Kommúnistar fyrr og nú

Nú tala flestir um N-Kóreu eins og hálfgerða skrípaveröld.  Að vísu skrípaveröld með kjarnorkuvopn, en skrípaveröld eigi að síður.  Fæstir skilja yfirdrifna sorg þegna hins mikla leiðtoga og mörgum finnst þetta eins og illa saminn og ofleikinn harmleikur - sem að mörgu leyti það er.

Það fennir fljótt í sporin.  Í rauninni er ótrúlega stutt síðan risastór partur af heiminum var því sem næst eins og N-Kórea.  Kommúnisminn ríkti, Landsfeður með stórum staf voru vart mannlegir og sorgin þegar þeir létust heltók þegnana sem sáu vart hvernig líf þeirra gæti haldið áfram án leiðsagnar Landsföðursins.

Það eru ekki nema 59. ár síðan Stalín lést og 35. ár síðan Mao dó í embætti.

Þegar Stalín lést mátti lesa eftirfarandi í leiðara Íslensks dagblaðs:

Vér minnumst mannsins Stalíns, sem hefur verið elskaður og dáður meir en flestir menn í mannkynssögunni áður og naut slíks trúnaðartrausts. sem fáir menn nokkru sinni hafa notið, — en lét sér aldrei stíga þá ást og aðdáun til höfuðs, heldur var til síðustu stundar sami góði félaginn, sem mat manngildið ofar öllu öðru, eins og þá er hann fyrst hóf starf sitt.

Gagnvart mannlegum mikilleik þessa látna baráttufélaga drúpum við höfði, — í þökk fyrir allt, sem hann vann fyrir verkalýðshreyfinguna og sósíalismann, — í djúpri samúð við flokk hans og alþýðu Sovétríkjanna.

Ég á marga góða kunningja sem eru fyrrverandi kommúnistar, sumir voru í Sovéska kommúnistaflokknum, aðrir í systurflokkum hans hér og þar í A-Evrópu.  Ástæður þeirra fyrir því að starfa í kommúnistaflokkunum voru margar og mismunandi.  En allir segja frá þeim gríðarlega áróðri, allt að því heilaþvotti sem hafði mikil áhrif á æsku þeirra.

Kommúnisminn var allt um kring, það var engin leið að sleppa.  Rétt eins og konan sem sagði mér að aðspurð hvað hana langaði mest til að fá í 6. ára afmælisgjöf, hefði hún beðið um litla brjóstmynd af Lenín. 

Þátttaka í ungliðahreyfingum jók möguleika og gaf þátttakendum möguleika á að ferðast.  Hjón sem ég kynntist hér í Toronto, frá sitthvoru A-Evrópulandinu, sögðu mér að þau hefðu kynnst í alþjóðlegum sumarbúðum ungkommúnista fáum árum áður en kommúnisminn lét undan síga þar austur frá.

Þannig spann kommúnisminn lífsþráð margra.  Sumir lögðu allt í ungliðastarfið í von um að komast í betri skóla, aðrir gengu í flokkinn til að reyna að fá betra starf, ef til vill betri íbúð.  Aðrir segja mér að þeir hafi raunverulega trúað að þetta væri það besta sem völ væri á.  Aðrir, sérstaklega þeir sem bjuggu á stöðum þar sem möguleiki var að hlusta á erlendar útvarps- eða sjónvarpsstöðvar urðu fljótlega tortryggnari.  En engin af þeim sem ég hef kynnst reis upp eða stóð í andófi, nema ef til vill síðustu mánuðina eða árið af valdaferli kommúnismans í löndum þeirra.

Enginn af þessu fólki sem ég hef kynnst telur sig kommúnista í dag, flestir telja sig í raun aldrei hafa verið það.  Margir þeirra eru yfir sig hissa og hneykslaðir að Marx-Leninistar skuli enn finnast á kjörseðlum hér í Kanada. En þau hafa öll gert upp þessa fortíð, í það minnsta við sjálfan sig og þegja ekki yfir henni, þó þau auglýsi hana ef til vill ekki heldur. 

En þróunin gengur mishratt fyrir sig. Í N-Kóreu mjakast hún lítt áfram og gjaldið sem íbúarnir þurfa að greiða er himinhátt en gamalkunnugt.

Þessar hugleiðingar sem hér eru urðu til þegar ég hitti einn þessara gömlu kommúnista og hann kastaði fram þeirri spurningu hvað ég héldi að ég væri að gera í dag,  ef ég hefði búið alla mína ævi í N-Kóreu?

Við slíkum spurningum er auðvitað ekki til neitt einhlítt svar.  Stutta svarið er þó á þá leið, að ég væri mjög sorgmæddur.  Annað hvort yfir ótímabærum dauða hins mikla Leiðtoga, eða þá yfir að vera í fangabúðum. 

Því miður eru valkostir N-Kóreubúa ekki mikið fleiri.

 


mbl.is Efast um að Kim Jong-il hafi dáið í lestinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll G. Tómas og takk fyrir áhugaverðan pistil, en já öfgarnar eru því miður í báðar áttir, hægri og vinstri. Ég sem jafnaðarmaður el þá von í brjósti að mannkynið geti farið bil beggja án allra öfga. Við Íslendingar völdum því miður á láta öfgasinnaðan hægri mann leiða þjóð okkar til öfga kapítalisma og sjáið hvert það leiddi okkur, þjóð okkar er í rústum eftir frjálshyggju fyllerí Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Ég ætla alls ekki að verja öfgakomuisma en það var samt margt sem var gott í komunista hugsjóninni en því miður þurftu öfgamenn að eyðileggja það. Það sem við verðum að hafa í huga er það, að það er fullt að fólki sem er tilbúið að sveigja heilu hugsjónirnar sér til handa.

Helgi Rúnar Jónsson (IP-tala skráð) 22.12.2011 kl. 12:09

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þeir sem tala um ástandið í N-Kóreu og ástandið á Íslandi sem öfgar í báðar áttir eiga bágt að mínu mati.  Þeir annað hvort skilja ekki hvað er að gerast í kringum þá, eða hafa ákveðið að loka augunum fyrir því, vegna þess að það hentar ekki pólítískri trú þeirra.

Í hverju var öfgakapítalisminn fólgin á Íslandi?

Er öfgakapitalismi í landi þar sem innlend lög og reglur fylla marga hillumetrana og landið hefur þar ofan í tekið upp þó nokkurn part of reglugerðarverki Evrópusambandsins?  Reglugerðarverk Evrópusambandsins gilti meðal annars um starfsemi Íslenskra banka.  Starfandi eftir því fóru þeir í víking til landa "Sambandsins" og til að fá skorið úr hvort eftir því regluverki hafi verið farið er Íslandi nú stefnt fyrir dómstóla af ESA.

En slagorðasmiðir vinstri manna telja það henta sínum málstað að tala ýmist um öfga kapítalisma, eða öfga frjálshyggju.  Því miður eru margir sem taka undir sönginn án þess að hugleiða málið frekar.  Það eru jú allir á móti öfgum, ekki satt?

Það hafa ýmsir í gegnum tíðina talað um hvað það sé margt gott í kommúnismanum, en þeir eru líklega færri sem hafa fundið það á eigin skinni. 

Á mínum unglingsárum átti ég margar rökræður við vinstri sinna, stundum  rifrildi eins og gengur á því æviskeiði.  Margir vörðu kommúnismann, en engin vildi þá enn verja Sovétríkin.  En oftast var því bætt við að þó að Sovétríkin væru hálfgert hörmungarríki, þó væru Bandaríkin sko ekki skárri.    Ég hygg að sagan hafi fært okkur svar við slíkum rökfærslum.  En það má alltaf finna annað land í jöfnuna.

G. Tómas Gunnarsson, 22.12.2011 kl. 12:59

3 Smámynd: Snorri Hansson

Þakka þér fyrir G.Tómas Gunnarsson

Snorri Hansson, 22.12.2011 kl. 15:31

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það kemur vel á vondan eftir þessa frábæru grein að fyrstur mæti Helgi fyrir hönd öfgatrúar ESB útópíunnar. Sameiningarídeológía 21. aldarinnar, sem á sér systur og bræður í öðrum skyldum útópíum á 20. öld.  Enn láta menn af trúarhita glepjast af patentlausninni fyrir alla. Nú er það hamingjuland glóbalismans og einsleits alræðis embættismanna er það sem koma skal og ekki vantar einfeldninga til að þramma gæsaganginn í humátt. Segi ekki annað.

" Að vísu skrípaveröld með kjarnorkuvopn, en skrípaveröld eigi að síður. "

Hér skellti ég uppúr. Alveg yndislega góð setning.

Jón Steinar Ragnarsson, 23.12.2011 kl. 04:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband