Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011
17.12.2011 | 21:29
Nokkrar góðar hugmyndir að skoðanakönnunum
Það er kunnara en frá þurfi að segja að hvernig spurningar eru orðaðar getur skipt meginmáli um niðurstöður skoðanakannana.
Hér neðst á síðunni hlusta á viðtal við Rúnar Vilhjálmsson prófessor í félagsfræði um uppbyggingu spurninga í skoðanakönnunum. Viðtalið er úr Síðdegisútvarpinu á Rás 2.
Ég dundaði mér svo við það í nokkrar mínútur að búa til spurningar fyrir skoðanahannanir. Hverjum sem er er heimilt að nota þessar spurningar mér að meinalausu og án þóknunar. Mér þætti þó vænt um að fá sendar niðurstöðurnar ef spurningarnar eru notaðar.
Spurning: Hvort myndir þú heldur kjósa: A) Slíta viðræðum við Evrópusambandið og nota fjármunina sem annars færu í viðræður til að hjálpa bágstöddum Íslendingum? B) Halda áfram viðræðum við Evrópusambandið?
Spurning: Hvort myndir þú heldur kjósa: A) Að Jón Bjarnason sé ráðherra? B) Að Jón Bjarnason verði látin víkja sem ráðherra að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu?
Spurning: Hvort myndir þú heldur kjósa: A) Slíta viðræðum við Evrópusambandið? B) Halda áfram viðræðum við Evrópu sambandið og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn, en hún væri ekki bindandi fyrir Alþingi sem myndi í raun ákveða hvort af inngöngu yrði eða ekki?
Spurning: Hvort myndir þú heldur kjósa: A) Að Ísland standi utan Evrópusambandsins? B) Að Ísland gangi í Evrópusambandið og Össur Skarphéðinsson fái vel launað starf á vegum "Sambandsins" í Brussel?
Spurning: Hvort myndir þú heldur kjósa: A) Að Jóhanna Sigurðardóttir haldi áfram sem forsætisráðherra? B) Að Jóhanna Siguðardóttir láti af störfum sem forsætisráðherra eftir að kosningar væru haldnar?
Spurning: Hvort myndir þú kjósa: A) Að fá Fréttablaðið borið heim til þín? B) Að hætta að fá Fréttablaðið heim til þín og draga þannig úr óþarfa pappírsnotkun?
Spurning: Hvort myndir þú kjósa: A) Að Steingrímur J. Sigfússon hætti sem fjármálaráðherra? B) Að Steigrímur J. Sigfússon sé áfram fjármálaráðaherra og hækki skatta?
Spurning: Hvort myndir þú kjósa: A) Að Jóhanna Sigurðardóttir hætti sem forsætisráðherra? B) Að Jóhanna Sigurðardóttir sé áfram forsætisráðherra og Íslendingar haldi áfram að flytja búferlum til Noregs?
Spurning: Hvort myndir þú kjósa: A) Að Ísland standi utan við Evrópusambandið? B) Að Ísland gangi í Evrópusambandið og Evrópusambandið ákveði einhliða hlutdeild Íslendinga í makrílkvótanum?
Þetta er aðeins nokkur dæmi um stór álitamál samtímans. Ekki þarf að draga í efa að niðurstöðurnar yrðu fróðlegar og kannanir sem þessar skemmtilegar og gætu vakið mikla athygli og aukið fjölmiðlalestur og áhorf, ekki síst ef frjálslega yrði unnið úr niðurstöðunum.
En fyrst og fremst er þetta sett fram til skemmtunar - góða helgi
17.12.2011 | 01:24
Pólítísk réttarhöld sem standast enga siðferðislega skoðun
Ég viðurkenni það hreint út að ég hef ekki hugmynd um hvort það stenst lög að Alþingi álykti eða skori á saksóknara að draga kæruna á hendur Geir H. Haarde til baka.
En það er enginn vafi á því í mínum huga að siðferðið á bak við ákvörðun Alþingis að kæra Geir einan og ákveða að hann einn standi fyrir dómurum og svari fyrir það sem ekki var gert eða misfórst í aðdraganda bankahrunsins, stenst enga siðferðislega skoðun.
Það er bent á að það þurfi uppgjör, það þurfi að skera úr um ráðherraábyrgð. Hvernig er hægt að skera úr um ábyrgð starfandi ráðherra (í fleirtölu) á bankahruni án þess að bankamálaráðherra sé á meðal þeirra stefndu?
Hvernig getur það samkvæmst siðferðisvitund nokkurrar þjóðar að sá bankamálaráðherra sem stóð vaktina í aðdraganda bankahruns sitji á Alþingi, á meðan forsætisráðherra í sömu ríkisstjórn hefur verið kallaður fyrir dóm?
Ég hygg að svarið sé að það samræmist ekki siðferðisvitund nokkurrar þjóðar, en það virðist samræmast siðferðisvitund nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar, sem svo greiddu atkvæði þegar ákveðið var hverjir yrðu kallaðir fyrir Landsdóm.
Þeirra siðferðisvitund er á þann veg að ekkert sé athugavert að fyrrum bankamálaráðherra sitji í þingflokki þeirra á meðan fyrrum forsætisráðherra sé kallaður fyrir dóm. Þingflokkur Samfylkingarinnar gerði bankamálaráðherrann fyrrverandi meira að segja fremstan á meðal jafningja í upphafi þessa kjörtímabils, þegar þingflokkurinn gerði hann að formanni sínum.
Um sekt eða sakleysi síns fyrrum formanns var sömuleiðis enginn siðferðisvafi hjá þeim þingmönnum Samfylkingarinnar sem þótti þó sjálfsagt að senda Geir H. Haarde fyrir Landsdóm.
Ef til vill er best að málið gangi sinn veg úr því sem komið er, stóran hluta þess málatilbúnings sem Alþingi lagði af stað með hefur verið vísað frá. Í mínum huga er lítill vafi á því að Geir verður dæmdur saklaus af þeim ákærum sem eftir standa.
En það er engin ástæða til að gleyma því að fyrir dyrum standa fyrstu pólístísku réttarhöldin á Íslandi. Réttarhöld sem eru drifin áfram af pólítískri hefnigirni og undarlegri siðferðislegri afstöðu ýmissa þingmanna.
Nú lofa allir Neyðarlögin og sjá hve vel þau hafa reynst Íslendingum. Þeim er jafnvel lof sungið af þeim sem greiddu atkvæði með því að senda Geir fyrir Landsdóm "með sorg í hjarta". En þingflokkur Vinstri grænna greiddi þeim ekki atkvæði sitt. Vinstri grænir vildu ekki bera ábyrgð á þeim.
Ef til vill hefði farið best á því að allir ráðherrar í ríkistjórn þeirri sem sat í aðdraganda hrunsins hefðu verið sendir fram fyrir Landsdóm og úr hefði verið skorið hvernig verkakskipting hefði verið og hver hefði haft hvað á sinni könnu og hvaða upplýsingar þeir hefðu komið með á ríkisstjórnarborðið, eða haldið eftir. En þá hefði líklega vandast málið, því tveir af þeim sitja í núverandi ríkisstjórn, báðir í umboði Samfylkingarinnar.
Hér má sjá hvernig atkvæði féllu á Alþingi þegar greidd voru atkvæði um hverjir ættu að standa frammi fyri Landsdómi. Ég hvet alla til að muna hvernig atkvæðagreiðslunni var háttað og leggja nöfn þeirra þingmanna á minnið sem lögðu meiri áherslu á flokkspólítík en réttlæti með atkvæðum sínum.
P.S. Að draga Geir H. Haarde einan fyrir Landsdóm má líklega líkja því saman að ef Landsdómur yrði kallaður saman vegna þess hvernig núverandi ríkisstjórn hefur haldið á IceSave málinu, þá væri aðeins Jóhanna Sigurðardóttir kölluð fyrir dóminn. Hún er jú forsætisráðherra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.12.2011 | 22:28
Íslenska aðferðin: Við fáum lán í bankanum og kaupum hlutabréf í bankanum, það er ekki hægt að tapa á því?
Hér er að vísu ekki um hefðbundin banka að ræða, en þetta er þó býsna svipað. Íslendingar lenda í fjárhagsvandræðum, fá lán frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Íslendingar hafa ekki borgað upp lánin og eiga nokkurn gjaldeyrisvarasjóð, að öllu leyti í skuld. Íslendingar hækka stofnframlag sitt til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Framlagið er í raun reitt fram með peningum sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn lánaði Íslandi.
Það er reyndar ekki að efa að Barroso mun klappa Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyn kumpánlega á öxlina næst þegar hann hittir þau og þakka þeim fyrir framlagið, þó að það sé ekki hátt (á mælikvarða "Sambandsins") sé það nefnilega hugarfarið sem gildir.
Það fer nefnilega fram "lúsaleit" að fjármagni fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að nota í þeim vandræðum sem euroþjóðirnar eru búnar að koma sér í. Sérstaklega vegna þess að allt bendir til þess að það verði vandræði með að leggja fram þá 200 milljarða euroa sem euroþjóðirnar komu sér saman um að leggja til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins svo hægt yrði að aðstoða euroþjóðirnar.
Það er auðvitað vert að velta þessum áætlunum ríkisstjórnarinnar vandlega fyrir sér, þegar seðlabankastjóri er nýbúinn að gefa þá yfirlýsingur að auka þurfi gjaldeyrisforðann.
En auðvitað sér ríkisstjórnin enga ástæðu til að láta svoleiðis smáatriði þvælast fyrir því að koma "Sambandinu" til aðstoðar. Það má þá alltaf hækka skattana ef það þarf að fá meiri pening.
Hvað skyldi vaxtakostnaður Íslendinga af framlagi sínu til Alþjóða gjaldeyrissjóðsinsv verða hár, áður en náðst hefur að borga upp skuldirnar við Alþjóða gjaldeyrisjóðinn?
9 milljarðar á reikning hjá AGS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.12.2011 | 14:42
Það er víða hætta á lækkun lánshæfismats
Það er ekki bara yfir euroríkjum sem matsfyrirtæki setja upp vandlætingarsvip og setja viðkomandi á gátlista með undirliggjandi hótun um lækkun lánshæfismats.
Í gær var stærsta fylki (eða hérað) Kanada, Ontario sett á gátlista og horfum þess breytt úr stöðugum í neikvæðar. Einkunn Ontario er AA1.
Í sjálfu sér held ég að þetta hafi komið fáum á óvart. Skuldir og rekstrahalli hafa aukist töluvert og Ontario hefur flust úr "have province" yfir í "have not province" flokk hjá Kanadíska alríkinu.
Skuldasöfnun hjá opinberum aðilum víðast hvar í heiminum hefur aukist hröðum skrefum, enda hefur aðgangur að fjármagni verið því sem næst ótakmarkaður og kostnaður lítill. Það eru kjöraðstæður fyrir eyðslugjarna stjórnmálamenn sem lofa upp í ermar hins opinbera.
En það kemur ætíð að skuldadögum, og það er engu líkara en víðast hvar sé stefnan inn í þá miðja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.12.2011 kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2011 | 01:19
Að vilja ganga í Evrópusambandið sem var
Það hafa birst í blöðum nú undanfarna daga greinar eftir starfsmenn Alþýðusambands Íslands þar sem þeir fara stórum orðum um vaxtastig á Íslandi og bera það saman við meðaltal eurolandanna og reikna síðan út stórar tölur um hvað Ísland hefði sparað sér í vaxtagreiðslur ef það hefði notið fyrrnefnds meðaltals.
Þeir vilja reikna út frá fortíðinni, það er engu líkara en þeir vilji ganga í Evrópusambandið sem var. Hvers vegna reikna þeir ekki út frá þeim veruleika sem blasir við í dag?
Það er liðin sú tíð að vaxtamunur á milli skuldabréfa eurolanda sé lítill. Meira að segja vaxtamunur á milli Þýskalands og Frakklands hefur aukist hröðum skrefum.
Það er liðin sú tíð að ríkisskuldabréf séu álitin áhættulaus fjárfesting og skuldabréf Grikklands, Portugals, Spánar eða Írlands séu álitin fyrst og fremst "eurobonds".
Staðreyndin er sú að gallar eurosins sem margir höfðu bent á, en flestir neitað að horfast í augu við, blasa nú við öllum. Þess vegna eru euroþjóðirnar í vandræðum, þess vegna blasir lækkun lánshæfismats við flestum euroþjóðum, þess vegna þurfa æ fleiri euroþjóðir að horfast í augu við síhækkandi lántökukostnað.
Það er meðal annars út af þessum vandræðum sem margir eru að krefjast þess að gefin verði út sameiginleg skuldabréf allra euroríkjanna. Og út af þessum sömu vandræðum sem betur stöddu euroríkin vilja alls ekki fallast á þá lausn. Því þó að hún kunni að hífa verr stöddu euroríkin upp, þá togar hún betur stöddu euroríkin niður. Heilbrigð skynsemi segir öllum að slík verði niðurstaðan, en því miður hefur hún ekki verið höfð að leiðarljósi við innleiðingu og uppbyggingu eurosins. Þar réði pólítíkin ferðinni.
Það sama gildir auðvitað um húsnæðismarkaði. Í framtíðinnni verður ekki talið nóg að lán og veð séu í euroum. Það verður horft á áhættu hvers húsnæðismarkaðar fyrir sig. Því þó að að gjaldmiðillinn sé sá sami, er ekki þar með sagt að veðhæfi fasteignar sé það sama hvar sem hún er staðsett. Húsnæðismarkaðurinn í Cork og í Frankfurt fylgja ekki sömu lögmálum, rétt eins og ýmsir lánveitendur hafa upptötvað undanfarin misseri. Það er ekki nóg að lánin séu í sömu mynt. Þegar ganga á að veðunum eru aðrir hlutir sem skipta máli.
Það er svo hægt að velta því fyrir sér hvort að Íslenski húsnæðismarkaðurinn yrði frekar settur í flokk með Cork eða Frankfurt, eða jafnvel í flokk neðar en svo.
Íslendingar koma aldrei til með að ganga í það Evrópusamband sem var, hugsanlega í það Evrópusamband sem er að verða til, um það stendur deilan og baráttan. Það er til lítils að setja saman reikningsdæmi úr fortíðinni, það verður ekki snúið aftur til hennar.
Eitt er þó rétt í greininni sem ég setti hlekk á hér að ofan, öguð hagstjórn er afar mikilvæg og í raun lykilatriði. Þýskaland er oft tekið sem dæmi um agaða hagstjórn og um leið fyrirmynd annara og ankeri Evrópusambandsins. Skyldi einhver hjá ASÍ hafa reiknað út raunlaunahækkanir í Þýskalandi síðastliðin 20 ár og borið það saman við Ísland. Ég er næsta viss um að það væri ekki síður áhugaverður samanburður en vaxtaprósentur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2011 | 19:45
Seðlabankablúsari Frakka
Oftast nær tala seðlabankastjórar varlega. Torræðir með pókerfés er ímynd þeirra. Fjölmiðlar og starfsfólk fjármálamarkaða rýna í orð þeirra og reyna að lesa úr þeim dulin skilaboð.
Þeim mun meiri athygli vekur það þegar seðlabankastjórar missa "kúlið" og fara að tala tæpitungulaust. Ef þeir eru að ráðast á nágrannalöndin er athygli flestra óskipt.
Þannig var það í dag þegar Christian Noyer, seðlabankastjóri Frakklands lét þau orð falla að Frakkland ætti ekki skilið lækkun á lánshæfimati, en það ætti hins vegar Bretland skilið. Efnahagslífið væri mun verr statt hinum meginn við Ermasundið.
Það er hárétt hjá Noyer, Breskt efnahagslíf er langt í frá í góðri stöðu, en nýtur þó meira trausts á mörkuðum en Frakkland.
Hvers vegna? Stærsti munurinn liggur í því að Bretar hafa sjálfstæðan seðlabanka og eigin mynt. Frakkar hafa hins vegar aðeins "leyfar" af seðlabanka og euroið.
Það er að verða augljósara og augljósara að Frakkar munu aldrei fyrirgefa Bretum að hafa valið að standa utan eurosins. Nú þegar það kemur betur og betur í ljóst að ákvörðun Breta var skynsamleg og varnaðarorð þeirra rétt, verður reiðin æ meiri.
Að hafa haft rétt fyrir sér er nefnilega engin afsökun.
15.12.2011 | 15:21
Hvernig Kanada keyrði sig út úr kreppunni
Kanada hefur verið meira í sviðsljósinu efnahagslega undanfarið en yfirleitt áður. Staðan hér er nokkuð góð, þó vissulega sé margt sem betur megi fara og mörg hættumerki á lofti.
Umræða um Kanadískan efnahag hefur á Íslandi ekki hvað síst tengst hugmyndum um að hagstætt væri fyrir Íslendinga að taka upp Kanadadollar sem mynt. Ég bloggaði örlítið um það fyrir nokkrum vikum.
Þá talaði ég um að ríki og gjaldmiðlar færu upp og niður og það væri ekki langt síðan að talað hefði verið um hættu á því að Kanada færi á höfuðið. Kanadadollarinn hefði ekki þótt merkileg mynt (hann var stundum kallaður The Northern Peso) og ekki verið nema u.þ.b. 60 til 65% af því virði sem hann hefur gegn Bandaríkjadollar í dag.
En Kanada tók sér tak og vann sig út úr kreppunni. Mest megnis með niðurskurði, en skattahækkanir urðu einnig töluverðar. En nú birtist nýverið ljómandi góð grein á vef Scotiabank, sem ber einmitt saman hvernig ástandið var í Kanada og hvernig það er á Eurosvæðinu í dag. Greinarhöfundur telur að í raun hafi Kanada farið í gegnum mun dýpri skafl en flest ríkin á Eurosvæðinu þurfi að horfast í augu við í dag.
Hér hafi ríkt pólítísk upplausn, hætta hafi verið á að ríkja og myntbandalag brotnaði í sundur og efnahagurinn hafi verið bágur. Greinina í heild má finna hér (PDF), en ég birti nokkur dæmi hér að neðan.
The night of the Quebec referendum on October 30th, 1995 portrayed Canada at its worst. The palpable fear in the markets was keyed off deep intertwined concerns about the country's fiscal, economic and political circumstances. Recall this was a period when a respected US financial daily slammed Canada as a banana republic, yet curiously such references to its home country are absent today. Im paraphrasing from memory, but it was also a period when the nations political leaders dismissed capital markets critics as armchair observers who wouldnt know how to run a country. Such a market-unfriendly back drop understandably drew the ire of rating agencies through multiple downgrades, as well as bond markets as the country faced the threat of break up and dissolution of monetary union. Simply put, Canada then was Europe today.
It must also be noted that Canada achieved virtuous fiscal rectitude within the context of a crushing interest expense burden that neither the US nor most of Europe presently face. In the 1990s, total federal public debt charges as a share of GDP soared to about 6.6% by 1990-91 and remained over 5% until the 1997-98 fiscal year in stark contrast to how low interest rates are keeping the US interest expense burden at rock bottom levels today (chart 3). In order to achieve fiscal balance, Canada had to pursue the draconian cuts to program spending noted above as a high interest burden made achieving fiscal balance vastly more difficult. That day may come for the US and core Europe, but current bond markets afford enormous flexibility to global governmentsoutside of peripheral European states which is not being adequately capitalized upon particularly in the United States.
As a consequence to its earlier sacrifices, Canada is today part of a dying breed of AAA rated markets. Its status as the 8th largest global bond market at face value somewhat hides the additional fact that fewer yet are AAA rated among the worlds deepest bond markets. Against the myth that this was easier for Canada to achieve during different times, whats amazing about the Canadian experience is that it was achieved during at least as trying if not more troublesome times after taking account of the full global and domestic picture at the time. The country therefore offers an important lesson to nations like the United States and large parts of Europe that are delaying fiscal repair, and punting the problem down the road toward a more ruinous crisis later. All that said, our message is not one of arrogant neglect toward the present Canadian situation. The country has done well through the crisis, but resting on its laurels and pointing to past painful achievements is no way of ensuring that the country retains its advantages. Todays large Canadian trade deficits, still sizeable fiscal deficits at Federal and some provincial governments, the increase in the general government debt to gdp ratio from a trough of 66.5% in 2007 to about 84% today following pre-crisis accelerated spending and the crisis stimulus response, high refinancing amounts on short-dated debt at combined levels of government, record high house prices by any measure, and record high household leverage are sources of concern. They are, however, mitigated by a strong financial system, little external debt relative to GDP in contrast to Europe,excellent corporate balance sheets, resource riches, and a strong government financial asset position that translates into a net debt to gdp ratio of just over one-third. This mixed assessment of the nations finances for a trade-reliant country that is a price taker across most industries makes it prudent to continue to pursue measures that extend its relative success.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2011 kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2011 | 14:39
Hverflar sem prenta dollara
Það er virkilega fróðlegt að lesa þá fréttaskýringu sem þessi færsla er fest við. Arðsemi virkjana er jú málefni sem skiptir Íslendinga miklu máli og flestir hafa skoðun á. Það er því óhætt að hvetja alla til að gefa sér tíma til að lesa greinina.
Ég held að enginn þurfi að velkjast í vafa um að efanhagslegur ávinningur Íslendinga af virkjunum undanfarin 40 ár eða svo er umtalsverður. Ég hugsa að fáir vildu taka alla stóriðju út úr þjóðarframleiðslunni þessa dagana.
Það má nefna það hér að eigið fé Landsvirkjunar hefur fjórfaldast á undanförnum 10. árum.
En það er að sjálfsögðu af hinu góða ef tekst að fá hærra verð fyrir orkuna og enginn slær hendinni á móti meiri hagnaði.
En það hafa margir velt því fyrir sér hvers vegna til þess að gera nýskipaður forstjóri virtist allt að því tala niður fyrirtækið sem hann stjórnar og tala um að rekstur þess og arðsemi væri svo gott sem óviðundandi.
Ekki ætla ég að fullyrða neitt um þær ástæður, en segi þó að þær fyrstu sem koma upp í huga minn er þjónkun við ríkjandi stjórnvöld, sem réðu hann til starfans og svo hin að það er klókt fyrir nýjan forstjóra að tala um óviðunandi arðsemi, ef hann veit að hún er væntanlega á uppleið hvert ár. Það eru ákveðin klókindi.
Arðsemin mun meiri en vonir stóðu til | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.12.2011 | 18:39
Það stefnir í þjóðarslys.... - Forsætisráðherrann veruleikafirrtur eða heldur að við séum hálfvitar
Ég hlusta og horfi á umræðuna á Íslandi úr nokkurri fjarlægð, en mér finnst ég skynja einvherja breytingu á henni núna undanfarna daga. Það er gríðarlegur pirringur og reiði sem virðist vera að leita leiða til að brjótast út.
Reiðin beinist ekki hvað síst að stjórnvöldum. Æ fleiri virðist upplifa sig í einhverju allt öðru landi en ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru staddir í og lýsa fyrir fólki í fjölmiðlum.
Það virðist ekki vera gjá á milli ríkisstjórnar og almennings, það virðist vera hyldýpi.
Almenningur finnur fyrir miklum niðurskurði og skattahækkunum en sér ekki stjórnkerfið ganga á undan með góðu fordæmi.
Almenningur virðist oft á tíðum upplifa eins og ráðherrar séu að hæðast að sér eða tala niður til sín.
Eðlilega er traust og tiltrú almennings á stjórnvöldum í lágmarki og á stjórnálunum í heild. Ekki að undra, meirihluti kjósenda taldi sig hafa valið besta kostinn í síðustu kosningum.
Hér eru með tvö stutt hljóðskeið fyrir neðan, þau eru ekki lesin upp úr bloggskrifum, þau eru ekki hljóðrituð í kaffistofum, þau eru ekki úr heitu pottunum, þau koma frá einni af stærstu og vinsælustu útvarpsstöðinni á Íslandi, Bylgjunni. Titlarnir segja líklega flest sem segja þarf.
Það stefnir í þjóðarslys ef þetta fólk fær að halda áfram.
Forsætisráðherrann veruleikafirrtur eða heldur að við séum hálfvitar
14.12.2011 | 14:40
IceSave: Alltaf um jólin - Hefði málsókn alltaf orðið niðurstaðan?
Þá er "landsins forni fjandi" kominn á kreik á ný. IceSave kemur öllum í jólaskapið.
En hefði ESA þurft til að vera sjálfri sér samkvæm alltaf þurft að lögsækja Íslendinga? Hefði það þurft að vera niðustaðan þótt að Íslendingar hefðu samið við Breta og Hollendinga?
Það er líklega best að koma með þann "disclaimer" í upphafi að ég er ekki löglærður, hvað þá sérfræðingur í Evrópurétti. Þetta er bara léttar vangaveltur leikmanns snemma á miðvikudagsmorgni.
En málsókn ESA byggir ekki á kröfum Breta og Hollendinga. Hún hlýtur að byggja á lögum þeim sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu (EEA/EES). Það hlýtur því a mega ætla að lögsóknin snúi að því að þeim bókstaf verði að fylgja, skilyrðislaust.
Það ætti þá að vera ljóst að 3. þjóðir af þeim ríflega 30, sem eru á EEA/EES svæðinu geta ekki samið sín á milli um afslátt frá þeim reglum sem gilda á svæðinu. Slíkt getur ekki verið þeirra einkamál. Hafi samningar Íslands, Bretlands og Hollands því innihaldið hinn minnsta afslátt frá reglum EES/EEA svæðisins, eins og ESA metur þær, þá hefði ESA þurft að höfða mál til að fá úr vafanum skorið.
Frá þessum sjónarhóli skiptir litlu hvort samningaleiðin er farin eða málið endar fyrir dómstólum nema að samningurinn hefði innihaldið allt það sem ESA minnist á í stefnu sinni. Munurinn getur aðeins legið í vaxtagreiðslum og afborgunarskilmálum.
En mér sýnist að Árni Páll taki afar skynsamlega á málunum, þær fréttir sem ég hef séð í morgun benda til þess. Hann bendir réttilega á að staða Íslenskra stjórnvalda (og þar með Íslendinga allra) er allt önnur í dag en þegar samningahrinurnar stóðu yfir. Mestu skiptir nú að óvissunni um Neyðarlögin er úr sögunni og staða þrotabús Landsbankans hefur skýrst til muna.
Tíminn hefur unnið með Íslendingum í málinu og sem betur fer lýtur út fyrir, eins og Árni Páll bendir á, að fjárhagsáhætta Íslendinga sé mjög takmörkuð.
P.S. Það er ekki óeðlilegt að margir JÁ-sinnar berji sér á brjóst og bendi á að NEI-sinnar beri ábyrgði að til málsóknar komi. Þeir eru þá líklega þeirra skoðunar að þeir sem best komi út úr þessu máli sé þingflokkur Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði nei við IceSave I, sem Samfylkingin og Vinstri grænir lögðu mikið á sig til að fá samþykkta. Reyndar var sá samningur svo lélegur að telja má að hann hafi eitrað alla umræðuna. En næstum allur þingflokkur Sjálfstæðiflokksins samþykkti svo síðari samninginm og hlaut reyndar víða skammir fyrir. Ef málið er skoðað út frá þeim sjónarhóli hlýtur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins að koma út sem ótvíræður sigurvegari.
En allt eru þetta bara vangaveltur. Nú þurfum við að líklega að bíða í ár eða ríflega það eftir niðurstöðu og margt getur breyst í millitíðinni.
Mjög takmörkuð fjárhagsáhætta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)