3ji orkupakkinn

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki getað myndað mér skoðun á 3ja orkupakkanum. Ekki einu sinni krakkafréttir hafa getað hjálpað mér í þeim efnum.

Ég hef ekki fundið orku eða tíma til þess að að kafa ofan í "pakkann", en hef vissulega séð margt athyglisvert skrifað um "pakkann, m.a. hér á blogginu.

En ég hef séð athyglisverð skrif bæði með og á móti, skrifuð af einstaklingum sem ég alla jafna tel ekki fara með vitleysu og ég tek mark á.

Mér hefur jafnvel þótt hinir hefðbundnu fylkingar "Sambandssinna" og "Sambandskeptíkera" hafa að einhverju marki riðlast í þessari umfjöllun.

En það hefur eitt og annað vakið athygli mína.

Margir fulltrúar þeirra flokka sem fullyrtu fyrir fáum misserum, að það maætti eiginlega semja við "Sambandið" um næstum hvað sem er, undanþágur frá þessu og hinu, telja nú að EEA/EES samningurinn sé hreinlega undir. 

Nú virðist engin eiga von á því að hægt sé að fá undanþágu, í sömu andrá er sagt að þessi "pakki" skipti nákvæmlega engu máli.

"Sambandið" virðist leggja gríðarlega áherslu á að einhver "pakki" sem skiptir engu máli, taki gildi á Íslandi.

Svo er sagt að "pakkinn" skipti engu máli nema að lagður verði sæstrengur. Ættu Íslendingar þá að samþykkja "pakkann" með það að leiðarljósi að aldrei verði lagður strengur?

En er ekki líklegt að strengur dúkki aftur upp, þó að það kunni að verða einhverjir áratugir þangað til hann yrði að veruleika? 

Og hvað þá?

Eða er strengur úr sögunni vegna framfara í orkuöflun? Myndi einhver þora að spá fyrir um slíkt? 

Þetta er einmitt gallinn við samninga eins og EEA/EES, að það er enginn leið til þess að vita hvar hann endar.

Engin sá líklega fyrir umræðu um 3ja orkupakkann, þegar samningurinn var undirritaður á 10. áratugnum og talað var um að Íslendingar hefðu fengið allt fyrir ekkert.

Ég man ekki betur heldur en að þá hafi það verið talið nokkuð öruggt að innflutningur á "hráu kjöti" væri ekki í spilunum.

En ég væri þakklátur ef ég fengi ábendingar um hvar er að finna bestu umfjöllunina um 3ja orkupakkann.

Gjarna í stuttu en hnitmiðuðu máli, þá að það þurfi ekki að vera "krakkafréttir".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Það er skynsamlegast, held ég, að vera alltaf á móti öllu sem er óskiljanlegt.

Því í þokunni leynist alltaf eitthvað slæmt.

Ef þeir geta ekki haft það skiljanlegt er verið að fela eitthvað, meina ég. 

Ásgrímur Hartmannsson, 1.2.2019 kl. 19:26

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Hafi krakkafréttum ekki tekist að koma því inn í haus þinn, G.Tómas, að þessi orkupakki sé góður, getur þú treyst því að hann sé slæmur.

Þegar EES samningurinn var samþykktur, í upphafi tíunda árartugar síðustu aldar, voru orkumál utan þess samnings, rétt eins og landbúnaður og sjávarútvegur. Orkumál koma ekki inn í þennan samning fyrr en á þessari öld. Enn er sjávarútvegur utan samnings og landbúnaður einnig. Reyndar hefur EFTA dómstóllinn úrskurðað um mál sem allir héldu að tilheyrðu landbúnaði, en það tókst honum með því að færa íslenskan landbúnað undir verslun og þjónustu. Sjálfsagt ekki langt að bíða að sjávarútvegur hljóti sömu örlög.

Varðandi orkupakkann, sem kemur til af því að Alþingi samþykkti þann málaflokk inn í EES samninginn árið 2003, þá er málið kannski snúnara, kannski ekki, kannski mun EFTA dómstóllinn einnig færa þann málaflokk undir verslun og þjónustu, rétt eins og landbúnaðinn.

Fyrir okkur Íslendinga er málið í sjálfu sér ákaflega einfalt. Meðan ekki er hægt að benda á hag fyrir land og þjóð vegna þessa pakka, meðan umræðan snýst um það eitt hvort afleiðingin verði bara vond eða afskaplega vond, er lítil ástæða til að ræða málið, hvað þá samþykkja það.

Minnsti efi á að duga til að hafna pakkanum.

Gunnar Heiðarsson, 1.2.2019 kl. 20:22

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Tómas.

Hér á Moggabloggi má reglulega lesa málefnalega pistla eftir Bjarna Jónsson, þar sem hann kynnir sín sjónarmið með rökum og tilvísanir í þekkt lög og reglur.

Ég hef ekki tekið eftir málefnalegum andsvörum við pistlum hans, en ég las í dag pistil eftir Björn Bjarna, þar sem hann segir að norski prófessorinn sem Bjarni vitnar í, að hans rökum hafi verið kollvarpað í Noregi.

En það eru orð, nærtækara væri að vitna í rökleiðslur sem sanna mál hans.

Brennt barn forðast eldinn, en áhugafólk um að greiða bresku fjárkúgunina sem kennd var við ICEsave, notaði sömu orð, eða orðhengilshátt til að gjaldfella sama prófessor, en hann vakti athygli í norsku fjölmiðlum fyrir að benda á að þjóðríki væru ekki í ábyrgð fyrir innlánstryggingasjóði sína ef þau hefðu innleitt sjóðina á réttan hátt samkvæmt reglugerði ESB þar um.

Löngu fyrir EFTA dóminn sem staðfesti rök hans, þá las ég greinar hans, sem og andsvörin við rökleiðslu hans.

Efnislega voru þau; svona er þetta, og þú ert vitlaus að halda öðru fram.

Mér finnst þessi draugagangur rökleysunnar herja á ný, en það er mitt mat.

En Bjarni allavega rökstyður sitt mál, og hann vitnar ekki í frasa.

Sem segir ýmislegt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.2.2019 kl. 22:07

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásgrímur, þakka þér fyrir þetta. Reglan hljómar ekki svo illa, en er þó ekki mjög góð. Ég er hálfhræddur um að heimurinn hefði misst af mörgum góðum hlutum, ef allt sem ég ekki skil hefði ekki, eða myndi ekki koma til framkvæmda.  :-)

@Gunnar, þakka þér fyrir þetta. Það má reyndar segja að nú til dags megi ef vilji er fyrir hendi færa megnið af öllu undir verslun og þjónustu, svona að hluta. Enda verslað með flest. Raforkusala er vissulega verslun og þjónusta, en framleiðslan síður, rétt eins og hvað landbúnaðinn varðar.

Það eru einmitt "skilgreiningar" og "lagaúrskurðir" sem geta breytt svo miklu, jafnframt því að þær og þeir breytast í áranna rás.  Hvernig skörunin er svo vegin og metin getur skipt meginmáli.

Það er með hag Íslendinga, sem ég hef einmitt hvergi séð. Helst talað um að það sé svo mikilvægt fyrir Norðmenn að þetta verði samþykkt, að Íslendingar verði að samþykkja.

@Ómar, þakka þér fyrir þetta. Hef einmitt lesið ýmislegt eftir Bjarna, bæði nú og fyrr, alltaf fróðlegar lesningar og vel fram settar.

Eins og þú segir hef ég ekki séð þessum greinum hans andmælt þannig að ég missi trú á þeim.  En vissulega er þetta svæði með "takmarkaða umgengni" ef svo má að orði komast.

En það er einmitt, að mikil umræða fer fram í miðlum sem ég hef engan aðgang að, þannig að yfirsýnin verður takmarkaðri.

Kveðja austur.

G. Tómas Gunnarsson, 2.2.2019 kl. 09:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband