Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2020
14.4.2020 | 08:31
Er ríkið sem næstum enginn vill viðurkenna að standa sig hvað best?
Ekki vill ég ræna þær heiðurskonur sem nefndar eru í fréttinni hér á mbl.is hrósinu eða heiðrinum.
Þær hafa staðið sig almennt vel, ekki eingöngu hvað varðar baráttuna gagnvart Kórónuveirunni, heldur einnig í mörgu öðru.
Það er samt rétt að taka það fram að það er ekki tímaritið Forbes, sem er að hrósa leiðtogunum, heldur er um að ræða það sem oft er kallað dálkahöfundur (Forbes kallar það "contributor) að nafni Avivah Wittenberg-Cox.
Hún er ráðgjafi, markþjálfi, rithöfundur og fyrirlesari.
Forbes tekur það fram að skoðanir í slíkum dálkum séu dálkahöfundanna (ekki blaðsins), rétt eins og fjölmiðlar gera gjarna.
Þetta er því ekki grein viðskiptatímaritsins Forbes, heldur grein í viðskiptatímaritinu Forbes.
Hér stendur mbl.is þó mjög vel miðað við ruv.is, sem slær því upp í fyrirsögn: "Forbes mærir Katrínu og kvenleiðtoga í COVID-faraldri."
Í fréttinni eru skrifin síðan eignuð blaðamanni Forbes.
Ég geri mér grein fyrir því að mörgum þykir þetta vera tóm leiðindi af minni hálfu, en ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að vandaðir fjölmiðlar hafi staðreyndir í heiðri og segi rétt frá.
En þetta var útúrdúr.
Það sem mér kom í hug þegar ég las þessa frétt og svo síðar dálkinn í Forbes, er sú staðreynd að öll þessi ríki (nema eitt auðvitað) sem stjórnað er af þessum skörulegu konum eiga það sameiginlegt að viðurkenna ekki eitt ríkið sem fjallað er um.
Taiwan.
Það eru aðeins í kringum 15 ríki sem viðurkenna Taiwan og ekkert þeirra "vestrænt" ef ég man rétt.
Taiwan fær ekki aðild að Sameinuðu þjóðunum, né undirstofnunum þess, eins og vel hefur komið í ljós í samskiptum þess við WHO á undanförnum vikum.
Þó varð Taiwan einna verst af öllum ríkjum í SARS faraldrinum 2003, ég held að einungis Kína og Hong Kong hafi orðið verr úti. Ef til vill er það hluti af skýringunni á því hvað það stendur sig vel nú.
Í upphafi stóðu Taiwan og Kína andspænis hvort öðru og hvort ríkið taldi sig eiga að ráða yfir hinu.
En Taiwan hefur breytt um stefnu í viðleitni sinni til að verða viðurkennt í samfélag og þjóðanna og en hefur lítið miðað áleiðis.
En eftirtektarverð undantekning er á, en Taiwan, undir skráningunni Chinese Tapei (er samt undir T í stafrófsröðinni), er meðlimur í WTO (Alþjóða viðskiptastofnuninni), þó að Kína sé það sömuleiðis.
Það var einmitt núverandi forseti sem leiddi samninganefnd Taiwans við það tækifæri, en þá hafði hún ekki hafið stjórnmálaþátttöku.
Þar hafa bæði Kína og Taiwan tekið þátt í starfseminni frá því snemma á þessari öld.
Það er óskandi að svo geti orðið í fleiri alþjóðlegum stofnunum og ríkin semji sín á milli.
Hér má lesa ágætis skrif um Taiwan og diplómatískar tilraunir þess.
P.S. Líklega hafa margir tekið eftir ónákvæmni í dálkaskrifunum í Forbes, þegar talað er um að undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur, standi öllum Íslendingum til boða ókeypis skimun.
Þar er ekki við Forbes að sakast, heldur dálkahöfundinn.
Þannig gerast þó hlutirnar oft, og ég varð margsinnis var við slíkt t.d. hvað varðaði fréttaflutning um Ísland í kringum bankahrunið.
Fékk mig virkilega til að velta því fyrir mér hversu mikið ég gæti treyst fréttum, sérstaklega frá fjarlægari löndum.
Kvenleiðtogar ná hvað bestum árangri gegn veirunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (42)
11.4.2020 | 13:54
Nokkrar tölur sem ég hef rekist á
Undanfarna daga hef ég, líklega eins og margir aðrir, eytt of miklum tíma á netinu. En það er þó hægt að hugsa sér verra hlutskipti.
Þar fljúga tölur og samanburður um allt og stundum er eins á "nýjustu tölur" um dauðsföll eða smit minni á kosningasjónvarp eða verðbréfa "tickera".
Persónulega er ég þeirrar skoðunar að samanburður á milli landa sé fánýtur enn sem komið er, tölulegar upplýsingar eru af misjöfnum gæðum, safnað á mismunandi máta, mis áreiðanlegar o.s.frv.
En það breytir því ekki að ég hef rekist á margar fróðlegar tölulegar staðreyndir. Þá er ég fyrst og fremst að tala um tölur frá fyrri árum, en eitthvað af nýjum. Sumt hafa kunningjar mínir sent mér í tölvupósti.
En það er oft fróðlegt að sjá eldri tölur og hafa þær í huga þegar nýjustu "æsifregnirnar" eru lesnar í fjölmiðlum dagsins.
Ég birti hér nokkrar tölulegar upplýsingar. Ég hef eftir fremst megni reynt að velja áreiðanlegar vefsíður og fjölmiðla.
Samt er rétt að hafa í huga að tölulegar upplýsingar eru misáreiðanlegar og "hinn endanlegi sannleikur" er oft lengi að koma í ljós, ef hann gerir það nokkurn tíma.
Hvað deyja margir Bandaríkjamenn af völdum "venjulegrar" influensu á hverju ári? CDC segir að frá 2010, hafi 10.000 til 60.000 dáið af völdum flensu árlega. Flensutímabilið 2017 til 2018 var slæmt og áætlar CDC að u.þ.b. 61.000 einstaklingar hafi látist og í kringum 800.000 Bandaríkjamenn lagst á sjúkrahús af völdum flensu. Rétt er að hafa í huga að enn er um áætlanir að ræða. En þann vetur áætlar CDC að 45 milljónir Bandaríkjamanna hafi smitast af flensunni.
Finnska ríkisútvarpið sagði frá því í fréttum að tilfelli "venjulegrar" influensu væru 5.000 færri en í fyrra.
Áætlað er að fast að 11.000 einstaklingar deyji á Ítalíu á hverju ári af völdum svo kallaðra "ofur baktería". Ýmis önnur lönd eru ekki langt undan. Heildartalan fyrir Evrópusamabandið er líklega í kringum 33.000.
Sambærileg tala fyrir Bandaríkin er líklega rétt undir 30.000.
Ísland kemur afar vel út úr þessum samanburði. Það sama gildir t.d. um Kanada.
Ég hef séð greinar þar sem talað er um að þetta tengist, meðal annars, óhóflegri notkun sýklalyfja í dýraeldi. Ég hef ekki séð það sannað með óvéfengjanlegum hætti, en tölur yfir sýklalyfjanotkun nokkurra Evrópuríkja í þessum tilgangi má sjá hér.
Árið 2009 söfnuðu Íslendingar ullarfatnaði til að gefa ellilífeyrisþegum í Bretlandi. Þá fullyrtu Íslenskir fjölmiðlar (ég er ekki að draga það í efa) að á frá desember árið 2007 fram í mars 2008, hefðu 25.000 breskir ellilífeyrisþegar dáið úr kulda. Það eru þá ríflega 6.000 í hverjum mánuði.
Árið 2016 dóu ríflega 421.000 einstaklingar vegna öndunarfærasjúkdóma í Evrópusambandslöndunum (þá með Bretlandi).
Árið 2015 fengu 10.4 milljónir manna í heiminum berkla. 1.4 milljónir af þeim dóu.
Línuritið hér að neðan fékk ég sent í tölvupósti frá tímaritinu Spectator fyrir nokkrum dögum. En það nær ekki lengra en ca. til enda mars og síðan hafa dauðsföll aukist verulega. Línuritið er byggt á gögnum héðan.
Hér er svo annað línurit frá Bretlandi, sem sýnir tölur fyrir árið í ár, og samanburð við meðaltal síðustu 5. ára.
Enn vil ég vekja athygli að þetta nær aðeins yfir fyrstu 13. vikur ársins og síðan hefur syrt í álinn í Bretlandi. Tölurnar gætu ennfremur breyst í hvora átt sem er þegar fram líða stundir.
En línuritið er fengið héðan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.4.2020 | 07:33
Hálfsagðar fréttir
Það eru víða sagðar fréttir í æsingastíl þessa dagana. Sá atburður sem fjallað er um hér er ágætis dæmi um slíkt. Fréttir af honum eru ekki falsfréttir í þeim skilningi að þær séu rangar, heldur eru þær frekar hálfsagðar.
Í mörgum fjölmiðlum er talað/skrifað eins og risafjöldagrafir séu hér og þar í New York.
Reyndar má hrósa mbl.is fyrir að fara hægar í sakirnar en margir aðrir fjölmiðlar gera.
Í raun má segja að fjöldagröfin sé ein og hafi verið til staðar í kringum 150 ár. Hún er á Hart eyju.
Talið er (engin veit líklega með vissu) að þar séu grafnir ríflega milljón einstaklingar.
Það er stór tala þegar tekið er tillit til þess að eyjan er u.þ.b. 1.6km X 0.5km að stærð.
Það má því vera ljóst að þar er ekki um að ræða leiði eins og við flest þekkjum þau.
Þarna hefur New York borg grafið þá einstaklinga sem látast og enginn sækir líkið og ef aðstandendur lýsa því yfir að þeir hafi ekki efni á útför.
Bill de Blasio, borgarstjóri New York borgar hefur sagt að þær reglur hafi ekki breyst, né sjái hann fyrir sér að það verði gert.
Að jafnaði er talað um að þarna séu grafnir 25 einstaklingar í hverri viku. Það sveiflast eitthvað eftir árstíðum eins og margt annað.
Nú er talað um að sú tala sé 6 til 7 föld.
Það ætti í sjálfu sér ekki að koma á óvart í miðjum faraldri, en ef til vill segir það okkur eitthvað um þjóðfélagshóp sem fer illa út úr faraldrinum, en það er of snemmt að segja nokkuð til um það. Líklega kemur það í ljós síðar.
En það segir sig sjálft að núna er sömuleiðis mikið álag hjá útfararþjónustum, líkbrennslum og öðrum sem sinna þjónustu í kringum jarðarfarir.
Besta umfjöllunin sem ég hef séð enn sem komið er um þetta mál er í The Independent. Hófstillt, full af staðreyndum og öll sagan sögð ef svo má að orði komast.
Það hefur þó nokkuð verið talað um að það sé nauðsynlegt að við höldum ró okkar.
Það er enn mikilvægara þegar kemur að fjölmiðlum.
Nota fjöldagrafir í New York | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.4.2020 | 05:25
Næstum því eins og í "gamla daga"
Nú er runninn upp föstudagurinn langi. Ekki veit ég af hverju hann er langur á Íslandi (og Norðurlöndunum)en góður hjá Enskumælandi fólki. Það verða einhverjir aðrir að útskýra.
Hér í Eistlandi er þessi föstudagur stór (suur), en það er ekki langt frá merkingunni langur.
En í minni fjölskyldu hefur oft verið grínast með mismunandi merkingar orða í þeim tungumálum sem við notum.
Þannig hef ég oft sagt krökkunum mínum að í minni barnæsku hafi þessi dagur svo sannarlega verið súr (sami framburður og suur).
Ég var einmitt að hugleiða það yfir kaffibollanum nú í morgunsárið að líklega væri þetta þetta það næsta því sem yngri kynslóðir kæmust að upplifa föstudaginn langa eins eldri kynslóðir gerðu.
Það var fátt í boði. Allt var lokað. Engar matvöruverslanir (hvað þá aðrar verslanir), bensínsstöðvar, veitingastaðir, eða aðrir samkomustaðir máttu vera opnir.
Ríkisútvarpinu og Sjónvarpinu (1. rás af hvoru) bar að því virtist lagaleg skylda til þess að senda út leiðinlega dagskrá sem "enginn" nennti að horfa á.
Teiknimyndir á föstudaginn langa hefði líkega verið talið guðlast. Popptónlist í útvarpinu sömuleiðis.
En að vísu máttum við fara út og það jafnvel í hópum. Að því leyti var staðan jákvæðari en hún er í dag. Engin krakki eða unglingur hafði síma, þannig að truflun og "heimkall" var mun erfiðara.
En það var ekkert internet, Netflix var ekki einu sinni orðið að hugmynd, hvað þá YouTube, Spotify og allt þetta.
Um páskadag giltu sömu reglur, en þá var meira súkkulaði í boði, sem gerði hann bærilegri.
Á skírdag máttu skemmtistaðir vera opnir til miðnættis, en það mátti ekki dansa. Eftirlitsmaður frá ríkinu kom og sá um að ekkert slíkt ætti sér stað.
Skilaboðin frá ríkinu: Eitthvað af brennivíni er í lagi, svo lengi sem ekki er dansað. Bjór mátti auðvitað engum selja, hvorki þann dag né aðra fyrr en 1989.
Seint á 9unda áratugnum var svo stigið stórt skref í frjálsræðisátt þegar skemmtistöðum var leyft að opna á miðnætti eftir föstudaginn langa og páskadag. Þó fór það eitthvað eftir sýslumönnum, því þeir gáfu út skemmtanaleyfin.
Um miðjan 9unda áratuginn var útvarpsrekstur gefinn frjáls og Bylgjan og Stöð2 hófu útsendingar.
Svo var slakað á hvað varðaði verslanir, veitingastaði o.s.frv. Hægt og rólega færðist samfélagið áfram veginn.
En það gerðist ekki með því að enginn talað fyrir frelsinu, eða berðist gegn stjórnlyndinu.
Frumvörp um frjálst útvarp og að Íslendingar gætu drukkið bjór voru marg sinnis lögð fram á Alþingi. En stjórnlyndisöflin höfðu alltaf sigur framan af.
Sjaldan eða aldrei þótti "rétti tíminn" til að taka upp "slík mál".
Nú er svo komið að Íslendingar geta látið "guðlast" rata af vörum sínum. Þeir geta gefið út blöð og framleitt sjónvarpsþætti, þar sem gert er grín að "almættinu", jafnvel sýnt þá á páskum, án þess að eiga það á hættu að ríkiskirkjan kæri þá til lögreglu.
En það er ennþá fjölmargar breytingar sem er þess virði að tala um, berjast fyrir og leggja fram frumvörp um.
Það er ef til vill kjörið tækifæri fyrir foreldra að nota daginn í dag til þess að útskýra fyrir yngri kynslóðum að þrátt fyrir að samkomubann og samgöngulausa hvatningu, þá lifum við góða tíma og velmegun og frjálslyndi eykst jafnt og þétt, þó að stundum hlaupi snuðra á þráðinn.
Ég óska öllum nær og fjær góðs dags og hann verði ekki of "langur".
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.4.2020 | 18:11
Finnar ætla að hefja framleiðslu á hlífðargrímum fyrir heilbrigðisstarfsfólk - í Finnlandi, til frambúðar. Skandall hjá Finnsku "Neyðarbirgðastofunni".
"Neyðarbirgðastofa" Finnlands hefur skrifað undir samning við Finnska fyrirtækið Lifa Air um að framleiða hlífðargrímur í Finnlandi.
Segist fyrirtækið ætla að framleiða allt að 100 milljónir hlífðargríma í Finnlandi árlega.
Þá er bæði talað um öndunargrímur (respirators) og hefðbundnari hlífðargrímur (surgical masks). Muninn á þessu tvennu má sjá hér, en ég veit ekki hvaða Íslensku orð eru notuð sem lýsa þessum mun.
Fyrst í stað mun fyrirtækið frameleiða hlífðargrímurnar í verksmiðju sinni í Kína, en fljótlega verður framleiðslan flutt til Finnlands.
Þannig hyggjast Finnar leysa sín vandræði hvað varðar hlífðargrímur til frambúðar.
En ég bloggaði hér áður um frétt Yle, um hlífðargrímur frá Kína sem komu til Finnlands og stóðust ekki kröfur.
Nú hefur það mál heldur betur undið upp á sig samkvæmt frétt Yle. Virðist sem að "Neyðarbirgðastofa" Finnlands hafi heldur betur hlaupið á sig og borgað út 5. milljónir euroa, til frekar vafasamra viðskiptaaðila.
Hreint ótrúlegt að innkaupastofnun á vegum hins opinbera hlaupi svona á sig. Ráðherra hefur þegar fyrirskipað opinbera rannsókn á málinu og ekki ólíklegt að það gæti orðið að nokkuð stórum skandal.
5. milljón euro eru ekki smáaurar.
Það verður því að lesa bloggfærslu mína og þá frétt Yle sem hún fjallaði um, frá breyttu sjónarhorni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.4.2020 kl. 02:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2020 | 17:41
Risa heima húspartý á föstudaginn langa frá hádegi
Líklega er málsháttur þessarar páskaeggjatíðar, "Hollur er heimafengin baggi". Honum má líklega breyta í t.d. "Holl er heimaskemmtun", "Hollast er heimaferðalagið", eða "Hollast er sér heima að skemmta", nú eða jafnvel "Heima er heilsan vernduð". Síðan má velta fyrir sér málsháttum eins og "Skipað gæti ég væri ég Víðir".
En hefur verið skemmtilegt að fylgjast með allri þeirri afþreyingu sem boðið hefur verið upp á á netinu, ekki bara á Íslandi, heldur um allan heim.
Þannig er hægt að "ferðast" víða um heiminn á netinu, njóta menningar og lista og alls kyns afþreyingar.
Söfn, athyglisverðir staðir, plötusnúðar, skemmtikraftar og tónlistarmenn, hafa verið að streyma alls kyns fróðlegu og skemmtilegu efni.
Á morgun, föstudaginn langa stendur hljómplötufyrirtækið Defected fyrir sínu þriðja "sýndarveruleika festivali". Hin fyrstu 2. voru stórkostleg og ég á von á því að hið þriðja gefi þeim ekkert eftir.
Ég hef hvergi séð staðfestan lista yfir þá sem munu spila, en talað er um að Calvin Harris muni spila undir dulnefninu "Love Generator" og síðan Claptone, Roger Sanches, Mike Dunn, Black Motion, Sam Divine, David Penn og The Mambo Brothers. Ef til vill einhverjir fleiri.
Eftir því sem ég kemst næst byrjar fjörið kl. 12 á hádegi að Íslenskum tíma og stendur til í það minnsta 8.
Tilvalið fyrir þá sem vilja dansa "innanhúss" nú eða gera erobikk æfingar.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2020 | 12:42
Sálfræði- og vísindahliðin á brauðbakstri
Út um allan heim er verið að baka í heimahúsum, það er eiginlega fordæmalaust :-)
Gerskortur er víða. Eftirspurn eftir "súrdeigsmömmum" hefur einnig aukist. Hveiti selst sem aldrei fyrr. (þar sem sykur virðist ekki seljast jafn mikið og hveiti má draga þá ályktun að fólki ætli frekar að baka en brugga :-)
Og vísindamenn segja að á erfiðum tímum, sæki fólk í einfalda hluti sem láta okkur líða betur og styrki trú okkar á því að við getum séð um okkur sjálf.
Fátt er eins vel til þess fallið og vatn, hveiti,ger, og salt, sem myndar brauð og er ódýrt og ilmandi, þegar það kemur út úr ofninum (eldinum).
Að borða kolvetnaríkan mat (carbohydrates) eins og brauð, örvar insulin, sem hækkar upptöku heilans af miklvægri aminosýru, Tryptophan, segir Harvey Anderson, prófessor í næringarfræði við háskólann í Toronto.
Aukið Tryptophan í heilanum eykur framleiðslu á á Serotonin, sem róar, og hjálpar að ná góðum svefni á stresstímum.
Að sjá fjölskyldunni fyrir heitum mat er partur af frumhvötum okkar og hjálpar til að finna fyrir öryggi, og að læra eittvað nýtt (ef bakstur hefur ekki verið algengur) vekur upp vellíðan.
Á erfíðum og streitufullum tímum eykst þörfin fyrir slíkar tilfinningar.
Að búa til mat "með hjartanu og höndunum" og sjá árangurinn er verðlaun í sjálfu sér á þessum óvissutímum.
Það er rétt að taka fram að þessi texti (eða þær rannsóknir sem hann byggir á) er ekki minn eigin, ég er ekki þetta vísindalegur, né hef ég lagst í þessar rannsóknir. Hann er byggður á þessari grein í The Globe And Mail, sem ég naut að lesa.
Sjálfur baka ég pizzur (alla leið, vatn, hveiti, ger og salt) og hamborgarabrauð. Ég hef ekki hætt mér mikið lengra á þessari braut.
Baka einstaka sinnum "Spænskt sveitabrauð", en það tekur óþægilega langan tíma.
Fundu þurrger í 500 g pakkningum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.4.2020 | 12:21
Bocelli streymir á Páskadag
Það hafa margir gaman af Andrea Bocelli (ég er reyndar ekki einn af þeim, en svo margir sem ég þekki eru aðdáendur, að ég ákvað að pósta þessu hér). Eins og margir listamenn hefur hann ákveðið að streyma tónlist sinni til áhorfenda.
Tónleikar hans verða á Páskadag, að ég held kl. 17:00 að Íslenskum tíma.
Tónleikarnir verða haldnir án áhorfenda í Duomo dómkirkjunni í Milano, en streymt beint á persónulegri YouTube rás Bocelli. Eða þá hér.
Annars hef ég rekist á svo mikið af góðu efni sem er streymt á netinu undanfarið, að ég hef langt frá því komist yfir það.
Pósta ef til vill fleiru fljótlega.
Tónleikum Andrea Bocelli frestað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er óvenjulegt ástand.
Viðbrögðin eru mismunandi.
Kanada hefur ekki verið þekkt fyrir mikið frjálslyndi í áfengismálum, en það hefur í gegnum tíðina verið misjafnt eftir fylkjum (héruðum) og jafnvel eftir sveitarfélögum. Því þar eins og í mörgum öðrum málum, eru það fylkin sem hafa valdið.
En það var t.d. bannað að einstaklingar flyttu áfengi á milli fylkja og þa bann er ekki alveg horfið. Þó er búið að undirbyggja breytingar í þá átt en fylkin eru sum hver enn eitthvað draga fætur í því máli.
Sölufyrirkomulag er mismunandi eftir fylkjum sem og skattlagning.
En nú hafa mörg fylki Kanada breytt reglum sínum um áfengissölu og leyfa veitingastöðum að senda heim áfengi.
Rétt eins og í öðru eru reglurnar eitthvað mismunandi eftir fylkjum. Þannig hafa British Columbia, Ontario, Nova Scotia, Manitoba, Saskatchewan, Alberta og Quebec, slakað á reglum leyfa heimsendingu á áfengi.
Eins og í mörgu öðru er frjálsræðið mest í Alberta, þar sem ekki er skilyrði að keyptur sé matur.
Nova Scotia setur það hins vegar sem skilyrði að verðmæti vínpöntunar sé ekki meira en 3fallt það sem maturinn kostar.
Einhver fylki er með skilyrði um að verðið á víninu verði það sama og á vínlista veitingastaðarins.
Einhverjir er sagðir hafa í huga að bjóða upp á "happy hour" í heimsendingu.
Hér má lesa frétt The Globe And Mail.
Hér er frétt National Post um breytingarnar í Ontario.
8.4.2020 | 18:38
Er hlífðarbúnaði frá Kína hreint ekki treystandi?
Ég bloggaði fyrir nokkru um hvernig hlífðargrímur sem keyptar höfðu verið til Hollands frá Kína voru dæmdar ónothæfar.
Nú hafa Finnar lent í svipuðu máli. Eitthvað í kringum 2. milljónir andlitsgríma sem komu til Finnlands frá Kína, er ekki af nægilegum gæðum fyrir sjúkrahús.
Finnar telja þó að hægt verði að nota grímurnar við minna krefjandi aðstæður s.s. á dvalarheimilum.
Þetta hlýtur að vekja upp spurningar með gæða staðla sem framfylgt er við framleiðslu og hvernig staðið sé að slíkum viðskiptum.
Nú gerist allt hratt, en það má ekki leiða til þess að gæði búnaðar standist ekki kröfur.
Þetta hlýtur að verða einn af þeim þáttum sem verður tekinn til endurskoðunar víða um lönd þegar faraldurinn er yfirstaðinn.
Það hljóta að koma upp kröfur um styttri aðfangaleið og betra gæðaeftirlit.
Það hlýtur að koma upp efi um getu Kínverska framleiðenda til að standa undir þeim kröfum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.4.2020 kl. 04:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)