Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Þeir kannast við Jón Bjarnason í Brussel

Þeir sem spinna umræðuþráðinn á Íslandi halda því fram nú að þeir séu ekki margir sem komi til með að sakna Jóns Bjarnasonar, nú þegar hann hverfur úr embætti ráðherra.  Hvað þá að einhverjir komi til með að gleðjast í Brussel nú þegar Jóni hefur verið bolað í burtu.  Telja orð Jóns dæmi um upphafna sjálfsmynd hans.  Ef til vill fylgjast umræðumennirnir ekki mjög vel, eða þá að þeir hafa kosið vísvitandi að gera lítið úr Jóni.

En þeir eru nú ekki margir Íslensku stjórnmálamennirnir sem hefur verið minnst á í ræðum á Evrópuþinginu. Hvað þá líkt við Stalín.  Eða sagt í ræðu á sama þingi að ræðumaður hafi heimilidir fyrir því að Íslenskur ráðherra sé að hverfa úr ríkisstjórn.  En þó undarlegt megi virðast á þetta við um Jón Bjarnason.  Það er því alls ekki ólíklegt að einhverjir séu kátir í Brussel um áramótin.

Persónulega er ég ekki aðdáandi Jóns Bjarnasonar, en það segir ef til vill meira um núverandi ríkisstjórn, en Jón Bjarnason hve margir skuli sakna þess að hann sé ekki lengur í ríkisstjórn.


Stalín er ekki hér

Hversu mikill léttir verður það nú fyrir utanríkisráðherra og samninganefnd Íslendinga að geta hafið nýja árið með því að tilkynna í Brussel: 

No Stalin, no more.  We kicked him out of the ministry on New Years Eve, just as you did insist.  Afterwards everybody in Iceland shot up fireworks to celebrate our good deed and in support of the European Union.  Yes, the Icelandic people are so happy that we are joining EU, that they bought  loads of fireworks.

Þær eru nokkuð merkilegar breytingarnar sem verða á ríkisstjórninni á morgun.  Sumir gleðjast yfir fækkun ráðherra, en það er auðvitað umdeilanlegt markmið eins og margt annað.  Eru stærri ráðuneyti betri ráðuneyti?  Er sparnaðurinn eitthvað sem heitið getur, ef ráðherra þarf einfaldlega fleiri aðstoðarmenn til að sinna fleiri málaflokkum?

En það tryggir að færri raddir heyrast við ríkisstjórnarborðið, sem ef til vill er orðið sérstakt takmark nú á dögum.  Þegar ráðuneytin eru fleiri krefst það samvinnu og samkomulags fleiri en eins ráðherra, það er gamli tíminn.  Best að sem flestar ákvarðanir séu á sömu hendi.

Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að núverandi mannabreytingar eigi fyrst og fremst að tryggja að enginn standi upp í hárinu á leiðtogunum, eða kasti skugga á þá.  Samnefnararnir verða lægri en áður.

Eða eins og Garfield sagði:  If you wanna look thin, hang around fat people.

P.S. Og svo er Steingrímur að færa sig til til þess að hafa betri stjórn á því sem gerist varðandi dómsmál ESA gegn Íslendingum vegna IceSave. 


mbl.is Látinn víkja vegna ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin: Vetur í byrginu

Það gera sér flestir grein fyrir því að ríkisstjórnin er þreytt og rúin trausti.  Í raun hefði hún átt að segja af sér eftir fyrstu IceSave þjóðaratkvæðagreiðsluna.  Líklega hefði engin ríkisstjórn "í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við", ákveðið að sitja sem fastast eftir slíka útreið.

En Íslenska ríkisstjórnin ákvað þess í stað að skríða ofan í byrgið og stjórna þaðan eins og ekkert hefði í skorist.  Úr byrginu líta málin betur út og halda má áfram að vonast eftir töfralausnum (eins og "Sambandsaðild") eða liðsauka.  Séð úr byrginu er bjart framundan, sé horft þaðan eru  fólkflutningar frá Íslandi eins og í meðalári, og í byrginu telja allir að óróleikanum á mörkuðum í Evrópu ljúki fljótt eftir áramótin.  Í byrginu er erfitt að greina á milli hvort að landið er að rísa, eða byrgið er að síga.

En dvölin í byrginu getur tekið á taugarnar.  Sérstaklega þegar óhjákvæmilegur ósigurinn færist nær og nær, töfralausnirnar eru ekki að virka og upplausn eykst í eigin liði.

Því lengur sem dvalið er í byrginu fjölgar röddunum sem efast um leiðtogann og veruna í byrginu.  Efinn um töfralausnirnar láta sömuleiðis á sér kræla.  Nú talar æðsti valdamesti maðurinn í Samfylkingunni um að það þurfi að fara að skipta um formann og endurskoða stefnuna.  Eins og eðlilegt má telja telur hann helst að einn af hans stuðningsmönnum komi til greina í embættið.

En það er nauðsynlegt fyrir Samfylkinguna að vinna tíma.  Tíma til að komast upp úr byrginu, skipta um forystu og undirbúa kosningar.  Því verður allt lagt í sölurnar til að styrkja ríkisstjórnina svo hún geti haldið velli.  Það gæti hentað þingmönnum Hreyfingarinnar vel, lengt dvöl þeirra á þingi, sem er ekki líklegt að haldi áfram eftir næstu kosningar.

En það er líklegt að veturinn i byrginu verði erfiður.  Fylgið mun líklega halda áfram að dragast saman og ólíklegt er að markaðsóróinn láti undan síga í Evrópu enn um sinn og einu markverður fréttirnar sem borist hafa af aðlögunarviðræðum við "Sambandið" er að það gæti ef til vill styrkt sæstreng til að Íslendingar gætu selt "Sambandslöndum" rafmagn. Líklega birti þó yfir í byrginu við þá fregn.

Það er flestum utan byrgisins (og sumum innan þess) ljóst að eðilegast væri að kosningar færu fram fljótlega á nýja árinu.  Ríkisstjórn sem hefur misst allt traust  og hugsar til þess helst að ná að stagbæta tæpan þingmeirihluta sinn á segja af sér og láta almenning um að kjósa sér nýja forystu, nýja ríkisstjórn.

En líklegra er þó að kosið verði að berjast áfram á meðan stætt er, en það verður að öllum líkindum erfiður vetur.  Ekki síst eftir að byrjað verður að berjast um hver eigi að fá að leiða Samfylkinguna út úr byrginu.


mbl.is Össur: Endurnýja þarf forystuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimspeki 101: Ef heimurinn væri gerður úr pítsu

Börnin mín tvo, fimm og sjö ára ræða sín á milli um aðskiljanlegustu hluti. Þó að vissulega fari mikill tími í að ræða leikföng, bíla, Lego og aðra mikilvæga hluti þá gefa þau sér stundum tíma fyrir léttara hjal. Þannig heyrði ég af slysni þetta samtal í gær.

Dóttir mín, 5. ára sagði við bróður sinn: Væri það ekki frábært ef heimurinn væri búinn til úr pítsu?

Og drengurinn 7. ára svaraði: Ég held að það væri ekki gott, það væri ábyggilega einhver búinn að klára hana.


Að borga Beckham

Hér og þar um netheima má lesa um hneykslun manna á hugsanlegum launagreiðslum knattspyrnugoðsins David Beckham, ef hann flytur sig um set til Franska knattspyrnuliðsins Paris St. Germain.

Perónulega hef ég ekki mikinn áhuga fyrir íþróttum en ég deili þó ekki þessum áhyggjum yfir því að íþróttafólk fái ríflega borgað.  Vissulega er um að ræða stjarnfræðilegar upphæðir, en það gildir það sama í mínum huga og um svo margt annað, ef launagreiðandinn telur hann þess virði, þá læt ég það ekki fara í taugarnar á mér, svo lengi sem það er ekki ætlast til að ég leggi fram hluta af upphæðinni. 

Vissulega er hópur fólks sem hefur "slegið í gegn" sem fær gríðarlegar upphæðir að launum.  Upphæðir sem venjulegt fólk eins og sá sem hér fer höndum um lyklaborðið á takmarkaða möguleika á að ná.  Flestir myndu líklega segja enga.

Er ekki J. K Rowland (og ýmsir aðrir rithöfundar) vel komin af sínum auðæfum?  Harry Potter hefur verið prentaður í slíku upplagi að sjálfsagt stafar regnskógunum hætta af vinsældum bókanna.  Kvikmyndaréttur, leikföng og annað slíkt skila líklega vænum upphæðum að auki.  Ekki get ég séð nokkuð athugavert við tekjur hennar.

Nú nefna mætti marga tónlistarmenn og kvikmyndaleikara sem milljónir dollara fyrir nokkra vikna vinnu.  Er einhver ástæða til þess að láta það fara í taugarnar á sér?  Hér í denn borgaði ég einhvern part launum þessa fólks, enda nokkuð duglegur við að fara í bíó og kaupa hljómplötur.  Geri það reyndar að nokkru marki enn, þó að það sé meira í gegnum DVD markaðinn í dag.  Persónulega læt ég þetta ekki fara í taugarnar á mér.

Nú svo eru ýmsir sem ná því að selja olímálningu sem þeir hafa sett á striga fyrir fúlgur fjár eða fatahönnuðir sem ná að selja föt úr hráefnum sem kosta nokkra tugi þúsunda á verulegu "yfirverði" ef svo má að orði komast.

Það má svo vel vera að Paris St. Germain kaupi köttinn í sekknum.  Að Beckham trekki ekki nóg á völlinn, að sjónvarpinu, eða hann selji ekki nógu margar treyjur fyrir liðið (verð á slíkum "official" varningi er kapítuli út af fyrir sig) og nái þannig ekki að borga fyrir sig.

En það klagar ekkert upp á mig, ekki frekar en að Ítalskir fatahönnuðir selji jakkaföt á "yfirverði", eða að Lady GaGa raki saman fé (sem mér finnst hún reyndar fyllilega eiga skilið).

En mig undrar það ekkert að hugsanleg laun Beckhams nái að æsa upp Franska sólsialista, né skoðanasystkyni þeirra víða um veröldina.


Fréttir um aðildarviðræður um sæstreng.

Nú hafa aðlögunarviðræður Íslendinga að Evrópusambandinu staðið í u.þ.b. tvö og hálft ár (sem er reyndar all nokkuð lengri tími en aðildarsinnar töldu flestir að þær þyrftu að taka í heild sinni.).

Og hvað skyldi nú hafa áunnist á þessum árum?

Ef marka má grein sem leiðtogar Íslensku samninganefndarinnar skrifa í Fréttablaðið undir fyrirsögninni Staðan í ESB viðræðunum er það helsta sem fram hefur komið að "Sambandið" gæti hugsanlega styrkt Íslendinga í þeirri viðleitni að selja raforku til lands "Sambandsins" um sæstreng. eða eins og segir í greininni:

Fram hefur komið í viðræðunum að Evrópusambandið lítur svo á að lagning sæstrengs frá Íslandi til Evrópu gæti fengist skilgreint sem forgangsverkefni í orkuflutningsáætlun sambandsins og þannig gæti Ísland notið stuðnings við slík áform.

Það er reyndar merkilegt að fylgjast með "Sambands" umræðunni, því þessi málsgrein sem segir að sæstrengur gæti fengist skilgreindur sem forgangsverkefni, verður Eyjunni, sem er eð vísu þekkt fyrir annað en hlutlægni hvað varðar fréttaflutning af "Sambandinu, tilefni til fyrirsagnarinnar:

Ekki er að efa að málfarsfrömuðir og fjölmiðlagagnrýnendur munu taka slíkan fréttaflutning föstum tökum.  Rétt er þó að taka fram að í fréttinni er farið með rétt mál þó að fyrirsögnin sé óneitanlega röng.  Henni líklega ætlað að ná til þeirra sem aðeins lesa fyrirsagnir.

En síðan má auðvitað velta því fyrir sér hversu mikla þýðingu hugsanlegur styrkur við sætreng hefur.  Ég verð að viðurkenna að ég er ekki þess megnugur að rökræða um hvort að sæstrengur er tæknilega séð raunhæfur kostur í dag, eða verði það á næstu árum eða áratugum.

En ég vil benda á gott blogg Bjarna Jónssonar sem ég rakst á hér á blog.is, nokkru fyrir jól.

En svo er það pólítíska ákvörðunin, hvort að Íslendingar kjósi frekar að Íslenska orkan lýsi upp hús og knýji framleiðslu og iðnað erlendis, eða hvort þeir kysu frekar að hún nýtist til að byggja upp framleiðslu innanlands og efli þannig atvinnu og skjóti fleiri stoðum undir Íslenskt atvinnulíf.

Þær orkulindir sem Íslendingar vilja virkja eru ekki stórar í alþjóðlegum samanburði, eða á markaði sem telja hundruði milljóna.  En þær eru gríðarmiklar fyrir litla þjóð.

Slík umræða er að miklu leyti sama eðlis og umræða um hvort að Íslendingar vilji fyrst og fremst flytja út fisk, eða vinna hann frekar og flytja frekar út fiskrétti.


Skuldir, skuldir alls staðar

Flest stærri ríki heims eru skuldum vafin.  Stjórnmálamenn lofa linnulítið upp í ermar kjósenda og nú er svo komið að reikningarnir eru ekki lengur sendir á börnin, enda nokkuð ljóst að þau verða ekki borgunarmenn fyrir skuldunum, heldur er byrjað að gefa út víxla á barnabörnin.  Þetta er vel sjáanlegt í ríkjum eins og Frakklandi, þar sem fjárlög hafa ekki verið í plús í hartnær 40 ár, en mörg önnur ríki hafa ekki staðið sig síður í skuldasöfnuninni, þó að fjárlögin hafi rambað í plús stöku sinnum.

Eitt af fyrirsjáanlegum vandamálum margra Evrópuríkja er að það er ekki útlit fyrir að barnabörnin verði mjög mörg, fæðingartíðni hríðfellur í mörgum þeirra.  Margir vonast til að innflytjendur geti leyst þann vanda, en það er mikið deiluefni í mörgum Evrópuríkjum.  Þar standa Þjóðverjar heldur betur en margir aðrir, enda hafa innflytjendur flykst til Þýskalands undanfarin misseri, ekki síst frá öðrum eurolöndum eins og t.d. Grikklandi og Spáni.

En skuldavandinn er raunverulegur og lætur finna fyrir sér víðast um lönd.  Það að Þýskaland skuldi 80% af vergri landsframleiðslu sinni eins og segir í fréttinni er ekkert grín, en þó hlægilegt hlutfall miðað við ýmis önnur lönd. 

En Þýskaland er þó í mun betri stöðu en hin euroríkin, enda bera skuldir þess  lægri vexti en annara euroríkja.  Markaðir hafa enn mikla trú á hinu útflutningsdrifna hagkerfi Þýskalands.  Þýskaland er sömuleiðis það euroríki sem kemst næst því að hafa sína eigin mynt, enda efnahagsákvarðanir á eurosvæðinu að miklu leyti teknar miðað við Þýskaland, sem er ekki óeðlilegt þar sem um stærsta hagkerfið er að ræða.

Andstaða Þýskalands við sameiginlega skuldabréfaútgáfu euroríkjanna verður að skoða í þessu ljósi.  Þó að vaxtakrafa á önnur ríki gæti lækkað nokkuð, myndi vaxtakrafan á Þjóðverja hækka og eins og sést á upphæðunum sem um er að ræða munar um hvern vaxtapunkt.

En það bendir flest til að komið sé að skuldadögunum, að það verði ekki lengur hægt að lofa upp í ermar skattgreiðenda, nú verði að taka fram stóru niðurskurðarhnífana.  Allt of mörg ríki hafa lifað um efni fram.  En vissulega munu stjórnmálamenn eftir fremsta megni draga úr niðurskurðinum enda vill enginn stjórnmálamaður vera þekktur fyrst og fremst fyrir niðurskurð. 

Þá er nú betra að skuldsetja barnabarnabarnabörnin.

 


mbl.is Skuldar 2.000 milljarða evra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grundvallarréttindi

Það er bæði eðiliegt og sjálfsagt að eigendur þess fjár sem er í lífeyrissjóðunum hafi meira að segja um það hverjir veljast til þess að stjórna sjóðunum.  Það val á auðvitað að vera alfarið þeirra.

Greiðslur í lífeyrissjóði er hluti af launakjörum og tilheyrir launþeganum.

Sérstaklega ánægjulegt að sjá að lagt er til að atkvæðavægi fari eftir inneign.  Þannig fá þeir sem hafa greitt lengi og eiga háa inneign, meira vægi en þeir sem nýbyrjaðir eru að greiða í sjóðinn. 

Gott mál og tímabært að slíkt sé lagt fram á Alþingi.


mbl.is Sjóðsfélagar kjósi stjórnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Micheal O'Leary á ráðstefnu um hugvit og nýjungar í Brussel

Ég rakst á þetta myndskeið á netinu i morgun.  Micheal O'Leary forstjóri Írska flugfélagsins þáði boð um að tala á ráðstefnu um hugvit og nýjungar á vegum Evrópusambandsins í Brussel.

O'Leary er nokkuð þekktur fyrir að tala tæpitungulaust, stundum kallaður "strigakjaftur".  En í ræðu sinni lætur hann "Sambandið" fá það óþvegið.

En eins og kemur fram í enda myndbandsins má þakka "Sambandinu" það að flugfélög innan "Sambandsins" geti flogið hvert sem er innan "Sambandsins".  O'Leary vill þó meina að eftir þá góðu gjörð, hafi "Sambandið" eingöngu þvælst fyrir.

Þetta leiðir aftur hugann að því í hvaða tilgang "Sambandið" hafði og hefur og í hvaða áttir það stefnir.

Markmiðið um að auka viðskipti yfir landamæri og ryðja úr vegi hindrunum hefur vikið fyrir "stórum" pólítískum hugsjónum.  "Sambandið" er ef til vill ekki lengur samband, heldur sjálfstætt fyrirbæri með eigin pólítísk markmið og hugsjónir. 

En myndbandið er viriklega fróðlegt áhorfs.


Jólin koma

Hann var bjartur og sólríkur Aðfangadagsmorgunin hér í Toronto.  Heiðskýr himin og sólín skín, örlítið kalt, sem gerir inniveruna enn þægilegri.

Börnin voru auðvitað vöknuð fyrir aldir, síðasti skóladagurinn í gær og allt jólafríið framundan, sem og auðvitað sjálf jólin.

Það er mikil gæfa fyrir Íslenska þjóð (sem og þær norrænu) að orðið jól skuli vera notað yfir þessu miklu hátíð sem haldin er í miðju skammdeginu og markar miðpunkt þess.  Hátíð sem fagnar því að myrkrið er að hörfa og birtan sígur á jafnt og þétt.  Hátíð frelsunar, þakklætis og umfram allt samveru.  Jólín eru tími sem við notum til að rifja upp gamlar minningar og búa til nýjar.

Allir geta haldið og fagnað jólum, hver á sinn hátt.  Jólin eru ekki eign neinnar stofnunar eða neins eins hóps,  þau eru margslungin og hver getur fagnað þeim með sínum hætti.  Engin veit með vissu uppruna orðsins jól, en ýmsar tilgátur hafa komið fram.  Allt frá því að tengja orðið við fórnir til þess að orðið eigi uppruna sinn í gleði eða skemmtun og sé í raun skylt enska orðinu jolly, eða jafnvel franska orðinu joli.

En eins og stendur í kvæðinu:  Eitt er víst að alltaf verður, ákaflega gaman þá.

Það er ósk Bjórárfjölskyldunnar að allir megi eiga friðsæl og skemmtileg jól.

Við óskum öllum nær og fjær gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband