Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Rafmagnsstrætisvagnar á götunum

Eitt af því sem vekur athygli hér í Tallinn, eru "trolleybusarnir", eða rafmagnsstrætisvagnarnir sem aka hér um.  Þetta eru rafmagnsvagnar, en nota ekki rafgeyma, heldur eru tengdir við rafmagnslínur, rétt eins og lestir eða sporvagnar.  Líklega mætti helst líkja þeim við sporvagna án teina, þar sem þeir eru alfarið háðir rafmagnslínunum og stöðvast um leið og þeir missa samband við þær.  Sumstaðar hafa þeir þó verið búnir rafgeymum, til að gera þeim kleyft að aka styttri vegalendgir án þess að vera tengdir.

Þessi tækni er þrautreynd og í notkun í flestum heimsálfum.  Stærsti kosturinn er líklega að vagnarnir menga lítið sem ekkert og er allt annað að aka á eftir rafmagnsstrætisvagni eða "díselskrýmsli".  Ennfremur þykja þessir vagnar betri en aðrir í hæðóttu landslagi, þar sem "torkið" er betra en í öðrum vélargerðum.

Á Íslandi væri auðvitað stærsti kosturinn að þeir notuðu ódýra innlenda orku.

En vissulega eru gallar líka, erfiðara og kostnaðarsamara er að breyta leiðum, og rafmagnslínurnar eru ekki beint augnayndi.

En er samt nokkuð merkilegt að þessi möguleiki skuli ekki vera skoðaður á Íslandi, þá eingöngu fyrir stærstu leiðirnar, t.d. austur og vestur Miklubraut upp á Höfða og á leiðinni til Hafnarfjarðar.  Möguleiki væri að nota ljósastaura til að festa upphengin fyrir rafmagnslínurnar.

Gömlu "trolleybusarnir" hér í Tallinn eru af Skoda gerð og mega muna sinn fífil fegri, en nýjustu vagnarnir eru Pólskir vagnar frá Solaris sem líta ljómandi vel út.

Meðfylgjandi eru mynd af einum slíkum sem ég tók hér fyrir nokkrum dögum.  Hægt að að "klikka" á myndina til að sjá hana stærri.

Trolleybus

Nýta auðlindirnar

Það væri auðvitað gríðarleg búbót fyrir Íslenskt efnahagslíf ef olía fyndist í vinnanlegum mæli innan Íslenskrar auðlindalögsögu.

Það er fyllilega tímabært að kanna þetta til hlýtar og bæði sjálfsagt og eðlilegt að verja til þess nokkrum fjármunum.  Hið besta mál hjá iðnaðarráðherra að taka frumkvæði í þessu máli.

Spurningin er ef olía finnst hvort að það "mætti" hreinsa hana á Íslandi?


mbl.is Auðlindaleit á Drekasvæðinu milli Jan Mayen og Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðalhófið

Það er gömul saga og ný að meðalhófið er best.  Þannig er það að sjálfsögðu einnig í ferðaþjónustunni.  Ferðamennirnir vilja upplifun, upplifun sem þeir telja sérstaka, best finnst auðvitað mörgum ef þeir telja hana einstaka.

Það er því óskandi að Íslendingar hafi skilning á því að það er ekki hægt að bæta endalaust við, það geta ekki allir gert út á túrhesta og löngun þeirra til þess að stunda sjóstangaveiði.

En þeir eru vissulega margir Íslensku firðirnir, og plássið því töluvert.

En hér sem annarsstaðar þarf að fara varlega og vonandi skilja bisnessmenn það að markaðurinn er ekki ótakmarkaður og plássið á honum ekki heldur.

 


mbl.is Þurfa að passa að fylla ekki firðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heyrist víða

Ekki ætla ég að neita því að sumar Íslenskar mjólkurafurðir eru framúrskarandi.  Íslensk mjólk er t.d. afar góð og um gæði og sérstöðu Íslenska skyrsins þarf ekki að hafa mörg orð, það er einfaldlega frábært.

En það er staðreynd að sú skoðun heyrist víða að þarlendar mjólkurafurðir séu þær "bestu" á sínu svæði, nú eða öllum heiminum. 

Slíka skoðun hef ég t.d. heyrt hér í Eistlandi, og þykir mörgum skrýtið hvers vegna hérlendum landbúnaði hefur ekki gengið betur en raunin er á "ökrum" "Sambandsins".

Ekki þarf heldur að tala lengi við Frakka eða Ítali til þess að fá að heyra frásagnir af afburða gæðum mjólkuriðnaðar (og raunar alls landbúnaðar) í þessum löndum.  Reyndar get ég tekið undir það að mörgu leyti og gætu Íslendingar margt lært af þessum löndum í mjólkuriðnaði, sérstaklega hvað varðar ostagerð.

En það er alveg rétt að það er ekki Íslenskur landbúnaður sem er veigamikil ástæða til þess að fara sér hægt í "Sambandsaðild".  Þar eru aðrar ástæður sem vega þyngra.  Þó að það sé skrýtið að segja það, þá er líklegra en ekki að landbúnaðarmálin færðust til betri vegar með aðild.

En auðvitað er aðild ekki nauðsynleg til þess að lagfæra landbúnaðarmálin, til þess þarf aðeins Íslenskan pólítískan vilja.

P.S.  Það er skrýtið að ekkert er minnst á það í fréttinni hver Jón Kjartansson er.  Persónulega hef ég ekki hugmynd um það og man ekki eftir því að hafa á manninn heyrt minnst.  Það er sjálfsögð kurteisi við lesendur að segja ofurlítil deili á viðmælandanum.


mbl.is Íslenskar mjólkurafurðir þær bestu í þessum heimshluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tallinn á ný

Þá er Bjórárfjölskyldan komin aftur til Tallinn, við skiluðum okkur hingað seint á laugardagskvöldið.  Í gær var haldin afmælisveisla tengdamóður minnar og svo enduðum við hjónin á næturklúbbi eftir að börnin voru sofnuð.

Klúbburinn heitir Amigos og rekur uppruna sinn allt aftur til Sovéttímabilsins, og var víst þekktur um þau öll, en venjulegir Eistlendingar fengu ekki að stíga inn í dýrðina.  Þetta er þó allt breytt og nú hljómar þar venjuleg discotónlist og allir skemmta sér nokkuð vel, sama af hvaða þjóðerni þeir eru.

En það hefur margt drifið á dagana síðan síðast færsla kom hér inn og verður reynt að gera því skil í færslum hér síðar, enda allt of mikið til þess að hægt sé að koma því að í einni slíkri.

En myndir koma sömuleiðis jafnt og þétt inn á Flickrsíðuna:

http://www.flickr.com/photos/tommigunnars


Enn þá í Eysýslu

Bjórárgengið er ennþá í Eysýslu.  Núna sit ég hér með konunni á kaffihúsinu John Bull í Kurussare,  sem rétt eins og flest betri kaffihús í Eistlandi býður upp á frítt internet.  Á meðan ég sit hér nota ég tækifærið og skrifa og hringi sömuleiðis til Íslands og Noregs.

Það er auðvitað ótrúlega þægilegt að geta hringt millilandasímtöl fyrir ekkert og geta þannig verið í ódýru og góðu sambandi við umheiminn.

En meiningin er að vera hér fram á laugardag, þá verður haldið aftur til Tallinn.

En lífið er ljúft í Eistlandi.  Þó að verðið hafi hækkað hér töluvert síðan ég var hér fyrir 5. árum þá er ennþá hægt að kaupa mat og öl (og sömuleiðis vodka) fyrir lítið fé.  Stærsti lúxusinn er þó líklega að geta skilið ómegðina eftir í öruggri umsjá afa og ömmu og við konan getum því slappað af í bænum.

Meira síðar.


Nokkrir góðir dagar í Eysýslu

Nú hefur Bjórárfjölskyldan eytt undanförnum dögum í Eysýslu, eða Saaremaa eins og það heitir upp á Eistnesku. Þessi eyja er Íslendingum að góðu kunn, þó að þeir komi ef til vill ekki margir hingað, en hingað lá leið Gunnars á Hlíðarenda er hann lagði í víking ásamt bróður sínum, og hélt í austurveg.

Við tókum ferjuna um hádegi á föstudag, þetta er ekki nema u.þ.b. hálftíma sigling, mikið var um að vera og þrjár ferjur í stöðugum förum og stemningin góð.

En hér er gott að vera, sumarbústaðurinn sem við höldum til í er án allrar nettengingar, en sjónvarp næst vel, því sá ég Þýska kappaksturinn í gær, en get þó ekki sagt að hann hafi vakið mér mikla gleði. Þó sáust ágætis sprettir í akstri, Hamilton ók fantavel og átti sigurinn virkilega skilið, en Ferrarimenn voru ekki alveg að gera það sem ég ætlast til af þeim, en þó átti Raikkonen góða akstursspretti og Massa komst á pall, en kröfurnar eru meiri en það.

Það var sömuleiðis ágætist tilbreyting og finning að sjá Piquet á pallinum og sýnir vel hvernig góð áætlun með hæfilegum skammti af heppni getur skilað ökumönnum áfram í Formúlunni, umfram allt er að vinna vel úr möguleikunum sem gefast.

En við verðum hér í Eysýslu fram að helgi eða svo en þá er áætlað að halda til baka til Tallinn. Lífið er sem áður ákaflega ljúft og börnin kunna vel við sig í "sveitinni". Sólin hefur skinið, sjórinn að vísu full kaldur ennþá, en nóg af undarlegum stöðum og hægt að týna upp í sig bæði villt jarðarber, brómber og einiber. Jarðarberin eru sæt og bragðsterk, brómberin flest full súr ennþá, en eina bragðið sem einiberin minna mig á er auðvitað gin, eðlilega.

Bráðum er svo meiningin að halda til Kuressaare, höfuðborgar héraðsins og þar ætti ég að komast í nettengingu og geta póstað þessu á bloggið.

P.S. Núna sit ég á bókasafninu í Kuressaare nýt þráðlausrar nettengingar og er að hlaða þessu upp sem og bæta við myndum á Flickr síðuna mína.  http://www.flickr.com/photos/tommigunnars


Myndir frá Tallinn

Þá loksins er ég búinn að koma nokkrum myndum inn á Flickr og birti sumar þeirra sömuleiðis hér.  Þeir sem áhuga hafa á því að skoða fleiri myndir á Flickr geta smellt á myndirnar hér og þá flytjast þeir yfir á Flickr síðuna, eða farið beint á www.flickr.com/tommigunnars.

 

 

 

Happy Boy in Estonia Reflection With a Smiley Under The Roof Vana Tallinn Barkscape VII


Uns rétt niðurstaða fæst

Þegar Írar felldu Lissabon samninginn voru margir sem sögðu að líklega yrði farin "hefðbundin" leið og Írar látnir kjósa aftur, og aftur uns "rétt" niðurstaða næðist úr kosningunum.

Nú má sjá í frétt á Visi að Sarkozy Frakklandsforseti (og núverandi forseti ESB) er farinn að tala akkúrat á þeim nótum. 

Það verður fróðlegt að fylgjast með niðurstöðu þessa, en þessi ESB háttur að kosningar séu því aðeins marktækar að niðurstöður þeirra séu valdhöfum þóknanlegar er ekki traustvekjandi.

"Lýðræði - með okkar niðurstöðu", gæti verið slagorð "Sambandsins.

 


Legið fyrir

Það hefur ekki blásið allt of byrlega núna síðasta sólarhringinn.  Það skiptir víst sjúkdómana engu máli h.vort menn eru í sumarfríi eður ei.  Þannig náði ég mér í einhverja skrattans hitasótt og hef legið marflatur fyrir henni síðasta sólarhringinn.

En þetta horfir nú þegar til betri vegar.  Svitinn streymir enn þá út, en beinverkirnir og hitinn eru á niðurleið.  Vonandi hef ég náð mér að fullu á morgun.

En ég er reyndar sá eini af fjölskyldunni sem hef náð í þessu óþægindi, börnin hlaupa um jafn spræk sem áður og konan kennir sér einskis meins.  Þetta er ef til vill einhver bölvuð veira sem leggst eingöngu á útlendinga.

Það er kominn tími til að hrista þetta af sér.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband