Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Pláneta mannanna - heimildamynd

Undir núverandi kringumstæðum eyði ég eins og sjálfsagt fleiri, all nokkrum tíma á netinu og þar kennir ýsmissa grasa þessa dagana.

Margir kannast við kvikmyndagerðarmanninn Michael Moore, hann hefur verið gríðarlega umdeildur, myndir hans hafa skipt mönnum í háværa hópa.

Á YouTube síða hans var frumsýnd nýlega (líklega á Degi Jarðar) ný heimildarmynd eftir Jeff Gibbs, sem Moore hefur framleitt.

Myndin er vel gerð og vel þess virði að horfa á.  Fyrir minn eiginn smekk er hún full "dómsdagspredikandi", ef svo má að orði komast, og margir myndu líklega segja að hún væri ekki "lausnamiðuð".

Það kemur líklega fáum að óvart að í myndinni er ráðist harkalega á orkuiðnaðinn og Koch bræðurnir fá sinn skammt. 

En það kemur ef til vill mörgum á óvart að "umhverfisverndariðnaðurinn" fær jafn stóran, ef ekki stærri part gagnrýninnar.  Sólarorka, vindorka, orka úr "lífmassa" fær algera falleinkunn í myndinni og ráðist er af hörku á marga "messíasa" umhverfisverndar.

Ég hef hvergi séð myndina "staðreyndatjékkaða" og ætla ekkert að fullyrða um slíkt. Það er hins vegar rétt að hafa huga að oft rísa upp deilur um "staðreyndir" í heimildamyndum og hafa gert það um fyrri myndir sem Moore hefur framleitt.

Ég hef ekki séð mikið fjallað um myndina og varð örlítið hissa hvað ég hef lítið orðið hennar var í "meinstrím" fjölmiðlum.  En ég fann þó skrifað um hana í Guardian, Forbes og Hollywood Reporter.  En vissulega gengur mikið á í heiminum.

En eins og alltaf er sjón sögu ríkari.  Youtube.

 

 

 


Ábyrg forysta sjómannasambandsins

Oft hafa viðræður sjómanna og útgerðarmanna verið erfiðar og sjómenn þekkja það á fá á sig lagasetningu.

En það verður að hrósa forystumönnum sjómanna fyrir að taka ábyrga afstöðu og fresta kjaraviðræðum til haustsins.

Þeir gera sér grein fyrir því að nú er ekki rétti tíminn til að efna til karps um kaup og kjör.  Það er ekki tími til að hóta verkföllum.

Enginn veit hvernig markaðsstaða Íslensks sjávarútvegs verður þegar heimurinn færist í hefðbundnari skorður, hvenær sem það verður.

Hagsmunir sjómanna og útgerðarmanna sameinast í því að best sé að halda flotanum eins virkum og hægt er og semja um breytingar síðar þegar staðan er ljósari.

Skynsemin ræður er gott slagorð, þó að það hafi ef til vill beðið ofurlítinn hnekki þegar Trabant eigendur gerðu það að sínu.


mbl.is Viðræður sjómanna settar á ís
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Finnar ætla að hefja framleiðslu á hlífðargrímum fyrir heilbrigðisstarfsfólk - í Finnlandi, til frambúðar. Skandall hjá Finnsku "Neyðarbirgðastofunni".

"Neyðarbirgðastofa" Finnlands hefur skrifað undir samning við Finnska fyrirtækið Lifa Air  um að framleiða hlífðargrímur í Finnlandi.

Segist fyrirtækið ætla að framleiða allt að 100 milljónir hlífðargríma í Finnlandi árlega.

Þá er bæði talað um öndunargrímur (respirators) og hefðbundnari hlífðargrímur (surgical masks).  Muninn á þessu tvennu má sjá hér, en ég veit ekki hvaða Íslensku orð eru notuð sem lýsa þessum mun.

Fyrst í stað mun fyrirtækið frameleiða hlífðargrímurnar í verksmiðju sinni í Kína, en fljótlega verður framleiðslan flutt til Finnlands.

Þannig hyggjast Finnar leysa sín vandræði hvað varðar hlífðargrímur til frambúðar.

En ég bloggaði hér áður um frétt Yle, um hlífðargrímur frá Kína sem komu til Finnlands og stóðust ekki kröfur.

Nú hefur það mál heldur betur undið upp á sig samkvæmt frétt Yle. Virðist sem að "Neyðarbirgðastofa" Finnlands hafi heldur betur hlaupið á sig og borgað út 5. milljónir euroa, til frekar vafasamra viðskiptaaðila.

Hreint ótrúlegt að innkaupastofnun á vegum hins opinbera hlaupi svona á sig.  Ráðherra hefur þegar fyrirskipað opinbera rannsókn á málinu og ekki ólíklegt að það gæti orðið að nokkuð stórum skandal.

5. milljón euro eru ekki smáaurar.

Það verður því að lesa bloggfærslu mína og þá frétt Yle sem hún fjallaði um, frá breyttu sjónarhorni.


Sálfræði- og vísindahliðin á brauðbakstri

Út um allan heim er verið að baka í heimahúsum, það er eiginlega fordæmalaust :-)

Gerskortur er víða.  Eftirspurn eftir "súrdeigsmömmum" hefur einnig aukist. Hveiti selst sem aldrei fyrr. (þar sem sykur virðist ekki seljast jafn mikið og hveiti má  draga þá ályktun að fólki ætli frekar að baka en brugga :-)

Og vísindamenn segja að á erfiðum tímum, sæki fólk í  einfalda hluti sem láta okkur líða betur og styrki trú okkar á því að við getum séð um okkur sjálf.

Fátt er eins vel til þess fallið og vatn, hveiti,ger, og salt, sem myndar brauð og er ódýrt og ilmandi, þegar það kemur út úr ofninum (eldinum).

Að borða kolvetnaríkan mat (carbohydrates) eins og brauð, örvar insulin, sem hækkar upptöku heilans af miklvægri aminosýru, Tryptophan, segir Harvey Anderson, prófessor í næringarfræði við háskólann í Toronto.

Aukið Tryptophan í heilanum eykur framleiðslu á á Serotonin, sem róar, og hjálpar að ná góðum svefni á stresstímum.

Að sjá fjölskyldunni fyrir heitum mat er partur af frumhvötum okkar og hjálpar til að finna fyrir öryggi, og að læra eittvað nýtt (ef bakstur hefur ekki verið algengur) vekur upp vellíðan.

Á erfíðum og streitufullum tímum eykst þörfin fyrir slíkar tilfinningar.

Að búa til mat "með hjartanu og höndunum" og sjá árangurinn er verðlaun í sjálfu sér á þessum óvissutímum.

Það er rétt að taka fram að þessi texti (eða þær rannsóknir sem hann byggir á) er ekki minn eigin, ég er ekki þetta vísindalegur, né hef ég lagst í þessar rannsóknir.  Hann er byggður á þessari grein í The Globe And Mail, sem ég naut að lesa.

Sjálfur baka ég pizzur (alla leið, vatn, hveiti, ger og salt) og hamborgarabrauð.  Ég hef ekki hætt mér mikið lengra á þessari braut.

Baka einstaka sinnum "Spænskt sveitabrauð", en það tekur óþægilega langan tíma.


mbl.is Fundu þurrger í 500 g pakkningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mörg fylki Kanada breyta lögum og leyfa veitingastöðum að senda heim áfengi

Það er óvenjulegt ástand.

Viðbrögðin eru mismunandi.

Kanada hefur ekki verið þekkt fyrir mikið frjálslyndi í áfengismálum, en það hefur í gegnum tíðina verið misjafnt eftir fylkjum (héruðum) og jafnvel eftir sveitarfélögum. Því þar eins og í mörgum öðrum málum, eru það fylkin sem hafa valdið.

En það var t.d. bannað að einstaklingar flyttu áfengi á milli fylkja og þa bann er ekki alveg horfið.  Þó er búið að undirbyggja breytingar í þá átt en fylkin eru sum hver enn eitthvað draga fætur í því máli.

Sölufyrirkomulag er mismunandi eftir fylkjum sem og skattlagning.

En nú hafa mörg fylki Kanada breytt reglum sínum um áfengissölu og leyfa veitingastöðum að senda heim áfengi.

Rétt eins og í öðru eru reglurnar eitthvað mismunandi eftir fylkjum. Þannig hafa British Columbia, Ontario, Nova Scotia, Manitoba, Saskatchewan, Alberta og Quebec, slakað á reglum leyfa heimsendingu á áfengi.

Eins og í mörgu öðru er frjálsræðið mest í Alberta, þar sem ekki er skilyrði að keyptur sé matur.

Nova Scotia setur það hins vegar sem skilyrði að verðmæti vínpöntunar sé ekki meira en 3fallt það sem maturinn kostar.

Einhver fylki er með skilyrði um að verðið á víninu verði það sama og á vínlista veitingastaðarins.

Einhverjir er sagðir hafa í huga að bjóða upp á "happy hour" í heimsendingu.

Hér má lesa frétt The Globe And Mail.

Hér er frétt National Post um breytingarnar í Ontario.

 


Er hlífðarbúnaði frá Kína hreint ekki treystandi?

Ég bloggaði fyrir nokkru um hvernig hlífðargrímur sem keyptar höfðu verið til Hollands frá Kína voru dæmdar ónothæfar.

Nú hafa Finnar lent í svipuðu máli.  Eitthvað í kringum 2. milljónir andlitsgríma sem komu til Finnlands frá Kína, er ekki af nægilegum gæðum fyrir sjúkrahús.

Finnar telja þó að hægt verði að nota grímurnar við minna krefjandi aðstæður s.s. á dvalarheimilum.

Þetta hlýtur að vekja upp spurningar með gæða staðla sem framfylgt er við framleiðslu og hvernig staðið sé að slíkum viðskiptum.

Nú gerist allt hratt, en það má ekki leiða til þess að gæði búnaðar standist ekki kröfur.

Þetta hlýtur að verða einn af þeim þáttum sem verður tekinn til endurskoðunar víða um lönd þegar faraldurinn er yfirstaðinn.

Það hljóta að koma upp kröfur um styttri aðfangaleið og betra gæðaeftirlit.

Það hlýtur að koma upp efi um getu Kínverska framleiðenda til að standa undir þeim kröfum.

 

 

 


Kínverskur kattarþvottur

Það gengur margt þessa dagana "kórónutímar" kalla á breytingar og munu án efa hafa áhrif um víða veröld.

En það er líka áróðursstríð háð á sama tíma.

Pólítíkin hverfur aldrei alveg.

Hjálpargögn eru send, slúðri og falsfréttum er dreift.

Það má lesa að veiran hafi átt uppruna sinn í í Kína, sem er lang líklegast, en Kínverjar reyna að dreifa því á hún hafi átt uppruna sinn á Ítalíu eða hafi verið búin til af Bandaríkjamönnum. 

Síðan koma matarvenjur Kínverja til sögunnar og frekar "grótesk" matarmarkaðir þeirra.

Síðan kemur tilkyning um að borg í Kína hafi bannað hunda og kattaát.

Persónulega gæti mér ekki verið meira sama.

Vissulega finnst mér skrýtið að éta hunda, nú eða kettlinga, en í mínum huga er það ekki vandamálið.

Það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvaða dýr það eru sem eru étin.

Hundar eru étnir hér og þar og t.d. í Sviss, þykja kettlingar skemmtilegur jólamatur.

Ekki það sem ég myndi kjósa, en það er ekki það sem skiptir máli.

Sjálfur hef ég oft borðað hrossakjöt og geri mér grein fyrir því að mörgum þykir það ekki rétt.  Það sama gildir um hvalkjöt sem mér þykir herramannsmatur.

En þó að ég hafi ekkert á móti því að Kínverjar banni katta og hundaát, þá er það annað sem mér þykir mikilvægara að þeir taki föstum tökum.

Hreinlæti.

Hreinlæti á útimörkuðum og almennt.

Það gildir reyndar ekki eingöngu um Kína, en þar væri svo sannarlega tækifæri fyrir þá að ganga á undan með góðu fordæmi og herða reglur.

Það er mun mikilvægara að góðar hreinlætisreglur ríki t.d. um slátrun á fiðurfé, sem og öðrum dýrum, en hvort að hundar, kettir, rottur eða hvað annað sé étið.

Hreinlætið er lykilatriði.

Það ætti að vera forgangsatriði fyrir Kínverja, en hefur ekki verið og verður líklega ekki í bráð.

Það er einmitt ástæðan fyrir því að ég hef sniðgengið öll matvæli sem líklegt er að hafi haft viðkomu í Kína í mörg ár.

Þeim er einfaldlega ekki treystandi.

Sjálfsagt hef ég neytt einhvers sem rekja má til Kína óafvitandi, en ég hef reynt að sneyða hjá slíku eftir fremsta megni.

 

 


mbl.is Banna át á hundum og köttum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífshættulegur leiðangur - eða fór ég bara út í búð?

Ég fór út í búð i morgun. Margfaldaði reyndar áhættuna því ég fór í tvær búðir, fyllti bílinn af bensíni (fór inn og borgaði) og lagði leið mína í hraðbanka (fjórða staðsetningin)í sömu ferð.

Var þetta lífshættulegur leiðangur, eða nokkuð hefðbundin verslunarferð á föstudegi?

Á þessum síðustu og "verstu", þá fara hugsanir á flug ef maður gætir sín ekki.

Hugsið bara um hvað oft þið hafið notað hugtakið "síðustu og verstu", án þess að það væri á nokkurn hátt verðskuldað.

En vikuleg verslunarferð slagar hátt upp í það að vera hápunktur þeirra sömu viku hjá mér sem er einn í samgöngubanni.

En samt læðist alltaf að þessi hugsun, að það þurfi að fara varlega þó að það sé gaman að sjá annað fólk, þó að það sé bara starfsfólki í matvörubúð eða aðrir einstaklingar í matarinnkaupum.

En þessi verslunarferð var ánægjuleg.

Ekkert bólar á vöruskorti hér í Eistlandi.  Allir viðskiptavinirnir ganga rólega um búðina, þó að einstaka kunni ekki mannasiði (frekar en áður) og rekist út í annað fólk.

Hér mátti sjá góð tilboð á ýsmum vörum.

Mér kom til dæmis á óvart að sjá tilboð á makkarónum og pastaskrúfum.  En það freistaði mín ekki.

Gott tilboð á grísalundum gerði það hins vegar.  Það er gott á grillið. 

Svo rauk upp í mér Íslendingurinn, þegar ég sá hálfs líters vodka flöskur á tilboði á 7 euro.  Ég tók 3. síðustu flöskurnar í hillunni :-)

Gin var líka á tilboði svo ég tók eina flösku af því. Og smjör á lækkuðu verði.  Lét það ekki fram hjá mér fara. 

Nóg til af klósettpappír, það gildir líka hjá mér.

Rjómi á lækkuðu verði freistaði líka og það sama gilti um brauð. Nóg til af þurrgeri svo ég tók nokkra pakka af því.

Eitthvað í kringum helmingur viðskiptavinana (og hluti af starfsfólkinu) var með andlitsgrímur.  Ótrúlegur fjöldi af grímunum virtist vera af "medical standard", en það er önnur saga og útskýrir ef til vill að hluta til hvers vegna svo mikill skortur er á slíkum útbúnaði um víða veröld.

Báðar matvöruverslanirnar buðu upp á handspritt við innganginn, en engum virðist hafa dottið í hug að bjóða upp á hreinsiklúta til að hreinsa handföngin á innkaupakerrunum.

Ég hafði þá hins vegar með í í frystipoka. LOL

Önnur matvöruverslunin hafði reist plexiglas skjólvegg í kringum afgreiðslumanninn á kassanum, en hin ekki.

Bensínstöðin hafði sömuleiðis sett upp plexigler en hafði að öðru leyti ekki miklar áhyggjur og þar úðuðu viðskiptavinir í sig pylsum, sem voru réttar undir hið sama plexigler.

En það er eitthvað óþægilegt og óraunverulegt við að hugsa um að vita ekki hvor að búðarferðin var "lífshættulegur leiðangur" eða ekki, fyrr en eftir viku eða eða.

En auðvitað er lífshættulegt sömuleiðis að fara ekki og kaupa mat, það segir sig sjálft.

Þannig er lífið á þessu "síðustu og verstu", alls ekki alslæmt, en samt vissulega ýmsar áskoranir og betra að fara varlega.

En það er þessi tilfinning að labba um verslun og hugsa um alla sem þú sérð sem hugsanlga smitbera sem er svo óþægileg og ég reyni að ýta í burtu.

Og á leiðinni heim er maður feginn að enginn hnerraði eða hóstaði svo ég yrði var við.

Þetta eru skrýtnir tímar.

 

 

 

 


Skynsamleg leið í "útflutningi" á skyri.

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því hvernig skyrneysla breiðist út um heiminn.  Skyr hefur verið mér afar kært frá barnæsku og því ánægjulegt að geta keypt skyr án vandræða hér og þar um heiminn.

En það er líka ánægjulegt að sjá að skynssamleg leið var valinn við "útflutning" á skyri. 

Framleiðsla erlendra aðila undir sérleyfi er skynsamleg, getur tryggt hraðari útbreiðslu og er áhættuminni.

Alls kyns "spekúlantar", töluðu fyrir all nokkrum árum um að skyr gæti verið framleitt á Íslandi og flutt út um allan heim, og þannig þanið út Íslenskan landbúnað.

Slíkt var aldrei raunhæft.

Það er hægt að frameleiða skyr hvar sem er í heiminum, og það er nú þegar framleitt (án sérleyfis frá Íslandi) í fjölmörgum löndum.

Skyr er til frá ótal framleiðendum um víða veröld og þeir eiga það flestir sameiginlegt að hráefnisverð þeirra er mun lægra en Íslenskir framleiðendur geta boðið upp á.

Einnig héldu því ýmsir fram að hægt yrði að frá "upprunavernd" fyrir skyrið, þannig að bannað væri að framleiða það í öðrum löndum en Íslandi.

Það er að mínu mati ekki raunhæft. 

Camembert er framleiddur um allan heim, þar á meðal á Íslandi.  Það sama gildir um gouda, brie, jógúrt, cheddar, Napóli pizzu og jafnvel Viský, þó að það sé vissulega misjafnlega stafsett.

Það má reyndar geta þess, svona til gamans, að hér og þar hefur skyr verið markaðsett sem "Icelandic style yogurt".

En það er hins vegar eitt sem Íslendingar gætu staðið sig betur í hvað varðar skyrið.

Víða er það markaðssett sem "Icelandic Style Skyr" og í raun ekkert út á það að setja.  En á sumum umbúðum hef ég séð "Icelandic Skyr", og það á auðvitað ekki að líða, nema að varan sé framleidd á Íslandi.

Það þarf að passa upp á að upprunamerking sé rétt.

 

 

 

 

 


mbl.is Ísey Skyr í um 50.000 verslanir í Japan í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar eftirspurnin fellur

Það er líklegt að eftirspurn falli eftir hágæða matvælum falli á komandi vikum og mánuðum. 

Þar spilar margt inn í. 

Veitingastaðir eru lokaðir víðast um heim.  Eldaður fiskur hentar ekki vel til heimsendingar.  Það mun líklega taka mörg heimili býsna langan tíma að koma öllum niðursuðuvörunum, pastanu og frystivörunum sem þau hafa keypt á undanförnum dögum í lóg.

Sömuleiðis má reikna með þvi að víða um heiminn falli kaupmáttur almennings og því minnki eftirspurn eftir lúxus mat líkt og Íslenskum fiski.

En ég hafði spurnir af því að Costco í Ontario var með tilboð á ferskum Íslenskum fiski þessa dagana. 

10 dollara afsláttur á pakkningu af þorskhnökkum. En það er rétt að hafa það í huga að ferskir Íslenskir þorskhnakkar er með dýrari matvælum þar, kostar yfirleitt hátt í 30 dollara kílóið.

Til samanburðar kostar kíló af grísalundum eða nautahakki oftast í kringum 8 dollara.

Einstaklingurinn sem bar mér þessar fréttir hafði keypt 3. pakka, enda Íslenskur fiskur í hávegum hafður þar á bæ.

Það er því ljóst að Íslenskur sjávarútvegur mun líklega þurfa að kljást við stórar áskoranir á næstu vikum og mánuðum.

Ekki má heldur gleyma vaxandi erfiðleikum við að koma vörum á milli landa og til neytenda.

 

 


mbl.is Engin eftirspurn í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband