Færsluflokkur: Ferðalög

Að upplifa "sósíalismann" - í örfáa daga.

Það er einhvern veginn svo að eftir hæfilega langan tíma virðist allt verða að "nostalgíu", ef til vill ekki alveg allt, en þó um flest.

 Á vef Spiegel hef ég fundið nokkur margar greinar um "nostalgíu" eftir "gömlu góðu" dögunum þegar sósialisminn réði ríkjum í A-Evrópu. 

Nú er hægt að gista á hóteli sem býður upp á "Austur Þýsk" herbergi, Trabantinn hefur gengið í endurnýjun lífdaga, og alls kyns vörur frá mótorhjólum, til þvottaefnis og kóladrykkja frá "sælutíð sósíalismans" nýtur nú vaxandi vinsælda.

Þessi "nostalgía" teygir arma sína alla leið hingað að Bjórá, því konan er einmitt alin upp í einu af þeim ríkjum sem þá töldust til "sæluríkja sósíalismans".  Þess vegna færist oft yfir hana bros þegar hún sér sumt af því sælgæti sem á boðstólum er í Pólsku, Rússnesku eða Úkraínsku verslunum hér.

Bragð af uppvextinum er alltaf vel þegið.

En þetta er auðvitað jákvætt, enda engin ástæða til að þessi tími gleymist, þvert á móti.  Sagan er alltaf þess virði að gefa henni gaum og halda henni til haga.

Þessum svæðum flestum veitir heldur ekki af atvinnu og auknum túrisma.

Svo gæti auðvitað farið svo að þetta gæti "læknað" einhverja.


Eldfjallaþjóðgarður og Hoover stíflan

Þó að ég sé fyllilega þess fylgjandi að stofnaður sé Eldfjallaþjóðgarður á Reykjanesi, hann gæti sem best innihaldið nokkrar háhitavirkjanir til þess að sýna hvernig hitinn er nýttur, þá finnst mér varhugavert að taka tölur um aðsókn og hagnað frá Hawaii og heimfæra þær nokkuð hráar yfir á Ísland.

Er það ekki sambærilegt við að Landsvirkjun myndi fullyrða að milljón manns muni koma og skoða Kárahnjúkastífluna, bara af því að sá fjöldi kemur að skoða Hoover stífluna?

Persónulega verð ég að segja að mér finnst þessi málflutningur ekki trúverðugur eða til fyrirmyndar.

 


Hvað næst? Fyrirbyggjandi fangelsanir?

Hún getur tekið á sig ýmsar myndir múgæsingin. Eftir að hafa haft lítinn tíma til að lesa Íslenskar fréttir í nokkra daga er ég aftur kominn að tölvunni.

Lykilorðið er klám, þá á ég ekki við lykilorðið mitt sem mbl.is opinberaði stutta stund fyrir alþjóð, heldur þá múgæsingu sem tröllreið umræðu á Íslandi í nokkra daga vegna þess að til stóð að halda kaupstefnu þar sem framleiðendur klámefnis hugðust halda á landinu.

Það er sem sé ekki æskilegt að tala um klám á Íslandi, alla vegna ekki á ráðstefnum.  Þeir sem slíkt ætla að gera eru ekki velkomnir til Íslands og það sem meira er, bændasamtökin hýsa ekki slíkt fólk.

Gamla "slagorðið" að allir sé saklausir uns sekt þeirra sé sönnuð, á ekki við lengur.  Það er best að banna þeim sem hugsanlega gætu brotið af sér að koma til landsins.  Það virðist sem svo að það sé ekki lengur nauðsynlegt að brjóta af sér, það nægir að vera "líklegur" til að brjóta af sér.  Fljótlega verður ef til vill farið að mæla með "fyrirbyggjandi fangelsunum".

Hvað ætli gerðist á Íslandi ef Saab verksmiðjurnar skipuleggðu hvataferð til Íslands?

Sagði einhver "Bleikt og Blátt", eða "Falon Gong"?


mbl.is Ómögulegt að flokka ferðamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandskynning

Í gær var hin árlega Íslandskynning Íslendingaklúbbsins hér í Toronto.  Þá reynum við eftir fremsta megni að kynna Ísland og ferðamöguleika til Íslands bæði fyrir klúbbmeðlimum og öðrum áhugasömum.

Þar sem konsúlinn sem venjulega ber hitann og þungan af kynningunni er fjarverandi, þá hafði ég tekið að mér að stjórna kynningunni og undirbúa það sem henni hafði ekki tekist á klára.

Þó að við hefðum alveg mátt við meiri aðsókn, það voru ekki nema á milli 40 og 50 manns á kynningunni, þá gekk þetta allt saman bærilega. 

Comfortable Hiking Holydays,  kynntu sína ferð, fulltrúi frá Sambandi sykursjúkra hér í Canada flutti einnig stuttan fyrirlestur, en sambandið hefur staðið fyrir ferð til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í nokkur undanfarin ár og gerir það sömuleiðis í ár.  Loks voru tveir klúbbmeðlimir  með stuttar kynningar, annars vegar um Íslenskunám á vegum Stofnunar Sigurðar Nordal og hinsvegar um sjálfskipulagða ferð sem farin hafði verið síðasta sumar.

Þetta var býsna líflegt og spurningar og umræður fjörugar.  Það sem virðist stand uppúr þegar upplifanir ferðalanganna eru metnar, eru fyrir utan náttúruna, maturinn og verðlagið.

Verðlagið er endalaus uppspretta vangavelta og undrunar.

Ég spurði flesta sem ég spjallaði við hvort að þeir hefðu eitthvað heyrt um hvalveiðar Íslendinga eða Kárahnjúkavirkjun.  Það kom mér ofurlítið á óvart, en þetta hafði ekki verið í umræðunni, og fæstir heyrt nokkuð um þetta talað. 

Einn ferðalangurinn hafði reyndar orð á því að hvalkjötið væri ekki gott.

 


There are many "ælands"

Ég heyri "útundan" mér að vinum mínum, í það minnsta sumum hverjum virðist ekki þykja mikið til þessarar niðurstöðu koma, og virðist hún jafnvel koma sumum á óvart.

En það þarf ekki að koma neinum á óvart.  Ísland er lítið land, Íslendingar eru ekki margir, því breiðist "fagnaðarerindið" hægt út. 

Hér í Kanada er ástandið þó líklega betra en víða, enda búa hér að talið er á milli 200 og 300.000 einstaklingar sem eru að einhverju leiti afkomendur Íslendinga.  Þó hitti ég hér reglulega fólk sem hefur aldrei á heyrt á Ísland minnst.  Sama saga var upp á teningnum þar sem ég hef búið annarsstaðar.

Besta sagan af þessu er líklega tengd því þegar ég hringdi í ferðaskrifstofu bankans míns (það verður að nota punktana).  Þar svaraði kona sem af hreimnum að dæma var innflytjandi eins og ég.  Eftir að hafa boðið góðan daginn, opnaði ég með:  "'Æ níd tú búkk a trip tú Æsland".  Svarið kom um hæl:  "Æ níd better informeition, there are só menny ælands".  "Æ níd tú gó to Æsland", sagði ég aftur.   "Jess, jess, but they are só menny. 

Það var ekki fyrr en í þriðju tilraun að mér tókst að koma henni í skilning um að ég þyrfti að komast til Íslands, sem væri lítil eyja í miðju Norður-Atlantshafinu.  Eftir stutta þögn (líklega hefur hún athugað málið) baðst hún afsökunar, en hún hefði aldrei heyrt talað um Ísland áður og enginn hefði reynta að bóka þangað ferð hjá henni.  Eftir þetta gekk þetta allt eins og í sögu.


mbl.is Er Ísland best í heimi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bættar samgöngur

Samgöngur eru mikið til umræðu í "prófkjörstíðinni".  Enginn hefur þó lofað mér bættum samgöngum þó að vissulega hafi ég ennþá atkvæðisrétt á Íslandi.

En er útlit fyrir að samgöngur á milli Íslands og Kanada stórbatni með vorinu, en Icelandair hefur ákveðið að fljúga til Halifax frá og með maí mánuði og Heimsferðir hafa sömuleiðis hafið sölu á ferðum til Montreal.

Því miður hefur enginn ákveðið að hefja flug til Toronto, en þetta er þó vissulega til mikilla bóta.  Ekki er nema 5 tíma akstur til Montreal, nú eða um klukkutíma flug og báðir staðirnir bjóða upp á þann kost að ekki þarf að ferðast í gegnum Bandaríkin með tilheyrandi vegabréfa-, innflytjenda og tolleftirliti.

Enn sem komið er fljúga Heimsferðir þó aðeins frá enda maí til um miðjan júlí, en ég vona að það lengist á næstu árum, því mér sýnist að þessi flugleið sé að fá afar góðar móttökur hjá þeim.  Keypti miða fyrir mömmu í gær, og þá þegar voru margir dagar (flogið er á fimmtudögum) að verða uppseldir.  Verðið er ágætt, eða undir 50.000.  Ég reikna með að keyra til Montreal og sækja hana og fría hana þannig við að skipta um vél.

Halifax flugið var nokkuð vinsælt hér í "den" en var slegið af hjá Icelandair árið 2001, ég vona að það nái fyrri vinsældum og verði valkostur framtíðarinnar þegar við þurfum að bregða okkur til Íslands, alla vegna á þeim tímum sem Montreal flugið verður ekki á boðstólum.

En þó að þetta sé ekki afrakstur loforða stjórnmálamanna, er ekki þar með sagt að þeir hafi ekkert haft með þessa þróun að gera.  Þetta er vissulega afrakstur viðræðna og samninga á milli Kanadískra og Íslenskra yfirvalda þar sem koma við sögu stjórnmálamenn, embættismenn og diplómatar.  Hafi þeir þökk fyrir.  Loftferðasamningar eru mikilvægir, ekki bara fyrir þá sem ferðast, heldur opna þeir tækifæri og flugrekstur er mikilvæg atvinnugrein á Íslandi.


Gott mál - Aukin samkeppni - Verra mál - Auknar niðurgreiðslur

Það hljóta flestir að fagna því að samkeppni ríki í innanlandsflugi á Íslandi, ja nema þeir sem telja samkeppni frekar til leiðinda, en það er önnur saga.

En það er vissulega þörf á samkeppni á flugleiðum eins og á milli Akureyrar og Reykjavíkur, enda kosta það svipaða upphæð að bregða sér þar á mili og frá Reykjavíkur til London svo eitthvað dæmi sé tekið.

Það hlýtur hins vegar að vera umhugsunarefni fyrir Íslendinga að um þegar nýtt flugfélag er að tilkynna um áform um innanlandsflug hefur niðurgreiðsla á innanlandsflugi stóraukist.  Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvers vegna hið opinbera á að vera að greiða niður flug til Sauðárkróks.  Hvaða nauðsyn ber til að fljúga þangað?  Nú eða Hafnar í Hornafirði?  Vestmannaeyja?  Er ekki eðlilegt að það fólk sem vill fljúga til eða frá þessum stöðum greiði fyrir það sem það kostar, nú eða noti að öðrum kosti aðrar samgönguleiðir?

En þegar ég les um horfur á aukinni samkeppni í innanlandsflugi, og þá hugsanlega aukinn fjölda farþega, þá velti ég því fyrir mér, hvað er að gerast í málefnum Reykjavíkurflugvallar?  Eitthvað?  Eða verður flugvöllurinn aðalmálið í næstu kosningum, árið 2010?


mbl.is Innanlandsflug hjá Iceland Express næsta vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjar flugvélar fyrir Flugfélagið

Var að lesa að Flugfélag Íslands væri farið að hyggja að endurnýjun flugflotans, fljótlega (ef þær eru ekki þegar komnar) munu Bombardier Q100 (Dash 8) vélar koma í flotann og svo mun víst vera í bígerð að leggja Fokkerunum og kaupa Bombardier Q400.  Það eru virkilega glæsilegar vélar og verða að teljast við toppinn í skrúfuþotunum.

Þessar vélar eru ákaflega fallegar og hafa reynst afbragðs vel hér í Kanada, en hér má sjá þær víða, enda Bombardier Kanadískt fyrirtæki.

 Þó að ég eigi margar góðar minningar tengdar ferðalögum í bæði Fokker og Twin Otter, þá verð ég að segja að ég held að það sé kominn tími á endurnýjunina, þ.e.a.s. ef innanlandsflug fer ekki að falla niður á Íslandi.


Allt í hnút

Sem betur fer lenti ég ekki í þessu öngþveiti, en ég kannast við tilfinninguna, pirringin og allt það sem fylgir því að sitja fastur í umferðinni.  Það er svo sem ekkert nýtt fyrir þeim sem búa í borgum.

Í gærkvöldi var ég einmitt að horfa á smá úttekt sem Ísland í dag gerði á umferðarmálum á höfuðborgarsvæðinu, þar virtist ástandið lítt hafa skánað þó að ég og bílinn minn hafi horfið úr umferðinni fyrir nokkrum árum.  Ég keyrði reyndar yfirleitt á móti "traffíkinni", upp á Höfða úr miðborginni á morgnana og niður í bæ um 6 sexleytið. En ég sá auðvitað "stöppuna" hinum megin við umferðareyjuna flesta daga.

Það eru mörg rök fyrir því að þetta hljóti að vera eitt af forgangsmálum nýs borgarstjórnarmeirihuta.  Það verður að greiða borgurunum leið um borgina.

Það er bæði öryggisatriði, áríðandi í því tilliti að hafa öflugar leiðir sem geta tekið við ef eitthvað bregður út af, og svo er það þjóðhagslega hagkvæmt að sem minnstur tími fari til spillis.

Auðvitað er það gott mál ef hægt er að auka notkun almenningssamganga, en fyrst og fremst verður að þjóna borgurunum.

Annars ritaði ég pistil um þetta í vor, sem ég held að sé í fullu gildi ennþá.

 


mbl.is Umferð á Miklubrautinni komin í samt horf eftir þriggja tíma umferðarteppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtnar tilviljanir? Góður spuni?

Það er eins og það hafi ekki margir stjórnmálamennirnir nennt að ómaka sig til að skoða Hengilssvæðið, það eru eingöngu 4. Samfylkingarmenn og svo Steingrímur J.  enda hann líklega vongóður um að kaffi væri með í för.

Aðrir íslenskir stjórnmálamenn láta sig málið líklega litlu, eða  engu varða, eða hvað?

En svo rakst ég reyndar á athugasemd á mbl.is: 

"Vegna frétta í gær og í dag af reiðtúr um Hengilssvæðið þar sem forráðamenn Eldhesta voru sagðir hafa boðið þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum í skoðunarferð um hugsanlegt virkjanasvæði Orkuveitu Reykjavíkur er rétt að taka fram að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins var ekki boðið fyrir milligöngu undirritaðrar, Grétu Ingþórsdóttur, eins og algengt er um slík boð, að því er fram kemur í athugasemd frá Sjálfstæðisflokknum.

„Þeir þingmenn sem undirrituð hefur haft samband við, kannast ekki við að hafa verið boðið og borgarfulltrúar ekki heldur. Samkvæmt upplýsingum frá Hróðmari Bjarnasyni, framkvæmdastjóra Eldhesta, var reynt að ná í þrjá eða fjóra þingmenn með eins dags fyrirvara. Ekki náðist í nema einn og sá gat ekki þegið boðið. Af fréttum um ferðina að má draga þá ályktun að öllum þingmönnum og öllum borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins hafi verið boðið en enginn þeirra þegið. Hið rétta er að ekki nema einn vissi um ferðina og sá sér ekki fært að þiggja hana með svo skömmum fyrirvara," að því er segir í athugasemd."

Athugasemdina má finna hér.

Sem sagt, Eldhestar voru að bjóða öllu þessu fólki með dags fyrirvara, þannig að líkega hafa ekki nema þeir stjórnmálamenn sem voru með auða "dagbók" haft tök á því að koma, nema auðvitað að einhverjum hafi verið boðið með lengri fyrirvara?

En til allrar hamingju náðu formenn Samfylkingar og VG að koma í reiðtúrinn, alþingismaður Samfylkingar af Suðurlandi sömuleiðis, 1. borgarfulltrúi Samfylkingar og eini fulltrúi Samfylkingarinnar í sveitarstjórn Ölfus var líka í reiðtúrnum.  Það kemur hins vegar ekki fram í fréttinni að varamaður Dagbjartar Hannesdóttur í sveitarstjórn Ölfuss, var líka með í ferðinni.

Hann ku víst heita Hróðmar Bjarnason og hafa að aðalstarfi að vera framkvæmdastjóri Eldhesta, og skipaði annað sæti á lista Samfylkingar í síðustu kosningum.

En svona eru tilviljanirnar margar í litlu landi.

En verður ekki "spuninn" að teljast góður?

 


mbl.is "Ekkert kaffi með í för"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband