Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
8.2.2020 | 20:59
En það er svo frábært að búa á Spáni, er það ekki?
Það hefur verið allt að því "kómískt" að fylgjast með umræðunni á Ísland nú um all nokkra hríð, þar sem borið hefur verið saman að lifa á Spáni og Íslandi.
Ef hægt er að sameina þetta tvennt, hafa tekjur frá Ísland og lifa á Spáni þá lítur þetta allt ljómandi vel út.
Það kanna þó að vera að það sé ekki svo frá sjónarhóli margra Spánverja, sem þurfa að reiða sig á Spænskar tekjur eða búa jafnvel við atvinnuleysi.
En það er svo margt sem þarf að bera saman, ekki bara verð á bjór, rauðvíni og kjúkling.
Það er ekki tilviljun að þær þjóðir þar sem alla jafna ríkir hvað mest velmegun og velferð, eru þær þjóðir sem er hvað dýrast að lifa.
En það er ýmis réttindi, og kostnaður sem fylgir þeim sem er vert að hafa í huga þegar "lífið" er borið saman í mismunandi löndum.
Mér skilst t.d. að konur eigi rétt á 16. vikna fæðingarorlofi á Spáni, feðraorlof var lengt á nýliðnu ári úr 5. í 8 vikur. Að vísu á fullum launum, en líklega þætti það stutt á Íslandi nú orðið. Í fjölburafæðingum lengist orlof konunnar um 2. vikur fyrir hvert barn umfram 1.
En dagvist er bæði einka og ríkisrekin á Spáni. Eitthvað er misjafnt hvað gjaldið er og sums staðar er það tekjutengt. Þannig getur það verið frá 50 euroum til u.þ.b. 500 til 600 euro.
En það sem er ef til vill eftirtektarverðast fyrir Íslendinga er hlutfall barna/starfsfólks. Undir 3ja ára aldri má hlutfallið vera 8/1, en á frá 3ja til 6 getur hlutfallið verið 20/1. Meðaltalið er víst talið um 13/1, en það er líka OECD meðaltalið. En leikskólar geta svo verið opnir til 9. á kvöldin.
Hvað ætli Efling og Dagur B. segðu við slíku?
Meðallaun á Spáni (2018) eru 2330 euro (eða 311,540 ISK) en lágmarkslaun eru u.þ.b. 900 (2019) euro (124,200 ISK), eða 30 euro (4.140 ISK) til að lifa á hvern dag.
Lágmarks ellilífeyrir er eftir því sem ég kemst næst 600 euro, en meðal ellilífeyrir ca. 906 euro.
En það er margt gott á Spáni, húsnæðisverð og leiga er mun lægra en á Íslandi (og víða annars staðar), sérstaklega ef eingöngu er leigt yfir vetrarmánuðina (það gildir um vinsæla strandbæi, þar sem oft er hægt að leigja út á mjög háu verði júní til águst, ágúst gjarna lang dýrastur).
Hér hefur verið tæpt á örfáum atriðum, heildarkostnaður við að "lifa" er samansettur úr fjölda hluta til viðbótar, mismunandi eftir einstaklingum.
En að er áríðandi að þegar verið er að bera saman kostnað á milli landa, að reyna að líta á heildarmyndina, eða alla vegna eins stóran hluta af henni og mögulegt er.
Sláandi ójöfnuður á Spáni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 9.2.2020 kl. 00:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.2.2020 | 21:04
Verð á kvóta er aðeins einn hluti af kostnaði við útgerð. Skýrsla þyrfti að vera um allan kostnað.
Að bera saman verð á fiskveiðikvótum á milli landa segir frá einum afmörkuðum þætti kostnaðar við útgerð.
Það þarf að vita alla þætti til að hægt sé að gera vitiborinn samanburð.
Útgerð getur t.d. hæglega ákveðið að kaupa kvóta hærra verði, ef annar kostnaður, t.d. laun, skattar á hagnað, hafnargjöld o.s.frv. er lægra.
Þá er hægt að kaupa kvótann dýrara verði en samt skila hagnaði.
Þannig má t.d. ímynda sér að erlent fiskveiðifyrirtæki hefði efni á því að greiða hærri veiðigjöld til Íslenska ríkisins, en innlend fyrirtæki gera.
Það er að segja ef það væri gert út frá ríki þar sem t.d. laun sjómanna væru lægri, tekjuskattar fyrirtækja væri lægri o.s.frv.
Ef svo fyrirtækið nyti umtalsverðra ríkisstyrkja, eins og sjávarútvegur gerir víða um lönd, gæti ef til vill borgað enn hærra kvótaverð en samt komið út í hagnaði.
En það þarf ekki að reikna lengi til þess að sjá að það kæmi ekki betur út fyrir Íslendinga í heild.
Þess vegna er það markleysa að bera saman kvótaverð eitt og sér.
En vissulega gæti verið fróðlegt að sjá samanburð á sjávarútvegi á Íslandi í mismunandi löndum, ekki bara Namibíu.
Hvernig er skattgreiðslum háttað, hverjar eru tekjur sjómanna, eru reksturinn styrktur af hinum opinbera, o.s.frv.
Svo má aftur velta fyrir sér hvort að ekki eigi að vera einhver takmörk fyrir því að þingmenn geti "pantað" þetta og hitt á kostnað Alþingis.
Er ekki alltaf verið að auka það fé sem flokkarnir fá til þess að nota í "sérfræðiaðstoð" og aðstoðarmenn.
Er það ekki m.a. ætlað til upplýsingaöflunar?
Einhverskonar pólitískur loddaraskapur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2020 | 16:07
Er Kafka bara við höfnina eða er hann um allt land?
Grein sem birtist á vef Vísis og ber titilinn "Kafka við Sæbrautina - eða endurminning um Hörpu", hefur vakið mikla athygli.
Í greininni rekur fyrrverandi forstjóri Hörpu (þó að hann titli sig reyndar sem húsvörð í greininni), raunir sínar og lýsir baráttu við kerfið, eða eigendur hússins, Reykjavíkurborg og ríkið.
"Rangt staðsett" skilti kemur all nokkuð við sögu og svo ákvarðanir varðandi fasteignagjöld.
Lýsingarnar á baráttunni við "Kerfið" (með stórum staf) eru oft á tíðum grátbroslegar.
Ég skora á alla að lesa greinina.
En heldur einhver að Harpa sé eina fyrirtækið sem hafi svipaða sögu að segja?
Að ekkert annað fyrirtæki hafi "gengið frá Pontíusi til Pílatusar" og "lent í" kerfinu.
Að af engu öðru húsnæði þurfi greiði gríðarlega há fasteignagjöld?
Var ekki einmitt í fréttunum fyrir fáum dögum að helmingur leigutekna af húsnæðinu þar sem Bíó Paradís er til húsa fari í að greiða fasteignaskatt til Reykjavíkurborgar?
Fasteignaskattar fara ekki eftir tekjum, heldur fasteignamati.
Er ekki Harpa á einhverri dýrustu lóð sem hægt er að finna á Íslandi? Er ekki Harpa eitt dýrasta (ef ekki dýrasta) hús (á fermetra) sem hefur verið byggt á Íslandi?
Er þá ekki eðlilegt að fasteignaskattarnir séu gríðarlega háir?
Á ríkisfyrirtæki að fá einhvern afslátt af því að tekjurnar af starfseminni eru ekki í takt við verðmæti fasteignarinnar?
Myndi eitthvert einkafyrirtæki fá það?
P.S. Svo má auðvitað með hliðsjón af þessu velta fyrir sér hvers vegna ríkisfyrirtæki eins og Landsbankinn vill endilega byggja risahús þarna við hliðina.
Viðskipti og fjármál | Breytt 5.2.2020 kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.2.2020 | 13:41
Frábært skref hjá Póstinum, auðvitað á raunkostnaður að gilda.
Það má alveg hafa samúð með héraðsfréttablöðum og erfiðum rekstri þeirra. En ég er hjartanlega sammála þessu skrefi Íslandspóst.
Það getur ekki átt að vera hlutverk ríkisfyrirtækja eða hlutafélaga í opinberri eigu að styðja við þennan eða hinn reksturinn með því að láta hann greiða minna fyrir þjónustu en efni standa til.
Ef það er gert hlýtur það að bitna á öðrum notendum þjónustunar, sem þurfa þá að niðurgreiða þá þjónustu með hærri gjöldum. Í þessu tilfelli póstsendingar héraðsfréttablaða.
Ef hið opinbera vill styrkja útgáfu héraðsblaðanna, fer best á að það sé gert með beinum styrkjum, þannig að það sé gegnsætt og uppi á borðum
Ekki í gegnum annan rekstur.
Áfram Pósturinn.
P.S. Heyrði einhversstaðar á "skotspónunum" að réttast væri að gera nýjan forstjóra Póstsins að "farandforstjóra" sem færi og tæki til hjá ríkisfyrirtækjum.
Ég hef heyrt verri hugmynd.
Eini kostur Póstsins að hækka verðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.2.2020 | 11:57
"Ræða" kvöldsins á Bafta verðlaununum
Aldrei nenni ég að horfa á verðlaunahátíðir eða annað því um líkt. Það kveikir einfaldlega ekki áhugann. En ég hef alltaf gaman af því að sjá skemmtileg brot frá slíkum atburðum, hér er frábær ræða frá Rebel Wilson á Bafta hátíðinni.
Hildur vann BAFTA-verðlaunin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.2.2020 | 01:09
Það breyttist margt í gær
Það má sjá víða að "Sambandssinnar" reyna að gera eins lítið úr þeim breytingum sem urðu í gær og þeir telja sig komast upp með.
Það er vissulega rétt að stóru breytingarnar verða að 11. mánuðum liðnum, um áramót.
Það verður t.d. þá sem tekjur "Sambandsins" munu dragast saman um u.þ.b. 12%, nema að aðrar þjóðir taki upp "slakann". En visslega kemur sparnaður fram hvað varðar framlög til Bretlands. En Bretland hefur verið næst stærsti nettó borgandi til "Sambandsins" á eftir Þýskalandi.
En það þýðir ekki að stórar breytingar hafi orðið í gær.
Eins og Eiríkur réttilega segir, þá gekk Bretland úr Evrópusambandinu í gær, fyrsta ríki (sumir vilja blanda Grænlandi í þá umræðu) til að gera slíkt. Það eitt er risa atburður.
Þar með eru aðildarríki "Sambandsins" 27, en ekki 28.
Þar með fækkaði íbúum "Sambandsins" um u.þ.b. 66.5 milljónir einstaklinga. Eftir því sem ég kemst næst er hægt að segja að það sé fækkun um 13% eða svo.
"Þjóðarframleiðsla" "Sambandsins", (hér er miðað við árið 2018) dróst saman um 15% og hlutfall "Sambandsins" af efnahag heimsins sökk all nokkuð niður á við.
En venjulegir íbúar, hvort sem er Bretlands eða "Sambandsins" munu ekki finna fyrir breytingum, fyrr en um næstu áramót.
En eitt það mikilvægasta sem breytist er að Bretland getur nú gert viðskiptasamninga við hvaða ríki sem er, líklegt er að einhverjar þreifingar hafi átt sér stað nú þegar, en nú geta slíkar samningaviðræður farið í formlegt ferli.
Það er erfitt að spá um hvernig slíkar viðræður munu ganga en fríverslunarsamningur á milli Bandaríkjanna og Ástralíu, var undirritaður eftir u.þ.b. 10 eða 11 mánaða viðræður.
Ég yrði því ekkert hissa ef Bretland næði samningum við önnur ríki á undan "Sambandinu".
Það er reyndar eins líklegt og ekki að Bretland gangi úr "Sambandinu" án samnings.
En það breytist líka eitt og annað hjá "Sambandinu". Valdahlutföll á Evrópusambandsþinginu breytast. Eftir því sem ég kemst næst verður það EPP mest í hag og þingið talið mjakast heldur til hægri.
Líklegt er að valdajafnvægið breytist, og sígi heldur í "suður" þó að Þýskaland og Frakkland muni eftir sem áður ráða svo gott því sem þau vilja ráða. En það á vissulega eftir að koma í ljós hvernig úr stöðunni spilast og ríki s.s. Pólland munu reyna að mjaka sér í tómarúmið sem Bretland skilur eftir sig. En því vantar nokkuð upp á efnahagslega vikt enn sem komið er.
Hvað varðar hvort að Bretland eigi eftir að sækja um inngöngu í "Sambandið" aftur, yrði ég ekki hissa þó að einhver tali um það fljótlega, ef ekki nú þegar.
En ég held að breskir kjósendur hafi almennt engan áhuga á því að taka þá umræðu upp nú.
Ég er heldur ekki viss um að "Sambandið" hafi mikinn áhuga á því að fara í aðlögunarviðræður við Bretland eftir fá ár.
Ég held því að á næstu mánuðum muni koma í ljós að það var sitt hvað sem breyttist í gær, en það er rétt að stóru breytingarnar verða að 11. mánuðum liðnum - líklega.
Barátta fyrir inngöngu í ESB mun hefjast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.1.2020 | 01:29
Að drífa í hlutunum - Hafa líkurnar á því að Bretland yfirgefi "Sambandið" án samnings hafa minnkað?
Það hafa ýmsir viðrað þá skoðun að það sé ekki klókt af Boris Johnson og ríkisstjórn hans að binda það að aðeins verði gefnir 11. mánuðir til þess að ljúka samningi á milli Bretlands og "Sambandsins" eftir að Breland gengur úr "Sambandinu" þann 31. janúar næstkomandi.
En ég er þeirrar skoðunar að það sé afar klókt af honum.
Hann sendir einföld en skýr skilaboð til "Sambandsins": Við spilum ekki eftir ykkar reglum og taktík lengur.
Annað hvort einhenda menn sér í verkið eða Bretland gengur út án samnings.
Bretland ætlar ekki að taka við löggjöf frá öðrum ríkjum. Ekki láta dómstól annarra ríkja vera "efsta lagavald", og ekki fara eftir duttlungum "Sambandsins" við samningaborðið.
"Sambandið" og Breskir "aðstoðarmenn" þess hafa haldið Breskum stjórnmálum í gíslingu um all nokkra hríð.
Boris segir ekki lengur. Breskir kjósendur hjuggu á hnútinn og nú er samhent þing og rikisstjórn við völd í London.
Bretland vill út, og fer út, með eða án samnings.
Ég fagna þessari afstöðu Bretlands. Það verður án efa erfitt að skilja við "Sambandið" og ýmis vandamál eiga eftir að koma fram, og það verður ekki gert lítið úr þeim. En til lengri tíma opnar þetta möguleika sem verða til hagsbóta fyrir Breta.
En það er ekki sopið kálið, eins og stundum er sagt. Ég held hins vegar að með Boris Johnson og nýtt þing hafi Bretar hitt á nokkuð rétta blöndu.
Það er áríðandi að við stjórnvölinn séu einstaklingar sem hafi trú á Bretlandi og getu þess til að standa utan "Sambandsins".
Það vantaði þangað til Boris kom til sögunnar.
En það þarf að vinna rösklega og ljúka málinu.
Þæfingurinn og "málþófið" undanfarin ár hefur nú þegar kostað Bresku þjóðina risavaxnar fjárhæðir, því hvort sem að menn eru með eða móti Brexit, sorglegt að þurfa að segja að það hafi verið vísvitandi. Flestum sé ljóst að óvissan og þæfingurinn er það versta.
Það þarf niðurstöðu.
En það verður fróðlegt að sjá hvernig spilast úr stöðunni, hve fljótt fyrstu fríverslunarsamningarnir koma og hvernig viðræðurnar við "Sambandið" munu ganga.
En það er rétt hjá Boris að fullveldið er auðlind, en rétt eins og aðrar auðlindir þarf að halda á notkunni af skynsemi. Það kemur í ljós á næstu árum hvernig Bretum gengur.
En það er líka vert að hugsa um hvernig samningsaðilar eru að taka sér stöðu. Er rökrétt að fisveiðiréttur sé upp á borðum í viðskiptasamningum? Myndi Íslendingum einhverntíma hugnast að skipta á fiskveiðiréttindum og betri viðskiptakjörum?
Er rökrétt að samstarf í öryggismálum tengt viðskiptasamningum? Er rökrétt að ríki taki upp mikið af löggjöf frá öðru ríki til að fá betri viðskiptakjör?
Myndu Íslendingar geta hugsað sér í framtíðinni að taka við einhverri framtíðarlöggjöf frá Bandaríkjunum, í staðinn fyrir betri viðskiptakjör? (Ekki mín tillaga :-)
Með útgöngu Breta úr "Sambandinu" hefst að ýmsu leyti nýr kafli, með tækifærum og hættum, það er mikilvægt að halda vel á spöðunum - fyrir alla aðila.
Dagurinn í dag er tímamótadagur í mörgum skilningi.
P.S. Ég sá að RUV hafði fjallað um Brexit í Kastljósinu, svo að ég ákvað að horfa á það. RUV hefur líklega ekki símanúmer hjá neinum sem lítur jákvætt á útgöngu Breta, enda var talað við Baldur Þórhallsson og Gylfa "Kúbu norðursins" Magnússon.
Hallinn í fjölmiðlum fellst oftar en ekki hvernig er staðið að vali á viðmælendum.
Fullveldið mikilvægara en tollalaus viðskipti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 01:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.1.2020 | 18:24
Skattheimta Reykjavíkurborgar hlýtur að verða til hækkunar á leiguverði
Nú má sjá í fréttum að rekstur Bíó Paradísar sé í hætttu, vegna yfirvofandi mikillar hækkunar á leigu húsnæðis þess.
Það er reyndar eitthvað á reiki hvað hækkunin eigi að vera mikil, í viðhengdri frétt er talað um ríflega tvöfuldun. Annars staðar hefur verið talað um þreföldun, ég ætla ekki að dæma um hvort sé rétt.
Ég hef séð talað um þessa hækkun með hálfgerðri "hundablístrutaktík", talað eins og "ljótir kapítalistar" séu að drepa mikilvæga menningarstarfsemi o.s.frv.
Ég ætla ekki að dæma neitt um mikilvægi starfseminnar, hef aldrei komið í Bíó Paradís en hef heyrt vel af henni látið. Góð kvikmyndahús eru að mínu viti gulls ígildi.
En í síðastu færslu talað ég um fasteignaskatta og þar kom fram að fasteignaskattar hafi hækkað um u.þ.b. 50% að raunvirði síðan 2015.
Það er auðvitað að meðaltali, og ég get ekki ímyndað mér að hækkunin á Hverfisgötu sé undir meðaltali, frekar líklegt að hún sé vel yfir meðaltali.
Að sjálfsögu hlýtur slíkt að koma fram í hækkun leiguverðs. Hvernig í ósköpum væri hægt að komast hjá því?
Eins og kemur svo fram í fréttinni, er núverandi leiguverð rétt um 40% af meðal leiguverði í Reykjavík.
Fasteignaskattar taka ekkert tillit til þess.
Þess vegna hljóta hækkandi fasteignaskattar að leiða til hækkandi leiguverðs. Ekki bara í Bíó Paradís, heldur svo gott sem alls staðar.
P.S. Bæti hér við. Það kemur fram í frétt hjá RUV að fasteignagjöld hafi hækkað um 80% síðan núverandi eigendur keyptu fasteignina. En það kemur þó ekki fram hvaða ár það var.
En það munar líklega um minna.
Lögðu fram hugmynd um tvöföldun leiguverðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.1.2020 | 22:09
En hver er raunkostnaðurinn? Hvað er til ráða?
Taflan sem fylgir þessari frétt er um margt fróðleg. Hún sýnir í raun mun frekar en mismunandi hækkanir sveitarfélaga á leikskólagjöldum, gríðarlegan mun á því hvað mismundandi sveitarfélög rukka fyrir þá þjónustu.
Í stað þess að velta því hvort þetta eða hitt sveitarfélagið hafi hækkað gjald fyrir 8 tíma leikskóla, ættu fjölmiðlar að velta því fyrir sér hvers vegna það munar u.þ.b. 50% á því sem það kostar foreldra að kaupa þá þjónustu.
Ekki síður væri fróðlegt ef fjölmiðlar græfust fyrir um hver væri raunkostnaður sveitarfélaga við að veita þjónustuna?
Það liggur í hlutarins eðli að stærri sveitarfélög ættu að geta rekið slíka þjónustu með hagkvæmari hætti, og hafa jafnfram fleiri útsvarsgreiðendur til að jafna byrðina af henni.
En mér er sagt að kostnaðurinn við að hafa eitt barn á leikskóla sé að meðaltali u.þ.b. 300.000 krónur á mánuði.
Ef það er rétt eru foreldrar í Reykjavík t.d. að greiða rétt ríflega 8.5% af raunkostnaði. Enn minna ef tekið er mið af systkinaafslætti o.s.frv.
Ef 300.000 er rétt upphæð, eru foreldrar hvergi að greiða meira en u.þ.b. 13% af verðmæti þjónustunnar.
Á sama tíma eru mikil vandræði víða um land með að veita þjónustuna án vandræða, tímabundinna lokanna og mikil starfsmannavandræði.
Er ekki augljóst að þjónustan er of lágt verðlögð?
Það er engin ástæða til að hrósa þeim sem eru ódýrir en geta ekki veitt þjónustuna vandræðalaust.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að veruleg hækkun kemur sé illa fyrir þá sem hafa minna á milli handanna, en er ekki betra að þeim verði liðsinnt með öðrum hætti en að hafa þjónustuna svo ódýra, án tillits til efnahags?
Mikið væri fróðlegt ef gerð vær góð úttekt á því hvernig kostnaðurinn er og hvað stór hluti af tekjum mismunandi sveitarfélega fer í að niðurgreiða þessa þjónustu.
Ef leikskóli fyrir hvert barn er niðurgreitt fyrir u.þ.b. 3.000.000,00 á ári (miðað við 11. mánaða dagvist) er ljóst að upphæðirnar eru háar.
Ef til vill þarf að hugsa hvernig kerfið verður best byggt upp og hvernig Íslendingar vilja hafa slíkt kerfi.
Hvernig er samspil leikskóla og "dagmæðrakerfisins"? Er hægt að byggja þjónustuna upp með öðrum hætti?
Það vakna ótal spurningar, en líklega færri svör.
En eigi að síður hlýtur þetta málefni að vera umhugsunarvert.
Öll útgjöld hins opinbera af þessari stærðargráðu ættu að vera það.
Leikskólagjöld hækkuð þvert á tilmæli Sambandsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.1.2020 | 12:35
Var Air Primera Íslenskt flugfélag?
Það vekur athygli mína þegar ég les þessa frétt að talað er um að tvö Íslensk flugfélög hafi hætt starfsemi í lok 2018 og í upphafi árs 2019.
Ég skil það svo að hér sé verið að ræða um Air Primera og WOW. Það er enda svo sagt í frétt um sama málefni í öðrum fjölmiðli.
En mér hafði alltaf skilist að Air Primera væri rekið frá Danmörku og Lettlandi, og hefði að því leyti ekkert með Ísland að gera, nema jú að eignarhaldið væri tengt Íslenskum aðilum.
Wikipedia síður um starfsemina í Danmörku og Lettlandi virðast staðfesta það, og frétt á Vísi.is um það leyti sem starfsemin var að stöðvast gerir það einnig.
Flugrekstraleyfið var Lettneskt, rekstrarfélagið var erlent, mikið af flugum félagins var á milli áfangastaða sem ekki tengdust Íslandi.
Hvers vegna er þá mengunin af rekstrinum talin til Íslands?
Ekki að það skipti neinu máli hvað varðar mengunina, hún var auðvitað sú sama eftir sem áður.
En auðvitað sýnir þetta að "mengunarbókhaldið" er ekki einfalt í fluginu, enda mörg flugfélög með mikla starfsemi sem tengist ekki heimalandinu.
En ég get ekki séð annað en að flug Air Primera hafi átt að vera tengt eignarhaldinu, rétt eins og annarra erlendra flugfélaga sem fljúga til Íslands.
En ef einhver hefur frekari upplýsingar um þetta eru þær vel þegnar.
Samdráttur skilar minni mengun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |