Bloggfærslur mánaðarins, maí 2020

Hvenær var upphaf Kórónuveirunnar?

Það eru ótal margir hlutir sem eru ákaflega á reiki varðandi Kórónuvírusinn.  Einn af þeim sem hefur vaknað upp vaxandi spurningar um er hvenær upphaf faraldursins var.

Ein og kemur fram í viðhengdri frétt er næsta víst talið að hún hafi verið til staðar í Frakklandi í desember síðastliðnum. Ef einstaklingur er lagður inn sjúkrahús 27. desember hefur hann að öllum likindum smitast all nokkru fyrr.

Lengi hafa verið á sveimi fréttir um svæsna lungabólgu sem hafi geysað á Ítalíu, jafnvel svo snemma sem í október.

Nú koma Svíar fram og telja möguleika á því að Kórónuveiran hafi verið komin þangað í nóvember.

Sömuleiðis hafa verið fréttir um að fyrsta tilfellið hafi verið í það minnsta rúmum mánuði fyrr en áður var talið í Bandaríkjunum.  Fyrsta tilfellið hafi verið í endan janúar.

Þannig virðist sem svo að Kórónaveiran hafi tekist að komast undir "radar" í að minnsta kosti 4. þróuðum og tæknivæddum ríkjum.

Er það ef til vill vegna þess að engum kemur á óvart að lungnabólga og dauðsföll eigi sér stað á flensutímum?

Ekki er hægt að fullyrða neitt um það en vekur upp spurningar.

En það var búið að vara við að "flensutíðin" yrði erfið þennan vetur.

Til dæmis mátti lesa í Bandarískum fjölmiðli þann 21. febrúar síðastliðinn að 26. milljónir Bandaríkjamanna hefðu veikst með "flu like symptoms". Sama frétt sagði 14.000 hafa dáið, þar af yfir 100 börn og að 450. þúsund hefðu verið lögð inn á sjúkrahús.

Samt töldu margir að "hápunktur flensutíðarinnar" ætti eftir að koma.

Það er ekki hægt annað en að velta því fyrir sér hvernig þessir tveir faraldrar sem geysa á sama tíma tvinnast saman.

En þeirri spurningu verður líklega ekki svarað fyrr en eftir all langan tíma.

En ef eitthvað er að marka þessar tilkyninningar um að Kórónuveiran hafi verið mun fyrr á ferðinni en áður var talið er ekki hægt annað en að velta hlut Kína fyrir sér.

Ef þetta er rétt, hvernig gátu Kínverjar rakið "upphaf" veirunnar til "blautmarkaðar" í Wuhan, seint í desember?

Hvernig getur það upphaf staðist?

Einhvern veginn fæ ég þetta ekki til að ganga upp í huganum.

Vangaveltur um yfirhilmingu og feluleik Kínverskra stjórnvalda gera það hins vegar frekar.

Þvermóðska þeirra og hótanir gagnvart þeim sem vilja ítarlega alþjóðlega rannsókn á "tímalínunni", styrkir slíkar vangaveltur og grunsemdir.

En mun "sannleikurinn" einhvern tíma koma í ljós?

Ólíklega.

Þannig virka einræðisstjórnir.


mbl.is Var veiran í Evrópu í desember?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gætu nálægt 1.8 milljón Þjóðverja hafa smitast af Kórónuveirunni?

Hvað hafa margir smitast af Kórónaveirunni?  Það veit enginn og enn sem komið er eru allar tölur ágiskanir.

Nú eru byrjaðar svokallaðar "mótefnamælingar" hér og þar um heiminn.  Enn sem komið er hafa þær verið takmarkaðar við afmörkuð svæði, og jafnvel ekki fyllilega handahófskennd í vali á þátttakendum.

En hægt og rólega koma fleiri og fleiri rannsóknir.

Ég bloggaði um rannsókn í New York ríki fyrir stuttu síðan.  Það birtist frumniðurstaða úr rannsókn sem var gerð í Lombardia á Ítalíu sem sýndi að allt að 61% íbúa á ákveðnum svæðum hefðu smitast. En niðurstöður eru ekki komnar, og ekkert hægt að fullyrða enn. En hér er hlekkur á staðarblað í Bergamo, fyrir þá sem vilja spreyta sig á Ítölskunni.  En rétt að ítreka að ekki er um endanlegar niðurstöður að ræða.

Nú hefur háskólinn í Bonn birt "frumútgáfu" af rannsókn sem framkvæmd var í Þýska bænum Gangelt.  Hann er nálægt landamærunum að Hollandi og var faraldurinn býsna skæður þar.  Mikið af smitum hefur verið rakið til "kjötkveðjuhátíðar" sem haldin er árlega í bænum.

Hér má lesa "frumútgáfuna" eða hlaða niður á PDF.

En miðað við þessar niðurstöður eru u.þ.b. 14% íbúa á svæðinu með mótefni, eða sjöundi hver þeirra.

Deutsche Welle er með frétt um rannsóknina og leiðir að því getur að allt að 1.8 milljón Þjóðverja hafi smitast af Kórónaveirunni og fast að fjórðungur þeirra hafi verið einkennalaus.

En eins og kemur fram í fréttinni þarf að enn að taka niðurstöðunni með fyrirvara, og það er ekki hægt að segja að hún gildi fyrir allt landið hvað þá önnur lönd.

En æ fleiri vísbendingar benda í þá átt að faraldurinn hafi sýkt mun fleiri en talið var og einnig að hann hafi byrjað verulega fyrr en staðfest smit komu til sögunnar.


Svona var lífið í San Fransisco þann 25. febrúar síðastliðinn. Hver sagði þann 2. mars að New York hefði besta heilbrigðiskerfi í heimi?

Það hefur mikið verið fjallað um mismunandi viðbrögð stjórnmálaleiðtoga við útbreiðslu Kórónavírussins.

Hér er myndband þar sem sjá má Nancy Pelosi, leiðtoga Demókrata í Fulltrúadeildinni Bandarísku.

Hún er að spóka sig um í Kínahverfinu í San Fransisco, þann 25. febrúar síðastliðinn.

Til að setja þetta í tímalegt samhengi minnir mig að fyrsti Almannavarnarfundurinn í beinni útsendingu á Íslandi hafi verið daginn eftir. 

Alls staðar mátti skella sér á fjölsótta tónleika.  Ég hefði aldrei farið á tónleika með Celine Dion í endan febrúar í New York.  En þeir voru velsóttir.  Þar mátti heyra frú Dion taka gamla John Farnham lagið "You´are the Voice".  Þar segir m.a. í textanum:

"We´re not gonna ist in silence

We´re are not gonna live with fear."

Ekki það að ég ætli að halda því fram að frú Dion hafi ætlað að senda skilaboð tengd (þá) komandi faraldri.  En "skemmtileg" tilviljun.

 

Skömmu síðar, eða 2. mars mátti heyar Andrew Cuomo ríkisstjóra lýsa því yfir að það væri lítið að óttast, enda hefði New York (líklega ríkið frekar en borgin) besta heilbrigðiskerfi í heimi.

 

 

Internetið gleymir engu er stundum sagt. Auðvitað er ekki alfarið sanngjarnt að taka eldri fullyrðingar stjórnmálamanna og skoða þær með tilliti til þess sem við vitum nú.

En það er samt gríðarlega "vinsælt" og er notað í pólítískri baráttu og lítið við því að gera.

 

 

 

 

 


Ef þú hefur klukkutíma aflögu, mæli ég sterklega með þessu viðtali

Líklega er þörfin fyrir fræðsluefni að minnka nú þegar byrjað er að slaka á samkomubanninu.

En það er ennþá löng leið að "normal" lífsháttum og margt sem vert er að velta fyrir sér.

Á YouTube má finna gott viðtal, þar sem John Anderson, fyrrum stjórnmálamaður í Ástralíu, ræðir við Skoska sagnfræðinginn Niall Ferguson.  Ferguson hefur verið einn af mínum uppáhaldsagnfræðingum all nokkra hríð.

En viðtalið (eða fjarvitalið) kemur víða við og er æsingalaust.  Virkilega þess virði að hlusta á (myndin gefur ekki mikið til viðbótar).

YouTube

 

 

 

 

 

 


Flugmenn Lufthansa bjóðast til það lækka laun sín um 45%

Ef marka má fréttir tapar Lufthansa samsteypan 1. milljón euroa á hverjum klukkutíma þessa dagana.

Það gerir 24. milljónir euroa á dag, 168. milljónir euroa á viku, 744. milljónir euroa í maí, ef ekkert breytist.

Gengið breytist ótt og títt,  í dag jafngildir það 118.519.200.000, Íslenskum krónum. 

Bara í maí.

Svipuð upphæð hefur líklega tapast í apríl.

Hvað mun slíkt tap vera í marga mánuði?

En Lufthansa mun sækjast eftir ríkisstuðningi. Lufthansa samsteypan mun að öllum líkindum sækja stuðning frá ríkissjóðum Þýskalands, Austurríkis, Belgíu og Sviss.

Samsteypan hefur enda starfsemi í öllum þessum löndum, og rekur þar flugfélög.

Eitthvað hefur verið deilt um hvernig skuli standa að slíkri björgun.

Talað hefur verið um að Þýska ríkið myndi leggja allt að 10. milljörðum euroa til félagsins. Nágrannalöndin gætu lagt allt að 6. milljörðum euroa.

Það eru gríðarlegir fjármunir.

Hvernig eignarhaldið eftir slíkar björgunaraðgerðir yrði, er óljósara, en ég hef bæði séð talð um "lágmarks ávöxtun", og svo að Þýska ríkisstjórnin yrði stór eignaraðili.  Hvernig því yrði háttað með aðrar ríkisstjórnir er óljósara.

En Þýska ríkið gæti tekið allt að 25% eignarhluta í félaginu.

En það sem hefur ekki síst vakið athygli er að flugmenn Lufthansa í gegnum stéttarfélag (eða stéttarfélög)hafa boðist til að lækka laun sín tímabundið (talað um tvö ár) um 45%.

Að baki tilboðsins virðist vera sú skoðun að mikilvægt sé að vernda störf og þau verðmæti sem felast í félaginu.

P.S. Til þess að taka fram alla hagsmuni þarf ég auðvitað að segja frá því að ég er staddur í miðri ferð með Lufthansa.

Það er að hluta til ástæðan fyrir því að ég fylgist betur með því en öðrum flugfélögum.

 

 

 

 

 


Spurningar sem ég vildi að einhver spyrði á blaðamannafundum Almannavarna

Eftir því sem ég heyri er daglegur fundur Almannavarna eitthvert alvinsælasta sjónvarpsefni á Íslandi.

Sjálfur hef ég aðeins horft á einn fund (ekki í beinni útsendingu, heldur á vefnum) og að sjálfsögðu aldrei verið viðstaddur.

En eigi að síður hafa vaknað hjá mér spurningar sem ég vildi óska að einhver myndi spyrja á fundinum.

Sjálfsagt er ég ekki einn um að hafa spurningar, og ef til vill vantar vettvang fyrir þær.

En hér eru nokkrar af þeim spurningum sem hafa vaknað hjá mér, ef til vill mun ég birta fleiri síðar.

 

Mjög stór hluti af þeim sem hafa greinst með smit upp á síðkastið hafa verið í sóttkví og hefur hún augljóslega reynst vel.

En hvað hafa margir af þeim hafa reynst smitaðir t.d. í apríl verið í "eðlilegri" vinnu hjá þeim fyrirtækjum sem hafa haft undanþágu frá samkomubanni?

Hafa smit komið upp hjá þeim sem starfa í matvöruverslunum?  Ef einhver, hvað hefur mátt rekja mörg smit til slíkra verslana?

Margir sakna þess að geta farið í sund.

Hefur einhver rannsókn farið fram á því hvort að klórblandað vatn, s.s. í sundlaugum dugi til þess að drepa Kórónuveiru?

Er eitthvað sem bendir til þess að veiran geti dreifst í vatni?

Er sú ákvörðun að "Tveggja metra reglan" þurfi ekki að gilda í strætó byggð á vísindaniðurstöðum, eða er þetta pólítísk ákvörðun?

Ef einhver blaðamaður tekur þessar spurningar upp á arma sína, væri ég þakklátur.

 

 


Sannleikurinn um Kórónavírusinn - "Made in China" útgáfan

Áróðurinn sem nú má víða finna varðandi Kórónavírusinn er mikill og mismunandi.  Líklega gerist hann þó vart fáranlegri en "nýjasta útspil" Kínverja.

Yfirlýsingar þeira eigin ríkisstjórnar eins og lesa má hér rata ekki inn í "heimildamyndina". En þegar þau féllu voru "opinber" smittifelli í Kína u.þ.b. 17.000:

"Chinese foreign ministry spokesperson Hua Chunying said the US actions "could only create and spread fear" instead of offering assistance.

She said the US was the first country to impose a travel ban on Chinese travellers and the first to suggest a partial withdrawal of its embassy staff.

"It is precisely developed countries like the US with strong epidemic prevention capabilities... that have taken the lead in imposing excessive restrictions contrary to WHO recommendations," Ms Hua said, according to a Reuters report."

Ótal margt fleira mætti týna til.  En ekki hvað síst er sú staðreynd að Kínverjar fyrtast við í hvert sinn sem lagt er til að alþjóðleg rannsókn á uppruna veirunnar fari fram, finnst mér styðja að þeir hafi ekki hreinan skjöld í málinu

En nú þegar fréttir af yfirgangi, hótunum og yfirhilmingu yfirvalda í Kína aukast dag frá degi, má reikna með að áróðursstríðið harðni.

Það er erfitt að sjá leið sem mun gera Kínverjum kleyft að "halda andlitinu" (sem mér er sagt að sé gríðarlega mikilvægt í menningu þeirra) ef marka má fréttir.

En þeir munu vissulega leita hennar.

 

 

 


DJ Trump, PR, diplómasía og tímasetningar

Einn af áhugaverðustu stjórnmálamönnum samtímans er óneitanlega Donald John Trump. Þar ríkir ekki lognmollan "eins og maðurinn sagði".

Hann nýtur mikils fylgis innanlands, en er þar jafnframt gríðarlega óvinsæll og er vantreyst víða um lönd.

Hann er enda ólíkindatól.

Hann er ef til vill fyrsti stjórnmálamaðurinn sem má líta á sem "óskilgetið afkvæmi" nútíma fjölmiðlunar og samfélagsmiðla. Það er ekki ólíklegt að við eigum eftir að sjá fleiri slíka.

Ég segi "óskilgetið", því hvorugt "foreldrið" vill kannast við krógann.

Eins og gengur um marga stjórnmálamenn er ég sammála ýmsu sem hann hefur komið fram með, um annað hirði ég lítt.

En það er hvernig hlutirnir eru unnir og settir fram, sem getur farið óstjórnlega í taugarnar á mér, sem og líklega mörgum öðrum.

Ég er til dæmis alveg sammála því að NATO ríki eigi að stefna markvist að því að uppfylla skilyrði um að eyða 2% (GDP) í varnarmál. Alltof fá þeirra gera það.  En ef eitthvað er hafa líkurnar á því minnkað (jafnvel fyrir Kórónuveiruna) vegna þess að í og með vegna framgöngu Trumps í málinu, er næsta ómögulegt fyrir stjórnmálaleiðtoga í NATO ríkjum að berjast fyrir slíku, ekki innan eigin flokks og ekki í kosningum.

Það sama gildir um WHO. Það veitir án efa ekki af því að sú stofnun sé sett í utan að komandi "endurskoðun".  Bæði hvað varðar viðbrögð og ekki síður stjórnun.

Í öllum heilbrigðum stofnunum eða fyrirtækjum hefði verið skipt um yfirstjórn, eftir hún að hefði gert Robert Mugabe að sérstökum "góðvildar sendiherra" stofnunarinnar eða fyrirtækisins.

En það virkar ekki þannig hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna.

Ýmsar aðgerðir WHO, hvað varðar Kórónuveiruna orka tvímælis.  Til dæmis eindregin hvatning stofnunarinnar til allra að halda öllum flugsamgöngum opnum, eftir að Kína hafði svo gott sem slegið "herkví" utan um Hubei hérað. Ef "herkví" virkar (WHO lofaði viðbrögð Kína) var þá ekki rétt að draga úr flugsamgöngum til og frá "hættusvæðum"?

"“Although travel restrictions may intuitively seem like the right thing to do, this is not something that WHO usually recommends,” Tarik Jasarevic, a WHO spokesperson, told press in late January. “This is because of the social disruption they cause and the intensive use of resources required.” Officials also said the bans could wreak a financial toll on the country dealing with the crisis and discourage transparency."

Reyndar eru margir þeirrar skoðunar að hömlur sem Kína setti á ferðalög (um mitt ár 2019) til Taiwan eigi mikinn þátt í hve Taiwan hefur gengið vel í baráttunni við Kórónuveiruna.

Mig rekur ekki minni til að einhver hjá Sameinuðu þjóðunum hafi haft miklar áhygjur af "ferðabanni" þá.

En flumbrugangur Trump með tilheyrandi "tvítum" hefur sömuleiðis dregið verulega úr líkum á því að nokkuð verði gert varðandi WHO. 

Slíkar aðgerðir hefði þurft að undirbyggja með samvinnu og afla stuðnings áður en slíkt yrði gert opinbert.

Twitter er ekki rétti vettvangurinn fyrir slíkt.

Tímasetningin er svo sér "kapítuli".  Því miður hefur framganga Trumps líklega orðið til þess, þó að enn sé of snemmt að fullyrða um slíkt, að auka enn á áhrif Kína innan WHO.  Þvert á það sem hann ætlaði (eða það skulum við vona).

Ég er líka sammála Trump í því efni að það er varhugavert fyrir ríki Evrópu að gera sig enn háðari Rússlandi hvað varðar orku en þegar er.

Ég held að margir sjái hættuna við slíkt.

En "Twitterdíplómasía" og það að vera önugur skilar slíku máli ekki áfram.

Og eina ferðina enn er engu áorkað nema að bandamenn eru fjarlægari en áður.  Það er oft betra að fara hljóðlegar, sérstaklega ef ekkert ávinnst.  Ef "baktjaldamakkið" ber árangur má yfirleitt finna leiðir til að "auglýsa" árangurinn.

Ég er líka sammála Trump (og mörgum Bandarískum stofnunum) í því efni það það er stórhættulegt þjóðaröryggi margra Vestrænna ríkja að hleypa Kínverskum "hálfríkisfyrirtækjum" að uppbyggingu 5G fjarskiptakerfa.

En enn einu sinni hafa upphrópanir og flumbrugangur ráðið ríkjum með þeim afleiðingum að lítið sem ekkert ávinnst nema aukin tortryggni.

En engin veit líklega betur en Bandaríkjamenn hvernig hægt er að nota slíkan fjarskiptabúnað til þess að komast að því hvað "notendurnir eru að segja".

En sú reynsla er  eitthvað sem þeir vilja ekki ræða um of opinberlega.

En áhættan er líka að með 5G er hugmyndin að stjórna mun fleiru en áður, sem gæti skapað áður óþekktar hættur og vandræði.

Það er eins með það að mörg ríki sýni Kína óþarflega linkind á viðskiptasviðinu. Það er staðreynd.  Lítið en ágætt dæmi um það er að Vestræn ríki skuli niðurgreiða póstsendingar Kínverskra fyrirtækja í samkeppni við fyrirtæki í eigin löndum. En það er líka dæmi um hvernig má misnota alþjóðastofnanir, í því tilfelli Alþjóða póstmálastofnunina (eða hvað sú ágæta stofnun heitir).

En enn og aftur gildir að það þarf að afla stuðnings, "byggja upp" málið og koma því í gegn ef mögulegt er.  "Reiður í athugasemdum" eða Twitter skilar málinu lítt áleiðis.

Það að leggja kostnaðinn á kaupendur skilar eflaust árangri, en eðlilegra er að Kínverskir sendendur borgi eðlileg póstburðargjöld.

MAGA (Make America Great Again) slagorðið fer í taugarnar á mörgum. En það er sett fram með mismunandi hætti í næstum öllum löndum heims, ekki síst nú á Kórónutímum.

Ég hef heldur ekki heyrt nein sérstök viðbrögð t.d. við "Made In China 2025".

Eru ekki allir að hvetja íbúa til að kaupa meira af innlendum vörum, og að meira sé framleitt innanlands?

Ég get ekki sagt að ég sé sérstaklega áfram um byggingu múrs á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.  En ég er alls ekki mótfallinn þeim hugmyndum.

Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að öll ríki eigi rétt á því að tryggja landamæri sín og það má halda því fram að það sé skylda þeirra gagnvart þegnunum.  Ég bloggaði hér um "vegginn" fyrir löngu síðan.

En staðan er sú að nú er það pólítískt klókt í Evrópu að ráðast á Bandaríkin og Donald Trump, rétt eins og innanríkisráðherra Berlínar gerði fyrir stuttu.

Ekkert hefur komið fram síðan sem bendir til þess að ásakanir hans séu réttar, en um það skeyta fáir. Þýskaland hefur hins vegar, eins og mörg önnur lönd, bannað útflutning á hlífðarbúnaði og stöðvað sendingar á landamærum sínum ef marka má frétt Bloomberg. En það banna vekur ekki líkt því mikla reiði og þegar Bandaríkin (og þá í beinu framhaldi Trump) gerir slíkt, rétt eins og hann gerði við t.d. við Kanada.

Svo er það stuðningur Bandaríkjastjórnar við Grænland.  Ég fagna því.  Það er tvímælalaust fagnaðarefni í mínum huga að vilji sé til þess að styðja við uppbyggingu á Grænlandi.

Vissulega er slíkur stuðningur aldrei án tilgangs.  En það er merkilegt að það er engu líkara en að margir líti það alvarlegri augum að Bandaríkjamenn seilist til aukinna áhrifa á Grænlandi, en þegar Kínverjar gera það.

En eins og í mörgum tilfellum sem ég hef nefnt hér að ofan, hafa stórkarlalegar og undarlegar yfirlýsingar DJ Trump um að vilja "kaupa" Grænland, stórlega spillt fyrir málinu.

Það er ekki einu sinni pólítík 20. aldarinnar, heldur þeirrar 19.

Þessi pistill er orðinn miklu lengri en ég upphaflega ætlaði.  En þannig æxlast málin oft.

En hvað skiptir okkur mestu máli?  Eru það málefnin eða persónan?  Er það framgangan eða gjörðirnar?

Ég veit að DJ Trump hættir annað hvort í janúar á næsta ári eða í janúar 2025. 

Gildir það um alla leiðtoga, að það sé hægt að kjósa þá frá? 

Því miður ekki.

Hættum við að hugsa um misgjörðir ríkja ef leiðtogar þeirra eru "bara kurteisir" og/eða auglýsa ekki vitleysuna og fólskuverk sín á Twitter?

 


Gróflega gengið á rétt neytenda

Ég get alveg skilið að ástandið er erfitt.  Það er erfitt fyrir flugfélög og ferðaskrifstofur að endurgreiða ferðir.  Lausafjárstaða þeirra er erfið.

En, að ganga jafn freklega á rétt neytenda og mörg stjórnvöld vilja, þar á meðal Íslensk, er verulega hættulegt fordæmi.

Það er verið að segja að lög og réttur, neytendavernd gildi aðeins við "bestu aðstæður".

Hvaða skilaboð eru það?

Ennfremur verður að hafa í huga að allt eins líklegt er að einhver af flugfélögum og ferðaskrifstofum sem um ræðir eigi eftir að fara í greiðslustöðvun og jafnvel verða gjaldþrota.

Hvers virði eru inneignarnóturnar þá?

Einskis.


mbl.is Vilja takmarka neytendavernd flugmiðahafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hættulegt að fólk fari yfir landamæri?

Kórónuveiran hefur vissulega breytt heiminum.  En eins og oft gerist í storminum miðjum koma upp alls konar skoðanir sem í raun er erfitt að sjá séu rökréttar.

En hvað er rökrétta samhengið og hvaða mælistikur á að nota?

Hversu hættuleg er Kórónuveiran?  Hvaðan kemur hættan? Er óhætt að einstaklingar ferðist á milli landa?

Tölfræðilega má líklega segja að Vestmannaeyar og Vestfirðir hafi verið með sýktustu svæðum í heimi, miðað við hina margfrægu höfðatölu.

Hins vegar hafa smit á Norðausturlandi og Austurlandi verið afar fá.

Má þá ekki segja að meiri ástæða hafi verið til þess að vernda íbúa Austurlands á ákveðnum tímapunkti gegn komu Vestfirðinga og Vestmanneyinga, en því að einhverjir Norðmenn, Danir eða Þjóðverjar komi með ferju til Seyðisfjarðar?

Hvort voru hærri tölfræðilegar líkur til að smitast af Dana, eða Vestfirðingi eða Vestmanneyjabúa?

Þessum skrifum er ekki ætlað að virka sem hvatningu til þess að setja hefði átt alla Vestfirðinga og Vestmanneyinga í einangrun, loka þjóðvegum og leggja Herjólfi.

En tölfræðilega er ekki hægt að segja að það sé marktækt meiri munur á hættunni af því að smitast af t.d. Norðmanni en af Íslendingi.

Það sama gildir t.d. um Pólverja, sem eru með lægra dánarhlutfall/íbúa en Íslendingar.

Svipað gildir um Finna, Eistlendinga, Letta og Litháa, svo nokkur lönd sem við þekkjum ágætlega til séu nefnd.

En næstu vikur munu skipta miklu máli og munu líklega sýna hvar á "kúrfunni" lönd eru stödd.

En það er líklegt að skynsamlegt sé að "aftengja" Schengen um all nokkurn tíma, gera hins vegar samninga við einstök lönd, sem byggðist þá á nýgengi smita og hvaða ráðstafanir þær myndu gera á flugvöllum.

Einnig þyrfti að fara varlega varðandi farþega frá "þriðja" landi og fá mun meiri upplýsingar en nú tíðkast.

Meira að segja Austurríki sem hefur fengið á sig "pestarbælisstimpil", þar Kórónuveiran er sögð hafa grasserað óhindrað all nokkra hríð er með ótrúlegar lágar tölur, bæði um andlát/milljón íbúa, eða 65 og virk smit undir 2000.  En þeir gætu vissulega hafa staðið betur í skimunum (eru þó með þokkalega háa tölu/á milljón), en það gildir um ótal þjóðir.

Það er rétt að taka fram að auðvitað þarf alltaf að taka tölulegum upplýsingum með fyrirvara, en samt komust við oft ekki hjá því að byggja á þeim við ákvarðanatöku.

En í heild sinni er engin ástæða til þess að trúa því að meiri hætta sé á því að smitast af útlendingum en Íslendingum, nema þeir komi frá svæðum þar sem smit eru mjög  útbreidd.

Ekki frekar en ástæða er til að trúa því að minni hætta sé á smiti í strætó en á öðrum fjölförnum stöðum.

P.S. Allar tölur sem nefndar eru í pistlinum eru fengnar frá Worldometers.


mbl.is Vitum ekki hvort botninum sé náð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband