Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Mögnuð flugvél - með "samanbrjótanlega vængi".

Það er alltaf ótrúlegt að sjá flugvélar af þessari stærð taka á loft.  Þar sem sonur minn er með ólæknandi flugvéladellu, hef ég eytt nokkrum tíma í kringum flugvelli og þá er jafnan reynt að velja tímann með tilliti til brottfara Boeing 777 og Airbus 380, þannig að tækifæri gefist til að sjá báðar tegundir.

Ég hef síðan flogið með bæði 777 - 2- og 300 og það er ánægjulegt, þó að mitt uppáhald sé Dreamliner.  Enn hef ég ekki náð að fljúga með Airbus 380, og sé það ekki alveg í framtíðinni, þó ég væri meira en til þess reiðubúinn.

En ég vona að ég eigi eftir að ná því að fljúga með 777 X, hún virkar vel á mig.

Það er áhugavert að horfa á myndbandið af hennar fyrsta flugi og sjá hana "slétta út" vængina.  Það mun víst vera haft svo til að hún komist að venjulegum "rana" og ekki þurfi að búa henni sérstakt rými á flugvöllum.

En nú hafa flestar tegundir flugvéla einmitt vængi með svipuðu sniði, en ekki þessa "sléttumöguleika".  En ég er ekki nógu fróður til að segja til um hvers vegna því sniði er ekki haldið fyrir þessa tegund nema á jörðu niðri.

 

 

Það er ástæða til að óska Boeing góðs gengis með þessa nýju týpu af 777, ekki veitir þeim víst af þessa dagana.

P.S. Mér er sagt að hvor hreyfill um sig hafi jafn mikið afl og Soyuz eldflaugin sem skilaði Yuri Gagarin út í geim.


mbl.is Boeing prófaði nýjan risa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skepna sem veldur ævilöngu ofnæmi fyrir kjöti

Þetta hljómar eins og vísindaskáldsaga, þar sem "vegan" vísindamenn ákveða að taka til sinna ráða og kenna mannkyninu lexíu.

Þeir búa til lítið skordýr, sem bítur einstaklinga og sýgur úr þeim blóð, og veldur um leið æfilöngu ofnæmi fyrir kjöti og  mjólkurafurðum.

En skordýrið er til og er ekki "vísindaafurð", né skáldsaga.

Það hefur lengi verið þekkt í Bandaríkjunum og Mexíkó, en er nú komið til Kanada.

Það virðist þó ekki hafa neikvæð áhrif á át á fuglakjöti og fiski, þannig að snefill af matarhamingju er skilin eftir.

En ef þetta er ekki góð ástæða til þess að halda sig á "malbikinu", er hún ekki til.

 

 


Að þroska ost með tónlist

Einhver skemmtilegasta frétt sem ég hef lesið um nokkra hríð, var að finna í The National Post, nú fyrir skemmstu.

Þar er fjallað um rannsóknir Svissneskra vísindamanna á því að spila mismunandi tegundir tónlistar á meðan ostur þroskast.

Notast var við stór "hjól" af Emmental og látlaust spiluð tónlist í hljóðeinangruðum boxum.

Lögin sem notast var við voru: Yello -  “Monolith” (ambient), Mozart’s “The Magic Flute” (klassík), A Tribe Called Quest’s “Jazz (We’ve Got)” (hip-hop), Led Zeppelin’s “Stairway to Heaven” (rokk), and Vril’s “UV” (teknó).

Lagaspilunin tók 6. mánuði og niðurstaðan er sú að tónlistin hafi marktæk áhrif á ostinn.

Ostur sem naut tónlistar þótti mildari og bragðbetri en ostur sem engrar tónlistar naut.

Bestur þótti ostur sem var spilað hip-hop fyrir, eða lagið "Jazz (We´ve Got), með A Tribe Called Quest, frá því snemma á 10. áratugnum.>Lagið er hrein snilld, og ekki að undra að það hafi góð áhfrif á ostinn.

 

 

 

 

Svo er spurning hvort að Osta og smjörsalan eigi ekki eftir að notfæra sér þetta. Gæti orðið búbót fyrir tónlistarmenn einnig.

6 mánaða "Hatari" gæti orðið góð söluvara, 45% "Bubbi" og þeim þjóðlegri væri boðið upp á ost sem hefði þroskast undir rímum.

 


Hófstillta, hófsama, frjálslynda miðjufólkið

Ég var að þvælast um netið þegar ég sá þessa stuttu frétt á Eyjunni. Þar er verið að ræða um hvar miðjan sé í íslenskum stjórnmálum og hverjir þá miðjumenn - gjarna bætt hófsamir fyrir framan.

Þar lýsir Ögmundur Jónasson yfir undrun sinni á því að Viðreisnarfólk tali um sjálft sig með miðjufólk, en bætir því við að sjálfur hafi hann álitið sig "frjálslyndan miðjumann".  En það var auðvitað einmitt frasinn sem Viðreisn fór fram undir í nýafstöðnum kosningum.

En það er líklega einmitt meinið, "holir frasar" eru teygðir og togaðir yfir hin ólíklegustu sjónarmið.

Hver hugsar um sjálfa/n sig sem harðsvíraða "öfgamanneskju"?

Sjálfur hef ég ég alltaf litið á sjálfan mig sem hófstillinguna holdi klædda og frjálslyndur er ég fram úr hófi.

En samt á ég hvorki fulla samleið með þeim Ögmundi Jónassyni, eða Pawel Bartozek í pólítík.

Samt hef ég í gegnum tíðina verið sammála Ögmundi á stöku sviðum, og borið fyrir honum mikla pólítíska virðingu. En ég get samt ekki stillt mig um að velta fyrir mér, hverjir eru í þeim fjölda sem er vinstra megin við Ögmund í íslenskri pólítík ef hann er staddur á miðjunni?

Eins er það með Pawel, mér hefur í gegnum tíðina líkað við æði margt sem hann hefur sett fram, bæði í blöðum/vefritum og útvarpi.  Ekki síst vegna þess að hann setur sínar skoðanir fram með föstum en hófstilltum hætti. 

Ég kann vel að meta slíkt.

En ég hef ekki litið á Pawel, ekki frekar en Ögmund, sem miðjumann í íslenskri pólítík.

Ef til vill er þetta angi af "algórhytmabómullinni" sem er að skjóta upp kollinum í umræðunni. Þar sem allir eru umkringdir jákvæðum skoðanasystkinum og allir utan "bómullarinnar" eru lítt þenkjandi "öfgamenn". Allt "gott fólk" er á miðjunni. En það er einmitt vaxandi tilhneyging í umræðunni, að sýna æ minna tillit til andstæðra skoðana og æ minna umburðarlyndi.

Ég er ekki dómbær á það, ég nota enga af þessum "samfélagsmiðlum", mér finnst þeir ekki henta mér, hef takmarkaðan áhuga á því hvað kunningjar mínir, hvað þá "frægt fólk" gerir í frítíma sínum eða snæðir. Líklega er eitthvað af "neanderdalsgenum" í mér.

En þegar upp er staðið, skiptir ekki meginmáli hvar á hinu pólítíska litrófi skoðanir eru staðsettar, það er lítið vandamál fyrir flesta að mynda sér skoðun á því hvort þeir séu sammála eður ei, jafnvel þótt pólítísk gps hnit liggi ekki fyrir.

 


Orð ársins í ensku: Brexit

Collins orðabókin hefur tilkynnt um top 10 lista yfir orð ársins 2016.

Í fyrsta sæti trónir orðið "Brexit".  Collins segir það þýðingarmesta nýyrðið í ensku undanfarin 40 ár, eða síðan "Watergate" kom til sögunnar og síðan fjöldinn allur af "gate málum" málum.

En orðabókarmenn hafa segjast aldrei hafa séð aðra eins sprengingu í notkun orðs eins og "Brexit", síðan orðsins var fyrst vart árið 2013.

Áhrifin, þó þau hefðu líklega orðið þau sömu, þó annað orð hefði verið notað, eru enda gríðarleg og finnast um víða veröld, þó að varla sé hægt að segja að "Brexit" hafi byrjað enn þá.

En það má líklega heldur ekki vanmeta hve vel gerð orð sem falla vel að tungunni og eru auðveld í notkun, geta haft mikil áhrif.

Hversu auðveldara er að ræða um "Brexit", en "úrsögn Bretlands úr Evrópubandalaginu".

Í öðru sæti er svo hið dansk ættaða "hygge", og í því þriðja "mic drop".

"Trumpism" nær svo fjórða sætinu.

 


Flokkakerfið, hægri og vinstri

Eins og eðlilegt má teljast er mikið rætt, spáð og spegúlerað bæði fyrir og eftir kosningar. Alls kyns spámenn, sérfræðingar og fræðimenn spá í spilin, rifja upp söguna og reyna að rýna í framtíðina.

Það er alltaf eitt og annað sem mér finnst orka tvímælis í umfjöllun fjölmiðla.

Sem dæmi um það er þegar talað er eins og Samfylkingin sé aðeins arftaki Alþýðuflokksins (sem er víst að nafninu til ennþá). Sannleikurinn er að Samfylkingin er samsteypa og áframhald fjögurra flokka.

Það er: Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Þjóðvaka, og Kvennalista.  Auðvitað má segja að Þjóðvaki hafi verið klofningur úr Alþýðuflokki, en það er þó viss einföldun, rétt eins og með flesta "klofninga".

En Samfylkingin tók við kefli frá öllum þessum flokkum, og tók yfir skuldir þeirra og eignir. Þannig eru sjóðir Alþýðubandalagsins (sem þeir erfðu frá gömlu sósíalista/kommúnistaflokkunum) í vörslu Samfylkingarinar, en ekki Vinstri grænna (í það minnsta ef ég hef skilið rétt).

Og fjölmargir félagar og frammámenn úr Alþýðubandalagi, Þjóðvaka (sem höfðu ekki allir komið úr Alþýðuflokknum) og Kvennalista gengu í Samfylkinguna.

Ég held að þegar saga Samfylkingar séu skoðuð, sérstaklega hin síðari ár, sé niðurstaðan að forystufólk flokksins hafi jafnvel frekar átt sinn pólíska "uppruna" í Alþýðubandalaginu en Alþýðuflokknum.

Mér þykir stórundarlegt hve margir fræðimenn kjósa svo gjarnan að líta fram hjá þessu.

Reyndar má auðveldlega halda því fram upprunalega séð, að Vinstri græn séu klofningur úr Alþýðubandalagi eða Samfylkingu. Svona eftir við hvaða tímapunkt er miðað.

Það er auðvitað langt frá lagi að Vinstri græn hafi fengið í "heimanmund" allt fylgi Alþýðubandalagsins.

Einnig kemur mér það spánskt fyrir sjónir að heyra æ oftar talað um Framsóknarflokkinn sem hægriflokk.  Vissulega eru hægri og vinstri óskýr hugtök, og jafnframt má segja að í Framsóknarflokknum finnist fleira en ein "vistarvera", ef svo má að orði komast.

En í mínum huga hefur Framsóknarflokkurinn verið vinstrisækinn miðjuflokkur.  Raunar oft nær því að teljast vinstriflokkur en miðju.

Vissulega hefur flokkurinn gjarna átt í samarfi við Sjálfstæðisflokkinn allar götur síðan 1995. Síðan þá hefur flokkurinn ekki átt ríkisstjórnarsamstarf við aðra flokka, og verið með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn ríflega 15 ár af þessum 21.

En það gerir Framsóknarflokkinn ekki að hægriflokki. Þó að flokkurinn hafi talið Sjálfstæðisflokkinn betri samstarfskost en vinstriflokkana, færir það flokkinn ekki yfir ásinn frá vinstri til hægri.

Ekki má til dæmis gleyma því að Framsóknarflokkurinn starfaði í R-listanum frá upphafi til enda.  Hann ennfremur veitti minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hluleysi sitt 2009, en líklega má segja að það "samstarf" hafi ekki verið gott og margir Framsóknarmenn ósáttir við það viðmót sem þeir fengu.

Mér þykir því skrýtið þegar svo algengt er að tala nú um "hægriblokk" (DB) og "vinstri blokk" (VASP) með Viðreisn sem flokkinn á "miðjunni".

Persónulega finnst mér að ekki rétt.

Em ef til vill er ekki síst að leita skýringa á þessum "skringilegheitum" í þeirri staðreynd að af þeim stjórnmálafræðingum sem fjölmiðlum þykir hvað oftast henta að leita til, er óeðlilega hátt hlutfall af fyrrverandi varaþingmönnum Samfylkingar og einnig stuðningsmönnum Evrópusambandsins.

Það tvennt skekkir líklega all verulega þá mynd sem haldið er að almenningi í fjölmiðlum.

Svo er það spurningin hvað er vinstri, hvað er hægri og hvað er miðja í íslenskum stjórnmálum?

Það má halda því fram að miðjan sé síkvik, færist til og sé erfitt að henda reiður á. Einnig skiptir sjónarhorn þess sem talar (eins og mín) líklega einnig einhverju máli.

En það er vert að hafa í huga að þó að einhver flokkur sé til hægri við einhvern annan flokk, gerir það hann ekki að hægri og flokki, nú eða öfugt.

Hin klassíska íslenska skilgreining frá vinstri til hægri, væri Alþýðubandalag/Vinstri græn (ásamt forverum alþýðuubandalagsins), Alþýðuflokkur/Samfylking, Framsóknarflokkur, og loks Sjálfstæðisflokkur.  Framsóknarflokkur var talinn miðjuflokkur, A-flokkarnir (VG og S) voru taldir vinstri flokkar Sjálfstæðisflokkurinn hægri flokkur.

Þetta var þó vissulega einföldun, enda í flestum flokkum hinir ýmsu "armar" sem sköruðust svo að mörkin á milli flokka voru ákaflega óljós.

Það var enda ekki út af engu sem hugtök eins og "framsóknarkommar" urðu til, en það vísaði bæði til hluta Framsóknarflokks og hluta Alþýðubandalags/Vinstri grænna.

Sjálfstæðisflokkurinn átti einnig sinn "framsóknararm" eins og það var stundum kallað, en ef til vill má segja að stærstur hluti flokksins hafi verið og sé "kristilegir íhaldsmenn".  Frjálshyggjuarmur varð nokkur áberandi (þó að deila megi um hvað stór hluti flokksins hann hafi verið) á 9. áratug síðustu aldar og enn eimir eitthvað eftir af honum

Alþýðuflokkurinn skiptist í vinstri og hægri krata, og svo mátti einnig finna afbrigði sem margir kusu að kalla "steinsteypukrata" (ef til vill má segja að sá síðasti af þeim hafi horfið nú, alla vegna úr framlínunni, með Kristjáni Möller).

Kratarnir sköruðust þannig bæði við Alþýðubandalag/Vinstri græn og svo aftur Sjálfstæðisflokk og mátti jafnvel á stundum segja að þeir sóttu að honum frá hægri.

"Bjúrókrata" mátti svo að sjálfsögðu finna í öllum flokkum.

En hvernig horfir þetta í dag?

Lengst til vinstri eru Vinstri græn (nema auðvitað að við hlustum á Alþýðufylkinguna, þá eru þau líklega auðavaldsflokkur og stéttarsvikarar), síðan kemur Samfylkingin (hún færði sig því sem næst alfarið af miðjunni eftir 2009), síðan Píratar (þeir byrjuðu sem býsna blandaður flokkur, en og það horfði við mér, tók vinstri hlutinn því sem næst algerlega yfir all löngu fyrir þessar kosningar, þegar valdabaráttan jókst í réttu hlutfalli við gengið í skoðanakönnunum).

Þá kemur Framsóknarflokkurinn og á eftir þeim Björt framtíð, og nota bene, við erum enn á vinstri vængnum.

Loks koma svo Viðreisn og Sjálfstæðisflokkurinn og mál líklega deila um hvor er meira eða minna til hægri, það færi líklega mest eftir hvaða vigt væri sett á hina mismunandi málaflokka.

Frá mínum bæjardyrum séð erum við rétt farin að snerta hægrikantinn.

En svo getum við líka hreinlega leitað að "íslensku miðjunni" og þá finnum við að hún liggur einhverstaðar á bilinu Píratar/Framsóknarflokkur/Björt framtíð.

Að sjálfsögðu er um all mikla einföldun að ræða, það er erfitt að meta hluti eins og stjórnlyndi (sem finna má í öllum flokkum), frjálslyndi (sem er sömuleiðis að finna í öllum flokkum), alþjóðahyggju (sem sumir halda að þýði að vilja ganga í "Sambandið", en aðrir skilgreina á allt annan hátt), og svo má lengi áfram telja.

Eitt af vandamálunum við nútíma stjórnmálaumræðu, er að hugtök eru á reiki, og það er ekki óalgengt að margir aðilar noti sömu slagorðin, frasana og hugtökin, en séu í raun að tala um ólíka hluti.

Og ef til dæmis eitthvert hugtak er óumdeilt, eða því sem næst, er algengt að reynt sé að toga það yfir eins margt og mögulegt og jafnvel ómögulegt er.

P.S. Bara til að frýja mig frá augljósum "yfirhellingum" argra og "pólítískt réttsýnna" einstakling, er rétt að taka fram að pistilinn byggir ekki á neinum vísindalegum eða félagslegum rannsóknum, heldur eingöngu minni og tilfinningu höfundar.

 

 


mbl.is Kosningaþátttaka aldrei minni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir segja að maðurinn lifi ekki af geimvísundunum einum saman

Margt skondið gerist jafnan í kosningabaráttu, en ég held að þetta sé það fyndnasta sem ég hef séð fyrir þessar kosningar.

Það er einfaldlega ekki hægt að búa þetta til, eins og maðurinn sagði, þetta gerist bara í raunveruleikanum.

Vissulega er það ágætt að Ísland taki þátt í geimvísindaáætlun, en sem vinnumarkaðsstefnu er það frekar þunnur þrettándi.

Eiginlega ekki boðlegt.

En hvað lengi telja Píratar sig geta boða að þeir hafi enga stefnu og hafi engan tíma til þess að setja sig inn í málin?

Þingmenn þeirra hafa verið á launum hjá þjóðinni í næstum 4. ár við að mynda sér skoðun og stefnu.

Einn þingmanna þeirra hefur verið á launum við það í næstum 8 ár.

Þeir stæra sig af því að þeir hafi fjöldan allan af meðlimum, virkt spjall og þar fram eftir götunum.

En stefnan er engin í mörgum málaflokkum.

Það veit engin hver er stefna Pírata í vinnumarkaðsmálum, landbúnaðarmálum, hvort þeir vilja að Ísland eigi að vera í NATO og svo má lengi telja.

Eins og Ólafur Ragnar Hannesson sagði, "þetta eru engin geimvísindi".

En það þarf að hafa stefnu og það þarf að taka afstöðu.

Það er engin þörf á þingmönnum sem sitja hjá oftar en ekki.

P.S. Misritunin í fyrirsögninni er með vilja.

 

 


Straumhvörf?

Rafhlaða eins og þessi getur valdið straumhvörfum, í bókstaflegri merkingu. Þegar tæknin er orðin góð, ódýr og endist vel, er líklegt að "bylting" verði í raforkuframleiðslu.

Grundvöllur fyrir aukinni notkun lítilla vindmylla og sólarorku gjörbreytist.

En mér sýnist þó að kostnaðurinn við þessar rafhlöður og geymslugetan sé með enn með þeim hætti að notendur geti ekki tengt sig frá netinu, nema á sólríkustu og/eða vindasömustu stöðum.

En án efa eiga þessir "rafhlöðuskápar" eftir að verða öflugri, endingarbetri og ódýrari. Það er því líklegt að innan skamms tíma verði "orkuveggur" á flestum "betri heimilum".

En enn sýnist mér að eingöngu sé um öflugan varaaflgjafa að ræða.

 

 

 


mbl.is Tesla kynnir nýja ofurrafhlöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misskilin mannréttindi

Íslendingar ættu auðvitað að taka sig saman og þakka Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness fyrir frábært og óeigingjarnt framtak.

Líklega hefðu margir Íslendingar ekki getað horft á sólmyrkvann ef þeir hefðu ekki staðið sig eins og hetjur.

En það er óneitanlega leiðinlegt að lesa um að þeir hafi setið undir skömmum og jafnveld verið ásakaðir um mannréttindabrot, vegna þess að þeir hafi ekki átt gleraugu handa öllum sem vildu.

En það leiðir hugann að því hvernig æ fleiri virðast nú á dögum misskilja og mistúlka hugtök eins og mannréttindi og jafnrétti.

Auðvitað átti engin kröfu á því að fá ókeypis "sólmyrkvagleraugu", hvað þá að það teljist sjálfsögð mannréttindi að fá slíkt að gjöf.

Það er heldur ekki á skjön við neitt jafnrétti þó að sumir hafi fengið slíkt að gjöf (eða getað keypt) en aðrir ekki.

En það er ef til vill ekki að undra að skilningur á hugökum eins og mannréttindum og jafnrétti séu á niðurleið, ef þeir sem leiðbeina börnum og unglingum setja fram skoðanir líkt og þessar.

P.S. Ég eða mín börn höfðum auðvitað ekkert með gleraugu að gera, en nutum þess að horfa á frábæran sólmyrkva á netinu, bæði frá íslandi en en betri var þó útsendingin frá Svalbarða.

 

 

 


mbl.is Hystería í aðdraganda sólmyrkvans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súrealismi í ríkisfjármálum - Nóbelsverðlaunin í hagfræði?

Hugmyndin hljómar vel. Það þarf ekki nema ögn af platínu til að búa til trilljón dollara, eða 10 trilljón dollara, allt eftir því hvað ákveðið er að setja í mótið.

Hvers vegna ekki að leysa skuldavandamálin í eitt skipti fyrir öll og búa til öflugan varasjóð?

Það að rætt skuli um það í fullri alvöru að leysa skuldaþaksvandræði Bandarískra stjórnvalda með þessum hæti, sýnir ef til vill betur en flest annað hvað abstract og súrrelaísk opinber fjármál eru orðin í "home of the brave".  

Ef til vill má segja að það beri vott um nokkurt hugrekki að hugsa sér að leysa málin með þessum hætti, en um leið sést hvert sú aðferð að láta seðlabanka kaupa skuldir þjóðríkisins sem þeir starfa í, getur leitt.

Um leið er þarft að velta fyrir sér hvers vegna svo mörg ríki heims hafa byggt upp kerfi sem ekki getur þrifist án langvarandi skuldasöfnunar og himinháum skuldum.

Það er ekki bara í Bandaríkjunum sem að þessi staða er komin upp.

Nú er komið í ljós að Spænska ríkisstjórnin er því sem næst búin að tæma eftirlaunasjóð landsmanna, til að kaupa eigin skuldabréf.  Breski seðlabankinn hefur prentað peninga eins og morgundagurinn sé ólíklegur og Svissneski seðlabankinn hefur einnig prentað franka eins og hann hefur þurft til að mæta gríðarlegu innflæði af euroum, frá hinu aðþrenda Eurosvæði.

Stærsti einstaki þátturinn í "höfuðlausn" eurosins á nýliðnu ári, var loforðið að gera hvað sem er (þ.e. prenta eins mikla peninga og þarf, og kaupa skuldabréf hinna aðkrepptu ríkja) til að bjarga hinum sameiginlega gjaldmiðli.

En það sem "plat(ínu)peningur Obama gerir ef til vill fyrst og fremst, er að sýna fram á hvað lítið þarf til að standa að baki prentun (eða sláttar) "trilljón dollara".  Eða í raun nákvæmlega ekki neitt.

P.S.  Ef af sláttu myntarinnar verður, þykir mér einsýnt að Obama hljóti Nóbelsverðlaunin í hagfræði þetta árið.  Það væri ekki nema rökrétt framhald af friðarverðlaununum sem hann hlaut um árið.  Ýmsir myndu meira að segja að hann hefði þó eitthvað gert til að hljóta hagfræðiverðlaunin.


mbl.is Íhuga að slá billjón dollara mynt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband