Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2020
20.4.2020 | 06:23
Trump er "besti vinur" Kína og lúffaði fyrir þeim
Það er oft rætt um að Bandarísk stjórnmál séu ekki rekin á mjög háu plani oft á tíðum og má það nokkuð til sanns vegar færa.
Það eru sömuleiðis margir sem spá því að komandi kosningabarátta (sem er rétt að hefjast) eigi eftir að ná nýjum hæðum/lægðum hvað varðar "skítkast", rangfærslur og þar fram eftir götunum.
Upp á síðkastið hefur mátt heyra nokkra gagnrýni á Joe Biden í þá átt að hann "húki bara heima í kjallaranum" og lítið heyrist í honum á þessum miklu hættutímum í sögu þess ríkis sem hann sækist eftir að leiða.
Eitthvað er að lifna yfir honum og þetta myndband/auglýsing var birt á síðasta laugardag.
Þar ræðst Biden harkalega á Trump, eins og fæstum ætti að koma á óvart. En ég verð að viðurkenna að hann kemur úr átt sem á sá ekki fyrir og kom mér skemmtilega á óvart.
En það er ljóst að baráttan verður hörð og óvægin og ef þetta myndband gefur tóninn, gæti Kína verið í stærra hlutverki en þeir kæra sig um.
En sjón er sögu ríkari.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.4.2020 | 17:48
Hugsanlegt að "bóluefni" gegn Kórónaveirunni verði tilbúið í haust?
Mál málanna þessar vikurnar er auðvitað Kórónavírusinn og síðan vangaveltur um hvenær bóluefni gætu, hugsanlega, kannski, ef til vill orðið tilbúið.
Hvenær það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá, er að sjálfsögðu rétta svarið við slíkum spurningum.
En við vitum að gott fólk vinnur baki brotnu út um allan heim og leitar að lausninni og sjálfboðaliðar hér og þar eru sprautaðir í tilraunaskyni.
Við öll getum verið þakklát bæði vísindafólkinu og sjálfboðaliðunum.
En þessi frétt Bloomberg frá því í gær, vakti athygli mína og ef til örlittla bjartsýni. En bjartsýni er mikils virði á þessum "síðustu og verstu".
Í fréttinni segir m.a.:
"A coronavirus vaccine trial by University of Oxford researchers aims to get efficacy results by September, and manufacturing is already underway.
Það hefur all nokkuð fjallað um alls kyns rangfærslur um það sem geti hjálpað einstaklingum í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir að vera "krýndur".
Flestar ef ekki allar eiga það sameiginlegt að koma að engu læknisfræðilegu gagni. En það þýðir ekki að við eigum að hundsa þær og svo kemur "sálfræðifaktorinn" líka inn í.
Það er t.d. nokkuð ljóst að 40% alkóhól er ekki nógu sterkt til þess að drepa veiruna.
En varla getur það skaðað að skola hálsinn með góðu koníaki eða viskí eftir vikulega búðarferð. Ef það hjálpar ekki situr í það minnsta eftir gott bragð og ánægjuleg tilfinning.
Það tryggir ekki neitt að borða hvítlauk, en margir vilja þó halda því fram að það hjálpi ónæmiskerfinu.
En ef þú ert einn í samkomubanni (eins og ég), eða þeir sem eru með þér eru sömuleiðis til í hvítlaukinn, hverju hefurðu að tapa? Er það ekki týpísk win/hugsanlegt win staða?
Að drekka sítrónusafa gerir þig ekki ónæma/n fyrir "Kórónunni", en ef þú ert hvort sem er að fá þér G&T, eða smá vodka, þá gerir það ekkert nema gott að setja sítrónubát út í.
Ekki hika við það.
Reyndar er hvorki gin né vodki nauðsynlegt. Sódavatn með sítrónu er klassadrykkur.
Það sama má segja um marga ávexti og ber. Þeir koma ekki til með að hindra Kórónuveiruna, en þeir eru stútfullir af vítamínum og alls kyns öðru gumsi sem munu ekki gera þér neitt illt.
Það hefur líka verið sagt að gulrætur séu góðar í baráttunni við "Kórónuna". Ekkert bendir til þess, en ef þú ert sísvangur í samkomubanni, þá er hægt að borða margt verra.
Eina það sem þarf að hafa í huga að ef þú borðar mikið af t.d gulrótum eða sætum kartöflum, er hugsanlegt að á menn komi örlítið gulur/appelsínugulur blær. Slíkir einstaklingar njóta ekki mikilla vinsælda þessa dagana. Þetta er því varasamt fyrir ljóshærða.
Margir hafa hafa talað um hunang og t.d. engifer. Það er ekkert sem bendir til þess að þetta komi í veg fyrir að þú smitist af vírus, eða lækni þig.
En rétt hlutföll af hunangi, ferskum engifer, sítrónusafa og heitu vatni, hafa ekki eingöngu alltaf hjálpað mér til að líða betur þegar ég hef verið veikur, heldur bragðast (að mínu mati) konunglega.
En svo allrar sanngirni sé gætt, hafa Vaktaseríurnar og kvikmyndin Bjarnfreðarson rétt eins og hunang/engifer/sítróna, látið mér líða betur í veikindum. Það má enda segja að ég horfi á þær flest ár, akkúrat þegar einhver leiðinda flensa nær tökum á mér í einhverja daga.
Ég er búinn að horfa á allar Vaktirnar, plús Bjarnfreðarson á þessu ári(gerði það um miðjan mars). Hrein snilld.
En líklega hafa þær engan forvarnar- eða lækningamátt gegn Kórónavírusnum. Mér er þó ekki kunnungt um hvort að það hafi verið rannsakað.
En hláturinn er sagður lengja lífið, ég er næsta viss um að gleðin gerir það líka.
Grín og glens | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2020 | 16:09
Hér hagar Trump sér eins og forseti 50 ríkja á að gera
Ég gladdist við það að lesa þetta. Trump ákveður að sætta sig við að ákvörðunin um afléttingu "hafta" sé í höndum ríkisstjóra hvers ríkis. Hann gefur út punkta, sem er ágætt, slík forysta af hálfu alríkisins er ágæt.
En það er ljóst hvar valdið liggur. Rétt eins og heilbrigðismálin eru á höndum hvers ríkis, þá fer best á því að ákvarðanir um aðgerðir séu í höndum ríkjanna.
Ástandið er enda mjög misjafnt á milli ríkja, eins og viðbúið er. Það er bæði líklegt og óskandi að ríkin sammælist við sína næstu nágranna hvernig verður staðið að málum og samvinna ríki.
Alríkið á svo að styðja að aðstoða ríkin eftir þörfum og getu.
Hver sá, eða hverjir þeir sem hafa fengið Trump til að fara þessa leið er nauðsynlegt að fái fullt starf í Hvíta húsinu, ef þeir hafa það ekki nú þegar.
Hann er í þörf fyrir PR/diplómasíu ráðgjöf af "dýrari sortinni". (Ég skrifa ef til vill meira um það fljótlega).
Ef til vill spilar inn í að ég hef ekki mikla trú á því að stór hluti stuðningsmanna hans hafi mikinn áhuga á því að heyra mikið um að alríkið hafi öll völd á hendi sér gagnvart ríkjunum sem þeir búa í.
Þeir vilja ekki sjá völdin færast til "fensins" í Washington borg.
Ákvörðunin í höndum ríkisstjóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.4.2020 | 15:24
Að búa þar sem sólin ekki skín
Ég hef nú áður skrifað hér um staðarnöfn í Eistlandi og hvernig fjölskyldan gerir grín að mismunandi merkingu orða í þeim tungumálum sem við notum. Það var í tengslum við frétt hér á mbl.is, um kappleik á milli Tapa og Viljandi.
En ef menn vilja búa "þar sem sólin ekki skín", er tilvalið að búa í litla þorpinu Rassi, sem er einmitt ekki nema steinsnar frá Viljandi.
Í Rassi búa eitthvað í kringum 30 einstaklingar og póstnúmerið endar á 007 (að vísu með 72 fyrir framan).
En eftir því sem ég kemst næst er þó framboð af fasteignum til sölu lítið í Rassi.
Aulahúmor | Breytt s.d. kl. 15:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2020 | 14:25
Diskó fyrir allan peninginn - allan daginn
Það er alltaf eitthvað að gerast í netheimum til að stytta fólki stundirnar. Nú er ég að hlusta á "Virtual Festival", frá Glitterbox hljómplötu- og skemmtifyrirtækinu.
Byrjaði fyrir rétt rúmum klukkutíma, og heldur áfram allan daginn allt til 9 í kvöld að Íslenskum tíma (ef ég hef skilið þetta rétt.
DJ-arnir senda út heiman frá sér, þegar þetta er skrifað hefur Melvo Baptiste lokið sínu og Bob Sinclair er að spila.
Seinna verða Mousse T, Purple Disco Machine, Melon Bomb, Natasha Diggs og hinn eini sanni Todd Terry. Einnig mun verða sýnt "upptekið" efni frá Dimitri from Paris.
Kathy Sledge mun svo eftir því sem mér skilst koma fram í "beinni"
Full þörf fyrir gott "húsdiskó" á föstudegi. Útsendinguna má finna á YouTube og víðar.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2020 | 04:54
Bera stjórnmálamenn enga ábyrgð í þessu máli?
Þetta þykir mér býsna merkileg frétt, þó að hér á mbl.is sé hún stutt og ekki innihaldsrík.
En á Visi.is, fann ég meiri upplýsingar.
Þar kemur fram m.a.:
"Ég var kallaður á fund formanns [Hildu Jönu Gísladóttur] og varaformanns [Kristjáns Þórs Magnússonar] Eyþings og ranglega sakaður um kynferðislega áreitni gagnvart samstarfskonu, að því að mér virðist í þeim eina tilgangi að bola mér úr starfi á sem stystum tíma, segir Pétur Þór í samtali við blaðið.
Pétur Þór tók trúnaðarmann með sér á umræddan fund, þar sem ásakanirnar komu fram og honum gefinn kostur á starfslokasamningi , eða þá fá formlega áminningu og í kjölfarið vera sagt upp."
"Pétur Þór segir að lögmaður sinn hafi hins vegar svo fengið bréf sem samstarfskonan hafi sent stjórn í hendurnar og að þar hafi ekkert komið fram um kynferðislega áreitni. Stjórnarmenn Eyþings hafi svo reynt að þræta fyrir að hafa komið með ásakanirnar og hafi frásögn Péturs verið staðfest í vitnaleiðslum fyrir dómi.
Hann segir að vissulega hafi komið upp ágreiningur milli hans og umræddrar samstarfskonu en að hann hafi talið það mál að baki. Guðmundur Baldvin Guðmundsson, fyrrverandi formaður Eyþings, hafi hins vegar beðið konuna um að skrifa stjórninni bréf um samstarfsörðugleika við Pétur þannig að stjórnin hefði eitthvað í höndunum til að koma honum frá."
Í fréttum er áætlað að heildarkostnaður sveitarfélaganna af ólögmætri uppsögn verði allt að 40 milljónum.
Mér finnst stórmerkilegt ef að þeir stjórnmálamenn sem standa svona að málum þurfa ekki að svara fyrir sig.
Að sveitastjórnarfólk verði uppvíst að því að ásaka starfsmann um að kynferðislega áreitni gegn samstarfsfólki, án þess að hafa nokkuð í höndunum er forkastanlegt.
Sú hegðun sveitarstjórnarfólks er sögð hafa verið staðfest í dómsal.
Svo gripið sé til ofnotaðs frasa, þá hlýtur sveitastjórnarfólkið að þurfa að "íhuga stöðu sína".
P.S. Bæti hér við 17. apríl, stuttu fyrir klukkan 7. að kvöldi, frétt frá RUV, þar sem sveitastjórnarmenn bera af sér sakir og vísa til yfirlýsingar sinnar.
Það er hins vegar umhugsunarvert að farið hafi verið fram á að þetta hafi verið fært í trúnaðarbækur viðkomandi sveitarstjórna og að viðkomandi sveitastjórnarmenn færist undan viðtali við fjölmiðla. Alla jafna eru þeir ekki fjölmiðlafælnir.
Uppsögn kostaði á fjórða tug milljóna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.4.2020 | 03:02
"Ruslpóstarar" fylgjast með tíðarandanum
Sem betur fer fæ ég ekki of mikið magn af ruslpósti, en alltaf er nú eitthvað. Það eru meiri líkur til þess, virðist vera, að vinna í happdrættum sem ég hef ekki keypt miða í (aldrei vinn ég í þeim sem ég kaupi miða í), einstaklingar sem ég hef aldrei hitt, en bera sama föðurnafn og ég hafa og arfleitt mig að háum upphæðum.
Það ber líka einstaka sinnum við að ég fái póst frá konum sem ég hef aldrei hitt og hafa hrifist af mér, og merkilegt nokk, virðist það algengara en á meðal kvenna sem ég hef hitt.
Svo hafa auðvitað borist tilboð um að lagfæra líkamsparta og annað slíkt.
En í dag barst mér fyrsti pósturinn þar sem mér er boðið að verða umboðs og dreifingaraðili í Evrópu, fyrir fyrirtæki sem framleiðir andlitsgrímur og annan hlífðarbúnað.
Það er "bransinn" sem allir vilja vera í núna.
Aulahúmor | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2020 | 14:29
Hvernig "símarnir ferðast" - myndbönd
Það er hreint ótrúlegt hvað finna má á netinu nú til dags. Tækninni fleygir fram og hún er bæði heillandi og ógnandi.
Nú þegar "faraldsfræði" er tómstundagaman þó nokkurs hluta jarðarbúa, er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvernig "fólksflæði" er háttað.
Það sýnir ennfremur að stórar samkomur geta haft gríðarleg áhrif og þátttakendur dreifast víða á örskommum tíma.
Í Bandaríkjunum hefur mikið verið rætt um hugsanleg áhrif viðburða á við "Mardi Gras" og "Spring Break" við útbreiðslu Kórónavírussins.
Það komu líka upp deilur í Bandaríkjunum hvort að rétt væri að loka "innri" landamærum ríkja, t.d. hvort að rétt væri að "einangra" New York, New Jersey og Connecticut ríki.
Ég rakst á þessi myndbönd frá fyrirtækinu Tectonix GEO .
Þau sýna hvernig farsímar sem staðsettir eru á einum stað (s.s. í strandpartýi í Florida eða New York borg) dreifast síðan um Bandaríkin og síðan heiminn.
Þessir símar eru raktir nafnlaust, en vissulega er tæknin til staðar að tengja þá við nöfn, alla vegna flesta þeirra.
Það þarf bara að hafa rétta "aðganginn" og "tengja". Ef eftirlitsmyndavél er svo staðsett þar sem síminn þinn er staðsettur, má með "andlitsgreiningarbúnaði" og símum þeirra sem er í nágrenninu sjá hverjir þeir eru.
En þetta sýnir hvers tæknin er megnug nú á dögum en sömuleiðis hversu mikla erfiðleika "fólksflæði" getur skapað á faraldstímum.
En líka möguleikana til að rekja ferðir einstaklinga, hvort sem er á faraldstímum eður ei.
15.4.2020 | 06:45
Veiran, stjórnlyndið og eftirlit þess
Það hefur eins og eðlilegt er mikið verið rætt um kórónuveiruna á undanförnum vikum, frá ýmsum sjónarmiðum.
Eins og oftast sýnist sitt hverjum þegar rætt er um viðbrögð við sjúkdómnum og hvaða viðbrögð "séu hin einu réttu". Hvaða ríki hafi staðið sig vel og hvort að ekki ætti að taka þau sér til fyrirmyndar.
Eitt af þeim ríkjum sem oft hafa verið nefnd sem fyrirmynd er Suður Kórea.
Það má til sanns vegar færa að frammistaða þeirra er með ágætum. Þegar þetta er skrifað eru smit tilfelli rétt ríflega 10.500, og dauðsföll aðeins 235.
Rétt er að hafa í huga að í Suður Kóreu búa ríflega 51. milljón einstaklinga. Eftir að hafa lent í vandræðum með "endurfæddan Jesú" í upphafi, virðist baráttan hafa gengið vel.
En ef við segjum að aðrar þjóðir ættu að taka sér þetta til fyrirmyndar, hvað þýðir það?
Þeir hafa verið mjög duglegir að skima, en hafa ekki gert það af handahófi. Skimunin hefur verið hnitmiðuð, líklega að stórum hluta byggð á smitrakningum. Síðustu tölur sem ég hef séð eru rúmlega 527.000 skimanir. Það er ekki langt frá því að vera 1% þjóðarinnar, en Íslendingar eru í kringum 10%.
Hvernig fór Suður Kórea að því að standa sig vel í smit rakningum? Það er ekki auðvelt hjá svo fjölmennri þjóð.
Þar kemur eftirlitið til staðar.
"The aim is to work out where known patients have been and test anyone who might have come into contact with them. There are three main ways people are tracked.
First, credit and debit cards. South Korea has the highest proportion of cashless transactions in the world. By tracking transactions, its possible to draw a card users movements on the map.
Second, mobile phones can be used for the same purpose. In 2019, South Korea had one of the worlds highest phone ownership rates (there are more phones than people).
Phone locations are automatically recorded with complete accuracy because devices are connected to between one and three transceivers at any time. And there are approximately 860,000 4G and 5G transceivers densely covering the whole country.
Crucially, phone companies require all customers to provide their real names and national registry numbers. This means its possible to track nearly everyone by following the location of their phones.
Finally, CCTV cameras also enable authorities to identify people who have been in contact with COVID-19 patients. In 2014, South Korean cities had over 8 million CCTV cameras, or one camera per 6.3 people. In 2010, everyone was captured an average of 83.1 times per day and every nine seconds while travelling.
These figures are likely to be much higher today. Considering the physical size of the country, it is safe to say South Korea has one of the highest densities of surveillance technology in the world."
Er það þetta sem við eigum að læra af Suður Kóreu og taka til fyrirmyndar? Yrði þetta samfélagið sem væri vert að stefna að þegar faraldrinum líkur, bara til að vera viðbúin?
Gæti auðvitað gagnast vel gegn alls kyns brotastarfemi, allt niður í reiðhjólaþjófnaði. Og einhver störf skapast við að horfa á skjáina og rekja ferðir þegar slíkar beiðnir koma.
Jákvæðari og til eftirbreytni þykir mér sú frétt að nefnd í Eistneska þinginu hafi fellt út tillögu ríkisstjórnar um að heimilt yrði að tilkynna nöfn smitaðra einstaklinga til lögreglu.
En Eistlendingum er mörgum í fersku minni hvernig alræði og lögreglueftirlit virkar.
"Chancellor of Justice" þeirra Eistlendinga (ekki auðvelt að þýða þetta, en helsta verkefni er að standa vörð um stjórnarskrá Eistlands og réttindi íbúanna), Ülle Madise, hafði varað við þessu ákvæði og það stangaðist á við stjórnarskrá.
Áður hafði Ivo Pilving hæstaréttardómari í Eistlandi varað við því að neyðarlög án tímatakmarkana væru í andstöðu við stjórnarskrá Eistlands.
Hann taldi að andi stjórnarskrár landsins væri að viðbrögð við neyðarástandi mætti ekki valda meira tjóni en það sem brugðist væri við.
Slíkt er í flestum tilfellum erfitt að meta og má líta á frá mörgum sjónarhornum.
En það er vert að hafa í huga að ríkisstjórn Eistlands tók það skref að upplýsa Evrópuráðið um að mannréttindi í landinu yrðu skert, í samræmi við 15. grein Mannréttindasáttmála Evrópu. Sú tilkynning var send 20. mars og voru stjórnvöld gagnrýnd fyrir að skýra ekki frá því fyrr en viku síðar.
Af biturri reynslu standa Eistlendingar vörð um mannréttindi sín og fylgjast grannt með stjórnvöldum.
Skyldu öll aðildarríkin hafa sent inn tilkynningu?
En merkilegt nokk þá hefur Mannréttindadómstóllinn nýverið gefið út endurskoðaðar leiðbeiningar um túlkun á grein 15. Þær eru síðan 31. desember 2019 og má finna hér.
En þetta er eitt af mörgum atriðum sem þörf er á að ræða á næstu mánuðum og er reyndar víða byrjað að ræða.
Hvað má ganga langt?
Hvar drögum við mörkin?
Hvernig á að "reikna" þetta allt út og hver á að gera það?
Eins oft áður mun sitt sýnast hverjum.
Ég hef stundum orðað það á þann veg að alltof margir séu ekkert á móti "sovéti". Þeir séu bara á móti "þessu sovéti". Þeir vilja "sovét" eftir eigin höfði.
En vonandi hef ég rangt fyrri mér eins og oft áður.
P.S. Því má bæta við til gamans að Suður Kóreubúar ganga til kosninga í dag og er eðlilega mikill viðbúnaður. Frétt BBC má lesa hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)