Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Lýðskrum eða fáfræði?

Því miður er það allt of algengt í pólítískri umræðu að upphrópunum eins og hér má lesa sé slengt fram:  Hvar eru þessar lækkanir?

Ef aðeins veruleikinn væri svona einfaldur.

Vissulega hefur núverandi ríkisstjórn unnið frábært starf í því að lækka ýmsa toll og gjöld, þó betur megi vissulega gera og sömuleiðis hefur íslenskur efnahagur risið hratt með tilheyrandi styrkingu krónunnar.

En eru þetta einu þættirnir í verðmyndun á innfluttum vörum?

Ég held að flestir geti svarað því að svo sé ekki.

Hvað skyldi til dæmis launakostnaður íslenskra fyrirtækja hafa aukist á sama tíma og gengi krónunnar hefur styrkst og gjöld hafa verið lækkuð?

Bæði í gegnum kjarasamninga og svo eins vegna launaskriðs sem eðlilega verður þegar efnahagslífið er þróttmikið og atvinnuleysi næsta lítið.

Skyldi húsnæðiskostnaður íslenskra fyrirtækja hafa aukist á sama tíma?

Er það ekki líklega vegna styrkingar gengisins og niðurfellingar tolla og gjalda sem að verðbólgan sem svo margir áttu von á hefur ekki enn látið á sér kræla?

Það er hins vegar rétt að aukin samkeppni er besta leiðin til að skila betra vöruverði til neytenda. Það má færa ýmis rök fyrir því að hún mætti vera meiri á Íslandi.

En hafa íslenskir stjórnmálamenn staðið vaktina í því að auðvelda og auka samkeppni í landinu? Gera inngöngu á markaðinn auðveldari, dregið úr bákninu og gjöldum til hins opinbera?

Það er heldur ekki ástæða til þess að líta fram hjá því að þegar uppgangur er í þjóðfélaginu og kaupmáttur og eftirspurn eykst, minnkar hvati til verðlækkana. Þannig virkar lögmál framboðs og eftirspurnar.

En það má heldur ekki líta fram hjá því að annar kostnaður getur sífellt verið að aukast, þó að gengi styrkist og gjöld lækki.

Það verður hins vegar ekki hjá því litið að líklega hefur niðurfelling tolla og gjalda ekki getað komið á betri tíma, en þegar annar kostnaður svo sem laun hafa hækkað verulega.

Þannig hefur almenningur fengið umtalsverða kjarabót, í formi aukins kaupmáttar, og ekki síður í því að verbólgan hefur verið með lægsta móti sem skilar sér einnig til almennings í auknum stöðugleika lánaafborgana.

Slíkar fullyrðingar eins og Karl Garðarson slengir hér fram, lykta af lýðskrumi í aðdraganda kosninga, því ég hef enga trú á því að Karl geri sér ekki grein fyrir því að verðmyndun er mun flóknari en hann gefur í skyn með því að auglýsa eftir verðlækkunum.

 

 


mbl.is „Hvar eru þessar lækkanir?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það skelfileg tilhugsun að íslendingar kaupi sér frekar heilbrigðisþjónustu innanlands en utan?

Nú birtast í fjölmiðlum fréttir þess efnis að fyrirhugað sé að reisa stórt einkarekið sjúkrahús og hótel á Íslandi.

Flestir virðast koma af fjöllum þegar rætt er um framkvæmdina og svo virðist sem hún eigi sér fremur skamman aðdraganda.

En þetta er í sjálfu sér ekki í fyrsta sinn sem slíkar hugmyndir heyrast og fljótt á litið virðast viðtökurnar ósköp svipaðar.

Flestir virðast hafa allt á hornum sér hvað varðar rekstur einkasjúkrahúss á Íslandi og það vantar ekki hrakspárnar og "heimsendaspádómana".

Rekstur slíks sjúkrahúss mun kollvarpa og eyðileggja íslenskt heilbrigðiskerfi að margra mati og það er erfitt að skilja það á annan veg en að barist verði hart á móti því á flestum vígstöðvum að slíkt sjúkrahús geti risið.

Ekki síst á hinum pólítíska vettvangi.

En það er nokkuð merkilegt að ekki fyrir svo löngu var það samþykkt á hinum pólítíska vettvangi, nánar tiltekið Alþingi, að íslendingar ættu fullan rétt á því að sækja sér heilbrigðisþjónustu yfir landamæri (á EEA/EES svæðinu) og hið opinbera myndi endurgreiða kostnaðinn með sömu upphæð og sambærileg aðgerð kostaði á Íslandi. Annan kostnað yrði hins vegar sjúklingurinn að bera.

Þetta er enda allt samkvæmt Evrópusambandstilskipun.

Nú hafa forsvarsmenn hins nýja sjúkrahúss reyndar sagt að þeir muni ekki sækjast eftir viðskiptum íslendinga, en ekki neita þeim um þjónustu ef þeir sækjast eftir henni.

En er það ekki merkilegt ef tilhugsunin um að íslendingar kaupi sér þjónustu innanlands, er pólítíkusum mun skelfilegri en ef þeir fara yfir "Evrópusambandslandamæri" til þess að kaupa hana?

Ekki síður er það merkilegt ef þeir stjórnmálamenn dásama hvað mest frjálst flæði fólks, fjármagns, vöru og þjónustu hafa ekki skilið að heilbrigðisþjónusta fellur einmitt undir síðasta liðinn og það er gert ráð fyrir því að hið frjálsa flæði virkir í báðar (eða allar) áttir.

Án þess að ég hefi hugmynd um það, þykir mér líklegt að að rekstraraðilar hins væntanlega spítala (ef af verður) ætli sér einmitt að sækja á þann markað sem íbúar "Sambandsins" eru, sem og að ná samningum við bandarísk tryggingafélög.

Síðan hefur mátt sjá áhyggjur margra vegna hugsanlegrar samkeppni hins nýja sjúkrahúss um starfsfólk.

Það er reyndar mjög líklegt að svo verði, alla vegna að einhverju leiti. En hafa ekki flestir þeir sem að heilbrigðismálum hafa komið undanfarin ár, sagt að Ísland sé í samkeppni við stærstan hluta heimsins þegar kemur að heilbrigðisstarfsfólki?

Er verra að sú samkeppni komi til sögunnar innanlands?

Hefur ekki íslenskt heilbrigðistarfsfólk í hundraða tali, ýmist flutt á brott eða starfað á erlendum heilbrigðisstofnunum um lengri eða skemmri tíma?

Ef til vill flytur einhver þeirra heim og aðrir hætta að fljúga reglulega til Noregs?

Er það hræðileg tilhugsun?

Mátti ekki lesa í fréttum nýverið að margir hjúkrunarfræðingar störfuðu sem flugfreyjur. Ef til vill snúa þær aftur til í þau heilbrigðisstörf sem þær hafa menntun til?

Það er ekkert undarlegt þó að stór áform eins og í Mosfellsbænum veki einhvern ugg og fjöldan allan af spurningum.

Það er enda bæði þarft og gott að umræða fari fram um málið.

EN það er nauðsynlegt að umræðan sé skynsamleg og horft sé bæði til tækifæranna og hugsanlegra neikvæðra hliða.

Reynt sé að grípa tækifærin og draga eins og mögulegt er úr hugsanlegum neikvæðum áhrifum, helst koma í veg fyrir þau.


mbl.is Heyrði fyrst af áformunum í fréttum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er rökrétt að líta svo á að útganga breta úr "Sambandinu" sé kapphlaup?

Mikið hefur verið rætt og skrifað um þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi og þá ákvörðun sem þar fékkst, að Bretland skyldi segja sig úr Evrópusambandinu.

Ýmsir hafa furðað sig á því að þeir sem vildu úrsögn hafi verið illa undirbúnir fyrir sigurinn og hiki nú þegar á ríði að knýja fram úrsögn.

Þetta er auðvitað alrangt, en kann vissulega að hljóma vel í eyrum þeirra sem eru svekktir með úrslitin.

Sannleikurinn er auðvitað sá, að í raun var ekki verið að kjósa um ríkisstjórn, eða forsætisráðherra í Bretlandi. Reyndar hafði forsætisráðherra landsins, David Cameron (sem situr enn í embætti) lýst því yfir oftar en en einu sinni að hann hyggðist ekki segja af sér, þó að svo færi að "Brexit" yrði val meirihluta kjósenda. Um að má lesa hér, hér, hér og hér.

Þó að vissulega hafi stuðningsmenn "Brexit" setið ríkisstjórn, þá voru þeir þar í minnhluta og gátu á engan hátt ráðið þar ferðinni.

Það að David Cameron hafi síðan (réttilega að mínu mati) ákveðið að segja af sér og sú staðreynd að ríkisstjórn hans hafi ef til vill ekki undirbúið "Brexit" getur því alls ekki skrifast á þá andsnúnir voru "Sambandinu". Þvert á móti verður það frekar að skrifast á "Sambandssinna", sem fram á síðustu stund voru sigurvissir, og fundu líklega enga ástæðu til að undirbúa brottför Bretlands.

Forsætisráðherra, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra voru allir fylgjandi áframhaldandi "Sambandsaðild".  Þeir töldu líklega ekki rökrétt að eyða miklum tíma eða fé í það að undirbúa "brottför", á meðan þeir börðust hart fyrir áframhaldandi aðild.

En það má líka halda því fram að á slíkt hafi í raun verið ákaflega erfitt og í raun vafasamt hvaða tilgangi slíkt hefði þjónað. Hefði breska ríkisstjórnin átt að ráða fjölda sérfræðinga í milliríkjaviðskiptasamningum, áður en atkvæðagreiðslan fór fram?  Hvaða skilaboð hefði það sent?

Staðreyndin er sú að í hönd fara flóknar, erfiðar en mikilvægar samningaviðræður á milli Bretlands og Evrópusambandsins.

Það er erfitt að sjá hvaða tilgangi það þjónar að líta á útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu sem nokkurs konar kapphlaup við tímann, nema þá til að þjóna særðu egói ýmissa embættismanna "Sambandsins".

Það er enda svo að margir þjóðarleiðtogar "Sambandsríkjanna", þar á meðal Angela Merkel, hafa tekið mun skynsamlegar á málinu, en ýmsir embættismannana.

Þeir gera sér einnig grein fyrir því að það eru bretar sem ákveða hvenær þeir segja sig úr "Sambandinu".

Það munu þeir ekki gera fyrr en þeir telja sig tilbúna í samningaviðræður, með sitt lið "skipað í raðir" og markmiðin sett.  Það má sömuleiðis reikna með því að með tímanum nái skynsemin yfirhöndinni og skynsemin verði ofan í hjá Evrópusambandinu, sem á ekki síður mikið undir því en Bretland að "slitin" takist vel og samvinna og vinátta ríki áfram.

Til að setja málið í íslenskt samhengi má ef til vill nefna, að þótt að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu hafi verið virk í 3. og hálft ár (þó að raunverulegar viðræður hefi staðið skemur) tókst ekki (sem betur fer) að gera Ísland að aðildarríki "Sambandsins". Í raun voru aðlögunarviðræðurnar komnar tiltölulega skammt á veg.

Í mínum huga telst að bjartsýni að ætla að takist að skilja Bretland frá Evrópusambandinu á 2. árum, og mun því aðeins takast ef beðið verður með úrsögn þangað til góðum undirbúningi er lokið.

En aðalatriðið er heldur ekki að gera slíkt á sem skemmstum tíma, heldur hitt að vandað sé til verksins og báðir aðilar gangi nokkuð sáttir frá borði.

 


mbl.is Sakar útgöngusinna um uppgjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lagði reynsla eldri kynslóðanna grunninn að "Brexit"? Sitt er hvað samvinna og samruni

Það er rétt sem haft er eftir Baldri Þórhallssyni í viðhengdri frétt að mikill munur virðist hafa verið eftir aldri, hvernig Bretar greiddu atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Brexit.

Það er þó varasamt að fullyrða nákvæmlega um slíkt, enda öll atkvæði eins upp úr kjörkössunum.

En ef til vill er það ekki hvað síst reynsla eldri kjósenda sem kann af hafa ráðið úrslitum þegar á hólminn var komið.

Eldri kjósendur í Bretlandi hafa fylgst með og tekið þátt í mörgum rökræðum um stefnu Evrópusambandsins og heyrt alla spádómana um einangrun Bretlands og hrun utanríkisviðskipta þeirra áður, ekki síst í sambandi við fyrirhugaða upptöku Breta á euroinu.

Þá, rétt eins og nú, voru þeir ófáir "sérfræðingarnir" og álitsgjafirnir sem fullyrtu um einangrun Breta og hrun efnahagslífs þeirra ef þeir væru ekki með.

Allir vita nú að þeir reyndust ekki sannspáir og æ fleiri gera sér grein fyrir því hvílíkt lán það var fyrir Breta að standa utan eurosins.

Það er því ekki ólíklegt að hræðsluáróður þeirra sem vildu áframahaldandi "Sambandsaðild", um efnahagslega hnignun og einangrun Breta, hafi síður virkað á eldri kjósendur en þá yngri.

Sá hræðsluáróður var hornsteinn baráttu "Sambandssinna".

Slík taktík ætti að vera íslendingum vel kunnug, og einnig ástæðurnar til að hafna henni. Þeir ættu einnig að kannast við að hún hefur ekki verið á rökum reist.

Ekki ætla ég að fullyrða neitt um hvort sú reynsla hafi haft áhrif niðurstöður þjóðaratkvæðgreiðslunnar í Bretlandi, en finnst það þó ekki ólíklegt.

Það eru takmörk fyrir því hvað oft er hægt að hrópa "úlfur, úlfur".

 


mbl.is „Gríðarlegt áfall“ fyrir ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einokun og ofur skattheimta leiða til undarlegra ákvarðanna

Það er rétt, að það er sóun að hella niður góðum bjór, ekki síður en að henda góðum matvælum.

En fyrir því eru ástæður sem fyrst og fremst má rekja til einokunar og ofur skattheimtu.

Einokunar vegna þesss að það er aðeins einn söluaðili og þær eru líklega ekki margar vörutegundir sem fjármálaráðurneytið setur reglugerðir um löglegt sölutímabil.

Ofur skattlagningar, vegna þess að álögur ríkisins eru það stór hluti af vöruverðinu, að afsláttur sem veittur væri t.d. vegna þess að koma þarf vörunni út, væri í raun ekki mikill, því opinberu gjöldin stand að mestu óhögguð.

En þetta er það fyrirkomulag sem svo margir íslendingar virðast vera svo ánægðir með.

Þess má til gamans geta að ég keypti mér dulítið af bjór og víni á útsölu nýlega, hér þar sem ég bý.

Bjórflöskur keypti ég á um það bil 40 krónur stykkið, og svo keypti ég nokkrar "beljur" af rauðvíni og hvítvíni.

Þær inniheldu 3. lítra af þokkalegu áströlsku rauðvíni og veru seldar á 700 krónur íslenskar stykkið.

Góða verðið stafaði af því að stutt var í síðasta söludag.

En vínið rann út og var forðað frá sóun, en slíkt er auðveldara þar sem er ekki ofur skattheimta.

En það er auðvitað erfitt hlutskipti að búa þar sem aðgengi að áfengi er mikið og verðin góð.  Slíkt leggst þungt í íslendinga.

Líklega er það í genunum á okkur.

 

 


mbl.is Fáránleg sóun á jólabjór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Angela Merkel: Eurokrísan er ekki leyst

Á fundi með samflokksfólki sínu, varaði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, við því að ekki væri búið að leysa Eurokrísuna.

Ekki hefði verið tekið á þeim göllum sem væru á sameiginlegu myntinni.

Þó að vissulega rambi euroið ekki "á brúninni" eins og stundum áður, er staðan ekki góð.

Massíf peningaprentun, lágir vextir og gríðarleg verðlækkun á olíu hefur ekki náð að koma skriði í efnahags svæðisins í heild.

Atvinnuleysi er ennþá gríðarhátt, skuldir einstakra ríkja (og svæðisins í heild) halda áfram að aukast, ríkissjóðshalli er ennþá víða mikill og viðskiptajöfnuður enn í ójafnvægi.

Pólítísk ólga, illviðráðanlegur flóttamannastraumur, hryðjuverkaógn og brestir í Schengensamstarfinu auka svo enn á vandræði Eurosvæðisins.

Flest bendir til þess að 2016 verði enn eitt krísuárið á Eurosvæðinu.

 

 

 


Kvótagreifarnir í 101

Það er fyrir all nokkru búið að setja kvóta á hlutfall veitingahúsa í miðbæ Reykjavíkur. Fyrir all nokkru varð þessi kvóti fullnýttur, ef ég hef skilið rétt.

Merkilegt nokk, þá var ákveðið þegar kvótinn var settur á að þeir sem höfðu leyfi fyrir heldu þeim, en ekki var farið í að auglýsa þau laus til umsóknar eða að bjóða þau upp.

Eins oft vill verða þegar kvótum er komið á, verður það til þess að "kvótinn" verður verðmæti.

Þannig hefur heyrst að verðmæti veitingaleyfa og -staða, á "kvótasvæðinu" hafi aukist og reynt sé að kaupa veitingaleyfi/veitingarekstur "innan kvóta".

Heyrst hefur af "samþjöppun" á kvótanum og vissulega gerir þetta alla nýliðun erfiðari.

Í raun þarf ekki að efa að almennir reykvíkingar bera skarðan hlut frá borði, þegar arðinum af þeirri auðlind sem miðbærinn í Reykjavík er, er skipt.

Svo ekki sé minnst á eigendur fasteigna sem ekki geta fengið kvóta og eru þannig sviptir frjálsum afnotarétti á eignum sínum. Til framtíðar þarf ekki að draga í efa að kvótaleysið getur orðið til verðlækkunar á fasteignum þeirra

Það má ótrúlegt vera ef borgaryfirvöld, Samfylkingin, Björt framtíð, Vinstri græn og Píratar ætla að láta málið standa eins og það er nú komið.

Það hlýtur að vera á stefnuskránni að innkalla öll veitingaleyfi og endurúthluta þeim með reglulegu millibili, eða jafnvel að bjóða þau út til 1. eða 2. ára í senn.

Þannig myndi arðurinn af miðbæjarauðlindinni skila sér til allra reykvíkinga.

 


Afhjúpar ruglið í innheimtu sóknargjalda

Á örfáum mánuðum hafa yfir 3000 íslendingar skráð sig í trúfélag sem fæstir ef nokkur virkilega þekkir skil á.

Þeim er nokk sama hver átrúnaðurinn er, loforðið um að sóknargjöld verði endurgreidd er þeim nóg, til að skrá sig í óþekktan trúarsöfnuð.

Persónulega skil ég þessa einstaklinga mæta vel, því vissulega er álagning sóknargjalds fyllilega ósanngjörn og óeðlileg.

Það er reyndar rétt að hafa það í huga að staða einstaklinga er misjöfn. Sumir einstaklingar munu fá meira greitt til baka en þeir reiddu af hendi, en aðrir munu tapa, en þó minna en áður.

Því engin "sóknargjöld" eru innheimt af íslendingum. Þau eru "felld" inn í almenna tekjuskattsálagningu. Þannig eiga tekjulágir möguleika á því að fá endurgreitt meira en þeir reiddu af hendi, en tekjuhærri eiga eingöngu möguleika á því að minnka "tapið".

En allir greiða "sóknargjöld", burtséð frá því hvort þeir tilheyra einhverri sókn, eða trúarsöfnuði. Gjaldið er prósenta af tekjum, rétt eins og aðrir skattar.

Það er ruglið í innheimtu "sóknargjalda".

Það er þarft verk sem "Zusistar" vinna með því að afhjúpa vitleysuna, mismununina og ranglætið sem með þessu hefur viðgengist.

Í sjálfu sér er einfalt mál og ekki með öllu óeðlilegt að hið opinbera bjóði upp á innheimtu sóknargjalda, en það ætti þá að vera með því formi að framteljandi haki í tilheyrandi reit, þar sem hann óskra eftir, eða samþykkir að kr. 10.776,- séu dregnar af honum aukalega í sóknargjald.

En ef til vill væri rökréttara að hið opinbera hætti með öllu afskiptum af innheimtu sóknargjalda, sem og trúfélagaskráningu.

Það yrði einfaldlega litið á það sem einkamál hvers og eins.

Það er eiginlega með eindæmum að flokkur sem alla jafna kennir sig við einstaklingsrelsi, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, skuli standa vörð um jafn úrelt kerfi.

 

 

 


mbl.is Zuism fimmta stærsta trúfélagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mega ekki allir styrkja starfsemi trúfélaga á Íslandi?

All nokkuð hefur verið rætt um starfsmemi og styrki til trúfélega á Ísland undanfarin misseri. Líklega er ekki of sterkt til orða tekið þegar sagt er að nokkur munur sé á skoðunum í þessum efnum.

En mér vitanlega er ekkert sem bannar einum eða neinum að styrkja trúfélög á Íslandi og líklegra er en ekki, að mínu mati að mörg þeirra fái og/eða hafi fengið einhverja styrki erlendis frá.

Sem eðlilegt er og ekkert út á það að setja.

Er ekki nákvæmlega jafn eðilegt að útlendingar láti fé af hendi rakna til trúarstarfsemi og trúboðs á Íslandi og að íslendingar geri slíkt til trúboðs og tengdrar starfsemi í fjarlægum löndum?

Og hver ætti að meta hvaða aðilar eru hæfir til að gefa fé og hverjir ekki? Og eftir hvað lögum og reglum ættu þeir að vinna?

Þess vegna virðist mér allt tal um að kanna hvaðan fjármagn kemur marklaust, hvort sem það kemur frá borgarstjóra eður ei.

Og hvernig á svo að vinna málið áfram?

Ef 200 einstaklingar gefa milljón hver, hver á að rannsaka að allir einstaklingarnir hafi raunverulega gefið eigið fé, eða hafi efnahagslega burði til þess?

Mér virðist þetta allt nokkuð marklaust.

Hún er líka áhugaverð umræðan um að allir trúarsöfnuðir á Íslandi verði að starfa í samræmi við íslensk lög, þar sem m.a. er kveðið á um að ekki megi mismuna einstaklingum eftir kyni.

En það verður að hafa í huga að stjórnarskráin íslenska tryggir trúfrelsi og það er þarft að velta því fyrir sér, hvort að það sé ekki sterkara.

Að sá sem velur sér trúfélag, hafi í raun þá gefið hluta af öðrum réttindum sínum eftir.

En ég hef velt þessu fyrir mér áður, og má lesa það hér.

Staðreyndin er sú, að ef að horft er í til íslenskra laga, eru það líklega fleiri en eitt og fleiri en tvö trúrfélög sem gætu lent í vandræðum.

En hvað verður þá um trúfrelsið?

Þeir sem hafa lesið þetta blogg reglulega vita líklega að mér hefur sjaldan legið mjög gott orð til trúfélaga. Get ekki sagt að ég beri mikla virðingu fyrir þeim.

En því má ekki rugla saman við virðingu mína fyrir trúfrelsi og frelsi einstaklinga til að iðka trú sína. Sú virðing er mikil.

En hún hefur vissulega sín takmörk.

Spurningin er hvar mörkin liggja og hvar íslendingar vilja draga þau.

Það er umræða sem þarft er að taka, en líklega eldfim.

P.S. Ég vil taka undir með þeim sem hafa lýst aðdáun sinni á teikningu af fyrirhugaðri mosku í Reykjavík.

Mér þykir næsta víst að bygginguna eigi ég aldrei eftir að sjá innan frá, en fyrirhugað útlit hennar er gott og kom mér skemmtilega á óvart.

 

 


mbl.is Óeðlileg pressa frá leigusölunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falleinkunnir Evrópusambandsins - lög og reglugerðir duga skammt

Það er útbreiddur misskilningur margra stjórnlyndra stjórnmálamanna að það dugi að setja lög og reglurgerðir og þá gangi allt eins og í sögu og vandamálin verði á brott.

Líklega er þessi misskilningur hvergi útbreiddari en í Evrópusambandinu.

Þannig er það með Eurosvæðið.

Farið er af stað með ógrynnin öll af lögum og reglugerðum, sem svo lítið sem ekkert er gert með þegar til kastanna kemur.

Það þótti ekki þarft að fara eftir lögum eða reglugerðum þegar hleypa þurfti Grikklandi inn á Eurosvæðið. Það þótti ekki ástæða til að beita viðurlögum þegar Þýskaland og Frakkland brut lögin, fyrst af öllum ríkjum.

Síðan hafa 2/3 eða svo að aðildarríkjum Eurosins brotið sáttmálann og viðurlögin hafa engin verið. Staðan er nú sú að næstum eingöngu ríki sem nýlega hafa tekið upp euro, uppfylla skilyrðin.

Eurosvæðið sem heild, uppfyllir ekki skilyrðin til að vera á Eurosvæðinu.

Lögin og reglugerðirnar höfðu enga þýðingu, enga vikt.

Þannig hefur saga eurosins frá upphafi verið saga fagurra fyrirheita, en fárra efnda.

Eurokrísan hefur enda markað undanfarin ár, og er í raun ekki séð fyrir endan á henni.

Að mestu leyti má segja það sama um Schengen svæðið, sem er skilgetið afkvæmi Evrópusambandsins, þó að önnur ríki (þar á meðal Ísland) eigi aðild þar að.

Þar er farið af stað með háleit og göfug markmið. Lög og reglugerðir settar, en eftirfylgnin er lítil sem engin og eins og í tilfelli eurosins koma annmarkarnir í ljós um leið og verulega reynir á.

Lög og reglugerðir voru settar, en eftirfylgnin var svo gott sem engin.

Að vísu má þakka fyrir að samþykkt Evrópusambandsþingsins um að Búlgaría og Rúmenía fengju aðganga að Schengen var stöðvuð. Slíkt hefði líklega verið enn verra, enda var haft eftir "embættismanni sem vildi ekki láta nafns síns getið", við það tækifæri, að það væri til lítils fyrir "Sambandið", að styrkja ríki til að kaupa dýr tæki til gámagegnumlýsinga, sem kostuðu hátt í milljón euro, ef það kostaði ekki nema á milli 100 og 200 euro að sleppa að fara í gegnum þau.

En Schengen samkomulagið hefur engan vegin staðið við þau fyrirheit sem það gaf. Ytri landamæri svæðisins hafa ekki fengið þann stuðning sem þau þarfnast, með þeim afleiðingum að svæðið hefur í raun verið án landamæragæslu.

Það hefur að sjálfsögðu, og eðlilega haft í för með sér að einstök ríki hafa tekið upp eigin landamæragæslu, og Schengne er eins og Juncker réttilega lýsir í nokkurs konar "dauðadái".

Á æ fleiri sviðum fær Evrópusambandið algera falleinkunn.

Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að efasemdir um "Sambandið" og "æ nánari samruna" verða æ meira áberandi og stuðningur við úrsögn ríkja, eins og t.d. Bretlands verður æ meiri.

Nú sýna skoðanakannir meirithlutastuðning breskra kjósenda við úrsögn úr "Sambandinu".

Undir þessum kringumstæðum ætti ef til vill fáum að koma á óvart að formaður Samfylkingarinnar lýsi því yfir að "Sambandsaðild" verði eitt af baráttumálum flokksins í næstu kosningum og að flokkurinn sé með undir 10% fylgi.

 

 

 


mbl.is Schengen „að hluta í dauðadái“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband