Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2021

Þurfa opinberir starfsmenn frekar vernd en starfsmenn á almennum markaði?

Hvar liggja mörkin á milli ábyrgðar starfsmanns og ábyrgðar fyrirtækis eða stofnunar?  Það er líklega spurningin sem skiptir mestu máli þegar rætt er um hvort að rétt og eðlilegt sé að höfðað sé mál gegn starfsmönnum stofnunar s.s. Seðlabankans.

Persónulega tel ég opinbera starfsmenn ekki eiga eða þurfa meiri rétt en starfsmenn fyrirtækja á almennum vinnumarkaði.

Ég tel starfsmenn Seðlabankans eigi ekki að þurfa frekari vernd en t.d. lögreglumenn.

Að krefjast "skaðleysis" þeim til handa finnst mér langt seilst.

Þegar Seðlabankinn ákærði Samherja, voru jafnframt 3. eða 4. lykilstarfsmenn Samherja ákærðir.

Er eitthvað óeðlilegt að lykilsstarfsmenn Seðlabanka geti sömuleiðis verið ákærðir?

Fram hefur komið í fréttum að mjög vafasöm tölvupósts samskipti hafi farið á milli starfsmanna Seðlabanka og Ríkisútvarpsins.

Er óeðlilegt að fyrir slíkt sé kært?

Ef yfirmenn viðkomandi starfsmanna stíga fram og segja þá aðeins hafa verið að framfylgja skipunum sínum, horfir öðru vísi við og ætti þá ákærur að beinast að yfirmönnum?

En eins og frægt er orðið, þykir að ekki nóg að hafa eingöngu verið að framfylgja skipunum til að teljast saklaus.

Persónulega get ég ekki séð nein rök fyrir því að opinberir starfsmenn fái "skaðleysi", frekar en starfsmenn hjá öðrum fyrirtækjum.

Opinberir starfsmenn hljóta að þurfa að gæta þess eins og aðrir að misnota ekki vald sitt eða starf og gæta þess að lög og lagaheimildir séu að baki aðgerða þeirra.

Svo að eitt af tískuorðum nútímans sé notað, þá þurfa þeir einnig að gæta þess að gæta meðalhófs.

Það væri mikil afturför ef opinberir starfsmenn yrðu gerðir "skaðlausir" vegna valdníðslu gegn almenningi.

 

 


mbl.is Umdeilanlegt að höfða mál gegn starfsmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pandórubox Demókrata

Persónulega finnst mér fyrstu mánuðirnir á valdatíma Joe Bidens hafa tekist ágætlega, þó alltaf megi deila um einstaka aðgerðir.

Forsetinn hefur haldið sig nokkuð til hlés, ekki komið mikið fram opinberlega eða haldið marga fundi með fjölmiðlum, en verið iðinn eigi að síður.

En með þessu frumvarpi og vangaveltum um að fjölga í hæstarétti sýna Demókratar að þeir eru ekki að hugsa um að lægja öldurnar ef svo má að orði komast.

Bæði málin eru "pandórubox" sem ég held að færi betur á að væru óopnuð.

Ef stofnað verður til borgríkis í Washington D.C., fara líklega margar aðrar borgir að hugsa um "sín réttindi".

Ég held að 19 borgir í Bandaríkjunum hafi fleiri íbúa en Washington, þar af líklega 5 í Texas einu saman, 4. í Californiu.

Þessar borgir gætu örugglega hugsað sér að hafa 2 öldungardeildarþingmenn hver.

Hins vegar get ég skilið að áhugi sé á því að íbúar Washington kjósi til þings. 

Eðlilegasta lausnin á því vandamáli væri líklega að láta borgina tilheyra Maryland. Þaðan var landsvæðið tekið, ef ég hef skilið rétt, því landsvæði sem tekið var frá Virginiu var skilað síðar.

Rökin gegn því að ríkjandi valdhafar fjölgi í Hæstarétti til að ná þar meirihluta eru vonandi flestum augljós.

Slíkt fyrirkomulag leiðir landið í ógöngur, ef slíkt þykir eðlilegt í hvert skipti sem skipt er um valdhafa.

Þar má vissulega ræða hvort að rétt sé að skipa dómara til ákveðins tíma, eða þar til þeir hafa náð ákveðnum aldri.

En það er óskandi að Öldungadeildin svæfi þessi mál.

 

 

 

 

 


mbl.is Frumvarp um 51. ríkið komið til öldungadeildar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

(Fimmaur) Sannarlega engir Kórdrengir

Gat ekki stillt mig um þennan fimmaur.

En sannir Kórdrengir rjúfa ekki sóttkví.


mbl.is Bretarnir rufu sóttkví eftir komuna til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýsjálenska leiðin?

Ég skrifaði fyrir fáum dögum um "Áströlsku leiðina" í baráttuni við "veiruna".  En nú tala allir um "Nýsjálensku leiðina", og ef ég hef skilið rétt er hafin undirskriftasöfnun slíkr leið til stuðnings.

Margir virðast telja að Nýsjálendingar hafi "einfaldlega lokað landamærunum og lifað hamingjusamir upp frá því".

Svo er þó ekki.  Þar var gripið til fjölmargra mjög harðra aðgerða.

"Lokun" landamæranna er þar vissulega mikilvæg.  En einnig var gripið til umfangsmikilla "lockdowna", þar sem gefnar voru út tilskipanir um bann við því að fara út (stay at home order), nema í nauðsynlegustu erindum, s.s. að kaupa mat og lyf.

Á síðasta ári var "lockdown" frá enda mars, til byrjun júni. Hundruðir ef ekki þúsundir Nýsjálendinga voru sektaðir fyrir að brjóta "lockdownið".

Síðan hefur landið reglulega gripið til harðari samkomutakmarkana og stærsta borgin, Auckland hefur nokkrum sinnið farið í styttri "lockdown, nú síðast yfir mánaðarmótin febrúar/mars 2021.

Það er því alls ekki svo að "lokun" landamæra ein og sér hafi dugað.

Hér má finna sögu takamarkana í Nýja Sjálandi og hvernig mismunandi "Alerts" virka. 2. stigs "Alert" takmarkar mannfjölda t.d. við 100 og 3. stigs við 10 og þá eingöngu fyrir brúðkaup og jarðarfarir.

En það er rétt að taka eftir að mismunandi "Alerts" geta verið í gildi á mismunandi svæðum.  Þannig væri t.d. líklegt að ef reglurnar yrðu yfirfærðar á Ísland, hefðu mun strangari reglur gilt á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni, rétt eins og Auckland hefur þurft að búa við mun meiri takmakanir en önnur svæði á Nýja Sjálandi.

Það getur meira en verið að margir Íslendingar vilji fara "Nýsjálensku leiðina" og ekkert út á slíkt að setja, en það verður að ræða um hana í heild, ekki bara segja að það eigi að "loka landamærunum".

En það verður líka að ræða um afleiðingar eins og lesa má um í viðhengdri frétt, þegar fólk "lokaðist úti"  beið í 400 daga eða þar um bil.

En sjálfsagt finnst mörgum leið Nýsjálendinga athyglisverð, t.d. er aðeins 4. mismundandi stig, þannig að fyrirsjáanleiki er meiri, ekki sama "spennan" um hvað verður á "minnisblaðinu".

En best fyrir Íslendinga að finna sína eigin "leið" og sjálfsagt að leita "áhrifa" víða. 

Hvernig blandast kiwi og hnetusmjör?

P.S. Eitthvað hefur misfarist, því fréttin sem ég hugðist festa þessa færslu við, er hvergi að finna. En hana má finna hér: Fjöl­skyld­ur sam­einaðar eft­ir 400 daga aðskilnað


Það áhugaverðasta sem ég hef lesið í dag

Mér finnst margt áhugavert sem kemur fram í þessari frétt og ég held að margir geri sér ekki grein fyrir því að hvað þáttur Íslenskrar erfðagreiningar, hefur skipt miklu máli fyrir Íslendinga.

Fyrst í skimunum og svo í raðgreiningum.

En ég hafði engin tök á að fylgjast með þessum fyrirlestrum, en í þessari frétt finnst mér tvennt sérstaklega athyglisvert.

Þessi málsgrein finnst mér sérstaklega athyglisverð, haft er eftir Kára:

"Mun­ur­inn á ann­ars veg­ar þess­um miklu ein­kenn­um sem er það sem sjúk­ling­ur­inn kvart­ar und­an og hins veg­ar þess­um ör­fá­um hlut­um sem hægt er að mæla bend­ir til þess að áhrif sýk­ing­ar­inn­ar á and­legt ástand fólks virðist skipta mjög miklu máli," seg­ir hann.

Ég velti fyrir mér hvað þetta þýðir nákvæmlega.

"... að áhrif sýkingarinnar á andlegt ástand fólks virðist skipta mjög miklu máli".

Ég get ekki alveg ákveðið með sjálfum mér hvað þetta þýðir. 

Ég er þó þeirrar skoðunar að vissulega skipti andlegt heilbrigði máli hvað varðar líkamlegt og öfugt.  Ég er orðinn svo gamall að ég man eftir slagorðinu "heilbrigð sál í hraustum líkama", slíkt þótti ekki einu sinni "smánandi þegar ég var að alast upp.

En hvernig hefur "sýkingin áhrif á andlegt ástand"?

Getur það verið (fyrir suma einstaklinga) andlegt áfall að sýkjast af Covid? Getur hræðsla við sjúkdóminn ýkt sýkingu og einkenni sjúkdómsins? Með öðrum orðum veikt ónæmiskerfið?

Ótti og hræðsla er ekki æskilegir félagar í lífshlaupinu og mér finnst ekki ótrúlegt að slíkt geti haft áhrif á heilbrigði, þ.e.a.s. líkamlegt, ég held að fáir efist um hið andlega.

Ég hef reyndar oft velt því fyrir mér þegar fréttir hafa borist af fjölda einstaklinga í smitskimunum, hvað hrjáir allt þetta fólk.

Það hefur komið fram í fréttum að 99%, eða svo af þeim sem hafa komið í skimun á Íslandi, hafa reynst ósmitaðir af Covid.  Hvaða sjúkdómar gáfu þessum fjölda einstaklinga þau einkenni að þeim þótti ástæða að fara í skimun?

Virkilega þess virði að velta þessu fyrir sér.

Hin setningin (og fyrirsögnin) finnst mér einnig athygli virði.  "Hann seg­ir veir­ur alltaf hafa sprottið upp í heim­in­um en ástæðan fyr­ir því að þessi hafi orðið svona stórt vanda­mál sé sú hversu heim­ur­inn er orðinn lít­ill. „Menn eru að fær­ast á milli með svo mikl­um hraða og í svo mikl­um fjölda að ef svona veirupest sprett­ur upp á ein­um stað þá kem­urðu ekki í veg fyr­ir að hún breiðist út um heim­inn með því að setja upp smá girðingu uppi á Holta­vörðuheiði."

Er verulega flóknara að setja upp "girðingu" á Holtavörðuheiði, en á Keflavíkurflugvelli og Seyðisfirði?

Þarf ekki banna ónauðsynleg ferðalög, t.d. má banna bílaumferð einstaklinga um Holtavörðuheiði.  "Nauðsynlegir" ferðalangar sem lenda á Akureyrar- eða Egilstaðaflugvelli eru svo fluttir með rútum á "Sóttkvíarhótel".

Ekki mín tillaga, mér sýnist hún vel framkvæmanleg, skynsamleg er hún þó varla. En ef á að byggja upp veirufrí svæði, gæti hún gagnast.

 

 


mbl.is Girðing á Holtavörðuheiði dugar ekki til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástralska leiðin?

Ég fæ það stundum á tilfinninguna að Íslendingar hafi eitthvað óútskýrt blæti fyrir "útlendum leiðum".

En eins og Samfylkingarfólki ætti að vera í fersku minni, reynast þær ekki alltaf eins og lagt er upp með.

Líklega hafa flestir heyrst minnst á "Sænsku leiðina", en hún er til á fleiri en einu sviði, en Portúgalska leiðin (hvað varðar fíkniefni), "Finnska leiðin" í skólamálum, "Skoska leiðin" leiðin í flugsamgöngun hafa einnig verið í umræðunni og fleiri dæmi má líklega finna.

Nú er all nokkuð rætt um "Áströlsku leiðina" í sóttvörnum.

Að því að ég hef séð hefur þó enginn, fjölmiðill eða talsmenn leiðarinnar, haft fyrir því að útskýra hvaða leið Ástralir fóru, nema að sagt að (í stuttri útgáfu) þeir hafi lokað landamærunum, þar séu allir hamingjusamir, borðandi á veitingahúsum og syngjandi á tónleikum.

En Áströlsk yfirvöld hafa gripið til mjög harðra aðgerða hvað varðar landamæraeftirlit.  Ekki eingöngu þurfa allir sem koma til landsins (þeir eru að gera undantekningu nú, hvað varðar Nýsjálendinga) að fara í 14. daga sóttkví undir eftirliti lögreglu/hers, heldur hafa þeir takmarkað þann fjölda sem fær að koma til landsins.

Það kann enda að vera nauðsynlegt til að hafa fulla stjórn á sóttkvíarstandinu.

Þannig hafa aðeins 5000 til 7500 eintaklingar getað komið til Ástralíu í viku hverri, eftir því hvað harðar aðgerðir hafa verið við lýði.

Ástralskir ríkisborgarar, eða þeir sem hafa heimilisfesti þar hafa ekki notið neins forgangs eða sleppa fram hjá þeim kvóta.

Miðað við höfðatöluna margfrægu, reiknast mér til að það samsvari á bilinu 70 til 100 yrði hleypt til Íslands á viku hverri.

Af slíkum kvótum leiða önnur vandamál.  Sökum þess hve fáir mega koma, en flugfélög leitast samt við að halda uppi lágmarksstarfsemi og samgöngum, eru gjarna aðeins hægt að bóka örfáa í hvert flug, en þó notaðar mjög stórar flugvélar, vegna fjarlægðarinnar til áfangastaða.

Mikið er um að 40 til 60 manns séu í hverri flugvél og aðeins seld sæti í "dýrustu klössum".

Sem aftur hefur orðið til þess að aðeins þeir efnameiri hafa efni á sætunum og ferðalög erlendra auðkýfinga og kvikmyndastjarna til Ástralíu, hafa mælst mis vel fyrir á meðal Ástrala, ekki síst þeirra sem hafa ekki efni á að fljúga heim til sín og hafa verið strandaglópar erlendis svo mánuðum skiptir.

Engin sleppur við sóttkví, en kvikmyndastjörnur og auðkýfingar hafa fengið leyfi til að taka út sína sóttkví á búgörðum og lúxus "resortum".

En merkilegt nokk, heyrist mér að málsvara "Áströlsku leiðarinnar" megi á Íslandi ekki hvað síst finna á meðal þeirra sem kenna sig við sósíalisma og stuðngingsmanna fyrrverandi "alþýðuflokka".

En það er allt eins líklegt að slíkar aðgerðir á Íslandi hefðu í för með sér að allar flugsamgöngur, utan fragtflugs og þær flugleiðir sem Ríkissjóður greiddi fyrir, mundu leggjast af.

Talað er um að nú, í kringum ári eftir að reglurnar tóku gildi, sé enn allt að 40.000, Ástralskir ríkisborgarar strandaglópar erlendis, margir búnir að missa atvinnu og búi við þröngan kost.

Þeir hafa leitað til Sameinuðu þjóðanna vegna þess sem þeir telja mannréttindabrot og að Áströlsk yfirvöld brjóti Mannréttindasáttmála samtakanna.

En auðvitað eru skiptar skoðanir um hvort lög, mannréttindi eða annað slíkt sé nokkuð sem þurfi að taka tillit til.

Í janúar síðastliðnum, lækkuðu Áströlsk stjórnvöld vikuleg fjöldan tímabundið, en hleyptu samt inn 1700 tennisspilurum og fylgdarliði þeirra fyrir "Australian Open".

Þeir þurftu í sóttvkí eins og aðrir, en tennisspilarar fengu forgang yfir Ástralska ríkisborgara.

Mér skilst einnig að svo gott sem allar nema nauðsynlegustu samgöngur á milli fylkja í Ástralíu hafi verið bannaðar.

Líklega má færa fyrir því rök að ef Íslandi hefði verið skipt upp í 4 til 5 sóttvarnarsvæði, gætu í það minnsta Norð- og Austlendingar og gott ef ekki Vestfirðingar líka setið á veitingastöðum og sungið á tónleikum, rétt eins og Ástralir.

Spurning sem verður að svara er hins vegar hvort að Íslendingar vilji fara slíkar leiðir og svo má spyrja sóttvarnaryfirvöld hvers vegna þær hafa ekki verið valdar.  Ekki það að ég sé að mæla fyrir þeim.

Persónulega tel varasamt að halda að það sé hægt að "kaupa" pakka að utan, finna bara "töfralausn" sem hægt sé að afrita og allt falli í blóma.

Það sést ef til vill best á þeirri frétt sem þessi færsla er hengd við, þar segir frá baráttu Færeyinga við veiruna.

Þeir virðast í fljótu bragði beita svipuðum vopnum og Íslendingar, en með mikið betri árangri.  "Færeyska leiðin" virðist virka vel, fyrir Færeyinga.

Þar eru líklega að verki einhverjar "breytur" sem blasa ekki við.

Sjálfsagt má líka sitthvað læra af Áströlum, en það er nauðsynlegt að þeirra aðgerðir séu ræddar sem heild og allt komi fram (þessi færsla er ekki heildaryfirlit yfir aðgerðir Ástralskra stjórnvalda).

Þessi færsla byggir á fréttum frá SBS NewsFrance24 og BBC.

P.S. Hitt er svo að þegar þegar stjórnmálamenn, ekki síst ef þeir eru úr Samfylkingunni, boða "töfralausnir", þá tel ég rétt að taka því með miklum fyrirvara.  :-)

 


mbl.is Í Færeyjum er lífið næstum eðlilegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinna, einkalíf og siðanefndir og -vandir einstaklingar

Urskurðir siðanefnda vekja alltaf athygli, en ekki nauðsynlega gleði.  Hvort að siðavandir einstaklingar sitji í siðanefndunum eru sömuleiðis skiptar skoðanir um.

En hvaða rétt hafa fyrirtæki til að skipa siðanefndir til að fjalla um athæfi starfsmanna sinna utan vinnutíma?

Fróðlegt væri að heyra álit stéttarfélaga á því.

Ég er sammála því að ýmsu leyti virðist framganga Helga á samfélagsmiðlum rýra trúverðugleika hans sem hlutlauss fréttamanns, og þá óbeint stofnunarinnar sem hann starfar fyrir.

En hvar liggja mörkin á milli vinnu og einkalífs?

Hefur vinnuveitandi rétt á því að krefjast á starfsmaður viðri skoðanir sínar hvergi opinberlega?

Má íþróttafréttaritari "halda með" félagi?

Eftir því sem mér skilst lét RÚV starfsmann sinn á Selfossi "fjúka" vegna svipaðs atviks, en ég treysti mér ekki til segja um hvort það er fyllilega sambærilegt eða ekki, þekki ekki nóg til málsins.

Kennari norður í landi, sem var rekinn fyrir að viðra í frítíma sínum, trúarskoðanir  og hvernig "heilög ritning" fjallar um samkynhneigð, var rekinn úr starfi.

En dómstólar töldu rétt hans til að að aðhafast slíkt í frítíma sínum ótvíræðan.

Kennari við háskóla var hins vegar rekinn fyrir að tjá þær skoðanir að konur væru til leiðinda og spilltu fyrir, og dómstólar töldu það lögmæta ástæðu uppsagnar.

Ég þekki ekki hvort að hann ritaði orð sín á Facebook í frítíma sínum eða í vinnunni. Þó skilst mér að um hafi verið að ræða lokaðan hóp.

Þannig að eitthvað eru málin blandin.

Hvar liggja mörkin á milli einkalífs og atvinnu?

Getur framkoma í frítíma, réttlætt atvinnumissi?

Er hægt að banna starfsmönnum að tjá skoðanir sínar?

Ef starfmaður lætur tattúvera hamar og sigð á áberandi stað, gefur það vinnuveitenda rétt til að segja honum upp, vegna þess að táknið gæti sært bæði samstarfsfélaga og viðskiptavini?

Persónulega finnst mér enginn vafi á því að Helgi Seljan hefur brotið siðareglur RUV, rétt eins og mér fannst líklegt að Þórhildur Sunna hafi brotið siðareglur Alþingis.

En hvort að siðareglurnar og siðanefndirnar eigi rétt á sér er allt annar handleggur.

Hvort að það sé lagagrunnur fyrir því að setja starfsmenn undir slíkt, utan vinnutíma, væri fróðlegt að fá úrskurð um.

Þó að í "tísku" sé að setja slíkar reglur segir það lítið til um lögmæti þeirra, það er að segja utan vinnutíma.

En framganga utan vinnutíma getur vissulega skaðað trúverðugleika t.d. fréttamanna, en ég held að engar siðareglur breyti afstöðu þar um.  Einstaklingar dæma eftir "eigin standördum".

En ef til vill segir Helgi Seljan okkur ábúðarfullur frá því næst þegar þingmaður verður sakaður um að hafa brotið siðareglur eða næst þegar háskólakennari verður rekinn fyrir að segja einhverja vitleysu á samfélagsmiðlum.

En svo gæti RUV líka haft "siðameistara" sem starfsmenn senda færslur sínar til, og fá samþykki, áður en þeir birta þær á samfélagsmiðlum.

 

 


mbl.is Siðanefnd féllst ekki á endurupptöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig ættu smit á landamærum að teljast?

Þó að alltaf megi deila um hversu áreiðanlegar talningar og tölulegar upplýsingar sem þessar eru, eru þær þau gagnlegar og gefa vísbendingar sem hægt er að byggja á.

Þó að misjafnlega sé staðið að talningum og skimunum í mismunandi löndum, þá er þetta sannarlega betri en ekkert.

En ég velti því fyrir mér hvernig rökrétt er telja smit sem lönd stöðva á landamærum sínum, rétt eins og gert er á Íslandi.

Ég er eiginlega þeirrar skoðunar að smit á sem eru stöðvuð á landamærum eigi ekki að teljast sem smit í viðkomandi landi.

Ef eitthvað, ættu þau frekar að teljast til landsins sem ferðast er frá.

Þannig eykst hættan af ferðalöngum frá Íslandi ekki við að fjölmargir smitaðir einstaklingar finnist á landamærunum.  Í raun má ef til vill segja þvert á móti.

Það að á annan tug smitaðra einstaklinga finnist um borð í skipi sem kemur til hafnar á Íslandi kallar ekki á frekari aðgerðir á Íslandi, eða gerir Íslenskan ferðamann líklegri líklegri til að bera með sér smit til annars lands.

Það er að segja ef smitin uppgötvast strax og viðeigandi ráðstafanir séu gerðar. (Eins og mér skilst að hafi t.d. tekist vel fyrir Austan.).

Ef flugvél er lent á Keflavíkurflugvelli, vegna þess að einn farþegi hennar hefur veikst og er fluttur á spítala, ætti það ekki að skapa neina hættu á Íslandi (ef vel er að málum staðið, sem ég hef fulla trú á) eða í raun að teljast sem Íslenskt smit.

Ég hugsa að Sóttvarnarstofnunar Evrópu færðist nær því að sýna raunverulega stöðu, ef smit væru talinn á þann máta.

 


mbl.is Ísland grænt á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör, jafnrétti og jafnræði

Mér er sagt að úrslit í forvali hjá Vinstri grænum í Suðurkjördæmi hafi vakið mikla athygli og komið á óvart.

Mér sýnist þó að útkoman sé frambærilegur og ágætis listi (sem getur þó átt eftir að breytas í uppröðun).  Ekki það að það sé mitt að dæma, það gerðu flokksmenn með þátttöku sinni.

En þegar konur skipa 3. efstu sætin og 4. sæti af fimm, þá upphefst umræðan um "jafnrétti" á listanum.

Ég vona svo sannarlega að VG (líklega kjördæmisráð) félagið sem sá um framkvæmd forvalsins hafi haft jafnrétti í hávegum að gætt til hins ítrasta að allir þátttakendur nytu jafns réttar og fyrirgreiðslu af þess hálfu.

Það er jafnrétti, að njóti jafns réttar.

Hvort að jafni rétturinn hafi síðan skilað úrslitum þar sem jafnræði sé með kynjunum er annað mál og svo varð ekki í þessu tilviki.

Eitthvað hef ég heyrt talað um að breyta uppröðun og færa karl ofar á listann í nafni jafnréttis jafnræðis kynjanna og verður fróðlegt að sjá hvað gerist.

Til samanburðar má nefna að talað er um að líklega standi baráttan um efsta sætið hjá VG í Suðvesturkjördæmi á milli Umhverfisráðherra, Guðmundar Inga Guðbrandssonar og Ólafs Þórs Gunnarssonar. 

Þá heyri ég um leið sagt að úrslit þar sem þeir tveir yrðu í efstu sætunum yrðu aldrei látin standa.  Hvernig slík úrslit yrðu höndluð (ef til þess kæmi að þau yrðu svo) á svo vitanlega eftir að koma í ljós.

Hvort að VG ákveddi að breyta slíkum úrslitum í nafni jafnræðis kynjana, er mér að sjálfsgögðu að að meinalausu og að hafa þeir til þess fullan rétt.

En það er í mínum huga ekki jafnrétti, það er "skilyrt lýðræði", í nafni jafnræðis kynjana.

Þar með er ég ekki að segja að það sé nauðsynlega slæmt markmið, en ég kýs þó að hafa "mitt lýðræði" óskilyrt.

 

 

 

 


mbl.is Hólmfríður leiðir lista Vinstri grænna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slaufanir og nornaveiðar

Það hefur býsna mikið verið fjallað um svokallaðan "cancelkúltúr", eða "slaufunarmenningu eins og er byrjað að kalla fyrirbærið, upp á síðkastið.

Það kemur ef til vill ekki til af góðu, enda hefur fyrirbærinu vaxið hratt fiskur um hrygg á undanförnum misserum.

Margir hafa líkt þessu við fasisma, enda hefur "cancelkúltúr" líklega hvergi átt betra skjól en hjá alræðisstjórnum s.s. kommúnisma og fasmisma.

Kínverski kommúnistaflokkurinn er ekki síður duglegur við að "cancela" einstaklingum en "Twitterherinn".

Trúarbrögð hafa einnig ljóta sögu hvað slíkt varðar og "canceluðu" mörgum sér ekki þóknanlegum  bókstaflega endanlega, og slíkt virðist enn mæta velþóknun í sumum trúarbrögðum.

Ekki er úr vegi að minnast á nornaveiðar og -brennur í þessu samhengi, enda margt keimlíkt með athöfnunum, þó að nú á tímum séu bálkestirnir og heykvíslarnar næstum eingöngu "sæber".

Þessi árátta er lang mest áberandi nú á vinstri væng stjórnmálanna nú á dögum, en hægri menn hafa vissulega spreitt sig á þessum vettvangi á ýmsum skeiðum. 

Nægir þar að minna á "óameríkanska tímabilið" um miðja síðustu öld.  Þar naut "cancelkúlturinn" sín vel, þó að undir öðru nafni væri. Fáir voru þar líklega "dæmdir" saklausir, ef það að vera kommúnisti er talið saknæmt athæfi, en hversu eðlilegt er að telja stjórnmálaskoðanir saknæmt athæfi?

Reyndar má segja að ekkert sé nýtt í þessu efnum og allt snúist í hringi.  Eins og áður sagði hafa t.d. kristin trúarbrögð "cancelað" (t.d bannfært) marga einstaklinga í gegnum tíðina, en á upphafsárum þeirra trúarbragða létu (í það minnsta ef trúa má frásögnum) Rómverjar ljón sjá um að "cancelera" ýmsum áberandi kristnum einstaklingum.

Það sem ef til vill sker "cancel culture" nútímans hvað mest frá fornum tímum, er að nú á dögum nýtur hann alls ekki stuðnings, eða atbeina hins opinbera nema á stöku stað.

Líkamlegt ofbeldi, þó að það sé ekki óþekkt, er einnig sem betur fer fjarverandi í flestum tilfellum.

"Aftökustaðirnir" eru fjöl- og samfélagsmiðlar og refsingin smánun og atvinnumissir, frekar en "beinar aftökur".

"Athugasemdir" og "statusar" hafa leyst af "heykvíslar" og "kyndla", og vissulega má telja það að til framfara tæknialdarinnar:-)

En að sama skapi krefjast þær framfarir minna af þátttakendum í "blysförunum" sem þurfa ekki að einu sinni að hafa fyrir því að yfirgefa þægindi heimila sinna.

Það má "hafa allt á hornum" sér á sama tíma og steikin er í ofninum, nú eða vinnunni sinnt á "faraldurstímum".

En af hverju eiga svo margir erfitt með að umbera andstæðar skoðanir, önnur trúarbrögð, eða hvað það svo sem er sem fer í taugarnar á þeim?

Auðvitað er alltaf eðlilegt og sjálfsagt að ræða málin, rökræða, berjast um hugmyndir eða "fræði" þeim tengd.

En þýðir það að þeir sem eru andstæðrar skoðunar séu óalandi, óferjandi, eigi skilið að missa vinnunna, eða að engir eigi að kaupa hugverk þeirra?

Auðvitað verður hver að svara fyrir sig.

En frjálslyndi, umburðarlyndi og skilningur á mismunandi sjónarhornum virðast mér víða vera á undanhaldi.

Þó er eðlilegt að halda fram eigin skoðunum og mótmæla þeim sem viðkomandi er ekki sammála.

Jafnvel af festu, en ekki ofstæki.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband