Færsluflokkur: Ferðalög

Toronto - Tallinn, með smá hlykkjum og útúrdúrum

Það var á þriðjudaginn sem fjölskyldan lagði kát í bragði af stað frá Bjórá og upp á flugvöll í Toronto.  Flugvélin átti að fara í loftið um 9. um kvöldið, þannig að við vorum kominn á völlinn rétt um 6.  Allt leit vel út.  Ennþá.

En þá skall á þrumuveður og þegar það birti eftir þá törn, skall á annað skömmu síðar.  Þegar birti eftir það síðara var útlitið orðið allt annað, og það ekki einungis hvað veðrið varðaði.  Icelandairvélin hafði þurft að leita skjóls á flugvellinum í Hamilton og illa gekk að koma henni í loftið þaðan og þegar hún var þó komin, þurfti hún að bíða eftir því að geta lent í Toronto.  Það varð því drjúg bið á flugvellinum og klukkan að verða 1. þegar við loks lögðum af stað til Íslands.

Eins og oft vill verða þegar seinkanir verða var það versta að það var alltaf verið að fresta fluginu um 15 til 30 mínútur, þannig að tíminn varð varla nýttur til neins af gagni (svo sem að setjast niður og fá sér almennilega að borða) og þetta reyndi óþægilega á börnin sem alltaf varð að segja að það væri stutt í það að við legðum af stað.

En þegar um borð var komið byrjaði það vel, við fjögur höfðum 6. sæti fyrir okkur (eftir að flugfreyjurnar voru svo almennilegar að spyrja einn farþega hvort að hann vildi vera svo vænn að færa sig um set og gefa okkur þannig meira pláss), þannig að það var útlit fyrir að börnin gætu haft það gott.  Nýjir sjónvarpsskjáir blöstu við á hverju sætisbaki þannig að það var útlit fyrir að auðvelt yrði að hafa ofan af fyrir börnunum þangað til þau sofnuðu. 

En stundum er útlitið ekki eins gott og það lítur út fyrir að vera.  Sjónvörpin öðru megin við ganginn virkuðu alls ekki og það sem verra var, það var ekki hægt að lyfta örmunum í sætunum þannig að þegar börnin loks sofnuðu, var ekki hægt að búa þeim verulega þægilega hvílu.  Þau sváfu því bæði verr og styttra en ella.

Viðhaldsdeildin hjá Icelandair fær því ekki mjög háa einkunn frá okkur að Bjórá, en starfsfólkið um borð var hins vegar í fyrsta klassa og vildi allt fyrir okkur gera og aðstoðaði okkur á allan hugsanlegan máta.

Það var auðvitað ljóst löngu áður en við lentum í Keflavík að við hefðum misst af tengiflugi okkar til Helsinki.  En starfsfólk Icelandair var reiðubúið með nýja áætlun þegar við lentum.  Hún gekk út á það að fljúga til Osló, og þaðan til Helsinki.  Þar sem krakkarnir voru orðin bæði þreytt og pirruð spurðum við hvort að það væru einhver önnur ráð, t.d. að fljúga til Helsinki daginn eftir.  En ekkert beint flug er til Helsinki á fimmtudögum og allt fullt var í flug þangað á föstudag.  Það varð þó úr að við þáðum boð Icelandair um að við gistum eina nótt á Flughótel í Keflavík og flygjum síðan Osló - Keflavík daginn eftir.  Enn og aftur var afar þægilegt að eiga við starfsfólk Icelandair og það leysti málin á fumlausan og sanngjarnan hátt.

Með þessu náðum við að hvíla börnin og hlaða batteríin og náðum sömuleiðis frábærum kvöldverði í Hafnarfirðinum sem var endurnærandi bæði fyrir líkama og sál.

Fimmtudaginn hófst svo stuttu fyrir kl. 5. um morgunin, pakkað, gengið frá og örlítið úrill börn vakin og klædd.  Síðan var haldið upp í flugstöð.  Eftir frekar erfiða innritun, þar sem starfsfólkið virtist ekki alveg skilja það sem starfsfólkið hafði gert daginn áður komumst við af stað og eftir einhverja seinkun á leiðinni til Osló, stóðst það upp á sekúndu að þegar við höfðum gengið frá Icelandairvélinni að hliðinu þaðan sem Finnair fór frá (með stoppi fyrir vopna og vökvaleit) þá var verið að loka liðinu og við rétt sluppum um borð.

Jóhanna var reyndar orðin svolítið pirruð, enda kanna hún því akaflega illa að vera "bundin" niður við lendingu og flugtak.  En stuttu síðar lentum við í Helskinki og tókum leigubíl beint niður að höfn og keyptum okkur miða í ferjuna.  Upphaflega áætlunin var reyndar að stoppa 2 til 3 daga í Turku, en þar sem seinkunin setti allt úr skorðum, og vinafólk okkar sem ætlaði að ná í okkur á flugvöllinn átti ekki heimangengt, var áætluninni breytt og haldið beint til Eistlands.

Þangað vorum við komin með ferjunni rétt fyrir 9. um kvöldið (Eistland er 3. tímum á undan tímalega séð) og ekki löngu seinna voru börnin farin að úða í sig "ömmumatnum" og stutt eftir það liðu allir út af.

Allir sváfu síðan frameftir í dag og vöknuðu um hádegisbilið.  Eftir stuttan göngutúr um nágrennið eldaði ég síðan Íslenska ýsu handa öllum og nú er kvöldið að færast aftur yfir, Jóhanna sofnuð en Foringinn streytist enn aðeins við.

Fljótlega verðum við svo komin á rétt ról.


Alvöru veður, alvöru fólk

Það er fátt leiðinlegra en að bíða á flugvöllum, nema ef vera skyldi að bíða í flugvélum.  En ég get borið vitni um að veðrið var "alvöru" hér í Toronto í gærdag og kveldi.  Ekki það versta sem ég hef lent í, en alvöru þrumuveður.

Þrumurnar drundu hér á milli húsanna og eldingarnar sáust vel og sumar voru í óþægilega lítilli hæð að sumum fannst.

Á köflum komu þær svo títt að það var engu líkara en "papparassar" hefðu sest um okkur hér að Bjórá.

En alvöru fólk tekur þessu með hringdansi.

En þó að það sé leiðinlegt að bíða í flugstöðinni, er það auðvitað hjóm eitt hjá því að þurfa að bíða í flugvél.

En mér skilst að það hafi verið hlutskipti þeirra sem voru að koma, en eftir því sem mér er sagt þurfti flugvélin að lenda í Hamilton og bíða þar eftir að komast aftur til Toronto.

En við þessu er ekkert að gera, veðrinu ræður enginn.


mbl.is Stigu hringdans í flugstöðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundfúll

Þetta eru slæmar fréttir, en líklega er ekkert að við þessu að gera.  Ef eftirspurnin er ekki næg er lítið hægt annað en að draga úr framboðinu.

En ég held að þetta eigi eftir að gera Icelandair erfiðara fyrir að byggja upp þessa flugleið, og þá sérstaklega frá Toronto yfir til Evrópu.  Það lítur aldrei vel út að byrja á því eiginlega um leið og flugleið er opnuð að skera niður.  Þeir sem skipuleggja ferðir sínar langt fram í tímann þykir yfirleitt vænlegra að skipta við "stabíl" flugfélög.

Þá hefði verið betra að byrja smærra.

En líklega hefur einfaldlega verið farið af stað með of mikla bjartsýni, og ekki hefur verið nóg bókað.  Það hlýtur alla vegna að kosta flugfélagið þó nokkuð að koma þeim farþegum á leiðarenda sem þegar höfðu bókað flug, þannig að svona ákvarðanir eru varla teknar nema að nauðsyn sé og horfur hafi verið á lélegri nýtingu.

En ég er auðvitað hundfúll, var farinn að sjá fram á að hægt væri að skreppa til Íslands mun oftar en ella og með minni fyrirhöfn, en það þýðir ekkert annað en að vona að þetta komi síðar.

Svo lengi sem þeir fella ekki niður flugin mín í júli og ágúst, þá lifi ég þetta af.

P.S. Það væri gott að vita hvað vetrarhléið er langt, hvenær það hefst og hvenær því lýkur.


mbl.is Icelandair dregur úr ferðaframboði í vetur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samningar og sjálfstæði

Eins og margir hafa eflaust heyrt eða lesið í frétttum, nú eða jafnvel á þessu bloggi flaug Icelandair sitt fyrsta áætlunarflug hingað til Toronto á föstudag.  Flug númer tvö var að ég held á sunnudag. 

Eins og komið hefur fram í fréttum er Icelandair eina flugfélagið sem staðsett er utan Kanada og Bandaríkjanna sem hefur leyfi til óskilyrts flugs frá Kanada, að því frátöldu að félagið skuldbindur sig til að fljúga til Halifax.

Ekkert annað Evrópskt flugfélag hefur álíka réttindi.

Þetta er mögulegt með loftferðarsamningi sem gerður var á milli Íslenskra og Kanadískra stjórnvalda.  Sá samningur gefur Icelandair eins og áður sagði mun rýmri heimildir en önnur Evrópsk flugfélög hafa til flugs til Kanada.  Reyndar hef ég ágætar heimildir fyrir því að hérlendir aðilar í flugrekstri "lobbýuðu" af krafti gegn þessum samingi, en höfðu sem betur fer ekki erindi sem erfiði.

Ég held að Íslenska utanríkisþjónustan hafi skilað afar góðu verki hvað varðar þennan samning.

En flestir telja að Kanadísk yfirvöld hafi lítinn áhuga á sambærilegum samningi við Evrópusambandið.

Það er ekki alltaf galli að vera "lítill" og færir alls ekki í öllum tilfellum verri samningsaðstöðu.

Ég ætla ekki að halda því fram að góður loftferðasamningur við Kanada skipti sköpum fyrir Ísland, eða sé stórkostlegur sigur hvað varðar utanríkisstefnu landsins, en hann er eitt dæmi um það sem hægt er að áorka með því að hafa eigin utanríkisstefnu og hafa heimild og kraft til að gera sjálfstæða samninga.

Það má minnast á það að fyrir stuttu undirritaði Kanada fríverslunarsamning við EFTA ríkin (þar með talið Ísland að sjálfsögðu) og var það fyrsti fríverslunarsamningur Kanada við Evrópulönd og eini slíki samningurinn sem Kanada hefur staðfest síðastliðin 6. ár.

Það er ólíklegt að hagsmunir Íslendinga vegi þungt (ef Íslendingar ganga í "Sambandið") þegar ESB sest að samingborði við önnur ríki, eða þegar ákveðið er hvaða samningum skuli stefnt að.

Auðvitað eru margir kostir við það að ganga í bandalag líkt og ESB er, en gallarnir eru líka margir og oft finnst mér tala eins og að frátaldri "fiskveiðistjórn" sé þetta "done díll".

En auðvitað er margt fleira sem þarf að hafa í huga, ef til vill ekki síst hvað margir af þeim kostum sem taldir eru með aðild eru þess eðlis að hægt er að framkvæma þá án aðildar.


Jómfrúarflug Icelandair til Toronto

IMG 3564Ég held að það hafi verið nokkurs konar þjóðhátíðarstemning í hugum margra Íslendinga og þeirra sem eru af IMG 3575Íslensku bergi brotnir og búa Toronto, akkúrat í dag.

Það að flogið skuli beint á milli Toronto og Keflavíkur léttir öllum lund, og ferðalög.

IMG 3583Bjórárhjónin voru því glöð og létt í lund er þau keyrðu af stað í móttöku til að fagna jómfrúarflugi Icelandair hingað til Toronto.  Of eftir að hafa komið börnunum fyrir var haldið á Pearson Airport, nánar tiltekið terminal 1 og horft þar á fyrstu flugvél Icelandair í áætlunarflugi til Toronto lenda.  Eftir á þáðum við veitingar, snittur og tertu og hlustuðum á ræður frá ýmsum mektarmönnum og konum, bæði Íslenskum og Kanadískum.

IMG 3636Ingibjörg Sólrún utanríkisráðherra,  heiðraði Toronto með nærveru sinni (kom auðvitað með áætlunarfluginu) og klippti á borða, sem "opnaði" flugleiðina á milli Keflavíkur og Toronto.  Einar Kr. Guðfinnsson, landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra, notfærði sér þetta fyrsta flug til að IMG 3598halda heim á leið frá ráðstefnu INL (Icelandic National League) sem haldin var í Calgary þetta árið.  Björgólfur Jóhannesson, forstfjóri Icelandair ávarpaði samkomuna og það sama gerðu fulltrúar frá stjórn Kanada, Ontario, Toronto og að sjálfsögðu GTAA (Greater Toronto Airport Authority).  Að sjálfsögðu var Íslenski sendiherrann, Markús Örn Antonsson var að sjálfsögðu viðstaddur og það var sömuleiðis John Johnson, konsúll Íslands hér í Toronto.

En það var skemmtilegt  að fylgjast með þessum atburði, sjá flugvélina lenda og síðan þegar slökkvilið vallarins tók á móti flugvélinni með vatnsbyssum.

IMG 3549Síðan voru léttar veitingar og stærðinngar terta í boði og gerðu menn sér gott af veitingunum.

Ég gat þó ekki gert að því að mér kom hlátur í hug þegar ég sá gripinn sem flugvallaryfirvöld hér í Toronto gáfu Icelandair til minningar um þennan atburð.  Þar var um að ræða glerhnött, með áletrun til minningar um daginn.  Líklega verður að draga þá ályktun að um sé að ræða IMG 3551"standard" grip sem notaður er af þessu tilefni, en Ísland var hvergi að finna á hnettinum.

En þessi samgöngubót kemur okkur hér í Toronto að miklum notum og auðvitað Kanadabúum öllum.  Beint flug til Toronto kemur til með að spara Kanadabúum fé, tíma og fyrirhöfn og ekki síst léttir á öllum að þurfa ekki að fara í gegnum toll og vegabréfaeftirlit í millilendingu í Bandaríkjunum.

Bjórárfjölskyldan hefur þegar bókað far með Icelandair til Helsinki í sumar og ætlar þaðan yfir til Eistlands, stoppað verður í nokkra daga á Íslandi á bakaleiðinni.

Heimsóknir frá Íslandi verða auðvitað líka mikið auðveldari, fyrsti ættinngin kemur næstu viku, aðrir eru búnir að bóka um jól, en ennþá eru flestir dagar lausir fyrir gistingu að Bjórá.

En ég vil að lokum óska Icelandair til hamingju með þennan nýja áfangastað og vona að þeim gangi allt í haginn á þessarri leið.

Bestu þakkir fyrir okkur.

 


Frábært

Þetta eru stórkostlegar breytingar, það er einfaldlega allt annað að ferðast þegar boðið er upp á svona "entertainment center" fyrir hvert sæti.  Sérstaklega þegar ferðast er með ómegðina, þetta styttir þeim stundir, þannig að ferðalagið er allt annað, bæði fyrir foreldrana og einnig fyrir samferðafólkið.

Ég er auðvitað mjög ánægður að sjá að Icelandair verður komið með þessa þjónustu áður en ég skelli mér ásamt fjölskyldunni til Finnlands, Eistlands og Íslands í sumar, en hún er einmitt bókuð með Icelandair og stutt síðan miðarnir komu í hús.

En það er einmitt í ferðum sem þessari sem stærsti kostur Icelandair kemur í ljós, alla vegna fyrir okkur sem búum hér fyrir "Westan".  Við förum héðan frá Toronto, beint til Finnlands (millilent í Keflavík auðvitað) og verðum þar í nokkra daga, tökum síðan "bátinn" yfir til Eistlands.

Síðan stoppum við nokkra daga á Íslandi á heimleiðinni, án nokkurs aukagjalds.

Ákaflega handhægt.

 

 


mbl.is Ný sæti í vélum Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósnortin náttúra eða?

Bjórstífla

Eins og sagði í síðustu færslu þá lagði Bjórárfjölskyldan land undir fót (fórum þó á Pontíaknum mest megnis) og heimsóttum Baptistevatn og ýmsa aðra merkisstaði þar um slóðir, þar á meðal Algonquin þjóðgarðinn.

Garðurinn er gríðarstór, eða rétt tæplega 8.000 ferkílómetrar og býður upp á ríkulega náttúru og dýralíf og sömuleiðis upp á nokkrar sýningar sem áhugavert er að skoða.

Eitt af því sem við skoðuðum í þessari ferð var einmitt skógarhöggssafnið, en þar má sjá sögu skógarhöggs á svæðinu, allt fram til dagsins í dag.  Sömuleiðis skoðuðum við sýningu um samspil gróðurs og dýranna í þjóðgarðinum. 

Þar var það ein setning öðrum fremur sem vakti athygli mína.  Ef henni væri snarað yfir á Íslensku hljóðaði hún eitthvað á þessa leið:

Það er algengur misskilningur hjá þeim sem heimsækja Algonquin þjóðgarðinn að hér sé náttúran ósnortin af mannavöldum.  Hið rétta er að maðurinn hefur sett svip sinn á nátturuna hér og sömuleiðis verið mótaður af henni í u.þ.b. 7000 ár.

Þetta fékk mig til að hugsa.  Það má líklega segja að ósnortin náttúra sé ekki til lengur.  Það er ekki til það svæði sem maðurinn hefur ekki sett mark sitt á með einum eða öðrum hætti, þó að "fótsporin" séu vissulega misjafnlega stór og djúp.

Annað dýr sem sömuleiðis hefur í för með sér miklar breytingar hvar sem það sest að, er bjórinn, með stíflum sínum breytir hann landinu og lífsmöguleikum fjölda annara dýra, ýmist til hins betra eða verra.

Meðfylgjandi mynd er af haganlegri bjórstíflu í Algonquin þjóðgarðinum.

 


Liðin tíð

Það er víst liðin tíð að ég hafi komið upp í "hæstu frístandandi byggingu í heimi".  En eins og fram kemur í frétinni hefur það verið CN turninn hér í Toronto.

Ég hef farið nokkrum sinnum upp í turninn, þar sem gestakomur hingað eru varla fullkomnaðar án heimsóknar þangað.  Það er alltaf jafn skemmtilegt að koma þangað upp, og útsýnið á góðum degi óviðjafnanlegt.

Glergólfið, þar sem hægt er að horfa beint niður er sömuleiðis ótrúleg upplifun, sem verður varla jöfnuð í Burj turninum.

En það er spurning hvort að ég verði ekki að skella mér til Dubai, svona til að viðhalda þeirri staðreynd að hafa komið í "hæstu frístandandi byggingu heims".

En það verður þá varla fyrr en á næsta, eða þarnæsta ári.


mbl.is Burj-turninn í Dubai orðinn hæsta bygging í heimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

447 metrar

Fór í túristagírinn í dag með systrum mínum og Foringjanum.  Nú lá leiðin niður í bæ.  Hoppað upp í strætó, svo um borð í neðanjarðarlestina og skroppið í bankann, en síðan þangað sem leið flestra sem til Toronto koma liggur, eða í CN Tower.

CN TowerMér finnst alltaf jafn gaman að koma þangað, enda ekki á hverjum degi sem ég stend í 447 metra hæð og horfi yfir borgina.  Dagurinn í dag var enda kjörin til þess að njóta útsýnisins, bjartur og fagur.  Það sást enda vel yfir, glitti í Rochester hinum megin við vatnið og Toronto lá fyrir fótum okkar.

Þetta var þó erfiður dagur, enda mikil aðsókn að turninum, vel á annan tíma í bið til að komast upp í lyftunum, sem vissulega reyndir á taugar Foringjans.

En þegar upp var komið fengum við okkur snarl, og útsýnið er það gott að Foringinn mátti varla vera að því að borða ísinn sem kom á borðið.

Það segir allt sem segja þarf um gæði útsýnisins.

Síðan gekk okkur betur að komast "á toppinn" upp í "SkyPod", ekki nema tæplega 20 mínútna bið.

En það gekk heldur ver að komast niður, eftir að við höfðum "leikið" okkur nokkuð á glergólfinu.  Heljarlöng röð og svo þegar 2. lyftnanna duttu út tímabundið varð allt að "einni kássu".  En allt sem fer upp kemur niður á endanum og gilti það að sjálfsögðu um okkur.

Lestin heim og síðan strætó.

En þegar Foringinn var spurður hvað væri eftirminnilegast frá deginum, þá stóð ekki á svari.  447m hæð komst ekki á toppinn, ís og sleikipinni ekki heldur. 

Það hafði verið lang skemmtilegast að vera í lestinni.


Ákafur fögnuður

Ég verð að segja að þetta eru bestu fréttir sem ég hef fengið í þó nokkurn tíma.  Nú verður svo mikið auðveldara og þægilegra að ferðast "heim" og aftur "heim".

Það er nefnilega leiðinlegasti hluti hverrar ferðar til Íslands, þegar lagt er upp hér í Toronto, að fara yfir til Bandaríkjanna og upplifa vegabréfaeftirlitið.  Nú lítur út fyrir að bjartari tímar séu framundan.  Ég reikna líka með að Kanadabúar fagni þessari nýjung, enda er þó nokkur áhugi fyrir Íslandi hér.

Ég veit þó ekki hvort að markaður verði til að fljúga til margra borga hér í næsta nágrenni (Ottawa og/eða Montreal) sömuleiðis, en þó er vissulega hægt að gera þetta í "einu flugi", en ég veit þó nokkur dæmi þess að flugfélög millilendi í Montreal á báðum leiðum til og frá Toronto.  Þó að það sé ef til vil örlítið pirrandi, vega önnur þægindi það upp.  Það væri líka möguleiki að millilenda eingöngu suma daga.

En ég fagna þessari ákvörðun Icelandair ákaflega og mun án efa útbreiða fagnaðarerindið á næstu dögum og vikum.

Nú verður einfalt að skreppa til Íslands sem og Evrópuborga með "stop over".

Ég efa heldur ekki að beinu flugi til Winnipeg yrði fagnað ákaflega, enda "þéttleiki" "Íslendinga" líklega hvergi meira en þar, að Íslandi frátöldu.


mbl.is Icelandair hefur áætlunarflug til Toronto næsta vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband