Skuldar þjóðin honum eitthvað? Skulda stjórnmálaflokkarnir honum eitthvað?

Ekki ætla ég að fullyrða um hvað stendur að baki fullyrðingum Páls Magnússonar í grein hans á Pressunni, en  þegar Sjónvarpsstjórinn setur fram spurningar eins og gert er í greininni, hlýtur það að vekja athygli.  Fjölmiðlar landsins, og þá ef til vill ekki síst sá er Páll stjórnar, hljóta að fara ofan í saumana á málinu og reyna að leiða fram svör.

Fjölmiðlar landsins hljóta fjalla um þessar fullyrðingar og spurningar og skrýtið er ef þeir krefja Pál ekki frekari skýringa á greininni.  Fyrir sumar fréttastofur er ekki langt að fara.

En grein Páls er stutt en kjarnyrt.

Ég leyfi mér að birta hana í heild sinni hér að neðan.

 Banki þjóðarinnar, Landsbankinn, hefur frá hruni afskrifað á kostnað almennings milljarða á milljarða ofan vegna fjölmiðlareksturs Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Því til viðbótar berast reglubundnar fréttir af því að ríkisbankinn semji æ ofan í æ um endurfjármögnun á þessum rekstri - til að tryggja áframhaldandi eignarhald og yfirráð Jóns Ásgeirs á 365, sem er langstærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins.

Ofan á þetta bætist að nú liggur fyrir Alþingi ríkisstjórnarfrumvarp sem árlega mun flytja 300-400 milljónir króna af auglýsingatekjum frá RÚV beint í vasa 365 og Jóns Ásgeirs, sem fyrir er með um 60% af heildarauglýsingamarkaðnum á Íslandi.

En þar með er ekki allt upp talið. Það liggur líka fyrir ríkisstjórnarfrumvarp sem fjallar um eignarhald á fjölmiðlum og tryggir að ekki verður hreyft við einsmanns eignarhaldi Jóns Ásgeirs á meira en helmingi íslenskra fjölmiðla, sé miðað við veltu.

Af hverju stendur ríkisvaldið þennan grimmilega og grímulausa vörð um hagsmuni og ítök Jóns Ásgeirs Jóhannessonar? Skuldar þjóðin honum eitthvað? Skulda stjórnmálaflokkarnir honum eitthvað?

Páll Magnússon, útvarpsstjóri

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Í skjóli velferðarstjórnarinnar þrífst margt sérkennilegt.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 29.10.2012 kl. 10:19

2 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Já og lýtið upp á borðum, bara það sem þolir dagsljósið!

Eyjólfur G Svavarsson, 29.10.2012 kl. 22:42

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Já, það gerist hér margt svo undarlegt. 

En það sem vekur ef til vill mesta athygli mína er hve litla athygli ummæli Páls í raun vekja.

Ég sá svargrein eftir Ara Edwald, en það er að ég held næstum því það eina.  Það virðist engin áhugi fyrir því að fylgja þessu eftir, eða að krefja Pál frekari skýringa á því hvað hann á við.

Ef til vill þykja þetta "engar fréttir"?

G. Tómas Gunnarsson, 30.10.2012 kl. 09:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband