Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
20.3.2019 | 18:14
Tvær vísbendingar um að lægra verð virki
Það hefur eins lengi og ég man eftir mér alltaf verið mikið rætt um verðlag á Íslandi. Gjarna um að það sé alltof hátt.
Hér eru hinsvegar tvo dæmi um að lækkun verðs virki, annars vegar í þeirri frétt sem þessi færsla er hengd við og fjallar um Þrjá Frakka og svo hinsegar í þessari frétt, þar sem sagt er frá stórfelldri verðlækkun á Stella Artois bjór.
Nú ætla ég ekkert að fullyrða að allir geti lækkað verð með svo myndarlegum hætti, en það er þekkt staðreynd að verð spilar stóra rullu í ákvörðunum væntanlegra viðskiptavina um hvar viðskipti þeirra enda.
Flestir líklega að leita að hinu þekkta jafnvægi gæða og verðs, sem vitanlega er misjafnt eftir einstaklingum hvar liggur.
En það er líka ljóst að launakostnaður sem hlutfall af sölu lækkar með aukinni traffík og aukin sala styrkir sömuleiðis stöðuna gagnvart birgjum og getur hugsanlega leitt til hagstæðara innkaupsverðs.
Nú þegar veitingamenn kvarta undan samdrætti, þykir mér líklegta að eitthvað verði undan að láta, ekki hvað síst fjöldi veitingastaða.
Þá munu líklega þeir lifa sem lækka verð og laðað að sér fleiri viðskiptavini. Þeir sem ganga á undan eiga mun meiri möguleika og ekki skaðar að fá feiknagóða umfjöllun í fjölmiðlum um lækkanirnar.
Margir veitingastaðir eru þó líklega í nokkurs konar "gildru", þar sem leiga tengist veltu, meira velta þýðir þá því hærri leigu.
Þeir munu eiga erfitt uppdráttar.
Umferðin jókst um 30% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.3.2019 | 15:27
Eignamunur - breyta sem skiptir máli
Ég bloggaði fyrir nokkru um þær áhyggjur sem margir hafa af breikkandi bili hvað varðar eignaskiptingu á Íslandi og versnandi stöðu tekjulægstu hópanna.
Þá bloggfærslu má finna hér.
Þar nefndi ég nokkrar ástæður sem gætu útskýrt vaxandi eignamun að hluta, t.d. aukin fjölda innflytjenda.
Færslan endaði á þessum orðum: "Það er ekkert óeðllilegt að mikill fjöldi innflytenda hafi áhrif á eignaskiptingu, en hversu mikil þau áhrif eru veit ég ekki, og man ekki eftir því að hafa séð tölur um slíkt, en það væri vissulega þarft rannsóknarefni."
Á flakki mínu um netið rakst ég á umfjöllun sem tengist þessu efni. Á vef Viðskiptablaðsins er fjallað um þær upphæðir sem erlent starfsfólk hefur sent frá Íslandi undanfarin ár.
Þar kemur fram að að á síðastliðnum 7 árum er upphæðin sem send hefur verið úr landi nemur 75 milljörðum Íslenskra króna.
Á sama tíma hefur erlent starfsfólk sent 16 milljarða til Íslands.
Munurinn er því 59 milljarðar króna. Á síðasta árið nam munurinn 20 milljörðum, en þá sendi erlent starfsfólk 25 milljarða frá Íslandi.
Það má því ljóst vera að þessi þáttur hefur áhrif á eignamyndum á Íslandi, og ef ég leyfi mér að segja að stærstur hluti erlendra starfsmanna sé í eignaminnsta hópnum, þá blasir við að áhrifin þar hljóta að vera veruleg.
7.3.2019 | 20:30
Sænska krónan og euroið
Ég hef ekki tölu á því lengur hve oft ég hef heyrt það fullyrt í fjölmiðlum á Íslandi að Sænska krónan sé tengd við euroið. Að Svíar taki þátt í ERM II gengissamstarfi.
Ég hef meira að segja heyrt formann Íslensks stjórnmálaflokks fullyrða slíkt í fjölmiðli.
En þetta er ekki rétt.
Vissulega skuldbundu Svíar sig til að taka upp euro (einhvern tíma í framtíðinni) þegar þeir gengu í Evrópusambandið, en þeir hafa passað sig vel og vendilega á því að gera það ekki.
Sænskir kjósendur höfnuð euroupptöku í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2003, og fáir hafa lýst áhuga sínum á því að endurtaka slíka atkvæðagreiðslu.
Áhugi á euroupptöku enda ekki verið mikill hjá Sænskum almenningi.
Samt sem áður má reglulega heyra áðurnefnda fullyrðingu í setta fram í Íslenskum fjölmiðlum án þess að fjölmiðlamenn hreyfi andmælum.
Ekki veit ég hvort þessar fullyrðingar eru settar fram í blekkingaskyni eða af vanþekkingu, en tilhugsun um hvoru tveggja vekur ekki upp bjartsýni um "umræðuna" í Íslenskum stjórnmálum.
Hér fyrir neðan má svo sjá gengisþróun á milli euros og Sænskrar krónu síðustu 10 árin. Eins og sjá á eru engin "ERM II" vikmörk á milli myntanna, enda þær bæðar "fljótandi".
16.2.2019 | 12:17
Olympíuleikar oftar en ekki fjárhagsleg byrði
Það færist í vöxt að íbúar borga hafni alfarið að heimaborg þeirra reyni að fá að að halda Olympuleika.
Þeir eru einfaldlega of stór fjárhagsleg byrði, nokkuð sem skynsamir skattgreiðendur hafa ekki áhuga á að kosta. Þess utan hafa uppbygging í kringum Olympíuleika oft verið umleikin spillingu, svo ekki sé minnst á þegar ákveða á hvar þeir eru haldnir.
Þau hafa verið mörg stór "fíaskóin" hvað varðar Olympíuleika undanfarna áratugi. Það tók Montrealbúa u.þ.b. 30 ár að borga upp skuldirnar sem urðu til vegna Olympíuleikanna 1976. Olympíuleikvangurinn gekk lengi (og gerir jafnvel enn) undir nafninu "The Big Owe".
Olympíuleikarnir í Aþenu töpuðu óhemju fé og það sama má segja um ýmsar aðrar borgir.
Nýtingin á mannvirkjum er svo önnur saga eins og lesa má í þessari frétt BBC frá síðasta ári.
Auðvitað fylgir Olympíuleikum mikil umsvif og kynning á viðkomandi borg. En það verður líka að horfa til þess til er kostað.
Ólympíuþorpið orðið að draugabæ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.2.2019 | 14:30
Hvert stefnir Bretland, hvert stefnir "Sambandið"?
Það hefur verið í senn fróðlegt og undarlegt að fylgjast með "Brexit", ég get ekki komist hjá þeirri hugsun að illa hafi verið haldið á málinu, af báðum málsaðilum.
Nú hafa liðið næstum 2. ár síðan Bretar ákváðu formlega að ganga úr "Sambandinu" og enn hefur ekki tekist að ná niðurstöðu sem báðum aðilum þykir góð (ekki frekar en glæsilega niðurstöðu Svavars Gestssonar og samninganefndar undir hans forystu, um "IceSave" málið).
Þess má til gamans geta að það tókst að kljúfa Tekkkóslóvakíu í tvö ríki í mestu vinsemd á um það bil 6 mánuðum. Þó var Tekkóslóvakía sambandsríki og þar var fljótlega ákveðið að sama myntin myndi ekki gilda í löndunum báðum (sama myntin var notuð í einhvern tíma eftir "skilnaðinn".)
En þannig gekk það ekki fyrir sig þegar Bretland ákvað að ganga úr "Sambandinu".
Einfaldast er að álykta að sökin liggi að einhverju marki hjá báðum aðilum.
Bretar höfðu ekki undirbúið sig fyrir þessa útkomu úr þjóðaratkvæðagreisðlunni, það er ekki síst vegna þess að þá, rétt eins og nú, var landinu stjórnað af þeim sem voru fylgjandi áframhaldandi "Sambandsaðild". Sama gilti um "Humpreya" stjórnkerfisins.
Þegar þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram er líklegt að útganga hefði verið kolfelld í þingdeildunum, hún opnaði því "gjá á milli þings og þjóðar".
Enn fremur þarf að líta til þess að þeir sem studdu "Brexit" gerðu það af mörgum mismunandi ástæðum, og um heildarstefnu var ekki að ræða, hvað þá að hún væri skýr, þegar fylgjendur "Sambandsaðildar" innan Íhaldsflokksins tóku að sér að framfylgja niðurstöðu þjóðaratkvæðisins.
Það má líka velta því fyrir sér hvers vegna fylgjendur áframahaldandi aðildar Bretlands innan Íhaldsflokksins, stigu ekki til hliðar og létu "útgöngusinnum" eftir stjórnina. Svona í takt við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
En líklega eru stærstu mistök May að hafa efnt til kosninga. Þar ofmat hún stöðu sína og gaf andstæðingum sínum, þar á meðal "Sambandinu", mun betri vígstöðu. Í aðdragenda þeirra ásakaði hún enda "Sambandið" um óeðlileg afskipti af þeim.
Þess utan fór mikilvægur tími í kosningar sem hefði líklega betur verið notaður við samningaborðið.
En það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að mótaðilarnir, þ.e. "Sambandið", hafi reynt eftir fremsta megni að stuðla að niðurlægingu May og Bretlands. Þeir hafi fyrst og fremst talið það til sinna hagsmuna að stuðla að upplausn og sundrungu í Breskum stjórnmálum, og reyndar tekist ágætlega upp.
Að þeir hafi talið að hagsmunir "Sambandsins" lægju frekar í að setja "fordæmi" gagnvart öðrum þjóðum (sem ef til vill myndu hugleiða útgöngu í framtíðinni) en að tryggja sameiginlega viðskiptahagsmuni "Sambandsins" og Bretlands.
Það er rétt að hafa í huga að enginn af þeim sem hafa leitt samningagerðina af hálfu "Sambandsins", mun þurfa að horfast í augu við kjósendur um árangurinn.
Auðvitað er hægt að halda því fram að það séu hagsmunir "Sambandsins" að "refsa" Bretum harkalega til að halda "Sambandinu" saman.
Margir virtust taka þann pól í hæðina, rétt eins og þeir sem vildu endilega hætta að nota Ensku sem eitt af opinberum málum "Sambandsins", þó að þeir vissu að það myndi koma harkalega niður á samskiptum innan þess. Það er hins vegar afar ólíklegt að af því verði, því myndi fylgja svo gríðarlegt óhagræði.
En það er alveg rétt hjá Carney að útgöngunni geta fylgt gríðarleg tækifæri fyrir Bretland, fyrst og fremst ef það kýs að standa utan tollsvæðis "Sambandsins".
Ef Bretland yrði áfram í tollabandalagi við "Sambandið", er útgangan til lítils.
En það er ýmislegt sem bendir til þess að Bretar gangi út án samnings, það er ekki æskileg útkoma, en ekki sú versta.
Það mun þýða að það mun taka Breta lengri tíma en ella að vinna bug á þeim vandamálum sem upp munu koma og fylgja útgöngu.
En til lengri tíma litið trúi ég að útganga verði þeim til góðs.
Það má einnig velta því fyrir sér hvort að útganga Breta hafi ekki alltaf verið nær óhjákvæmileg, og betra að hún eigi sér stað fyrr en síðar. Flækjustigið mun aðeins koma til með að aukast.
Þegar "Sambandið" vill og stefnir leynt og ljóst á að æ fleiri ákvarðanir verði meirihlutaákvarðanir, og er að seilast inn á svið eins og skattaákvarðanir og utanríkismál, held ég að það hefði ekki verið spurningin hvort, heldur hvenær Bretar kysu útgöngu.
En það verður "ókyrrð" í Breskum stjórnmálum næstu misserin. Íhaldsflokkurinn hefur laskast verulega í "Brexit" baráttunni. Það vill honum þó til happs að Verkamannaflokkurinn stendur þeim mun verr.
Líklegt er að Skotar fari einnig að blása enn á ný í glæður sjálfstæðiskrafna sinna, þannig að ég held að Bretar þurfi ekki að láta sig dreyma um neina lognmollu.
En en góð orð Carneys vekja vissa bjartsýni um að Bretar búi sig undir útgöngu af auknum krafti, og þar eru seðlabankar eitt af vopnunum sem beita þarf að skynsemi.
P.S Hér er svo tengill á opið bréf frá Jim Ratcliffe til Juncker, sem segir margt af því sem segja þarf, um aukna möguleika Breta utan "Sambandsins". Þeir felast m.a. í að gera fríverslunarsamninga á eigin spýtur, en einnig að taka til í regluverkinu.
Mikil tækifæri fólgin í Brexit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.2.2019 | 07:47
Innflutt hús betri kostur en "innlend"?
Mér kemur það ekki á óvart að ýmsir aðilar gagnrýni að Íslensk verkalýðsfélög standi fyrir því að flytja inn einingahús frá Lettlandi.
Þó að ég hafi ekki hugmynd um hvað þeir sem vinna við framleiðslu á einingunum fá í laun, þá veit ég að lágmarkslaun í Lettlandi eru u.þ.b. 340 euro á mánuði.
Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að mögulegt er að fá einingar framleiddar þar fyrir töluvert lægra verð en á Íslandi.
En ég tek hinn ímyndaða hatt minn ofan fyrir verkalýðsfélögunum að fara þessa leið. Auðvitað á að gefa Íslenskum verktökum möguleika á að bjóða í verkið, en að sjálfsögðu á að velja þann ódýrasta af sambærilegum kostum.
Þannig gerast viðskiptin best og ég er reyndar hissa á Íslenskum verktökum að hafa ekki gert slíkt í miklu meira mæli á undanförnum árum.
Það ætti að geta aukið byggingarhraða, dregur úr þennslu á innlendum markaði, dregur úr húsnæðisþörf fyrir verkamenn, eykur sveigjanleika, o.sv.frv.
Ég held að flestum sé ljóst að þörf er á auknu framboði á húsnæði á Íslandi, en aukin þennsla síður eftirsóknarverð.
Þetta er því líklega góð lausn.
Erlendu húsin betri kostur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.2.2019 | 09:47
Hvers vegna hefur matarverð hækkað mun meira á Íslandi en í Noregi?
Það hefur mikið verið rætt um hvers vegna í nýlegri verðkönnun á milli höfuðborga Norðurlanda, Ísland kom út svo dýrt.
Sérstaklega hafa margir furðað sig á því hvers vegna "karfan" (sem var vissulega umdeilanlega sett saman) var svo mikið dýrari í Reykjavík en Oslo.
Það er auðvitað margar mismunandi ástæður fyrir því, en hér vil ég birta eina þeirra.
Þetta línurit af gengi Norsku og Íslensku krónunnar. Eins og sést hefur það breyst gríðarlega á undanförnum 10. árum.
7.2.2019 | 14:42
Matvara er mjög dýr á Íslandi - ekki síst landbúnaðarvörur
Það er ekki ódýrt að kaupa í matinn á Íslandi. Ég fann það ágætlega þegar ég ferðaðist um landið síðastliðið sumar.
En ef hverju er það?
Þessi niðurstaða er mikil umskipti frá því árið 2012, en þá var Ísland talið ódýrast Norðurlandana ásamt Finnlandi og ódýrast í heildkostnaði við framfærslu.
(En það er rét að hafa í huga að hér er langt í frá um sömu "körfu" að ræða, og því ekki fyllilega samanburðarhæft, þó að vissulega gefi það vísbendingar)
En margt hefur breyst síðan þá, og líklega ekki hvað síst gengið. Íslenska krónan hefur styrkst. Þannig ýkjast verðbreytingar upp þegar borið er saman við erlend verð.
Og auðvitað væri fróðlegt að sjá samanburð á breytingum á öðrum rekstrarkostnaði matvöruverslana á sama tímabili. Hvað hefur launakostnaður stigið, hvað hafa fasteignagjöld hækkað, rafmagn og hiti o.s.frv?
En það sem hjálpar til að Finnar geta verslað svona ódýrt, er að hluta til Putin að þakka, og því innflutningsbanni sem hann setti til Rússlands, var það ekki 2013.
Það hafði gríðarleg áhrif á verðlag landbúnaðarvara, sérstaklega mjólkurafurðir, enda féll útflutningur gríðarlega og hélt áfram að falla árin á eftir. Á milli 2013 og 2016, dróst útflutningur Finna á landbúnaðarafurðum til Rússlands um ríflega 70%, eða eitthvað yfir 300 milljónir euroa.
Þetta hafði gríðarleg áhrif bæði í Finnlandi og "Sambandinu" í heild, sérstaklega austan megin, enda voru fleiri lönd sem höfðu allt í einu offramboð á mörgum landbúnaðarvörum.
Það hefur líka áhrif að "risarnir" tveir á Finnskum matvörumarkaði hafa háð grimmilegt verðstríð, sem hófst á svipuðum tíma. Og það stendur enn yfir.
Bændur eru ekki hressir, enda hafa rannsóknir sýnt að hlutur þeirra í heildarverði fer minnkandi (og afkoma þeirra sömuleiðis), en það gerir reyndar hlutur verslunarinnar einnig. Það eru matvælaiðnaðurinn sem eykur sína hlutdeild.
En ég get tekið undir gagnrýni þeirra Bónusmanna að því marki að þessi könnun sýnir lítið meira en að Íslenskar landbúnaðarafurðir eru mjög dýrar.
Einstaka atriði (fyrir utan hátt verð á Íslenskum landbúnaðarafurðum)könnunarinnar vekja sérstaka athygli.
Ég bý 80 kílómetra sunnan við Helsinki, þar sem verðlag er að öllu jöfnu örlítið lægra en þar. Sjá má Finna fylla innkaupakörfurnar hér áður en þeir halda heim á leið.
En ég hef aldrei séð 500g af pasta á 26 kr, eins og boðið er upp á í Helsinki, ég hef aldrei seð lítra af appelsínusafa á 88 kr eins og hægt er að kaupa í Osló. Hrísgrjón á 108 kr eru heldur ekki á boðstólum hér.
Önnur verð kannast ég vel við, og margt heldur ódýrar en þarna er nefnt.
En svo kemur Ísland alls ekki illa út í brauði, banönum og hrisgrjónum. En verðið á gulrótum á Íslandi hlýtur svo að vera sérstakt rannsóknarefni.
En heilt yfir þykir mér munurinn oft ótrúlegur á milli borga í þessari könnun. Það er ekki langt á milli Helsinki, Stokkhólms, Osló og Kaupmannahafnar, en munurinn samt sem áður verulegur á mörgum vörum.
En það væri fróðlegt að sjá betur "balanseraða" könnun, sem væri ef til vill nær því sem hefðbundin fjölskylda kaupir inn.
Mér finnst frekar "ódýrt" hjá verkalýðsforingjum að tala eins og sá munur sem þarna kemur fram sé munur á framfærslu í Reykjavík og Helsinki.
Enn "ódýrara" að tala eins og munurinn liggi eingöngu hjá Íslenskri verslun.
En umræðan er þörf, enda velkist enginn í vafa um að matvælaverð er afar hátt á Íslandi og það skiptir máli.
Set hér að lokum, ef einhver hefur gaman af því að skoða "tilboð" í Helsinki, tengla á vefsíður, þriggja verslana, LIDL, K-Supermarket (KESKO), Prisma.
P.S. Bæti hér við 8. febrúar tengli á ágætis umfjöllun hjá Bændablaðinu. Þar er tafla sem segir að hlutfallsleg eyðsla Íslendinga (af launum) sé heldur lægri en hinna Norðurlandaþjóðanna. En líklega eru þetta tölur frá 2017.
Googlaði örlítið og fann þessar upplýsingar frá Eurostat, en þær eru frá 2017. Þær eru ekki alveg samhljóða þeim frá Bændablaðinu, en sýna þó svipaða niðurstöðu, Ísland heldur sigið niðurávið.
P.S.S. Bæti hér við 9. febrúar. Grein frá Ernu Bjarnadóttur á Vísi.is og tentill á grein frá Viðskiptaráði.
Furðar sig á samsetningu vörukörfu ASÍ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 9.2.2019 kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.2.2019 | 10:32
Að ríkið styðji fyrirtæki vegna forskots og ofríkis ríkisfyrirtækis
Einhvern veginn finnst mér að fyrirsögnin hér gæti verið yfirskrift þess sem nú er kallað "fjölmiðlafrumvarpið". Það er að segja um opinbera niðurgreiðslu skattgreiðenda á einkareknum fjölmiðlum.
Þessar hugmyndir eru nokkuð í takt við þróunina á Íslandi, þar sem stjórnmálamenn hafa varla undan við að fá hugmyndir um eitthvað sem þeir vilja að almenningur niðurgreiði.
Allt nema vegi, þar eru komnar fram hugmyndir um að þeir "greiði sem noti".
En út af hverju ganga Íslenskir fjölmiðlar svona illa, að nauðsynlegt sé talið að neyða skattgreiðendur til að leggja þeim lið?
Þar má án efa telja til ýmsar ástæður, en ég hygg að það þyrfti ekki að ræða við marga il þess að sterk staða Ríkisútvarpsins yrði nefnd til sögunnar.
Ég held líka að ef ekkert verður að gert muni sá styrkur ekki gera neitt nema að aukast á komandi árum og hlutföllin á fjölmiðlamarkaði skekkjast enn frekar.
Sívaxandi tekjur Ríkisútvarpsins af útvarpsgjaldi munu sjá til þess, sem aftur gerir stofnuninni kleyft að auka umsvif sín og jafnvel í framhaldinu ná í enn stærri skerf af auglýsingamarkaðnum.
Stóraukin fjöldi íbúa og fyrirtækja, þýðir að sjálfsögðu stórauknar tekjur RUV af nefskattinum.
Margir hafa viðrað þá hugmynd að drage eigi RUV að hluta til eða alveg af auglýsingamarkaði.
Það gæti skilað einhverjum árangri, sérstaklega ef sá tekjumissir yrði ekki bættur upp með öðrum hætti.
En ef árangur á að nást, þarf að minnka umsvif RUV á markaðnum. Það þarf í raun að draga úr starfseminni.
Ef RUV er með 50% áhorf og er bannað að selja auglýsingar, þá er búið að taka 50% af sjónvarpsáhorfendum af auglýsingmarkaðnum.
Auglýsingakaupendur fara ekki að kaupa auglýsingar í auknum mæli á Stöð2/Bylgjunni, DV, eða Mogganum til þess að reyna að ná í þann hóp. Það hefur ekkert upp á sig.
Auglýsendur eru ekki að keppast við að eyða ákveðinni upphæð, heldur eru þeir að kaupa auglýsingar þar sem þeir ná til hugsanlegra viðskiptavina.
Ef þeir eru að horfa á auglýsingalaust RUV, þýðir lítið að kaupa auglýsingar annars staðar.
Það liggur í hlutarins eðli að þegar einn aðili á markaði nýtur þeirra forréttinda að allir (yfir ákveðnum aldri) þurfa að greiða til hans, óháð því hvort þeir nýti þjónustuna eður ei, þá mun hann til lengri tíma bera höfuð og herðar yfir aðra markaðsaðila.
Svona rétt eins og ein matvöruverslun fengi nefskatt, burt séð frá því hvar menn kysu að versla.
Sú verslun gæti leyft sér lægri álagningu, meira vöruúrval og þar fram eftir götunum, sem myndi svo líklega skila sér í meiri sölu og markaðshlutdeild.
En það eru ekki til neinar einfaldar lausnir til að leiðrétta þetta misrétti.
Ef til vill má hugsa sér að breyta nefskattinum í "fjölmiðlaskatt", sem væri skipt upp í, sjónvarpshluta, útvarpshluta, vefmiðla og dagblöð, sem síðan væri úthlutað úr eftir hlutdeild í neyslu?
Þetta væri ákveðin leið ef einlægur vilji er til þess að fjölmiðlar séu á framfæri skattgreiðenda.
Hitt er svo hvort að þrengja eigi starfssvið RUV? Skilgreina ákveðinn kjarna sem það ætti að sinna?
Svo má líka velta því fyrir sér að ef ekkert Ríkisútvarp væri á Íslandi, væri þá verið að berjast í því að koma því á fót?
Alltaf gott að velta fyrir sér mismunandi möguleikum.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
1.2.2019 | 17:38
3ji orkupakkinn
Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki getað myndað mér skoðun á 3ja orkupakkanum. Ekki einu sinni krakkafréttir hafa getað hjálpað mér í þeim efnum.
Ég hef ekki fundið orku eða tíma til þess að að kafa ofan í "pakkann", en hef vissulega séð margt athyglisvert skrifað um "pakkann, m.a. hér á blogginu.
En ég hef séð athyglisverð skrif bæði með og á móti, skrifuð af einstaklingum sem ég alla jafna tel ekki fara með vitleysu og ég tek mark á.
Mér hefur jafnvel þótt hinir hefðbundnu fylkingar "Sambandssinna" og "Sambandskeptíkera" hafa að einhverju marki riðlast í þessari umfjöllun.
En það hefur eitt og annað vakið athygli mína.
Margir fulltrúar þeirra flokka sem fullyrtu fyrir fáum misserum, að það maætti eiginlega semja við "Sambandið" um næstum hvað sem er, undanþágur frá þessu og hinu, telja nú að EEA/EES samningurinn sé hreinlega undir.
Nú virðist engin eiga von á því að hægt sé að fá undanþágu, í sömu andrá er sagt að þessi "pakki" skipti nákvæmlega engu máli.
"Sambandið" virðist leggja gríðarlega áherslu á að einhver "pakki" sem skiptir engu máli, taki gildi á Íslandi.
Svo er sagt að "pakkinn" skipti engu máli nema að lagður verði sæstrengur. Ættu Íslendingar þá að samþykkja "pakkann" með það að leiðarljósi að aldrei verði lagður strengur?
En er ekki líklegt að strengur dúkki aftur upp, þó að það kunni að verða einhverjir áratugir þangað til hann yrði að veruleika?
Og hvað þá?
Eða er strengur úr sögunni vegna framfara í orkuöflun? Myndi einhver þora að spá fyrir um slíkt?
Þetta er einmitt gallinn við samninga eins og EEA/EES, að það er enginn leið til þess að vita hvar hann endar.
Engin sá líklega fyrir umræðu um 3ja orkupakkann, þegar samningurinn var undirritaður á 10. áratugnum og talað var um að Íslendingar hefðu fengið allt fyrir ekkert.
Ég man ekki betur heldur en að þá hafi það verið talið nokkuð öruggt að innflutningur á "hráu kjöti" væri ekki í spilunum.
En ég væri þakklátur ef ég fengi ábendingar um hvar er að finna bestu umfjöllunina um 3ja orkupakkann.
Gjarna í stuttu en hnitmiðuðu máli, þá að það þurfi ekki að vera "krakkafréttir".