Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Samstaða og rausn

Það er ánægjulegt að lesa fréttir sem þessar og vonandi skilar lyfið sér fljótlega til Íslands.

En þetta er þetta er gott dæmi um þá samstöðu og útsjónarsemi sem getur skipt gríðarlegu máli á tímu sem þessum.

Þessi gjöf, hin nafnlausa gjöf á öndunarvélum til Íslands og samstarf Íslenskrar erfðagreiningar við hið opinbera heilbrigðiskerfi, er nokkuð sem er til fyrirmyndar.

Þessi rausnarskapur og samstarf er sannarlega betra en ekkert í baráttunni við veiruna.

 


mbl.is 50 þúsund pakkar til Íslands um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á viðsjárverðum tímum er þörf á traustum aðföngum

Það er mikið talað um að heimurinn muni ekki verða samur eftir að ógnir Kórónu vírussins hafa gengið yfir.

Líklega er margt til í því.

Ein af kröfunum sem mjög líklega mun koma fram er ríki tryggi framboð af lyfjum, tækjum og hlífðarbúnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Hvernig það verður gert á eftir að koma í ljós, en líklega munu margar þjóðir auka framleiðslu innanlands (eða byrja á framleiðslu innanlands), þó að hún kunni að vera dýrari og einnig er ekki ólíklegt að birgðir verði almennt auknar.

Faraldurinn nú hefur leitt í ljós að útflutningur getur verið stöðvaður með skömmum fyrirvara og einnig að ekki er hægt að treysta gæðum búnaðar sem t.d. kemur frá Kína.

Þessi frétt um hlífðargrímur sem Hollendingar hafa dæmt ónothæfar, sem og fréttir um gölluð veirupróf sem notuð voru á Spáni, hlýtur að verða til þess að þetta verður einn af þeim þáttum sem verður ræddur og endurskoðaður þegar faraldurinn hefur gengið yfir.

Skortur á nauðsynlegum búnaði er nægilega slæmur svo ekki bætist við að ekki sé hægt að treysta þeim búnaði sem fæst keyptur.

 

 


Undarlegir en breyttir tímar

Nú er hin nýja kórónaveira frá Wuhan búinn að vera með okkur í rétt um 3. mánuði, svona eins og við vitum en allt eins líklegt er að sameiginleg saga okkar sé eitthvað lengri.

Á þessum mánuðum hefur margt breyst og efast má um að hlutirnir verði eins og þeir voru áður.

Það er líklegt að breytingarnar, í það minnst margar þeirra, verði varanlegar, ja alla vegna þangað til þegar "ráðandi kynslóðir" nú, verða áhrifalittlar og þessi faraldur hefur fallið í gleymskunnar dá, rétt eins og fyrri faraldrar.

Þannig ganga hlutirnir oft fyrir sig.

Það er svo gott sem enginn á lífi sem man eftir síðasta alvarlega heimsfaraldri, enda eru rétt rúmlega 100 ár síðan "Spænska veikin" geysaði.

Og ríki heims virðast að mestu hafa verið alls óundirbúin undir þennan faraldur.  Flestir virðast hafa átt von á "minni háttar" veseni, svona svipað og varð þegar SARS og MERS skutu upp kollinum fyrr á öldinni.

Svona eitthvað sem ekki þyrfti að hafa áhyggjur af í Evrópu eða N-Ameríku.

En það gerist líka að allt í einu er að svo gott sem hvert land fyrir sig.  Undir svona kringumstæðum vill enginn senda mikilvægan búnað eða lækningatæki til annarra landa, því enginn veit hvenær þörf er á slíku heimafyrir.  Sem betur fer hafa þó verið einhverjar undantekningar slíkum hugsunarhætti, en þær eru ekki margar.

Þannig er auðvitað sjálfsagt að setja lög þar sem bannað er að selja lyf úr landi, en jafnframt brugðist hart við ef önnur ríki setja sambærileg lög.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við slíkt, enda hefur áður komið í ljós í kreppum (þó frekar efnahagslegum en á heilbrigðissviðinu) að hver er sjálfum sér næstur og að ríki eiga sér hagmuni, frekar en vini.

Það ætti ekki að koma Íslendingum á óvart og kom einnig vel í ljós í efnahagskreppunni 2008.

Það er líka umhugsunarvert að ýmsir kaupmenn og "braskarar" virðast hafa verið mun fljótari að átta sig á því en yfirvöld víða um heim, að gríðarleg eftirspurn yrði eftir hlífðargrímum og ýmsum öðrum varningi.

En það er líklegt að efnahagsáhrifin muni vara mun lengur en veiran sjálf verður á kreiki.

Það er ef til vill lýsandi að fyrir mánuði síðan voru flestir með áhyggjur yfir því að vörur og íhlutir bærust ekki frá Kína.

Nú þegar Kínverskar verksmiðjur eru hægt og rólega að komast í gang aftur sjá þær fram á verkefnaskort, vegna þess að Vestrænir viðskiptavinir eru að afpanta vörur og íhluti.

Bara það að Evrópumóti í knattspyrnu og Olympíuleikum hafi verið frestað, þýðir að þörfin fyrir varning fyrir milljarða gufar upp.  Ekki bara í Kína, heldur um allan heim.

Það er einnig næsta víst að margir munu endurskoða aðfangalínur sínar.

Það er líklegt að fram komi kröfur um að ríki verði í auknum mæli fær um að fullnægja grunnþörfum sínum hvað varðar heilbrigðismál.

En nú búa æ fleiri þjóðir við neyðarástand og þurfa að taka risa ákvarðanir, oft með littlum fyrirvara. 

Það gildir bæði um heilbrigðismál og efnahaginn.

Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að slíkar ákvarðanir séu gagnrýndar og ræddar, en mikilvægt að það sé gert bæði af kurteisi og yfirvegun.

Það er líka rétt að hafa það í huga að það er við aðstæður sem þessar sem jafnvel röng ákvörðun í dag, getur verið betri en hárrétt ákvörðun sem er tekin eftir viku.

Að sjálfsögðu mun verða farið yfir öll viðbrögð og aðgerðir og vonandi dreginn lærdómur af þeim.

En nú, í storminum miðjum, er áríðandi að fylgja fyrirmælum og tilmælum hvort sem við erum sammála þeim eður ei.

 

P.S. Ég sjálfur fékk einhverja pesti og hef verið meira og minna veikur í 10 daga eða svo.  Ég held að ég hafi ekki verið "krýndur", heldur aðeins verið með slæma "venjulega" flensu.  En það er í raun ómögulegt að segja til um slíkt, enda einkennin æði svipuð.

En ég er við fína heilsu nú en hreyfi mig lítið út úr húsi.

 


"Síðasta veiðiferðin", eða "nýjasta áfengisauglýsingin"?

Ég fékk þessa ábendingu frá kunningja mínum, enda mér ekki boðið á frumsýningu nýjustu Íslensku kvikmyndarinnar.

Síðasta veiðiferðinEn nýjasta Íslenska kvikmyndin ku heita "Síðasta veiðiferðin". "Auglýsingaplakat" hennar má sjá hér í færslunni.

Ég vil hvetja alla til að sjá hana, því mér er sagt að hún sé góð og meinfyndin.  Það er alltaf eitthvað sem ég kann að meta.

Það eru aldrei of margar gamanmyndir að mínu mati.

En það sem vakti athygli mína við "plakatið" (hvað er nú aftur Íslenska orðið yfir slíkt), er hin skammlausa áfengisauglýsing sem þar er á ferðinni.

Fjöldi vörumerkja bæði bjór og áfengistegunda vel sjáanlegur, í bland við ýmsa af bestu Íslensku leikurum.

Ekkert út á það að setja, nema auðvitað að áfengisauglýsingar í eru bannaðar í Íslenskum fjölmiðlum og á Íslandi. (Ef til vill ætti ég að taka það fram að ég skrifa þessa færslu í landi þar sem áfengisauglýsingar eru löglegar).

Hvers vegna?

Á hverjum degi sjá Íslendingar áfengisauglýsingar í erlendum fjölmiðlum, og oft á tíðum í Íslenskum, jafnvel Ríkissjónvarpinu sjálfu í beinum útsendingum.

Það er í lagi?

Ríkissjónvarpið sjálft getur birt auglýsingar fyrir áfengisframleiðendur og veðmálafyrirtæki, svo lengi sem þeir hafa keypt auglýsingaþjónustuna í þeim löndum sem það er löglegt.

Ríkissjónvarpið sýnir áfengisvörumerki í sinni útsendingu, en aðeins ef framleiðendur hafa borgað erlendum aðilum til að setja vöru þeirra eða vörumerki í kvikmynd eða sjónvarpsþátt.

Mun "Sjónvarpið" sýna "Síðustu veiðiferðina", þrátt fyrir að líklega sé áfengi auglýst þar? (Ég hef ekki séð myndina, þannig að ég vil ekki fullyrða).

Er ekki tími til kominn að stíga inn í nútímann, jafna aðstöðu og rétt innlendra framleiðenda gagnvart erlendum, jafna rétt og tekjumöguleika innlendra fjölmiðla gagnvart erlendum og hætta "2.25%", eða "léttöl" feluleiknum"?

Leyfum áfengisauglýsingar í Íslenskum fjölmiðlum, það er sanngirnisatriði.

 

 

 

 


Athyglisverðar tölur um áfengisverð

Ég verð að viðurkenna að þessi frétt kom mér all nokkuð á óvart.  Einhvern veginn fæ ég þessar tölur ekki til þess að ganga upp í huga mér.

1. líters flaska af Chiva Regal 12 ára Skosku vískí kostar í ÁTVR 11,199kr.  Í fréttinni segir að sama flaska kosti 6,660 kr. í Costco

Það er gríðarlegur verðmunur.

En nú er áfengi í "matarskatts" virðisaukaskatti með 11% álagningu.  Það þýðir að við drögum ca. 10% af heildarverðinu.

Þá stendur eftir 5,994 kr í Costco og 10,079 í "Ríkinu".

Nú hafa áfengisskattar verið sífellt að hækka á Íslandi, síðast nú um áramótin. En ég veit ekki nákvæmlega hvað áfengisgjaldið er nú, en ég myndi þiggja upplýsingar um slíkt í athugasemdum.

Ég ímynda mér þó miðað við hvað ég hef heyrt að áfengisgjald af 1 líters flösku af 40% áfengi sé í það minnsta í kringum 5000 kr.

Þá virðist við fyrst sýn sem að ekki sé mikið eftir til að standa straum af innkaupum og flutningi hjá Costco.

En þessi gríðarlegi verðmunur hlýtur að vekja upp ýmsar spurningar.

Vissulega hefur Costco gríðarlega innkaupagetu og fær verð í samræmi við það.  Ég fann ekki sambærilega flösku á vef Costco í Bretlandi, þeir bjóða eingöngu upp a´stærri eða "vandaðra" Chivas þar, en þeir sem áhuga hafa geta skoðað verð og úrval hér.

En það er líklegt að Costco sé með lægri álagningu en ÁTVR, svo ekki sé minnst á ÁTVR og heildsala til samans.

Innkaupaverð Costco er líklega töluvert lægra, flutningskostnaður einnig.

En eftir stendur að Íslensk lög standa í vegi fyrir því að Íslenskir neytendur njóti lægra verðlags.

 

 

 


mbl.is Allt að 68% verðmunur á áfengi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræsni Evrópusambandsríkjanna

Nú er Brexit loksins orðin staðreynd. Bæði Evrópusambandið og þjónar þess í Bretlandi urðu að játa sig sigraða þegar Breska þjóðin felldi dóm sinn í kosningum í desember.

"Sambandið" gat ekki þvælt málin lengur, hundsað úrslitin, eða efnt til annarar þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og svo oft hefur orðið raunin áður, þegar úrslit þjóðaratkvæðagreiðsla hefur ekki verið "Sambandinu" þóknanlegar.

Blákalt lýðræðið blasti við þeim.

Þá byrjar undirbúningur fyrir samningaviðræður.

Þá ber svo við að "Sambandslöndin" vilja draga á flot allar deilur sem sem þú kunna að hafa haft við Breta í gegnum aldirnar.

Spánn kemur fram með Gíbraltar og Grikkir byrja að tala um "Elgin marmara lágmyndirnar".

En eru þetta ekki eðlilegar kröfur kann einhver að spyrja?

Já og nei.

Þetta á ekkert erindi í fríverslunarviðræður.

En hins vegar, ef "Sambandið" ætlar að endurskoða stefnu og skoðanir sínar í slíkum málum, er betra að taka það upp á öðrum vettvangi.

Getur t.d. verið að Evrópusambandið sé andsnúið að Spánn eigi landsvæði handan Miðjarðarhafsins, í Afríku?

Hvað með allar landareignir Frakka um víða veröld?

En ef til vill er best að leysa allan slíkan ágreining með skipulögðum, lýðræðislegum,  sannjörnum atkvæðagreiðslum, sem væru undir alþjóðlegu eftirliti, hvort sem um er að ræða Gíbraltar, nú eða Katalóníu.

Og hvað varðar meintan "listaverkastuld" Breta í Grikklandi, þá er það sannkallað "Pandórubox", eða ég veit ekki hvort að veröldin sé reiðubúin til þess að það sé opnað.

Ætti að ræða um listaverk sem herir Napóleons rændu á Ítalíu? Nú eða alla fornmunina/listaverkin sem Frakkar rændu í Egyptalandi (þeir eru reyndar langt frá því að vera þeir einu sem eru sekir). 

Ítalir hafa meira að segja á stundum viljað að Mona Lisa snúi heim, því vissulega er hún máluð á Ítalíu, af Ítala, en ekki í Frakklandi.

Hvað um hvernig Spánverjar fóru ránshendi um S-Ameríku? Skyldi eitthvað af þeim list/fornminjum enn að vera að finna á Spáni?

Skyldi Evrópusambandið ætla að að krefjast þess að Rússar skili öllum þeim listmunum sem þeir stálu í lok síðari heimstyrjaldar í Þýskalandi, mörgum sem Þjóðverjar höfðu áður stolið hér og þar í Evrópu?

Eða er "Sambandið" of hrætt við að Rússar skrúfi fyrir gasið?

En það er merkilegt að mörg "Sambandsríkjanna" hafa lýst þeirri skoðun sinni að samstarf "Sambandinsins" og Bretlands í varnarmálum verði jafn mikilvægt og áður og lítið sem ekkert þurfi að breytast.

Slíkum "smámunum" er óþarfi að blanda saman við fríverslunarsamninga.

Sú afstaða helgast auðvitað af því að Bretland var fremsta herveldið (þó að það hafi vissulega látið á sjá) innan "Sambandsins".

Því miður bendir framkoma "Sambandsins" til þess að jafn líklegt sé og ekki að Bretland yfirgefi Evrópusambandið að fullu um næsu áramót, án þess að viðskiptasamningur liggi fyrir.

Það verður til tjóns fyrir báða aðila og vitanlega mun fleiri ríki.

Það verður fyrst og fremst vegna hræsni, hroka og hefnigirni Evrópusambandsins.

Slík er "smásál" "Sambandsins".

Það er vert að hafa í huga.

 

 

 


Getur verið betra fyrir Ísland að stand eitt að samningum við Breta?

Framundan eru gríðarlega mikilvægar samningaviðræður á milli Íslendinga og Breta um fríverslun og aðra þætti í samskiptum þjóðanna.

Ég er ekki viss um að betri niðurstaða muni fást í slíkar viðræður með því að vera í "nánu samstarfi" við aðrar þjóðir, hvort sem það er Noregur, Liechtenstein, eða aðrar þjóðir.

Þó að vissulega séu hagsmunir Íslands og t.d. Norðmanna á margan hátt svipaðir er ekki þar með sagt að samflot sé endilega besta lausnin.

Það er t.d. ljóst að það er verulega ólíklegt að Ísledingar hefðu náð fríverslunarsamningi við Kínverja hefðu þá verið reynt "samflot" við Norðmenn.

Smæðin þarf alls ekki alltaf að vera galli.

Ef til vill munu þó Bretar frekar kjósa að semja við fleiri en eina þjóð í einu, því þeir munu vissulega verða með næg verkefni hvað fríverslunarsamninga ræðir og hafa takmarkaðan tíma og samningamenn.

En ég held að Íslendingar þurfi ekki að óttast að vera einir og það gæti skilað betri niðurstöðu.

 

 

 

 

 


mbl.is „Við blasa krefjandi verkefni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

I got a Harley for my husband

Ég var að þvælast í umferðnni í gær.  Keyrði þar rólega á eftir býsna stórum jeppa, enda hámkarkshraðinn aðeins 50.  Lenti síðan á rauðu ljósi og fór að lesa límmiða sem voru nokkrir á afturrúðinni.

Meðal annars þessi frá Harley Davidson mótorhjálaframleiðandanum.

"I Got A Harley For My Husband - Best Trade I have ever made.


Á menntun að tryggja hærri laun, eða glittir í "sovétið"?

Hér og þar hef ég séð umræður um að meta þurfi menntun til launa, að launabil sé of lítið, eða of mikið og svo auðvitað að menntun, eða prófskírteini eigi alls ekki að tryggja eitt né neitt.

Ég sá að Kári Stefánsson lagði í púkkið að réttast væri að borga námsmönnum á meðan þeir væru í námi, þannig útskrifuðust þeir án námslánaskulda og gætu sem best verið á "sömu launum" og aðrir.

Þetta fyrirkomulag var við lýði í Sovétríkjunum sálugu.  Þar fengu námsmenn greidd laun, en oft á tíðum voru þeir með lægri laun eftir útskrift heldur en til dæmis kolanámuverkamenn.

Þetta gerði það að verkum að oft á tíðum var þjónustulund með allra minnsta móti. Því sátu væntanlegir viðakiptavinir eða sjúklingar á biðstofunni með hænu í fanginu, grænmeti, sælgæti, vodkapela eða hvað annað sem þeir gátu séð af til að færa t.d. lækninum um von um betri og skjótari þjónustu.

Enn má víða sjá enduróm af þessari tíð í A-Evrópu, þó sem betur fer hafi hænunum fækkað, en það eru ótrúlega margir sem t.d. fara aldrei tómhentir til tannlæknis.

En svona kerfi getur gengið nokkra hríð í "lokuðu" landi.

En vel menntað fólk sem er eftirspurn eftir víða um lönd, t.d. heilbrigðisstarfsfólk og tölvmenntaðir einstaklingar, var auðvitað á meðal fyrsta fólksins sem yfirgaf landið.

En á menntun á að tryggja hærri laun?  Það er mikilvæg spurning og ekki síður mikilvægt að velta því fyrir sér hvort að hún geri það?

Og hvað með starfsreynslu?

Eins og oft er svarið ekki einhlýtt.

Ákveði einhver að setja á stofn eigin fyrirtæki, tryggir menntun ekki árangur eða laun. Oft getur menntun þó vissulega nýst vel í slíkum kringumstæðum, en ekkert er gefið.

Í einkageiranum er líklegt að góð menntun geti tryggt starfsviðtal og í mörgum tilfellum starf og hærri laun.

En í öðrum tilfellum, sérstaklega til lengri tíma, held ég að menntunin tryggi ekki starfið eða launin, ef árangurinn í starfinu er ekki í samræmi við væntingar vinnuveitandans.

En hjá hinu opinbera er það menntunin sem gildir, þar vilja flestir að "hr. excel" ráði ferðinni, settar eru inn gráðurnar, starfið o.s.frv og neðst á skjalinu birtist svo launaflokkurinn og kaupið.

"Georg Bjarnfreðarson" er því líklega fyrsti kostur í flest störf, enda með "5. háskólagráður" og líklega launaður eftir því.

En nú er mikið rætt um hver launamunurinn eigi að vera hjá "ófaglærðum" og hve mikið á menntun að lyfta á laununum.  Mest hefur verið rætt um leikskóla og hvers virði háskólamenntunin eigi að vera þar.

Persónulega get ég vel skilið að eðlilegt þyki að launamunur sé þar þó nokkur við upphaf starfs, háskólamenntuðu fólki í vil.

En hvers virði er starfsreynslan?

Nú hefur marg komið fram að vegna starfseklu á leikskólum sé það nokkuð þekkt að ófaglært starfsfólk með mikla starfsreynslu sé t.d. deildarstjórar.

Eiga þeir einstakingar ekki skilið sömu laun og aðrir deildarstjórar, burt séð frá menntun? 

Gildir ekki þar sem annarsstaðar að greiða eigi sömu laun fyrir sömu störf?

Eiga leiksskólarekendur að ná sparnaði í launum, vegna þess að þeir geta ekki mannað stöðuna með faglærðu fólki?

Ég ætla að kasta fram einni(þær urðu nú óvart tvær) spurningu til þeirra sem kunna að lesa þessa bloggfærslu.

Aðstæðurnar eru þannig að þu hefur r fjögur ung börn á þínu framfæri, og aðstæður spiluðust þannig að þú þyrftir á einkagæslu að halda.  Þú auglýsir eftir starfskrafti býður þokkaleg laun o.s.frv.

Tveir umsækjendur eru um stöðuna. Annars vegar einstaklingur sem er nýútskrifaður úr háskóla sem leikskólakennari og hins vegar einstaklingur sem hefur rétt rúmlega 15. ára starfsreynslu á leikskóla og kemur með mjög góð meðmæli frá yfirmanni sínum.

Hvorn mundir þú ráða?

Ef þú segir einstaklinginn með 15. ára starfsreynsluna, myndir þú þá bjóða honum lægri laun?

 


Útsmognir Kínverskir (mynt)brotajárnssalar, eða?

Ég rakst á nokkuð skemmtilega, en jafnframt furðulega frétt á Vísi nú í morgun. 

Þar segir frá Kínverskum ferðamanni sem komin er til Íslands með 170 kg af Íslenskum hundraðköllum.  Verðmæti varningsins mun vera í kringum 1.6 milljón.

Margir hundraðkallanna munu vera afar illa farnir.

Umræddur ferðamaður mun hafa komið einhverjar ferðir áður í sama tilgangi og allt gengið upp.

En nú bregður svo við að hvorki Seðlabankinn, né Arion banki vilja skipta myntinni í handhæga seðla, og meira að segja lögregla var kölluð til.

Þá mundi ég eftir að hafa lesið um Kínverska brotajárnssala sem voru að ergja Seðlabanka Eurosvæðisins fyrir all mörgum árum.

Þar var um að ræða u.þ.b. 29 tonn af 1. og 2ja euroa peningum, samtals að verðmæti ca. 6 milljóna euroa.

Þar var um að ræða að Kínverskir brotajárnssalar höfðu keypt mikið magn af úr sér genginni euro mynt "til bræðslu", en búið var að slá miðjuna úr. 

Þeir sáu verðmætið í myntinni og settu myntina saman aftur.

Það skyldi þó aldrei vera að svipað sé að gerast á Íslandi nú?  Að ef til vill sé myntin sem ferðamaðurinn Kínverski er að koma með nú, sama myntin og hann hefur komið með áður, selt Seðlabankanum, sem hefur aftur selt myntina til endurvinnslu í Kína?

Ef til vill hafa Kínverjarnir haldið að þeir væru búnir að finna upp hið fullkomna "hringrásar" hagkerfi?

Alla vegna finnst mér sú skýring að mikið af myntinni hafi fundist í samanpressuðum bílum frá Íslandi ekki trúverðug.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband