Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hvor um sig með meira fylgi en ríkistjórnarflokkarnir

Það er margt sem vekur athygli í þessari könnun.

Framsóknarflokkurinn sækir enn verulega á.   Hann er í þessari könnun með meira fylgi en stjórnarflokkarnir samanlagt.

Sjálfstæðisflokkurinn missir verulegt fylgi.  Vissulega er þessi könnun gerð áður en landsfundur flokkssins var haldinn, en þessi könnun ætti þó að vera flokknum verulegt áhyggjuefni.  Verandi í stjórnarandstöðu gegn einhverri óvinsælustu ríkisstjórn allra tíma, þá er þessi skoðanakönnun verulega vond tíðindi fyrir flokkinn.

Samfylkingin er enn á niðurleið.  Forystuskiptin í flokknum virðast ekki hafa náð að stoppa fylgistapið. Nýja forystan enda lítt sjáanleg.  Þetta hljóta að vera bæði Árna Pál og flokknum mikil vonbrigði og áhyggjuefni.  Ef flokkurinn endar sem 4. stærsti flokkur á Íslandi gæti það jafnvel riðið honum að fullu. Í það minnsta er draumurinn um "burðarflokk í Íslenskum stjórnmálum" úti, ef þetta yrði niðurstaðan í kosningum.

Björt framtíð lætur einnig all nokkuð undan síga.  Hvort að þetta er byrjunin á enn frekara fylgistapi er erfitt að meta.  Það væri gamalkunnug þróun hjá nýjum flokki.  Stór spurning hvort að ný framboð eins og Lýðræðisvaktin muni höggva áframhaldandi skörð í fylgi BF.

Vinstri græn sveifla sér hins vegar upp á við.  Þó að könnunin sé gerð fyrir landsfund þeirra, virðist sem að tilkynning Steingríms J. um að hann myndi ekki sækjast efitr endurkjöri, hafi ein og sér dugað til að stöðva fylgistapið og lyfta flokknum upp á við.

Það er freistandi að álykta að um sé að ræða tvær blokkir.  Annars vegar sé fylgi upp á ríflega 50% að færast á milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og hinsvegar í kringum 40% fylgi sem færist á milli Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar.  Um það bil 10% af fylginu færi svo til smærri flokka, sem ekki kæmu að manni.

En líklega eru þó fylgishreyfingarnar flóknari en svo.  Svo á eftir að koma í ljós hver áhrif Lýðræðisvaktarinnar verða á fylgi annara flokka.   Líklegast þætti mér að hún myndi sækja fylgi sitt að mestu leyti til Samfylkingar og Bjartrar framtíðar. 

Þess utan eru svo framboð sem talað er um á vegum Jóns Bjarnasonar og Bjarna Harðarsonar.  Það myndi líklega sömuleiðis sækja fylgi að mestu leyti í "vinstra hólfið"

En ef þetta yrðu úrslit kosninganna er erfitt að spá hvaða ríkisstjórn tæki við.  Það ylti því sem næst alfarið á afstöðu Framsóknarflokksins.

Hann gæti myndað 2ja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokki eða 3ja flokka stjórn með Samfylkiingu og  Bjartri framtíð.

Mín spá er sú að þá myndi Framsóknarflokkurinn kjósa að mynda stjórn til vinstri.  Þeir myndu líklega frekar vilja hafa Vinstri græn með í förinni en BF, en ef þessi könnun gengi efitr væri það einfaldlega ekki nóg.  Það væri líklega það sem helst myndi gera Framsóknarflokkinn afhuga vinstri stjórn.

Ef að útkoman yrði eins og í þessari könnun og Framsóknarflokkurinn myndi kjósa að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, þætti mér hins vegar ekki ólíklegt að þreyfingar hæfust fljótlega á kjörtímabilinu um sameiningu Samfylkingar, Vinstri grænna og jafnvel Bjartrar framtíðar.

En auðvitað er þetta bara könnun, það er enn býsna langt til kosninga.

 

 


mbl.is Framsókn bætir enn við sig fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræði hér og lýðræði þar. Munurinn er 0.36%, en 216 þingsæti

Það er gjarna rætt eins og á Íslandi sé gríðarlegur skortur á lýðræði og það brýnasta framundan séu breytingar þar á.
 
Í því sambandi er oft fróðlegt að skoða fyrirkomulagið á lýðræði annars staðar.  Það þýðir auðvitað ekki að ekki sé þörf breytinga á Íslandi, en gott að velta því fyrir sér hvar Ísland stendur í alþjóðlegum samanburði.
 
Nú er mikið rætt um nýafstaðnar þingkosningar á Ítalíu.  Þar vann bandalag vinstri/miðjuflokka undir stjórn Pier Luigi Bersani sigur í neðri deild þingsins.  Hlaut hreinan meirihluta þingsæta í neðri deildinni. 
 
En hvernig skiptust atkvæðin?
 
Jú, Bandalag Bersanis hluta 29.54% atkvæða.
Hægri/miðubandalag undir stjórn Berlusconis hlaut 29.18% atkvæða.
5 stjörnu flokkur Beppo Grillo hlaut 25.55% atkvæða og er stærsti einstaki flokkurinn.
Miðjubandalag undir stjórn Mario Montis núverandi forsætisráðherra (og gjarna talinn "frambjóðandi Evrópusambandsins) hlaut 10.56% atkvæða.
 
En hvernig skiptust þá þingsætin?
 
Bandalag Bersanis hlaut 340 þingsæti
Bandalag Berlusconis hlaut 124 þingsæti
5 stjörnu flokkurinn hlaut  108 þingsæti
Bandalag Montis hlaut 45 þingsæti.
 
Þó að aðeins hafi munað 0.36% á bandalagi Bersanis og bandalagi Berlusconis, þá tryggir Ítölsk kosningalög, að stærsti flokkurinn eða flokkabandalagið fái hreinan meirihluta í neðri deildinni áhæð atkvæðum.  Bandalag Bersanis hlýtur því sjálfkrafa 340 þingsæti.
 
Í efri deildina eru svo notaðir svipaðir útreikningar en þó fyrir hvert umdæmi (hérað) fyrir sig.  Þannig fær sá flokkur eða flokkabandalag sem er stærstur í hverju umdæmi sjálfkrafa í það minnsta 55% af þingmönnum þess svæðis.
 
Þar snerist dæmið við að því leyti að þar hagnaðist bandalag Berlusconis á reglunni, en atkvæði féllu á þessa leið.
 
Bandalag Bersanis hlut 31.36% atkvæða og 113 þingsæti
Bandalag Berlusconis hlut 30.72% atkvæða og 116 þingsæti
5 stjörnu flokkurinn hlut 23.79% atkvæða og 54 þingsæti
Bandalag Montis hlaut  9.13% atkvæða og 18 þingsæti.
 
Því má svo bæta við að reglur eru um að bandalög verði að fá lágmark 10% atkvæða til að fá þingmenn í neðri deild, flokkar innan þeirra verða ná í það minnsta 2%,  en einstakir flokkar verða að fá í það minnsta 4%.  Mörkin eru svo hærri  til að fá þingmenn í efri deildina. 
 
Þetta er ekki tæmandi um kosningareglurnar, en meiri upplýsingar má fá hér
 
Þessar reglur gefa flokkabandalagi sem hefur innan við 30% af greiddum atkvæðum, hreinan meirilhuta í neðri deild þingsins.
 
En þetta gefur vissulega kjósendum vitneskju um það hverjir koma til með að mynda ríkisstjórn eftir kosningar, sem er krafa sem oft hefur heyrst í umræðum á Íslandi.
 
Ég hygg að fáir Íslendingar myndu vilja skipta á þessu lýðræði og því Íslenska. 
 
 

mbl.is Pattstaða á ítalska þinginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að Evrópusambandið reki áróðursskrifstofu á Íslandi, er eins og ....

Það er algengt að því sé haldið fram að hitt og þetta sem einhver er ekki sammála sé annaðhvort öfga, eða harðlínustefna.

Það er engu líkara en nú eigi allir að vera hamingjusamir á miðjunni og boða aðeins bitamun.

Nú má til dæmis víða sjá andstæðinga Sjálfstæðisflokksins, og þá sérstaklega "Sambandssinna",  boða þá stjórnmálaskýringu að harðlínustefna hafi orðið ofan á í stefnumörkun á landsfundi flokksins.

Nefna þeir þá máli sínu til stuðnings að flokkurinn vilji slíta aðlögunarviðræðunum við Evrópusambandið og meira að segja að "Evrópu(sambands)stofu" verði lokað.

Er það harðlínustefna að flokkur sem telur að Ísland eigi ekki að ganga í "Sambandið", vilji að viðræðum þar að lútandi verði ekki framhaldið?

Það er undarleg skilgreining á harðlínustefnu.

Er það harðlínustefna að vilja að áróðursskrifstofu sem starfar á Íslandi á vegum sambands erlendra ríkja hætti starfsemi sinni?

Það er undarleg skilgreining á harðlínustefnu.

Hefði Íslendingum þótt eðlilegt að Bretland og Holland hefðu í aðdraganda þjóðatkvæðagreiðslanna um IceSave samningana, opnað áróðursskrifstofu á Íslandi?

Hefði það verið harðlínustefna að krefjast að slíkri skrifstofu væri lokað?

Bæði málin eru pólítísk.  Bæði málin skiptast að miklu leyti eftir flokkslínum.  Bæði málin fara í gegnum þjóðaratkvæði (ef samningur næst við "Sambandið").  Í báðum málum hafa orðið til innlendar já og nei hreyfingar, til að kynna mismunandi málstað.

Hvorki Bretland og Holland eða Evrópusambandið eiga beina aðild að þeim þjóðaratkvæðagreiðslum sem fram fara.  

Málefnin sem greitt verður atkvæði um (ef samningur næst við "Sambandið") eru Íslensk innanríkismál.  Kosningarnar eru (og voru) Íslenskar.  Þar greiða Íslendingar atkvæði um í hvaða farveg þeir vilja setja sín mál.

Vissulega tengdust IceSave þjóðaratkvæðagreiðslurnar hagsmunum Breta og Hollendinga.  Vissulega tengist hugsanleg þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að "Sambandinu" hagsmunum þess.

En það gaf Hollendingum og Bretum ekki rétt til að stunda áróðursstarfsemi á Íslandi.  Það gefur heldur ekki "Sambandinu" rétt til að reka áróðursskrifstofu á Íslandi.

Ákvörðunin í umræddum kosningum er Íslendinga einna, það ætti baráttan fyrir þær einnig að vera.

Það að "Sambandið" reki hér áróðursskrifstofu í aðdraganda Alþingiskosninga, sem dregur taum sumra stjórnmálaflokka og vinnur gegn stefnumálum annara gerir starfsemi hennar enn óeðlilegri.

Það að krefjast þess að "Evrópu(sambands)stofa" loki, er ekki harðlínustefna.

Það er krafa um að eðlilegar hefðir og reglur í alþjóðlegum samskiptum séu virtar.

Það er krafa um að erlendir aðilar hafi ekki óeðlileg afskipti af Íslenskum innanríkismálum.

 


Tímabær ályktun - Íslendingar leyfi ekki áróðursstarfsemi erlendra ríkja

Það eru vissulega tíðindi að Sjálfstæðisflokkurinn skuli kveða upp úr með að viðræðum við Evrópusambandið skuli hætt.

Ég fagna því eindregið.

Það er svo löngu orðið tímabært að Íslenskri stjórnmálaflokkir láti starfsemi "Evrópu(sambands)stofu" til sín taka.

Það er hrein ósvífni af hálfu "Sambandsins" að reka á Íslandi áróðursskrifstofu í jafn umdeildu máli og Evrópusambandsaðild er.

Auðvitað eiga erlend ríki, eða ríkjasambönd ekki að skipta sér af máli sem er flokkspólítískt og jafn fyrirferðarmikið í Alþingiskosningum og raun ber vitni.

Áróður "Evrópu(sambands)stofu" tekur afstöðu með sumum stjórnmálaflokkum, en gegn öðrum.  Það eru óþolandi erlendi afskipti af innanríkismálum.

P.S.  Hér og þar um netið hefur mátt sjá "Sambandssinna" grípa til þeirra raka að þá verði sjálfsagt að banna starfsemi stofnana á við Fulbright, Alliance Francaise og Goethe stofnunarinnar.

Ég verð að segja það að, ef menn misskilja svo eðli og tilgang Evrópussambandsins, þá útskýrir það ef til vill að einhverju leiti hve áfram þeir eru um að Ísland verði aðili að því.

 

 

 


mbl.is Betur borgið utan ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sígandi lukka pundsins?

Það er all nokkuð áfall fyrir Bretland og ríkisstjórn Íhaldsflokks og Frjálslyndra að Moody's skuli lækka lánshæfiseinkunn landsins.

Það er vissulega ekki hægt að segja að það sé gæðastimpill fyrir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

Líklega mun þetta þó ekki hafa nein veruleg áhrif á lánskostnað hins opinbera í Bretland, all flestir hafa líklega þegar reiknað þennan möguleika inn, í það minnst kosti að miklu leiti.

En þessi lækkun pundsins er ekki án jákvæðra áhrifa.  Hún styrkir auðvitað samkeppnisstöðu Breskra fyrirtækja.  Pundið hefur þegar sigið nokkuð, aðallega vegna aðgerða Breska seðlabankans (QE), en nú herðir líklega nokkuð á.

Það kætir líklega ekki Hollande og félaga hinum megin við sundið að sjá pundið siga niður á við gagnvart euroinu.

En þessi lækkun Bretlands undirstrikar þau miklu vandamál sem fjármál hins opinbera hafa ratað í víða um heim.

 


mbl.is Gengi pundsins lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri græn staðfesta sig sem Evrópusambandsflokk

Staðan skýrðist á landsfungi Vinstri grænna hvað varðar aðild að "Sambandinu".   Auðvitað hafa Vinstri græn unnið leynt og ljóst á núverandi kjörtímabili, að því að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Það er því eðlilegt að flokkurinn staðfesti þá stefnu sína á landsfundi sínum.

Það er að vísu mjótt á mununum, en það er ljóst að Vinstri græn hafa það nú ótvírætt á stefnuskrá sinni að ganga í "Sambandið".

Það sækir að sjálfsögðu engin um aðild, án þess að vilja inn.

Að vera "viðræðusinni" er eitthvað "skrípó" sem "Sambandssinnar" reyna að fela sig á bakvið.


mbl.is Unir niðurstöðunni um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjargað í horn, en skaðinn að hluta til skeður

Það er auðvitað með eindæmum að Sjálfstæðisflokkurinn hafi upphaflega samþykkt ályktun í þessa veru.  

Að vilja láta kristin gildi vera ráðandi við alla lagasetningu er einfaldlega stórvarasöm hugsun.  Það er að mínu mati jafn galin hugmynd og að ætla að samþykkja tillögur að breyttri stjórnarskrá athugasemdalaust.

Sem betur fer hleypti Landsfundur þessari ályktun ekki í gegn.

En því miður er skaðinn að hluta til skeður.  Það þarf ekki nema að sjá hvernig andstæðingar flokksins hanga á þessari tillögu eins og hundar á roði, til að gera sér grein fyrir því hvers kyns "bein" þeir telja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hent í átt til þeirra.

Tillaga sem þessi á enda að mínu mati ekkert erindi í stjórnmálaumræðu dagsins í dag.

 


mbl.is Tillaga um kristin gildi felld út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er eign og hvers virði er hún?

Ég sé að hér og þar um netið er verið að ræða þessi ummæli Bjarna Benediktssonar um að það þurfi að afskrifa eignir erlendra aðila tengdum þrotabúum bankanna.

Eins og oftast, og eðlilegt er, sýnist sitt hverjum í þessum efnum.

Sumir ná varla upp í nef sér af hneysklun og tala um eignaupptöku og væntanlega einangrun Íslands vegn þess hve illa sé talað í garð erlendra fjármagnseigenda.

Öðrum finnst þetta það eina rétta.

En hvað er eign og hvers virði er hún.

Ef ég sé hús sem er auglýst til sölu á 100 milljónir króna, en tilboði mínu upp á 65 milljónir er tekið, hvers virði er þá húsið?

Ef ég kaupi skuldabréf sem er að nafnvirði milljón dollarar, en borga fyrir það 17.000 dollara, hvers virði er skuldabréfið?

Í stuttu máli má segja að verðmæti eigna séu samkomulagsatriði.  Eign er þess virði sem einhver vill borga fyrir hana.

Þegar skuldabréf á hina föllnu Íslensku banka voru seld fyrir hrakvirði, vissu bæði seljendur og kaupendur að á Íslandi giltu gjaldeyrishöft.  Þeir hafa líklega líka vitað að horfur í efnahagsmálum landsins voru ekki of bjartar.

Þess vegna voru þessar kröfur seldar á frá 2 til 3 % af nafnvirði og upp í ríflega 15% af nafnvirði.  Þegar kröfur eru seldar á slíku verði gera sér flestir grein fyrir að ekki er um öruggar eignir að ræða.

Þessir kröfuhafar eiga rétt á fá greitt í hlutfalli við kröfur sínar og afkomu þrotabús bankanna.  Síðan vilja þeir auðvitað skipta þeim krónumm, eða hlutabréfum  sem þeir fá í erlendan gjaldeyri.  Flytja hagnaðinn til síns heima.

En þar strandar á gjaldeyrishöftunum.

Auðvitað njóta þeir einskis forgangs þar.  Þar gefst kostur á að semja.  Þar gefst kostur á að semja um lægri gengi en almennt er, gegn því að gata viðkomandi verði að einhverju leiti gerð greiðfærari úr landi.

Er það ósanngjarnt?  Er það eignaupptaka?

Það ekki að efa að viðkomandi sjóðir hafa á launaskrá sinni fjölda lögfræðinga sem eru reiðbúnir að leggja fram álit þess sem styðja þá skoðun.

Sjálfsagt má finna fullt af einstaklingum sem segja að auðvitað eigum við að virða rétt þessara kröfufhafa og greiða þeim fullt verðgildi í gjaldeyri.

Sjálfsagt má finna bæði hagfræðinga og háskólaprófessora sem segja að Ísland einangrist frá alþjóðaviðskiptaheiminu og breytist í "Kúbu norðursins, ef þessir aðilar fá ekki sitt fram.

Það eru sjálfsagt til heimspekingar og siðfræðingar sem segja að Íslendingum beri siðferðisleg skylda til þess að aðstoða viðkomandi sjóði við að koma eignum sínum úr landi.

Sjálfsagt eru þeir til sem telja að það geti kennt börnum Íslendinga verðmæta lexíu að hleypa þessum verðmætum úr landi án frekari refja.

En gleymum ekki að eign er þess virði sem einhver vill borga fyrir hana.  Að selja eign ódýrt í dag, kann að vera betra en að selja eign mun dýrara, eftir 10 ár.

Það er sjálfsagt að fara í samningaviðræður við hina erlendu kröfuhafa um að þeir færi niður kröfur sínar, það er ekkert óeðlilegt eða ólögmætt við það.

Það gæti þess vegna verið besta tilboðið sem þeir fá.

Fái þeir hinss vegar betra tilboð, t.d. ef einhver erlendur aðili býður þeim betra verð í beinhörðum gjaldeyri, þá líklega ganga þeir að því.

En það er engin ástæða til þess að tala niður möguleika Íslendinga í hugsanlegum samningaviðræðum.  Ég held að þeir séu nokkuð góðir.

 

 


mbl.is „Eigendur vilja ná þeim úr landi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamenn að ýta eigin skoðunum?

Þessi frétt og tilkynning Más Guðmundssonar er merkileg og vert að taka eftir.

Fréttir geta haft mikil áhrif og villandi fréttir mikil villandi og jafnvel hættuleg áhrif.

Það er því miður mun algengara en margir halda og jafnvel trúa að fréttir litist af skoðunum þess sem fréttina ritar.  Það má jafnvel segja að ekki sé hægt að komast hjá því alfarið.

En þegar fréttamaður að setja skoðanir annara fram með villandi hætti er skörin ekki að færast, heldur komin upp á bekkinn.

Staðreyndin er sú að frétt Bloomberg vakti all nokkra athygli og hafði líklega all nokkur áhrif.

En þumalputtareglan er sú að leiðréttingar eins og Már sendir nú frá sér vekja mun minni athygli og ná yfirleitt ekki að leiðrétta misskilning sem upphaflega fréttin hefur valdið.

Gott dæmi er fyrirsögn sem ég sá nú rétt í þessu á Íslenskum fjölmiðli sem segir:  "Már áréttar ummæli um krónu."

En auðvitað reyna ábyrgir fjölmiðlar að forðast að starfa með þessum hætti.  

Fjölmiðill eins og Bloomberg hlýtur að bregðast við tilkynningum sem þessari með einhverjum hætti.  Til dæmis með því að biðjast afs0kunar. 

 

 

 


mbl.is Már segir frétt Bloomberg villandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björt framtíð fyrir ríkisstjórnina?

Það eru vissulega all nokkur tíðinid að Hreyfingin hafi lagt fram vantraust á ríkisstjórnina.

Það eru enn meiri tíðindi hvaða mál viirðist fá Hreyfinguna til þess að missa trú á ríkisstjórninnni.

Það er ekki skjaldborgin um heimilin.  Það er ekki norræna velferðin.  Það er ekki verðtryggingin.  Það er ekki atvinnuuppbyggingin.  Það er ekki hvernig haldið var á Icesave málinu.  Það er ekki það að ríkisstjórnin sé á góðri leið með að rústa Íslenska heilbrigðiskerfinu.

Nei, Hreyfinging er að missa sig af bræði vegna þess að ríkisstjórninni hefur mistekist að keyra í gegnum þingið frumvarp að breyttri stjórnarskrá sem flestir eru sammála um að sé meingallað.

Sýnir í hnotskurn bæði undarlegt sjónarhorn Hreyfingarinnar og hvað ríkisstjórnin hefur teygt sig langt í "hrossakaupum", til að halda lífi í sjálfri sér.

En er vantrauststillagan kemur til atkvæðagreiðslu, þykir mér ljóst að ríkisstjórnin hlýtur ekki stuðning Framsóknarflokksins,  (þó er aldrei að vita hvað Siv Friðleifsdóttir kynni að gera.  Sjálstæðisflokkurinn myndi líkllega ekki greiða atkvæði til varnar ríkisstjórninni.

Þó eru eftir þingmenn Bjartrar framtíðar, þeir Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall.  Vilja þeir halda inní kosningabaráttuna í vor með það á bakinu að taka ábyrgð á ríkisstjórninni?

Svo eru það óháðu þingmennirnir, það er ólíklegt að Jón Bjarnason muni greiða atkvæði með ríkisstjórninni, varla gerir Lilja Mósesdóttir það heldur.

Allt bendir til þess að það sé undir Guðmundi Steingrímssyni og Róberti Marshall komið hvort að ríkisstjórnin eigi (Bjarta) framtíð til vors.

Þeir hafa aldrei greitt atkvæði gegn ríkisstjórninni í nokkru sem raunverulega skiptir máli.   En það er stutt í kosningar og samkeppnin um óánægjuatkvæðin hefur harðnað.

Er Björt framtíð "litla Samfylkingin" eða sjálfstæður pólitískur flokkur?

Nú reynir á.

Og spennan magnast. 

 

 


mbl.is Vantrauststillaga lögð fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband