Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Líklega hefur meiri "verðmætum" ekki verið stolið frá nokkrum einstaklingi, en einum af ríkustu mönnum heims

Auðvitað er auði heimsins misskipt, um slíkt verður ekki deilt. En hvort að eitthvað sé verulega rangt við það er önnur saga.

En samanburður Oxfam er ekki nauðsynlega rangur, en vissulega umdeilanlegur.

Það er ekki einu sinn minnst á að PPP jöfnuð.

Ekki heldur að stór hluti auðs "ríku kallanna" er í hlutabréfum fyrirtækja sem þeir eiga.  Sem myndu hugsanlega, jafnvel má segja líklega hríðfalla ef þeir byrjuðu að selja þau í stórum stíl. 

Það er þetta með traustið, og hugsanlega "bólupeninga".

Það er hægt að bera saman marga aðskiljanlega hluti.

Einn af ríkustu einstaklingum heims er t.d. Bill Gates.  Vissulega höfum við öll mismunandi skoðanir á Windows stýrikerfinu, en gerði auðsöfnun hans einhvern fátækari?  Ja, nema auðvitað nema um þá upphæð sem við flest höfum greitt (í hærra verði á tölvunum sem við höfum keypt) fyrir afnot af stýrikerfinu sem fyrirtæki hans, Microsoft hefur þróað.

En skyldi af einhverjum einstaklingi í sögunni, í gegnum það sama fyrirtæki, hafa verið stolið "verðmætum" að hærri upphæð?

Skyldi samtök s.s. Oxfam hafa haft betri áhrif á heiminn, en Microsoft og góðgerðarsamtök Bill Gates og Belindu konu hans? 

Svari hver fyrir sig.

Hvað skyldu laun þeirra starfsmanna Oxfam sem unnu umrædda skýrslu fyrir Oxfam(eða þeirra verktaka sem þau réðu) jafngilda mörgum árslaunum meðal konu í Afríku?

Hvað ætli meðal árslaun starfsfólks Oxfam séu?

Hvað skyldi hátt hlutfall af tekjum Oxfam fara til hjálparstarfs? Hvað er rekstrarkostnaðurinn hár?

Hvað skyldi rekstrarkostnaðurinn jafngilda meðal árslaunum margra kvenna í Afríku?

Þannig má leika sér með meðaltöl um víðan völl, það getur gefið af sér "sláandi fyrirsagnir".

En hver skyldi þróunin vera?

Hvað býr stór hluti jarðarbúa við sára fátækt?  Hvað bjó stór hluti við slíkt hlutskipti fyrir, 20, 30, 40, 50 árum síðan?

Hvað skyldi stór hluti jarðarbúa búa við fullt lýðræði?

Eftir því sem ég sá í nýrri skýrslu var það ca. 5.7%.

Það þýðir ekki að ríflega 94% jarðarbúa búi við einræði.

En það er víða pottur brotinn.

 

 


mbl.is 22 ríkir karlar ríkari en konur Afríku samanlagt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessaður hampurinn

Á meðal betri fjölmiðla á Íslandi er Bændablaðið.  Það er ósjaldan sem ég les skemmtilegar og fróðlegar greinar þar um hin aðskiljanlegustu málefni.  Oft á tíðum ekki nátengdar Íslenskum landbúnaði, jafnvel um plöntur sem lítt eru ræktaðar á Íslandi.

En ég mæli með vefsíðunni þeirra.

En þessi frétt þeirra er í raun stórkostleg.  Ræktun á hampi á Íslandi er að skila góðum árangri, og sú landbúnaðarframleiðsla gæti orðið að að lítilli iðnaðarframleiðslu.

Hugsanlega stórri.

Það er einmitt svona hugsun og framtak sem er þörf fyrir sem víðast á Íslandi, kemur öllum til góða.

En hvað er það sem svo heyrist um að hið opinbera dragi lappirnar og standi í raun í vegi fyrir slíkri framþróun?

Er ekki tími til kominn að tengja með hampinn?

 

 

 

 

 


Kvótinn: Lífsseigasta Íslenska lýðskrumið. Þegar þorpin "fluttust út á sjó".

Kvóti og kvótakerfið hefur líklega verið langlífasta Íslenska deilumálið, alla vegna síðustu áratugi.

Það er í raun ekki að undra, enda er sjávarútvegur á meðal mikilvægustu atvinnugreinum á Íslandi og án efa sú mikilvægasta í sögulegu samhengi.

Ein af þeim "goðsögnum" sem hafa verið áberandi í umræðunni undanfarna áratugi og skjóta um kollinum aftur og aftur, er að kvótakerfið hafi lagt mörg sjávarþorp svo gott sem í eyði.

Líklega er það eitthvert lífseigasta og algengasta lýðskrum í íslenskri pólítík.

Þetta er ekki sagt til þess að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem hafa komið upp í mörgum smærri útgerðarbæjum, en slíkt hefur vissulega orðið raunin.

Þetta er sagt vegna þess að þeir erfiðleikar voru óumflýjanlegir vegna tæknibreytinga.  Það eina sem hefði getað komið í veg fyrir þá væri "óendanlegur fiskur" í sjónum, að öðrum kosti var það aðeins spurningin hvar erfiðleikarnir yrðu.

Þar stóðu flest smærri byggðarlög gjarna verr en þau stærri.

Tækniframfarir og sú staðreynda að ekki var nægur fiskur í sjónum gerði það óhjákvæmilegt að miklar breytingar yrðu að verða hvað varðaði fiskvinnslu á Íslandi.

Ef til vill má segja að ekki sé rétt að segja á Íslandi, því breytingarnar urðu ekki síst út á rúmsjó.

Ef til vill er lykilatriðið í því að skilja hvaða breytingar urðu í Íslenskum sjávarútvegi fólgnar í lokamálsgrein þeirrar fréttar sem þessi frétt er hengd við (fréttin er að verða 3ja ára), en þar segir:

  • „Skipið hef­ur vinnslu­getu á við lítið sjáv­arþorp, en við það starfa ein­ung­is 27 menn, 25 um borð og 2 á skrif­stofu í landi. Skipið er 1.403 brútt­ót­onn, 57,5 metr­ar á lengd og 12 metra breitt. Fisk­ur­inn er full­unn­inn um borð og er af­kasta­geta um 42 tonn af fullunn­um afurðum á sól­ar­hring, en það jafn­gild­ir um 100 tonna afla upp úr sjó. Á venju­leg­um skut­tog­ara af þess­ari stærð eru um 15 menn i áhöfn þannig að aðeins er bætt við 10 mönn­um til að full­vinna veiðina.“

Allt í einu voru 27 einstaklingar ígildi "heils sjávarþorps".  Tíu einstaklingar vinna fiskinn, í stað þess að áður þurfti heilt frystihús.

Framfarir í tækjabúnaði til að vinna fisk gerði það að verkum að frystihúsin sem höfðu verið "hjarta" svo margra sjávarþorpa urðu óþörf.  En þau frystihús sem enn störfuðu juku framleiðslugetu sína svo um munaði.

Líklega ýkti það svo áhrifin að áhrif verkalýðsfélaga voru allt önnur út á sjó en í landi.

Það er auðvelt að reikna út hvort að vænlegra er að fjárfesta í tækjabúnaði sem er í vinnslu 8 til 10 klukkustundir, 5 daga í viku í landi, eða 24 stundir, 7 daga vikunnar út á sjó.

Munurinn á nýtingu tækjanna er yfir 100 klukkustundir á viku eða meira en þreföld.

Það er m.a. munurinn á vinnslu í landi og á frystitogara.

Það er ekki síst fyrir tilstuðlan fyrirtækja, sem Íslendingar eru svo stoltir af, s.s. Marel, Skagans 3X o.s.frv. sem þessi þróun varð.

Vildu Íslendingar vera án þeirra?

Það eru svo framfarir í kæli- og flutningatækni sem hafa valdið því pendúllinn hefur sveiflast aftur til landvinnslu, með aukinni vinnslu alla leið í neytendapakkningar.

En það hefði ekkert nema "óendanlegur fiskur" komið í veg fyrir samþjöppun í útgerð á Íslandi.  Hugsanlega hefði "dauðastríð" einstakra útgerða orðið lengra og líklega sársaukafyllra ef kvótakerfisins hefði ekki notið við.

En það má ætla að ástand fiskistofna væri sömuleiðis mun verra.

En framsalinu var einmitt ætlað að stuðla að samþjöppun, sömuleiðis Úreldingarsjóði á meðan hans naut við.

Það var einfaldlega ekki til nægur fiskur fyrir alla útgerðarbæi á Íslandi. Svo er ekki enn og ólíklegt að verði nokkurn tíma.

En auðvitað er þarft að ræða sjávarútveg á Íslandi og hvað megi betur fara.

Hvað er rétta hámarkið í hvað varðar kvótahlutdeild? Á að bjóða upp aflaheimildir?  Ef svo, til hvað margra ára í senn? Á þá fyrst og fremst að selja hæstbjóðanda, eða eiga önnur lögmál að gilda?

Eiga "byggðasjónarmið" að vega þyngra en arðsemissjónarmið?

Ætti að vera skylda að hluti hverrar löndunar fari á markað, eða ætti allur afli að gera það?

Eða er núverandi fyrirkomulag býsna gott?

Það er full ástæða til að ræða fyrirkomulag fiskveiða í Íslensku lögsögunni, en látum ekki glepjast af "fortíðarþrunginni lýðskrums rómantík" um að hægt sé að hverfa aftur - til fortíðar.


Kostar Netflix Eurovision á Íslandi?

Ef marka má fréttir sem ég hef séð frá Íslandi, mun Netflix kosta útsendingu Eurovision á Íslandi í vor.

Flest sem ég hef heyrt sagt um málið er neikvætt í garð RUV og þessarar kostunar.  Talað er um að þetta sýni slæmt siðferði RUV, það sé óviðeigandi að Netflix kosti slíka útsedingu.

Netflix sé ógn við Íslenska fjölmiðla og menningu og því eigi RUV ekki að vera í samstarfi við slíkan aðila.

Síðan er því gjarna bætt við að Netflix greiði enga skatta á Íslandi og sé á meðal þess sem gerir Íslenskum fjölmiðlum erfitt fyrir.

Ég get vel skilið að þetta samstarf veki athygli, en ég sé ekki raunverulegar ástæður til þess að amast við því.

Það væri fyrst orðið umdeilanlegt ef RUV væri ætlað að hafna þeim sem vilja auglýsa hjá stofnuninni eða kosta dagskrárliði, eftir einhverji siðferðismati um starfsemina.

Öll fyrirtæki ættu að hafa jafnan aðgang að auglýsingum og þess háttar, svo lengi sem löglegt er að auglýsa viðkomandi vöru.

Annað gengur hreinlega ekki upp að mínu mati.

Það má hins vegar rökræða lengi um hvort að auglýsingar og kostanir eigi að vera á RUV, hvort að skylduáskrift sé rétt, hvaða markmið séu með rekstri RUV og hvort að það eigi að setja rekstri þess einhverjar skorður.

En að RUV fari að flokka auglýsendur/kostunaraðila í æskilega og óæskilega er alger fjarstæða að mínu mati.

P.S. Viðbætt hér 18. janúar.  Mér barst tölvupóstur með þeim upplýsingum að Netflix borgi að sjálfsögðu virðisaukaskatt af áskriftum á Íslandi.  Fannst rétt að það komi fram.

 

 

 


Hver er skandallinn?

Persónulega finnst mér þetta dæmi um hvernig reynt er að koma höggi á einstaklinga, frambjóðendur og fyrirtæki, án verulegrar ástæðu.

Er ámælisvert að skaffa föngum atvinnu?

Borgaði framboð Bloomberg óeðlilega lágt verð fyrir þjónustu fanganna?  Nei.

Það má vissulega deila um hvort óeðlilegt sé að fangarnir beri svo lítið úr býtum, en þar er ekki við framboðið að sakast, heldur hvernig reglurnar eru um vinnu fanga og laun þeirra.

Það er sjálfsagt að berjast fyrir breytingu á þeim reglum.

En það er gott fyrir fanga að fá vinnu, og æskilegt að hún sé að einso lík vinnu utan múranna og kostur er.

Skyldi fjölmiðilinn sem "svipti hulunni" af þessu vera stoltur af því að fangarnir hafa ekki lengur þessa vinnu?

Hver er skandallinn?

 

 


mbl.is Fangar hringdu fyrir Michael Bloomberg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óæskilegir erindrekar?

Mér þykir býsna merkilegt að lesa þessa frétt, ekki síst ef hún er sett í samhengi við fréttir af hótunum Kínverskra erindreka gagnvart Færeyingum, áhyggjum Ástrala, og sívaxandi áhyggjur margra vestrænna þjóða varðandi uppsetningu nýrrar kynslóðar fjarskiptakerfa.

Tækniþjófnaður Kínverskra starfsmanna sem hafa verið gripnir glóðvolgir er svo annar handleggur, en ekki ótengdur.

Það er ekki hægt annað en að velta því fyrir sér á hvaða vegferð Kínversk yfirvöld eru (því ólíklegt er að frumkvæðið sé sendiherrana).

Hótanir, njósnir og hugverkaþjófnaður er ekki líkleg blanda til vinsælda og þess má sjá merki í nýlegri skoðanakönnun sem var gerð í Kanada.  Þar eru um 70% andsnúinn því að Huawei verði leyft að taka þátt í uppbyggingu fjarskiptakerfa, sama prósenta er þeirrar skoðunar að mannréttindi eigi að vega meira en viðskiptahagsmunir í samskiptum við Kína. 

90% er svo þeirra skoðunar að ekki sé hægt að treysta Kína sem réttarríki og hvað varðar mannréttindi.

Það er ef til vill ekki síst vegna þeirra tveggja Kanadísku ríkisborgara sem voru handteknir, sakaðir um njósnir og stuld á ríkisleyndarmálum,  skömmu eftir að Meng Wanzhou, var handtekin í Kanada.  Þær gerast ekki öllu skringilegri tilviljanirnar.

En flest vestræn ríki hafa á undanförnum árum verið afar varkár í samskiptum sínum við Kína, á tíðum skammarlega varkár.


mbl.is Vilja vísa sendiherra Kína úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterkt umboð fyrir Breska Íhaldsflokkinn

Á komandi dögum og vikum eigum við eftir að sjá alls kyns skýringar og vangaveltur um Bresku þingkosningarnar.

Úrslitin eru bæði mögnuð og margslungin.

Upplausnin sem hefur ríkt í Breska þinginu ætti að vera að baki, en á sama tíma mun ákall um sjálfstætt Skotland verða hávært og krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu þar að lútandi. Staða Skoska þjóðarflokksins enda sterk, þó að nokkuð vanti upp á sama styrk og 2015.

En Íhaldsflokkurinn hefur gríðarlega sterkt umboð frá kjósendum og ljóst er að þeim var best treyst til að koma á ró og festu í Breskum stjórnmálum, en þar hefur verulega vantað upp á undanfarna mánuði, svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Ég hugsa að sterkri stöðu Íhaldsflokksins sé fagnað víðast um lönd, jafnvel innan "Sambandsins".  Líklega hafa einhverjir innan "Sambandsins" gælt við þann draum að niðurstaða kosninganna yrði á þann veg að hætt yrði við "Brexit", en ég hygg að flestir geri sér grein fyrir því að mestu skiptir að traust og starfhæf ríkisstjórn sé í Bretlandi, þannig að reikna megi með því að hún komi málum (og samningum) í gegnum þingið.

En Johnson og Íhaldsflokkurinn stendur sterkt á miðjunni og hægri vængnum, en Verkamannaflokkurinn, með sitt sósíalíska/marxíska yfirbragð, hefur likt og svo margir sambærilegir Evrópskir flokkar, misst tengingu við þá kjósendur sem þeir telja sig starfa fyrir, verkafólk.

Corbyn sem margir töldu þegar hann komst til valda í Verkamannaflokknum, tákn um "nýja framsókn sósíalismans", fær frekar háðulega útreið.

Svipaða sögu má segja af Jo Swinson, leiðtoga Frjálslyndra demókrata, sem margir sáu framtíðarleiðtoga í, ja, bara fyrir fáum vikum.  All nokkrir þingmenn bæði frá Verkamamanna- og Íhaldsflokknum gengu til liðs við flokkin sem samsamaði "Sambandinu" og var í fylkingarbrjósti þeirra sem vildu draga úrsögnina til baka.

Eftir stendur Boris Johnson sem ótvíræður sigurvegari.

En hans bíður erfitt hlutverk, því væntingarnar eru miklar.

En hingað til hefur hann staðið sig vel og spilað vel úr erfiðri stöðu.  Nú hefur hagur hans vænkast og verður fróðleglegt að fylgjast með framhaldinu.

P.S. Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun sem ég bloggaði um þegar Johnson var kjörinn leitogi, að það hefði átt að gerast fyrir ríflega 3. árum.


mbl.is Þakkar stuðningsmönnum Verkamannaflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þróunarlönd" með geimferðaáætlanir

Þó að ég sé ekki mikill aðdáandi DJ Trumps, hefur hann oft máls á málum sem eru allrar athygli virði.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að honum gengi betur að afla þeim fylgis ef framganga hans væri með öðrum hætti, en það er önnur og lengri saga.

En hér vekur hann athygli á máli sem er vert að gefa gaum.  Hví er Alþjóðabankinn að lána Kína peninga?

Er Kína í hópi fátækari ríkja heims?

Er ekki Kína orðið umfangsmikið í "stuðningi" og lánastarfsemi við fátækari lönd heims? Væri ekki æskilegra að Alþjóðabankinn lánaði þeim "beint" frekar en í "gegnum" Kína?

Er ekki Kína t.d. með sína eigin geimferðaáætlun?

Víðast um lönd hefur það tíðkast um all nokkra hríð að "tipla á tánum" í kringum Kína vegna viðskiptahagsmuna.  Það er tímabært að slíku linni.

Kína vill að litið sé á sig sem jafningja, það er tímabært að það sé gert.

Sé litið til þjóðartekna á einstakling, sjá hér og hér, og svo annarra þátta svo sem þeirra eigin "þróunaraðstoðar";  verður ekki séð að Kína sé í þörf fyrir "alþjóðlega aðstoð".

P.S. Angi af sama meiði er að Alþjóða póststofnunin skilgreini Kína sem "þróunarland" og aðrir póstnotendur og/eða skattgreiðendur séu látnir niðurgreiða póstkostnað Kínverskra fyrirtækja.

 

 

 

 


mbl.is Vill að Alþjóðabankinn hætti lánveitingum til Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velþekkt og í notkun víða um lönd í mörg ár.

Það að setja "mjólkurtank" í verslanir og fólk fylli á ferska mjólk er velþekkt og hefur verið í notkun í árafjöld víða um lönd.

Þetta er handhægt og án efa umhverfisvænt, svo framarlega sem fólk setji ekki fyrir sig glerþvott og burð.

Ég hef reyndar líka séð þetta útfært með plastflöskum sem voru í standi við hliðana og voru fylltar. Það er í sjálfu sér ekki umhverfisvænt, en gefur eigi að síður ferska og góða mjólk.

Stærsta spurningin er líklega hvað heilbrigðiseftirlit og reglugerðir segja um glerþvott án "vottunar og staðla".

Stenst slíkt reglugerðir um mjólkursölu og "sterílíseringu"?

Það má eins og flest annað finna upplýsingar um slíkar "beljur" á internetinu t.d. r, hér, og hér.

Í Eistlandi, þar sem ég kynntist þessari tækni fyrst, var hún þó ekki lengi í boði, enda ekki í boði "venjuleg" mjólk heldur "lífræn" og ófitusprengd, all nokkur dýrari en sú "venjulega" og flestir heldu sig við ódýrari kostinn.  En hún var góð. Þar var reyndar ekki sjálfsali, heldur prentaði "beljan" út strikamerki, og síðan var greitt við kassa.

 

Hér að neðan má svo sjá stutt myndband tengt efninu.

 

 

 

 

 


mbl.is Beljur í búð sigurvegari Plastaþons
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf Ísland á neikvæðum vöxtum og endalausri peningaprentun að halda?

Það segir ef til vill sína sögu að það þarf að leita á náðir sérhæfðs fjölmiðils eins og Viðskiptablaðsins til þess að finna frétt um að Seðlabanki Eurosvæðisins hafi ákveðið að hefja á ný risavaxin kaup á skuldabréfum jafnhliða því að ýta stýrivöxtum á svæðinu en frekar niður á neikvæðu hliðina.

Slík eru efnahagsvandræðin á Eurosvæðinu, stöðnunin.

En "hefðbundnir" fjölmiðlar telja það ekki til tíðinda, alla vegna ekki sem eigi erindi til almennings.

En það væri ef til vill ekki síst ástæða fyrir fjölmiðla að velta því upp og athuga hvort að neikvæðir vextir og mikil peningaprentun sé það sem Íslenskt efnahagslíf þarf á að halda.

Það mætti spyrja stjórnmálamenn, hagfræðinga, Seðlabankamenn, álitsgjafa o.s.frv.

Ekki síst væri þörf á að spyrja þá stjórnmálamenn sem telja að "Sambandsaðild" og upptaka euros sé það sem helst vanti í Íslenskt efnahagslíf.

En væri euroið lögeyrir Íslendinga, þá væri einmitt á landinu neikvæðir stýrivextir og hefðu verið undanfarin ár, sem og gríðarleg peningaprentun (með stuttu hléi).

Sjálfsagt eru til þeir stjórnmálamenn sem telja það góða stöðu, en það verður að vona að þeir komist ekki til valda.

Og það er vert að hafa í huga að það er hægt að tapa á skuldabréfum, rétt eins og öðrum fjárfestingum og að þeir sem keyptu skuldabréf WOW eru langt í frá þeir einu sem hafa lent í slíku.

Á meðal þjáningabræðra þeirra er einmitt Seðlabanki Eurosvæðisins.  Mörgum lýst sömuleiðis illa á sívaxandi hlut hans í skuldum ríkja (euro)svæðisins.

En undanfarin ár hefur vaxandi áhætta hvað varðar opinber skuldabréf flust frá einkaaðilium til seðlabankanna á Eurosvæðinu.

Það kemur í sjálfu sér ekkert á óvart að Íslenskir seðlabankamenn segi að umheimurinn sé ekki í lagi.

En við verðum að vona að Ísland verði það áfram og eurostjórnamálamennirnir komist ekki til valda.


mbl.is „Við erum í lagi en heimurinn ekki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband