Samningar og sjálfstæði

Eins og margir hafa eflaust heyrt eða lesið í frétttum, nú eða jafnvel á þessu bloggi flaug Icelandair sitt fyrsta áætlunarflug hingað til Toronto á föstudag.  Flug númer tvö var að ég held á sunnudag. 

Eins og komið hefur fram í fréttum er Icelandair eina flugfélagið sem staðsett er utan Kanada og Bandaríkjanna sem hefur leyfi til óskilyrts flugs frá Kanada, að því frátöldu að félagið skuldbindur sig til að fljúga til Halifax.

Ekkert annað Evrópskt flugfélag hefur álíka réttindi.

Þetta er mögulegt með loftferðarsamningi sem gerður var á milli Íslenskra og Kanadískra stjórnvalda.  Sá samningur gefur Icelandair eins og áður sagði mun rýmri heimildir en önnur Evrópsk flugfélög hafa til flugs til Kanada.  Reyndar hef ég ágætar heimildir fyrir því að hérlendir aðilar í flugrekstri "lobbýuðu" af krafti gegn þessum samingi, en höfðu sem betur fer ekki erindi sem erfiði.

Ég held að Íslenska utanríkisþjónustan hafi skilað afar góðu verki hvað varðar þennan samning.

En flestir telja að Kanadísk yfirvöld hafi lítinn áhuga á sambærilegum samningi við Evrópusambandið.

Það er ekki alltaf galli að vera "lítill" og færir alls ekki í öllum tilfellum verri samningsaðstöðu.

Ég ætla ekki að halda því fram að góður loftferðasamningur við Kanada skipti sköpum fyrir Ísland, eða sé stórkostlegur sigur hvað varðar utanríkisstefnu landsins, en hann er eitt dæmi um það sem hægt er að áorka með því að hafa eigin utanríkisstefnu og hafa heimild og kraft til að gera sjálfstæða samninga.

Það má minnast á það að fyrir stuttu undirritaði Kanada fríverslunarsamning við EFTA ríkin (þar með talið Ísland að sjálfsögðu) og var það fyrsti fríverslunarsamningur Kanada við Evrópulönd og eini slíki samningurinn sem Kanada hefur staðfest síðastliðin 6. ár.

Það er ólíklegt að hagsmunir Íslendinga vegi þungt (ef Íslendingar ganga í "Sambandið") þegar ESB sest að samingborði við önnur ríki, eða þegar ákveðið er hvaða samningum skuli stefnt að.

Auðvitað eru margir kostir við það að ganga í bandalag líkt og ESB er, en gallarnir eru líka margir og oft finnst mér tala eins og að frátaldri "fiskveiðistjórn" sé þetta "done díll".

En auðvitað er margt fleira sem þarf að hafa í huga, ef til vill ekki síst hvað margir af þeim kostum sem taldir eru með aðild eru þess eðlis að hægt er að framkvæma þá án aðildar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband