Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Hrun eða erfiðleikar?

Það er vel þekkt að orðalag og hvaða orð eru notuð geta valdið deilum.  Öllum Íslendingum ætti að vera kunnugt um að notkun, eða ekki notkun, orðsins hrun, hefur oft valdið deilum.

Sumir tala um Hrunið, með stórum staf, meðan aðrir hafa talað um bankahrun, eða jafnvel "hið meinta hrun".

Ýmsum hafa verið tamt að nota frasa á við "en manstu ekki að hér varð hrun", sem svör við mörgum mismunandi spurningum.

En nú hafa allir bankar verið lokaðir í 10 daga á Kýpur, ellilífeyrisþegar geta ekki nálgast lífeyrinn sinn, einhverjir bankar hverfa og ströng gjaldmiðilshöft verða sett.  Kýpur þiggur neyðarlán frá Seðlabanka Evrópu, Evrópusambandinu og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.

En hver er þá fyrirsögn Ríkissjónsvarpsins á frétt um Kýpur?

Jú, "Erfiðleikar á Kýpur".

Þannig veljast mismunandi orð.

Vissulega er ekki sama dramatíkin og vafalaust ekki sami þungi í því að nota frasa á borð við "en manstu ekki að hér urðu erfiðleikar?", en .....

 

 

 


Vondu karlarnir og góðu konurnar. Hefnd og eignarhald

Hér og þar um netið hefur mátt sjá óánægju með nýlegar breytingar á ritstjórn Fréttablaðsins. 

Bæði er fullyrt að um sé að ræða hefnd Jóns Ásgeirs og svo hitt líka að um sé að ræða að kynjamismunun eina ferðina enn.

Auðvitað veit ég ekki hvað býr að baki breytingunum á ritstjórn Fréttablaðsins frekar en flestir aðrir.  Einhvern veginn leyfi ég mér þó að efa að um jafnréttismál sé að ræða.  Auðvitað er það svo að ef vilji er fyrir því að hrista upp í ritstjórn þá liggur ekki beinast við að hækka þá í tign sem hafa starfað lengi. Að hafa unnið á fjölmiðli frá stofnun er ekki kostur í öllum tilfellum þó að stundum geti svo verið.

En hvað um "vondu kallana" sem stjórna 365 miðlum?  

Staðreyndin er sú að "vondu köllunum" er stjórnað af konum. Meirihluti, eða 66.6% af stjórn fyrirtækisins er skipaður konum.  Meirihlutaeigandi í fyrirtækinu er kona.

Auðvitað getur það verið að mörgum hafi fundist sá dagur þegar Ingibjörg Pálmadóttir tók við sem stjórnarformaður 365 miðla, af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, einn af merkisdögum Íslenskrar jafnréttisbaráttu, að þar hafi enn eitt "glerþakið" verið brotið.  Ég er ekki einn af þeim.

Ég sá einfaldlega einn eiganda taka við af öðrum, eins og rétt og eðlilegt er.  Það er einmitt þess vegna sem kynjakvóti í fyrirtækjum er ekki að óeðlilegur, heldur er verið að taka sjálfsagðan rétt af þeim sem hætta fé sínu í fyrirtækjarekstri.  Það stríðir gegn lýðræði og á ekkert skylt við jafnrétti.

En hvað um hefndina?

Nú ætla ég ekki að fullyrða um hvort sé að ræða hefnd eður ei.  Hitt er þó að þessar breytingar koma stuttu á eftir frægum greinaskrifum.  

En er ekki nóg að setja lög um sjálfstæði ritstjórna?  Hafa Íslenskir vinstrisinnaðir stjórnamálamenn klifað á því í allnokkur ár?  Skyldi verða reynt að láta reyna á slíkt sjálfstæði í þessu tilfelli?

Svarið liggur í augum upp.  Auðvitað ekki.

Það liggur í augum úti (svo vitnað sé sé í stjórnmálamann og músikkant) að eignarhald á fjölmiðlum skiptir máli og það er notað til áhrifa.

Íslenskir vinstrimenn hafa þó barist ötullega gegna því að slíku yrðu reistar skorður.  Gjarna með þeim rökum að það sé þakkarvert að einhver skuli vilja reka blessaða fjölmiðlana.

En svo vitnað sé í annan músíkalskan stjórnmálamamann:  "Kæri Jón, þú ræður þessu á endanum. Það vita allir."

 


Þverklofinn, einangraður, harðlínuflokkur?

Það hefur verið nokkuð merkilegt að fylgjast með fjölmiðlaumræðunni þessa daga sem hafa liðið frá því að landsfundur Sjálfstæðisflokksins var haldinn.

Ef marka má fjölmiðlaumfjöllun er Sjálfstæðisflokkurinn þverklofinn, einangraður harðlínuflokkur. 

Það er reyndar nokkuð merkilegt að mun meira hefur farið fyrir Evrópusambandssinnuðum Sjálfstæðismönnum í fjölmiðlum, en þeim sem eru andsnúnir "Sambandsaðild".

Þó var það svo að ályktun þar sem "Sambandsaðild" var hafnað, var samþykkt með yfirburðum á landsfundi og í síðustu könnun sem ég hef séð, voru það rétt ríflega 7% af þeim sem sögðust kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem voru fylgjandi aðild að Evrópusambandinu.

Samt er umfjöllun margra fjölmiðla eins og það sé lýðræðislegt hneyksli að ekki skuli tekið meira tillit til "Sambandssinna" innan Sjálfstæðisflokksins.

Þess má til gamans geta að í sömu könnun, voru rétt tæp 16% kjósenda Samfylkingar andsnúin "Sambandsaðild" og hlutfallið var um 32% hjá Bjartri framtíð.

Skyldu fjölmiðlar gera kröfu um að þeir flokkar komi á einhvern hátt til móts við þá kjósendur?

Sumir "virtir" fjölmiðlamenn eru með slíka rörsýn í þessu máli að þeir telja að nú sé Vg orðin frjálslyndari flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn, allt vegna þess að flokkurinn er hrifnari af "Sambandsaðild".  Það er merkileg skilgreining á frjálslyndi.

Könnunin sýndi ennfremur að u.þ.b. 2/3 hlutar kjósenda er andsnúin "Sambandsaðild", en u.þ.b. 1/4 er hlynntur aðild.

En sá flokkur sem hafnar aðild er talinn "einangraður".  Hvernig má það vera?  Er það svo slæmt hlutskipti að ríflegur meirihluti kjósenda sé sömu skoðunar og flokkurinn í þessu stóra máli?

Loks er það málið með "Evrópu(sambands)stofu".  Það þykir mörgum manninum það sýna hrikalega harðlínustefnu að óskað sé eftir því að henni sé lokað.

Egill Helgason sagði í Silfri Egils á sunnudaginn var, eitthvað í þá áttina að hann þekkti ekki mikið til hennar, en þetta væri eitthvað svona sem flest mætti finna á internetinu.  Er þá að vera á móti "Evrópu(sambands)stofu", svipað og að vilja loka internetinu?

Nei, auðvitað ekki og líklega þætti mörgum það skrýtið að "Sambandið" væri að eyða á Íslandi á 3ja hundrað milljónir, til þess að kynna eitthvað sem hægt er að finna á internetinu.

Hvað er það sem "Evrópu(sambands)stofu" er ætlað að gera á Íslandi, sem fjölmörgum samtökum "Sambandssinna" er ekki treystandi fyrir að gera? 

Aðrir vilja líkja "Evrópu(sambands)stofu" við Goethe stofnunin eða Menningarstofnum Bandaríkjanna.  Hafa þær farið með fundaherferðum um Ísland og hvatt Íslendinga til þess að ganga í sambandsríkið Þýskaland, eða að verða ríki í Bandaríkjum N-Ameríku?

Reyndar er það svo að menningaráætlun Evrópusambandsins rekur sína eigin skrifstofu í Reykjavík á Hverfisgötu og hefur sína eigin vefsíðu.

Sumir grípa til vísvitandi rangfærslna, eins og lesa má hér.  Þar er haft eftir Benedikt Jóhannessyni:

"En að Sjálfstæðisflokkurinn, sem verið hefur stærsti flokkurinn, sé að samþykkja þetta um sendiráð vinaþjóða finnst mér flokknum til mikillar skammar," segir Benedikt.

Var eitthvað ályktað um sendiráð, eða lokun þeirra á landsfundi Sjálfstæðisflokksins?  Ef svo er hefur það farið alveg fram hjá mér.  "Evrópu(sambands)stofa" er ekki það sama og sendiráð Evrópusambandsins.

Það er auðvitað engin harðlínustefna að vilja að loka skrifstofu sem er rekin af erlendum aðilum i þeim eina tilgangi að reka áróður fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið.  En það hittir "Sambandssinna" beint í "hjartastað".  Fylgi við inngöngu Ísland er rétt um 25% og virðist ekki fara vaxandi.

Eini vettvangurinn þar sem þeir njóta yfirburða er í áróðrinum.  Hann vilja þeir ekki gefa eftir.

Nú er rétt að það komi fram að ég hef í sjálfu sér enga hugmynd um hvað fram fór á landsfundi Sjálfstæðisflokksins þetta árið, en mér þykir ljóst að flokkurinn hefur tapað þegar kemur að fjölmiðlaumfjöllun frá honum.

 

 


Blaðamenn að ýta eigin skoðunum?

Þessi frétt og tilkynning Más Guðmundssonar er merkileg og vert að taka eftir.

Fréttir geta haft mikil áhrif og villandi fréttir mikil villandi og jafnvel hættuleg áhrif.

Það er því miður mun algengara en margir halda og jafnvel trúa að fréttir litist af skoðunum þess sem fréttina ritar.  Það má jafnvel segja að ekki sé hægt að komast hjá því alfarið.

En þegar fréttamaður að setja skoðanir annara fram með villandi hætti er skörin ekki að færast, heldur komin upp á bekkinn.

Staðreyndin er sú að frétt Bloomberg vakti all nokkra athygli og hafði líklega all nokkur áhrif.

En þumalputtareglan er sú að leiðréttingar eins og Már sendir nú frá sér vekja mun minni athygli og ná yfirleitt ekki að leiðrétta misskilning sem upphaflega fréttin hefur valdið.

Gott dæmi er fyrirsögn sem ég sá nú rétt í þessu á Íslenskum fjölmiðli sem segir:  "Már áréttar ummæli um krónu."

En auðvitað reyna ábyrgir fjölmiðlar að forðast að starfa með þessum hætti.  

Fjölmiðill eins og Bloomberg hlýtur að bregðast við tilkynningum sem þessari með einhverjum hætti.  Til dæmis með því að biðjast afs0kunar. 

 

 

 


mbl.is Már segir frétt Bloomberg villandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ranghugmyndir" skulu kæfðar í fæðingu

Forvirk starfsemi á netinu.  Auðvitað þarf að "temja" þessa nýju tækni.  

Frelsið er ekki bara yndislegt heldur getur verið fjandsamlegt ríkjandi valdhöfum og skoðunum þeirra.

Slíkt þarf að "leiðrétta" strax.

Umræða án eftirlits er hættuleg og getur afvegaleitt þá sem eru "veikari fyrir".  Til dæmis börn og unglinga.

Því erfiðari sem staða margra valdhafa verður, því meiri áhersla er oft lögð á áróður og hugsanamótandi "eftirlit".  Þess má víða finna dæmi í sögunni.

En sem betur fer eru slíkar aðgerðir æ erfiðari eftir því sem tækninni í samskiptum hefur fleygt fram.  Upplýsingar finna sér nýja og nýja farvegi.

Ég hef ekki stórar áhyggjur af því að "Sambandinu" takist að hefta umræðu um galla þess og það sem miður og aflaga fer hjá því.  

En ég hef áhyggjur af því hugarfari sem þarna kemur fram.

Því stóra spurningin er, hver ákveður hvað er rétt og hvað er rangt?  Hvar þarf að grípa inn í og hvar ekki? Hvaða umræðu er þörf að á vinna á móti?

Það að "Sambandið" skuli ætla að fara að ráða "tröll" í vinnu við að "stjórna" umræðunni og beina henni í réttan farveg, er slæm tilhugsun.  En að ýmsu leiti því býsna týpiskt viðbragð af hálfu "Sambandsins".

Því máttarstólpar "Sambandsins" eru gjarnan þeir sem "vita betur".  Þeir sem "vita betur" en almenningur hvað honum er fyrir bestu.  Þeir sem vilja fara að vilja almennings eru "ómerkilegir popúlistar".

Og njóti þeir sem "vita betur" ekki hylli almennings, sannar það þá ekki einmitt það, að þeir "viti betur"?

Það eina sem vantar til að þeir sem "vita betur" njóti stuðnings almennings er að hann sé uppfræddur og umræðan sé "rétt".

Það er einmitt það sem "Sambandið" ætlar að gera nú.

P.S.  Stundum þegar ég er að þvælast á netinu, hef ég það á tilfinningunni að "beta útgáfa" af þessari herferð "Sambandsins" sé í gangi á Íslandi.

En þar á jú einmitt að eyða einhverjum hundruðum milljóna til þess að leiðrétta "ranghugmyndir" og fá almenning til þess að fylgja þeim sem "vita betur".

 

 


mbl.is Vill taka á gagnrýni á ESB á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hlaupa í skarðið

Að hlaupa í skarðið er velþekkt Íslenskt máltæki og reyndar einnig barnaleikur.

Ég get tekið undir með þeim sem tala um að það sé vont þegar ríkisstjórn Íslands og forseti Íslands tali fyrir ólíkum stefnum í utanríkismálum. Það er vissulega betra ef málstaður Íslands er kynntur einni röddu.

En stundum er það líklega allt í lagi að Íslendingar eigi sér fleiri en einn talsmann og að umheimurinn viti að skiptar skoðanir séu á Íslandi í ýmsum málum.

Það þarf aðeins að koma skýrt fram hvernig raunveruleg valdskipting er.

Víða er hefð fyrir því að kóngafólk lesi upp af blaði það sem ríkisstjórnin hefur skrifað.  Hjá sumum þjóðum velur þjóðþingið forsetann og hefur að því leyti vald yfir honum.

Það er gott að hafa það í huga að slíkir þjóðhöfðingjar eru ekki þjóðkjörnir.

Í IceSave málinu kom t.d. skýrt og greinilega fram að ríkisstjórn Íslands talaði ekki fyriri hönd meirihluta kjósenda.  Hún var á öndverðri skoðun við þá.  Þar var forsetinn mun nær því að flytja málstað meirihluta kjósenda á erlendri grundu.

Var að slæmt?  Er það eitthvað sem Íslendingar myndu vilja hindra í framtíðinni?

Svo má velta því fyrir sér hversu vel hefur verið haldið á fyrirsvari fyrir Ísland, af hálfu ríkisstjórnarinnar, á því kjörtímabili sem er nú sem betur fer að ljúka?

Hefur forsætisráðherra verið sá trausti og góði talsmaður Íslands á alþjóðavettvangi sem landið þarf á að halda?

Er forsetinn fyrst og fremst að fylla það tómarúm sem hefur skapast á þeim vettvangi, er hann að "hlaupa í skarðið"?

Hvað skyldi valda því að erlendir fjölmiðlar hafa mun meiri áhuga á því að ræða við forseta Íslands heldur en forsætisráðherrann?

Gæti það verið vegna þess að forsetinn er aðgengilegur og liðlegur í umgengni við fjölmiðla?  Og vegna þess að forsætisráðherrann er....  ????

Mismunandi aðstæður kalla á mismunandi lausnir.

Vissulega er gott að setja skýrar reglur um ýmsa hluti, þar með vald- og verksvið forseta Íslands.  Ef til vill þarf að gera það fyrir forsætisráðherra einnig?

En lög og reglur ná aldrei yfir alla hluti í mannlegum samskiptum.  Og sveigjanleiki í samskiptum getur á stundum verið kostur.

Væri gott að forseti og ríkisstjórn gengju í takt?  Já.   Hefði það verið gott að aðeins afstaða ríkisstjórnarinnar í IceSave málinu hefði heyrst á erlendri grundu?  Nei. 

Það sama má segja um aðildarumsókn Íslendinga að "Sambandinu".  Það er nákvæmlega ekkert að því að það komi fram í erlendum fjölmiðlum að skoðanakannanir sýni meirihluta Íslendinga andsnúna aðild og að annar ríkisstjórnarflokkurinn sé það sömuleiðis.

Ef til vill eru slík undarlegheit ekki besta auglýsingin fyrir Íslensk stjórnmál, en þau eru sannleikurinn eigi að síður.

Eins og í mörgum öðrum málum, eru hlutirnar ekki bara svartir og hvítir.


mbl.is „Ríkisstjórnin vanrækti hlutverk sitt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Daníelsson á Sprengisandi: Vandamálið er stjórnvöld, skatta- og reglugerðarumhverfi

Ég fékk ábendingu um að ég ætti að hlusta á viðtal Sigurjóns M. Egilssonar, við hagfræðingin Jón Daníelsson, í þættinum Sprengisandi.

Það var góð og þörf ábending og ég myndi hiklaust hvetja alla til þess að hlusta á viðtalið.  Sérstaklega ættu þeir sem eru í framboðið fyrir næstu kosningar að leggja við hlustirnar.

Þó að frásögn Jóns um rannsóknir hans á tölvuvirkni og áhættu á fjármálamörkuðum hafi verið fróðlegar, var það fyrst og fremst tal hans um ástandið á Íslandi sem vakti athygli mína.

Í stuttu málii sagði Jón að lunginn af vandanum á Íslandi væri heimatilbúinn.  Vandamálið væri stjórnvöld og skatta- og reglugerðarumhverfið sem þau hafa skapað.

Það væri fyrst og fremst það sem virkaði fælandi á fjárfestingu á Íslandi, og kæmi í veg fyrir ný- og atvinnusköpun.

Það aftur leiddi svo af sér bólumyndun, þar sem fjármagnið og fjárfestingarþörfin leitaði nær eingöngu inn í Kauphöllina og fasteignamarkaðinn.

Það eina sem ég get kvartað yfir þessu viðtali, að í raun var það alltof stutt.  Það hefði verið virkilega fróðlegt að heyra meira af skoðunum og kenningum Jóns um Íslenskst efnahagslíf.

Ég skora á einhvern Íslenskan fjölmiðil að taka langt og ítarlegt viðtal viið Jón á næstu vikum.

En enn og aftur hvet ég alla til að hlusta á viðtalið úr Sprengisandi.

 

 

 


Klám til innanhússbrúks hjá Vinstri grænum?

Ekki nenni ég að fara að æsa mig um of yfir því að Ögmundur Jónasson hugsi um og reyni að skilgreina klám, eða feli öðrum þá vinnu. 

Endanleg niðurstaða fæst líklega aldrei, enda gamla spakmælið að klám sé loðið og teygjanlegt hugtak enn í gildi.

En þó að líklegast verði að telja að þessi hugmynd sé fyrst og fremst ætluð til innanhússbrúks hjá Vinstri grænum og sé ætluð til að tryggja í það minnsta "harðkjarna" femínskt fylgi yfirgefi ekki flokkinn eins og svo margir aðrir, þá er ástæða til að gjalda varhug við hugmyndum sem þessum.

Auðvitað eru engar líkur á því að þetta frumvarp komi fram á þessu kjörtímabili og lítlar líkur á því að Ögmundur verði innanríkisráðherra að kosningum loknum.  En það er í þessu eins og á jólunum, það er hugurinn sem gildir.

Það er vandséð hvernig þessi hugmynd ætti að komast á koppinn án umfangsmikillar ritskoðun.  Það skiptir engu máli hvort að menn telji það réttlætanlegt eður ei, um ritskoðun yrði að ræða.  Það er best að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.  Hér er frekar umdeilanlegt um hvort að þörf sé fyrir annað orð en ritskoðun, því bannið beinist ef til vill minnst að rituðu orði, og þó tjáningarfrelsi sé til nær það líklega heldur ekki beint yfir gjörninginn.

Hvernig á að skilgreina klám, hvernig á að framkvæma bannið?

Hverjar verða refsingarnar við því að eiga klám?

Hafa verður í huga að erótík eins er klám í augum annars.  Hver ætlar að dæma á milli og hver ætlar að kortleggja þær internetsíður sem þarf að banna.

Verður bókin "50 gráir skuggar" bönnuð?  Lýsir hún ofbeldiskynlífi?  Skyldu leikararnir í myndinni sem er í undibúningi að gera eftir bókinni vera "misnotaðir"? (Hér er líklega rétt að taka fram að ég hef ekki lesið bókina, en nefni hana aðeins vegna þess að hún hefur verið nokkuð í fréttum).

Eða yrði "mömmuklám" (undarlegt nýtt hugtak, ekki satt?)  áfram leyflegt á Íslandi?

Þessi hugmynd er að mínu viti slæm.  Ekki það að ekki sé sjálfsagt að berjast gegn lögbrotum og misnotkun, jafnt í klámiðnaðinum sem á öðrum sviðum.  Það er auðvitað sjálfsagt mál.

En aðferðafræðin er gamaldags og hættuleg.

Boð og bönn og aukin forræðishyggja eru ekki lausnin.

Slíkar lausnir opna hins vegar dyr til leiða, sem auðveldlega geta leitt stjórnvöld á hættulegar brautir.  Sporin hræða.  Hér sem sem í mörgu öðru er gott að hafa í huga að leiðin til glötunar er vörðuð góðum áformum.

P.S.  Hvort að þetta verði Vinstri grænum til hagsbóta í kosningabaráttunni leyfi ég mér að efast um.  Gæti trúað að þetta fældi fleiri frá því að kjósa flokkinn en hitt.

Þannig er hugsanlegt að þetta hafi af sér jákvæðar afleiðingar.

 


mbl.is Klámtakmörkun ekki ritskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinir skyni skroppnu kjósendur

Stundum er sagt að það sé erfitt að vinna kosningar í kappræðum.  Það sé hins vegar afar auðvelt að tapa þeim.  Það þurfi ekki nema ein mistök.

Það er spurning hvort að slík mistök hafi orðið í Kastljósi gærdagsins þegar Árni Páll Árnason fór að tala um að hann trúi því ekki að það séu til nógu margir skyni skroppnir kjósendur til að andstæðingar hans beri sigur úr býtum í komandi kosningum.

Það var sérstaklega slæmt fyrir Árna að spyrillinn greip mistök hans á lofti og endurtók þau og spurði hann svara.  Sem Árni Páll hafði í raun ekk.

Það er ekki gott að fullyrða að meirihluti þeirra sem hafa tekið afstöðu í nýlegum skoðanakönnunum séu skyni skroppnir einstaklingar.  

Ekki gott pólítískt veganesti.

En það er erfitt að meta hvort að þetta á eftir að hafa einhver áhrif á formannskosninguna sem nú stendur yfir í Samfylkingunni.

Ef til vill munu félagsmenn í Samfylkingunni refsa Árna Páli fyrir mistökin og telja að slíkur hroki eigi ekki heima i forystu Samfylkingarinnar, ef til vill munu þeir leiða þetta hjá sér.  Einhver hluti þeirra kann svo að vera sammála Árna Páli í þessum efnum.

Svipuð röksemdafærsla hefur heyrst oft úr þeim herbúðum undanfarna daga.  Munurinn hefur þó verið að hún hefur verið betur og kurteislega sett fram.  Það skiptir miklu máli.

 

 


Hvað borgaði Pepsi?

Var að horfa á Silfur Egils, frá 13. janúar.  

Nú bíð ég eftir því að Álfheiður Ingadóttir beini þeirri málaleitan að  menntamálaráðherra á Alþingi, að komast að hvað Pepsi hafi borgað Ómari Ragnarssyni fyrir að setja 4. Pepsi flöskur upp á borðið?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband