Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

Að kaupa "dýrari pakkann" í heilbrigðiskerfinu

Allt í einu er umræða um heilbrigðiskerfið í Albaníu út um allt á Íslenska hluta internetsins.

Það sem virðist hafa kveikt þennan mikla áhuga Íslendinga á heilbrigðismálum Albana eru ummæli sem höfð eru eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur í Viðskiptablaðinu.  Fréttin á vef blaðsins er reyndar það stutt að ekki er mikið byggjandi á henni, en þar segir m.a.

Albanía er ljósárum á undan okkur í valfrelsi og samkeppni í heilbrigðisrekstri.

Litlu neðar segir síðan:

Ásdís sagði að aðeins væri hægt að velja ríkispakkann þegar kæmi að tiltekinni þjónustu á Íslandi. Í Albaníu væri val milli hefðbundna pakkans, silfurpakkans og gullpakkans þegar ákveðið væri hvaða þjónustu foreldrar vildu fá vegna fæðingar.

Á meðan Ásdís Halla segir að Albanía sé ljósárum á undan Íslendingum í valfrelsi og samkeppni heilbrigðisrekstri, láta margir eins og hún hafi sagt að hún Albanía væri ljósárum á undan Íslendingum í heilbrigðisþjónustu.

En auðvitað er á þessu tvennu orðalagi  mikill munur.

Myndi heilbrigðisþjónustan í Albaníu teljast betri ef þar væri minna valfrelsi og samkeppni?  Myndi draga úr ungbarnadauða í Albaníu ef tekið fyrir fyrir valfrelsi og samkeppni?

Engin hefur útskýrt hvað felst í "venulegum pakka", "silfurpakka" og "gullpakka", við fæðingar í Albaníu, og að gerir Ásdís Halla ekki heldur í þeim ræðubút sem sjá má á vef Viðskiptablaðsins.

Var það framfaraskref fyrir Íslenskt heilbrigðiskerfi, þegar Fæðingarheimilið svokallaða var lagt niður?  Ég hef  ekki hugmynd, hef enga reynslu þar að lútandi, en mér finnst spurningin góð.

En ég hef heldur enga reynslu af heilbrigðiskerfi Albaníu.  Og þó aldrei eigi að segja aldrei, getur það ekki talist líklegt að ég öðlist hana.

Ég hef heldur enga reynslu af því að eignast börn á Íslandi, hef aldrei verið viðstaddur fæðingu þar eða tekið þátt í undirbúningi.

Mín reynsla á þvi sviði er frá Kanada.  Þar fæddust bæði börnin mín.

Sú reynsla sem ég hef af Kanadísku heilbrigðiskerfi er ákaflega góð. Ég held að ég fari heldur ekki með ýkjur, þegar ég segi að þa sé almennt talið í fremstu röð.

Heilbrigðiskerfið þar er mest allt einkarekið (ef ekki allt) en hið opinbera sér að stærstum hluta um greiðslur.  Það kemur ekki í veg fyrir að hinar einkareknu heilbrigðisstofnanir bjóði upp á aukaþjónustu, alla vegna ekki hvað varðar fæðingar.

Og samkeppni er til staðar.

Kona mín hóf ferlið með því að velja sér á hvaða sjúkrahúsi hún vildi eignast barnið.  Það var alfarið hennar val.  Hún valdi sér sömuleiðis hvaða fæðingalæknir hún vildi að stjórnaði fæðingunni og hefði eftirlit með henni á meðgöngunni.  Einu takmörkin hvað varðar val á lækni, eru fjöldinn sem hann getur sinnt.  Vinsælir læknar geta verið "upppantaðir".

Eftirlitið er að ég held nokkuð hefðbundið.  Við fórum yfirleitt bæði og tekin voru blóðsýni og farið í sónar o.s.frv.

Boðið var upp á námskeið og kynntar mismundi hlutir, notkun "jógabolta", öndunaræfingar og ýmislegt annað sem kæmi að notum.

Þegar kom að fæðingunni var boðið upp á "extras".  Það voru engir gull eða silfurpakkar, en val var til staðar.

Myndum við vilja borga aukalega fyrir "einkastofu" fyrir sængurlegu.  Við afþökkuðum það, sáum ekki tilganginn, en mér skilst að slíkt sé afar vinsælt, sérstaklega hjá ýmsum trúarhópum sem finnst ekki tilhlýðilegt að ókunnugir karlmenn (á heimsóknartímum,sem eru mjög frjálslegir) séu að horfa á ókunnugar konur þar sem þær liggja í rúminu.

Myndum við við fá sér síma við rúmstokkinn, eða ef til vill sjónvarp?  Þetta var ekki dýr þjónusta, en bæði var afþakkað, enda alger óþarfi.

Síðan var okkur kynnt að við gætum ráðið okkur "doulah", sem var þó ekki á vegum spítalans, en hópur þeirra var þó viðurkenndur af honum.  Og við réðum "doulah".

Það var ekki síður fyrir mig en konuna.  Ég var á ókunnum slóðum, í fleiri en einum skilningi. Hafði enga reynslu í þessum efnum, og svo hitt að þó að ég telji mig tala ágætis Ensku, óttaðist ég kunnáttuleysi mitt í hugtökum læknisfræðinnar og "læknajargoni".

"Doulan" varð okkur enda mikil hjálp og reyndist okkar, ekki síst mér, afar vel þegar erfiðleikar komu upp.

Ég hef aldrei séð eftir því að ráða hana.

Einnig voru okkur kynntir möguleikar á því á kaupa þjónustu fyrirtækis sem tæki naflastrenginn (eða hluta hans) og frysti hann.  Þannig geymast stofnfrumur, sem margir telja að geti nýst vel fyrir börnin síðar, ef vandamál koma upp.

Þessa þjónustu tókum við fyrir bæði börnin okkar og höfum greitt árgjald fyrir þá þjónustu æ síðan.

Þannig er vissulega hægt að bjóða upp á margvíslega auka þjónustu og ýmsa "pakka", án þess að grunnþjónustan breystist.

Það er sömuleiðis hægt að bjóða upp á mismunandi fæðingaraðferðir, okkur var kynnt notkun á heitum pottum, aðallega þó til notkunar til slökunar fyrir fæðingu og ýmislegt annað smálegt.

Í heild sinni var reynslan afar góð og þjónustan til fyrirmyndar.  Engin reikningur kom frá sjúkrahúsinu.  "Doulunni" greiddum við beint án milligöngu sjúkrahússins og "Frost" fyrirtækinu sömuleiðis.

Hefðum við þegið einkastofu, síma eða sjónvarp, hefði sjúkrahúsið sent reikning fyrir því.

Teldist heilbrigðiskerfi Kanada síðra ef konum væri ekki boðið að velja sér sjúkrahús eða fæðingarlækni?

Telst það löstur á því að boðið sé upp á einkastofur?

Ætti að banna "douluhr"?

Er það ósvífni að hægt sé að kaupa þá þjónustu að frysta naflastrenginn?

Eða ætti þetta allt að vera kostað og staðlað af hinu opinbera?

Öll umræða um heilbrigðismál sem önnur mál er af hinu góða.  Það er jákvætt að ræða málin og velta því fyrir sér hvernig sé best að hafa hlutina.

Eðlilega eru um það skiptar skoðanir.

En ég held að "Albaníuaðferðin" sem mátt hefur sjá nú sé ekki til fyrirmyndar.

P.S.  Það er óneitanlega athyglisvert hvernig umræða um frétt frá Apríl á síðasta ári blossar allt í einu upp nú, 9 mánuðum síðar.  Er það læknaverkfallið sem veldur, eða eru 9 mánuðir einfaldlega meðgöngutími umræðu sem þessarar?

 


Barátta "öfgaaflanna"?

Ég hef ekki lesið bók Houllebecq, Soumission, líklega verður einhver bið á því. Ég er ekki það sleipur í Frönskunni.

En þetta er þriðji staðurinn sem ég sé minnst á bókina á tveimur dögum.  Hinir tveir voru bloggsíðum þeirra Egils Helgasonar og Haraldar Sigurðssonar.

Á bloggi Egils mátti lesa þetta stutta ágrip af söguþræðinum:

Bókin gerist 2022. Það ríkir óöld í Frakklandi, en um hana ríkir þögn í fjölmiðlum. Það er komið að kosningum, og nú gerist það að frambjóðandi nýs múslimaflokks, Mohammed Ben Abbes, vinnur stórsigur á Marine Le Pen. Áður hafa reyndar kosningar verið ógiltar vegna víðtækra kosningasvika. Abbes sigrar með stuðningi bæði hægri og vinstri manna.

Daginn eftir hætta konur almennt að klæðast vestrænum fötum. Þær fá styrki frá ríkinu til að hætta að vinna. Glæpum linnir í hættulegum hverfum. Háskólar verða íslamskir, og prófessorar sem streitast á móti því eru sendir á eftirlaun.

Það getur verið varasamt að draga stórar ályktanir af stuttu ágripi, en ég gat ekki varist því að upp í huga minn komu þriðji og fjórði áratugur síðustu aldar.

Þá tókust á, ekki hvað síst í Evrópu, tvær öfgastefnur, keimlíkar en samt svarnir andstæðingar.

Ógnaröldin hófst þó ekki fyrir alvöru fyrr en þær gerðu bandalag.

En hvar ríkti óöld á götunum?  Hvar var konum bolað út af vinnumarkaðnum? Hvar fengu nýgift hjón hagstæð lán gegn því að konan væri heima?  Hvar voru skólar miskunarlaust "stjórnmálavæddir" og kennarastaða skilyrt flokksaðild?

Hvar hurfu glæpir af götunum, en voru "ríkisvæddir"?

Hvar sýndi almenningur ótrúlega undirgefni og breytti um stíl á stuttum tíma.  Tileinkaði sér tísku, menningu og lífstíl í "einingu við þjóðina"?

Næsta spurning sem dúkkaði upp í kollinum á mér var, skyldi vera minnst á gyðinga og samkynhneigða í bókinni?  Hver yrðu örlög þeirra undir slíkri stjórn?

Framtíðarsögur eru oft hrollvekjandi lesning.  Það er ekki oft sem bjartsýnin er við völd.  Upp í hugann koma bækur eins og 1984 og Brave New World.

En er rangt að skrifa svona bækur?  Ala þær á ótta, tortryggni og "phobium"?

Eða hvetja þær gagnrýna hugsun, vara við hættum?

Hvaða hefði verið sagt ef stjórnmálamaður hefði sett fram svipaða framtíðarsýn?  Eða eru þeir að því?

 

 

 

 


mbl.is Íslamski Svartiskóli Parísar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf að "opna" og gera upp aðildarumsóknina og aðlögunarviðræðurnar

Almenningur  á íslandi veit lítið sem ekkert um gang aðlögunarviðræðna Íslands við Everópusambandið.

Hvers vegna gengu þær ekki betur en raun bar vitni, á hverju strandaði? Hvers vegna var ekki búið að opna kaflana um sjávarútveg og landbúnað?

Hvað hafði verið fallist á sem núverandi ríkisstjórn finnst ekki ásættanlegt.

Hver voru samningsmarkmið Íslendinga og út af hverju höfðu þau ekki verið kynnt almenningi? Í fréttum mátti lesa á sínum tíma að Jóhanna Sigurðardóttir hefði kynnt þau fyrir Angelu Merkel, en mig rekur ekki minni til þess að hún hafi kynnt þau fyrir Íslendingum.

Feluleiknum þarf að ljúika og það þarf að kynna Íslendingum hvað samninganefndin hafði fyrir stafni.

Hvað hafði áunnist?  Höfðu undanþágur fengist?  Hvað hafði verið gefið eftir.

Margir trúa enn á mýtuna um að "kíkja í pakkann". 

En það er tímabært að ræða hverju aðlögunarviðræðurnar höfðu skilað og ekki síður á hverju strandaði.

Ég er síðan þeirrar skoðunar að rétt sé að afturkalla aðildarumsóknina. Best færi á að ekki yrði sótt um aftur, án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá væri slík umsókn með fullt umboð og stæði mun sterkar, þ.e.a.s. ef hún yrði samþykkt. Yrði henni hafnað þyrfti ekki að ræða það frekar.  Í það minnsta ekki fyrr en kæmi upp krafa um þjóðaratkvæði að nýju.

 

 


mbl.is Aðildarumsóknin á byrjunarreit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kirkjan telur aðra hluti mikilvægari en barnastarf. Ef kirkjan innheimti sjálf sóknargjöld væri "skerðing" ómöguleg

Það er stundum ákaflega undarlegt að lesa og hlusta á málflutning fulltrúa þjóðkirkjunar.  Það er eins og þeir telji sig geta borið hvaða vitleysu á borð fyrir almenning.

Hann á jú að trúa, eða hvað?

Auðvitað liggur það í aumum uppi að það er  þjóðkirkjan sjálf sem ákvað að draga úr barnastarfi.  Hún taldi aðra hluti mikilvægari.

Ekkert út að það að setja per se, þeirra ákvörðun, en frekar lítilmannlegt að kenna þeim sem hafa yfirgefið kirkjuna um sína eigin ákvörðun.

Prestar hefðu t.d. getað tekið sig saman og lækkað eigin laun, til eflingar barnastarfi.  Ekki það að það komi mér við, þetta er bara hugmynd sem þeim er frjálst að nota.

Það er líka ljóst að ef kirkjusóknir tækju innheimtu sóknargjalda í eigin hendur væri "skerðing" þeirra af hálfu hins opinbera endanlega úr sögunni.  Sóknir gætu einfaldlega ákveðið eigið gjald og sett það í innheimtu.

Það er mjög einfalt nú til dags.  Hægt að semja við bankastofnanir og reikningurinn "poppar" upp í heimabankanum.  Sóknarmeðlimurinn þarf aðeins að samþykkja hann og peningurinn er kominn til viðkomandi sóknar.

Án efa hægt að semja við bankana um hagstæða gjaldskrá, enda um umtalsverð viðskipti að ræða.

Kirkjan laus við afskipti hins opinbera og eykur fjárhagslegt sjálfstæði sitt og möguleiki á skerðingum úr sögunni.

Væri það ekki hið besta mál fyrir alla?  Sérstaklega nú, ef fólk er farið að "átta sig á því að kirkjan skiptir máli", eins og presturinn segir í fréttinni.

 

 


mbl.is Úrsögn bitnar á barnastarfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væri ekki rétt að segja takk fyrir árin tíu?

Ég er ekki einn af viðskiptavinum Bernhöftsbakarís, í það minnsta ekki undanfarin 10 ár.  En mér finnst þér eiga þakkir skildar, ef það er rétt að verðið á rúnstykkjunum hafi haldist óbreytt í 10 ár.

Mér er það til efs að margt annað hafi haldið sama verði á því tímabili.

60% hækkun verður að teljast veruleg, en ef það er rétt sem kemur fram í tilkynningunni að algengt verð sé mikið hærra, er engin ástæða til annars en að fagna lágu verði.

En auðvitað er 60% hækkun ekki tilkomin vegna þess að virðisaukaskattur hækkaði um 4% stig.  Það hefði leitt til 3.73% hækkunar að öllu jöfnu.

Rúnstykki sem áður kostaði 50 krónur hefði verið kækkað upp í 51.90 eða 52 krónur.

En það er auðvelt að ímynda sér að hækkunarþörfin hafi verið orðin mikil eftir 10 ár.

En það er í besta falli grátbroslegt að sjá skrifað eins og þessa hækkun megi rekja til hækkunar á virðisaukaskatti og skrifaða á ríkisstjórnina.

Það væri auðvitað mikið nær að þakka Bernhöftsbakarí fyrir að hafa "haldið í sér" í 10 ár.

En hitt er svo að ég leyfi mér að efast um að 60% hækkun hafi áður skilað fyrirtæki jafn mikilli og þó jákvæðri umfjöllun áður.

 

 

 

 


mbl.is Rúnstykkin hækka um 60%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af því að Merkel segir það? Þiggjendur þurfa að kjósa rétt

Seinna í þessum mánuði verða þingkosningar í Grikklandi. Skoðanakannanir benda til þess Syriza, kosningabandalag vinstri flokka (samkvæmt vinsælli málnotkun á Íslandi ætti ég líklega að segja vinstri öfgaflokkur, en slíkt þykir mér rangt) beri sigur úr býtum.

Líkega hafa liðsmenn  Syriza lesið einhver Íslensk skrif um áhrif smáríkja í Evrópusambandinu, því þeir telja sig geta haft umtalsverð áhrif og breytt stefnu þess í málefnum Grikklands.

Þeir vilja ekki að framfylgt verði "niðurskurðarstefnu" "Sambandsins", heldur verði kraftmikil uppbygging sett af stað í Grikklandi.  Eins og vinstri manna er oft siður, tala þeir ekki mikið um hvaðan féð eigi að koma, en undir niðri er ljóst að þeir eru meira en reiðubúnir til að eyða skattfé annara íbúa "Sambandsins" og eru ekki hrifnir af því að greiða til baka það "ALS" (annara landa skattfé) sem þeir hafa þegar fengið að láni.

Það kann þó að vera íbúum annara "Sambandsríkja" hollt að venjast þeirri tilhugsun að það fé verði ekki borgað til baka, því engan hef ég heyrt lýsa því á sannfærandi hátt hvernig Grikkir geti reynst borgunarmenn fyrir því.

En að á þessum tímapunkti verði "leki" úr Þýska stjórnkerfinu sem sgir Grikkjum að "kjósi þeir rangt" verði þeim sparkað af Eurosvæðinu er ekki tilviljun.

Angela Merkel er valdamesti stjórnmálamaður Eurosvæðisings og raunar "Sambandsins" alls.  Næst henni kemur líklega "Super" Mario Draghi, stjóri Seðlabanka Eurosvæðisins.

Þegar Merkel segir að vel komi til greina að ýta Grikklandi út af Eurosvæðinu er hlustað.  Það var enda ekki fyrr en hún var sannfærð um að slíkt væri óráð að slík áform voru slegin út af borðinu áður.

Það er ekki ólíklegt að Draghi muni senda frá sér "skipunarbréf" eins og Seðlabankinn hefur áður gert, til að láta vita hvernig bankinn muni bregðast við, ef stjórnvöld gera ekki eins og þeim er sagt og áður hefur verið ákveðið.

Eðlilega er mörgum Grikkjum ekki skemmt.  En hvort að þeir breyti því hvernig þeir kjósa á eftir að koma í ljós. 

Ég hef áður sagt að ég búsit við að Syriza muni missa forystuna og Gríska kjósendur muni skorta hugrekki til að greiða þeim atkvæði í eins miklum mæli og skoðanakannanir gefa til kynna.  Eftir því sem meira verður fjallað um hvernig Merkel, Draghi og Euroseðlabankinn leggja línuna, því minna verður hugrekki Grikkja í kjörklefanum.

Og auðvitað geta Grikkir að mestu leyti sjálfum sér um kennt.  Eða eigum við að segja sjálfum sér og þeim stjórnmálamönnum sem þeir hafa kosið sér. 

Sem heild lifði Gríska þjóðin langt um efni fram. Á meðan var hægt að fá ódýr euro að láni ríkti mikið blómaskeið.  Allir töldu það til mikilla bóta að afsala sér eigin mynt  og gera eigin seðlabanka að útibúi.  Það jók lánstraustið.

En lán falla sjaldan langt frá gjalddaga.  Það kemur að skuldadögum.

Það eru einmitt þeir dagar sem Grikkir eru að upplifa nú.

Undir stjórn Merkel, Draghi, Euroseðlabankans og Alþjóða gjaldeyrisjóðsins.

Og í slíka stöðu er auðveldara í að komast en úr.

Vera þeirra í Evrópusambandinu hefur ekki reynst þeim töfralausn hvað varðar efnahagslegan stöðugleika. 

Euroið hefur ekki tryggt kaupmátt Grískra launþega.  Euroið hefur ekki tryggt stöðugleika á Grískum fasteignamarkaði.

Það eina sem euroið tryggir (þó að það hafi vissulega látið undan síga á nýliðnu ári) er fé og þá erum við ekki að tala um kindur.  Þeir sem eiga mikið af euroum, hafa ekki séð fé sitt rýrna mikið, nema ef þeir hafa geymt það í banka á Kýpur.  En ef ég hef skilið rétt, var það reyndar hlutskipti nokkuð margra Grikkja.

Evrópusambandsaðild dró ekki úr spillingu í Grikklandi, né styrkti lýðræði eða fullveldi landsins.

En nú eiga Grikkir völina og eins og máltækið segir fylgir kvölin.  Því það er að ég tel öllum ljóst að hvað sem Grikkir velja, bíða þeirra miklir erfiðleikar næstu árin.

 

 


mbl.is Íhugar að sparka Grikkjum úr evrusamstarfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru sóknargjöld nefnd á álagningarseðlinum?

Ef sóknargjöld eru félagsgjöld en ekki framlög ríkisins hljóta þau að vera nefnd á álagningarseðlinum.

Eru þau það?

Ef sóknargjöld eru félagsgjöld en ekki framlög ríkisins hljóta þeir sem standa utan trúfélaga, tilheyra engri sókn, að greiða minna en hinir sem reiða af hendi slíkt félagsgjald.

Gera þeir það?

Ef sóknargjöld eru félagsjöld en ekki framlög ríkisins ættu þau að vera "nefskattur", það er að segja að félagsmenn greiddu þau hvort sem þeir greiða opinber gjöld eður ei.

Er það tilfellið?

Ef ekki er hægt að svara ofangreindum spurningum játandi, er um framlög ríkisins til trúfélaga að ræða.

Það að framlögin byggi á meðlimafjölda skiptir engu og getur ekki skuldbundið ríkissjóð til að leggja alltaf sömu framlög til trúfélaga.

Það er lágmarkskrafa í nútimasamfélagi að slíkt gjald sé aðeins tekið af þeim sem tilheyra trúfélögum.  Það er líka lágmarkskrafa að þegnum sé gefið val um hvort að þeir greiði slíkt með skattgreiðslum eður ei.  Til dæmis með því að haka við á skattskýrslu.

Það er ekki sanngjarnt að félagsgjald sé gefið lagalegt gildi skattgreiðsla og innheimt með sama máta og viðurlögum.

 

 


mbl.is Framlög og sóknargjöld tvennt ólík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt eða rangt? En góðu fréttirnar eru ...

Ég ætla ekki að dæma um hvort er rétt, að mistök hafi átt sér stað í tölvukerfi verslananna, eða að þær hafi vísvitandi hækkað verð, til að gefa afslátt síðar, eða notfæra sér "kaupæðismóment".

En góðu fréttirnar eru að verslanir læra að það er fylgst með þeim og þó að þeim sé að sjálfsögðu frjálst að haga sinni verðlagningu eins og þeim best hentar, þá taka neytendur eftir því hvað er að gerast og bregðast við.

"Fiskisagan" flýgur um netið og orðspor fyrirtækja getur verið fljótt að bíða hnekki ef væntanlegir viðskiptavinum finnst þeir finna lykt af "ketti í sekknum".

En það er aldrei meira áríðandi, en á stundum eins og núna, þegar breytingar verða á skattkerfinu að neytendur séu vel á verði.

Niðurfelling vörugjalda og lækkun efra þreps virðisaukaskattsins eru stórir og mikilvægir atburðir.

Ef rétt er á málum haldið geta þeir leitt til þess að verslun færist í auknum mæli heim til Íslands, sem yrði bæði kaupmönnum og neytendum til góða.

Það er því mikilvægt að neytendum standi vaktina og kaupmenn noti tækifærið og sýni að þeir ætli skili lækkun álaga til neytenda.

 

 

 

 

 


mbl.is „Erum ekki að reyna að plata neinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil hækkun, en valið er til staðar

Það er vissulega mikil hækkun á áskriftargjaldi Stöðvar 2.  1000 kall er rétt um 13% hækkun ef hugur minn getur ennþá reiknað þokkalega rétt.

Hvort að áskrifendur muni fá 13% betri dagskrá verða einhverjir aðir að dæma um en ég, en einhverja hluta vegna leyfi ég mér að efast um slíkt.

En þó að hækkunin sé mikil, skiptir mestu máli að valið er til staðar.  Það þarf engin að vera áskrifandi að Stöð 2, eða einhverjum sportrásum.

Hver velur fyrir sig.  Og greiðir aðeins fyrir það sem hann kýs.

En um nauðungaráskrift eins og að Ríkisúvarpinu gilda önnur lögmál.  Þar er ekkert val, þar setur enginn saman sinn eigin "pakka".

Þess vegna er mikilvægt að þeirri skattheimtu sé haldið í lágmarki, ef vilji er til að halda nauðungaráskriftinni til streitu.

Og þegar samanburður er gerður á verði Stöðvar 2 og Ríkisútvarpsins, er nauðsynlegt að bera saman mismunandi samsetningar heimila.  Heimili þarf aðeins eina áskrift að Stöð 2.

 

 

 


mbl.is Þúsund króna hækkun á Stöð 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarlegir Framsóknarmenn taka yfir DV

Eins og líklega flestum er kunnugt urðu nýverið eigendaskipti á DV.  Þau gengu vissulega ekki átakalaust fyrir sig, en eins og oft vill verða þegar rekstur gengur ekki vel og safnar skuldum, kemur að skuldadögum og fyrirtæki skipta þá um eigendur eða eru lögð niður.

En nú má heyra víða af vinstrivæng Íslenskra stjórnmála þá "samsæris"kenningu að Framsóknarmenn hafi yfirtekið DV.

Nú verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki stjórnmálaskoðanir allra. 

Ég hef vissulega talið Björn Inga til Framsóknarmanna, en ætla þó ekki að fullyrða að hann sé skráður fyrir "hnífasetti" í þeim flokki.

Aldrei hef ég þó talið Sigurð G. Guðjónsson til Framsóknarmanna, en ef til vill sannast þar "gamal máltækið" að það séu allir "Framsóknarmenn inn við beinið".

Ekki ætla ég að fullyrða neitt um stjórnmálaskoðanir Eggerts Skúlasonar, mig hreinlega rekur ekki minni til þess að hafa heyrt hann "eyrnamerktan" ákveðnum flokki, en auðvitað er mitt minni ekki óbrigðult.

En ef Kolbrún Bergþórsdóttir er Framsóknarkona, hlýtur það að vera undir rós, því yfirleitt hef ég alltaf heyrt talað um hana sem Krata. Það þótt að hún hafi verið á köflum gagnrýnin á Samfylkinguna, tekur það ekki Kratatitilinn af henni, né gerir hana að Framsóknarmanni.

Ég gerði mér heldur ekki grein fyrir því fyrr en nú, að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hefði haft Framsóknarmann sem upplýsingafulltrúa, en sá mun nú víst vera fréttastjóri á DV, þar sem Framsóknarmenn hafa tekið öll völd.

Nú síðast las ég að rithöfundurinn Einar Kárason hafi verið ráðin til DV, en hann mun hafa verið fulltrúi Framsóknarflokksins á lista Samfylkingarinnar fyir síðustu borgarstjórnarkosningar, sem og stundum áður.  Það er líklega til minningar um gamla R-listann sem Samfylkingin hefur einhverja Framsóknarmenn á listum sínum.

Á sama tíma var tilkynnt um ráðningu Ragnheiðar Eiríksdóttur til DV, en eftir því sem mér skilst er hún sérfræðingur í kynlífi Framsóknarmanna og er ætlunin að hún verði með pistla um hvernig sé best að fjölga þeim.

En að öllu gamni slepptu, þá er þetta nokkuð dæmigert fyrir umræðuna á Íslandi.  Allt of mörgum þykir eðliegustu viðbrögðin að stökkva ofan í hinar "pólítísku skotgrafir" líta yfir "vígvöllinn" og til öryggis halda áfram að grafa.

Það á eftir að koma í ljós hvernig fjölmiðill DV verður.  Sjálfur hef ég sagt að mér lítist vel a mannsafnaðinn og hann bendi til þess að til gæti orðið skemmtilegur og "balanseraður" fjölmiðill.

Það á eftir að koma í ljós, ef til vill verð ég fyrir vonbrigðum, ef til vill ekki.

Ég er reiðubúnn til að gefa miðlinum tækifæri.

P.S.  Í stíl við efnið, hefði ég ef til vill átt að segja að Tíminn muni leiða í ljós hvernig fjölmiðill DV verður.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband