Bloggfærslur mánaðarins, október 2014

Að eiga val og vera treyst fyrir því

Þessi frétt er vissulega athyglisverð.  En hin "illu" verðtryggðu lán njóta vinsælda hjá "heimilunum" (sem ég vissi reyndar ekki að tækju lán).

Nú má reyndar endalaust og án niðurstöðu rökræða um kosti og galla verðtryggðra og óverðtryggðra lána.

En það sem skiptir ef til vill mestu máli er að "heimilin" hafi val og þeim sé treyst til þess að hafa það.

Það er engin ástæða til þess að banna verðtryggð lán, þau eiga sinn stað í flórunni og er eins og kemur fram í fréttinni fyrsti valkostur margra íbúðakaupenda.

Margir hafa bent á að fyrstu afborganir verði lægri með verðtryggðum lánum.  Eins og staðan er á Íslenska lánamarkaðnum, þá er það líklega rétt.

En það er ekki verðtryggingunni að þakka, heldur jafngreiðslu fyrirkomulaginu. En það er einmitt því að kenna, að eignamyndunin verður mjög hæg í upphafi.  Það er rangt að kenna verðtryggingunni um það.  Því veldur jafngreiðslu fyrirkomulagið, og svo lengd lánanna, en 40 ára lán telst víða mjög langt.

Óverðtryggð jafngreiðslulán eru á boðstólum hér og þar um veröldina, en Íslenskar lánastofnanir hafa, að því að ég best veit, aldrei boðið upp á slíkt fyrirkomulag.

En nú velja lántakendur á milli verðtryggðs og óverðtryggðs. 

Er það skynsamlegt að stjórnmálamenn taki þann valrétt af þeim með því að banna verðtryggingu?


mbl.is Flest heimili velja verðtryggð lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin bjúrókratíska dýrð

Það getur verið vandasamt að passa almúgann fyrir öllum þeim illu fyrirtækjarekendum sem sækja að honum.  Það þekkja bjúrókratar um allan heim.

Víða hefur þeim þó tekist betur upp en á Íslandi, sem þrátt fyrir allt stendur nokkuð vel þegar borið er saman hve auðvelt er að koma á fót fyrirtækjum og standa í rekstri.

Það má lesa í nýlegri skýrslu Alþjóðabankans sem heitir "Doing Business 2015". Þetta er árleg skýrsla að mig minnir.

Skýrslan tekur til þátta s.s. hversu auðvelt er að stofna fyrirtæki, tengjast rafmagni, að fá lán, eignaskráning, byggingaleyfi, skattaflækjur, erlend viðskipti, vernd minnihluta fjárfesta og réttarkerfi.

Þar er Ísland í 12. sæti.  Í sjálfu sér ekki slæmur árangur, en þó er Ísland síðast af Norðurlöndum 5, þó aðeins 1. sæti á eftir Svíþjóð.

Danmmörk er hæst Evrópuþjóða, í 4. sæti, Noregur í því 6 og Finnland í því 9.  Eina Evrópuþjóðin sem nær að skjóta sér á milli Norðurlandaþjóðanna er Bretland í 8. sæti.

Staðan á Íslandi er því ekki slæm, en vissulega mikið svigrúm til framfara.

Það er líka ljóst að vandinn er "heimatilbúinn", því EEA/EES samningurinn eða aðrir alþjóðlegir samningar ættu ekki að standa í veginum fyrir því að Íslendingar gætu staðið í það minnsta jafnfætis Dönum.

Ef til vill er það ekki síst meira frjálsræði sem þarf til að Íslendingar geti staðið jafnfætis hinum Norðurlandaþjóðunum.

 


mbl.is Þvælast á milli stofnana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangt, en ekki óskiljanlegt

Það er mjög algengt að einstaklingar telji að innflytjendur séu mun fleiri en þeir eru í raun og veru.  Ég hygg að fæstir séu því ósammála.  En það má líka spyrja sig að því hvort að það sé ekki eðileg "skynvilla"?

Líklega er það manninum eðlislægt að taka meira eftir þeim sem skera sig úr.  Því verður líklega seint breytt.  Því taka flestir meira eftir þeim sem eru öðruvísi í klæðaburði og tala tungumál landsins illa, eða með sterkum hreim.

Að því leyti er ekki óeðlilegt að margir ímyndi sér að innflytjendur séu fleiri en þeir eru.

Svo er líka hitt, að hjón sem bæði eru innflytjendur, eiga svo t.d. 3. börn sem ekki teljast innflytjendur, enda fædd í viðkomandi landi og teljast innfædd.

Hætt er við því að margir myndu telja þar 5. innflytjendur að ræða, ef þeir mættu fjölskyldunni í gönguferð.

Það flækir svo málið líklega enn frekar, þegar farið er að tala um einstaklinga af erlendum uppruna, því það ætti líklega við öll 5.

Hvenær hætta einstaklingar svo að vera af "erlendum uppruna"?  Líklega er ekki til neytt einhlítt svar við því.

En ég er sammála Morgan Freeman, þegar hann sagðist vera "american", ekki "african american", "I am not african", sagði Mr. Freeman.

En það þarf ekki að koma á óvart að skynjun, eða upplifun fólks sé á skjön við tölulegar staðreyndir, en á þessu máli eins og flestum öðrum eru margir fletir.

 


mbl.is Þú hefur sennilega rangt fyrir þér um allt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir taka kraftinn úr sturtuhausum, ryksugum og "sameiginlega markaðnum".

Einn kunningi minn sagði, "þeir eru fínir í sturtuhausunum og ryksugunum, hafa hellings vit á hárþurkum, en þegar kemur að viðskiptum og "sameiginlega markaðnum" skila þeir auðu.

Ef einhver hefur ekki þegar giskað á hverja hann var að tala um þá eru það "kommisarar" og þingmenn "Sambandsins".

Það kannast líklega flestir við tilskipanir um að lækka vattafjölda í rykugum og að minnka vatnsnotkun í sturtuhausum.

Það kannast sömuleiðis líklega margir við að hafa heyrt talað um mýtuna að "Sambandið" og þó sérstaklega euroið, hafi aukið, svo um munar milliríkjaviðskipti á milli "Sambandsríkja", og þó sérstaklega á milli ríkja sem hafi sama gjaldmiðil, eins og "Eurosvæðisríkin" hafa.

En það er þó fjarri sannleikanum.

Innri markaðurinn sem hlutfall af útflutningstekjum bæði "Sambandsríkjanna" sem heildar og einnig Eurosvæðisríkjanna, hefur dregist saman.  Það er svo merkilegt að eins og sjá má á línuritinu hér að neðan, þá nær þetta hlutfall hámarki sínu stuttu fyrir árið 2000 hvað varðar Eurosvæðið, en stuttu eftir 2000 hvað varðar "Sambandið í heild..

Það er ekkert sem bendir til þess að breyting verði hvað þetta varðar á næstu árum.  Hnignunin hefur verið verulega skörp síðust 4 árin.

Innan "Sambandsins" virðis euroið sömuleiðis skipta litlu máli.  Viðskipti hafa t.d. aukist mun hraðar á milli Þýskalands og Bretlands, en á milli Þýskalands og Frakklands.

Ef til vill væri ráð að leggja frá sér ryksugurnar og sturtuhausana og snúa sér að því að lífga upp innri markaðinn.

En líkurnar á því eru .....

 

EU intratrade

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Línuritið er ættað héðan.


mbl.is Sturtur verða vatnsminni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líklega Moggalygi

Nú sé ég ekki umfjöllunina í Morgunblaðinu, en vissulega er þetta fróðlegur moli sem kemur frá Ásmundi Stefánssyni.

Það verður líka fróðlegt að fylgjast með hvernig þetta á eftir að skila sér út í "umræðuna" og hvaða meðferð Ásmundur mun hljóta þar.

Sjálfsagt á hann eftir að fá dóma um að hann sé gengin í auðvaldsbjörgin, sé handbendi sjálfstökuslýðsins,  eða hann hreinlega hafi verið fenginn til að framleiða "Moggalygi".

En svo er það hitt, að það þetta með jöfnuðinn er erfitt að mæla og einstaklingum reynist auðvelt að fá fram misvísandi tölulega "staðreyndir".

P.S. Spái því að hin skemmtilega setning:  „Öfugt við það sem mjög stór hluti af vinstrisinnuðu fólki á Íslandi heldur fram, þá er jöfnuður mikill á Íslandi á alþjóðlegan mælikvarða.“, eigi eftir að rata í sögubækur.  Ja, nema auðvitað að "mjög stór hluti af vinstrisinnuðu fólki á Íslandi", eigi eftir að véla um með þær sömu bækur.


mbl.is Mikill jöfnuður á alþjóðlegan mælikvarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íhaldið lifir góðu lífi

Kunningi minn vakti athygli mína á bloggi Egils Helgasonar, þar sem hann fjallar um horfið íhald.  Það er að segja að hann talar um að Íhaldið (með stórum staf) sé horfið úr Sjálfstæðisflokknum.

Það er auðvitað svo að það er fátt tilgangslausara (að mínu mati) að rífast um en skilgreiningar á stjórnmálastefnum og stjórnmálaflokkum.  Þar sýnist sitt hverjum og rökræður snúast í ótal hringi án þess að hilli undir niðurstöðu.  Það hafa enda komið út fjöldinn allur af hátimbruðum fræðibókum sem eru með fleiri mismunandi niðurstöður en hönd verður fest á.

Nú er það til dæmis mjög algengt að útmála Sjálfstæðisflokkinn á Íslandi sem grimman, óvæginn og hreint skelfilegan frjálshyggjuflokk.  Rétt eins og Egill tala margir á þann veg að þar sé ekker "íhald" að finna lengur.

Fyrir mér persónulega hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið frjálshyggjuflokkur, heldur má segja að hann hafi alltaf komið mér fyrir sjónir sem nokkurs konar kristilegur íhaldsflokkur með jafnaðarívafi.

En eins og áður sagði fer skilgreiningar á slíku líklega mest eftir einstaklingnum og þeim sjónarhóli sem hann stendur á.

En að mínu áliti er það íhaldið í Sjálfstæðisflokknum sem stendur (ásamt íhaldi úr öðrum flokkum) vörð um landbúnaðarkerfið á Íslandi.

Það er sömuleiðis íhaldið (eða öllurheldur hluti þess) í Sjálfstæðiflokknum sem stendur vörð um þjóðkirkjuna og reynir að troða inn gildum hennar hvar sem þeir telja sig geta.

Stór hópur íhaldssamra Sjálfstæðismannna styður t.d. ríkisútvarpið dyggilega og hefur engan áhuga á að draga úr ríkisstyrkjum til menningar eða að draga úr ríkisútgjöldum yfirleitt.  Ég hygg að sagan sýni það.

Íhaldssamir Sjálfstæðismenn eiga það til að draga dulítið lappirnar gagnvart lagasetningum sem fela í sér frelsis eða lýðræðisskerðingu, en gera yfirleitt ekkert í því að afnema þær, er þær hafa verið samþykktar.  Nýlegt dæmi um það er t.d. kynjakvóti í stjórnum fyrirtækja.  

Þetta er auðvitað ekki heildar upptalning, eða ýtarleg skilgreining á pólítískri stefnu Sjálfstæðisflokksins (í verki, en ekki riti), aðeins nokkur dæmi.

Ég hugsa að þeir væru margir sem teldu frjálshyggju mun vandfundnari í Sjálfstæðisflokknum, en íhaldssemi.

Vissulega hafa ýmsir frjálshyggjumenn starfað innan Sjálfstæðisflokksins, en ég held að áhrif þeirra hafi því miður ekki verið eins mikil og oft er af látið.

Íhaldið lifir góðu lífi, í Sjálfstæðiflokknum og raunar fleiri flokkum.

Nema við förum svo aftur að ræða muninn á í- og afturhald?

 

 

 

 

 


Þýska leyniþjónustan telur engan vafa á sekt "aðskilnaðarsinna

Nýlega birtist í Der Spiegel stutt grein, þar var fjallað um þann sorglega atburð þegar Maylasísk farþegaþota var skotin niður yfir Ukraínu, með hroðalegum afleiðingum og lífláti 298 einstaklinga.

Í greininni er vitnað til rannsóknar Þýsku leyniþjónustunnar (Bundesnachrichtendienst (BND)).  Þar kemur fram að leyniþjónustan telji engan vafa á því að Rússneskir "aðskilnaðarsinnar" hafi skotið flugvélina niður.

Það kemur fram í greininni að leyniþjónustan hafi lagt ítarleg gögn fyrir þingnefnd þá sem fylgist með starfi stofnunarinnar, m.a. frá gervihnöttum og mikið af ljósmyndum.

Auðvitað kemur þetta ekki til með að breyta afstöðu þeirra mörgu sem kjósa að trúa einhverju öðru.  Það má enda alltaf finna nóg af "gögnum" á netinu til að styðja því sem næst hvað sem er.

Rússar standa flestum öðrum framar í því að framleiða slík gögn, enda búa þeir að langri hefð.

En ef til vill breytir þetta einhverju í afstöðu ríkisstjórna, í hinum svokallaða vestræna heimi.

 


 

 


mbl.is Hollendingar vilja gögn frá Rússum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óraunhæfar hugmyndir

Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að þingmenn vilji að óraunhæfar hugmyndir hljóti frekari skoðun.  Fyrir marga stjórnmálamenn eru það þeirra ær og kýr, að vera sífellt að koma á fót nefndum, rannsóknarhópum, alls konar teymum og þar fram eftir götunum.

Norðurlöndin eru að ýmsu leyti merkilegur hópur og samstarfið býsna víðtækt.  Sjálfsagt má efla það á ýmsan máta löndunum öllum til gagns.

En Norðurlöndin eru mjög misjafnlega á vegi stödd.

3. þeirra eru í Evrópusambandinu.  1. þeirra notar euro sem lögeyri. 3. þeirra eru í NATO.  1. þeirra hefur viðurkennt Palestínu, annað er á leiðinni til þess.

Þarna er eingöngu týnd til stóru atriðin sem koma strax upp í hugann og hafa verið í fréttum, en sýnir þó með nokkuð afgerandi hætti að löndin eru langt frá því að vera samstíga.

Af "stóru" löndunum 4. er það svo fámennasta landið, Noregur, sem almennt er talinn standa best.

Það verður því að teljast afar ólíklegt, og í raun myndi ég telja það óraunhæft að Norðurlöndin myndu sameinast undir einni yfirstjórn, þó að hvert og eitt þeirra myndi halda eftir einhverri stjórn á innanlandsmálum.

Ég held að tíma og fjármunum sé betur varið til annars en að halda lífi í þeirri hugmynd með nefnd.

Svo er það einnig spurningin um Færeyjar og Grænland, sem hafa valið aðrar leiðir en Danmörk.

 


mbl.is Vilja skoða norrænt sambandsríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

John Tory - Nýr borgarstjóri Toronto

Í gær, mánudag gengu íbúar Toronto að kjörborðinu og völdu sér nýjan borgarstjóra og borgarstjórn.

Það kom fæstum á óvart (skoðanakannanir höfðu bent til þess í nokkurn tíma) að John Tory varð fyrir valinu sem borgarstjóri

John Tory hlaut 40% atkvæða, Doug Ford (sem tók við keflinu eftir að bróðir hans Rob, fráfarandi) borgarstóri, dró sig í hlé) hlaut 34% atkvæða og Olivia Chow 23%.

Þátttaka í kosningunum var góð á Kanadískan mælikvarða, eða um 60%, u.þ.b. 980.000 manns greiddu atkvæði, sem er aukning um u.þ.b. 150.000.  Þátttakan í síðustu kosningum var u.þ.b. 53%, sem þótti gott, en í tveimur kosningum þar á undan hafði þátttakan verið undir 40%.

Það má því ef til vill segja að Torontobúar láti sig í vaxandi mæli varða hver stjórnar borginni og veit það vissulega á gott.

En ég fagna kjöri John Tory og ég held að hann sé líklegastur af frambjóðendunum að ná að sameina borgina að baki sér, en hans bíður erfitt verkefni.  Borgarstjóraembættið getur ekki talist "sterkt" í Toronto, hann þarf að treysta á atkvæði 44 borgarfulltrúa (sem eru ekki kosnir listakosningu) og svo gott samstarf jafnt við fylkisstjórn Ontario og ríkisstjórn Kanada.  Að segja má eini tekjustofn borgarinnar eru fasteignagjöld og verður hún því að treysta á framlög frá fylkis og ríkisstjórn. Mun meira þó á fylkisstjórnina.

En John Tory þekkir vel til í bæði borgarstjórn og Fylkisstjórninni.  Hann hefur starfað mikið innan borgarkerfisins og bauð sig fram til borgarstjóra árið 2003, en tapaði þá fyrir David Miller.  Hann var leiðtogi Framsækinna Íhaldsmanna (Progressive Conservative Party) til fylkiskosninga árið 2007, en náði ekki kjöri.  Hann náði heldur ekki að vinna sigur í aukakosningum (í öðru kjördæmi) árið 2009.  Þá sem nú stjórnar Frjálslyndi flokkurinn Ontario.

Það má því segja að leið Tory´s í borgarstjórastólinn hafi verið nokkuð krókótt og erfið.

Það sem vekur athygli í þessum kosningum, að sigri Tory slepptum, er sterk staða Ford "fjölskyldunnar", og lélegur árangur Oliviu Chow.

Þó að Doug Ford hafi ekki náð borgarstjórasætinu, er hann þó aðeins 6 %stigum á eftir Tory, og Rob Ford var kjörinn borgarfulltrúi með tæplega 60% atkvæða í sínu umdæmi.  Árangur Doug er vissulega athygliverður, en margir eru þó þeirrar skoðunar (merkilegt nokk, miðað við hvað er á undan gengið) að Rob hefði náð betri árangri.  Eins og mátti lesa í einu blaðanna, Torontobúar bera virðingu fyrir Doug, en þeir elska Rob Ford (það er þó næsta víst að ekki myndu allir taka undir það).

Framan af bjuggust flestir við mun betri árangri hjá Olivu Chow.  Hún hefur verið vinsæll stjórnmálamaður á vinstri væng (meðlimur NDP) um langa hríð og setið í borgarstjórn og nú síðast á þingi (sagði sig frá þingmennsku til að bjóða sig fram til borgarstjóra).  Hún er ekkja Jack Layton, sem var formaður NDP og átti farsælan stjórnmálaferil, en andaðist langt um aldur fram.

Þegar hún tilkynnti um framoð sitt til borgarstjóra í mars síðastliðnum, tók hún fljótlega forystu í skoðanakönnunum og virtist stefna á sigur.

En hún missti kraftinn yfir sumarið og John Tory tók forystuna.  Hvað veldur er erfitt að fullyrða, en margir nefna að hún hafi verið of langt til vinstri, og Tory hafi tekist að ná miðjunni.  Einnig er það nefnt að eftir að Rob fór í meðferð hafi kjósendur áttað sig á því að valið stæði á milli Chow og Tory og eftir það hafi valið verið þeim auðvelt.  Þeir hafi valið þann sem væri öruggur með að fella Ford.

Enn aðrir benda á það að það sé orðum aukið, hve vinstrisinnaðir íbúar Toronto séu.  Vinstri mönnum hafi gengið vel á meðan kjörsóknin var slök, en "hinn þögli meirihluti" halli sér til hægri.

Þess má svo geta hér að lokum, að í nágrannaborg Toronto, Mississsauga var einnig skipt um borgarstjóra.  Hin 93 ára Hazel McCallion, sem hafði verið borgarstjóri í 36 ár, gaf ekki kost á sér til endurkjörs.  Hún hvatti hins vegar kjósendur til að fylkja sér um Bonnie Crombie, sem er fyrrverandi þingmaður og borgarfulltrúi fyrir Frjálslynda flokkinn. Crombie sigraði með yfirburðum.

En kosningaþátttaka í Mississauga var aðeins 32% (þó örlítil aukning frá þeim síðustu), sem undirstrikar hve góð þátttakan í Toronto, með sín 60%, er.

P.S.  Set hér inn kökurit sem sýnir hvaðan Toronto borg hefur "tekjur".

Where does Toronto get the money


mbl.is Valdatíð Ford lokið í Toronto
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af Flikker

Ég hef verið fjarverandi hér nokkra daga.  En reyni að bæta úr því á næstunni.  Hér eru nokkrar myndir af Flikker til að hefja leikinn að nýju.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband