Saksóknarnefnd Alþingis starfar með saksóknara fyrir Landsdómi

Mér var bent á að lesa grein eftir Óla Björn Kárason á vef hans T24.  Greinin, sem heitir "Blekkingar og rangfærslur" fjallar um Landsdómsmálið.  Greinin er mjög fróðleg og kemur fjölmargt fram í henni sem ég vissi ekki fyrir.  Ég skora á allar sem hafa áhuga á málinu að gefa sér smá tíma og lesa hana.  Í greininn er rakið hvernig Alþingi, í gegnum nefnd heldur aðkomu sinni að Landsdómi.  Þar er sömuleiðis bent á hvernig, jafnvel þeir Alþingismenn sem starfa í nefndinni, láta þetta ekki koma fram.  Í greininni segir:

Mér finnst við vera að grípa inn í starf landsdóms og saksóknara, þannig að mér finnst óeðlilegt að við séum að fjalla um þetta mál,“ sagði Jónína Rós í viðtali við Morgunblaðið 16. janúar. Þingmaðurinn situr í fimm manna saksóknaranefnd sem samkvæmt 13. grein laga um landsdóm á „að fylgjast með málinu og vera saksóknara Alþingis til aðstoðar“. Þannig er beinlínis gert ráð fyrir að Alþingi hafi aðkomu að málsókn fyrir landsdómi. Í 16. grein sömu laga er ítrekað að saksóknari skuli hafa „samráð við saksóknarnefnd Alþingis“ í starfi sínu. Alþingi er því ekki aðeins ákærandi heldur hefur sérstök nefnd á vegum þess eftirlit og samráð með verkum saksóknara. Það er vont að þingmaður sem situr í saksóknaranefnd skuli vísvitandi eða af fákunnáttu reyna að telja almenningi trú um að „óeðlilegt“ sé að Alþingi fjalli að nýju um ákæruna gegn Geir H. Haarde.

Síðar í greininni er fjallað um þann málflutning þingmanna Hreyfingarinnar um að taka þurfi upp málið gegn öllum fjórum ráðherrunum, sem Alþingi greiddi atkvæði um á sínum tíma, en Margrét Tryggvdóttir á sæti í saksóknarnefndinni:

Það er áhyggjuefni að þingmaður sem situr í saksóknaranefnd Alþingis, skuli ekki þekkja lög um ráðherraábyrgð betur en raun ber vitni. Í 14. grein laganna kemur skýrt fram að ekki sé hægt að höfða mál á grundvelli laganna „ef 3 ár líða frá því, er brot var framið, án þess að Alþingi hafi samþykkt ályktun um málshöfðunina“. Þá segir að sök „fyrnist þó aldrei fyrr en 6 mánuðir eru liðnir frá því, að næstu reglulegu alþingiskosningar, eftir að brot var framið, fóru fram.

Afskiptum Alþingis af Landsdómi og því máli sem hann rekur er því langt í frá lokið.  Þeim afskiptum mun ekki ljúka fyrr en Alþingi annað hvort afturkallar málið eða dómur fellur.

Það er því rangt að segja að málið sé alfarið úr höndum Alþingis og afskipti Alþingis af málinu geti ekki átt sér stað.  Það er merkileg staðreynd að ég hef hvergi séð fjallað um þetta í hinu hefðbundnu fjölmiðlum. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi nefnd er reyndar skipuð skv. lögum um Landsdóm til að fylgjast með málinu og að vera saksóknara alþingis til aðstoðar. Það stendur reyndar ekkert í lögunum að saksóknara sé skylt að hlusta á nefndina. Hann á að hafa samráð við hana, en eins og Gunnar Thoroddsen orðaði það svo eftirminnilega: Samráð er ekki sama og samþykki.

Málið er hins vegar úr höndum alþingis, að ákæruskjal hefur verið lagt fram, málið þingfest og nú á að fara með málið að öllu leyti, nema Landsdómslög kveði á um annað, eins og um venjulegt sakamál sé að ræða.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 18.1.2012 kl. 22:15

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég geri ekki kröfu um að teljast sérfræðingur í þessum lögum, en orðalagið:  „að fylgjast með málinu og vera saksóknara Alþingis til aðstoðar“ er nokkuð sterkara en "samráð" sem fjallað er um í þeirri 16.

En þetta tekur samt af allan vafa í mínum huga um að aðkomu Alþingis að málinu er alls ekki lokið. 

G. Tómas Gunnarsson, 18.1.2012 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband