Færsluflokkur: Ferðalög
6.9.2011 | 03:17
Í ferðalögum
Bjórárfjölskyldan hefur verið dugleg að ferðast þetta sumarið, en allar ferðirnar þó verið stuttar í vegalengdum talið og allar innan Ontario utan ein, en þá voru nágrannarnir í Quebec heimsóttir.
Fjölskyldan heimsótti borgirnar Ottawa og Montreal og síðan var gist í fylkis eða þjóðgörðum, en þeir voru Arrowhead, Bon Echo, Mont Tremblant og Killbear.
Í borgunum var gist á hótelum, en tjaldið notað í fylkis/þjóðgörðunum. Alls staðar var eftirminnilegt að koma og góðar minningar urðu til. Yngri meðlimir Bjórárfjölskyldunnar kunna vel að meta að sofa í tjaldi og hafa gaman af þvi að hitta fyrir dádýr, froska og önnur þau dýr sem við höfum verið svo heppin að rekast á á.
Þess má til gamans geta fyrir þá sem velta því mikið fyrir sér hvað kosta megi inn á ferðamannastaði, að hvergi er ókeypis að heimsækja fylkis/þjóðgarða hér í Kanada. Dagskort kostar gjarna um 11 dollar (ca, 1300 krónur, rukkað er á bíl), en gistinóttin kostar ríflega 42 dollara (u.þ.b. 4900 krónur) fyrir gistireitinn (oft er möguleiki á því að setja upp 2. tjöld). Innifalið í gistingunni er aðgangur að rennandi vatni, salerni (oftast vatnssalerni) og sturtu. Á Mont Tremblant tjaldsvæðinu var þó sjálfsalli í sturtuna og kostuðu hverjar 4. mínútur 50 cent (u.þ.b. 60. krónur). Rétt er að geta þess að tjaldstæðin er nokkuð frábrugðin því sem oftast þekkjast á Íslandi, en hvert tjaldstæði er í littlu rjóðri í skóginum.
Hótelherbergin sem gist var í kostuðu frá 80 dollurum upp í rétt ríflega 200, allt eftir hve vel þau voru staðsett, útbúnaði og hvenær ferðatímabilsins þau voru heimsótt, öll áttu þau það sameiginlegt að hafa tvö rúm í drottningarstærð (queensize), þannig að vel fór um 4ja manna fjölskyldu í þeim.
Síðsumars keypti fjölskyldan sér uppblásanlegan kayak, en vötn eru sjaldnast langt undan þegar ferðast er um Kanada, en hann sést á einni myndinni hér að neðan.
En annars eru hér að neðan smá sýnishorn af þeim aragrúa mynda sem teknar voru á ferðalögunum, hægt er að smella á myndirnar til að sjá þær stærri, en fleiri myndir er að finna á slóðinni www.flickr.com/tommigunnars
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 03:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2009 | 16:15
Annir og þvælingur
Fjölskyldan að Bjórá hefur haft nóg fyrir stafni undanfarnar vikur. Hér hafa verið gestir og eins og oft þegar svo ber við fer fjölskyldan með í "túristagírinn" og flengist um nágrennis Toronto og leiðsegir og sýnir.
Það að búið að fara að Niagara fossunum, búið að leiðsegja um miðbæinn og fara í dýragarðinn svo fátt eitt sé nefnt.
Krakkarnir eru afar hrifnir af þessum snúningum og vildu líklega helst að hér yrði "túrisminn" allsráðandi á heimilinu.
Læt hér fylgja með nokkrar myndir, en líkt og venjulega má finna fleiri á www.flickr.com/tommigunnars
Þá er hægt að klikka á myndirnar og þá flyst viðkomandi yfir á Flickr vefinn, þar sem hægt er að skoða myndirnar stærri.
Ferðalög | Breytt 2.9.2009 kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.5.2009 | 17:04
Skondin auglýsing - Sexý flugfélag?
Fékk slóð á þessa auglýsingu í tölvupósti. Hér er nýsjálenskt flugfélag að vekja athygli á því að þeir séu ekki að fela neitt fyrir viðskiptavinum sínum.
Þessi auglýsing virðist ná takmarki sínu, þ.e.a.s. hún vekur mikla athygli á félaginu, en líklega eru ekki allir jafn kátir með aðferðina.
Hvet þá sem horfa á auglýsinguna að skoða vel "klæðnað" starfsfólksins sem kemur fram í auglýsingunni.
P.S. Eftir því sem mér er sagt, er um að ræða raunverulegt starfsfólk félagsins sem leikur í auglýsingunni.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2009 | 13:02
Að lokinni Íslandsferð
Fjölskyldan að Bjórá fór eins og ýmsum er kunnugt til Ísland nú í apríl og skilaði sér heim aftur stuttu fyrir mánaðarmótin.
Húsfreyjan hélt reyndar lengra, því hún fór alla leið til Eistlands, en eyddi síðustu vikunni með fjölskyldunni á Íslandi.
Þessi ferð var eins og aðrar Íslandsferðir ákaflega ánægjuleg, það er enda alltaf gleðiefni að heimsækja uppeldisstöðvarnar (svona eins og laxinn) og skemmta sér með vinum og ættingjum. Í þessarri ferð gat síðuskrifari notað tækifærið og kosið, þó að ekki hafi úrslitin í þeim kosningum orðið honum að skapi.
En stærsti munurinn á þessarri ferð og þeim Íslandsferðum sem áður hafa verið farnar var verðlagið á Íslandi. Kreppan hefur gert það að verkum að munurinn á verðlagi á Íslandi og hér í Toronto er ekki mikill og getur jafnvel lagst með Íslandi á stundum.
Að fara með fjölskylduna á kaffihús kostar svipaða upphæð, skartgripir og annað slíkt sem unnið er á Íslandi er á mjög samkeppnishæfu verði (líklega ódýrara ef reynt er að taka tillit til gæða) og svo mætti lengi telja. Ísland býður þó enn þá upp á afgerandi dýrara bensín, en munurinn er þó minni en oft áður.
Það er líka rétt að hafa í huga að þó að mér hafi fundist það ógnarhá upphæð að borga 6400 fyrir okkur hjónin ofan í Bláa lónið, þá rukka gufubaðsstofur hér í borg gjarna u.þ.b. 30 dollara fyrir innganginn. Í þeim samanburði er aðgangseyrir Bláa lónsins ekki aðeins sanngjarn, heldur hreint og beint gjafverð.
Það er því ljóst að semkeppnisstaða Íslands sem ferðamannalands hefur sjaldan ef nokkurn tíma verið betri.
Enda hefur mikill fjöldi Kanadabúa hug á Íslandsferð í sumar, jafnvel einstaklingar sem hafa látið sig dreyma um það árum saman. Nú segjast þeir hafa efni á þvi að fara til Íslands.
Nokkrir hafa meira að segja haft samband við mig á undanförnum mánuðum og spurt hvar þeir gæti keypt krónur. Þeir vilja "festa gengið", kaupa á meðan gengið er lágt, því í það minnsta sumir þeirra hafa fulla trú á því að gengi krónunnar eigi eftir að styrkjast.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2009 | 09:37
Ánægjuleg ferð
Það var á föstudaginn sem "Bjórárgengið" lagði af stað frá Toronto með Icelandair, og lenti síðan á Íslandi snemma á laugardagsmorgunin.
Það er skemmst frá því að segja að ferðin reyndist okkur ákaflega þægileg og þó að ýmislegt hafi verið skorið niður hjá Icelandair, s.s. matur verð ég að segja að þjónustan er eftir sem áður af þeim klassa að ekki verður hjá því komist að þakka fyrir hana.
Fyrst og fremst er líka ánægjulegt að þó að þjónustan hafi minnkað, þó hefur sá niðurskurður að engu leyti látinn bitna á börnunum. Þeim er færð teppi og koddi, þau fá á heita samloku, djús og smá snarl og þeim eru færð heyrnartól, þannig að þau geti horft og hlustað á sjónvarpið. Allt án aukagjalds. Þeim er færður maturinn á undan öðrum farþegum, enda eiga þau oft erfiðast með að bíða.
Enda ljómuðu börnin eins og sólir og Foringinn hefur ekki enn tekið niður Icelandair merkið sem honum var fært að gjöf og færir það samviskusamlega á milli náttfatanna og fata þeirra sem notuð eru á daginn, hvert kvöld og hvern morgun.
Það hefur síðan ekki væst um okkur í Hafnarfirðinum frekar en endranær, hápunkturinn strax á sunnudagsmorgunin, þegar börnin þurftu að leita hátt og lágt í húsinu af páskaeggjum.
Seinna í þessari viku er síðan meiningin að halda til Akureyrar.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2008 | 19:22
Reykjavík á hálfvirði
Ísland hefur vegna kreppunnar verið mikið í fréttum undanfarnar vikur, yfirleitt í greinum eða fréttum sem flokkast sem miður skemmtileg lesning.
En í ferðahluta Globe and Mail var nýlega grein sem fjallaði um jákvæðar hliðar kreppunnar. Þar kom Ísland líka við sögu, því að ein af jákvæðu hliðum kreppunnar var að nú væri það viðráðanlegt fyrir fleiri að fara til Íslands. Hótel og veitingastaðir væru nú ekki eingöngu á verði fyrir "auðmenn" og von væri á góðum tilboðum hvað varðaði flug.
En í greininni (á síðu 2) má m.a. lesa eftirfarandi:
"The surprise victim of the current downturn is Iceland - where only a few months ago a McDonald's Value Meal cost $15 and a half pint of beer nearly $10. Since then, the banks have crashed and the krona has halved in value. That $10 now gets you two half pints. And getting to Reykjavik is cheaper too, thanks to Icelandair (icelandair.com). From today until March 9, for example, a Toronto-Reykjavik "party weekend" including a flight, two nights at the Iceland Hotel Loftleidir and transfers starts at $845 a person, double occupancy. This spring, Icelandair will be offering flights from Toronto starting at $517.
Stay there Even the top-end 101 Hotel (101hotel.is), once upward of $600 a night, is now a relatively affordable $380. At the Fosshotel Baron or the Fosshotel Lind, both in central Reykjavik, you can save 25 to 30 per cent on weekends and 40 per cent on weeknights with a new last-minute deal - rates will likely be less than $85 a night. "Everything, including accommodation, in Iceland is now about 50 per cent cheaper," says Sif Gustavsson of the Iceland Tourist Board. "
"Last year, dinner at the trendy Fish Market (Adalstræti 12) would have cost you $50. Now, you'll leave just $25 poorer. And at the waterfront seafood restaurant Saegreifinn (saegreifinn.is), a lobster soup that would have cost you $15 last year is now around $8."
Ekki veit ég hvaða helgarferðir það eru sem kosta $845, því að ég best veit er ekki flogið frá Kanada nú yfir háveturinn, en samkvæmt áætlun á flug héðan frá Toronto að hefjast í byrjun apríl, ef ég man rétt.
Mér lýst hins vegar vel flug frá Toronto frá 517 dollurum næsta sumar.
En mér er kunnugt að félög Kanadabúa af Íslenskum ættum eru mörg hver að skipuleggja ferðir til Íslands næsta sumar. Auðvitað til að heimsækja "ættjörðina", en tilgangur ferðanna er líka - og þannig er þær m.a kynntar - til að leggja Íslenskum efnahag lið.
Það er því ekki ólíklegt að býsna stórir hópar Vestur-Íslendinga verði á Íslandi næsta sumar.
Aðrir áfangastaðir sem eru sagðir vera á góðu verði í kreppunni, eru London, New York, Rio De Janeiro og Cape Town.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2008 | 03:08
Bestustu kokkar í heimi?
Þetta er auðvitað frábær árangur og undistrikar þær framfarir sem Íslenskir matreiðslumenn hafa sýnt á undanförnum árum.
Það er enda svo að mér er það til efs að miðað við höfðatöluna margfrægu megi finna jafn marga, jafn góða veitingastaði í nokkkurri borg og Reykjavík.
Nú ættu Íslensk ferðmálayfirvöld að notfæra sér þessa sigra og auglýsa með kokkunum. Til dæmis með stórri mynd af viðkomandi matreiðslumanni, his name is ..... and he won a gold medal at the Culinary Olympics (eða hvað þetta heitir) , he works at the restaurant ..... in downtown Reykjavik, Iceland.
And he is ready to cook for you (as long as your name is not Gordon Brown).
Það hefur aldrei verið ódýrara að ferðast til Íslands og að borða úti á Íslandi (fyrir útlendinga).
Nú er lag.
Kokkalandsliðið sigursælt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.8.2008 | 13:33
Í rétta átt
Það er óneitanlega jákvætt ef að meira jafnvægi er að komast á viðskipti Íslendinga við útlönd. Í fljótu bragði má draga þá ályktun af þessarri frétt að gengi krónunnar sé á nokkurn veginn réttu róli þessa dagana. Styrking væri þá af hinu illa og yki hættuna á því að halli yrði á viðskiptunum.
Það sem til þarf að koma svo að styrking krónunnar sé raunhæf er aukin útflutningur, aukin framleiðsla.
Það ástand sem hefur ríkt undanfarin ár hefur haft í för með sér gríðarlegan innflutning, enda má ef til vill segja að erlendar vörur hafi verið á afar hagstæðu verðu, en innlendar að sama skapi á óhagstæðu.
Það hefur sést vel, t.d. í húsnæðisverði, en Reykjavík hefur verið með eitthvert allra hæsta húsnæðisverð, en þess verður þó að geta að þar er ekki um gengið eitt að ræða.
En þessi breyting á genginu hefur margar jákvæðar hliðar, þó aðrar séu ekki ánægjulegar. Í þessarri frétt á Vísi, má lesa um stóraukna verslun erlendra ferðamanna á Íslandi. Þeir eru enda fleiri en einn tölvupósturinn sem ég hef fengið þar sem sagt er frá því hve hagstætt sé að versla á Íslandi, sökum þess að gengið hafi fallið.
En að ferðamenn versli meira er auðvitað sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að ekki er ólíklegt að þeim fari fækkandi á allra næstu árum.
Hækkandi eldsneytisverð og aðrar boðaðar álögur á flug, er líklegar frekar en hitt til að draga úr ferðamannastraumi um heiminn, sem og almennt verra efnahagsástand. Líklega verður samdráttur á Íslandi sem annarsstaðar.
Slæmu hliðarnar eru auðvitað að innfluttar vörur hækka, kaupgeta í erlendum myntum lækkar og þar fram eftir götunum.
En var það ekki óumflýjanlegt, hvað annað var í spilunum? Atvinnuleysi?
Afgangur af vöruskiptum í júní | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.7.2008 | 11:24
Tallinn á ný
Þá er Bjórárfjölskyldan komin aftur til Tallinn, við skiluðum okkur hingað seint á laugardagskvöldið. Í gær var haldin afmælisveisla tengdamóður minnar og svo enduðum við hjónin á næturklúbbi eftir að börnin voru sofnuð.
Klúbburinn heitir Amigos og rekur uppruna sinn allt aftur til Sovéttímabilsins, og var víst þekktur um þau öll, en venjulegir Eistlendingar fengu ekki að stíga inn í dýrðina. Þetta er þó allt breytt og nú hljómar þar venjuleg discotónlist og allir skemmta sér nokkuð vel, sama af hvaða þjóðerni þeir eru.
En það hefur margt drifið á dagana síðan síðast færsla kom hér inn og verður reynt að gera því skil í færslum hér síðar, enda allt of mikið til þess að hægt sé að koma því að í einni slíkri.
En myndir koma sömuleiðis jafnt og þétt inn á Flickrsíðuna:
http://www.flickr.com/photos/tommigunnars
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2008 | 13:23
Á markaðnum í Tallinn
Lífið er frekar ljúft í Tallinn. Þægilegt og náðugt. Gærdeginum eyddum við Bjórárhjónin í gönguferð um gamla bæinn hér, eftir að hafa skilið ómegðina eftir í öruggri umsjá afa og ömmu, lúxus sem er því alltof sjaldan á boðstólum.
En gamli bærinn er alltaf jafn fallegur, þó að vissulega sé blettir þar sem annarsstaðar sem betrumbæta má, gott úrval af veitingastöðum, knæpum og kaffishúsum, þannig að ekki þarf að leita langt yfir skammt ef þorstinn gerir vart við sig.
Í gær var handverksmarkaður á torginu, flest sölufólkið klætt upp í samræmi og mikið úrval af handverki alls konar á boðstólum. Konan keypti línsjöl og eitthvað annað smávegis, en ég var meira á nytsamlegri nótum og keypti villigaltar og dádýrapylsur. Báðar algert lostæti.
Á markaðnum hittum við eldri hjón sem voru að skoða prjónlesið um leið og konan. Þegar þau byrjuðu að spjalla saman og þegjandalegheitin í mér voru útskýrð með því að ég væri frá Íslandi og kynni ekkert í Eistnesku, vildu þau endilega taka í hendina á mér og þakka fyrir sig. Stuðningur Íslendinga við sjálfstæðisbaráttu Eistlands og að við skyldum vera fyrsta þjóðin til að viðurkenna endurheimt sjálfstæðis þeirra var þeim í fersku minni. Þau sögðust ekki reikna með því að hitta neinn "offísíelt" Íslending, þannig að þakkirnir yrðu lagðar fram við mig.
Slíkar þakkir fékk ég oft þegar ég kom hér fyrst 2003, og fólkið hér gleymir ekki svo glatt því sem vel er við það gjört.
Síðan tók ég með með mér fasteignablað "heim" að lesa. Fasteignamarkaðurinn hér hefur fallið um u.þ.b. 8 til 15%, mismunandi eftir hverfum, síðustu 12 mánuði. Vissulega er það erfitt fyrir marga, en hér var verð orðið, og er að mörgu leyti enn, himinhátt og eiga flestir von á því að það falli meira.
Fólkið hér (alla vegna nágrannarnir sem ég hef hitt) virðist þó flest hafa skilning á því að það sé eðlilegt að leiðréttingar eigi sér stað og engan hef ég heyrt tala um að hið opinbera ætti að grípa inn í til að viðhalda háu verði.
En Bjórárfólkið hefur það allt ljómandi gott hér, börnin eltast við hunda og ketti nágrannana, sólin skín og grasið er grænt. Ölið er líka ódýrt.
P.S. Fljótlega reyni ég að setja eitthvað af myndum inn hér og/eða á Flickr síðuna.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)