Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011
23.12.2011 | 15:42
Græn jól
Það er allt útlit fyir græn jól hér að Bjórá þetta árið. Slíkt telst til tíðinda hér í Toronto, en haustið hér hefur verið með eindæmum milt. Þó að veturinn hafi svo formlega tekið við hér í gær, hefur það ekki breyst, lóðir eru hér enn iðjagrænar og sömu sögu að segja af öðru graslendi hér í nágrenninu.
Þó er ekki hægt að tala um samfelld hlýindi, einstaka dag hefur frostið farið niður undir 10 stig, en úrkoma hefur ekki verið mikil og þá aðeins í formi rigningar á hlýrri dögum, en þeir voru líka nokkrir 10 stiga dagarnir plús megin í desember.
Flestir eru ósköp sáttir við þessu grænu jól, þó að vissulega megi heyra ýmsa óska eftir hvítum jólum. Það má sömuleiðis heyra ákveðnar fullyrðingar frá yngri kynslóðinni þess eðlis að snjór sé til ýmissa hluta nytsamlegur.
En jólin eru alltaf ágæt, hvort sem þau eru hvít, rauð eða græn, það eru enda jólalitirnir.
22.12.2011 | 06:08
Kommúnistar fyrr og nú
Nú tala flestir um N-Kóreu eins og hálfgerða skrípaveröld. Að vísu skrípaveröld með kjarnorkuvopn, en skrípaveröld eigi að síður. Fæstir skilja yfirdrifna sorg þegna hins mikla leiðtoga og mörgum finnst þetta eins og illa saminn og ofleikinn harmleikur - sem að mörgu leyti það er.
Það fennir fljótt í sporin. Í rauninni er ótrúlega stutt síðan risastór partur af heiminum var því sem næst eins og N-Kórea. Kommúnisminn ríkti, Landsfeður með stórum staf voru vart mannlegir og sorgin þegar þeir létust heltók þegnana sem sáu vart hvernig líf þeirra gæti haldið áfram án leiðsagnar Landsföðursins.
Það eru ekki nema 59. ár síðan Stalín lést og 35. ár síðan Mao dó í embætti.
Þegar Stalín lést mátti lesa eftirfarandi í leiðara Íslensks dagblaðs:
Vér minnumst mannsins Stalíns, sem hefur verið elskaður og dáður meir en flestir menn í mannkynssögunni áður og naut slíks trúnaðartrausts. sem fáir menn nokkru sinni hafa notið, en lét sér aldrei stíga þá ást og aðdáun til höfuðs, heldur var til síðustu stundar sami góði félaginn, sem mat manngildið ofar öllu öðru, eins og þá er hann fyrst hóf starf sitt.
Gagnvart mannlegum mikilleik þessa látna baráttufélaga drúpum við höfði, í þökk fyrir allt, sem hann vann fyrir verkalýðshreyfinguna og sósíalismann, í djúpri samúð við flokk hans og alþýðu Sovétríkjanna.
Ég á marga góða kunningja sem eru fyrrverandi kommúnistar, sumir voru í Sovéska kommúnistaflokknum, aðrir í systurflokkum hans hér og þar í A-Evrópu. Ástæður þeirra fyrir því að starfa í kommúnistaflokkunum voru margar og mismunandi. En allir segja frá þeim gríðarlega áróðri, allt að því heilaþvotti sem hafði mikil áhrif á æsku þeirra.
Kommúnisminn var allt um kring, það var engin leið að sleppa. Rétt eins og konan sem sagði mér að aðspurð hvað hana langaði mest til að fá í 6. ára afmælisgjöf, hefði hún beðið um litla brjóstmynd af Lenín.
Þátttaka í ungliðahreyfingum jók möguleika og gaf þátttakendum möguleika á að ferðast. Hjón sem ég kynntist hér í Toronto, frá sitthvoru A-Evrópulandinu, sögðu mér að þau hefðu kynnst í alþjóðlegum sumarbúðum ungkommúnista fáum árum áður en kommúnisminn lét undan síga þar austur frá.
Þannig spann kommúnisminn lífsþráð margra. Sumir lögðu allt í ungliðastarfið í von um að komast í betri skóla, aðrir gengu í flokkinn til að reyna að fá betra starf, ef til vill betri íbúð. Aðrir segja mér að þeir hafi raunverulega trúað að þetta væri það besta sem völ væri á. Aðrir, sérstaklega þeir sem bjuggu á stöðum þar sem möguleiki var að hlusta á erlendar útvarps- eða sjónvarpsstöðvar urðu fljótlega tortryggnari. En engin af þeim sem ég hef kynnst reis upp eða stóð í andófi, nema ef til vill síðustu mánuðina eða árið af valdaferli kommúnismans í löndum þeirra.
Enginn af þessu fólki sem ég hef kynnst telur sig kommúnista í dag, flestir telja sig í raun aldrei hafa verið það. Margir þeirra eru yfir sig hissa og hneykslaðir að Marx-Leninistar skuli enn finnast á kjörseðlum hér í Kanada. En þau hafa öll gert upp þessa fortíð, í það minnsta við sjálfan sig og þegja ekki yfir henni, þó þau auglýsi hana ef til vill ekki heldur.
En þróunin gengur mishratt fyrir sig. Í N-Kóreu mjakast hún lítt áfram og gjaldið sem íbúarnir þurfa að greiða er himinhátt en gamalkunnugt.
Þessar hugleiðingar sem hér eru urðu til þegar ég hitti einn þessara gömlu kommúnista og hann kastaði fram þeirri spurningu hvað ég héldi að ég væri að gera í dag, ef ég hefði búið alla mína ævi í N-Kóreu?
Við slíkum spurningum er auðvitað ekki til neitt einhlítt svar. Stutta svarið er þó á þá leið, að ég væri mjög sorgmæddur. Annað hvort yfir ótímabærum dauða hins mikla Leiðtoga, eða þá yfir að vera í fangabúðum.
Því miður eru valkostir N-Kóreubúa ekki mikið fleiri.
Efast um að Kim Jong-il hafi dáið í lestinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.3.2013 kl. 05:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.12.2011 | 01:17
Skuldasöfnunin heldur áfram
Það þarf ekki að koma neinum á óvart að lánshæfismat Bandaríkjanna sé sett á gátlista, í raun vonum seinna. Skuldasöfnunin þar er gríðarleg og ekki séð fyrir endan á henni. Væru Bandaríkin í ESB og með euro væru þau líklega gjaldþrota.
En fullgildur seðlabanki og eigin mynt halda þeim á floti. Það spillir heldur ekki fyrir að myntin er talin sú öruggasta í heimi, þó að nú um stundir myndu líklega margir nefna aðrar myntir, væru þeir beðnir um að nefna þá sem væri líklegust til að halda verðgildi sínu.
Ástæðurnar eru þær sömu og víðast hvar, stjórnmálamenn sem lofa upp í ermar kjósenda. Gríðarmikið og flókið skattakerfi sem er hriplekt, en gríðarleg hernaðarútgjöld skera Bandaríkin nokkuð frá öðrum þeim sem svipað er ástatt um.
Það er því ekki ólíklegt (og þess sjást þegar nokkur merki) að Bandaríkin eigi eftir að draga sig nokkuð til hlés á alþjóðavettvangi á næstu árum. Það gæti því skapast rými fyrir aðra að sperra aðeins vöðvana. Bæði Rússar og Kínverjar sýna vilja til að notfæra sér "hlédrægni" Bandaríkjamanna.
Angi af því er auðvitað að Bandaríkjamenn hafa ákveðið enn sem komið er að standa utan við aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins til eurosvæðisins, en Rússar hins vegar ákveðið að leggja fram fé.
En það má að sjálfsögðu rökstyðja það með einföldum hætti, enda eðlilegt að euroríkin leysi sín vandamál sjálf, enda ættu þau að hafa nægan efnahagslegan kraft til þess. Bandaríkin eiga enda í flestu tilliti nóg með sín vandamál. Það eiga Rússar reyndar líka, en þeir eru samt reiðubúnir til að taka upp veskið.
Það er næsta víst að þegar hugsað er til gamla Kínverska máltækisins, þá lifum við á áhugaverðum tímum.
Hóta að lækka lánshæfismatið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.12.2011 | 13:03
Þegar sólin er að setjast
Mig rekur minni til þess að hálft þjóðfélagið logaði yfir því að stórar ákvarðanir höfðu verið teknar án þess að tilhlýðilegt samráð hefði verið haft við utanríkismálanefnd.
Nú þykir ekkert sjálfsagðara en að gengið sé gegn niðurstöðu skrásettrar atkvæðagreiðslu sömu nefndar. Og því sem næst enginn segir neitt.
Framfarirnar í þingræðinu láta ekki að sér hæða.
Gamall kunningi minn hafði nokkurt dálæti á orðatiltækinu: "Þegar litlir menn kasta löngum skugga, mega menn vita að sólin er að setjast."
Í dag geri ég þessi orð að mínum, ef til vill eiga þau sjaldnast betur við en í dag. Nú hugsum við öll hlýlega til sólarinnar og vonum að nú sem ætíð fyrr komi hún til leiks aftur, sterkari en fyrr og færi okkur yl og orku.
Ef aðeins hin blessaða nýjárssól boðaði Íslendingum þann fögnuð að brátt kæmi ný ríkisstjórn.
20.12.2011 | 23:18
Aðeins 13 euroríki taka þátt í láninu til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins - Írland þarf á meiri aðstoð að halda
Það gengur ekki þrautalaust að koma saman 200 milljarða euro láninu frá Evrópusambandinu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, svo að sjóðurinn geti lánað þessa peninga til euroríkjanna.
Aðeins 13. ríki af eurosvæðinu taka þátt í 150 milljarða hlutanum. Grikkland, Portugal og Írland eru þegar lánþegar hjá sjóðnum og Eistland tekur heldur ekki þátt í láninu. Þetta fátækasta ríki eurosvæðisins hefur í raun engan vegin efni á að taka þátt í í að bjarga sér langtum ríkari þjóðum fjárhagslega. Sjá má hvernig 150 milljarðar euroa skipast á milli þjóðanna hér.
Þeir eru reyndar býsna margir sem eiga erfitt með að sjá lógíkina í því að Spánn og Italíu láni Alþjóðgjaldeyrissjóðnum fé til að lána til eurosvæðisins, en saman eiga þau að reiða fram tæpa 40 milljarða euroa.
Síðan eru "Sambandslöndin" sem standa utan eurosvæðisins. Bretar hafa ekki viljað taka þátt í að leggja Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til fé á þessum forsendum. Lettland og Litháen hafa hreinlega ekki efni á því og það sama má segja um mörg löndin í A-Evrópu. Pólverjar, Tékkar, Danir og Svíar munu hins vegar leggja fram eitthvert fé.
Utan Evrópusambandsins er það eiginlega bara Rússland sem hefur sýnt áhuga á því að leggja fram fé. Norðmenn gætu gert slíkt líka og ekki má gleyma ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms sem allt í einu fylltist áhuga á því að auka framlag Íslendinga til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
Stór ríki eins og Bandaríkin, Kanada, Kína, Japan hafa aftekið það að leggj Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til fé með þessum formerkjum.
Næsti neyðarfundur er svo ákveðinn 30. janúar 2012, og svo líklega koll af kolli, því æ betur kemur í ljós að neyðarfundurinn sem var haldinn nú í desember, þegar aðeins voru nokkrir dagar eftir til að bjarga euroinu, bjargaði í raun ekki neinu.
P.S. Nú er Alþjóða gjaldeyrissjóðurinnn að kalla eftir meiri aðstoð fyrir Írland, annars verði sú aðstoð sem landinu hefur þegar verið veitt til lítils. Ef til vill meira um það seinna í kvöld.
20.12.2011 | 19:14
Lánsþörfin leggur ekki grunn fyrir kraftaverkið
Frakkar hafa ekki lagt fram fjárlagafrumvarp í plús í bráðum 40 ár. Á því virðist ekki ætla að verða breyting. Á næsta ári áætla Frakkar að þeir þurfi að taka 178 milljarða euroa að láni. Fjárlagahallinn er áætlaður 78.7 milljarðar euroa og svo þarf að borga upp eldri skuldabréf að upphæð 97.9 milljarða euroa.
Að greiða niður skuldir er eitthvað sem Frakkar virðast varla sjá fyrir í sínum villtustu draumum, og að sjálfsögðu allra síst á kosningaári.
Á þjóð sem ekki hefur gert neitt nema að framlengja og auka skuldir sínar í bráðum 40 ár skilið að vera með AAA lánshæfimat? Er það ekki kraftaverkið að Frakkland skuli enn vera með slíkt mat?
En samkvæmt upplýsingum sem bankastjóri Evrópska seðlabankans þurfa ríki á eurosvæðinu að greiða upp 250 til 300 milljarða euroa á fyrstu 3. mánuðum næsta árs. Bankar á svæðinu þurfa að greiða upp skuldir sem nema 230 milljörðum euroa. Aðrir lánavafningar eru áætlaðir einhverstaðar í kringum 200 milljarða euroa.
Það gerir greiðslurnar á milli 700 og 800 milljarða euroa. Á þremur mánuðum. Það heyrist ekki mikið að að nokkur ætli að greiða skuldir sínar niður, þannig að áfram verður að rúlla boltanum.
Hvor skyldi nú vera í betri stöðu, fjármálamarkaðirnir eða ríkisstjórnirnar?
Að hugleiða stöðu skattgreiðenda í þessum hildarleik er svo nóg til að koma hverjum þeim sem ber þann titil í vont skap.
En svo lengi sem við erum reiðubúin að að hlusta á stjórnmálamenn lofa upp í ermarnar okkar, þá heldur hringjekjan áfram.
Kraftaverk ef Frakkar halda lánshæfiseinkunn sinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2011 | 15:17
Ekki hlusta, ekki sjá en blaðra heil ósköp.
Það þarf ekki að undra að ríkisstjórnin haldi sínu striki. IceSave málið hefur alla tíð þessarar ríkisstjórnar verið því marki brennt að ekki skuli hlustað, að ríkisstjórnin vilji sjá. Tvisvar tók almenningur fram fyrir hendurnar á henni og hafnaði ákvörðun hennar. Nú gengur ríkisstjórnin gegn meirihlutaáliti utanríkismálanefndar.
Er ekki rétt að leitað sé álits þingsins á þessu máli?
Enn einu sinni ryðst þessi ríkisstjórn ófriðar og sundurlyndis fram og hundsar alla þá sem vilja leggja gott til og stuðla að samstöðu.
Við vitum betur, við þurfum ekki á ráðleggingum að halda, gætu verið einkunnarorð þessarar ríkisstjórnar. En eins og flestir vita er fátt fjær sanni.
Það fer hrollur um hryggsúlur margra Íslendinga þegar þeir hugsa um að þeir Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon leggi á ráðin um varnir Íslands fyrir í þessu máli. Sjálfsagt verða Svavar Gestsson og Indriði Þorláksson þeim til halds og traust. Sjálfsagt kynna þeir fyrir Íslendingu "glæsilega niðurstöðu" eftir "hetjulega" baráttu ef þeirra baráttu, þar sem þeir hlífðu sér hvergi.
Sjaldan hefur þörfin fyrir að koma þessari ríkisstjórn frá verið skýrari en nú.
Utanríkisráðuneytið í fyrirsvari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.12.2011 | 03:50
Tækifæri til að breyta um vinnubrögð - Tökum málið úr höndum ráðherrana
Þó að ég geti viðurkennt að mér lítist betur á að Árni Páll haldi utan um IceSave vörnina heldur en Össur, þá finnst mér hvorugur kosturinn góður og það sem verra er hvorugur kosturinn trúverðugur.
Hér ætti að nota tækifærið og breyta til. Réttast væri að málið væri í höndum Alþingis. Annað hvort í höndum utanríkismálanefndar, eða sem betra væri að kosin væri sérstök nefnd sem sæi um málið í umboði Alþingis. Í nefndina yrði kosið eftir hefðbundnum reglum, en nefndarmenn gætu verið hvort sem væri alþingismenn eða utan þings. Allir flokkar ættu fulltrúa eða í það minnsta áheyrnarfulltrúa í nefndinni.
Nefndin réði sér starfsmenn til að reka málið, lögmenn og aðstoðarmenn þeirra. Lögmannahópurinn gæti verið blanda af Íslendingum og erlendum lögmönnum.
Það er einfaldlega ekki trúverðugt að ráðherrar sem börðust hvað harðast fyrir því að Íslendingar samþykktu IceSave samningana (já, ekki bara þennan númer III heldur líka þá "glæsilegu niðurstöðu" sem Svavar Gestsson kom með heim) séu í forsæti fyrir vörn Íslendinga. Það er hreinlega út í hött.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur ekki traust almennings til að halda utan um þetta mál. Framganga ríkisstjórnarinnar hefur verið þeim hætti. Í tvígang felldi Íslenka þjóðin samning sem ríkisstjórnin hafði gert.
Í flestum (ef ekki öllum) ríkjum hefði ríkisstjórn sem fengið hefði slíka útreið sýnt af sér þann sóma að segja af sér, en því er auðvitað ekki að heilsa í þessu tilfelli. En slíkri sómatilfinningu var ekki til að dreifa í þessu tilfelli og því er þessi skrýtna staða komin upp.
Því er best að taka málið úr höndum ríkisstjórnarinnar til að tryggja að sátt og traust ríki um málið og vinnuferilinn.
Icesave á hendi Össurar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.12.2011 | 15:07
Fer euroið í jólaköttinn?
Leiðtogar Evrópusambandsins reyna nú hvað þeir geta að sníða euroinu ný föt. Þau gömlu leyna ekki lengur göllunum. Reyndar mætti halda því fram með nokkrum sanni að gömlu fötin minni mest á föt keisarans í frægu ævintýri, H.C. Andersen. Framganga "vefara" Evrópusambandsins er fyrir þeim sem lesið hafa ævintýrið heldur ekki með öllu framandi.
Í dag er enn einn fundurinn, að þessu sinni þó aðeins símafundur. Það þarf að ræða um 200 milljarða framlag til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins svo að hann geti lánað euroríkjum í vandræðum fé. Bretar eru meira en velkomnir að sitja við borðið (þó að Frakkar hafi ekki vandað þeim kveðjurnar undanfarna daga) enda þeim ætlað að reiða fram u.þ.b. 15% af þessari upphæð, eða um 30 milljarða euroa. Evrópubandalagsþjóðirnar eru reiðubúnar til að bjóða aðrar þjóðir velkomnar fyrir minna.
En æ meiri óvissa ríkir um niðurstöðu leiðtogafundarins sem var haldinn 8 og 9 desember, ef þá er hægt að tala um að einhver niðurstaða hafi fengist þar. Nei Breta þekkja allir og ýmsar aðrar þjóðir eru ákaflega tvísstígandi og reyna að tala sig frá þeim drögum sem þar voru sett fram. Talinn er stór vafi á því að euroþjóðirnar gangist undir að leggja fram þá 150 milljarða euroa sem þeim er ætlað og enn meiri vafi er um þá 50 milljarða sem er "kvóti" annarra ríkja, ekki síst hvort að Bretar hafi nokkurn áhuga á því að taka þátt.
Æ fleiri eru líka þeirra skoðunar að þær aðgerðir sem nú er rætt um séu eingöngu sem plástur á holundarsár. Ekkert sé gert til að leiðrétta þá kerfilægu galla sem séu á uppbyggingu eurosins og ekkert sé gert til að reyna að tryggja efnahagslegan vöxt eurosvæðins, sem er því svo nauðsynlegur ef það á að eiga hinn minnsta möguleika á að greiða skuldir sínar niður. Niðurskurðarhnífurinn er alls staðar á lofti og vaxandi óróa gætir á meðal launþega og almennings, enda telja þeir sig vita hvar byrðarnar lenda. Götuóeirðir í Grikklandi og verkföll á Ítalíu og Frakklandi
Því miður hef ég litla trú á því að fundurinn í dag boði betri tíð á nýja árinu. Ég hugsa þó að flestir Íslendingar séu sáttir og þakklátir fyrir það Steingrímur J. Sigfússon á ekki sæti við borðið fyrir hönd Íslands í dag. Það er sæti sem meirihluti Íslendinga afþakkar.
Stefna á hagvöxt á síðari hluta 2012 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.12.2011 | 04:38
Kim Jong-il hverfur til feðra sinna
Þær fréttir voru að berast að Kim-il Jong leiðtogi Norður Koreu væri horfinn á vit feðra sinna. Það er ekki líklegt að Kim Jong-il verði sárt saknað af þjóð þeirri sem hann hefur ríkt yfir. Þó þorir líklega enginn að fagna.
Það er leitun að samtíma leiðtoga sem hefur farið verr með þá þjóð sem hann hefur ríkt yfir. Allt í nafni kommúnismans. Talið er að á bilinu milljón til þrjár og hálf milljón manna hafi dáið úr hungri í N-Kóreu á tíunda tug síðustu aldar. Ótaldar eru hundruða þúsundia einstaklinga sem hafa veslast upp eða verið myrta í fangabúðum og hreinsunum. Nýlega mátti lesa á vef mbl.is, frásögn konu sem tekist hafði að flýja N-Kóreanskar flóttabúðir.
Hvað þetta þýðir fyrir framtíð N-Kóreu, eða vonir íbúanna um betra líf er ekki gott að segja, en því miður er varla hægt að leyfa sér mikla bjartsýni í þeim efnum. Kommúnistarnir hafa öll völd í landinu þó að einn þeirra falli frá. Hann hafði reyndar útnefnt son sinn sem arftaka, en enn er óvissa um hvernig það fer.
Ég hvet alla til þess að lesa sér til um N-Kóreu. Þó nokkuð er að finna af upplýsingum á netinu. Það eru ekki fagrar lýsingar oft á tíðum, en þarft að kynna sér hlutskipti þarlendra.
Það er mikið bil á milli Íslands og N-Kóreu í öllu tilliti og sem betur fer því sem næst enginn hætta á því að Íslendingar þurfi að feta þær slóðir sem N-Kóreubúum eru búnar. Allur samanburður þar á milli er út í hött, jafnvel þó að Íslenskir fræðimenn hafi gripið til hans á nýliðnum árum og hótað að Íslands biði hlutskipti N-Kóreu. Slíkar fullyrðingar gerðu ekkert nema að gjaldfella umræðuna og fræðimennina.
En ef N-Kóreu tekst að hrista af sér hlekki kommúnismans, gæti N-Kórea einhvern daginn orðið eins og Ísland. Þá hefðu þeir ekki til einskis barist.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)