Færsluflokkur: Fjölmiðlar
28.11.2011 | 15:24
Skeiðklukkupólítík
Sá það rétt í þessu á Eyjunni, að nú hafa Samfylkingarþingmenn miklar áhyggjur af því að einhver njóti meiri pólítískrar athygli en þeir sjálfir, all vegna í sekúndum talið.
Ef þeir fá ráðið verða fengnir starfsmenn í Menntamálaráðuneytið til að sekúndumæla umfjöllun ríkissjónvarpsins um landsfundi stjórnmálaflokkanna. Það mætti auðvitað hugsa sér að bjóða slíkt eftirlit út á Evrópska efnahagssvæðinu.
Ef ekkert er að gert í þessum málum liggur fyrir að starfsfólk RUV veður uppi með sitt eigið fréttamat með ófyrirséðum afleiðingum fyrir land, þjóð og Samfylkinguna. Ekki þó nauðsynlega í þessari röð.
Auðvitað er það svo að spennandi atburðir njóta alla jafna meiri athygli en óspennandi. Það sama gildir um stjórnmálamenn, stjórnmálaflokka og landsfundi þeirra.
En þeir minna spennandi taka upp skeiðklukkuna.
26.11.2011 | 23:02
Bæði með og á móti flestum málum
Það er gömul regla, sem þó er ekki alltaf virt, hjá fjölmiðlafólki að tala helst bæði við þá sem eru fylgjandi og andsnúnir þeim málum sem fjallað er um. Það þykir góð "pólísía" og nokkuð sanngjörn þó það tryggi ekki hlutleysi, en það er önnur saga.
Nú um stundir í Íslenskri pólítík þýðir hins vegar að leiða saman ólík sjónarhorn, að tala við tvo eða fleiri stjórnarþingmenn.
Það er ekki að undra að stjórnandstaðan eigi stundum erfitt upprdráttar og eigii erfitt með að ná vopnum sínum.
Það eru öll sjónarmið "dekkuð" af stjórnarþingmönnum.
18.11.2011 | 04:57
Capacent könnun. Dregur úr fylgi við aðildarviðræður
Það er eiginlega ekki hægt að segja mikið um þessa könnun. Það verður að bíða eftir því að eitthvað meira birtist um hana, ef eitthvað meira verður þá birt. Til þess að ná að segja að meirihluti styðji aðildarviðræðum (jafnvel þó að þjóðaratkvæði sé hengt þar á til að reyna að ná til fleiri) er brugðið á það ráð að birta aðeins niðurstöðu þeirra sem taka afstöðu.
Það er reyndar með hálfgerðum eindæmum að fjölmiðill sem vill láta taka sig alvarlega birti samanburð eins og hér er til hliðar.
Eins og sést á myndinni (sem ég fékk "lánaða" úr Fréttablaðinu) er MMR könnuninni skipt í 3 hluta, Fylgjandi, hvorki né, og svo andvígur. Capacent könnuninn er svo aðeins skipt í 2. hluta ljúka og slíta.
Engu líkara en það eigi að reyna að fá Íslendinga til að trúa því að allir hafi tekið afstöðu.
Þrátt fyrir þetta og þá staðreynd að reynt að að nota jákvæða ímynd þjóðaratkvæðagreiðslu, fer fylgi við þann valkost dvínandi. Fylgismenn aðildar reyna þó að bera sig vel og segir formaður Sterkara Íslands í Fréttatímanum að hann hafi átt von á því að stuðningur við aðild hefði minnkað enn meira. Það er þetta með stjórnmálamennina og varnarsigrana.
Það er heldur ekki nema von að formaðurinn hafi átt von á meira fylgishruni, því þeir sem fylgjast með því hvernig ástandið er í "Sambandinu" og sérstaklega á eurosvæðinu, eru auðvitað rasandi á því hve margir Íslendingar vilja ennþá "kíkja í pakkann".
En auðvitað fækkar þeim sem hafa áhuga á aðildarviðræðum jafnt og þétt þegar Íslendingar átta sig á hvers eðlis aðildarviðræðurnar eru og enn frekar þegar litið er yfir sviðið og sést hvernig vandræðin hrannast upp á eurosvæðinu. Æ fleiri átta sig á að euroið er byggt á draumsýn og rifist er um hvað þurfi að gera til að koma undir það fótunum og hvernig eigi að gera það.
Engin veit í hvaða átt Evrópusambandið stefnir eða vill stefna og koma misvísandi yfirlýsingar fram oft í viku, allt eftir við hvaða framámann er talað, en framámenn er þó eitthvað sem "Sambandið" hefur nóg af, þó að kjörnum leiðtogum fari fækkandi.
Þess vegna er tímabært að draga aðildarumsóknina til baka.
P.S. Bætt hér við. Var að sjá að RUV var að fjalla um Capacent könnunina. Þeir mega eiga það að þeir nefna MMR könnunina jafnhliða, en eru þó eins og aðrir að bera saman kannanirnar án þess að reikna þær upp, þannig að MMR niðurstaðan inniheldur óákveðna, en Capacent niðurstaðan ekki. Undarleg vinnubrögð.
Meirihluti vill kjósa um ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.11.2011 | 13:02
Er það bara um helmingur sem vill draga umsóknina til baka?
Nú hefur RUV birt frétt um könnunina sem MMR gerði fyrir Andríki og síðast færsla mín fjalla um. Fyrirsögnin er:
Helmingur vill hætta við umsókn
Hér er fréttin í heild.
Um helmingur þjóðarinnar vill draga umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka, samkvæmt könnun sem MMR gerði fyrir Andríki. Spurt var hversu fylgjandi eða andvígir menn væru því að stjórnvöld dragi umsóknina til baka.
Um helmingur kvaðst mjög eða frekar fylgjandi því að umsóknin yrði dregin til baka, 14 prósent voru hvorki fylgjandi né andvígir og ríflega 35 prósent mjög eða frekar andvíg því.
Þeim hefur fækkað sem vilja draga umsóknina til baka frá því MMR gerði sambærilega könnun fyrir Andríki í fyrra. Þá voru tæplega 57 prósent fylgjandi því að umsóknin yrði dregin til baka en 24 prósent á móti því.
Fréttablaðið kannaði um miðjan september hvort kjósendur vildu heldur að umsóknin að ESB yrði dregin til baka eða aðildarviðræðum lokið og samningur settur í þjóðaratkvæði. Þá sögðust 63 prósent vijla halda viðræðum áfram en 37 prósent að þeim yrði hætt.
Fréttastofan leggur sig í framkróka að því er virðist að nefna ekki prósentutölu þeirra sem vilja draga umsóknina til baka. Þeir kjósa frekar orðalagið "um helmingur". Þegar kemur að þeim sem vilja halda umræðum áfram er orðalagið ákveðnara "ríflega 35%".
Að sjálfsögðu sneyðir fréttastofan hjá því að nota orðið meirihluti um þá sem vilja draga umsóknina til baka.
Hver skyldu nú vikmörkin á "um helmingur" vera?
Svo er að sjálfsögðu ekki hægt að skrifa um þessa skoðanakönnun án þess að minnast á könnun sem Fréttablaðið gerði í september og þá ver svo við að prósentan kemur skýrt fram og óákveðnir eru ekki með í þeim útreikningum.
Skyldi verða minnst á þessa könnun, næst þegar fjallað verður um könnun Fréttablaðsins eða Gallup?
Sá á VefÞjóðviljanum að samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem MMR hefur unnið fyrir Andríki er það vilji meirihluta Íslendinga að aðildarviðræðum við "Sambandið" verði slitið. Það þarf ekki að koma á óvart eins og staðan er í dag.
Spurningin sem lögð var fyrir svarendur er einföld:
Hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ertu því að íslensk stjórnvöld dragi umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka?
Niðurstöðurnar eru afdráttarlausar. Minnihluti, 35,3%, vill halda umsókninni til streitu en 50,5% vilja draga umsóknina til baka.
Nánari upplýsingar um könnunina má finna hér.
Það kemur fram í vefritinu að önnur könnun sé væntanleg, þar sem spurningar eru orðaða öðruvísi og verður fróðlegt að sjá hvernig niðurstöður verða úr henni ef hún hefur verið gerð.
Það verður ekki síður fróðlegt að sjá hvaða meðferð og umfjöllun þessi skoðanakönnun fær í fjölmiðlum.
Flestir fjölmiðlar eru hrifnir af og gera mikið úr niðurstöðum skoðanakannana, enda auðvelt að gera "uppslátt" úr þeim.
En það hefur þó sýnt sig í gegnum tíðina, að ef niðurstöður eru ekki í takt við "ritstjórnarstefnu" þá njóta kannanir minni hylli.
En ég fagna þessari könnun og þessari niðurstöðu, þó að kannanir séu vissulega eingöngu kannanir. En þeir gefa vísbendingar og því sterkari sem niðurstöðurnar eru afdráttarlausari.
9.11.2011 | 19:38
Fasísk minni í frímerkjaútgáfu?
Ég verð að viðurkenna að mér finnst skrýtið að sjá talað um daður Framsóknarflokksins við "fasísk minni", en vissulega er það svo að skoðanir einstaklinga eru mismunandi og er þeim frjálst víðast hvar að setja þær flestar hverjar fram. Við verðum að vona að að svo verði áfram.
Þó að ég verði að viðurkenna á sjálfan mig að vera ekki þaulkunnugur merkjum Framsóknarflokksins og að hvaða leiti þau daðra við fasísk minni, þá fannst mér þó að Eiríkur Bergmann hlyti að eiga við það merki sem ég hef sett hér inn.
Hvað það sem gerir það að verkum að merki þetta "daðri við faskísk minni" er mér ekki alveg ljóst, en þar sem það getur varla verið hið "gamla" merki flokksins hlýtur það að vera Íslenski fáninn, sem þarna glittir í, eða þá sólin sjálf, nema að þau saman séu fasísk í eðli sínu.
Það fyrsta sem mér datt hins vegar í hug þegar ég sá þessa útfærslu á merki framsóknarflokksins var frímerki.
Nánar tiltekið frímerki sem gefin voru út á Íslandi árið 1969 til að fagna 25. ára afmæli lýðveldis á Íslandi. En það sýnir einmitt sól rísa yfir Íslenska fánanum. Er merki Framsóknar reyndar svo líkt að mér þykir ekki ólíklegt að frímerkið hafi verið haft til hlíðsjónar við gerð merkisins.
En erum við komin þangað að hvert sinn sem stjórnmálaflokkar láta glitta í Íslenska fánann eða vísa til þjóðlegra gilda sé byrjað að tala um þjóðernistefnu, þjóðrembing og daður við fasísk gildi?
Eða er það svo í hugum sumra að hver sá sem heldur takti við trumbuslögin frá Brussel og ekki dansar við Óðinn til gleðinnar er þjóðremba, þjóðernissinni, einangrunnarsinni eða þaðan af verra?
Reyndar virðist vera sterk tilhneyging um alla Evrópu að reyna að koma þeim stimplum á alla sem voga sér að láta í ljósi andstöðu við "Sambandið" að þar séu á ferðinni hættulegir þjóðernissinnar, "populistar" og viðkomandi séu andsnúnir Evrópu eða samstarfi Evrópuþjóða.
Ekki ætla ég að svara fyrir þá alla en oft á tíðum er þetta einfaldlega rangt.
Hvað varðar deilur um hvað sé skrifað í nafni stofnana eða ekki, þá hlýtur það alltaf að orka örlítið tvímælis þegar einstaklingar skrifa greinar eða fréttaskýringar og taka fram hjá hvaða fyrirtæki þeir starfa. Það veldur oft misskilningi. Hitt ber líka að hafa í huga að það er gott fyrir þá sem lesa að vita hvar viðkomandi stendur.
Það er svo afskaplega klaufalegt hjá Fréttatímanum að setja auglýsingu frá Háskólanum á Bifröst á síðuna þar sem Eiríkur skrifar, það litur út nærri því út eins og skólinn sé að sponsora skrifin.
P.S. Persónulega finnst mér álíka langsótt að tengja merki Framsóknar við fasísk gildi og stefna hans við þjóðernisstefnu og að tengja Samfylkinguna og merki hennar við kommúnisma. En hver veit, syngja þeir ekki ennþá "Nallann" á fundum?
P.S.S. En það er engin ástæða til að láta "hlutlausa" prófessora fara um of í taugarnar á sér. Þeir eru allt of margir til að tími sé til þess.
Yfirlýsing framsóknarmanna röng | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.11.2011 | 14:48
Grein dagsins
Grein dagsins var ég að enda við að lesa á vef vísis. Hana ritar blaðamaðurinn Þorbjörn Þórðarson. Hvet alla til að lesa greinina. Ég efast ekki um að skoðanir eru skiptar um einstök málefni sem minnst er á, en heildarinntakið á erindi við alla.
24.10.2011 | 15:53
Innanflokksfréttabréf Samfylkingarinnar?
Ég var að þvælast um á Eyjunni nú í morgun, hef haft fyrir sið að koma þar við annað slagið í langan tíma.
Þar má oft rekast á ýmislegt athyglivert og vakin er athygli á fréttum úr fjölmiðlum sem hafa farið fram hjá mér, stundum úr miðlum sem ég vissi varla að væru til.
En nú upp á síðkastið finnst mér stundum eins og ég hafi óvart farið að lesa innanflokksfréttabréf Samfylkingarinnar, en það er, ef það er til, vissulega eitt af þessum miðlum sem fara fram hjá mér og telst það ekki óviljaverk.
Gott dæmi um slíkan fréttabréfastil (eða ef til vill frekar innanflokksnetkork), er þessi "frétt" sem birtist undir dálknum "Orðið á götunni". Fréttin heitir "Sterk undiralda á landsfundi Samfylkingar". Athugasemdirnar sem þar birtast fyrir neðan eru hver annari "heimilislegri".
29.8.2011 | 03:47
Orðfæri umræðunnar - Sérfræðingar segja
Eitt er það sem færst hefur í vöxt í Íslenskum fjölmiðlum upp á síðkastið sem fer óstjórnlega í taugarnar á mér.
Það ser fyrirsagnir sem ég kalla "Sérfræðingar segja". Til dæmis: Stjórmálafræðingur segir að....., Hagfræðingur telur að ..., Sálfræðingur segir....
Þarna er gerð tilraun til að auka vægi fréttarinnar með því að nota menntun einhvers einstaklings til að ljá fréttinni meira vægi. Stundum hef ég það líka að tilfinningunni að menntunin sé notuð til að komast hjá því að nafnið á persónunni upplýsist strax. Margir "fræðimenn" hafa enda gjaldfallið svo í umræðunni undanfarin misseri, að líklega þykir betra að nafnið þeirra komi ekki fram í fyrirsögn, enda myndi það draga úr áhuga á fréttinni.
En það eru einstaklingar sem hafa skoðanir og tala við fjölmiðla en ekki menntun þeirra. Það færi því betur á að nefna nöfn þeirra einstaklinga sem vitnað er til, heldur en að tiltaka menntun þeirra.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.9.2009 | 00:43
Af meintu hlutleysi fjölmiðlamanna
Nú þegar Davíð Oddsson hefur verið ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins hefur umræðan um hlutleysi fjölmiðla og fjölmiðlamanna verið nokkuð í sviðsljósinu.
Mín skoðun er sú að slíkt sé helber tálsýn.
Fyrrverandi þingfréttaritari Morgunblaðsins hefur til dæmis lýst því yfir að hún hafi verið flokksbundin í Vinstri grænum áður en hún tók starfið að sér. Á meðan hún hafi gegnt starfinu hafi hún hins vegar ekki verið bundin nokkrum flokk.
Örfáum vikum eftir að hún hafði látið af starfi þingfréttaritara Morgunblaðsins var hún svo ráðin aðstoðarmaður (aðstoðarkona) Ögmundar Jónassonar, heilbrigðisráðherra Vinstri grænna.
Trúir því einhver að hún hafi verið algerlega hlutlaus í skoðununum sínum í millitíðinni?
Einn af þekktari fréttamönnum Stöðvar 2 er Heimir Már Pétursson. Hann bauð sig fram á sínum tíma sem varaformaður Samfylkingarinnar. Trúa áhorfendur stöðvarinnar því virkilega að hann sé ávallt hlutlaus í fréttaumfjöllun sinni. Jafnvel þegar hann er að taka viðtöl við Ingibjörgu Sólrúnu, eða Össur Skarphéðinsson?
Róbert Marshall var formaður ungliðahreyfingar Alþýðubandalagsins, ef ég man rétt. Hann fór síðar í framboð fyrir Samfylkinguna. Í millitíðinni var hann fréttamaður á Stöð 2 og forstöðumaður á fréttarásinni sem ég man ekki hvað hét.
Halda allir að hann hafi gleymt skoðunum sínum á þeim tíma?
Heldur fólk að Gísli Marteinn hafi fyrst orðið hægrisinnaður, eftir að hann hætti að koma fram í Sjónvarpinu?
Frá því að ég sá Sigmund Erni fyrst með "palestínuklút" um hálsinn í menntaskólaárum hans og þangað til hann varð þingmaður Samfylkingarinnar, hafa allir trú á því að pólítískar skoðanir hans hafi aldrei litað þær fréttir sem hann skrifaði?
Eru flestir þeirrar skoðunar að Svanhildur Hólm hafi verið ráðin framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðismanna, vegna þess að hún hafi átt bestu umsóknina, en ekki vegna þess að hún hafi áður sínt að skoðanir hennar leituðu til hægri?
Eru allir þeirrar skoðunar að fréttafluttningur Ómars Ragnarssonar hafi verið fyllilega hlutlaus, áður en hann sagði fréttamannsstarfi sínu lausu og stofnaði pólítískan flokk?
Eva Björg Erlendsdóttir starfað á sínum tíma hjá Ríkisútvarpinu, en ritstýrir nú Smugunni, vefriti Vinstri grænna og starfar hjá þingflokki þeirra.
Standa þá allir í þeirri meiningu að skoðanir hennar hafi aldrei haft nein áhrif á fréttaflutning hennar hjá RUV?
Auðvitað er 100% hlutleysi eitthvað sem aldrei er í raun hægt að ná.
En það er auðvitað gott að vita "úr hvaða átt fjölmiðlar, eða fréttamenn" koma.
En algert hlutleysi er líklega ekki mögulegt og vafamál hvort það er æskilegt.
P.S. Til að gæta eins mikils hlutleysis og hægt er, er rétt að taka fram að sá sem skrifar þessar línur er "borgaralega þenkjandi", hefur verið í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkkinn, en hefur ekki hugmynd um hvort hann er flokksbundinn eður ei. Hann borgar ekkí árgjöld, tékkar ekki að því að öðru leiti og hefur í sjálfu sér ekkert á móti því. Það skiptir hann í raun ekki "öllu máli".
P.S.S. Svo er það auðvitað Þorsteinn Pálsson, sem er fyrrverandi formður Sjálfstæðisflokksins, sem fáum fannst athugavert að yrði ritstjóri Fréttablaðsins, nú eða Össur Skarphéðinssson, sem var þingmaður þegar hann var ritstjóri DV.
En það styrkir aðeins þá skoðun að það sé meira persónan, en hlutleysið sem fari í taugarnar á þeim sem harðast deila á nýráðningu ritstjóra Morgunblaðsins.