DJ Trump, PR, diplómasía og tímasetningar

Einn af áhugaverðustu stjórnmálamönnum samtímans er óneitanlega Donald John Trump. Þar ríkir ekki lognmollan "eins og maðurinn sagði".

Hann nýtur mikils fylgis innanlands, en er þar jafnframt gríðarlega óvinsæll og er vantreyst víða um lönd.

Hann er enda ólíkindatól.

Hann er ef til vill fyrsti stjórnmálamaðurinn sem má líta á sem "óskilgetið afkvæmi" nútíma fjölmiðlunar og samfélagsmiðla. Það er ekki ólíklegt að við eigum eftir að sjá fleiri slíka.

Ég segi "óskilgetið", því hvorugt "foreldrið" vill kannast við krógann.

Eins og gengur um marga stjórnmálamenn er ég sammála ýmsu sem hann hefur komið fram með, um annað hirði ég lítt.

En það er hvernig hlutirnir eru unnir og settir fram, sem getur farið óstjórnlega í taugarnar á mér, sem og líklega mörgum öðrum.

Ég er til dæmis alveg sammála því að NATO ríki eigi að stefna markvist að því að uppfylla skilyrði um að eyða 2% (GDP) í varnarmál. Alltof fá þeirra gera það.  En ef eitthvað er hafa líkurnar á því minnkað (jafnvel fyrir Kórónuveiruna) vegna þess að í og með vegna framgöngu Trumps í málinu, er næsta ómögulegt fyrir stjórnmálaleiðtoga í NATO ríkjum að berjast fyrir slíku, ekki innan eigin flokks og ekki í kosningum.

Það sama gildir um WHO. Það veitir án efa ekki af því að sú stofnun sé sett í utan að komandi "endurskoðun".  Bæði hvað varðar viðbrögð og ekki síður stjórnun.

Í öllum heilbrigðum stofnunum eða fyrirtækjum hefði verið skipt um yfirstjórn, eftir hún að hefði gert Robert Mugabe að sérstökum "góðvildar sendiherra" stofnunarinnar eða fyrirtækisins.

En það virkar ekki þannig hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna.

Ýmsar aðgerðir WHO, hvað varðar Kórónuveiruna orka tvímælis.  Til dæmis eindregin hvatning stofnunarinnar til allra að halda öllum flugsamgöngum opnum, eftir að Kína hafði svo gott sem slegið "herkví" utan um Hubei hérað. Ef "herkví" virkar (WHO lofaði viðbrögð Kína) var þá ekki rétt að draga úr flugsamgöngum til og frá "hættusvæðum"?

"“Although travel restrictions may intuitively seem like the right thing to do, this is not something that WHO usually recommends,” Tarik Jasarevic, a WHO spokesperson, told press in late January. “This is because of the social disruption they cause and the intensive use of resources required.” Officials also said the bans could wreak a financial toll on the country dealing with the crisis and discourage transparency."

Reyndar eru margir þeirrar skoðunar að hömlur sem Kína setti á ferðalög (um mitt ár 2019) til Taiwan eigi mikinn þátt í hve Taiwan hefur gengið vel í baráttunni við Kórónuveiruna.

Mig rekur ekki minni til að einhver hjá Sameinuðu þjóðunum hafi haft miklar áhygjur af "ferðabanni" þá.

En flumbrugangur Trump með tilheyrandi "tvítum" hefur sömuleiðis dregið verulega úr líkum á því að nokkuð verði gert varðandi WHO. 

Slíkar aðgerðir hefði þurft að undirbyggja með samvinnu og afla stuðnings áður en slíkt yrði gert opinbert.

Twitter er ekki rétti vettvangurinn fyrir slíkt.

Tímasetningin er svo sér "kapítuli".  Því miður hefur framganga Trumps líklega orðið til þess, þó að enn sé of snemmt að fullyrða um slíkt, að auka enn á áhrif Kína innan WHO.  Þvert á það sem hann ætlaði (eða það skulum við vona).

Ég er líka sammála Trump í því efni að það er varhugavert fyrir ríki Evrópu að gera sig enn háðari Rússlandi hvað varðar orku en þegar er.

Ég held að margir sjái hættuna við slíkt.

En "Twitterdíplómasía" og það að vera önugur skilar slíku máli ekki áfram.

Og eina ferðina enn er engu áorkað nema að bandamenn eru fjarlægari en áður.  Það er oft betra að fara hljóðlegar, sérstaklega ef ekkert ávinnst.  Ef "baktjaldamakkið" ber árangur má yfirleitt finna leiðir til að "auglýsa" árangurinn.

Ég er líka sammála Trump (og mörgum Bandarískum stofnunum) í því efni það það er stórhættulegt þjóðaröryggi margra Vestrænna ríkja að hleypa Kínverskum "hálfríkisfyrirtækjum" að uppbyggingu 5G fjarskiptakerfa.

En enn einu sinni hafa upphrópanir og flumbrugangur ráðið ríkjum með þeim afleiðingum að lítið sem ekkert ávinnst nema aukin tortryggni.

En engin veit líklega betur en Bandaríkjamenn hvernig hægt er að nota slíkan fjarskiptabúnað til þess að komast að því hvað "notendurnir eru að segja".

En sú reynsla er  eitthvað sem þeir vilja ekki ræða um of opinberlega.

En áhættan er líka að með 5G er hugmyndin að stjórna mun fleiru en áður, sem gæti skapað áður óþekktar hættur og vandræði.

Það er eins með það að mörg ríki sýni Kína óþarflega linkind á viðskiptasviðinu. Það er staðreynd.  Lítið en ágætt dæmi um það er að Vestræn ríki skuli niðurgreiða póstsendingar Kínverskra fyrirtækja í samkeppni við fyrirtæki í eigin löndum. En það er líka dæmi um hvernig má misnota alþjóðastofnanir, í því tilfelli Alþjóða póstmálastofnunina (eða hvað sú ágæta stofnun heitir).

En enn og aftur gildir að það þarf að afla stuðnings, "byggja upp" málið og koma því í gegn ef mögulegt er.  "Reiður í athugasemdum" eða Twitter skilar málinu lítt áleiðis.

Það að leggja kostnaðinn á kaupendur skilar eflaust árangri, en eðlilegra er að Kínverskir sendendur borgi eðlileg póstburðargjöld.

MAGA (Make America Great Again) slagorðið fer í taugarnar á mörgum. En það er sett fram með mismunandi hætti í næstum öllum löndum heims, ekki síst nú á Kórónutímum.

Ég hef heldur ekki heyrt nein sérstök viðbrögð t.d. við "Made In China 2025".

Eru ekki allir að hvetja íbúa til að kaupa meira af innlendum vörum, og að meira sé framleitt innanlands?

Ég get ekki sagt að ég sé sérstaklega áfram um byggingu múrs á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.  En ég er alls ekki mótfallinn þeim hugmyndum.

Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að öll ríki eigi rétt á því að tryggja landamæri sín og það má halda því fram að það sé skylda þeirra gagnvart þegnunum.  Ég bloggaði hér um "vegginn" fyrir löngu síðan.

En staðan er sú að nú er það pólítískt klókt í Evrópu að ráðast á Bandaríkin og Donald Trump, rétt eins og innanríkisráðherra Berlínar gerði fyrir stuttu.

Ekkert hefur komið fram síðan sem bendir til þess að ásakanir hans séu réttar, en um það skeyta fáir. Þýskaland hefur hins vegar, eins og mörg önnur lönd, bannað útflutning á hlífðarbúnaði og stöðvað sendingar á landamærum sínum ef marka má frétt Bloomberg. En það banna vekur ekki líkt því mikla reiði og þegar Bandaríkin (og þá í beinu framhaldi Trump) gerir slíkt, rétt eins og hann gerði við t.d. við Kanada.

Svo er það stuðningur Bandaríkjastjórnar við Grænland.  Ég fagna því.  Það er tvímælalaust fagnaðarefni í mínum huga að vilji sé til þess að styðja við uppbyggingu á Grænlandi.

Vissulega er slíkur stuðningur aldrei án tilgangs.  En það er merkilegt að það er engu líkara en að margir líti það alvarlegri augum að Bandaríkjamenn seilist til aukinna áhrifa á Grænlandi, en þegar Kínverjar gera það.

En eins og í mörgum tilfellum sem ég hef nefnt hér að ofan, hafa stórkarlalegar og undarlegar yfirlýsingar DJ Trump um að vilja "kaupa" Grænland, stórlega spillt fyrir málinu.

Það er ekki einu sinni pólítík 20. aldarinnar, heldur þeirrar 19.

Þessi pistill er orðinn miklu lengri en ég upphaflega ætlaði.  En þannig æxlast málin oft.

En hvað skiptir okkur mestu máli?  Eru það málefnin eða persónan?  Er það framgangan eða gjörðirnar?

Ég veit að DJ Trump hættir annað hvort í janúar á næsta ári eða í janúar 2025. 

Gildir það um alla leiðtoga, að það sé hægt að kjósa þá frá? 

Því miður ekki.

Hættum við að hugsa um misgjörðir ríkja ef leiðtogar þeirra eru "bara kurteisir" og/eða auglýsa ekki vitleysuna og fólskuverk sín á Twitter?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Maður veltir því stundum fyrir sér hver sé tilgangurinn með því hjá Trump að vera forseti. Hann virðist alveg skorta heildstæða pólitíska sýn. Segir eitt í dag og annað á morgun.

Eða er hann, eins og sumir halda fram, verkfæri Guðs þannig að það er við því að búast að við dauðlegir skiljum ekki hvað er í rauninni á seyði?

Kristján G. Arngrímsson, 1.5.2020 kl. 20:56

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þessi grein er góðrar athygli virði og minnir mig á uppeldisumræður hjá okkur ungum klúbbvinkonum í den; Ég gæti mín að fara ekki að skvaldra neitt um það,en hafði gaman af þegar sonur minn sem býr erlendis sagðist kominn á þá skoðun að best væri harkan sex á þá allra ósvífnustu.Átti samt ekki við Trump sem er oft harðorður,en náði þó að sættast(svo langt sem það nær)við Mexiko og N-Kóreu án þess að kvika frá skoðunum sinum.  

Helga Kristjánsdóttir, 2.5.2020 kl. 00:39

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ekki veit ég hvers vegna DJ Trump ákvað að skella sér í pólítík.  En ég held að hann hafi ekkert síður heildstæða pólítíská sýn en margir aðrir stjórnálamenn.  Sumir segja sitt á hvað sama daginn.  Rétt eins og að það þurfi að virða 2ja metra regluna alls staðar nema í strætó.

Nú eða að það Íslendingar geti farið á einkasjúkrahús í Svíþjóð og ríkið borgi, en ekki á Íslandi, því einkasjúkrahús eru slæm.

En ég held að það hafi verið litíð "tvítað" og engar stórkarlalegar yfirlýsingar.  Enda Íslensk stjórnvöld "feminísk".

En Trump vill að Bandaríkin hugsi meira um að geta séð um sig sjálf. Að hluta til útskýrir fátt betur þá hlið en "hlífðarbúnaðarkapphlaupið" sem hefur átt sér stað undanfarnar vikur.

Hvernig getur ríki eins og Bandaríkin tryggt "sig og sína" ef það þarf að fara bónleið að öðrum ríkjum til að efni til að búa til lyf eða jafnvel búa til veiruskimun?

Hverju breytti það t.d. fyrir ástand heimsmála þegar Bandaríkin urðu allt í einu sjálfum sér nóg hvað olíu varðar?

Hvers vegna ættu Bandaríkin að borga fyrir stóran part af vörnum Evrópu, eða borga stóran part af rekstri alþjóðastofnana og uppskera lítið nema skítkast oft á tíðum?

"Guðs eigið land", þarf auðvitað "guðs eigin pólítíkusa" en stjórnmál og trú eiga að baki langt, oft skrýtið og víða ógeðfellt samstarf, en það er önnur saga.

En hins vegar eiga trúaðir jafn mikinn rétt og aðrir til þess að kjósa sér forseta að eigin vali.

En enduróm af stórkarlalegum yfirlýsingum má heyra í Íslenskri pólítík.  Merkilegt nokk helst á vinstri vængnum, þar sem þeir þykja oft mestir menn sem hafa hæst og gets tvinnað saman flestar móðganir, blóts- og heiftaryrði í eina setningu.

Og eftir því sem mér skilst þá má jafnvel finna þá á Twitter.

@Helga, þakka þér fyrir þetta.

Það er sjálfsagt að standa fast fyrir gagnvart ósvífnu fólki og kveða fast að orði.

En ég veit ekki hvort að stóryrði eða fullyrðingar á Twitter eru rétta leiðin.

En líklega gefur það atkvæði.

G. Tómas Gunnarsson, 2.5.2020 kl. 04:59

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Trump hefur allavega þá heildstæðu sýn að draga úr ríkisbákninu, vefja ofan af spillingu, reglugerðarfargani, sóun í rikisrekstri og hernaðarbrölti um víðan völl. Áherslan hefur verið á að styrkja atvinnulíf og innlenda framleiðslu, hækka laun, minnka atvinnuleysi auk þess að styrkja sjálfbærni og sjálfstæði í orkumálum.

Hann hefur sýnt vilja til friðsamlegra viðskipta við allar þjóðir og minnka lögregluhlutverk og stjórnarskiptaáráttu bandamanna. Friður og farsæld í stað hernaðarafskipta og viðhalds spennu. Undarlegt nokk eru vinstrimenn afar reiðir út í það.

Meginmarkmiðin skortir ekki og hann hefur sýnt árangur þar og staðið við loforð. Hans helsti galli er hvatvísi í mannlegum samskiptum og þau ærlegheit að segja upphátt það sem hann hugsar. Ráðgjafar og ræðuskrifarar hafa ekki vald yfir twitterreikningi hans. Hann er snillingur í að dóminera fjölmiðla og egna upp hagsmunafjölmiðlana sem eru rangeygir af hatri út í hann.

Verður spennandi að sjá hvernig demókrötum tekst til með að tefla elliærum flagara gegn honum, sem getur ekki haldið þræði í einni setningu. Vinni hann aftur, skrifast það alfarið á reikning demókrata eins og síðast. Þeim hefur ekki tekist að koma honum frá með endalausum upplognum árásum og málsóknum og ekki virðist lýðræðislega leiðin heilladrjúg heldur. 

Jón Steinar Ragnarsson, 2.5.2020 kl. 07:02

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Jón Steinar, ég held að þú hafir útskýrt vel hvernig aðdáendur og kjósendur Trumps sjá hann sem forseta.

Tommi, oftast er það nú þannig að fólk fer í stjórnmál til að gæta einhverra hagsmuna og til að verja eigin hugmyndafræði - því að hugmyndafræði manns er hluti af sjálfsmyndinni þannig að maður er í sjálfsvörn þegar maður ver sína hugmyndafræði og þegar ráðist er gegn hugmyndafræði manns upplifir maður það sem persónulega árás og fer í vörn.

Það er helst að manni sýnist Trump vilja gæta bandarískra viðskiptahagsmuna, og þá væntanlega helst olíuhagsmuna. Ídeólógían sem hann ver beinir spjótum að "ríkisbákni" og "vinstrimönnum". Minnir þannig á Samband ungra sjálfstæðismanna á Íslandi. 

Kristján G. Arngrímsson, 2.5.2020 kl. 08:44

6 Smámynd: Örn Einar Hansen

Donald Trump, getur verið svolítið ... oj oj, stundum. En hann segir það sem rétt er, og ef hann hefði ekki brugðist jafn skjótt við og hann gerði. Værum við með mun fleiri dauða í heiminum. Það má segja, með sönnu ... að Kína reyndi allt ... til að koma í veg fyrir, að menn lokuðu landamærunum.

Hvað varðar WHO ... þetta er pólitísk stofnun, sem neitar Hong Kong, Taiwan að vera með. Hver er tilgangur WHO, að vera málpípa fyrir kínverska ultra-þjóðernissinna (kommúnista)? Á tali um WHO, eiga menn að spyrja Íslensku ríkisstjórnina hvernig á því stendur að þau samþykktu að hryðjuverkamaður yrði yfirmaður stofnunarinna.

Hvað varðar Trump, þá vona ég að kauði sé nógu hugrakkur og hafi nægilegan stuðning heima fyrir. Til að spyrja ýmissa spurninga ... til dæmis, hvernig stendur á því að Bandaríkin seldu tækni, þekkingu, veirusýni og tæki til P4 stofuna í Wuhan. Þegar þeir sjálfir voru búnir að dæma hana "óörugga". Þetta er ástæða þess að leyniþjónustan dregur á eftir sér fæturna, með að koma fram með "augljósar" niðurstöður.  Bandaríkin sjálf, eiga sekt í málinu ... eitthvað sem Kína, reynir að spila á ... eins og hörpu. Sama á við Frakka, þeir byggðu þess stofu fyrir Kína ... þrátt fyrir að vera meðvitaðir um, að hún væri óörugg, og að herinn væri með fótinn þar inni. Sama á við Kanada, Ástralíu og Bretland. Meira að segja þýskaland er blandað í þetta mál.

Og fyrir þá, sem leggja átrúnað sinn á "wetmarket" ævintýrið ... þá rannsakaði Shi Zheng Li, leðurblöku veiru á þessari stofnun. Splæsti í hana S-proteini frá SARS. Skrifaði um þetta greinar, 2006, 2008, 2013 og 2015.  Í águst 2019, dó kona að nafni Huang Lee, sem vann á þessari veirustofu. Vitað er, að hún dó af "respiratory syndom". En öll gögn um dauða hennar, hafa verið fjarlægt og "leyndar stimpluð" af kínverska hernum.

Spyrjið sjálfan ykkur þessarar spurninga... af hverju, er kínverski kommúnistaflokkurinn að "neyta" erlendum aðilum aðgang að upplýsingum um sjúkdóminn.  Af hverju er kínverski herinn að blanda sér í þessi mál ... leynt, og ljóst. Svarið er augljóst ... og þess vegna er fólki bennt á að nota "grímur". En WHO, hefur rétt fyrir sér í því að grímur hjálpa ekki ... nema, og hér kemur "nema" ... ef um er að ræða aerosol veiru ... en slíkar veirur, eru framleiddar sem bio-weapon. Þeim er ætlað að berast um, gegnum andrúmsloftið ... og við smitun, manna á milli.

Það er auðvelt, að fletta uppi á þessu ...

Sannleikurinn er sá, að hversu leiðinlegur Trump er ... þá er hann í raun, eina vörn okkar ... gegn fólki eins og kínverska kommúnistaflokknum. Hvað varðar NATÓ, þá þurfa lönd í Evrópu að fara gera sér ákveðna grein fyrir ... hvar þeir vilja standa í framtíðinni. Með Kínverska kommúnistaflokknum og Rússlandi ... þar sem mannslíf, er einskis virði ... eða með þeim, sem verðmeta virði einstaklingsins.

Örn Einar Hansen, 2.5.2020 kl. 10:07

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Jón Steinar, þakka þér fyrir þetta. Akkúrat núna er engin leið til að segja hvernig fer í haust.  Það fer eftir hvernig spilast í sumar. Ég get tekið undir að Biden virkar ekki traustur og má segja að í einu skiptin sem sést minnst á hann sé þegar hann er að bera af sér kynferðisáreitni. 

En það er hins vegar þessar áskanir sem koma fram áratugum seinna.  Ekkert sannanlegt á hvorn veg sem er.  En Demókratar eru hins vegar að ýmsu leiti búnir að koma sér í þá aðstöðu að þeir verða að taka þær alvarlega.

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það er auðvitað rétt Trump vill gæta Bandarískra viðskiptahagsmuna.  Verðum við ekki að vona að allir Bandaríkjamenn hafi haft slíkan vilja?  Verðum við ekki að vona Bandaríkjamanna vegna að Joe Biden vilji það líka?

Ég vona að Katrínu Jakobsdóttur vilji líka vernda Íslenska viðskiptahagsmuni, og sýnist það.  Ég er hins vegar í meiri vafa í þeim efnum um Svandísi Svavarsdóttur.

Trump hefur lagt mikinn áhersla á almennan iðnað, mun meiri en olíuna, en það er Bandaríkjunum gríðarlega mikils virði að vera sjálfum sér nógir um olíu, þvi verður ekki neitað.

Þegar þú spyrðir saman Trump og SUS held ég að það sé lítið meira en tilraun til þess að tengja saman tvö aðila sem þér er illa við.

Ég þekki að vísu enga Unga Sjálfstæðismenn (þeir eru allir orðnir "gamlir" sem ég þekki), en flestir þeirra myndu líklega gagnrýna Trump fyrir að standa í vegi fyrir "frjálsum viðskiptum" ef þeir á annað borð tjá sig um hann.

Sjálfbærni þjóðarinnar, sem Trump leggur áherslu á, á að ýmsu leyti meiri samsvörun við Framsóknarmenn og gamla Alþýðubandalagið og svo kallaða "steinsteypukrata", en má líka tengja við ákveðinn hluta Sjálfstæðisflokks.  En ekki SUS.

En umhverfismálin eru svo annar handleggur.

En "fenið" í Washington hefur verið til umræðu lengi í Bandarískum stjórnmálum.  Um hvaða forseta skyldir þetta hafa verið ritað:

"Once a presidential candidate with deep misgivings about executive power, Mr.................. will leave the White House as one of the most prolific authors of major regulations in presidential history."

Sem persónulegt mat, tel að Trump sé langt frá því að vera mikill hægri maður.  En það gildir um marga aðra stjórnmálamenn samtímans, sem eru þó oft taldir til hægri.  Mér finnst Marine Le Pen að flestu leyti vera týpísk vinstri menneskja.

Svíþjóðar demókratar eru að mörgu leyti "íhaldsamur félagshyggjuflokkur" sem setur menningar þjóðernishyggju framarlega á stefnuskrá sína

Það er enda á "fylgismið" gömlu vinstriflokkana sem slíkar stjórnmálahreyfingar sækja.

Trump er ekki bundin af því hvort að eitthvað sé vinstri/hægri og hann er langt frá því að teljast frjálshyggjumaður.

En það að minnka báknið og fækka eitthvað hillumetrum af lögum og reglugerðum er ekki eingöngu hans í Bandríkjunum.

Og að lækka tekjuskatt á fyritæki í svipað % og gildir í Svíþjóð getur varla talist gríðarleg hægri róttækni, eða hvað?

En það er ákveðin "óreiða" í nútíma stjórnmálum, ef till verður sett á fót "starfshópur" til að kveða það í kútinn.

G. Tómas Gunnarsson, 2.5.2020 kl. 10:40

8 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þetta með Trump og SUS var nú bara gráglettni, ekki taka því of alvarlega.

Vissulega vilja allir ráðamenn gæta hagsmuna þjóðar sinnar. Einmitt þess vegna er erfitt að sjá hvað Trump er að vilja í pólitík. Það er bara ekki útlit fyrir að honum takist að ná neinum árangri vegna þess hvað hann er óheppilega gerður sem karakter. Það fer allt púður, bæði hans eigið og andstæðinga hans, í hann sjálfan. Það er varla heppilegur forseti/forsætisráðherra sem beinir öllu að sjálfum sér.

En mikil ósköp, á endanum er þetta spurning um vilja kjósenda og hvað þeir sjá í frambjóðandanum, jafnvel frekar en hvað frambjóðandinn sér sjálfur í sér eða hvaða hugmyndir hann hefur sjálfur. Er það ekki þannig sem lýðræði virkar? Ég efast um að þeir sem kusu Hitler til valda á sínum tíma hafi beinlínis verið að greiða atkvæði með útrýmingu gyðinga.

Kristján G. Arngrímsson, 2.5.2020 kl. 11:07

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Áður en Kórónufárið skalla á hafði Trump náð gríðarlegum árangri, þó að eins og alltaf megi deila um hvað það er stjórnvöldum að þakka.

Atvinnuleysi hafði aldrei verið minna, það sáust skýr merki um að lægri launahópar væru að bera meira úr býtum o.s.frv.

Almenn velmegun hafði aukist mikið á hans "vakt", en nú er því sópað í burtu.

Ég hugsa að dæmt á innanríkismálum hefði engin spurning verið að Trump yrði endurkjörinn.  Það gekk allt býsna vel.

Það er fyrst og fremst á sviði utanríkismála sem Trump hefur verið að gera sér (og vissulega öðrum) erfitt fyrir og frammistaða hans er mikið umdeilanlegri (svo ég grípi ekki til sterkari orða.

En "Kippu Kiddi" (þýðing á "joe six pack") í "miðríkjunum" lætur sér það gjarna í léttu rúmi liggja, ef buddan hans hefur það þokkalegt.  Honum líkar sömuleiðis vel að talað sé um að draga hermenn heim o.s.frv.

En Trump verður ekki kosinn af "strandríkjunum", ef svo má að orði komast.  En hann á ennþá all góða möguleika á endurkjöri að mínu mati.  Fyrst og fremst að eins og síðast eru líkur á því að mótframbjóðandi hans sé verulega álitlegur.

Það er hins vegar umhugsunarefni hvers vegna sterkari frambjóðendur koma ekki fram? 

Líklega eru margir að velta því fyrir sér.

G. Tómas Gunnarsson, 2.5.2020 kl. 11:33

10 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Tja, ætli það sem þú segir um "gríðarlegan árangur" Trumps sé ekki soldið afstætt eftir því hvernig á það er litið? Má ekki frekar segja að hann hafi bara verið heppinn með ytri aðstæður - jafnvel að þessi uppgangur allur hafi orðið þrátt fyrir Trump og "stefnu" hans.

Til að geta fullyrt svona afdráttarlaust um þetta þyrfti að vera hægt að bera þennan meinta árangur Trumps saman við árangur einhvers annars forseta á sama tíma, en þann samanburð er auðvitað ekki að hafa.

Hversu "skýr merkin" um betri stöðu láglaunahópa voru fer nú líklega eftir því hvern þú spyrð. Alltaf hægt að finna einhverja sem upplifa þetta svona. Það eru alltaf menn sem mæla og þeir miða við sjálfa sig, ekki satt?

Kristján G. Arngrímsson, 2.5.2020 kl. 11:58

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Ég skrifaði í athugasemdinni sem ég tel þvi vera að svara: 

"Áður en Kórónufárið skalla á hafði Trump náð gríðarlegum árangri, þó að eins og alltaf megi deila um hvað það er stjórnvöldum að þakka."

Ég held ekki að ástandið hefði verið mikið betra án nokkurra aðgerða hans. Minnsta atvinnuleysi o.s.frv.  Það er auðvitað þekkt samhengi í sögunni að lágt atvinnuleysi lyftir launum.

Það er ekki tilviljun að Íslensk verkalýðshreyfing setti sig yfirleitt upp á móti atvinnuleyfum til útlendinga nema brýna nauðsyn bæri til.  Þetta var nú svona áður en EEA/EES samningurinn kom til framkvæmda.

Samt rekur mig ekki minni til að verkalýðshreyfingin væri sökuð um þjóðernishyggju eða rasisma.  Þeir voru einfaldlega að gæta hagsmuna sinna félagsmanna. 

Ég held að CNBC hafi almennt ekki verið sakað um hlutdrægni til stuðnings Trump: 

https://www.cnbc.com/2019/03/13/workers-at-lower-end-of-pay-scale-getting-most-benefit-from-rising-wages.html

En hins vegar má alltaf deila um áhrif stjórnvalda og hversu mikil áhrif aðgerðir þeirra hafa.

En því verður ekki á móti mælt að efnahagslífið "tikkaði" býsna vel á hans vakt.

Hefði einhver annar gert betur?  Um það getur enginn sagt.

G. Tómas Gunnarsson, 2.5.2020 kl. 12:21

12 Smámynd: Örn Einar Hansen

"Hefði einhver annar gert betur?  Um það getur enginn sagt."

Ég tel okkur geta sagt það að mikilli ákveðni. Trump er "busienss" maður, og efnahagslífið er hans sér-grein. Biden, andstæðingur hans ... mun selja bandaríkin til Kína, án nokkurs efa.  Slíkt mun kosta almenning aleiguna, en gefa skammtíma hagnað fyrir fyrirtækja eigendur.

Svíþjóð, er eina raunverulega lýðræðisríkið í Evrópu ... þar sem mannlíf, einkalíf og einstaklingurinn er virtur. Í öllum öðrum ríkjum Evrópu, meira að segja í Bandaríkjunum sjálfum ... sátu menn við, að ræna almenning frelsinu við fyrsta mögulega tækifæri.

Það er hættulega stutt í fasismann í Evrópu.

Örn Einar Hansen, 2.5.2020 kl. 14:37

13 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Engan skal dæma fyrr en sekur reynist, en það eru eru fleiri fætur undir ásökunum á Biden en gegn Kavanaugh, svo mikið er víst. Opinber þef og þuklárátta Bidens í gegnum tíðina dregur ekki úr trúverðugleikanum.

Svona gömul mál eru nánast ósannanleg orð gegn orði mál. Merkilegt er þó að CNN  fjallaði 700 sinnum um meint brot Kavanaugh en núll um þetta. Segir svolítið um stöðu fjölmiðlunnar í USA.

Ég held að þetta mál hafi úrslitaþýðingu fyrir Biden, enda skellt skollaeyrum við því. Heilsufar hans er hinsvegar áhyggjuefni og ég er spenntari fyrir að vita hvaða varaforsetaefni hann velur, því mér þykir sennilegt að hún taki við embættinu kortéri eftir vígslu. Kannski verður eitthvað surprice þar. Kannski Hillary dúkki upp, sem þó er ekki svo mikið surprice. Guð blessi ameríku þá.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.5.2020 kl. 14:39

14 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Örn, þakka þér fyrir þetta. Biden hefði aldrei verið við þetta kjörtímabil. Ég er ekki að segja að H.Clinton hefði staðið sig betur heldur.  En það er ekki þar með sagt að enginn hefði gert það.

Ekki ætla ég að segja að Svíþjóð sé eina lýðræðisríkið í Evrópu, en það er vissulega orðið umhugsunarvert þegar Svíþjóð er helst legið það á hálsi að banna of lítið.

@Jón Steinar, þakka þér fyrir þetta.  Það er eins og alltaf áður rétt að hafa í huga að menn eru saklausir þar til sekt er sönnuð.

Ég hef enga trú á því að sekt sannist á Joe Biden og því telst hann saklaus í mínum huga.  Það er þó rétt að taka fram að ég er í engri aðstöðu til að ákveða sekt hans eða sakleysi. 

En í siðmenntuðum ríkjum þarf sannanir.  Það er vissulega rétt að stundum vantar upp á að slíkt sé haft í heiðri í "nútíma fjölmiðlun".

Hvað varaforsetaefni hans áhrærir þá er erfitt að spá um slíkt, en ég myndi leggja góðan pening á að það yrði ekki H. Clinton. 

Það yrði líklega sterkur leikur fyrir Biden að hafa konu í framboði með sér, en hún þarf að vera undir sjötugu, helst all nokkuð.

Ég myndi telja að hann velji konu annað hvort undir eða lítið yfir sextugu.

Ég myndi telja allt eins líklegt að hún komi úr hóp svartra eða "hispanics" og Biden reyni þannig að undirstrika að hann hyggist fylgja eftir "arfleifð" Obama.

En þetta er bara vangaveltur í hinn kunna bláa lit.

En það verða fróðlegar kosningar í haust.

G. Tómas Gunnarsson, 2.5.2020 kl. 17:53

15 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég segi nú þarna í upphafi að engan skuli dæma fyrr en sekur reynist. Hvað sem öðru líður held ég líka að hann verði ekki dæmdur fyrir nætt, hver sem raunveruleg sök er. Mér finnst sjálfum ekkert óliklegt að hann hafi gerst sekur um svona háttsemi. Það hefur hann sjalfur sýnt í nærgöngulli framgöngu við konur.

Hann er sjálfur búinn að ramma sig svolitið inn með varaforsetaefnið. PC verður það að vera. Kona og helst blökkukona. Ég spái því að sú kona verði forseti fyrir mitt kjörtímabil. Botna annars ekkert í því hvað demókratar eru að hugsa. Sjálfum fannst mér Tulsi Gabbard frá Hawai vera sú eina með hausinn rétt skrúfaðan á af þessari ósannfærandi uppstillingu frambjóðenda.

Sá hópur var ansi breið samsetning í kynjum og kynþáttum, aldri og rófi miðju til vinstri. Að niðurstaðan hafi orðið sú að gamall graður hvítur kall með augljósa kölkun yrði ofaná gengur einhvernvegin þvert á allt sem demókratar hafa boðað diversity pólitík sinni þar sem hörundslitur og gerð þvagfæra hefur skipt öllu í orði.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.5.2020 kl. 19:45

16 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ef eldgamall hvítur, ríkur, kapitalískur karríerbúrokrat og dónakall er andlit demókrataflokksins, þá hlýt ég eitthvað hafa miskilið þennan flokk.

Ef bleikhærð aldamótakynslóð á óræðu kynrófi með hörund þynnra en loft og veikari persónustyrk en snjókorn í sahara gerir sér að góðu að kjósa hann, þá eru ameríks stjórnmál afstæðari en allt sem afstætt er. Og er þá mikið sagt í allri afstæðnishyggju vinstristjórnmála.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.5.2020 kl. 19:57

17 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég held að það sé eiginlega alveg merkingarlaust að segjast vera sammála eða ósammála Trump um nokkurn skapaðan hlut. Ástæðan er sú að ég held ekki að hann hafi í raun og veru neinar pólitískar skoðanir.

Forsetaframboð hans var tilraun um það hversu langt væri hægt að komast sem raunveruleikastjarna. Honum sjálfum og fjölskyldu hans til mikillar skelfingar endaði sú tilraun með því að hann var kjörinn forseti. Hann var því dæmdur til að leika það hlutverk í fjögur ár. Mistök og klúður hafa síðan orðið til þess að hann er dæmdur til að reyna að fá tækifæri til að leika hlutverkið í önnur fjögur ár.

Þorsteinn Siglaugsson, 2.5.2020 kl. 20:55

18 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þarna held ég að Þorsteinn hitti naglann á höfuðið.

Mér hefur alltaf sýnst Trump vera mjög dæmigerður bullari, það sem á ensku kallast bullshitter. Skilgreiningin á bullara er í sem stystu máli sú að sannleikur og lygi skipta hann engu. Hann hefur nákvæmlega enga sannfæringu. Sannleikur og raunveruleiki hefur enga hlutlæga merkingu í huga hans. Það er til frábær lítil bók um svona fólk: On Bullshit eftir Harry Frankfurt.

Sjá: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1033150/

Kristján G. Arngrímsson, 2.5.2020 kl. 21:32

19 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Fín grein hjá þér Kristján. Að lesa hana er eins og að lesa spádóm um Trump.

Þorsteinn Siglaugsson, 2.5.2020 kl. 23:51

20 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Jón Steinar, þakka þér fyrir þetta. Já, ég var að taka undir með þér og undirstrika að ég lít á einstaklinga sem saklausa þangað til sekt þeirra er sönnuð.  Sérstaklega þó í málum sem koma upp áratugum síðar og snúast mest um orð gegn orði.

En trúverðugleiki er annað mál og það er einmitt þess vegna sem slík mál koma upp aftur og aftur.

Alltaf snýst valið um það sem er í boði. Þegar valið stóð aðeins á milli Biden og Sanders, kom mér ekki á óvart að Biden ynni. Ég á erfitt með að sjá Demókrata með frambjóðenda sem boðar eignaupptöku, jafnvel þó að margir "kimar" flokksins hafi færst vel til vinstri.

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Fyrir mér er það aldrei merkingarlaust að styðja mál sem mér þykja góð og stefna (að mínu mati) til betri vegar.  Það skiptir mig littlu hver leggur þau fram.

Kenningar um "The Accidental President", gæti orðið áhugaverð bíómynd eða Netflix þættir en ég er ekki trúaður á þær.

Eins og Trump kemur mér fyrir sjónir, er hann reiðubúinn til þess að "taka sjénsinn", ef svo má að orði komast, en hann leggur ekki undir með því markmiði að tapa.  Hann lagði jú töluvert af milljónum í baráttuna af eigin fé (Ég held ekki heldur að Bloomberg hafi ætlað að tapa þó að hann hafi orðið að játa sig sigraðan).

Undirbúningur að endurkjöri hófst í janúar 2017, þannig að það stenst ekki heldur að hann hafi viljað hætta. Fyrstu fjáröflunarsamkomurnar voru haldnar í febrúar sama ár.

Eftir því sem mér skilst hafa kosningaskrifstofur hans aldrei lokað og hann er búinn að safna ógrynni fjár.

Ég tel því ljóst að markmiðið var alltaf 8. ár.

Ég held (en þetta er bara ágiskun og vangaveltur) að Trump (en þó líklegar einhver sem hafði samband við Trump) sá ákveðna smugu sem hægt væri að nota.  Republikanir voru búnir í tveimur kosningum á undan að bjóða upp á "solid guys", svona í ýsmu ekki ósvipaða Biden og engum árangri náð.

Síðan gefa forsetaskipti alltaf ákveðna möguleika. Svo spilar heppni líklega inn í, nöfn eins og Bush og Clinton skjóta upp kollinum og "the outsider" hagnast. 

Hvað varðar heildstæða stefnu, er hún ekki algeng í stjórnmálum dagsins. Hver er hin heildstæða stefna ríkisstjórnar Íslands, eða flestra annara ríkisstjórna samtímans?

Reyndar er það líklega frekar erfitt fyrir forseta 50 ríkja að vera með virkilega heildstæða innanríkisstefnu, því hafa fleiri en Trump kynnst.  Þess vegna hafa margir látið utanríkisstefnu í framsætið, en að mínu mati er það einmitt þar sem Trump hefur valdið mestum usla og ruglingi.

Nútíma stjórnmálamenn tala ekki um stefnur, eða hugsjónir.  Þeir tala um vandamál og lausnir. Þeir eru lausnamiðaðir. 

"Bullarar" eru svo í stjórnálum allt í kringum okkur.  En margir þeirra koma vel fyrir sig orði, hafa góðan stíl (eða vit á því að ráða einhvern sem hefur hann), eru kurteisir, hafa kjörþokka og geta talað í 10 til 20 mínútur án þess að segja mikið.

Margir hafa sagt að peningar "kaupi" kosningar. Ekki svo í dæmi Trumps, hann eyddi mun minna fé en bæði keppinautar hans í forkosningum og svo forsetakosningunum.

En hvers vegna hann náði til almennings með þeim hætti sem hann gerði get ég ekki útskýrt.

Það þykir mörgum að óreiða sé í upplýsingum, en hún er ekki síður í stjórnmálum.

P.S. En það er gömul saga og ný að það er auðveldara að samsinna hópnum ("gáfumönnunum") heldur en að setja sig á móti honum.

En "bull" og lygi geta að sjálfsögðu átt samleið, en líklega er ekki hvað síst algengt að verða vitni að því að stjórnmálamenn "bulli" til að koma í veg fyrir að þeir þurfi að segja ósatt.  T.d. sem svar við erfiðri spurningu.

Lærdómurinn sem Bush eldri skyldi eftir handa stjórnmálafólki er að forðast öll "read my lips" dæmi.

G. Tómas Gunnarsson, 3.5.2020 kl. 06:39

21 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Er Biden semsagt engin bullari? Bara solid gæi með sterka stefnu sem ameríka þarf akkúrat núna? Bara pæling.

Hér utan efnis eru annars fróðlegir þankar um uppruna kórónavírussins.

https://youtu.be/R6y8dlhoMpo

Jón Steinar Ragnarsson, 3.5.2020 kl. 06:59

22 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má ef til vill bæta því við að "ósýnilegu fötin" eiga sér skýra samsvörun í Íslenskri sögu og raunveruleika.

Þá voru þau kölluð "Gerska ævintýrið" og þar vantaði ekki "gáfumenninn" og mikilhæfa vefara.

En hverjir voru "lygarar" og hverjir "bara bullarar"?

G. Tómas Gunnarsson, 3.5.2020 kl. 07:05

23 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Tommi, það er svo sannarlega satt að stjórnmálamenn hvarvetna grípa oft í bullið, bæði ráðherra og ekki síst borgarstjórar (ahemm!). 

En ég held að þeir íslensku "gáfumenn" sem trúðu á gerska ævintýrið hafi trúað því í raun og sann, alveg eins og sumt fólk trúir alveg raunverulega á Guð. Svo reyndist ævintýrið vera pótemkíntjöld - sem eru líklega fyrirbæri náskylt nýju fötunum keisarans.

Hinn "eiginlegi Trump" er sennilega eins og "föt" keisarans - aðeins til í hugum kjósenda hans sem upplifa hann eins og Jón Steinar lýsir svo vel hér að ofan. Þannig séð er forsetatíð Trumps eins og raunveruleikasjónvarp, sbr. útskýringu Þorsteins.

Sem er auðvitað mjög sorglegt því að líf flestra kjósenda hans, Kobba kippu í Kentucky, er mjög raunverulegt.

Kristján G. Arngrímsson, 3.5.2020 kl. 07:36

24 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Höfundur "Gerska ævintýrsins" sá hlutina með eigin augum.

Það gerðu fleiri sem lofsungu það.

Einhverjir gerðu (þar á meðal höfundur) játningu síðar, sem jafngildir eiginlega að viðurkenna að þeir voru lygarar. En það beytir því ekki að jafnframt lygunum höfðu þeir bullað.  En í vönduðum og góðum stíl.

Sjálfsagt voru líka einhverjir sem hafa ekki viljað viðurkenna að sjá ekki og skilja það sama og "gáfumennin".

Þeir voru líka til sem höfðu farið á "ævintýraslóðir" og eins og barnið sáu í að "kommissarinn" var í engum fötum. Skiptu um skoðun.

En það er bara í "ævintýrunum" sem börnum er trúað.  Í raunveruleikanum voru "börnin" kölluð lygarar og svikarar.

Staðreyndin er sú að líf "Kidda kippu" hefur í flestum tilfellum lyftst upp á valdatíma Trump.  Eins og kom fram að ofan er það alltaf umdeilanlegt hvað er stjórnmálamönnum að þakka, en það breytir því ekki að það er á hans "vakt".

Á síðasta ári hugsa ég að flestir Bandaríkjamenn hafi talið sig hafa það all betra en fyrir 4. árum.

En nú er allt breytt.

G. Tómas Gunnarsson, 3.5.2020 kl. 08:09

25 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Að ljúga er að segja vísvitandi ósatt. Ég held að þeir sem trúðu á gerska ævintýrið hafi yfirleitt ekki verið að því, þótt það sem þeir trúðu á hafi verið lygi. Maður myndi ekki segja að þeir sem játa trú á guð séu að ljúga, er það?

Ég held líka að Trump sé ekki að ljúga (amk alls ekki alltaf), hann bara veltir ekkert fyrir sér sannleiksgildi orða sinna, þ.e. hvort þau eru sönn eða ósönn.

Kristján G. Arngrímsson, 3.5.2020 kl. 08:37

26 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Ég er sammála því að það að ljúga er að segja vísvitandi ósatt.  Eins og vefararnir gerðu.

Ég er alls ekki að segja að allir sem "trúðu á Gerska ævintýrið" hafi verið lygarar.

En ég held að flestir ef ekki allir sem sáu "ævintýrið" með eigin augum hafi verið það.

En þeir voru "vefararnir" og héldu áfram að lýsa "fötunum" fyrir almúganum. Eða voru þeir "hinir" sem þorðu ekki að segja að þeir sæju ekki "dýrðina"?  Voru þeir bara "bullarar"?

Líklega má segja að "Sovétið" hafi verið ákveðinn brautryðjandi í notkun "áhrifavalda", þó að enginn hafi notað þá skilgreiningu á þeim árum.

Hvers vegna?  Ekkert hægt að fullyrða um slíkt. En einstaklingar "bindast" trú sinni og svo má líka velta fyrir sér fjárhagslegum ávinningi.

Fengu vefarar keisarans ekki ágætlega borgað?

Hvort að einhver hafi séð guð og himnaríki hans í lifanda lífi veit ég ekki.  Um slíkt mætti sjálfsagt deila.

En margir sem ég hef hitt og kannast stundum örlítið við, og segjast trúa á guð, hljóta (að mínu mati) annað hvort að vera að ljúga eða taka ótrúlega lítið mark á honum, en það er önnur saga.

En í mörgum "aðstæðum" er auðveldara að segjast trúa á guð en ekki.  Ég hef sjálfur verið í slíkum kringumstæðum.  En sem betur fer hefur slíkt breyst.

P.S.  Ég notaði "ritstjórnarvald" mitt og eyddi tveimur af athugasemdum þínum.  Tvítekningunni og afsökuninni á henni.

Vona að þú sért sáttur við það, en ef ekki set ég þær aftur inn.

G. Tómas Gunnarsson, 3.5.2020 kl. 10:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband