Hvert stefnir Bretland, hvert stefnir "Sambandið"?

Það hefur verið í senn fróðlegt og undarlegt að fylgjast með "Brexit", ég get ekki komist hjá þeirri hugsun að illa hafi verið haldið á málinu, af báðum málsaðilum.

Nú hafa liðið næstum 2. ár síðan Bretar ákváðu formlega að ganga úr "Sambandinu" og enn hefur ekki tekist að ná niðurstöðu sem báðum aðilum þykir góð (ekki frekar en glæsilega niðurstöðu Svavars Gestssonar og samninganefndar undir hans forystu, um "IceSave" málið).

Þess má til gamans geta að það tókst að kljúfa Tekkkóslóvakíu í tvö ríki í mestu vinsemd á um það bil 6 mánuðum. Þó var Tekkóslóvakía sambandsríki og þar var fljótlega ákveðið að sama myntin myndi ekki gilda í löndunum báðum (sama myntin var notuð í einhvern tíma eftir "skilnaðinn".)

En þannig gekk það ekki fyrir sig þegar Bretland ákvað að ganga úr "Sambandinu".

Einfaldast er að álykta að sökin liggi að einhverju marki hjá báðum aðilum. 

Bretar höfðu ekki undirbúið sig fyrir þessa útkomu úr þjóðaratkvæðagreisðlunni, það er ekki síst vegna þess að þá, rétt eins og nú, var landinu stjórnað af þeim sem voru fylgjandi áframhaldandi "Sambandsaðild".  Sama gilti um "Humpreya" stjórnkerfisins.

Þegar þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram er líklegt að útganga hefði verið kolfelld í þingdeildunum, hún opnaði því "gjá á milli þings og þjóðar".

Enn fremur þarf að líta til þess að þeir sem studdu "Brexit" gerðu það af mörgum mismunandi ástæðum, og um heildarstefnu var ekki að ræða, hvað þá að hún væri skýr, þegar fylgjendur "Sambandsaðildar" innan Íhaldsflokksins tóku að sér að framfylgja niðurstöðu þjóðaratkvæðisins.

Það má líka velta því fyrir sér hvers vegna fylgjendur áframahaldandi aðildar Bretlands innan Íhaldsflokksins, stigu ekki til hliðar og létu "útgöngusinnum" eftir stjórnina. Svona í takt við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

En líklega eru stærstu mistök May að hafa efnt til kosninga. Þar ofmat hún stöðu sína og gaf andstæðingum sínum, þar á meðal "Sambandinu", mun betri vígstöðu.  Í aðdragenda þeirra ásakaði hún enda "Sambandið" um óeðlileg afskipti af þeim.

Þess utan fór mikilvægur tími í kosningar sem hefði líklega betur verið notaður við samningaborðið.

En það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að mótaðilarnir, þ.e. "Sambandið", hafi reynt eftir fremsta megni að stuðla að niðurlægingu May og Bretlands. Þeir hafi fyrst og fremst talið það til sinna hagsmuna að stuðla að upplausn og sundrungu í Breskum stjórnmálum, og reyndar tekist ágætlega upp.

Að þeir hafi talið að hagsmunir "Sambandsins" lægju frekar í að setja "fordæmi" gagnvart öðrum þjóðum (sem ef til vill myndu hugleiða útgöngu í framtíðinni) en að tryggja sameiginlega viðskiptahagsmuni "Sambandsins" og Bretlands.

Það er rétt að hafa í huga að enginn af þeim sem hafa leitt samningagerðina af hálfu "Sambandsins", mun þurfa að horfast í augu við kjósendur um árangurinn.

Auðvitað er hægt að halda því fram að það séu hagsmunir "Sambandsins" að "refsa" Bretum harkalega til að halda "Sambandinu" saman.

Margir virtust taka þann pól í hæðina, rétt eins og þeir sem vildu endilega hætta að nota Ensku sem eitt af opinberum málum "Sambandsins", þó að þeir vissu að það myndi koma harkalega niður á samskiptum innan þess.  Það er hins vegar afar ólíklegt að af því verði, því myndi fylgja svo gríðarlegt óhagræði.

En það er alveg rétt hjá Carney að útgöngunni geta fylgt gríðarleg tækifæri fyrir Bretland, fyrst og fremst ef það kýs að standa utan tollsvæðis "Sambandsins".

Ef Bretland yrði áfram í tollabandalagi við "Sambandið", er útgangan til lítils.

En það er ýmislegt sem bendir til þess að Bretar gangi út án samnings, það er ekki æskileg útkoma, en ekki sú versta.

Það mun þýða að það mun taka Breta lengri tíma en ella að vinna bug á þeim vandamálum sem upp munu koma og fylgja útgöngu.

En til lengri tíma litið trúi ég að útganga verði þeim til góðs.

Það má einnig velta því fyrir sér hvort að útganga Breta hafi ekki alltaf verið nær óhjákvæmileg, og betra að hún eigi sér stað fyrr en síðar.  Flækjustigið mun aðeins koma til með að aukast.

Þegar "Sambandið" vill og stefnir leynt og ljóst á að æ fleiri ákvarðanir verði meirihlutaákvarðanir, og er að seilast inn á svið eins og skattaákvarðanir og utanríkismál, held ég að það hefði ekki verið spurningin hvort, heldur hvenær Bretar kysu útgöngu.

En það verður "ókyrrð" í Breskum stjórnmálum næstu misserin. Íhaldsflokkurinn hefur laskast verulega í "Brexit" baráttunni.  Það vill honum þó til happs að Verkamannaflokkurinn stendur þeim mun verr.

Líklegt er að Skotar fari einnig að blása enn á ný í glæður sjálfstæðiskrafna sinna, þannig að ég held að Bretar þurfi ekki að láta sig dreyma um neina lognmollu.

En en góð orð Carneys vekja vissa bjartsýni um að Bretar búi sig undir útgöngu af auknum krafti, og þar eru seðlabankar eitt af vopnunum sem beita þarf að skynsemi.

P.S Hér er svo tengill á opið bréf frá Jim Ratcliffe til Juncker, sem segir margt af því sem segja þarf, um aukna möguleika Breta utan "Sambandsins".  Þeir felast m.a. í að gera fríverslunarsamninga á eigin spýtur, en einnig að taka til í regluverkinu.

 

 

 


mbl.is Mikil tækifæri fólgin í Brexit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Bretland stefnir ekkert. Það er land og fer ekkert. 

En ESB er hins vegar bara sáttmála-pappírs-bunki, en ekki land, og hann er á leiðinni á ruslahaugana.

Að öðru leyti má segja þetta um stöðu Bretlands:

Nú fer Bretland á fullt með að undirbúa útgöngu úr Evrópusambandinu sem þýðir tolla á til dæmis tíu milljón innflutta þýska bíla á ári. Enginn alþjóðleg fjármálastofnun í Bretlandi með fullu viti vill flytja sig úr fullvalda og öruggasta stjórnarskrárbundna lýðræðislega stjórnarfari veraldar, yfir til sértrúarsafnaðar á borð við Frankfurtborg Þýskalands, eða Parísarbyltingar Frakklands, þar sem enginn er samkeppnishæfur nema í miðbæjum annarrar hvorrar þeirra borga. Áttatíu prósent allra viðskiptadómsmála sem koma fyrir breska dómstóla, innihalda málsaðila á erlendri grund. Í fjörutíu prósentum þeirra eru allir málsaðilar af erlendri grund. Bresk lög eru ómetanleg útflutningsverðmæti.

Viðskipti Bretlands við fyrrum nýlendu þess sem fékk nafnið Bandaríki Norður-Ameríku, hófust árið 1784 með átta böllum af bandarískri baðmull á ári. Fimmtán árum síðar voru þeir orðnir 40 þúsund og árið 1900 voru þeir orðnir sjö milljón stykki á ári. Bretland getur selt ýmislegt bandarískt gott til breska samveldisins, sem Bandaríkin geta ekki. Singapúr, Hong Kong og Tokyo gætu einnig þurft að skerpa á bankalingum sínum þegar City of London Bretlands er komið í gírinn, með alla bresku þjóðina sér að baki, loksins lausa úr viðskiptahlekkjum ESB. Norðvestrið og norðaustur Lundúnir eru klár og að þessu sinni í sameiginlegu átaki með City, um allan heim. Evrópusambandsaðildin reyndist Bretlandi ávallt sem fleygur á milli alls baklands Bretlands og City of London. Hagsmunir Liverpool, Manchester, Aberdeen, Glasgow, Grimsby og Hull annars vegar og hins vegar City of London, fara loksins aftur saman, eins og á tímum heimsveldisins. Og Bretland er enn stærsti erlendi fjárfestir Bandaríkjanna.

Nýtt skattaumhverfi fyrir alþjóðleg fyrirtæki gæti þess vegna verið í smíðum hjá frú May, sem flutt gæti fjöll frá meginlandinu yfir í virkilega alþjóðlegt viðskiptaheimsveldi Bretlands í smíðum, og sem sett verður í gang þegar útgöngunni er lokið. Viðskipta- og fjármálaleg prússnesk diktöt eins og ESB hefur lagt stund á frá því að Þýskaland sameinaðist, getur Evrópusambandið sparað handa sjálfu sér, því það mun þurfa á öllu hinu svarta rúgbrauði Þýskalands að halda á hið sísúrnandi umhverfi þeirra landa sem eftir sitja í sambandinu. Þau munu vita hvert á að leita þegar þau ætla út. Og valkosturinn við aðild að ESB er þar með kominn fyrir Danmörku, þegar að Bretland er komið út, eins og Kristian Thulesen Dahl, formaður danska Þjóðarflokksins sagði á flokksfundi 8. ágúst 2018. Það eina sem við þurfum er valkostur, sagði hann. Þá leggjum við útgöngu til.

Kveðja

Gunnar Rögnvaldsson, 14.2.2019 kl. 14:58

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Gunnar, þakka þér fyrir þetta. Bretland er að sjálfsögðu ekki að fara neitt sem "landmassi", né heldur heimsálfan Evrópa sem það er partur af. Ég er að vísu ekki nógu vel að mér í landrekskenningunni, til að fyllyrða að allt slíkt hafi hætt.

En Hið Sameinaða Konungsdæmi, er svona semi sambandsríki, eða semi "unitary state".  Ríkin hafa enda öll eigið þing, nema England.

En vissulega hefur Bretland stefnu, og hún hefði mátt vera skýrari og samhentari hvað "Brexit" varðar. Og það er einmitt svolítið seint að fara "nú" á fullt að undirbúa útgöngu úr "Sambandinu". En vissulega hafa þeir undirbúið sig, en hann hefði mátt vera markvissari.

Það eru ekki 10 milljón bílar fluttir frá Þýskalandi til Bretlands.  Ætli það liggi ekki nærri 800.000. Nýskráðir bílar í Bretlandi náðu að ég held ekki 2.5 milljónum á síðasta ári.  Þýskaland nær ekki að framleiða 7. milljón ef ég man rétt, en þessar tölur breytast hratt.

Bretar eru sjálfir 4. mesta bílaframleiðsluþjóð Evrópu, ef ég man rétt, á eftir Þýskalandi, Spáni, Frakklandi, með ca.1.8 eða svo milljónir bíla.

En það er rétt að Bretland á gríðarlega möguleika, en það skiptir máli hvernig á verður haldið. May gefur ekki neina gríðarlega ástæðu til bjartsýni, en vonandi tekst vel til.

Það er heldur ekki gefið að Íhaldsflokkurinn vinni næstu kosningar, þó að staða Verkamannaflokksins sé slæm nú.  Síðustu kosningar ættu að vera áminning um slíkt.

En "Global Britain" er gott markmið, en það skiptir máli hvernig framhaldið verður.

Breski seðlabankinn á meiri möguleika á því að standa að baki Bretlandi, en Seðlabanki "Sambandsins" á til að standa að bak aðildarríkjunum.

En það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu.

G. Tómas Gunnarsson, 14.2.2019 kl. 15:50

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já mikið rétt hjá þér Tómas, milljón þýskir bílar á ári til Bretlands. Ekki 10 heldur 1. Innsláttarvilla. Milljón er afar há tala fyrir þýska bílaiðnaðinn, sem framleiðir ekki nema um 20 bíla á hvern starfsmann, á meðan GM er með 44 handan atlantsála.

Já það er þetta með Evrópu eða ekki. Bretum finnst þeir ekki tilheyra Evrópu.

Já þetta nálgast loksins. 

Gunnar Rögnvaldsson, 14.2.2019 kl. 16:15

4 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

Theresa May er líklega ekki neinn stjórnmálaskörungur en þrautseig með afbrigðum og heiðarleg gagnvart verkefninu að koma Bretlandi úr ESB.

Þar þarf hún eins og þú bendir á að kljást við embættismenn óháða kjósendum með öll þessi venjulegu hnífasett lýðræðislega kjörins leiðtoga í bakinu. 

Hefði hún verið skörungur þá gæti hún hafa notað útgöngu án samninga sem hótun gagnvart ESB þar sem skaði þess er sennilega meiri en Bretlands vegna þess að kostirnir virðast litlir hjá ESB en upp vakna ýmis tækifæri hjá Bretum. 

Churchill bjargaði vestrænu lýðræði á ögurstundu en líklega til of mikils mælst að annar slíkur komi fram hjá Bretum nú en já, framhald brexit verður spennandi. 

Hver veit nema frúin krafli sig í gegnum skaflinn!

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 15.2.2019 kl. 00:57

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Bjarni, þakka þér fyrir þetta.  Líklega verður Teresa May seint kölluð stjórnmálaskörungur, en hún er klókur stjórnmálamaður, ég veit ekki hversu heiðarleg, en hvaða stjórnmálamaður er það?

En hún kann "fagið", enda hefði hún aldrei náð að verða leiðtogi Íhaldsflokkins ef sú væri ekki raunin.

En stefna hennar hefur verið óljós og hún hefur ekki náð að byggja brýr innan flokksins og fylkja honum að baki sér.

Margir "Brexit" sinnana hafa enda kosið frekar að segja af sér frekar en að "dansa" eftir tónum hennar og hennar stuðningsmanna.

Því miður hef ég takmarkaða trú á því að hún nái að "krafla sig í gegnum skaflinn" með ásættanlega niðurstöðu.

Sífellt meiri hætta er á algerri upplausn í Breskum stjórnmálum og að hún missi tökin á ferlinu.

En hver niðurstaðan verður? 

Það er engin leið að spá fyrir um það.

Líklega verður þetta báðum aðilum til hneysu, álitshnekkis og efnahagslegs tjóns.  En ég held að Bretar verði fljótari að jafna sig.

G. Tómas Gunnarsson, 15.2.2019 kl. 13:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband