver er örsökin, og næst líklega seint niðurstaða í því efni, þannig að óvéfengjanleg sé.

Það er enda líklegt að um nokkrar samverkandi ástæður sé að ræða.

Í pósthólfinu mínu í morgun beið hlekkur á meðfylgjandi myndband.

Myndbandið er hreint ótrúlegt.  Uppistaða þess  er þó upptaka af beinni útsendingu frá Alþingi.  Myndbandið sýnir hvernig þingmenn, forsætisráðherra en fyrst og fremst forseti Alþingis sýnir þinginu slíka lítilsvirðingu að ótrúlegt er.

Ég skora á alla að horfa á myndbandið og dreifa því sem víðast.  Það er vissulega ekki til þess fallið að auka á virðingu Alþingis, en það er hollt fyrir alla að sjá hvernig vinnubrögðin eru.

 


Flóttinn frá sannleikanum

Það er ekki á færi venjulegs manns að hafa tölu á því hve oft er búið að lýsa því yfir að nú sé "Sambandsríkin" og euroið komið fyrir vind. Það versta sé yfirstaðið og Eurokreppan heyri sögunni til.

En kreppan hefur orðið lengri, harðari og dýpri en flestir sáu fyrir og margir af stjórnmálaforkólfum í "Sambandinu" hafa viljað viðurkenna.

Og enn er ekki útséð um að hún eigi eftir að harðna.

Og enn er víða ekki vilji til þess að horfast í augu við þau vandamál sem eru til staðar.

Og enn má lesa eins og í þessari frétt að vandamálin séu verri en áður var talið.

Það er afar líklegt að eigi eftir að koma í ljós að ástandið á fjármálastofnunum Spánar sé verra en áður hefur verið talið, eða ætti frekar að segja en gefið hefur verið upp.

Allt bendir til þess að fasteignamarkaðurinn á Spáni eigi aðeins eina leið fyrir höndum.  Niður. Fjármálastofnanir eiga enn eftir að tapa stórum fjárhæðum.  Frá 2007 hefur fasteignaverð lækkað um ríflega 30% og spáð er annari eins lækkun á næstu árum.

Talað er um að 800.000 eldri fasteignir séu til sölu.  Byggingaraðilar eru taldir hafa 700.000 kláraðar nýjar íbúðir.  300.000 fasteignir hafa verið seldar nauðungarsölu (yfirteknar af bönkum) og 150.000 séu í nauðungarsöluferli.

Til viðbótar eru svo 250.000 á byggingarstigi.

Flestir tala um að árleg þörf fasteignamarkaðarins séu u.þ.b. 200.000.

Bankar munu vera farnir að selja fasteignir með 60 til 70% afslætti, en samt láta kaupendur á sér standa.

Eurolánaveislan með neikvæðum vöxtum skilur eftir sig heiftarlega timburmenn.  

Það er nefnilega misskilningur að lægri vextir þýði alltaf að ástandið sé betra, eða að efnahagslífið sé heilbrigt.

En enn um sinn reyna stjórnmálamenn "Sambandsins" að ýta vandanum á undan sér, enn er því haldið fram að lausnin við vandanum sé meira af því sama.  Meiri miðstýring, fleiri stofnanir, stærra ríki, stærra "kerfi" o.s.frv.  Enn er því haldið farm að "ein stærð henti öllum".

Sannleikurinn er nokkurn veginn sá að eina lausnin er að skapa "stórríkið".  En sannleikurinn er sömuleiðiis sá að fyrir því er takmarkaður áhugi, svo ekki sé sterkara að orði kveðið.

Því er haldið áfram að "sparkar dósinni niður götuna", vona það besta og fyllyrða að það versta sé afstaðið.  Þannig hrekst Eurosvæði frá neyðarfundi til neyðarfundar, í það minnsta fram yfir kosningar í Þýskalandi næsta haust.

Svipaður leikur er svo leikinn á Íslandis, þar eru aðildarviðaræður við "Sambandið" teygðar og togaðar, af þeim sagðar mikilúðlegar fréttir.  En ekkert gerist í raun og veru.

Og mun ekki gerast fyrr en eftir kosningar næsta vor.

En hvað gerist eftir þær kosningar er á valdi kjósenda.  Það fer eftir því hvernig þeir ráðstafa atkvæði sínu og hversu vel þeir halda þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa við efnið.

 

 

 


mbl.is Hlutabréf í Bankia féllu um 14%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirhafnarlítil jól

Jólin eru einstaklega þægilegur atburður.  Það má líklega segja um jólin eins og ýmislegt annað, að ef þau væru ekki til, væri nauðsynlegt að finna þau upp.

Það er einfaldlega stórkostlegt að nota þessa daga í miðju skammdeginu, til að slappa af og njóta samveru með fjölskyldunni.  Njóta ylsins innivið, þegar kalt er úti og leyfa sér að borða af mikið, bæði af mat og sætindum.

Best af öllu er að hafa ekki of mikið fyrir jólunum, leyfa þeim að streyma áfram og njóta augnablikanna.

Bækur og bíómyndir eru einnig órjúfanlegur hluti af jólunum.

Um leið og ég óska þess að allir, bæði nær og fjær hafi átt góð jól, ítreka ég þá skoðun mína um hve lukkulegir Íslendingar (og Norðulöndin) eru að halda jól, en hafa ekki breytt nafninu í Kristsmessu (Christmas) eing og tíðkast víða um lönd.

Jólin eru nefnilega allra.

Læt hér fylgja með nokkrar myndir sem ég tók stuttu fyrir jól.  Ef áhugi er fyrir er hægt að smella á myndirnar til að sjá þær stærri (með því að smella á myndirnar, er farið yfir á flickr síðu mína).

 

Swans in the Baltic Sea

 

 

A Lonely Swan in the Sea

 

 

Swans in the Fog, in Black and White

 

 

Skerry, in Black and White

 

 

Tuule Pier in Black and white

 

 

Cold to the Thorns

 

 


Shandy í bjórlausu landi? = Malt og appelsín?

Á þessum tíma árs má oft sjá vangaveltur um hvaðan siðurinn að blanda saman malti og appelsíni sé upprunnin og hvar þetta hafi allt byrjað.

Án þess að ég sé í nokkurri aðstöðu til að fullyrða um uppruna þessa skemmtilega siðar, þá leyfi ég mér að efast um að uppruni hans sé jafn rammíslenskur og margir telja.  Það er nefnilega með þessa blöndu, eins og svo margt annað sem oft er talið "sér íslenskt", að til eru til svipaðir og mun eldri erlendir hlutir eða siðir.  

Þannig þekkist drykkjarblandan "shandy" víða um heim, er líklega þekktust á Bretlandseyjum, þar sem hún á líklega uppruna sinn (um það ætla ég þó ekki að fullyrða).

Blandan samanstendur líkt og malt og appelsín, af tveimur drykkum, bjór og sítrusgosi.  Hvað algengast er að blanda saman bjór og límonaði, eða eins og algengt er í dag, bjór og 7Up.  En einnig mun það vera algengt að blanda saman bjór og appelsínulímonaði.

Í Kanada er stundum talað um "Black shandy", eða "Guinness Shandy", sem er blanda af hinum geðþekka Írska mjöð og sítrónugosi.

Eins og áður sagði þætti mér ekki ótrúlegt að malt og appelsín sé einfaldlega Íslenskt afbrigði af shandy, sem einhver á Fróni hefur kynnst erlendis og varð að aðlaga Íslenskum bjórlausum aðstæðum.

En þetta er bara tilgáta.

En fyrir þá sem vilja fræðast örlítið um shandy, bendi ég á þess wikpedia síðu.


Merkilegur og góður dagur

Ég hef lengi álitið 21. desember merkisdag.  Ekki vegna þess að ég hafi spáð fyrir heimsendi, eða að ég telji að meiri hætta sé slíkum ósköpum á þessum degi en öðrum.

En vetrarsólhvörf er merkisatburður, á hverju ári.

Þessi stutti dagur, og að vita af því að dagsbirtan verði örlítið lengri á hverjum degi, alveg þangað til í júní, er þægileg tilhugsun.

Þennan dag gerum ég og fjölskyldan okkur alltaf dagamun í mat, í ár var góð og safarík rifjasteik á borðinu, með dísætu heimalöguðu rauðkáli, rauðrófum og kartöflum.

Sveinbjörn Beinteinsson kvað fyrir okkur Eddu af einum af mínum uppáhalds geisladisk, sem er annar fastur liður á þessum merkisdegi.  Eldurinn logar í arninum og örlítið rautt glitrar í glasinu.

Spurning hvort að ekki þurfi að blóta "Hákoni" þegar líður á kvöldið.

Vonandi sjáum við sólina á morgun.

 


Vottar "Sambandsins"

Íslendingar mega án efa eiga von á því að þeim fjölgi sem verði sendir til Íslands, til að "vitna" fyrir "Sambandið".

Það vonast til að Íslendingar láti af villu síns vegar og sjái "ljósið".

En það má vera að "Sambandsaðild" henti Eistlendingum og hafi gert þeim gott.  En það þýðir auðvitað ekki að slík aðild sé Íslendingum að sama skapi góð.

"One size, fits all", er ekki fyrir alla, þó að það vissulega einfaldi "sölu og framleiðslu".

Eistlendingar hafa verið þiggjendur í Evrópusambandinu, þó að vissulega séu uppi vonir um að það breytist einhverntíma í framtíðinni.  Slíkt breyting verður þó líklega ekki í bráð.

Það þarf enda ekki að keyra lengi í Eistland, til að sjá að þær eru ekki margar opinberu framkvæmdirnar sem "Sambandið" hefur ekki lagt til hluta fjárins og það tilkynnt með stórum skiltum og fánum.  Það hefur gefist vel, og svipaðar fánaborgir vonast margir eftir að sjá á Íslandi.

Stóri munurinn er þó sá að nær allir eru sammála um að Íslendingar muni leggja meira til "Sambandsins", en koma muni frá því.

En það er ekki rökrétt að bera saman stöðu Íslendinga og Eistlendinga.  Eistlendingar sem endurheimtu sjálfstæði sitt fyrir rétt ríflega 20 árum, standa enn í skugga Sovétríkjanna/Rússlands.  Þeir voru tilbúnir til að færa miklar fórnir til að treysta og halda sjálfstæði sínu.  Jafnvel gefa eftir hluta af því.

En Rússarnir eru enn áhrifamiklir í Eistlandi og nota sumpart Evrópusambandið til að auka áhrif sín þar.  Það telst líklega ekki tilviljun að býsna stóran hluta af erlendri fjárfestingu í Eistlandi má rekja til Kýpur.

Það er því ef til vill ekki skrýtið að Eistlendingar leggji á það áherslu að tilheyra stærri heild.

En lífið í Eistlandinu er ekki eintóm sæla, þó að í Evrópusambandið sé komið.  Eistland var eins og mörg önnur lönd á miklu skriði á meðan lánsfjármagn var ríflega útilátið á síðasta áratug.  En fallið varð líka skarpt.

Atvinnuleysi hefur heldur sigið niður á við en er þó ennþá í kringum 10%.  Það er þó hátíð frá því 20% atvinnuleysi sem var árið 2010.

Margir Eistlendingar sem hita hús sín með rafmagni skjálfa nú á beinunum (sumir bókstaflega), því spáð er að rafmagn hækki um allt að 60% (vonandi verður hækkunin þó lægri) um áramótin þegar raforkutilskipun "Sambandsins" tekur að fullu gildi.  Hús sem kynnt eru með rafmagni eru nú boðin til sölu á niðursettu verði.

En stór hluti af Eistlendingum kyndir upp með viði.  Þeir hafa ekki efni á að kaupa gas eða rafmagn.

En það sem Eistlendingar eru líklega ánægðastir með hvað varðar "Sambandið" (ýmsar skoðanakannnair hafa sýnt slíka niðurstöðu) er atvinnufrelsið.  Það hefur skilað sér í þeirri staðreynd að hundruðir þúsunda Eistlendinga hafa yfirgefið landið síðan landið gekk í "Sambandið".  En það hjálpar vissulega til með atvinnuleysið, en á einnig sínar skuggahliðar.

Tollfríðindi innan "Sambandsins" reynast Eistlendingum einnig vel.  Það eru lífleg viðskipti með áfengi í Tallinn.  Þar eru enda áfengisverslanir á öðru hverju götuhorni.  Útlendingar, sérstaklega Finnar og í nokkrum mæli Svíar koma með ferjunum og kaupa ódýrt áfengi og njóta þess að skoða "Gamla bæinn" í Tallinn.  Það kemur sér vel fyrir Finnana og Svíana, sem búa við mikið hærra áfengisverð að geta tekið bílfarm af áfengi með sér heim.  Og gott fyrir Eistnesku verslunarmennina að geta selt þeim það.

En ég held að það sé engan vegin rökrétt að bera saman aðstæður Eistlendinga og Íslendinga.  Annars vegar littla þjóð sem hrammar Rússneska bjarnarins kasta löngum skugga yfir landið, og telja sér (eðlilega) hag í því að stilla strengi sína við sterku iðnríkin í mið Evrópu og Skandínavíu.  Skandínavískir bankar stýrar fjármálamarkaðnum og mörg fyrirtæki með bakvinnslu og einhverja framleiðslu.

Það sem dregur fyrirtækin fyrst og fremst að eru lág laun.

Eins og ég sagði í upphafi, reikna ég með að þeim fari fjölgandi sem koma til Íslands og "votta" hvað það er gott að vera í "Sambandinu".  "Fánaborgunum" fer sömuleiðis líklega að fjölga.

Með ósvífnum hætti mun "Sambandið" vinna með "sínum flokkum" í Alþingiskosningunum í vor.  Það er líklega einsdæmi að erlendir aðilar blandi sér í kosningar á Íslandi með slíkum hætti.  Það er sömuleiðis einsdæmi að erlent ríkjasamband starfræki áróðurskrifstofu á Íslandi, með það að leiðarljósi að hafa áhrif á kosningar.  Þar á ég fyrst og fremst við þær kosningar sem líklega verða haldnar um inngöngu/framhald aðildarviðræðna við "Sambandið", en einnig Alþingiskosningar.

Sem betur fer, virðist þó meirihluti Íslendinga eindregið hafna "Sambandinu" og framgöngu þess.


mbl.is Sáu kostina við aðildina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forréttindastéttir ríkisstjórnarinnar

Á sama tíma og berast fréttir frá Alþingi Íslending um að Samfylking og Vinstri græn vilji herða enn frekar á vörugjöldum og skattheimtu á Íslendingum, þá má lesa að ríkisstjórnin gefi sér tíma til þess að auka forréttindi þeirra sem ferðast.

Skítt með pakkið sem ekki á fyrir því að komast til útlanda.

Það eru jú að koma kosningar.

Þá er rétti tíminn til að auka forréttindi þeirra sem ferðast. 

Ferðalög eru að verða eins og "dollarabúðir Sovétsins".  Ef þú ferðast nóg, getur þú birgt þig upp af ódýrara áfengi, fengið þér ódýrari gleraugu, keypt þér nýjustu tækniundrin á mun lægra verði og jafnvel hreinlætisvörur eru á skaplegra verði.

En þeir sem ekki ferðast?

Jú, þeir einfaldlega borga gjöldin, eða verða að komast af án þessara "lífsins lystisemda".

Engan innan ríkisstjórnar heyri ég tala um að nauðsyn sé að lækka álögur, gera Íslendingum kleyft að versla meira heima fyrir.

Nei, helst öll gjöld eru hækkuð, síðan er farið í að auka undanþágurnar. 

Það gerist líklega ekki "vinstristjórnarlegra" en það, eða hvað?


mbl.is Hámark á tollfrjálsum varningi hækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sambandið" tekur við keflinu af "útrásarvíkingunum" - æ sér gjöf til gjalda

Það eru ekki mörg ár síðan að varla var nokkur atburður á Íslandi sem ekki var "í boði","kostaður", eða haldin "í samvinnu eða samstarfi við", eitthvað af hinum margrómuðu "útrásarfyrirtækjum".

En nú eru Snorrabúðir útrásarvíkinganna stekkir.  En það eru auðvitað fleiri sem þurfa að ná athygli, vekja upp jákvæðar hugsanir í sinn garð og sýna fram á hvað þeir séu góðir fyrir Íslendinga og þjóðarhag.

Þetta er enda eitt af elstu "trixunum í bókinni", til að ná athygli og sýna sig í jákvæðu ljósi.  Þeir sem eru liðlegir með fé eru enda víðast hvar auðfúsugestir.

Ég hef áður sagt, og er enn sömu skoðunar, að það sé fyllilega óeðlilegt að erlent ríkjasamband starfræki áróðursskrifstofu á Íslandi.  Evrópusambandið á ekki að skipta sér af kosningabaráttu á Íslandi.

Ef kosið verður um hvort Íslendingar vilji ganga í "Sambandið", eða ef kosið verður um hvort Íslendingar vilji halda viðræðum við "Sambandið" áfram, er sú ákvörðun Íslendinga einna.  Það ætti kosningabaráttan að vera sömuleiðis.

Þegar Alþingiskosningar verða haldnar í vor, verður sömuleiðis tekist á um stefnu Íslands hvað varðar "Sambandsaðild".  

Það er vond tilhugsun, að samhliða kosningabaráttunni, sé erlent ríkjabandalag, með áróðursstarfsemi sem gagnast sumum flokkum og er í raun á móti stefnu annarra.

En auðvitað mun  ríkisstjórn Íslands ekkert aðhafast í því, því það styður við stefnu ríkisstjórnarflokkanna, hvað varðar "Sambandsaðild".


mbl.is Aukinn þungi í kynningu á ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar hafnar "Sambandinu" og stefnu ríkisstjórnarinnar

Það er að mörgu leyti skringileg staða sem Ísland og íslendingar finna sig í þessa dagana, það er að segja í utanríkismálum.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu.  Forseti landsins talar gegn aðild landsins í fjölmiðlum, jafnt innlendum sem alþjóðlegum.  Meirihluti Íslendinga gefur sömuleiðis upp í skoðanakönnunum að þeir kæri sig ekki um aðild að "Sambandinu".  Nýlegar skoðanakannanir hafa gefið þá niðurstöðu að meirihluti Íslendinga vilji draga aðildarumsóknina til baka.

Ég held að það sé rétt hjá Ólafi Ragnari að afstaða hans til Evrópusambandsins og IceSave hafi líklega verið það sem tryggði honum endurkjör.  Það var í það minnsta ástæða þess að ég kaus hann og hvatti aðra til að gera hið sama.

Ólafur Ragnar hefur fundið sig æ betur í sviðsljósinu, og æ fleiri virðast líta á hann sem hinn raunverulega landsstjórnenda Íslands, alla vegna erlendis.  Hann hefur verið duglegur að nýta sér það tómarúm í alþjóðamálum, sem óburðugur, mannfælinn og óframfærinn forsætisráðherra Íslendinga hefur skilið eftir á undanförnum árum.

En það sjá allir að utanríkisstefna núverandi ríkisstjórnar, þar sem hornsteinninn er aðildarumsókn að Evrópusambandinu er komin í veruleg vandræði.  Ríkisstjórnin þyrfti í raun að taka af skarið og gera öllum það ljóst, hverjir það eru sem móta utanríkisstefnu Íslands og hverjir tala fyrir henni.  Mér þykir þó ekki líklegt að af því verði.

En hitt er líka ljóst að þegar Ólafur Ragnar talar með þessum hætti, vekur það athygli víða um lönd - einning á meðal forsvarsmanna "Sambandsins".

Í mínum huga sannast það enn og aftur að stærstu pólítísku mistökin sem ríkisstjórnin gerði, var að leggja slíka ofuráherslu á "Sambandsaðildina" og keyra hana af stað með því offorsi sem hún gerði. 

Hversu mikið sterkari væri staða ríkisstjórnarinnar ef haldin hefði verið þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort sækja ætti um eður ei.

Hversu sterkari væri umsóknin og ferlið allt, ef slík umsókn hefði verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

En til þess hafði ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna ekki pólítískt hugrekki.  Þann lýðræðislega kost þorði hún ekki að gefa þjóðinni.

Líklega ekki hvað síst vegna þess, að hefði umsóknin verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslu, er líklegt að ríkisstjórnin hefði sprungið.

En þjóðin mun fella sinn lýðræðislega dóm í vor.  Sá réttur verður ekki frá henni tekinn.


mbl.is Ísland í betri stöðu utan ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækifæri fyrir ferðaþjónustuna

Auðvitað eiga Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki að taka sig saman og styðja útgáfu þessarar bókar.

Upphæðin er ekki há, og áhættan því lítil. Kynningin gæti hins vegar orðið umtalsverð.  Ekki eingöngu í formi bókarinnar, heldur einnig í umfjöllun um að Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hafi brugðist skjótt og vel við.

Hér á ekki að vera nein þörf fyrir opinbera sjóði, eða inngrip stjórnvalda.  Ferðaþjónustufyrirtækin eiga einfaldlega að ganga í málið.


mbl.is Jaðrar við ástarbréf til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband