Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

Neyðarbrauð í notkun

Það er líklega neyðarbrauð fyrir flugmenn að nota NA/SV flugbraut Reykjavíkurflugvallar.  Þeir virðast almennt frekar kjósa að lenda og taka á loft á öðrum brautum.

En ef marka má fréttina voru 15% af lendingum og flugtökum á Reykjavíkurflugvelli í gær,  á þeirri flugbraut.

Nú ætla ég ekki að dæma um hversu "mikil neyð" ríkti og hve "áríðandi" þessar lendingar og flugtök voru.  En ég dreg ekki í efa að slíkt ástand getur oft skapast.

Á móti má spyrja, hversu "áríðandi" íbúðarblokkir og staðsetning þeirra getur verið?

Ég held því að vert sé að gefa þessari frétt gaum og ef til vill ræða hana frekar.

 

P.S.  Að óskyldu máli og léttvægara:  Skyldi fyrirsögnin "Sex hreyfingar á neyðarbrautinni", hafa komist í gegnum "klámsíu" á internetinu, hefðu Íslendingar komið sér upp slíkri?

 

 

 


mbl.is Sex hreyfingar á neyðarbrautinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri og fleiri ákveða að kjósa hana, ekki af því að þeir styðja hana.....

Mér finnst þessi frétt og viðtal á margan hátt mjög merkilegt.  Ekki bara vegna þess að þar er talað við einstakling sem býr í París og upplifir hvernig það er að búa í borg þar sem hryðjuverk á sér stað, heldur líka það sem hún segir um andrúmsloftið og kringumstæðurnar.

Það sem hún segir, rímar líka að svo mörgu leyti við það sem ég hef heyrt frá svo mörgum á undanförnum mánuðum.

Og það er undarlegt að búa í borg þar sem hryðjuverk eiga sér stað.

Sjálfur bjó ég í París þegar hryðjuverk voru framin í lestarkerfinu. Það var skrýtin tilfinning og að fara ferða sinna á milli vopnaðra hermanna var óþægileg tilfinning.  En það má öllu venjast.

En það sem mér finnst þó athyglisverðast í viðtalinu er eftirfarandi:

„Núna er vinstri­flokk­ur við völd en hann er ekki að standa sig. Hollande er svo óvin­sæll, hægri flokk­ur­inn er bara að bjóða upp á Sar­kozy sem hef­ur verið for­seti, þannig að í raun­inni er eini kost­ur­inn sem er eft­ir le Pen, og þess vegna er kannski verið að tala um auk­inn ras­isma í Frakklandi; því hún virðist síðasti kost­ur­inn,“ seg­ir Lea um mögu­leg áhrif hryðju­verka­árás­ar­inn­ar á frönsk stjórn­mál og for­seta­kosn­ing­arn­ar 2017.

„Það eru alltaf fleiri og fleiri að ákveða að kjósa hana, en ekk­ert endi­lega af því að fólkið styður hana, held­ur af því að fólki finnst hinir ekki geta neitt. Það er frek­ar þannig. Að vinstri flokk­ur­inn geri ekki neitt og hægri flokk­ur­inn hafi verið lé­leg­ur. Hver er eft­ir? Le Pen, og auðvitað hjálp­ar það henni þegar eitt­hvað svona ger­ist.“

Þetta er því miður það sem heyra má svo víða.

Hefðbundnu stjórnmálaflokkarnir hafa svo víða algerlega brugðist vonum fólks og geta engan vegin mætt væntingum þess.  Væntingum sem oft á tíðum stjórnmálaflokkarnir hafa byggt upp sjálfir, og hafa af reynt að uppfylla með óhóflegri skuldasöfnun hins opinbera.

Margir hafa á tilfinningunni að stjórnmálamenn hlusti ekki á að það sem það hefur að segja.  Það er enda orðið "skammaryrði" að gera slíkt.  Í "vitrænni stjórnmálalegri umræðu" heitir það "popúlismi".

Mátt og úrræðaleysi hefðbundinna stjórnmálaflokka gerir kjósendur reiðubúna til að í það minnst reyna því sem næst hvaða nýtt úrræði sem býðst.

Því þeim finnst kyrrstaðan og úrræðaleysið ekki boðlegt lengur.

Með atkvæði sínu eru kjósendur oft ekki síður að segja hvaða flokka þeir geta ekki hugsað sér að kjósa, en að flokkurinn sem þeir kjósa, smellpassi við hugmyndir þeirra.

P.S.  Popúlismi er gjarna talinn eiga upphaf sitt í Rómaveldi, en skilgreiningar á honum hafa verið margar og mismunandi í gegnum tíðina og eru enn.  Hér er ein ættuð frá Princeton.  Populism:  S: (n) populism (the political doctrine that supports the rights and powers of the common people in their struggle with the privileged elite) 


mbl.is „Fólk vill bara standa saman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velkomin á 21. öldina

Það er ástæða til að minnast á og fagna þessu frumvarpi.  Það er auðvitað löngu tímabært að afnema óþarfa hömlu á tjáningarfrelsi.

Það er engin ástæða til að fangelsa fólk fyrir að tala illa um trúarbrögð, gera grín að þeim eða leggja nafn einhvers guðs við hégóma.

Sjálfsagt munu einhverjir telja að Alþingi hafi mikilvægari hnöppum að hneppa.

Það má auðvitað til sanns vegar færa.  En það hefur líka hneppt mörgum sem eru síðri.

Það er aldrei án tilgangs að leiðrétta óréttlát eða ósanngjörn lög.

Grín og hæðni að trúarbrögðum getur verið góð og skemmtileg, en líka smekklaus.

En það er óþarfi að smekkleysi varði við lög.

 


mbl.is Vilja afnema bann við guðlasti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki allt meira og minna ónýtt? S - Fyrir Savisaar. Jólakveðja frá höfuðborginni

Stjórnmálamenn eru misjafnir eins og þeir eru margir, þó að við viljum oft skipta þeim upp í örfá "hólf".  Stundum jafnvel stundum setja þá í eitt.

Íslendingar eru gjarnir á halda því fram að Íslenskir stjórnmálamenn séu lélegir og spilltir.

AF þessi hefur svo spunnist umræða um að Íslands sé of lítið til að virka og landið sé "ónýtt".

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að smáríki og Ísland eigi jafna möguleika að þrífast og stærri ríki.  Það þarf heldur ekki að horfa víða til að sjá að vandamálin finnast víða, smá og stór, og alls ekki bundin við smærri ríki.

Gríðarlegt atvinnyleysi plagar mörg lönd, gríðarlegar skuldir einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera.  Skuldastaða margra ríkja þannig að vafi leikur á hvort að þau standa undir henni.  Húsnæðisverð hefur hrapað svo í mörgum löndum, að margir standa með neikvæða eignarhlutfall í húsi sem ekki er hægt að selja.

Efnahagsdoðinn á Eurosvæðinu er með þeim ósköpum að hagspekingar kasta fram hugmyndum um að Seðlanbankinn sendi hverjum fullorðnum einstaklingi allt að 3000 euro til að auka eftirpsurn.

Skyldi slíkt verða kallað "Leiðrétting"?  En ef af yrði er ég hræddur um að "Íslenska heimsmetið" stæði varla lengur.

Síðan er verðhjöðnun að koma til sögunnar á Eurosvæðinu, en Japan hefur glímt við þann draug í áratugi.

Gjaldmiðlar stórra og öflugra ríkja "stíga viltan dans", enda vill engin hafa of sterkan gjaldmiðil nú til dags.  Nema þá helst Rússar, en þeir megna það ekki.

Jafnvel gjaldmiðlar öflugra og stöðugra ríkja tapa yfir 20% af verðgildi sínu á ótrúlega stuttum tíma.

En auðvitað eru grænir grasblettir víða, sérstaklega ef við erum hinum megin við girðinguna.

Til gamans birti ég hér jólakveðju sem Tallinn, höfuborg Eistlands birti í sjónvarpi nú fyrir jólinn.  Þar má sjá borgarstjórann á skautum í hálfgerðum "Supermanbúningi".

Heildarkostnaður við auglýsinguna jólakveðjuna, var 107.000 euro.  Gerð hennar kostaði 35.000 euro, og 72.000 euroa var eytt í birtingar.

Þess má geta að þingkosningar eru í Eistlandi 1. mars og borgarstjórinn að sjálfsögðu í framboði eins og oftast áður.

Edgar Savisaar, eða "Edgar 1" eins og gárungarnir kalla hann stundum, er umdeildur en nokkuð vinsæll stjórnmálamaður.

Á meðal afreka hans á stjórnmálasviðinu, er að láta borgina stofna og reka sjónvarpsstöð og opna matvörubúð borgarinnar.

 

 

 

 


Je Suis Charlie

Það hefur verið skelfilegt að lesa fréttirnar frá París í dag. 

Það er undarlegt að hugsa til þess að skopblað og starfsfólk skuli hafa orðið fyrir þessri grimmilegu árás.  Þessari óskiljanlegu heift.

Það hefur ekki verið oft sem ég gluggaði í Charlie og síðasta var það nokkru fyrir aldamótin síðustu.

charlie 3

charlie 4

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En blaðið hefur skemmt mörgum og ýft fjaðrir fjölda einstaklinga og samtaka.  Mér eru  minnistæð ummæli sem ég heyrði höfð eftir útgefanda blaðsins, þegar hann varði blaðið fyrir rétti gegn lögsókn Íslamskra samtaka.

Þau myndu hljóma á Íslensku eitthvað í þessa áttina:

Það er rasismi að halda því fram að múslimar hafi ekki skopskyn.

Blaðið var á ásakað um að hafa tengt á milli múslima og múslimskra hryðjuverkamanna og það fæli í sér rasisma.

En Charlie Hebdo fór ekki í manngreinaálit.  Það gerði stólpagrín að öllum.

Þess vegna lifði Charlie  og þess vegna láta nú starfsmenn þess lífið.

charlie 1

charlie 2

 

 

 

 

 

 

 

Það er ekkert grín heldur fölskvalaust hatur og undarleg afbökuð trú á "hinn góða og mikla guð".

Það er hins vegar full ástæða til að breiða út boðskap Charlies og láta hann ná sem víðast.

Hver eftirleikur þessa hræðilega hryðuverks verður veit auðvitað engin.  En andrúmsloftið hefur verið spennuþrungið víða um Evrópu undanfarnar vikur og vaxandi núningur á milli mismunandi "trúar og menningarhópa".

Mikið atvinnuleysi, efnahagserfiðleikar, vaxandi óþol, fordómar og ofbeldi er ógnvænleg blanda. 

Hryðjuverk á trúarlegum grunni geta gert hana að púðurtunnu.

 


mbl.is Sáu mikið af blóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill léttir fyrir Íslendinga, en skapar jafnframt áhyggjuefni

Ég hef trú að á flestum Íslendingum sé létt.  Þó að enn eigi eftir að greiða atkvæði um samninginn, þá eru all vegna góðar líkur að starfsemi í heilbrigðiskerfinu færist í samt form.

Það kemur ekki fram í fréttinni hve miklar launahækkanir læknar hljóta, og sjálfsagt að einhverju marki erfitt að fullyrða um slíkt, þegar samið er um fleiri atriði en laun.

En það er næsta víst að það verða líka margir sem fyllast áhyggjum fyrir því hvaða áhrif þessi samningur mun hafa á gerða annara kjarasamninga.

Á meðan á kjaradeilum lækna hefur staðið, hafa margir lýst því yfir að heilbrigðiskerfið sé það mikilvægt að réttlætanlegt sé að laun lækna hækki framyfir aðrar starfsstéttir.

Alþjóðleg samkeppni gera það að verkum að slíkt sé næsta ómögulegt að komast hjá.

En mig rekur ekki minni til að neinar slíkar yfirlýsingar hafi komið frá verkalýðsfélögum eða forystusveit þeirra. 

Þvert á móti.

Það er því líklegt að órói verði nokkuð mikill á vinnumarkaði á næstunni, þó að líklegast færist hann út af heilbrigðisstofnunum.

Það verður einnig fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum stjórnarandstöðunnar.

Hvernig lítur hún að samninga við lækna og telur hún eðlilegt að slíkur samningur sé rausnarlegri en við aðra?

Samfylking og Vinstri græn fylgdu þeirri stefnu á síðasta kjörtímabili að engir ríkisstarfsmenn ættu að hafa hærri laun en forsætisráðherra. Læknar ekki undanskildir.

Er það enn stefna þeirra flokka?

Flestum ætti reyndar einnig að vera í fersku minn óróinn sem varð á Landpítalanum á síðasta kjörtímabili, þegar til stóð að hækka laun yfirmanns, eins af starfsliðinu, um ríflega upphæð.

Hver skyldi svo vera skoðun Bjartrar framtíðar og Pírata á hvað langt má seilast til að veita læknum, launaforgang umfram aðrar stéttir, eru eru þeir móti því?

Það vakna því upp ótal spurningar við þessa samning, þó að þeir séu vissulega fagnaðarefni.

 

 

 

 

 


mbl.is Felur í sér algjöra uppstokkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hubble sjónaukinn gerir ekki myndir

Stórkostleg mynd, bæði frá sjónarmiði ljósmyndunar og stjörnufræði (þó að ég hafi takmarkað vit á stjörnufræði).

Til fyrirmyndar að mbl.is skuli birta hana og leyfa lesendum að njóta.

En Hubble sjónaukinn "gerir" ekki myndir, alla vegna finnst mér það klaufalega orðað.

Hubble tekur myndir.

Ljósmyndarar gera sumir hvoru tveggja.  Það er að segja þeir "stilla upp" myndefninu áður en þeir taka myndina.  Hagræða ljósum, sviðsmunum, fólki o.s.frv.

En þó að tækninni fleygi fram, efast ég um að slíkt sé á færi Hubble, eða stjórnenda hans hvað þessa mynd varðar.

Þessi orðnotkun rímar alla vegna ekki við mína máltilfinningu.


mbl.is Endurgerði frægustu mynd sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það hlýtur að vera sanngirniskrafa að einstaklingar utan trúfélaga borgi ekki hærri skatt en aðrir

Mér lýst vel að að þetta fyrirkomulag verði skoðað.  Þó að það orki tvimælis að hið opinbera innheimti fyrir sum félagasamtök, án þess að önnur njóti þess kosts, væri það ásættanlegt, ef þeir sem ekki tilheyra sókn, borgi lægri upphæð.

Best væri að möguleiki væri til staðar á skattskýrslu, sem hakað væri við, ef viðkomandi framteljandi vill að dregið sé af honum sóknargjald.

Ég held að það sé áríðandi að framteljandi þurfi að samþykkja greiðsluna, því án samþykkis er varasamt að gefa félags eða sóknargjaldi sömu lagalegu stöðu og opinber gjöld hafa.

Síðan myndi þeir sem þess óska að greiða sóknargjald að greiða það, óháð því hvort að þeir þyrftu að greiða opinber gjöld.

Þannig er fullri sanngirni náð.

En það er gott að málið sé tekið til skoðunar, þó að í ljósi sögunnar sé ekki astæða til bjartsýni með sanngjarna niðurstöðu.

En vondandi tæklar Ólöf málið með hagsmuni einstklinga að leiðarljósi en ekki stofnana.

 

 


mbl.is Skoðar eðli sóknargjalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Albanía með "hlutfallslega besta" heilbrigðiskerfi í Evrópu?

Ég skrifaði hér pistil að tilefni "Albaníuumræðunnar" hér á Íslandi. Nefndi hann Að kaupa "dýrari pakkann" í heilbrigðiskerfinu.

Þar fjallaði ég stuttlega um reynslu mína af Kanadísku heilbrigðiskerfi.

Eins og ég átti frekar von á, þá spunnust nokkrar umræður um pistilinn í athugasemdakerfinu.  En þær fóru friðsamlega fram, nokkuð kurteisar og án uppnefna, þannig að undan því þurfti ekki að kvarta.

Eins og oft vill verða þá barst umræðan um víðan völl og ýmislegt bar á góma, margt fróðlegt.

Það var síðan í morgun þegar ég var að svara einu innlegginu, að ég leitaði aðeins á náðir Hr. Google, til að finna samanburð á heilbrigðiskerfum.

Healtcare results 2013

Þar fann ég m.a. skýrslu frá Health Powerhouse, sem ber saman heilbrigðiskerfi í Evrópu.  Ég held að fyrirtækið sé nokkuð virt á sínu sviði, alla vegna hef ég mikið séð vitnað til skýrslunnar.

Til að gera langa sögu stutta kemur Íslenskt heilbrigðiskerfi mjög vel út úr skýrslunni.  Talið 3. besta heilbrigðiskerfi á eftir Hollandi og Danmörku.  Albanska kerfið fær ekki slíka glimrandi dóma.

Um Hollenska kerfið er sagt m.a:

The NL is characterized by a multitude of health insurance providers acting in competition, and being separate from caregivers/hospitals. Also, the NL probably has the best and most structured arrangement for patient organisation participation in healthcare decision and
policymaking in Europe.

En skýrslan birtir líka yfirlit yfir hvernig heilbrigðiskerfin eru metin eftir því hvað þau kosta.

Þar kemur Ísland sömuleiðis glimrandi út. Er í öðru sæti og sýnir að heilbrigðiskerfið stendur sig afar vel.

En hvaða ríki Evrópu skyldi hafa skotið Íslandi ref fyrir rass í þessum efnum? 

Jú, það var Albanía.

Healthcare bang for buck 2013

Áður en athugasemdum rignir hér inn (þær eru velkomnar, settar fram á kurteislegan hátt), þá er auðvitað nauðsynlegt að segja að samanburður sem þessi er auðvitað ekki endanlegur dómur og þeim ber að taka með miklum fyrirvara.  Sérstaklega er samanburður eins og "bang for the buck" erfiður í framkvæmd, og skýrsluhöfundar vara við að hann sé tekinn of hátíðlega.

En það er líka auðvelt að tala niður til heilbrigðiskerfa eins og þess sem Albaníubúar þurfa að gera sér að góðu.

Þjóðartekjur á mann þar eru rétt um 12.000 dollarar á einstakling (er ekki svipuð tala fyrir Ísland u.þ.b. 42.000 dollarar?).

Albaníu lengst af verið talið vanþróað land og bjó auk þess við "sæluríki sósíalismans" um áratuga skeið, jafnvel svæsnara en víða annars staðar.

Sjálfsagt nota þeir öll ráð til að "teygja" aurinn sem þeir hafa efni á að leggja í heilbrigðisþjónustu.

Og það er auðvitað engin leið að halda því fram að heilbrigðiskerfið í Albaníu sé til fyrirmyndar og það hef ég engan heyrt gera.

Alþjóðabankinn talar um að mikil mismunun sé í kerfinu og kostnaðarþátttaka sé þrisvar sinnum meiri en hún gerist að meðaltali í Evrópusambandinu (í fréttinni er ESB meðaltalið 17%).

En Albanía eyðir aðeins um 2.1% af þjóðartekjum í heilbrigðiskerfið.  Þess utan er talað um að spilling, mútur og því um líkt sé inngróið í kerfið (eins og reyndar landið í heild).

það er því ljóst að heilbrigðiskerfið í Albaníu á við mörg vandamál að stríða.  Persónulega tel ég ólíklegt að of mikið valfrelsi eða samkeppni sé aðalorsök þess hvernig kerfið er statt.

Það er heldur ekki hægt að draga þá ályktun að valfrelsi og samkeppni hafi komið í veg fyrir að Hollenska kerfið sé gott.

Og ég hef litla trú á því að skortur á samkeppni og valfrelsi sé undirstaðan sem geri Íslenskt heilbrigðiskerfi svona gott.

Mig rekur t.d. minni til þess að hafa lesið grein þar sem höfundur (læknir) taldi sameiningu allra sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu ekki af hinu góða, einmitt vegna einsleitni.

Þess vegna er sjálfsagt og gott að rætt sé um heilbrigðiskerfið á Íslandi, það jafnvel borið saman við önnur, en það væri ólikt heilbrigðara ef sú umræða færi fram án mikilla upphrópanna, skætings og uppnefna.

 


En getur t.d. Spotify talist sala á tónlist?

Tónlistar menn eru margir með böggum hildar vegna þess að þeim finnst þeim bera lítið úr býtum vegna "sölu" framleiðslu sinnar á netinu.

En hvað selja þeir þar?

Getur t.d. Spotify, talist sala á tónlist?

Spotify er í raun, í það minnst að mínu mati, leiga á tónlist eða útvarpsstöð "on demand", það er að segja hlustandinn ræður dagskránni.  Gjaldið sem greitt er líkara stefgjaldinu en beinni greiðslu fyrir eign.

Hvað á sá sem hættir í áskrift hjá Spotify?  Er það ekki svipað og sá sem hefur hlustað á útvarpið?

Persónulega hef ég ekki fundið hvöt hjá mér til að vera áskrifandi að tónlistarveitum.  Líklega er ég orðinn það gamall, að ég er ekki eins "leitandi" að tónlist og áður var.

En ég á all nokkuð af "diskum" og reyndar vínilplötum.  Suma "diska" hef ég spilað reglulega í kringum 20 til 25 ár. 

Þó að ég hafi greitt fyrir þá nokkuð fé, er það lágt afgjald fyrir hverja hlustun.  Líklega mun lægra en ég hefði greitt fyrir sambærilega á "veitu".

Aðrir hafa ekki hreyfst í svipað tímabil. Líklega má halda því fram að verðið sem ég hafi greitt fyrir hverja hlustun á þeim sé full hátt. 

Að ýmsu leiti má líklega segja að margir tónlistarmenn hafi orðið "ríkir" af diskum og plötum "sem ekki var hlustað á", svona rétt eins stundum er sagt að sinnepsframleiðendur verði "ríkir" af sinnepinu sem verður eftir á disknum.

Líklegast er mesta tekjufallið hjá þeim sem eiga stór "hit" í skamman tíma og færri diskar seljast út á eitt eða tvö lög.

En eins og þegar tækninýjungar koma til sögunnar tekur "uppstokkunin" nokkurn tíma og sumir ná að nýta sér hana betur en aðrir.

En líklega er eitt af vandamálunum fyrir tónlistarfólk að framfarirnar eru svo örar nú, að um sífellda uppstokkun er að ræða, sem ekki sér fyrir endan á.

Það sem gildir í dag, er aftur til fortíðar.  Tekjur af tónleikum er mikilvægari en hefur verið um langan aldur.

 


mbl.is Tekjurnar eftir á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband