Færsluflokkur: Fjölmiðlar
16.1.2013 | 14:27
Vantar að ræða "Sambandið eins og það er, ekki Evrópu - Meiri þörf á áróðurskrifstofu í "Sambandinu" sjálfu en á Íslandi?
Það er ef til vill ekki nema von að rúmlega helmingur Íslendinga telji sig ekki vel upplýsa um "Evrópumál". Hvað er "Evrópumál"?
Þegar fjölmiðlar, margir stjórnmála- og fræðimenn taka sig saman og rugla hugtökum og skilgreiningum er ekki von á góðu.
Á Íslandi er ekki verið að ræða um aðild að Evrópu.
Á Íslandi er ekki mikið rætt um "Evrópumál".
Það er heldur engin sérstök ástæða til þess. "Evrópumál" ættu ekki að vera fyrirferðarmikil í umræðunni..
Á Íslandi (og víðar í Evrópu) eru Evrópusambandsmál nokkuð mikið hitamál og skeggrætt af kappi um aðild og efnahagsvandræði Evrópusambandsins. Þá umræðu má auka, það er einungis af hinu góða.
En Evrópusambandið er ekki Evrópa og engin rök hníga til þess að setja sama sem merki þar á milli. Evrópusambandsmál eru ekki Evrópumál. Áróðursskrifstofa Evrópusambandsins á Íslandi er ekki að reka áróður fyrir Evrópu, heldur "Sambandinu" sjálfu.
En með þeim fyrirvara að ég hef ekki séð sjálfa könnunina þá þykir mér sérstaklega athyglivert að hærra hlutfall Íslendinga telja sig nokkuð vel upplýsta um "Sambandið" heldur en þeir sem búa í löndum "Sambandsins". Það bendir ef til vill til þess að meiri þörf sé á að auka áróðurinn í "Sambandslöndunum", en að verja peningunum til undir- og áróðursstarfsemi á Íslandi.
En það er fyrst og fremst þörf á því að ræða frekar Evrópusambandið eins og það er og hvert það stefnir. Ekki að halda langar ræður um hvers konar "Samband" á að búa til handa Íslendingum með ótrúlegum undanþágum frá sáttmálum "Sambandsins".
Það er þörf fyrir að ræða hvort að Íslendingar hafa áhuga fyrir því að verða hérað í því stórríki "Sambandsins" sem margir af forystumönnum þess tala nú fjálglega um.
Hvað hefði þátttaka í slíku stórríki í för með sér fyrir Íslendinga?
En hvort sem að Íslendingar telja þörf á því að umræða og kynning á "Sambandinu" sé aukin á Ísland, eðu ei, ættu þeir að sammælast um eitt.
Kynning og barátta fyrir "Já" og "Nei" málstað á Íslandi, ætti að vera í höndum Íslendinga sjálfra og fyrir þeirra eigið fé.
Íslendingar eru fullfærir um að kynna sítt hvorn málstaðinn fyrir eigin þjóð.
Þess vegna ættu þeir að sammælast um að fara þess á leit við "Sambandið" að áróðursskrifstofu þess á Íslandi verði lokað.
Ákvörðunin um hvort að Ísland verði aðili að "Sambandinu" er Íslendinga einna, baráttan og kynningin fyrir þær kosningar ættu sömuleiðis að vera það.
Umfram allt ættu Íslendingar ekkki að sætta sig við að erlent ríkjasamband stundi áróður í landinu í aðdraganda Alþingiskosninga, með stefnu sumra stjórnmálaflokka en gegn annarra.
Það er óþolandi afskipti af innanríkismálum Íslendinga.
56% telja sig illa upplýst um Evrópumál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.12.2012 | 19:34
Tveir pistlar
Þó að ég hafi lifað þá tíma að einungis var einn ljósvakamiðill með einni rás til að hlusta á, er erfitt að ímynda sér að snúa til baka til slíks tíma.
Fróðleikur og fréttir sem finna má á internetinu er gríðarlegur. Bæði einstaklingar og fyrirtæki miðla gríðarlegu magni upplýsinga, sem er vissulega misjafnt að gæðum. Helsta vandamálið er að vinsa úr.
Í dag rakst ég á tvo pistla sem mér fannst allrar athygliverðir og ættu erindi við sem flesta.
Það er annars vegar pistill Sigurðar Más Jónssonar um Íbúðalánasjóð, á mbl.is og hins vegar pistill Gunnars Rögnvaldssonar hér á Moggablogginu, þar sem hann skýtur föstum skotumá Ríkisútvarpið.
Hvað varðar pistil Gunnars, vil ég einungis bæta við, að það er leiðinlegur ávani hjá mörgum fjölmiðlum, bæði Íslenskum og erlendum, að vitna og búa til fréttir upp úr hinum ýmsu skýrslum og greinum án þess að vísa til heimildana, þó að þær séu til reiðu á internetinu.
Á tímum internetsins, ætti það að vera regla frekar en undantekning, að birta hlekk á viðkomandi skýrslu eða grein, ef hún er fáanleg á internetinu. Á vefsíðum á það að vera sjálfsögð krafa.
Í pistli Gunnars vísar hann lesandanum á skýrsluna, en það gerir RUV ekki.
Það er því miður glettilega algengt að upplýsingamiðlun sé mun betri hjá einstaklingum heldur en "ráðsettum fjölmiðlum".
29.10.2012 | 06:41
Skuldar þjóðin honum eitthvað? Skulda stjórnmálaflokkarnir honum eitthvað?
Ekki ætla ég að fullyrða um hvað stendur að baki fullyrðingum Páls Magnússonar í grein hans á Pressunni, en þegar Sjónvarpsstjórinn setur fram spurningar eins og gert er í greininni, hlýtur það að vekja athygli. Fjölmiðlar landsins, og þá ef til vill ekki síst sá er Páll stjórnar, hljóta að fara ofan í saumana á málinu og reyna að leiða fram svör.
Fjölmiðlar landsins hljóta fjalla um þessar fullyrðingar og spurningar og skrýtið er ef þeir krefja Pál ekki frekari skýringa á greininni. Fyrir sumar fréttastofur er ekki langt að fara.
En grein Páls er stutt en kjarnyrt.
Ég leyfi mér að birta hana í heild sinni hér að neðan.
Banki þjóðarinnar, Landsbankinn, hefur frá hruni afskrifað á kostnað almennings milljarða á milljarða ofan vegna fjölmiðlareksturs Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Því til viðbótar berast reglubundnar fréttir af því að ríkisbankinn semji æ ofan í æ um endurfjármögnun á þessum rekstri - til að tryggja áframhaldandi eignarhald og yfirráð Jóns Ásgeirs á 365, sem er langstærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins.
Ofan á þetta bætist að nú liggur fyrir Alþingi ríkisstjórnarfrumvarp sem árlega mun flytja 300-400 milljónir króna af auglýsingatekjum frá RÚV beint í vasa 365 og Jóns Ásgeirs, sem fyrir er með um 60% af heildarauglýsingamarkaðnum á Íslandi.
En þar með er ekki allt upp talið. Það liggur líka fyrir ríkisstjórnarfrumvarp sem fjallar um eignarhald á fjölmiðlum og tryggir að ekki verður hreyft við einsmanns eignarhaldi Jóns Ásgeirs á meira en helmingi íslenskra fjölmiðla, sé miðað við veltu.
Af hverju stendur ríkisvaldið þennan grimmilega og grímulausa vörð um hagsmuni og ítök Jóns Ásgeirs Jóhannessonar? Skuldar þjóðin honum eitthvað? Skulda stjórnmálaflokkarnir honum eitthvað?Páll Magnússon, útvarpsstjóri
9.10.2012 | 21:26
Umfjöllun um Ísland á BNN í dag.
Viðskiptasjónvarpsstöðin Business News Network, eða BNN, sendir út frá Toronto í Kanada. Þátturinn Headlines var að nokkru leyti helgaður Íslandi.
Þar var rætt við Ólaf Ragnar Grímsson, Dariu Zakharova, frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og Jon Johnson, annan Íslenska konsúlinn í Toronto.
Ólafur talar býsna vel og útskýrir afstöðu Íslendinga ágætlega. Fulltrúi IMF ber Íslandi vel söguna, en er varkár í svörum sínum. Jon Johnson er á léttari nótum, en minnist á vangaveltur um upptöku Kanada dollars.
En þeir sem áhuga hafa geta horft á upptökur af þættinum á www.bnn.ca
En hér má finna myndskeiðið með Ólafi Ragnari, hér myndskeiðið með Dariu Zakharova og hér myndskeiðið með Jon Johnson.
30.9.2012 | 19:10
Fyrirsögn fréttar og meginmál
Ég rakst á eftirfarandi frétt á síðu Ríkisútvarpsins. Ég skora á alla að lesa fréttina og reyna svo að dæm sjálfir, hvort að frétt og fyrirsögn fari saman.
Það er ekki hægt annað en að velta fyrir sér hvað Ríkisútvarpinu gangi til með slíkum fréttaflutningu. Það fyrsta sem kemur upp í hugann hjá mér, er þjónkun við ríkisstjórnina, en best er að hver dæmi fyrir sig.
Yfirlýsingar Huangs til heimabrúks
Erfitt er að meta hvað Huang gengur til í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa margítrekað að samningar séu ekki í sjónmáli, segir Halldór Berg, fréttaritari RÚV í Peking. Kínverskir miðlar hafa fjallað ítarlega um málið um helgina.
Halldór segir óljóst hvað fyrir Huang Núbo vaki. Þetta er hins vegar stórt veðmál hjá honum ef þetta gengur ekki upp vegna þess að þetta var birt í hundruðum fjölmiðla hérna. Og það voru nokkrir punktar sem voru eiginlega í öllum fjölmiðlum sem voru eins, varðandi að skrifað yrði undir um miðjan nóvember, þetta yrðu sex milljón dollarar og þetta yrði 99 ára samningur segir Halldór.
Hann telur hugsanlegt að um einhvers konar misskilning sé að ræða hjá Huang varðandi samningsundirrituna eða að íslensk stjórnvöld telji ótímabært að upplýsa að hún sé á næsta leiti.
Þriðji kosturinn er sá að þetta hafi bara verið fyrir Kínverja. Á fimmtudaginn hafi verið stór fundur um málið í fyrirtækinu en Huang Nubo sé kannski ekki síst að spila þar leik.
Í öllu falli segir Halldór ljóst að áhugi Kínverja á málinu sé afar mikill. Fréttaflutningur af jarðakaupum Huangs Nubos hafi verið áberandi í kínverskum fjölmiðlum og allir fjölmiðlar hafi birt fréttir af væntanlegri undirritun samninga.
4.7.2012 | 20:31
Stúlkur og vísindi
Það er kunnara en frá þurfi að segja að hið opinberir aðilar um víða veröld eru sínkt og heilagt í alls kyns herferðum, til að lagfæra mannlífið. Alls kyns opinberar og hálfopinberar stofnanir eru eilíflega að uppgötvaeitthvað sem að þeirra mati má betur fara og telja að sjálfsögðu enga betur til þess fallna að lagfæra það en sig sjálfa, svo lengi sem senda má skattgreiðendum reikninginn.
Evrópusambandið er að sjálfsögðu ekki eftirbátur eins né neins í þessum fræðum og á þess vegum eru metnarðarfullar herferðir um hin aðskiljanlegustu málefni. Nú mun m.a. vera í gangi hjá "Sambandinu" herferð til að auka þátttöku stúlkna í vísindum. Til að ná því markmiði var myndbandið sem er hér að neðan m.a. framleitt.
Þegar horft er á myndbandið er ekki hægt annað en að skellihlægja. Það vantar ekki að það er fagmanlega unnið og líklega hefur ekki verið skorið við nögl hvað kostnaðinn varðar. En eitthvað hefur farið úrskeiðis í hugmyndavinnunni, því þetta myndband er eins langt frá því að hvetja stúlkur til menntunar og starfa í vísindum og hugsast getur að mínu mati. Það er líklegra að það hafi þveröfug áhrif.
Reyndar voru viðbrögðin við því slík að myndbandið var fjarlægt af vef "Sambandsins" eftir að hafa verið þar fáeina daga.
Það eina sem ef til vill skyggir á hláturinn, er ef viðkomandi er skattgreiðandi í einum af löndum "Sambandssins" og þurfti því að taka þátt í að fjármagna framleiðsluna.
Fjölmiðlar | Breytt 5.7.2012 kl. 02:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2012 | 15:35
Matthew Broderick's Day Off og Halftime America
Aldrei hef ég horft á Ofurskálina, það einfaldlega heillar ekki. En atriðin í hálfleik hafa oft verið góð og atriði Madonnu í ár var einfaldlega stórkostlegt. En það sem vekur sömuleiðis mikla athygli eru oft auglýsingar sem birtar eru í í leikhléinu.
Hver 30 sekúndna auglýsing kostar meira í birtingu en venjulegt fólk getur áttað sig á, það er því ekki á færi neinna smáfyrirtækja að auglýsa. Mikið er lagt í auglýsingarnar og fátt til sparað. Hér eru tvær sem birtust í ár, ólíkar en ótrúlega flottar báðar tvær.
Fyrst er hér auglýsing frá Honda, þar sem Matthew Broderick skopstælir eigið hlutverk í myndinni Ferris Bueller's Day Off, sem margir kannast við. Sjálfur hef ég horft á myndina margsinnis og þótt því gaman að horfa á þessa stuttu auglýsingu. En ég er ekki rokinn út að kaupa Hondu. Rétt er að taka fram að hér er um lengri útgáfu, en þá sem sýnd var í sjónvarpi að ræða eftir því sem ég kemst næst.
Hér er síðan auglýsing frá Chrysler. Það er enginn annar en Clint Eastwood sem hér fer með aðalhlutverkið. Það er engu líkara en Clint sé að fara í forsetaframboð. Þannig er tónninn í auglýsingunni og hlýtur að teljast "all American" framleiðsla. Til að allt sé upp á borðinu, er rétt að taka fram að fjölskyldan hér á Bjórá, keypti sér Dodge á síðasta ári. Við nutum þó ekki neinna sérkjara.
Að sjálfsögðu voru margar aðrar auglýsingar birtar í kringum ofurskálina, þessar tvær voru einfaldlega þær sem vöktu mína athygli. Ég hygg að flestar eða allar hinar auglýsingarnar megi finna á YouTube.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2012 | 19:34
Saksóknarnefnd Alþingis starfar með saksóknara fyrir Landsdómi
Mér var bent á að lesa grein eftir Óla Björn Kárason á vef hans T24. Greinin, sem heitir "Blekkingar og rangfærslur" fjallar um Landsdómsmálið. Greinin er mjög fróðleg og kemur fjölmargt fram í henni sem ég vissi ekki fyrir. Ég skora á allar sem hafa áhuga á málinu að gefa sér smá tíma og lesa hana. Í greininn er rakið hvernig Alþingi, í gegnum nefnd heldur aðkomu sinni að Landsdómi. Þar er sömuleiðis bent á hvernig, jafnvel þeir Alþingismenn sem starfa í nefndinni, láta þetta ekki koma fram. Í greininni segir:
Mér finnst við vera að grípa inn í starf landsdóms og saksóknara, þannig að mér finnst óeðlilegt að við séum að fjalla um þetta mál, sagði Jónína Rós í viðtali við Morgunblaðið 16. janúar. Þingmaðurinn situr í fimm manna saksóknaranefnd sem samkvæmt 13. grein laga um landsdóm á að fylgjast með málinu og vera saksóknara Alþingis til aðstoðar. Þannig er beinlínis gert ráð fyrir að Alþingi hafi aðkomu að málsókn fyrir landsdómi. Í 16. grein sömu laga er ítrekað að saksóknari skuli hafa samráð við saksóknarnefnd Alþingis í starfi sínu. Alþingi er því ekki aðeins ákærandi heldur hefur sérstök nefnd á vegum þess eftirlit og samráð með verkum saksóknara. Það er vont að þingmaður sem situr í saksóknaranefnd skuli vísvitandi eða af fákunnáttu reyna að telja almenningi trú um að óeðlilegt sé að Alþingi fjalli að nýju um ákæruna gegn Geir H. Haarde.
Síðar í greininni er fjallað um þann málflutning þingmanna Hreyfingarinnar um að taka þurfi upp málið gegn öllum fjórum ráðherrunum, sem Alþingi greiddi atkvæði um á sínum tíma, en Margrét Tryggvdóttir á sæti í saksóknarnefndinni:
Það er áhyggjuefni að þingmaður sem situr í saksóknaranefnd Alþingis, skuli ekki þekkja lög um ráðherraábyrgð betur en raun ber vitni. Í 14. grein laganna kemur skýrt fram að ekki sé hægt að höfða mál á grundvelli laganna ef 3 ár líða frá því, er brot var framið, án þess að Alþingi hafi samþykkt ályktun um málshöfðunina. Þá segir að sök fyrnist þó aldrei fyrr en 6 mánuðir eru liðnir frá því, að næstu reglulegu alþingiskosningar, eftir að brot var framið, fóru fram.
Afskiptum Alþingis af Landsdómi og því máli sem hann rekur er því langt í frá lokið. Þeim afskiptum mun ekki ljúka fyrr en Alþingi annað hvort afturkallar málið eða dómur fellur.
Það er því rangt að segja að málið sé alfarið úr höndum Alþingis og afskipti Alþingis af málinu geti ekki átt sér stað. Það er merkileg staðreynd að ég hef hvergi séð fjallað um þetta í hinu hefðbundnu fjölmiðlum.
14.12.2011 | 18:39
Það stefnir í þjóðarslys.... - Forsætisráðherrann veruleikafirrtur eða heldur að við séum hálfvitar
Ég hlusta og horfi á umræðuna á Íslandi úr nokkurri fjarlægð, en mér finnst ég skynja einvherja breytingu á henni núna undanfarna daga. Það er gríðarlegur pirringur og reiði sem virðist vera að leita leiða til að brjótast út.
Reiðin beinist ekki hvað síst að stjórnvöldum. Æ fleiri virðist upplifa sig í einhverju allt öðru landi en ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru staddir í og lýsa fyrir fólki í fjölmiðlum.
Það virðist ekki vera gjá á milli ríkisstjórnar og almennings, það virðist vera hyldýpi.
Almenningur finnur fyrir miklum niðurskurði og skattahækkunum en sér ekki stjórnkerfið ganga á undan með góðu fordæmi.
Almenningur virðist oft á tíðum upplifa eins og ráðherrar séu að hæðast að sér eða tala niður til sín.
Eðlilega er traust og tiltrú almennings á stjórnvöldum í lágmarki og á stjórnálunum í heild. Ekki að undra, meirihluti kjósenda taldi sig hafa valið besta kostinn í síðustu kosningum.
Hér eru með tvö stutt hljóðskeið fyrir neðan, þau eru ekki lesin upp úr bloggskrifum, þau eru ekki hljóðrituð í kaffistofum, þau eru ekki úr heitu pottunum, þau koma frá einni af stærstu og vinsælustu útvarpsstöðinni á Íslandi, Bylgjunni. Titlarnir segja líklega flest sem segja þarf.
Það stefnir í þjóðarslys ef þetta fólk fær að halda áfram.
Forsætisráðherrann veruleikafirrtur eða heldur að við séum hálfvitar
9.12.2011 | 13:54
Er Jón Bjarnason vinsælasti ráðherrann á Íslandi?
Ekki hefði ég neitt á móti því að Jón Bjarnason hyrfi úr ríkisstjórn, en ég myndi vilja sjá það eftir kosningar og að hann hyrfi á braut ásamt öllum samráðherrum sínum.
En ég verð að viðurkenna að mér þykir það merkilegt að sjá einn ráðherra tekin svona út í könnun. Var virkilega ekki spurt um neina aðra ráðherra? Miðað við hvaða stuðning ríkisstjórnin hefur notið í könnunum undanfarið verður mæling Jóns að teljast góð. En það er óneitanlega verra að hafa ekki mælingu á öðrum ráðherrum til að bera hana saman við.
Ég leyfi mér að efast um að aðrir ráðherrar nytu meiri stuðnings á meðal þjóðarinnar, þó að engan vegin sé hægt að fullyrða nokkuð um það mál.
Það sem vekur mesta athygli við þessa könnun er þó að hún skuli vera gerð. Það þarf þó ef til vill ekki að koma á óvart að hún sé gerð fyrir Fréttablaðið, því það kemur oft býsna skýrt fram hvaða hagsmunum það blað þjónar.
Meirihluti vill að Jón hætti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |